Tuesday, September 28, 2021

Efni sem breyta tilfinningunum

Það var einn félagi minn sem var svo þunglyndur að hann leitaði til geðlæknis sem skrifaði upp á lyf fyrir hann. Hann byrjaði að taka lyfið en hætti því eftir nokkra daga. Sagðist ekki kunna við að vera að taka inn eitthvert efni sem breytti tilfinningunum hans.

Þannig að í staðinn tók hann bara upp þráðinn við að drekka áfengi í miklu magni.

Tuesday, September 21, 2021

Afsakanir kjósenda

Versta sóunin á atkvæði er að kjósa fólk sem segir eitt en gerir annað.

Eins og vinstrimenn sem sögðust fyrir fjórum árum ætla að "kjósa taktískt í þetta sinn", héldu að þeir hljómuðu ógurlega gáfulega og kusu síðan VG til að "sóa ekki atkvæði sínu". Þeir sóuðu atkvæði sínu. Bon appétit.

Ef ég hefði fengið eitt atkvæði fyrir hvert skipti sem ég hef heyrt þessa afsökun, þá væri ég á alþingi núna.

Tuesday, September 14, 2021

Of hófsamar viðvaranir

Maður heyrir stundum forstjóra Landspítalans segja að nú sé ástandið komið "að hættumörkum", þótt allir sem vinna á gólfinu á Landspítalanum -- og flestir aðrir líka -- viti að það er löngu komið yfir þessi hættumörk, að spítalinn er að molna og mygla í höndunum á okkur vegna fjársveltis og annarra pólitískra fáráða hægrimanna allra flokka undanfarna áratugi.

Og næsta oft vara loftslagsvísindamenn við því að hnattræn hlýnun sé farin að "nálgast" varasamt stig, að nú þurfi að fara að fara að stíga niður fæti og gera eitthvað. Heldur einhver að svona hófsamt orðalag hvetji einhvern til dáða? Hagsmunaöfl auðvaldsins taka hófseminni þannig að það liggi ekkert á, og ef fólk tekur sterkar til orða munu þau þykjast vera móðguð eða sár eða að dónaskapur sé ekki svaraverður. Á meðan jörðin brennur.

Fortölur duga ekki til, hvorki til að bjarga Landspítalanum né umhverfinu. Hvorki hófsamar né gífuryrtar fortölur. Vegna þess að það eru hagsmunaöfl sem halda í hinn endann. Fortölur eða rök hagga hagsmunum yfirleitt ekki. Til þess þarf vald. Sem sést best á því að þessir sömu hagsmunir eru varðir með valdi, ekki með rökum. Það þarf með öðrum orðum byltingu. Og núna er smáborgaralega heybrókin hætt að lesa.

Ef það á að rökræða allt þangað til allir verða sammála, mun ekkert breytast. Eins og þegar íhaldið heimtar "sátt" um breytingar á stjórnarskránni eða kvótakerfinu.

Þegar er komið yfir þessi hættumörk -- hvernig haldið þið að sé þá umhorfs? Í tilfelli Landspítalans verður þjónustan verri, pláss yfirfyllast, biðlistar lengjast, starfsfólkið bugast og mórallinn versnar, fólki er vísað frá, fólk vísar sjálfu sér frá áður en það kemur vegna þess að það á ekki fyrir komugjöldum... Í tilfelli loftslagsins? Ástralía brann í fyrra. Nú Kalifornía og Rússland. Móðan í loftinu er meira að segja meiri en af eldgosinu sem er við hliðina á okkur.

Surtur fer sunnan með sviga lævi ...... sól tér sortna. Vituð ér enn, eða hvað?

Hvað þarf eldurinn að vera kominn nálægt þínu húsi áður en þú leggur frá þér hvítvínsglasið og hættir að dást að eldrauðu sólarlaginu?

Tuesday, September 7, 2021

Stjórnmálahreyfing sem minnir á sértrúarflokk

Pólitísk skyldleikaræktun leiðir til pólitískrar úrkynjunar.

Það er engum hollt að lesa bara það sem hann er sammála eða trúir. Eins og bókstafstrúarmaðurinn sem les ekkert nema það sem aðrir bókstafstrúarmenn skrifa. Ef hin hliðin er bara bull, þá er samt hollt að þekkja hana.

Krati sem hefur ekki lesið Þjóðfélagsumbætur eða byltingu eftir Rósu Luxemburg, eða anarkisti sem hefur ekki lesið Ríki og byltingu eða Vinstri róttækni eftir Lenín -- eiga mikið eftir ólært.

Svo verður fólk sér bara til skammar þegar það kannast aðeins við aðra hliðina. Ég man eftir einum dönskum anarkista sem baulaði eitthvað sem hann hafði séð í kvikmyndinni "Land and Freedom" um vondu kommúnistana sem myrtu góðu anarkistana í spænska borgarastríðinu. Sem eyðilögðu allt. Flón, lestu þér til. Lestu um verkföllin í hergagnaverksmiðjunum, sem anarkistarnir og trottarnir skipulögðu, og grófu þannig undan stríðsátaki lýðvæeldisins að halda mætti að þeir hefðu verið agentar úr fimmtu herdeildinni. Hafðirðu ekki heyrt um það? Og trúir mér kannski ekki? Kannski hefðirðu átt að hlusta á fleira en áróðurinn einan.