Wednesday, December 9, 2009

IceSave-atkvæðagreiðslan

Gott hjá Ögmundi og Lilju að greiða IceSave-ánauð ekki atkvæði sitt. Ég gerði mér ekki háar vonir um þessa ríkisstjórn í upphafi, en frammistaða hennar hefur jafnvel verið mér vonbrigði. Ekki bætir úr skák að stjórnarandstaðan er síst skárri, stundar klassíska eigingjarna tækifærismennsku undir skrumlegu yfirskini. Það besta í stöðunni er að þetta ástand skilur hafrana frá sauðunum, við fáum að sjá hvernig Samfylking og Vinstri-græn hegða sér þegar þau eru við völd. Vonarglætan er í Vinstri-grænum, í vinstriarminum sem hefur ekki látið flokkseigendafélagið kúga sig algerlega. Enginn er fullkominn, en það kemur betur og betur í ljós hvað sumir eru ófullkomnir. Það verður fróðlegt að fylgjast með næsta prófkjöri hjá VG. Það er ýmislegt óuppgert.

Engin uppbygging í Gaza

Jón Karl Stefánsson skrifar á Eggina: Engin uppbygging í Gaza

1. verðlaun

Í gær, mánudag, vann ég mitt fyrsta afrek í skák. Eða, réttara sagt, ég ásamt tveimur flinkum skákmönnum.

Thursday, December 3, 2009

Verkalýðshreyfingin og kreppan

Rauður vettvangur heldur málfund í kvöld, um stöðu og hlutverk verkalýðshreyfingarinnar í kreppunni. Fundurinn verður í Friðarhúsi (Njálsgötu 87) og hefst kl. 20:00. Anna Atladóttir, aðaltrúnaðarmaður SFR á Landspítala, hefur bæst á mælendaskrá, til viðbótar við Bjarka Steingrímsson varaformann VR. Vilhjálmur Birgisson formaður VLFA hefur boðað forföll. Vonumst til að sjá ykkur,

Tuesday, December 1, 2009

Lesið þetta:

Yfirlýsing Heimavarnarliðsins
__ __ __ __ __ __ __ __

VV: Líttu vel út – og berstu fyrir frelsi
ÞÞ: Ríkisrekin fjárkúgun

"fyrr en IceSave er frá"

Það er í einu orði sagt fáránlegt að heyra ríkisstjórnina tala um að IceSave-málinu ljúki. Það eru þeir sjálfir sem berjast gegn því að því ljúki. Því lýkur ekki, það er ekki frá, fyrr en það er annað hvort komið á hreint að þessar skuldir verða aldrei greiddar, ellegar þá að þær verða greiddar að fullu og landið búið að jafna sig eftir þær. Þar sem hið fyrra er væntanlega tilfellið -- að þær verða aldrei greiddar -- þá er hinn möguleikinn bara bull. Ef maður seilist nógu langt til að kalla eitthvert greiðsluplan "raunhæft", þá erum við í öllu falli að tala um áratugi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Íslenskir skattborgarar verða að koma sér undan IceSave-ánauð, með góðu eða illu. Ef það er ekki hægt að koma vitinu fyrir ríkisstjórnina, þá stendur valið milli þess að gera byltingu eða flýja land í tugþúsundatali. Ég hygg að margir séu reiðubúnir til að leggja ýmislegt á sig áður en þeir eru hraktir úr landi vegna undirlægjuháttar við fjármálaauðvaldið.

Monday, November 30, 2009

Áraun vegna kreppunnar

Í kreppunni eru ærin verkefni fyrir framsækin þjóðfélagsöfl, og þau sjá um það sjálf að skipta sér í hafra og sauði, eftir því hvernig til tekst. Frammistaða ríkisstjórnarinnar hefur valdið vonbrigðum, jafnvel mönnum eins og mér sem gerðu sér ekki nema jarðbundnar væntingar í byrjun. Aðgerðir verkalýðshreyfingarinnar láta líka á sér standa. Ætli erfiðleikarnir megni að hreinsa til í henni?

Í næstu lotu byltingarinnar þarf ný og skýr strategísk og taktísk markmið. Hvorki og mörg né of fá. Hér eru nokkur sem koma sterk inn til að byrja með: Burt með Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, burt með forsetann, burt með forystu Alþýðusambandsins, burt með verðtrygginguna. Fleiri uppástungur, einhver?

Hlutverk verkalýðshreyfingarinnar í kreppunni

Áhugasamir athugið:

Hlutverk verkalýðshreyfingarinnar í kreppunni

Opinn málfundur hjá Rauðum vettvangi
fimmtudaginn 3. desember kl. 20
Friðarhúsi, Njálsgötu 87

Framsögur flytja:
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Bjarki Steingrímsson, varaformaður VR.

Hvert stefnir verkalýðshreyfingin og hvernig ætti hún að bregðast við
kreppunni?
Hvernig geta félagsmenn verkalýðshreyfingarinnar beitt henni til að
vinna bug á kreppunni?

Allir eru velkomnir.

Stjórn Rauðs vettvangs.

Friday, November 27, 2009

Hliðar-ríki í Nepal?

Nepalskir maóistar (sem núna kalla sig Sameinaðan kommúnistaflokk Nepals, eftir sameininguna við Kommúnistaflokk Nepals -- sameinaða marx-lenínista) hafa átt við ramman reip að draga þar sem borgaralegu stjórnmálaflokkarnir eru annars vegar. Forsetinn hefur hindrað þá í starfi, Prachanda sagt af sér forsætisráðherraembættinu og allt verið í stáli. Þeir hafa sniðgengið borgaralega ríkið og boðað nýja andspyrnu. Nú eru þeir að undirbúa stofnun "ríkis við hliðina á ríkinu", þrettán sjálfstæð umdæmi sem þeir munu stjórna. Það verður fróðlegt að fylgjast með því.

Gull með himinskautum

Spár bjartsýnis- og óskhyggjumanna um að kreppunni sé að ljúka eru rugl. Gengið á gulli er glöggur mælikvarði á horfurnar í hagkerfi heimsins. Það fór hæst í 1192 dali únsan í fyrradag. Það var undir þúsund dölum fyrir tveim mánuðum. Þurfið þér frekari vitnanna við?

Thursday, November 26, 2009

Þegar ég studdi hryðjuverkastarfsemi

Á Egginni er grein mín úr Dagfara, þar sem ég segi frá því þegar ég studdi hryðjuverkastarfsemi í Danmörku í hittifyrra. Eða, gerði það a.m.k. að mati hæstaréttar Danmerkur. Sjá: Líttu vel út – og berstu fyrir frelsi: Af Fighters+Lovers og baráttu þeirra

Thursday, November 19, 2009

Þrír talibanar?

Á Vísi er fréttin, skrifuð af Atla Steini Guðmundssyni, sem ber fyrirsögnina "Ómönnuð árásarvél felldi þrjá talíbana". Í fréttinni kemur fram að þessi vél "skaut flugskeyti að húsi ... og segjast sjónarvottar hafa séð þrjú lík borin út úr húsinu skömmu síðar." Það var nefnilega það. Greinilega þrír "talibanar".

Fundur um stofnun Heimavarnarliðs

Fimmtudagskvöld 19. nóvember kemur heldur Rauður vettvangur félagsfund. Aðalumræðuefnið verður: Stofnun Heimavarnarliðs: Hvað eða hverja þarf að verja og hvernig á að skipuleggja þær varnir? Héðinn Björnsson verður fundarstjóri. Vonumst eftir góðri mætingu.
Staður: Friðarhús, Njálsgötu 87 (á horni Snorrabrautar)

Árni Páll í fyrradag

Stéttarfélagið mitt, SFR, varð 70 ára í fyrradag. Í ljósi þjóðfélagsástandsins þótti við hæfi að hafa hátíðahöldin látlaus. Árni Páll Árnason var hátíðarræðumaður á afmælis-trúnaðarmannafundi í fyrradag. Ég get ekki sagt að hann hafi heillað mig upp úr skónum. Eftir ræðu, sem samanstóð að miklu leyti af almennum sannindum, barlómi yfir skuldum og gorgeiri yfir því hvað ríkisstjórnin væri réttsýn, þá klykkti hann út með því að segjast hafa "reynt að stilla marxismanum í hóf". Það verður ekki annað sagt en það síðastnefnda hafi tekist ágætlega.

Eftir ræðuna voru fyrirspurnir. Ég reið á vaðið: Það er margt sem ég hef að athuga við störf ríkisstjórnarinnar, og flest af því á það sameiginlegt að vera með fingraför Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á því. Hvernir litist Árna Páli á að landstjóra sjóðsins á Íslandi yrði sagt að taka pokann sinn og það strax? Hann svaraði í löngu máli og fór út í alls konar smáatriði sem hann hefði ekki þurft. Efnislega var svarið hans samt bara: "Illa".

Monday, November 16, 2009

Haldið til haga

Því verður haldið til haga hvernig þingmenn VG greiða atkvæði um IceSave. Ég hef enn ekki séð hvers vegna það ætti að koma til greina að samþykkja ábyrgð á IceSave. Íslenska ríkinu væri nær að bjóða Bretum og Hollendingum samstarf við að koma fjárglæframönnum, og öðrum sem bera raunverulega ábyrgð, undir manna hendur, og að gera upp eignir þeirra erlendis.

Landspítali: Eitruð áform

Hvernig étur maður fíl? Einn bita í einu.
Hvernig kemur maður á frekari markaðsvæðingu á Íslandi? Eitt skref í einu.
Áætlunin um að lífeyrissjóðirnir fjármagni nýjan Landspítala er hættulegt skref í átt til frekari einkavæðingar í heilbrigðiskerfinu. Við skulum átta okkur á því að lífeyrissjóðirnir eru hluti af auðvaldinu. (Reyndar skrítið að það hafi ekki verið stungið upp á því ennþá, að hlutafélagavæða þá, en það er líklega bara tímaspursmál.) Ef rekstrarforminu er breytt, þá er sjálfri nálguninni breytt, sjálfri hugmyndafræðilegu undirstöðunni. Það, að ríkið leigi húsin af lífeyrissjóðunum, er af sama tagi og að það leigi þau af hverju öðru eignarhaldsfélagi. Eða að það kaupi einhverja aðra þjónustu af prívatauðvaldi, t.d. rekstur á skurðstofu eða nýrnadeild -- nú, eða ræstingar eða mötuneyti.

Þessi áætlun er í fullkominni harmóníu við díabólísk áform Alþjóðagjaldþrotasjóðsins fyrir Ísland. Það á að ryðja brautina fyrir því að aðrir aðiljar en ríkið annist heilsuvernd. Með öðrum orðum, að einkaaðilar veiti hæstbjóðendum fyrsta flokks þjónustu, en aðrir fái annars flokks þjónustu. Annars flokks þjónustu fyrir annars flokks fólk. Hver er yfirlýstur tilgangur þess að láta lífeyrissjóðina gera þetta? Jú, að ríkið safni ekki frekari skuldum. En sú della. Í fyrsta lagi: Ef ríkið skuldbindur sig til að leigja húsin til framtíðar, þannig að þau borgi sig upp á einhverjum áratugum og sjóðirnir eigi þau þá á endanum skuldlaus, þá er snyrtilegra að kötta burtu milliliðinn, láta ríkissjóð borga sömu upphæð á sama árabili, og ríkið eigi húsin þá sjálft á endanum og þurfi ekki að borga leigu. Munurinn er á skuldastöðu ríkissjóðs. Útgjöldin eru þau sömu. Með öðrum orðum er þetta bókhaldstrix, sem mjakar okkur nær einkavæðingu og fjær samneyslu. Vont plan.

Það er í sjálfu sér besta mál að nota lífeyrissjóðina í félagslega uppbyggilegar fjárfestingar, en þetta er hins vegar röng aðferð til þess. Rétta aðferðin er að setja lög sem skylda þá til að kaupa meira af ríkisskuldabréfum. Þannig kemst ríkissjóður í peningana sem geta annars vegar byggt húsin og hinsvegar tryggt áframhaldandi rekstur alls heilbrigðiskerfisins, þess vegna í gegn um alla kreppuna.

Heill þjóðfundur af frösum

Ég sagði einhvars staðar að það yrði fróðlegt að sjá hvað kæmi út úr þessum sk. þjóðfundi. Það sem er fróðlegast að sjá var það sem ég bjóst svosem við, sem er að það kom ekkert út úr honum. Ekkert nema frasar sem þýða ekki neitt. Jæja, það má svo sem segja eitthvað jákvætt um hvernig til hans var boðað og eitthvað þannig, en hvað svo? Hvað á að gera með það að "heiðarleiki" sé æðsta gildið? Kemur það einhverjum á óvart? Er niðurstaðan nokkur önnur en sú að flestir stjórnmálamenn hafi oftast rétt fyrir sér? Hvað er hægt að gera við margra metra langan lista af frösum sem sumir hverjir þýða ekki neitt, eru í mótsögn hverjir við aðra og hver getur túlkað eftir sínu höfði?

Sunday, November 15, 2009

IceSave, hótanir og blaður

Vísir greinir frá því að...

Alþingi hefur nú tvær vikur til afgreiða Icesave frumvarp ríkisstjórnarinnar ... Tíminn er naumur en Bretar og Hollendingar geta sagt samkomulaginu upp einhliða um næstu mánaðmót verði Alþingi ekki búið að afgreiða málið. Óvíst er hvaða afleiðingar það kann að hafa fyrir íslenskt efnahagslíf.
"Óvíst" -- nefnilega það. Getur einhver frætt mig um það, hvað er "worst case scenario" í þessu? Hvað er það versta sem getur gerst ef Alþingi fellir samninginn? Getur það orðið verra en að það samþykki hann? Að það samþykki fáránlegar ábyrgðir sem það mun aldrei geta staðið undir? Er ógnin kannski frá forsætisráðuneytinu? "Jóhanna Sigurðardóttir ... hefur lagt mikla áherslu á að frumvarpið nái fram að ganga [annars] gæti ríkisstjórnin einnig fallið." [Sama heimild.]

