Monday, February 23, 2009

Ég er í VG

Ég fór á skrifstofu VG á föstudaginn og skráði mig í flokkinn. Ástæðan er auðvitað yfirvofandi prófkjör. Þótt stefna flokksins hafi verið vinstri-kratísk og borgaraleg, og ég þar af leiðandi ekki viljað vera félagi, hef ég veitt skilyrtan stuðning hingað til. Ég veit nefnilega að talsverður fjöldi sósíalista er innan VG og að flokkurinn gæti verið staður fyrir sósíalista. Ég fullyrði ekkert um það að sinni. En ef það er einhvern tímann raunhæft að koma sósíalisma að, þá hlýtur það að vera í komandi prófkjöri. Eftir það sem gekk á í haust og vetur, heimtar þjóðin að fá val um eitthvað allt annað en kapítalisma. Það gæti oltið á prófkjöri VG hvort allt það fólk hefur eitthvað til að kjósa í vor eða ekki. Ég ætla að veita þeim brautargengi í prófkjörinu í Reykjavík, sem ég treysti best til að spyrna gegn áhrifum auðvaldsskipulagsins. Ég ætla að leggja mitt af mörkum og vona að aðrir geri hið sama.

Saturday, February 21, 2009

4

Eldey Gígja varð fjögurra vikna í dag og dafnar vel. Þessar fjórar vikur hafa verið fljótar að líða. Ég hef lært það, meðal annars, að fæðingarorlof er ekki eins og frí. Það er margt sem ég sinni ekki eins og ég gerði fyrir nokkrum vikum síðan. En ég býst við að ég megi kallast forfallaður af gildum ástæðum.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Um daginn þurfti ég að fletta nokkrum símanúmerum upp í símaskránni, og opnaði hana á réttri blaðsíðu -- tvisvar sinnum. Mér leið eins og ég hefði farið holu í höggi tvisvar sama daginn.

Talandi um símaskrána, þá las ég hana loksins um daginn, þ.e.a.s. myndasöguna. Hún var ágæt.

Thursday, February 19, 2009

Þjóðnýtum!

Katrín Jakobsdóttir vill að listaverk í eigu bankanna verði gerð að ríkiseign. Það er sjálfsagt að gera það, en það sem meira er, og ennþá sjálfsagðara, er að bankarnir verði áfram í ríkiseign. Í leiðinni á að þjóðnýta aðrar eignir auðmannanna sem stóðu að bankahruninu. Það er það minnsta sem hægt er að fara fram á, að eignir þeirra gangi upp í skuldirnar, fyrstra manna. Annað er einfaldlega ekki sanngjarnt. Það mætti hugsa sér að ríkið yfirtæki allar eignir þeirra á Íslandi (og erlendis, ef það er hægt), borgaði þeim sæmilega fyrir þær í formi skuldauppgjafar að hluta, og tæki síðan við rekstri t.d. Bónus, dagblaðanna o.s.frv. Tónlistarhúsið við Reykjavíkurhöfn ætti vitanlega að vera með í þessu. Í leiðinni ætti að bjóða öðrum fyrirtækjum svipuð kjör, að ríkið yfirtaki þau sem eru gjaldþrota og reki þau áfram eða eftirláti starfsfólkinu að reka þau áfram. Niðurstaðan ætti að verða sú að lykilatvinnugreinar í landinu, þar á meðal allt fjármálalíf, yrðu reknar á félagslegum forsendum.

Wednesday, February 18, 2009

Ég á barn

Það er mjög merkileg tilfinning að eignast sitt fyrsta barn, svona, ef þið vissuð það ekki. Ég bjóst þó við einhvers konar "vá, ég er orðinn pabbi"-sjokki, en það hefur ekki komið ennþá. Kannski kemur það, hver veit. Mér skildist líka að fólk yrði vanalega hissa á því hvað nýfædd börn væru krumpuð og fjólublá. Nú, Eldey Gígja Vésteinsdóttir var það ekki. Auk þess hélt hún haus þegar hún fæddist. Ég var mest hissa á því hvað hún var mannaleg frá fyrstu mínútu.

Eldey Gígja er frísk og spræk. Hún sefur samt misjafnlega vel á nóttunni.
Það þýðir að við Rósa sofum líka misjafnlega vel á nóttunni.

Ekki ríður spillingin við einteyminginn...

...þá komið er á Framsóknarþingin. Hvers vegna er ekki búið að þurrka þennan flokk út?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Pétur Tyrfingsson ætlar í framboð fyrir Samfylkingu. Er hann ekki flokksbundinn Vinstri-grænn?