Hvað er þetta eiginlega? Heldur hún að þessar eilífu hótanir séu ennþá teknar alvarlega? Ég segi: Látið bara reyna á hvort þetta er blöff eða ekki. Látið hana sýna spilin. Ef Samfylkingin er svo áfram um að koma þjóðinni í skuldahlekki að hún sé tilbúin að fella ríkisstjórnina til þess, þá verði henni að góðu. Og gangi henni þá líka vel að finna samverkamenn til þess. Og kjósendur til að kjósa sig aftur.

"Nú er ekki tíminn til að breyta," hef ég heyrt sagt. Bull. Það er einmitt núna sem það er nauðsynlegt. "Vinstri menn eiga ekki að gagnrýna aðra vinstrimenn," hef ég heyrt sagt. Bull. Ef það er til pólitísk kategóría sem innifelur bæði Gylfa Arnbjörnsson, Einar Karl Haraldsson og sjálfan mig, þá er sú kategóría markleysa. Sá sem styður auðvaldsskipulagið fær gagnrýni frá þeim sem eru á móti auðvaldsskipulaginu. Er það ekki eðlilegt? Hvað er annars hægt að segja um samstarf við fáránlega hægri-Blairista-krata sem eru með Evrópusambandið á heilanum? Hvað er hægt að segja um það að kóa með þeim í ríkisstjórn? Hverjum datt í hug að kalla það "ábyrgð" og "raunsæi" að gera slíkt?

Í næstu byltingu

Síðasta uppreisn gerði kröfur sem hún náði fram, losnaði við ríkisstjórnina, fjármálaeftirlitið og seðlabankastjóra. Það var sætur sigur, en greinilegt að það þarf meira til að fá þetta þjóðfélag til að meika sens. Hér eru þrjár kröfur sem ég legg til að verði inni í kröfugerð næstu byltingar, sem ég reikna allt eins með að hefjist fljótlega:
  • Burt með Alþjóðagjaldeyrissjóðinn -- strax.
  • Leiðréttið höfuðstól húsnæðislána og afnemið verðtryggingu -- núna.
  • Burt með forystu Alþýðusambands Íslands -- núna strax.
Ég gæti bætt við listann, en þetta væri ágæt byrjun.

Kreppan ekki í rénun

Gullverðið hefur náð 1118,50 bandaríkjadölum á únsuna. Það er eins og barómeter á alþjóðahagkerfið. Kreppan er ekki í rénun, ef einhver trúði því.

Saturday, November 14, 2009

Þjóðfundur

Þótt væntingar mínar til Þjóðfundar séu jarðbundnar, þá verður nú samt fróðlegt að sjá hvort eitthvað markvert kemur út úr honum. Þótt ég hafi ekki fengið boð um að sitja hann, þá ákvað ég nú samt að leggja mitt af mörkum og fór í morgun og stóð fyrir framan Laugardalshöll við annan mann meðan flestir þátttakendurnir tíndust inn. Við vorum með sitthvort skiltið: "Höfnum hernaði" stóð á öðru og "Hernaður er andstæður grunngildum Íslendinga" á hinu. Flestir létu okkur afskiptalausa, sumirr kinkuðu vingjarnlega til okkar kolli, og nokkrir einstaklingar atyrtu okkur, á frekar lágstemmdum nótum. Það var nú skrítið. Ég meina, að það sé ennþá til fólk á Íslandi sem finnst hernaður vera sjálfsagt mál.
~~~ ~~~
Sumir héldu að við værum steingerfingar úr fortíðinni, við vorum t.d. stundum spurðir hvort þetta væri ekki tímaskekkja. Hvort hernaði á Íslandi hefði ekki lokið þegar ameríski herinn fór. Við bentum þeim þá á að þetta snerist ekkert bara um Ísland. Hvað með þátttöku Íslands í hernaði í Írak, Afganistan eða Kosovo? "Æjá, " sagði þá fólk. Æ já, Írak. Gleymdum því.

Monday, November 9, 2009

Að sniðganga Moggann

Ég hef sama og ekkert hróflað við Moggablogginu mínu frá því Davíð Oddsson var gerður að ritstjóra Moggans. Á sama tíma hef ég næstum ekkert lesið Moggann, og næstum ekkert opnað Mbl.is. Ég segi "næstum" vegna þess að ég hef alveg gert það í eitt og eitt skipti, en það er mér ekki sáluhjálparatriði. Það er fín tilbreyting að fá fréttirnar aðallega úr öðrum miðlum, þótt það sé nokkuð ólíkt líka. Hinir miðlarnir eru oftast ekki eins yfirgripsmiklir eða vandaðir. Já, og svo eru þeir víst allir pólitískir líka, hver á sinn hátt. Er Ari Edwald eitthvað betri en Davíð Oddsson? Er ekki bara betra að fjölmiðill sé hreinskilinn í sinni harðpólitísku stefnu og hagsmunagæslu? Ég meina, maður veit þó hvar maður hefur hann. Ætti maður kannski bara að lesa Moggann oftar? Er í öllu falli nokkur ástæða til að sniðganga síðuna þeirra?

Minnisblað ASÍ á Wikileaks

Á Wikileaks er minnisblað frá ASÍ um þátttöku samtakanna í samningu "lausna" á húsnæðisvanda heimilanna, sem eru hannaðar til að þjóna fjármagnseigendum. Meira að segja Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telur að það þurfi að skera skuldirnar niður um þriðjung!
Hvernig væri að hafa skuldarana með í ráðum? Hvað með "ekkert um okkur án okkar"?

Þjóðfundur

Það stendur til að halda "Þjóðfundur". Það virðist í fljótu bragði vera ágæt hugmynd og tímabær, og ég ætla ekki að vera með neina svartsýni svona fyrirfram. PR-lyktina sem maður finnur af texta á heimasíðunni verður maður bara að leiða hjá sér. Það verður samt fróðlegt að sjá útkomuna. Ég hnaut um eitt í spurningum og svörum, í #13 segir: "Þjóðfundurinn er ópólitískt ... verkefni". Ópólitískt? Er við miklu að búast af fundi sem ætlar að marka landinu nýja stefnu án þess að vera pólitískur? Ég vil ekki vera með úrtölur, en höfum við ekki fengið nóg af ópólitískum stjórnmálafundum?

Wednesday, November 4, 2009

Sósíalistar í VG ræða kjaramál í kvöld

Umræðuhópur sósíalista innan VG efnir til opins umræðufundar um verkalýðs- og kjaramál og stöðuna á vinnumarkaði miðvikudagskvöld 4. nóvember klukkan 20:00, Suðurgötu 3. Ræðumenn verða Ögmundur Jónasson alþingismaður og Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags á Húsavík.
Allir velkomnir.

Hreinn, Vaclav og Steingrímur

Hreini Loftssyni finnst að nánustu bandamenn sínir eigi að fá annan séns til að reka Bónus. Hverjum kemur það á óvart? Hverjum er ekki sama? Ef einhver vill vita hvað mér, óbreyttum heilbrigðisstarfsmanni, finnst, þá er það að þessi skoffín hafi fyrirgert öllu sínu í þessu landi og eigi bara að vera þakklát fyrir að hafa ekki verið gerð höfðinu styttri.
-- -- -- --
Vaclav Klaus virðist ætla að undirrita Lissabon-sáttmálann. Það eru að sönnu slæmar fréttir. (Sjá grein mína: Lissabon-bókunin: Hvað er nú það?)
-- -- -- --
Steingrímur J. segist bjartsýnn á farsælar lyktir IceSave. Ef IceSave lyktar farsællega í alvörunni, þá verður Steingrímur J. því miður ekki efstur á þakkarlistanum.

Monday, November 2, 2009

Engillinn og púkinn

Á annarri öxlinni á mér situr engill sem segir að allir eigi leiðréttingu orða sinna, að það eigi að gefa fólki annan séns ef það lærir af mistökum sínum og að meiru skipti að laga það sem hefur skemmst heldur en að hefna sín á skemmdarvörgum.
Á hinni öxlinni á mér situr púki sem segir að fólk eigi að uppskera eins og það sáir, fullorðið fólk eigi að hafa vit fyrir sér sjálft og það séu bara makleg málagjöld þegar glannar koma sér í klípu.

Ég býst við að þeir hafi báðir nokkuð til síns máls.

Norrænt bull

Undir stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur aldrei verið og mun aldrei verða byggt upp neitt "norrænt velferðarkerfi". Þetta er staðreynd. Eina velferðin sem kemst að hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er velferð auðvaldsins. Þetta eru hvorki ýkjur, grín né klisja. Ríkisstjórn sem starfar undir handarjaðri AGS er því annað hvort beinlínis að ljúga þegar hún talar um "norræna velferðarstjórn", eða þá að hana skortir alvarlega innsæi í aðstæður. Ég veit satt að segja ekki hvort er verra.

Eitt það sem ríkisstjórn Íslands á sameiginlegt með ríkisstjórnum Norðurlanda er að standa í niðurskurði á velferðarkerfinu. Er það kannski það sem er átt við, að gera eins í velferðarmálum og er í tísku á hinum Norðurlöndunum og skera niður?

Eða þýðir "norræn" velferðarstjórn kannski að velferðin sé frátekin fyrir norrænt fólk og ekki t.d. unga Íraka sem flýja hingað undan stríði sem íslenska ríkið studdi?

Annars finnst mér bjánalegt tal um að stjórnin hérna eigi að vera "norræn". Hvað annað ætti hún að vera? Suðræn kannski? Vísar þetta orð ekki til landfræðilegrar legu?

Baráttan gegn AGS

Pressan og fleiri vefir greina frá því að hópur Íslendinga óski eftir fundi með Strauss-Khan og krefji hann skýringa á stefnu AGS gagnvart Íslandi. Þetta er ágætt, alveg ágætt. Baráttan gegn Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er eitt allra mikilvægasta málið hér og nú. Franek Roswadowsky þarf að fara heim til sín með skófar á rassinum sem fyrst.

Að hugsa sér, það er til fólk sem heldur að þetta sé einhver hjálparstofnun, einhver allt-að-því góðgerðastofnun sem "hjálpar" löndum með "umbætur" og veiti þeim "heilbrigðisvottorð".

Traust á Íslandi eða traust á AGS?

Meirihluti Íslendinga vantreystir AGS, það er léttir að heyra það, en kemur kannski ekki mikið á óvart. Af hverju kemur ekki fram í fréttinni hvert viðhorf kjósenda VG til AGS er? Það væri fróðlegt að vita það. Það vekur athygli að Steingrímur J. segir "aðkomu sjóðsins hafa verið umdeilda og það sé varla nokkuð sem fólk óskar sér að þurfa að vera í samstarfi við aðila af því tagi sem AGS er." Það eru orð að sönnu, og Steingrímur mætti gjarnan breyta í samræmi við þessi orð, með því að hringja í Franek Roswadowsky í fyrramálið og segja honum að vera kominn úr landi fyrir hádegi, annars hafi hann verra af.

Það er stundum sagt að aðkoma AGS sé "heilbrigðisvottorð". Það er í besta falli umdeilanlegt orðalag. Hlutverk AGS er ekki að hjálpa aðildarríkum að koma undir sig fótunum á nýjan leik, heldur að hjálpa þeim að innheimta skuldir sínar. Þetta er innheimtustofnun, og gengur aðallega út á skilyrði um markaðs- og frjálshyggjuvæðingu -- einmitt það sem okkur vantar helst núna, ekki satt? Heilbrigðisvottorðið sem við fáum, sem skuldarar, er vottorð upp á að við erum með handrukkara sem er með þumalskrúfurnar á okkur og fylgir okkur hvert fótmál. Augljóslega má treysta slíkum skuldara, á sama hátt og maður treystir því að innilæstir fangar eða hlekkjaðir þrælar flýi ekki, eða kýr sem eru bundnar á bás og læstar inni í fjósi.

Það má treysta slíkum skuldara til þess að skera niður langt umfram sársaukamörk, markaðssetja ríkisfyrirtæki og auðlindir, opna landið fyrir erlendri fjárfestingu og standa dyggilega vörð um hagsmuni fjármálaauðvaldsins. Alþjóðlega fjármálaauðvaldsins, vel að merkja. Eða réttara sagt, þá má treysta AGS til þess að framfylgja þessari stefnu af hörku heilaþveginna bókstafstrúarmanna. Já, og það má líka treysta Gylfa Arnbjörnssyni til að styðja dyggilega við bakið á handrukkaranum!

Fyrsta, brýnasta og kannski mikilvægasta kosningaloforðið mitt, ef ég býð mig fram á næstunni, verður að láta AGS taka pokann sinn og það tafarlaust.

Gott hjá Lilju Mósesdóttur

Húrra fyrir Lilju Mósesdóttur! Hún er manneskja sem skilur hvað er í gangi og hvað er í húfi.

Friday, October 30, 2009

RÚV greinir frá því að tengsl séu milli næturvinnu og brjóstakrabba. Þessu þarf að halda til haga. Næturvaktastarfsfólk lifir að meðaltali mun skemur en fólk sem vinnur á daginn, þarna er kannski komin ein af ástæðunum fyrir því.

Af Gylfa Arnbjörnssyni og eineltinu

Gylfi þjónar auðnum enn,
eins og ljón í flagi.
Geri því skóna góðir menn
grenjar dóninn "æi".

Gylfi Arnbjörnsson leggur íslenska alþýðu í einelti

Gylfi Arnbjörnsson er einn versti verkalýðsleiðtogi á Vesturlöndum. Hann er gott dæmi um að það kann ekki góðri lukku að stýra að ráða „sérfræðing“ til þess að sjá um pólitík. Hann berst fyrir stóriðjuauðhringunum, fyrir fjármálaauðvaldinu, stendur á bremsunni í kjaramálum alþýðunnar, boðar að Evrópusambandið sé lausnin á vandamálum okkar og bítur höfuðið af skömminni með því að lýsa yfir stuðningi við svipu- og sultarólaráætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þegar hin fyrirsjáanlegu spjót réttmætrar gagnrýni standa svo á honum, hvað gerir hann þá? Jú: Fer í fórnarlambshlutverk og lætur eins og hann sé lagður í einelti.

Sú spurning vaknar óhjákvæmilega hvort Gylfi sé bara svona heimskur. Það er nú einu sinni gagnleg þumalputtaregla að ætla mönnum ekki illan ásetning þar sem heimska eða klaufaskapur duga sem útskýringar. En é get ekki séð að þetta verði skrifað á heimsku, eða a.m.k. ekki heimskuna eina. Hann er ekki heimskari en það að hann hefur lokið háskólaprófi í hagfræði og einhver hefur treyst honum til að vera first hagfræðingur ASÍ og svo forseti ASÍ. Ýmsir menn geta komist í slíkar stöður, en sjaldan heimskingjar.

Heyrt hef ég sagt að Gylfi Arnbjörnsson sé kirfilega flæktur í margs kyns brask persónulega. Ég ætla ekki að dylgja frekar um það, þar sem ég hef ekki nákvæmar heimildir til að vitna í, en spyr mig: Eru nokkrar reglur um að menn verði að gefa upp persónuleg hagsmunatengsl til þess að geta gegnt háttsettum trúnaðarstöðum innan ASÍ? Það gæti verið fróðlegt að sjá slíkt yfirlit, það gæti kannski skýrt ýmislegt.

Ef við strikum heimsku og klaufaskap út af listanum yfir mögulegar orsakir fyrir augljósri vanhæfni Gylfa, hvað stendur þá eftir? Frjálshyggjuheilaþvottur. Valdafíkn. Hroki og dramb. Og svo auðvitað spilling.

Er ég að gleyma einhverju?

Wednesday, October 28, 2009

Hvar er Davíð þegar við þörfnumst hans?

Flestir hafa trú á Davíð Oddssyni til að leiða Ísland út úr kröggum sínum.

Ég er ekki einn af þessum "flestum". En það er áhyggjuefni að svona margir skuli láta það hvarfla að sér að þessi... þessi.. freki karl sé lausnin á vandamálum okkar. KOMMON! Díses kræst!

Að því sögðu, þá á ég ennþá eftir að sjá að núverandi ríkisstjórn hafi lausnirnar. Gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Gylfa Arnbjörnssyni, Samfylkingunni, ál-auðhringunum og öðrum óvinum fólksins er klárlega þörf fyrir einhvern sem getur sett hnefann í borðið þegar það á við. Davíð gæti svosem líklega gert það. En það dugir skammt eitt og sér.

Ég veit ekki hvort er verra, að ríkisstjórnin "meini vel" en láti í sífellu undan öflum spillingar, mannfjandskapar og heimsku, eða að hún meini bara illa á gamla mátann. Það kemur víst í sama stað niður.

Bakúnín lifir enn

Bakúnín sagði að fólk væri ekkert betur sett ef það væri barið með priki, þótt prikið væri kallað "prik alþýðunnar". Á Íslandi í dag mætti kannski kalla það "norræna velferðarprikið".

Villifé eða villimenn?

Útiganga sauðfjár á vetrum er bönnuð af "mannúðarástæðum" ef ég skil það rétt. Þess vegna má villifé á Tálkna ekki ganga frjálst eins og það hefur gert í hálfa öld. Í staðinn er það hrakið fyrir björg -- af mannúðarástæðum, væntanlega, eða handsamað sturlað af hræðslu áður en það er drepið. Ef útiganga sauðfjár er óforsvaranleg, hvað þá með útigöngu hreindýra, hafarna, hrafna eða sela? Er ekki rétt að taka öll villidýr á landinu í hús ef útigangan er svona ómannúðleg? Eða skjóta þau að öðrum kosti? Eða getur verið að þetta sé misskilin mannúð, mistúlkuð og slitin úr samhengi? Væri of mikið að kalla þetta villimennsku?

Skorið út í pappa

Gunnar Tómasson skrifar alþingismönnum um samræður sínar við James Galbraith hagfræðing, og er Galbraith ómyrkur í máli:

„Það segir sig sjálft: það er fáránlegt að ímynda sér að Ísland eða eitthvað annað land geti tekið á sig gjaldeyrisskuldir sem jafngilda 300 eða 400 prósentum af vergri landsframleiðslu (VLF) og forðast greiðsluþrot,“ segir Galbraith. „Ef stjórnvöld reyndu að axla slíka skuldabyrði myndu vinnufærir einstaklingar flytja af landi brott.“

Flytja af landi brott, eða gera byltingu. Nema hvort tveggja sé. Sá, sem ímyndar sér að í þessu samfélagi verði nokkurn tímann friður um að borga þessar skuldir, með öllu sem þeim tilheyrir, ætti að láta athuga á sér höfuðið. Ef við komumst ekki undan þessum skuldum með góðu, þá verður hér annað hvort landflótti eða bylting. Ég segi það fyrir mitt leyti, að ég er tilbúinn til að gera ýmislegt áður en ég læt flæma mig úr landi vegna þjónkunar við óreiðuauðvald.