Monday, February 9, 2009

Stefnuskrá Rauðs vettvangs

Rauður vettvangur er hreyfing sem setur sér það markmið að taka þátt í umsköpun þjóðfélagsins á Íslandi þannig að í stað kapítalismans rísi nýtt þjóðfélag þar sem lýðræði, jafnrétti, jöfnuður og mannréttindi allra verði í fyrirrúmi. Við viljum að hagkerfið og stofnanir þjóðfélagsins verði rekin á félagslegum forsendum, í þágu almennings í landinu, að allir njóti arðsins af vinnu sinni og taki þátt í að skipuleggja hana. Við viljum að framtak og frumkvæði verði leyst úr viðjum auðmagnsins, svo mannlíf og menning fái að blómstra.

Lesa framhaldið: Stefnuskrá Rauðs vettvangs

Sunday, February 8, 2009

Stærstu fréttir af lífi mínu til þessa

Það hefur verið langt stórra högga á milli hér á þessu bloggi undanfarið. Ástæðan fyrir því fæddist fyrir hálfum mánuði síðan. Rósu konu minni og mér fæddist þetta líka myndarlega stúlkubarn, 17 merkur að þyngd, 53 cm að lengd, þann 24. janúar. Hún heitir ekkert ennþá, en úr því rætist áður en langt um líður.

Þetta er semsé skýringin á því hvað lítið hefur borið á mér á netinu að undanförnu. Það kemur með öðrum orðum til af góðu. Ég hef bara haft mikilvægari hnöppum að hneppa. Er það ekki annars til marks um að maður sé sannur byltingarsinni, að þegar byltingin kemur, þá sé maður á fæðingardeildinni?

Þessa dagana...

Mér finnst makalaust að sjá hvernig Sjálfstæðismenn klóra í bakkann og reyna að bjarga skinni síns aflóga flokks. Eins og að tala um "pólitísk afskipti" af Seðlabankanum -- hvað eru það annað en pólitísk afskipti af Seðlabankanum að skipa Davíð Oddsson seðlabankastjóra?

Og "pólitískar hreinsanir"? Hvað á að gera annað en að leggjast í pólitíska ormahreinsun, þegar heilt stjórnkerfi er sýkt af pólitískum hringormum? Og tal um "málefnaágreining" eða "hatur á einum manni"? Í augum Sjálfstæðismanna er heilagur Davíð náttúrlega ósnertanlegur. Gagnrýni á hann hlýtur að vera af vafasömum hvötum og persónuleg. Makalaus málflutningur.

Ég held að um þessar mundir megi skipta Sjálfstæðismönnum í nokkra hópa: Þeir sem skilja í alvörunni ekki, þeir sem vilja ekki skilja, þeir sem þykjast ekki skilja, þeir sem skilja en halda sig til hlés og svo þeir sem skilja og hafa þess vegna snúið baki við flokknum.

"Búsáhaldabyltingin" hafði pólitískt takmörkuð markmið, sem nú eru öll komin fram nema ormahreinsunin í Seðlabankanum. Hún er eftir, og ég trúi því nú ekki að árar verði lagðar í bát fyrr en Davíð er kominn út með skófar á rassinum.

"Búsáhaldabyltingin" steypti gömlu ríkisstjórninni. Úrtölumennirnir, sem gátu ekki séð neitt að gömlu ríkisstjórninni og höfðu meira á móti Herði Torfasyni heldur en Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, töluðu oft um hvað það væri mikill VG-bragur á þessum mótmælum. Ég ætla ekki að eyða orðum í úrtölurnar, að öðru leyti en þessu: Eru þær að rætast núna? Er nýja ríkisstjórnin byltingarstjórn? Er hún það sem við stefndum öll eða flest að?

Mér finnst gott að núverandi ríkisstjórn sé komin til valda. Ég get veitt henni gagnrýninn stuðning að ýmsu leyti, en fyrst og fremst er gott að VG fái tækifæri til að spreyta sig og sýna hvað í þeim býr. En ég vil þreifa áður en ég trúi. Stefnuskrá VG er vinstri-kratísk og ég á von á að efndirnar verði samkvæmt því. Kannski koma VG mér skemmtilega á óvart. Kannski afhjúpa þau kratískt getu- og viljaleysi til að glíma við vandamálin. En þegar vandamálið er auðvaldið sjálft, þá er lausnin augljóslega ekki kratísk.

Vandamálin eru ekki farin neitt og þau fara ekkert á næstu 80 dögum, hvað þá ef kratar eiga að leysa þau. Það mun rísa upp ný mótmælaalda þegar ekkert bólar á lausnunum, og sú mótmælaalda mun setja fram róttækari kröfur og fylgja þeim betur eftir.