Skuldirnar verða ekki borgaðar, það er nokkuð öruggt, jafnvel þótt við fegin vildum, þá gætum við það ekki. Það er ekki mögulegt. Það er ekki hægt að neyða okkur til þess, a.m.k. ekki án þess að loka landamærunum fyrst. Loka þeim s.s. fyrir Íslendingum sem vilja úr landi. Þetta verður ekki borgað, það á bara að lýsa því yfir strax og taka slaginn. Að öðrum kosti eigum við í það minnsta eina byltingu eftir.

Tuesday, October 27, 2009

Styðja ríkisstjórnina?

Ber vinstrimönnum að styðja ríkisstjórn vegna þess eins að hún kallar sig vinstrisinnaða?

Mín afstaða er sú að ég get stutt núverandi stjórn til góðra verka en að öðru leyti geri ég það ekki.

Með öðrum orðum, þá geri ég það almennt séð ekki. Ég styð ekki ríkisstjórn sem þjónar fyrst og fremst auðvaldinu, lætur almenning mæta afgangi, sækir um aðild að ESB, heldur áfram stóriðjustefnu, samþykkir IceSave, hlýðir AGS eða sendir íraska flóttamenn út í dauðann.

Ég geng út frá því að ríkisstjórnin samanstandi af fullorðnu fólki og að því sé sjálfrátt. Enn fremur geng ég út frá því að það sé sæmilega gefið. Því finnst mér eðlilegt að dæma það af verkum sínum. Ríkisstjórnin sannar það á hverjum degi fyrir hverja hún starfar. Það er aum afsökun að aðrir valkostir séu verri.

Monday, October 26, 2009

McDonalds og fjöldamorð

Þótt ekki komi til af góðu, er lokun McDonalds fagnaðarefni. Megi þetta ógeðslega fyrirtæki fara á hausinn með braki og brestum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ríkisstjórn Íraks segir að risasprengjurnar séu annað hvort "öfgafullum súnnítum, félögum í al-Qaida eða fyrrum stuðningsmönnum Saddams Husseins" að kenna. Er hægt að orða það skýrar að þeir hafi ekki hugmynd um hverjir voru að verki?

Þorsteinn Pálsson og lýðræðið

Um daginn skrifaði Þorsteinn Pálsson "af kögunarhóli" sínum, að Steingrímur J. Sigfússon ætti erfitt með að hemja flokkinn sinn, og það væri til marks um veikleika VG sem flokks að formaðurinn gæti ekki tekið U-beygju frá stefnu flokksins í meiriháttar málum án þess að það ólgaði allt af óánægju. Þessi hugsunarlausu orð -- eða, ég vona að þau hafi verið skrifuð í hugsunarleysi -- koma upp um ólýðræðislega hugsun Þorsteins sjálfs.

Flokkur vs. formaður
Ef formaðurinn er relatíft sterkur gagnvart flokknum, þá ræður hann bara og flokkurinn samþykkir. Þannig var Davíð, en þannig tókst Þorsteini aldrei sjálfum að verða. Ef flokkurinn er sjálfur sterkur, þá getur formaðurinn ekki ráðskast með hann, heldur veitir flokkurinn formanninum eðlilegt aðhald ef þarf. Nú, það er svo annar handleggur hvort aðhaldið hefur verið eðlilegt í þessu tilfelli. Að mínu mati hefur það alls ekki verið nóg, hvorki að magni né gæðum. Ómöguleg ríkisstjórn á ekki að sitja á friðarstóli og það á ekki að láta hægrimönnum, fasistum, tækifærissinnum eða hræsnurum völlinn eftir til þess að einoka gagnrýnina, og þar með stjórnarandstöðuna, og þar með næstu uppreisn. Það kann ekki góðri lukku að stýra.

1001 og forsetinn

Frétt dagsins er tvímælalaust Þúsundasta trúfélagsleiðrétting Vantrúar. Síðasta föstudagshádegi var eitt af ánægjulegri föstudagshádegjum mínum í seinni tíð.
~~~ ~~~ ~~~
Fáránlegt finnst mér þegar hægrimenn rukka vinstrimenn um andúð á forsetanum. Segir það sig ekki sjálft? Getur einhver bent mér á vinstrimann sem er ánægður með forsetann?
~~~ ~~~ ~~~
Grein dagsins á Egginni er einmitt um forsetann: "...en orðstír deyr aldei..." Höfundur: yðar einlægur.

Stöðugleikasáttmálinn

Það lítur út eins og það sé allt í stáli með þennan stöðugleikasáttmála. Hafa fleiri en ég það á tilfinningunni að þetta sé bara blöff og skúespil og hótanir eins lélegasta verkalýðsleiðtoga í heimi séu innantómt blaður? Ég spái því að þetta fari svona: Ríkisstjórnin efnir ekki sitt. SAÍ hótar að slíta samningnum en "gefur eftir" á síðustu stundu. Semja við ríkisstjórnina um að halda áfram að "reyna að ná stöðugleika" til að kaupa tíma. Svo klikkar ríkisstjórnin aftur, Gylfi Arnbjörnsson sakar hana um að "fylgja ekki hollráðum" AGS nógu vel, en gefur samt aftur eftir þegar á reynir. Svona mun þetta halda áfram þangað til við fáum stéttvís forysta tekur yfir annað hvort Alþýðusambandið eða ríkið. Af Jóhönnu, Steingrími, Gylfa Arnbjörnssyni og Vilhjálmi Egilssyni, þá treysti ég þeim síðastnefnda eiginlega best. Þau eru öll talsmenn auðvaldsins en Vilhjálmur þykist þó ekki vera eitthvað annað.

Saturday, October 24, 2009

Spurning um fjölda

Í greininni "Mansal - þrælahald án hlekkja" á DV.is hnaut ég um eftirfarandi orð framkvæmdastjóra Mannréttindaskrifstofu Íslands, Guðrúnar Daggar Guðmundsdóttur: ,,Um þrjú þúsund konur hafa leitað sér hjálpar í Kvennaathvarfi frá stofnun þess og til Stígamóta hafa komið 4500 konur eða um 2.8 % íslensku þjóðarinnar. Ofbeldismennirnir voru rúmlega fimm þúsund”. Voru um 7.500 konur fórnarlömb rúmlega 5000 ofbeldismanna? Beitti hver ofbeldismaður semsagt að meðaltali eina til tvær konur ofbeldi? Eða getur verið að fjöldi ofbeldismannanna sé töluvert minni og margir þeirra hafi haft fleiri fórnarlömb?

Friday, October 23, 2009

AGS og rasisminn

Ég held að það sé óskhyggja að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé rasískur og fari eitthvað betur með Íslendinga heldur en útlendinga. Hvers vegna ætti hann að gera það? Ég held að auðvaldið sé í sjálfu sér miklu frekar raunsætt (að vísu með úrkynjuðum formerkjum) heldur en rasískt. Raunsætt og, á sinn hátt, jafnréttissinnað. Ég meina, hvers vegna ætti þeim ekki að vera sama hvern það rænir? Hverju skiptir hvort maður er svartur eða hvítur ef það er hægt að hafa af manni peninga?

Hinn ógurlegi harðstjóri hnýsist í einkamál

Ef það er skortur á einhvejru, þá er eðlilegt að fólk sé hvatt til að fara sparlega með það, er það ekki? Það muna allir eftir óskum íslenskra yfirvalda í hittifyrrasumar, um að garðaeigendur væru ekki að vökva garðinn daglega, til að spara vatn, er það ekki? En ef það er heitt vatn sem skortir? Er þá ekki eðlilegt að hvetja fólk til að spara það líka? Til dæmis með því að vera ekki óþarflega lengi í sturtu? Nei, það er ekki eðlilegt -- alla vega ekki ef maður heitir Hugo Chavez. Þá er fréttnæmt að maður sé sérvitur harðstjóri og fyrirsögnin: Chavez bannar þjóðinni að syngja í sturtu.

Thursday, October 22, 2009

Til AGS

Ort í dag:

Stöndum saman, stöndum vörð,
stendur á landið bylur.
Alþjóðagjaldeyrissjóður svörð
sviðinn eftir skilur.
Einn lélegasti verkalýðsleiðtogi heims hótar að segja upp kjarasamningum. Í gær ávarpaði hann 42. þing BSRB, þar sem ég er einn þingfulltrúa. Ég gekk út þegar hann kom í ræðustól.

Þessi varð annars til um daginn:

Ástandið er dapurt, dimmt,
og dægrin ekki fögur.
Bítur seint þó gelti grimmt
Gylfi Arnbjörnsmögur.

Byltingarvísa

Ort í gær:

Gætum þess að gera rétt,
glímu að stíga af réttu tagi:
Höldum saman, stétt gegn stétt,
og steypum auðvaldsskipulagi.

Wednesday, October 21, 2009

Fundur Rauðs vettvangs á föstudagskvöld

Á föstudagskvöldið kemur verða fjáröflunarkvöldverður og fundur Rauðs vettvangs í Friðarhúsi, við Njálsgötu 87.

Borðhald hefst klukkan 18:30 og stendur til tæplega 20:00. Réttur kvöldsins er ekki ákveðinn ennþá en verður eflaust mjög ljúffengur! Hann mun aðeins kosta 1500 krónur.

Sjálfur fundurinn hefst klukkan 20:00 stundvíslega. Efni hans er tiltölulega einfalt: Starfið framundan. Hver er niðurstaðan eftir vel heppnaða ráðstefnuna 10.-11. október? Hver verða næstu skref? Hvernig styrkjum við hreyfinguna? Hver eru helstu verkefni framundan? Hvernig heyjum við baráttuna fyrir vörn heimilanna og gegn Alþjóðagjaldeyrissjóðnum?

Fundurinn er opinn öllum áhugasömum og við vonumst til að sjá ykkur sem flest.

Tuesday, October 20, 2009

Landflótti eða bylting

Ef 216 milljarðar falla á þjóðarbúið er það u.þ.b. milljón á hvern vinnandi Íslending, er það ekki? Það er bjartsýnasta spá, sem erir ráð fyrir 90% heimtum úr flaki Landsbankans. Ég sé nákvæmlega enga ástæðu til að taka þessa 90%-tölu trúanlega. Mér finnst hún lykta af almannatengslum, lykta af sykurmola sem við fáum til að auðveldara sé að renna niður beisku meðali, eða, í þessu tilfelli, beiskri ólyfjan. Ef talan er 90%, þá er þetta milljón á hvern vinnandi mann. Ef hún er 80% eru það tvær milljónir. Og svo framvegis. Hver halda þau að láti bjóða sér þetta? Ekki ég, svo mikið er víst. Hér eru plan A, B og C: (A) Íslenskir skattborgarar komast undan IceSave með friðsamlegum hætti, (B) Íslenskir skattborgarar komast undan IceSave með ófriðsamlegum hætti, (C) stór hluti ungu kynslóðarinnar flytur úr landi í kring um 1. janúar 2016, ég sjálfur meðtalinn. Ég hugsa að það sé ennþá of snemmt að fullyrða að leið A sé lokuð, en ég veit ekki hvað hún verður opin lengi.

Pétur vs. Atli -- eða Jóhannes??

Á sunnudaginn heyrði ég ekki betur, í útvarpsþætti á RÚV, en að Pétur Blöndal væri að ræða við Atla Gíslason. Nema þetta hafi verið Jóhannes eftirherma, að herma eftir Atla. Það gæti útskýrt ýmislegt, til dæmis hvað sumar lausnirnar sem Atli stakk upp á voru innihaldsrýrar. Hvað ættu íslenskur almenningur að gera í efnahagsmálum? Jú: „Stöndum saman, verum bjartsýn.“ Og hvert var ráð Atla til garðyrkjubænda sem eru að gefast upp vegna hás rafmagnsverðs? Jú: „Haldið haus, verið bjartsýn.“ Ég veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta. Ef þetta var Jóhannes eftirherma, þá var þetta drepfyndið. Ef þetta var ekki hann, þá var það dapurlegt.

Monday, October 19, 2009

Ragna þrjótur.....

Brottvísun flóttamanns er morð. Ragna Árnadóttir ber ábyrgð á því ef eitthvað kemur fyrir Nour Al-Azzawi. Ef hann endar einhvers staðar þar sem fer sæmilega um hann, þá er það ekki Rögnu Árnadóttur að þakka. Hún ákvað að senda hann úr landi vegna þess að henni var það heimilt, hún var ekki neydd til þess. Kennir svo dómsmálaráðuneytið við mannréttindi, góður þessi.
Hvað sem Ragna segir, þá er þessi ákvörðun auðvitað jafn rammpólitísk og hún er ísköld og raunveruleg. Er ég ósanngjarn ef ég velti því fyrir mér hvort Ragna sé lituð af bakgrunni sínum í lögfræðilegri akademíu og skoði þetta sem lögfræðilegt álitamál, þegar það er í raun pólitískt? Hún er sérfræðingur í lögum, ekki í stjórnmálum. Hver mundi ráða lögfræðing til þess að taka pólitískar ákvarðanir?

Sunday, October 18, 2009

Sverrir Jakobsson og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

Til gamans, þá fletti ég upp greinum á gamla góða Múrnum, til að sjá hvort Sverrir Jakobsson hefði ekki skrifað eitthvað þar um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ég fann nokkrar þar sem höfundur kemur inn á sjóðinn og afrekaskrá hans. Dæmi: Frjáls viðskipti (25.5.01), Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Argentína (6.1.02), Tíu misheppnuðustu hugmyndir samtímans (14.9.04), Dreggjar nýlendutímans í alþjóðaviðskiptum (10.1.05) og Leikvöllur nýfrjálshyggjunnar (12.2.05). Af lestri þessara greina fer ekki milli mála að höfundur hefur mikla andúð á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Eða, að minnsta kosti, að hann hafi haft það þegar greinarnar voru skrifaðar. Ég hlýt að draga í land með þannig ályktun í ljósi greinar Sverris í Fréttablaðinu miðvikudaginn 7. október sl. Þar mátti nefnilega greina einhvers konar sáttatón, eða í það minnsta að svona væri þetta nú bara, sjóðurinn væri ekki alslæmur við okkur og betra að vinna sig út úr þessu en að vera að einhverju væli. (Mín umorðun.) Greininni var ekki síst beint til Ögmundar Jónassonar, sem hafði þá verið að tjá efasemdir sínar um ýmislegt af því auðvaldsþjónkaðasta í fari ríkisstjórnarinnar. Sverrir valdi honum skrautleg orð.

Það væri gaman að vita hvað hefur breyst frá því Sverrir skrifaði þessar ágætu greinar hér fyrr á öldinni. Ætli Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi, að mati hans, breyst til hins betra? Eða ætli Sverrir hafi breyst sjálfur? Eða ætli valdahlutföllin í landinu hafi bara breyst, Sverrir lent réttu megin og þess vegna sæst við kerfið?

Saturday, October 17, 2009

Pakistanskir talibanar

Talibanar gera árás á lögreglustöð í Peshawar, pakistanski herinn talar digurbarkalega en á ekki séns. Ég endurtek: Pakistanski herinn á ekki séns í pakistanska talibana. Þeir eru sprottnir upp úr jarðvegi bláfátækra bænda og eru bændur sjálfir. Þeir eru að berjast gegn raunverulega spilltu og óréttlátu valdi og hafa litlu að tapa. Þeir eru frekar vinsælir á athafnasvæði sínu. Pakistanski herinn er rotin stofnun, og þó sú stofnun sem virkar einna best í Pakistan. Pakistan er misheppnað ríki, það er bara tímaspursmál hvenær það missir dampinn og talibanarnir taka yfir. Hver ætli sé bjartasta vonin í pakistönskum stjórnmálum? Vandi er um slíkt að spá. Ég er enginn sérfræðingur í þeim, en hef fylgst nokkuð með byltingarhreyfingum Suður-Asíu og veit ekki um neitt pakistanskt stjórnmálaafl sem ég mundi álíta framsækið.

Friday, October 16, 2009

Gylfi Arnbjörnsson barst hér í tal á dögunum. Nú treður hann aftur upp með opinskáum yfirlýsingum um stuðning við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn! Kommon, díses kræst! Getur Alþýðusambandið ekki farið að skipta um formann!? Gylfi hlýtur að vera eini formaður verkalýðshreyfingar í heiminum sem styður þennan fáránlega glæpasjóð. Enda fáránlegur formaður, alveg hrikalegur.

Wednesday, October 14, 2009

Góðar fréttir

Karadzic fær ekki friðhelgi fyrir Alþjóðastríðsglæpadómstóli. Það er gott, stríðsglæpi á ekki að fyrirgefa. Vonandi að dómstóllinn verði jafn prinsippfastur þegar sá dagur kemur að framkvæmdastjóri norrænu ráðherranefndarinnar og ritstjóri Morgunblaðsins verða dregnir fyrir hann.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
90% af IceSave-draslinu borgast upp af sjálfu sér, ef marka má fréttir. Mjög góðar fréttir, ef marka má fréttir. Verst að ég efast. Ég trúi þessu ekki fyrr en það er frágengið. Ég hef nefnilega heyrt að þessi 90%-tala sé byggð á grófu ofmati. Nú, segjum að þetta sé satt. Þá hljóta Bretar og Hollendingar að sýna því meiri skilning ef við neitum að borga þetta. Á hvorn veginn sem sannleikurinn er, þá ættum við að neita að borga.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég legg til að Geir Haarde verði gerður persónulega ábyrgur fyrir neyðarlögunum svokölluðu, eða að minnsta kosti fyrir að hafa mismunað innistæðueigendum eftir þjóðerni. Ef einhverjir erlendir innistæðueigendur hafa eitthvað upp á hann að klaga, þá ættu þeir bara að snúa sér til hans.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er ógeðfellt að sjá hvernig ríkisstjórnin og helstu stuðningsmenn hennar berjast fyrir því að Ísland fái að taka á sig IceSave-ábyrgð og vera áfram á teininum hjá Alþýðugjaldþrotasóðanum. Við sem efumst erum kölluð óraunsæir nytsamir veifiskatar Sjálfstæðisflokksins, sem eru fastir í 2007. Á meðan dansandi halarófan á eftir Steingrími er ábyrg og raunsæ. Ég meina, Steingrímur hlýtur nú að hafa rétt fyrir sér. Hann er nú ráðherrann, ha.
Ef Íslandi verður ekki stýrt undan fjárhagslegri og pólitískri úrbeiningu og roðflettingu, þá verður það á ábyrgð sitjandi ríkisstjórnar og það verður ekki með mínum stuðningi. Sumir segja að hin endanlega ábyrgð sé íslensks almennings. Þetta er bull, þótt strangt til tekið sé það kannski rétt, en þá má líka halda rökleiðslunni áfram: Ábyrgð almennings er þá núna sú að gera byltingu og koma hér á réttlátara, sjálfbærara og lýðræðislegra samfélagi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það eru afturámóti góðar fréttir í alvörunni, að mál Íslands verðist enn tefjast fyrir Alþýðugjaldþrotasóðanum. Megi það tefjast sem lengst.

Thursday, October 8, 2009

...á forsendum hverra?

Starfsgreinasamband Íslands þingar nú á Selfossi. Yfirskrift þingsins er "Atvinnulíf á okkar forsendum!" Ætli ég sé einn um að koma þetta spánskt fyrir sjónir? Annar hátíðarræðumaðurinn var enginn annar en hægrikratinn Árni Páll Árnason. Hann kenndi auðmönnum og fyrri stjórnvöldum um vandamál landsins og kom svo með lausnirnar, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Evrópusambandið. Klykkti út með því að gefa í skyn að innganga í Evrópusambandið mundi barasta útkljá stéttabaráttuna á Íslandi! Skreytti sig svo með þessum stolnu fjöðrum úr lokaorðum Kommúnistaávarpsins: "Við höfum engu að tapa – nema hlekkjunum." Æðislegt, ekki satt? Væri ósanngjarnt að segja að hann hafi þarna skipað sér á bekk með hinum ofsalega róttæka Antonio Negri?
Hinn hátíðarræðumaðurinn var, guess what, annar hægrikrati: Gylfi Arnbjörnsson. Sá notaði tækifærið til að taka stórt upp í sig með því að hálf-hóta atvinnurekendum stríði. "Ef þið viljið stríð, þá munuð þið fá stríð," sagði hann. Trúir einhver því að hugur fylgi máli? Trúir einhver því að raunsæi og ábyrgi hægrikratinn fari að rugga bátnum frekar og setja allt í uppnám? Gylfi segist finna fyrir væntingum til þess að verkalýðshreyfingin standi vaktina. Gylfi bendir á að enginn þingmaður hafi lýst áhyggjum af "stöðugleikasáttmála" í eldhúsdagsumræðum. Ætli það segi ekki sitt um hvað þeir hafa miklar áhyggjur? (Hverjir ætli það séu annars, sem vænta þess að Gylfi standi vaktina?)
Gylfi lýsir áhyggjum af því að þátttaka atvinnulausra í verkalýðsfélögum hafi fallið úr um 90% niður í um 50%. Ætli það sé vísbending um væntingar almennings til þeirra?
Lausnir Gylfa fela meðal annars í sér "nýtt siðferðismat" í stjórnun fyrirtækja og að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fari um okkur mildum höndum sínum. Það var nefnilega það.

Læt þetta duga að sinni, en lesið þessi fyrri samskipti mín við SGS: Af ný-auðvaldi og ný-misskilningi.

Öfugsnúin umræða

Í landinu er stjórn sem sumir kalla "vinstristjórn" en stundar nógu mikinn niðurskurð og þjónkun við auðvaldið til þess að verðskulda eitthvað annað nafn. Sagt er að nýjum herrum fylgi nýir siðir, en það vantar sitthvað upp á það nú. Getur verið að rassaför hægrimanna við kjötkatlana séu orðin svo djúp að fáir komist upp úr þeim? Það skyldi þó aldrei vera. Forsætisráðherrann ætlast ekki bara til þess að samráðherrar sitji og standi eins og hún vill, heldur hugsi þannig líka. Meira að segja helstu stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar virðast apa eftir stuðningsmönnum fyrri ríkisstjórna.

Steingrímur J. Sigfússon segir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn verði ekki deginum lengur í landinu heldur en þörf sé á. Þörfin fyrir þann ólánssjóð er álíka mikil og þörfin fyrir drepsótt, svo ég vona að Steingrímur meini að landstjórinn sé kominn út á flugvöll og sé að tékka sig inn í þessum töluðum orðum. En ég óttast að það sé ekki það sem Steingrímur meinar. Maður eins og ég, sem er vanur að líta á samfélagið sem stéttskipt, spyr þegar svona er sagt: Lengur en hver hefur þörf á? Úr þessari Tyrklandsheimsókn, þar sem þurfti óeirðalögreglu til þess að Steingrímur gæti fundað í friði fyrir múgnum, færir hann okkur svo þessar innihaldsríku og merku fréttir: "Við verðum að ná tökum á efnahagsástandinu svo það þoli endurskoðun og Icesave verður að ljúka.
Fyrr berst ekki fjárhagsaðstoð frá alþjóðasamfélaginu."

Nú, Sverrir Jakobsson sendir svo Ögmundi Jónassyni einkennilegan tón í Fréttablaðinu í gær. Hann lætur sem "þjóðrembumálflutningur" hægrimanna og framsóknarpopúlismi hafi glapið Ögmund. Þetta segir hann þegar hann hefur rétt sleppt orðinu, að gera grín að Bjarna Ben. fyrir að vera að fatta það núna að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé innheimtustofnun fyrir lánadrottna og hafi verið það í 60 ár. Maður hlýtur að ætla að formaður hreinskilnasta auðvaldsflokksins sé innrættur eftir því, og með því að Sverrir þekkir eðli AGS skýtur þetta skökku við og er þar af leiðandi fyndið. Nú má svosem segja ýmislegt um Ögmund Jónasson, en er ekki fulllangsótt að kalla hann framsóknarginnkeyptan þjóðrembulýðskrumara sem talar gegn handrukkarasjóði alþjóðafjármálaauðvaldsins en elskar hann innst inni? Heldur Sverrir það kannski og finnst þetta þess vegna skrítið?

Ég ímynda mér að ef maður leitar í ritsafni Sverris sjálfs, t.d. á Múrnum gamla, eða þá bara í einhverjum skrifum frá því fyrir búsáhaldauppreisn, þá geti maður fundið þar einhverja gagnrýni á Alþjóðahandrukkarasjóðinn. Ímynda mér það, án þess að hafa athugað það sérstaklega. Ætli Sverri finnist ekkert skrítið hvað Steingrímur er allt í einu orðinn jákvæður í garð sjóðsins? Getur verið að það hafi einhver annar en Ögmundur látið plata sig?

Sverrir segir annars í grein sinni: "Enn hefur sjóðurinn ekki sett Íslandi [neina afarkosti]". Ég velti því nú fyrir mér hvernig Sverrir viti það, og hvað hann viti. Ég veit nefnilega að sjóðurinn setur mikinn þrýsting á um niðurskurð og er a.m.k. með Landspítalann undir smásjá og lætur þýða fyrir sig stjórnunargögn þaðan. Ég veit líka að sjóðurinn hefur reynt að bæta ímynd sína með því að setja fá og tiltölulega aðgengileg skilyrði í byrjun, en hækka slána þegar kemur að afhendingu á næsta hluta lánsins. Þannig að ef það eru ekki komin fram nægileg skilyrði til þess að geta kallast "afarkostir", þá eiga þau sjálfsagt eftir að koma á daginn áður en langt um líður.

En það er fleira eftirtektarvert heldur en það sem Sverrir skrifar. Hjörleifur Guttormsson skrifar t.a.m. þungskeytta grein á Smuguna og "Icesave-málið og afsögn Ögmundar" heitir hún. Ég ætla nú ekki að fara að endursegja ágæta grein, en umræðurnar í athugasemdakerfinu eru merkilegar. Þar skrifar hver á fætur öðrum um að Ögmundur sé svona-og-svona, að gera verði fleira en gott þyki og að þetta-og-þetta sé nú ill nauðsyn og þurfi kjark til. Einhver Pétur segir t.d. að Ögmund hafi skort "kjark til að skera niður". En sú vitleysa. Ögmundur hafði kjark til þess að skera EKKI niður og til þess að standa með sannfæringu sinni þótt á honum stæðu spjótin úr krataátt. Hvað hefði hann átt að gera til þess að þóknast þessum Pétri og öðrum IceSave-sinnum? Það var um fernt að velja: Skipta um skoðun; Skrökva um skoðun sína; Grjóthalda kjafti; Hunskast út. Ögmundur valdi síðasta kostinn. Hvað hefðu gagnrýnendur hans gert í stöðunni?

IceSave-ábyrgðir eru eitthvert mesta endemi sem ég hef vitað. Hvernig dettur fólki í hug að ætla að samþykkja þær? Þær verða nefnilega aldrei borgaðar. Ef íslenska ríkið ber ekki gæfu til að koma sér undan þeim, þá munu landsmenn gera það sjálfir, með fótunum. Það er ekki hægt að pína fólk til að borga ef það á undankomu auðið. Ég skal hér með segja það fyrir sjálfan mig, að ég ætla ekki að taka þátt í að borga IceSave. Ef þetta leysist ekki á þægilegri hátt, þá stendur valið milli landflótta og byltingar.

Steiktast af öllu er samt hvernig höfð eru endaskipti á umræðunni. Það er Samfylkingin sem dregur forystu VG á asnaeyrum í ógæfuátt. Stór hluti flokksmanna og kjósenda VG, sem og flestir aðrir landsmenn, gapa af undrun og vonbrigðum. Þegar nokkrir þingmenn sýna þá staðfestu að spyrna við fótum og segja: nei, þetta gengur ekki -- þá eru þau hin sömu kölluð illum nöfnum, gungur og þjóðrembupopúlistar og óstjórntæk og framsóknarmenn og þaðan af verra.

Hvaða rugl er þetta eiginlega?

Monday, October 5, 2009

Baráttudagar í október – ár frá hruni

Helgina 10.-11. október heldur Rauður vettvangur ráðstefnuna "Baráttudaga í október - ár frá hruni". Á henni verður farið yfir stöðuna í þjóðfélaginu í fjórum málstofum. "Bankahrunið og reynslan af fyrsta ári kreppunnar", "Hver fer með völdin á Íslandi?" og "Átök og verkefni framundan" verða á laugardeginum og sameiginlegur kvöldverður um kvöldið. Á sunnudeginum verður fjórða málstofan, "Ný stefna fyrir Ísland", og eftir hana opinn umræðufundur um skipulag nýrrar byltingarhreyfingar. Frummælendur eru Andrea Ólafsdóttir, Gunnar Skúli Ármannsson, Helga Þórðardóttir, Herbert Sveinbjörnsson, Héðinn Björnsson, Jakobína Ólafsdóttir, Kolbeinn Stefánsson, Lilja Mósesdóttir, Vésteinn Valgarðsson, Þorleifur Gunnlaugsson, Þorvaldur Þorvaldsson, Þórarinn Hjartarson og Þórður Björn Sigurðsson.

Rauður vettvangur er félag sósíalista. Það var stofnað árið 2008 og hefur haldið reglulega og óreglulega fundi, Rauðan fyrsta maí og Rauða daga í Reykjavík í júlí sl. Tilgangur félagsins er að leggja sitt af mörkum í endurskipulagningu íslensks þjóðfélags út úr og upp úr kreppu.

Nánari upplýsingar:
www.raudurvettvangur.blog.is
Vésteinn Valgarðsson - 8629067 - vangaveltur@yahoo.com
Þorvaldur Þorvaldsson - 8959564 - vivaldi@simnet.is

Erfðasynd VG?

Þegar ég sé talað um klofninginn í þingflokki VG þykir mér það ríma við það sem mætti kannski kalla erfðasynd flokksins, að hafa aldrei gert upp við sig afstöðuna til auðvaldsskipulagsins. Með því að skilja þá spurningu eftir óútkljáða hefur verið hægt að sameina sósíalista og krata í einum flokki, -- en getur sú sameining staðið lengur en spurningin er óútkljáð? Á þetta reynir þegar flokkurinn er kominn til valda. Það er undansláttur að láta eins og spurningin skipti ekki máli.

Spurningin er þessi: Erum við sameinuð til þess að mynda gott og réttlátt samfélag eða til þess að betrumbæta kapítalismann? Þetta eru tvö aðskilin og ósamrýmanleg markmið. Til þess að skapa gott og réttlátt samfélag er höfuðverkefnið að losa það við helstu uppsprettu spillingar og ranglætis, sem er kapítalisminn. En með því að betrumbæta kapítalismann eru lífdagar hans framlengdir og með þeim ranglætið og spillingin.

Ef flokkurinn skorast undan því að svara spurningunni opinskátt og heiðarlega -- og ætlar þannig að komast hjá því að gera upp á milli sinna eigin félaga -- þá sýnir hann svarið í staðinn af verkum sínum. Hingað til er ferillinn ekki beysinn, verður að segjast. Það er greinilegt að kratar fara með völdin í þessari ríkisstjórn.

Ég er sósíalisti og ég verð ekki ánægður með þjóðskipulagið á meðan það er kapítalískt. Ég hef engan áhuga á sýndarmennsku í þessum efnum og er að því leyti hrifnari af heiðarlegum auðvaldsseggjum heldur en krötum sem látast bera hag fólksins fyrir brjósti en reynast svo vera höfuðstoð auðvaldsins þegar á reynir og hafa ekkert að bjóða annað en IceSave-skuldir, Alþjóðagjaldeyrissjóð og samband evrópskra auðhringa. Hver þarf hægristjórn þegar maður hefur svona vinstristjórn?

Ítarefni: Grein mín VG og sósíalisminn, skrifuð eftir landsfund VG í vor.

Sunday, October 4, 2009

IceSave og afsögn Ögmundar

Írar létu plata sig til að samþykkja Lissabon-sáttmálann og eru það mikil vonbrigði. Þeir felldu hann um árið, en fengu nú annað tækifæri til þess að samþykkja hann. Hvenær ætli þeir fái annað tækifæri til þess að fella hann? Svar: Aldrei. Lýðræðishalli ESB birtist greinilega í því hvernig svona málum er troðið í gegn. Lesið: Lissabon-bókunin: Hvað er nú það?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Guðfríður Lilja vill að Ögmundur verði aftur ráðherra. Ég get alveg tekið undir það, þótt það kæmi mér á óvart ef svo yrði. Maður lætur ekki stilla sér upp við vegg, hvorki í ESB né IceSave. Yfirgangur innan ríkisstjórnar á ekki að líðast, hvorki að fólk stundi hann né láti bjóða sér hann. Lesið hvað Hjörleifur Guttormsson skrifar um Icesave-málið og afsögn Ögmundar.

Í IceSave-málinu er aðalatriðið það að íslenskir skattborgarar stofnuðu ekki til þessara skulda og allar niðurstöður sem fela í sér að þær lendi á herðunum á okkur eru því óásættanlegar. Þetta er aðalatriðið. Það er aukaatriði hvað "lögmæt stjórnvöld" (les: vanhæfir, spilltir klaufar) álpuðust til að gera. Það er makalaus málflutningur, að ætla að selja land og þjóð í hendurnar á handrukkurum alþjóðlegs fjármálaauðvalds, og kalla það ábyrgðarleysi að vilja það ekki. Það er líka makalaus málflutningur að segja að Ögmund hafi skort "kjark til að skera niður". Nei, Ögmundur hafði kjark til að skera EKKI niður.

Það eru örugglega margir fylgismenn og félagar í VG sem telja Steingrím J. vera að gera góða hluti og finnst Ögmundur vera úti í móa. Við þessa félaga segi ég: Opnið á ykkur augun! Ríkisstjórnin er að útfæra hægristefnu, lætur hagsmuni fjármagnsins ganga fyrir hagsmunum fólksins, ætlar sér að skera niður í því sem okkur er mikilvægast til þess að þóknast Alþjóðagjaldeyrismafíunni! Við eigum ekki að láta teyma okkur á asnaeyrum. Ögmundur gerði það eina rétta í stöðunni, og ég fullyrði að hann hefur víðtækan stuðning félaga og flokksmanna. Hægriarmurinn hefur auðvitað líka marga fylgismenn, en ég hygg að þeir fylgismenn séu ennþá fleiri meðal Samfylkingarfólks heldur en Vinstri-grænna.

Wednesday, September 30, 2009

Ráðvillt Samfylking

Jóhanna segist vera hissa á að Ögmundur hafi sagt af sér. Segir afsögnina hafa komið sér á óvart, talar jafnvel um að fallast ekki á afsögnina. Hún er þá grænni en ég hélt. Hvað hélt hún eiginlega að hún gæti notað úrslitakosta-taktíkina oft?

Af þingmönnum Samfylkingarinnar sem RÚV talaði við, segja flestir að „Vinstri grænir hljóti að átta sig á alvöru málsins“ -- semsé að þetta ágæta fólk hljóti nú að átta sig á mikilvægi þess að landsmenn taki á sig ábyrgðina á IceSave-hneykslinu. Hvernig er þetta, hver þarf að fara að átta sig á alvöru hvers hérna?

Um svipaðar mundir er svo Hannesi Hólmsteini boðið á kappræðu gegn Kristrúnu Heimisdóttur á landsþingi Ungra jafnaðarmanna. Anna Pála Sverrisdóttir, fráfarandi formaður þeirra, og hefur ekki fyrr sagt, svo réttilega, að „hugmyndafræðin sem við endurreisum Ísland á skiptir öllu máli“, fyrr en hún skýrir byltingarkennda uppgötvun, jú, að „þar standa Hannes og Kristrún fyrir gjörólíka nálgun.“ Hér er frétt: Samfylkingin á sér ekki hugmyndafræði. Hún er hentistefnusinnaður, tækifærissinnaður hægrikratískur ESB-sleikjandi valdapotsflokkur sem á sér þann draum heitastan að taka við hlutverki Sjálfstæðisflokksins sem aðal varðhundur auðvaldsins á Íslandi.

Hannes Hólmsteinn á sér hugmyndafræði, sem er að fjármagnið ráði alltaf og fólk mæti afgangi. Ég er ekki sammála þeirri hugmyndafræði, en hugmyndafræði er hún. „Gjörólík nálgun“ væri væntanlega að fólk sitji alltaf í fyrirrúmi en fjármagnið mæti afgangi, er það ekki? Það var ekki nálgun Samfylkingarinnar síðast þegar ég vissi, enda mundi slík nálgun útheimta byltingu og nýtt þjóðskipulag.

Ekki nóg með þetta, heldur talar Össur Skarphéðinsson um sömu mundir hjá Sameinuðu þjóðunum, segir það vera „útslitaatriði að þjóðir heims samein[ist] um að ná bindandi samkomulagi um takmörkun gróðurhúsalofttegunda í Kaupmannahöfn í desember“ og lýsti frekari áhyggjum sínum af umhverfismálum, stóriðjusinninn sjálfur. Ætli hann trúi því sjálfur, að þessi Kaupmannahafnarfundur verði eitthvað annað en sýndarmennska?

Afsögn Ögmundar og ríkisstjórnarsamstarfið

Ég rak upp stór augu í morgun þegar ég las Fréttablaðið. Þar er haft eftir Jóhönnu Sigurðardóttur að ef ekki náist "samstaða um lyktir Icesave-málsins innan ríkisstjórnarflokkanna í vikunni [sé] ríkisstjórnarsamstarfinu sjálfhætt". Svo er sagt að Jóhanna hafi misst alla þolinmæði.

Ekki er ég hissa á að Ögmundur hafi misst þolinmæðina. Þetta er hvorki meira né minna en fjórða skiptið á innan við tólf mánuðum sem Samfylkingin spilar þessu últimati. Fyrst Ingibjörg Sólrún gegn Sjálfstæðisflokknum um Evrópusambandið síðasta vetur. Svo Jóhanna við VG vegna Evrópusambandsins. Svo vegna IceSave, nú aftur vegna IceSave.

Það sagði mér kona, að ef hún yrði einhvern tímann fyrir heimilisofbeldi mundi hún slíta sambúðinni strax og ekki gefa annan séns. Sama gildir um stjórnarsamstarf. Það kallast ekki samstarf ef annar aðilinn lætur svínbeygja sig í hverju málinu á fætur öðru. Ég reifaði það í stuttu máli á flokksráðsfundi VG fyrir mánuði, í Átta tesum. Síðasta tesan endaði svona: "Hugsjónir eru ekki skiptimynt fyrir ráðherrastóla og hótanir um stjórnarslit koma ekki í stað endurgjalds fyrir eðlilegar málamiðlanir."

Ég rak upp stór augu í morgun vegna þess að ég hélt að Jóhanna væri diplómatískari en svo að halda að það sé hægt að brýna deigt járn án þess að það bíti á endanum. Ég veit ekki hvort hún er fær um að vera forsætisráðherra, en hitt veit ég að hún er ekki fær um að leiða vinstristjórn.

Þótt þessi svokallaða vinstristjórn hafi ekki verið vinstrimönnum að skapi og hafi framfylgt hægristefnu í flestum aðalatriðum, þá skulum við ekki láta eins og hún hafi verið gagnslaus. Nei, þvert á móti hefur hún verið dýr og um leið dýrmæt lexía, með því að skilja hafrana frá sauðunum. Því hefur til dæmis (nýlega) verið haldið fram að flokksmenn VG geti stólað á þingmenn flokksins til að standa gegn Evrópusambandinu. En hvað sýnir reynslan?

Svari hver fyrir sig -- en ef þingmenn VG eru með múður út af ESB eða einhvejru öðru mikilvægu, hótar þá ekki Jóhanna bara að samstarfinu sé sjálfhætt?

Tuesday, September 29, 2009

Réttur er settur

Ég lýsi þetta blogg formlega tekið í notkun. Fólki sem linkar á mig er vinsamlegast bent á að nú er viðeigandi að breyta linkunum. Hér eftir verður þetta aðalvettvangur minn fyrir blogg. Ég hef hvorki í hyggju að blogga aftur á Vangaveltu-blogginuHversdagsamsturs-blogginu. (Um Moggabloggið hef ég ekkert ákveðið, en það er á ís í bili.) Satt að segja voru þau dálítið vanhugsuð frá upphafi. Ég hugsaði með mér að best væri að halda persónulegu málum á einu bloggi og pólitískum á öðru. En til hvers? Hvers vegna ætli flestir láti sér nægja að vera með eitt blogg með hvoru tveggja? Líka: Þegar maður er farinn að skrifa nokkuð reglulega á vefmiðla eins og Eggina eða Vantrú, þá fjölgar óneitanlega hornunum sem maður hefur að líta í og þá verður það eins og kvöð að hafa mörgum bloggum að sinna. Ég skil ekki heldur, btw., hvers vegna ér stend í því að halda úti mörgum netföngum. Það þriðja með gömlu bloggin mín tvö sem var vanhugsað, var slóðin. Allt of löng, á þeim báðum. Á þessu nýja bloggi hefði ég sleppt bandstrikinu og haft slóðina bara vest1, en Blogger býður ekki upp á það. Stutt og snyrtilegt, það er betra þannig. Já, ekki má gleyma: Glöggir gestir sjá að tenglasafnið á spássíunni er mun styttra en það var. Maóistaflokkur Afganistans er t.d. ekki lengur, heldur ekki Neturei Karta o.fl. Einfaldara er betra. Jamm.

Skoðið annars blogg Rauðs vettvangs og dagskrá ráðstefnunnar Baráttudaga 10.-11. október. Glæsileg dagskrá sem enginn alvöru vinstrimaður vill missa af.

Friday, September 25, 2009

Nýtt blogg

Áðan stofnaði ég þetta nýja blogg og flutti yfir á það allt efni af gömlu bloggunum, Vangaveltum og Hversdagsamstri, tæpar 3000 færslur frá haustinu 2003 til þessa dags. Eftir helgi verður þetta nýja bloggið mitt og frá og með komandi mánudegi mun ég fyrst og fremst blogga hér. Gömlu bloggunum ætla ég að leyfa að hanga uppi um hríð en eyðing þeirra er samt komin á dagskrá. Ég veit ekki hvað ég geri við Moggabloggið mitt. Ætla alla vega ekki að eyða því, a.m.k. ekki strax, en efast um að ég muni nota það mikið. Ég er a.m.k. búinn að eyða mbl.is úr flýtivali á vafranum mínum.

Fólk sem er með tengil í bloggið mitt má gjarnan breyta honum í samræmi við nýja vefslóð.

Þessi helgi

Þessa helgi missi ég af mörgu merkilegu. Dæmi:
Landsfundur UVG á Hvolsvelli, þar sem eflaust verður tekist á um frammistöðu ríkisstjórnarinnar, flokksforystunnar og flokksins almennt. Það er synd að láta sig vanta á hann, nú veitir forystunni ekki af aðhaldi frá vinstriarminum.
Málfundurinn "Þörf á rauðu stjórnmálaafli?" á Akureyri á laugardaginn, sem Stefna stendur fyrir. Vinstrimenn á Akureyri og þar í grennd eiga fullt erindi á þann fund. (Þar verður meðal annars kynnt ráðstefnan Baráttudagar í október, sem ég vek hér með athygli á líka.)
Á sunnudaginn halda svo VG á Héraði fund á Egilsstöðum (býlinu, ekki kaupstaðnum).

Moggabloggið og það allt...

Ég er einn af þeim sem finnst að Davíð Oddsson ætti að verja tíma sínum í að gróðursetja tré og gefa flækingsköttum mjólk, en ég ætla að spara stóru orðin að sinni. Ég hef ekki gert upp við mig hvort ég fylgist með Morgunblaðinu og mbl.is í framtíðinni eða ekki. Ég hef heldur ekki gert upp við mig hvort ég held áfram að Moggablogga. Ég hef hingað til álitið Morgunblaðið pólitískt hlutdrægan fjölmiðil og það mun ég gera áfram. Ástæðan fyrir því að ég byrjaði að blogga þar var í senn praktísk og hégómleg: Að ná til fleiri lesenda.

Nú hafa margir bloggvinir og aðrir hætt Moggabloggi og sagt upp áskrift að Mogganum. Hafi einhverjum þótt lítið til Moggabloggsins koma -- og ég hef fullan skilning á því -- þá verður það sýnu snautlegra núna. Ég ætla ekki að loka blogginu í bili, en hef tekið öryggisafrit af því, bara til að vera viss. Á næstunni mun ég lesa meira af öðrum vefmiðlum, sem ég hef reyndar gott af hvort sem er. Það er engum manni hollt að fá flestar sínar fréttir úr Morgunblaðinu.

Talandi um hollan uppruna upplýsinga, þá má ég til með að benda á þann ágæta vef Eggin.is. Þar er einmitt að finna þessa grein eftir sjálfan mig:

30,1% landsmanna segjast til í greiðsluverkfall. Þótt það væri ekki nema helmingur þeirra er það samt nóg til að knésetja bankana. Stór hluti landsmanna til viðbótar er fús til að beita annars konar þrýstingi, til dæmis að greiða aðeins af lánum skv. upphaflegum áætlunum eða taka út sparifé sitt. Þetta er ekkert annað en reiðarslag fyrir bankana, fjármálaauðvaldið og auðvaldið í heild. Ef Hagsmunasamtök heimilanna fá 15% með sér í verkfallið, þá getur ríkisvaldið ekki annað en gefist upp og samið.

Tuesday, September 22, 2009

VG og skuldir heimilanna

30,1% landsmanna segjast til í greiðsluverkfall. Þótt það væri ekki nema helmingur þeirra er það samt nóg til að knésetja bankana. Stór hluti landsmanna til viðbótar er fús til að beita annars konar þrýstingi, til dæmis að greiða aðeins af lánum skv. upphaflegum áætlunum eða taka út sparifé sitt. Þetta er ekkert annað en reiðarslag fyrir bankana, fjármálaauðvaldið og auðvaldið í heild. Ef Hagsmunasamtök heimilanna fá 15% með sér í verkfallið, þá getur ríkisvaldið ekki annað en gefist upp og samið.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Skuldavandi heimilanna er eitthvert skýrasta dæmið um hvað er í gangi. Ríkisvaldið munar ekki um að snara út milljörðum á milljarða ofan til að redda fjármálaauðvaldinu, en þegar kemur að heimilunum, þá er eins og ekkert sé hægt. Það er ekki eins og fólk sé að biðja ríkið að gefa sér peninga. Leiðrétting á höfuðstóli er bara viðurkenning á því að með hruninu hefur orðið algjör forsendubrestur. Nú, og afskriftir eru afskriftir á peningum sem eru ekki til -- ógreiddum afborgunum sem aldrei var reiknað með til að byrja með. Þessar skuldir eru uppskáldaðar og það á bara að stinga á þær. Það er eina leiðin.
Hagsmunasamtök heimilanna eru að verða að afli sem er ekki hægt að hunsa. Ríkisstjórnin hefur þráast við, en er á undanhaldi og sífellt meiri brestir koma í vörnina. Fleiri og fleiri koma fram og eru meðmæltir einhvers konar niðurfærslu eða leiðréttingu. Það mun líka enda þannig, og eins gott að játa það bara strax. Ef þriðjungur landsmanna verður keyrður í gjaldþrot, þá er úti um friðinn í landinu. Ef 15% landsmanna fara í greiðsluverkfall, þá verður samið við þá.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Við þá vinstrimenn, sem hafa bitið það í sig að skuldaleiðrétting sé óréttlát, við ég segja: (a) Hækkanir á höfuðstóli eru óréttlátar og mér er sama hvort fólk "getur" borgað eða ekki. Maður borgar ekki skuldir sem maður hefur ekki unnið til. (b) Þetta snýst ekki um að sleppa þeim ríku á kostnað hinna fátæku. Ef einhverjir ríkir sleppa í leiðinni, þá verður bara að hafa það, en að sjálfsögðu á að hafa eitthvert hámark. (c) Aðalástæðan fyrir tregðu stjórnvalda að leiðrétta skuldirnar er ekki sú að það sé svo ósanngjarnt. Nei, þessar húsnæðisskuldir eru verðmætustu eignir bankanna og uppistaðan í eiginfé þeirra, er það ekki? Leiðrétting á þeim þýðir afskrift á stórum hluta eiginfjár bankanna. Það eru m.ö.o. hagsmunir auðmagnsins að halda fólki í skuldafjötrunum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Áður en einhver fer að barma sér yfir lífeyrissjóðunum: Það á að þjóðnýta þá og endurskipuleggja lífeyriskerfið allt saman sem hreint gegnumstreymiskerfi, jafna lífeyrisgreiðslur í áföngum og hætta að safna upp sjóðum sem nýtast hvort sem er aðallega auðvaldinu og binda hagsmuni okkar við hagsmuni þess. Kauphöllin hrynur a.m.k. einu sinni á hverri meðalstarfsævi og það er ekkert nema heimska að safna heyi í hlöðu sem maður veit að mun brenna. Auk þess borðum við ekki peningana, heldur það sem við fáum fyrir þá þegar við tökum þá út. Með öðrum orðum: Þegar við komumst á lífeyri, þá lifum við áfram á hagkerfinu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Á flokksráðsfundi VG á dögunum, lagði ég fram ályktunartillögu sem hljóðaði svo:

Flokksráðsfundur VG á Hvolsvelli í ágúst 2009 lýsir áhyggjum af skuldastöðu heimilanna í landinu. Þar eð til stendur að efna til greiðsluverkfalls frá og með 1. október nk., lýsir fundurinn samúð [eða samstöðu] með þeim heimilum sem sjá fram á óbærilegan skuldabagga.
Heimilin í landinu hljóta að ganga fyrir bönkunum. Fundurinn skorar á ríkisstjórnina að leysa málið með því að leiðrétta óverðskuldaða eignaupptöku sem heimilin hafa orðið fyrir en eiga enga sök á, til dæmi með því að færa niður höfuðstól húsnæðislána.
Vegna þess að knappur tími gafst til umræðna á flokksráðsfundinum, lagði ég sjálfur til að tillögu minni yrði vísað til stjórnar flokksins, og bauðst jafnframt til að taka sjálfur þátt í umræðu þar. Það var samþykkt með lófataki. Fyrir hálfum mánuði var hún svo afgreidd og mér tilkynnt um það að VG mundu halda "áfram þeirri vinnu sem er í gangi til að létta á skuldastöðu heimilanna frekar en að lýsa samúð með fólki í erfiðri stöðu [leturbreyting VV]".

Dagurinn sem allir eru jafnir

Á jafndægri á hausti skín sólin nákvæmlega 12 klukkutíma alls staðar á jörðinni.

Til hamingju með daginn!

Thursday, September 17, 2009

Fundur um greiðsluverkfall í kvöld

Bendi fólki á fundinn í kvöld þar sem fjallað verður um yfirvofandi greiðsluverkfall sem byrjar 1. október.

Framsögur munu halda Þorvaldur Þorvaldsson, Aldís Baldvinsdóttir og Einar Árnason hagfræðingur og auk þeirra verða í panel Ólafur Arnarson, Björn Þorri Viktorsson og greiðsluverkfallsstjórn Hagsmunasamtaka heimilanna.

Wednesday, September 16, 2009

Af okkur

Eldey er alveg við það að byrja að skríða. Það er eiginlega skilgreiningaratriði hvort hún byrjaði á því í gær eða hvort það verður á morgun. Hún er nýbyrjuð í ungbarnasundi fyrir lengra komna.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Var að senda þetta til Tryggingamiðlunar Íslands:
Góða kvöldið.
Áðan var hringt í mig og mér boðin "tryggingamiðlun". Fyrir utan það að ég er fullfær um það sjálfur að afla mér upplýsinga og setja mig í samband við fyrirtæki ef ég kæri mig um tryggingar, þá var hringt klukkan 19:08. Á þeim tíma er flest heiðarlegt fólk að borða kvöldmat. Rímar þetta við það sem þið segið á forsíðunni, um "góða þjónustu"? Þið megið bóka það að ef ég kæri mig einhvern tímann um ráðleggingar í tryggingamálum, þá mun ég snúa mér til keppinautarins.
Kveðja, Vésteinn Valgarðsson
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í dag og í gær fór Vantrú í Háskóla Íslands og skráði 35 manns úr ríkiskirkjunni. Við verðum aftur á morgun og hinn!

Sunday, September 6, 2009

Að Helga Hóseassyni látnum

Það hryggir mig að Helgi Hóseasson sé dáinn án þess að hafa fengið bót sinna mála. Hann var maður með hjartað á réttum stað, ofvaxna réttlætiskennd og ótrúlegt baráttuþrek. Málstaður hans var réttur og það var ríkiskirkjan sem beitti hann ranglæti, les: Sigurbjörn Einarsson. Þótt Helgi sé loksins hættur, þá heldur baráttan áfram og henni linnir ekki fyrr en með fullum sigri og aðskilnaði ríkisins frá hjátrú, kreddum og forneskju.

Wednesday, September 2, 2009

Átta tesur

Ríkisstjórnarseta skiptir miklu, en til eru mál sem veg of þungt til að eftirgjöf sé ásættanleg.

1. Sá sem vill ekki ganga í Evrópusambandið sækir hvorki um aðild að því né kýs flokk sem gerir það.

2. Sá sem vill stöðva stóriðjustefnu lætur hvorki álversframkvæmdir í Helguvík halda áfram óáreittar né kýs flokk sem gerir það.

Lesa rest á Egginni: Átta tesur.

Wednesday, August 19, 2009

Almennar aðgerðir í efnahagsmálum

Einstaklingsbundnar plástraleiðir sem ríkisstjórnin boðar eru í besta falli ófullnægjandi hálfkák.

Heimilin í landinu þarfnast almennra aðgerða sem leiðrétta yfir línuna þá óréttlátu eignaupptöku sem hrunið hafði í för með sér. Persónulega finnst mér að það eigi að færa vísitöluna aftur til 1. janúar 2008 og stilla þannig húsnæðisskuldir heimilanna upp á nýtt, en aðrar leiðir geta komið til greina. Um leið ætti að afnema verðtrygginguna.

Hverjir borga fyrir þetta? Annars vegar má segja að enginn geri það. Skuldir gjaldþrota fólks eru ekki eignir heldur tapað fé og á ekki að bókfæra öðruvísi. Hins vegar má segja að bankarnir og lífeyrissjóðirnir borgi, með því að missa stóran hluta af bókfærðum eignum sínum. Ég græt þurrum tárum yfir bönkunum. Þá á að leggja niður sem verkfæri fjármálaauðvaldsins með annarlega einkahagsmuni, og láta í staðinn samfélagslega rekin fjármálafyrirtæki veita fjölskyldum og fyrirtækjum fjármálaþjónustu.

Lífeyrissjóðina á líka að þjóðnýta og breyta því kerfi algerlega. Lífeyrir á að vera greiddur úr ríkissjóði, fyrir skattfé en ekki uppsafnaða sjóði. Sparifé verður aldrei meira virði en það sem fæst fyrir það, m.ö.o. verður það alltaf hagkerfi samtímans sem stendur undir lífeyrisþegum. Höggvum burtu milliliðinn og kúplum hagsmuni vinnandi fólks frá fjármálamörkuðum.

Thursday, August 13, 2009

Af skipulagsmálum

Fasteignaspekúlantar, sem hafa meira af peningum heldur en samfélagslegri ábyrgð, stunda það að kaupa gömul hús og láta þau níðast niður til þess að fá að rífa þau og smíða arðbæra lágkúru í staðinn.
Okkur íbúum í miðbæ Reykjavíkur, og annars staðar þar sem niðurrotnunarstefnan er viðhöfð, þykir súrt í brotið að sjá svona umgengni um hverfin okkar.
Í kvöld er borgarafundur um málið, í Iðnó klukkan 20. Ort af því tilefni:

Ryðgar blikkið, raftar fúna, rúður brotna.
Aumt er að horfa á auðvaldsdrottna
eiga bæinn og lát'ann grotna.

Friday, July 24, 2009

Í kvöld: Kreppa og bylting

Ég vek athygli á þessum fundi í kvöld:

Kreppa og bylting

föstudag 24. júlí kl. 20:00

Málfundur Rauðs vettvangs um leiðina út úr kreppu auðvaldsins og uppbyggingu byltingarhreyfingar á Íslandi.
Framsögumenn Vésteinn Valgarðsson og Þorvaldur Þorvaldsson, félagar í Rauðum vettvangi.

Umræður og ráðagerðir.

Hluti af Rauðum dögum í Reykjavík 2009

Wednesday, July 22, 2009

Rauðir dagar

Ég vek athygli á Rauðum dögum í Reykjavík, sem Rauður vettvangur stendur fyrir:

Fimmtudag: ESB? Nei takk!

Föstudag: Kreppa og bylting

Laugardag: Útifundur fyrir sjálfstæði Íslands og Hugmyndasmiðja og kvöldverður

Tuesday, July 21, 2009

Hvert á VG að stefna?

Fundur umræðuhóps sósíalista innan VG, þriðjudag 21. júlí kl. 20 í Suðurgötu 3 í Reykjavík.

Er flokkurinn á réttri leið í ríkisstjórninni?

* Hvað með ESB-aðild?
* Hvað með Icesave-málið?
* Hvað með velferðarkerfið og önnur mál?
* Hvaða aðrir valkostir eru í stöðunni?

Stuttar framsögur og umræður.

Allir eru velkomnir, ekki síst þingmenn VG.

Thursday, July 16, 2009

Vont

Það er vont að Alþingi skuli samþykkja að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Samfylkingin er annað hvort skammsýn, tækifærissinnuð eða trúir eigin áróðri, nema allt þrennt sé. Ísland er ekki á leið inn í Evrópusambandið. Í fyrsta lagi munum við ekki borga þessar skuldir sem ætlast er til af okkur. Getum það hvorki né viljum. Í öðru lagi mun fólk tæplega samþykkja afsal á auðlindum eða fullveldi (erum við annars fullvalda ríki í alvörunni?). Í þriðja lagi uppfyllum við ekki einu sinni skilyrðin. Þegar þessi kurl koma til grafar, verður aðildin felld á einu eða öðru stigi og Samfylkingin mun tapa því pólitíska kapítali sem hún hafði lagt undir, með öðrum orðum mjög miklu. En þar sem það gætu kannski verið einhver ár í það hefur forystan greinilega ekki miklar áhyggjur.

Mér leiðist þessi ESB-umræða. Eins og við vitum ekki nokkurn veginn hvað ESB-aðild innifelur? Samfylkingin er bjánaleg í þessu máli, en Sjálfstæðisflokkurinn er kannski ennþá hlægilegri þegar hann óskapast yfir lýðræðinu og að tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla sé nauðsynleg, annars sé lýðræðinu stefnt í voða. Góður þessi.

Dapurlegast finnst mér samt kannski að sjá VG hjálpa ESB-afstyrminu í heiminn. Ég kaus ekki VG til þess að styðja inngöngu í ESB og IceSave-skuldaánauð.

Tönn

Fyrsta tönnin kom í ljós í Eldeyju í gær.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Úff -- það hrannast upp verkefnin þegar maður bregður sér af bæ. Það er ekki lítið illgresi í garðinum hjá mér í augnablikinu...

Tuesday, June 23, 2009

Bylting eða landflótti

Ég hef orðið var við að fólk hafi hermt upp á mig stuðning við ríkisstjórnina. Ég styð hana að því leyti að ef hún færi frá núna, kæmi varla neitt betra í staðinn. Ég styð það líka að kratarnir fái að spreyta sig. Besta leiðin til að fólkið skilji nauðsyn byltingarinnar hlýtur að vera að umbótasinnarnir sýni fyrst hvers þeir eru megnugir, eða réttara sagt hvers þeir eru ekki megnugir. Er Kerenskí-stjórn ekki nauðsynlegur undanfari byltingarinnar?
Já, ríkisstjórnin hefur sannarlega stuðning minn -- og hann bæði gagnrýninn og skilyrtan. Ég gagnrýni það sem mér þykir gagnrýni vert, en styð hana þó -- með því skilyrði að hún hætti við ESB-umsókn, gangi úr EES og NATÓ, sýni IMF fingurinn, þjóðnýti grunnstoðir samfélagsins, leiðrétti húsnæðisskuldirnar, boði til stjórnlagaþings, lækki stýrivextina og afskrifi IceSave-skuldirnar. Að lokum legg ég til að ríki og kirkja verði aðskilin.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þessa dagana sér maður ýmsar hugleiðingar um það í umræðunni, hvernig sé hægt að rétta efnahag landsins við. Ýmsar hugmyndir, misjafnlega frumlegar en margar góðar, allt frá innspýtingu í markaðssetningu á landinu til þjóðnýtingar á jöklabréfunum og að þau yrðu látin standa undir atvinnusköpun. Ágætar hugmyndir, ef þær kæmu fram í venjulegu árferði. En ástæðan fyrir hremmingunum núna er ekki skortur á frumkvæði eða mistök við markaðssetningu. Hvernig væri að byrja á að leiðrétta höfuðstól húsnæðislána, og segja nei við IceSave-skuldbindingunum?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ríkisstjórnin endurómar til okkar hræðsluáróðri um að við verðum skóggangsmenn í samfélagi þjóðanna ef við borgum ekki IceSave og hér fari fyrst allt til andskotans ef við dirfumst að snerta á vísitölunni til að lækka höfuðstól húsnæðisskulda. Svo ég noti orð Steingríms J. sjálfs, þá er þetta óábyrgt rugl. Hótanir Breta og Hollendinga eru hugsaðar til þess að hræða okkur og eru að miklu leyti blöff. Ég skil að þeir hóti okkur, en að Steingrímur og Jóhanna hóti okkur? Hvað er málið? Og með húsnæðisskuldirnar: Ef þær væru leiðréttar, þá mundi eigið fé bankanna væntanlega lækka. Þar liggur náttúrlega hundurinn grafinn. Það eru hagsmunir fjármálaauðvaldsins sem eru í húfi, er það ekki?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það eru ákveðin atriði sem verða að komast í framkvæmd. Mér liggur við að kalla það sögulega nauðsyn. Annað hvort gerir ríkisstjórnin það sem þarf að gera, eða þá að það gerist einhvern veginn öðru vísi. Annað hvort leiðréttir hún húsnæðisskuldirnar eða það verður greiðsluverkfall. IceSave verður ekki borgað: Annað hvort neitar ríkisstjórnin eða ríkið verður ófært um að borga. Annað hvort göngum við ekki í ESB vegna þess að ríkisstjórnin hættir að berjast fyrir því, eða vegna þess að ríkisstjórnin mun bíða ósigur í þjóðaratkvæði.
Ef þessi ríkisstjórn gerir þetta ekki, þá neyðumst við til að taka til eigin ráða. Ef ríkisstjórnin ætlar að reyna að synda á móti straumi sögulegrar nauðsynjar, þá verði henni að góðu. Þá er það bylting eða landauðn.

Sunday, June 14, 2009

IceSave

Ég er alveg bit yfir þingflokki Vinstri-grænna, alveg bit. Ef það er meirihluti innan hans fyrir því að undirrita IceSave-ábyrgð, þá veit ég ekki hvaða orð eru nógu sterk til að lýsa hug mínum. En fúll verð ég. Við sem ekki ætlum að borga þessar skuldir eigum þrjá valkosti ef Alþingi samþykkir samninginn: Flýja land, gera byltingu eða lifa undir ratsjá skattayfirvalda þangað til skuldirnar eru greiddar, lifa á beiningum, ránum, sorpi og svörtu braski. Í millitíðinni þarf að sýna þeim stuðning sem mæla af ábyrgð, eins og Lilju Mósesdóttur og Guðfríði Lilju Grétarsdóttur.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ef það verður bylting hérna á næstu mánuðum, þá fer nú að koma tími til að stofna byltingarlfokk, er það ekki?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Jón Karl skrifar hugleiðingu á Eggina: Virkar kommúnismi?

Thursday, June 4, 2009

Af fundi hjá SFR

Árni Stefán Jónsson, formaður SFR og sitjandi formaður BSRB, sat fund með Steingrími J. Sigfússyni og Jóhönnu Sigurðardóttir, þar sem staðan í kjarasamningum hefur væntanlega verið aðalmál á dagskrá.

Fyrir lífi ríkið rær,
rekkum mjög til ama.
Árni Stefán áheyrn fær
en ekki Dalai Lama.

Friday, May 29, 2009

Af okkur

Eldey Gígja dafnar vel, verður mannalegri og mannalegri með hverjum deginum. Hún er nú rétt orðin fjögurra mánaða og er mjög efnileg. Ég er kannski svolítið hlutdrægur. Æi, ætli manni fyrirgefist það ekki.
~~~ ~~~ ~~~
Ég hef ekki farið mikinn á netinu undanfarið, hvorki á bloggi né annars staðar. Barnastúss tekur náttúrlega tíma, en frítími hefur aðallega farið í garðvinnu. Ég er búinn að sá og planta mjög miklu af matjurtum, búa til matjurtagarða þar sem áður voru grasblettir í garðinum, og næst á dagskrá er að hlaða grjóti. Hef gripið stein og stein á ferðum mínum um bæinn, en fór áðan við þriðja mann og við sóttum á að giska eitt og hálft tonn af grjóti kerru. Það er samt bara brot af því sem þarf áður en yfir lýkur. Ég hlakka vægast sagt mikið til að fara að hlaða af alvöru.
~~~ ~~~ ~~~
Eftir púl í garðinum er fátt betra en að fá sér einn ískaldan. Ég hef undanfarið lagt mig eftir því að smakka nýjar og nýlegar íslenskar bjórtegundir. Brugghúsið í Ölvisholti kemur sterkt inn; Mungát er hreint sælgæti, Móri hinn ljúffengasti líka og Skjálfti sömuleiðis. Lava er ekki eins fyrir minn smekk; imperial stout höfðar ekki svo til mín. Meðal annarra sem verðskulda meðmæli eru Jökull og Skriðjökull frá Stykkishólmi, og svo sá sem trónir á toppi íslenskra lagera: El Grillo. Öll þessi nýju brugghús eru þörf og tímabær viðbót við ölmenningu Íslands.

Vonbrigði eða...

Ég veit ekki hvort ég get sagt að ég hafi orðið fyrir vonbrigðum með nýju ríkisstjórnina. Það er ekki það að ég sé ánægður með hana, heldur frekar að ég bjóst ekki við neinu byltingarkenndu af henni. So far hefur hún skilyrtan/gagnrýninn stuðning minn: Ef hún drullast til þess að bæta hag heimilanna og hættir að mylja undir auðvaldið, hættir við að sækja um ESB-aðild, lækkar stýrivexti, gengur úr NATÓ og segir AGS að fokka sér, þá skal ég styðja hana. Þangað til gagnrýni ég hana. Læt það alla vega duga, til að byrja með.
~~~ ~~~ ~~~
Hér eru svo þrjár greinar sem ég skora á fólk að lesa

Þórarinn Hjartarson skrifar um Michael Hardt og Antonio Negri: „Kommúnistar“ gefa hnattvæðingunni heilbrigðisvottorð
Óli Gneisti Sóleyjarson skrifar um Dalai Lama: Hans heilagleiki herra Lama
Svanur Sigurbjörnsson læknir skrifar um Detox: ... og afeitrun Jónínu Ben flytur heim
~~~ ~~~ ~~~
Það verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr viðræðum aðila markaðarins um "stöðugleika". Ætli sá "stöðugleiki" verði á kostnað vinnandi fólks, eins og alltaf? Skyldi það nokkuð vera?

Tuesday, May 5, 2009

Hetja?

Vísir greinir frá: Stríðshetja fær háþróaða gervifætur frá Össuri.
Hvers vegna er honum valin einkunnin stríðshetja? Lítur Vísir á það sem hetjuskap að þjóna hernámsöflum í Írak? Eða drýgði hann hetjudáðir meðan hann var þar? Særðist hann kannski þegar hann steig á jarðsprengju þegar hann var að bjarga börnum út úr brennandi húsi? Ég er forvitinn, hvort er hann hetja eða ekki?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Jón Karl skrifar á Eggina: Anarkistar vs. kommúnistar?

Friday, May 1, 2009

3 mánuðir

Eldey varð þriggja mánaða á föstudaginn var. Buðum nánustu ættingjum í heimsókn. Grilluðum í holu úti í garði. Þessir þrír mánuðir hafa liðið hratt.
Eldey dafnar vel. Þegar hún fór í þriggja mánaða skoðun sýndi mæling að frá níu vikna skoðun hafði hún þyngst um 600 grömm og lengst um 3 sentimetra. Með sama áframhaldi verður hún, þegar hún kemst á minn aldur, um 280 kíló að þyngd og um 14 metrar á hæð.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég hef ekki mikið getað unnið í garðinum undanfarið, en það kemur að því að ég geti farið að gera það. Ég er meðal annars ekki viss um að matjurtagarðurinn verði neitt sérstaklega merkilegur í ár. Eða réttara sagt, þá verður hann það varla úr þessu.

Verkalýðshreyfing í kreppu?

Verkalýðshreyfingin hefur tekið ýmsum breytingum í tímans rás, eftir því hvernig þjóðfélagsaðstæður hafa breyst. Þessa dagana breytast þær hratt, og því er rétt að ræða hlutverk og eðli stéttarfélaganna nú, hvaða verkefni þjóðfélagið setur þeim fyrir og hvernig hagsmunum vinnandi fólks er best borgið. Hreyfingin má ekki vera feimin við að endurskoða sjálfa sig í takt við kröfur samtímans.

Það er auðvitað kreppan sem breytir öllu. Þótt hún sé skilgetið afkvæmi fjármálaauðvaldsins, þarf að hafa hraðar hendur til þess að hún dragi ekki allt þjóðfélagið niður. Verkalýðshreyfingin þarf að standa sameinuð og föst fyrir ef hún ætlar að rækja hlutverk sitt í þessari baráttu.

Lesa rest á Egginni: Verkalýðshreyfing í kreppu?

Friday, April 24, 2009

Hvað á að kjósa?

Í kosningum má gróflega skipta byltingarsinnum í tvo hópa, þá sem vilja frekar styðja skásta kost heldur en ekkert, og þá sem neita að styðja borgaraleg framboð. Nú eru sjö framboð sem munu keppa um hylli kjósenda á laugardaginn kemur, öll borgaraleg. Ég ætla hvorki að eyða orðum í hægriflokkana fjóra né Ástþór Magnússon að sinni. Þá eru eftir Vinstrihreyfingin-grænt framboð og Borgarahreyfingin, framboðin tvö sem vekja mesta athygli fólks sem vill alvöru breytingar.

Thursday, April 9, 2009

Að vera kommi en kjósa krata

Steingrímur J. segir: Ekki tveir turnar heldur þrír.

Ég vil byrja á að taka það fram að ég reikna með að kjósa VG í komandi kosningum.

Steingrímur segir tillögur VG vera "hófstilltar" og "ábyrgar" -- ég skal ekki dæma um það, en er núna tíminn fyrir "hófstilltar" tillögur? Ég meina, ástandið sem íhaldið skildi eftir sig er ekki beint hófstillt, er það? Ef þið spyrjið mig væri nær að setja fram róttækar tillögur. Og ábyrgar? Ábyrgar gagnvart hverjum?

Ég mun kjósa VG nema eitthvað makalaust komi upp á, og ég hvet aðra til hins sama. Hinir flokkarnir eru meira og minna handónýtir. Að því sögðu, þá er rétt að fram komi að þótt VG séu besti kostur í stöðunni, þá má samt finna ýmislegt að þeim. Tékkið á þessu:

Af efnahagsmálum á landsfundi Vinstri-grænna og:
VG og sósíalisminn eftir sjálfan mig, og:
Nokkur orð um VG eftir Þórarinn Hjartarson.

Farið svo og kjósið VG, en ekki halda að þið séuð að kjósa einhvern sósíalistaflokk, hvað þá kommúnistaflokk. VG er vinstrikratískur flokkur, en sá besti sem við eigum í stöðunni.

Monday, April 6, 2009

Köllum það sínu rétta nafni

Jónas Kristjánsson skrifar:
Hugmyndafræði [Alþjóðagjaldeyris]sjóðsins er gömul og úrelt, af sumum fræðimönnum beinlínis talin vera glæpsamleg.
Þetta er út af fyrir sig rétt hjá honum. En til að kalla hlutina sínum réttu nöfnum, þá kallast þessi stefna heimsvaldastefna á mannamáli: Alþjóðavæðing fjármálaauðvaldsins og hæsta stig auðvaldsskipulagsins. Það verður ekki bakkað frá henni, aftur á bak í hagþróun. Eina leiðin út úr þessari bóndabeygju er áfram -- kollvarpa auðvaldsskipulaginu, og taka í staðinn upp nýtt þjóðskipulag á öðrum og manneskjulegri forsendum: Lýðræði, mannréttindi, réttlæti og skynsemi eiga að vera útgangspunktarnir. Með öðrum orðum, sósíalismi.

Thursday, April 2, 2009

A-manneskja

Eldey vaknaði um hálfsjö-leytið í morgun. Öllum að óvörum rak hún upp skellihlátur.
Það er allavega greinilegt að hún hefur ekki morgungeðvonskuna úr föðurættinni.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Afhendingar tvær:

Litlu vil ég lofa um hvað leysa kratar,
formenn þeirra og flokkasnatar.

En bráðum kemur byltingin með blóm í haga,
og sósíalíska sumardaga.
Mér skilst að Ísland taki við færri flóttamönnum en nokkurt annað vestrænt ríki. Hverslags ræfilgangur er þetta, að þykjast ekki geta veitt hröktu og örvæntingarfullu fólki athvarf? Einhvern tímann var talað um hvað Íslendingar væru gestrisnir. Ætli þeim hafi fundist það, Böskunum sem Ari í Ögri drap hér um árið? Eða gyðingunum sem voru sendir aftur í klærnar á nasistum? Ætli við höfum lært eitthvað af þeim dýrkeyptu mistökum?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Réttindi kvenna hafa oft verið notuð sem átylla fyrir árásarstríðinu og hernáminu á Afganistan. Talibanar voru svo vondir en Ameríkanar eru svo góðir, nefnilega. Þess vegna er það víst kvenfjandsamlegt að vilja að Afganistan verði sjálfstætt ríki. Eða, það mætti halda það ef maður tryði áróðrinum. Stjórnarskrá landsins ku taka það fram að engin lög megi brjóta í bága við íslam. Þessi frétt segir líka sitt. Mér þykir lítið standa eftir af meintum ávinningi afganskra kvenna af hernáminu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hvers vegna á Omar al-Bashir að sætta sig við að vera tekinn fastur vegna ódæða í Darfur, ef George Bush fær að leika lausum hala þrátt fyrir ódæði í Írak, Afganistan, Sómalíu, Kúbu, Bandaríkjunum og víðar?

Á ráðstefnunni sem við Rósa fórum á í Cairo í fyrra, talaði Rósa við konu frá Súdan. Sú hélt nú ekki að það væri neitt þjóðarmorð í gangi í Darfur. Seisei nei. Tryðum við öllu sem við læsum í fjölmiðlum? Við skyldum bara skella okkur þangað sjálf og sjá með eigin augum. Ættum við á hættu að verða myrt eða nauðgað eða eitthvað slíkt? Við ættum það líka á hættu ef við værum stödd í, segjum, New York, er það ekki?

Þetta dugði nú ekki alveg til að sannfæra okkur um að allt væri með felldu í Darfur, og við höfðum ekki tíma til að þekkjast heimboð konunnar góðu.

Wednesday, April 1, 2009

VG og sósíalisminn

Það er grein eftir mig á Egginni í dag -- VG og sósíalisminn:
Á landsfundi Vinstri-grænna var lögð fram ályktunartillaga, sem ég var meðflutningsmaður að, þess efnis að Vinstrihreyfingin-grænt framboð væri sósíalískur flokkur og skyldi kalla sig það. Flokkurinn væri nú þegar yfirlýstur feminískur og umhverfisverndarsinnaður, en verkalýðsmálin hefðu orðið útundan og því skyldi kippa í liðinn með þessari yfirlýsingu. Samþykkt var að vísa tillögunni, lítið breyttri, til flokksráðs til afgreiðslu. Þetta segir sitt.
Lesa restina: VG og sósíalisminn

Thursday, March 26, 2009

Eldey Gígja dafnar vel. Hún sást fyrst brosa í mánaðarafmælinu sínu, og í fyrradag átti hún tveggja mánaða afmæli og sást þá brosa út í annað, í fyrsta sinn svo ég viti. Eftir nokkuð vesen með viðgerðir er barnavagninn kominn í nothæft ástand og hagt að fara út að ganga með hana í honum. Þetta er stórskemmtilegt, verð ég nú bara að segja.

Óánægja með landsfund VG

Ég lofaði því á mánudaginn að ég skyldi gera nánar grein fyrir óánægju minni með landsfund VG, nánar tiltekið óánægju með afgreiðslu ályktunar um bráðaaðgerðir í húsnæðismálum. Ég hef nú skrifa grein, sem birtist á Egginni í morgun, þar sem ég reifa málið. Gerið svo vel:

Monday, March 23, 2009

Af landsfundi VG

Ég er mjög, mjög ánægður með ályktunina sem var samþykkt um að stefna bæri að aðskilnaði ríkis og kirkju, og að styrkja skyldi jafnrétti og frelsi í trúmálum til muna. Það var mjög góð niðurstaða og það þótt fyrr hefði verið.

Ég er hins vegar mjög vonsvikinn vegna meðferðar Steingríms J. á ályktun um bráðaaðgerðir vegna húsnæðisskulda. Svo óánægður að það skyggir á allt annað. Mér finnst ábyrgðarhlutur að þegja þegar manni er misboðið í svona málum, og mun ég því skrifa nánar um það í grein á morgun eða hinn. Ég ætla að spara yfirlýsingar þangað til. Fyrir utan smá kveðskap:

Lofa vil ég litlu um hvað leysa kratar,
formenn þeirra og flokkasnatar.

En bráðum kemur byltingin með blóm í haga:
og sósíalíska sumardaga.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Bretar læra viðbrögð við hryðjuverkum. Þvílík djöfulsins della. Þetta er hræðsluáróður og ekkert annað. "Hryðjuverk" eru einhver uppblásnasta ógn okkar tíma. Hræðsla fólks er notuð til að skerða persónufrelsi, kortleggja manneskjur, gera jaðarhópa tortryggilega og hækka valdbeitingarstig ríkisvaldsins. Já, og líka til að kyrkja Landsbankann í Englandi og bregða fæti fyrir flugfarþega. Djöfulsins della!

Saturday, March 21, 2009

Hér á Íslandi er hvorki verið að hverfa aftur til einfalds kapítalisma né tvöfalds kapítalisma, heldur bara óldskúl pilsfalds kapítalisma.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég gekk í VG fyrir fjórum vikum, og í dag (s.s. föstudag) var á á landsfundi flokksins. Þessi fæddist þar:

Verður þess minnst, er hægri her
hrundi, með kynstrum sleginn.
Gæfan finnst þó: Grasið er
grænna vinstra megin.

Friday, March 20, 2009

"einfaldur kapítalismi"

Það er tómur hugarburður að það sé hægt að "hverfa frá villtum kapítalisma til einfalds kapítalisma". Það er ekki hægt frekar en að við getum horfið aftur til lénsveldisins. Leiðin frá villtum kapítalisma liggur ekki aftur á bak í tíma, til einhvers skáldaðs hagkerfis þar sem kapítalisminn var saklaus og tær, heldur liggur leiðin fram á við, til sósíalismans. Lausnin er að skipuleggja hagkerfið þannig að það uppfylli þarfir fólks og fari vel með fólk, náttúru og auðlindir.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
"Ísraelar unnu voðaverk" -- svei mér fréttir það.