Monday, December 31, 2012

Gamli sáttmáli 750 ára

Það rann upp fyrir mér nýlega að á árinu sem er við það að klárast, væru liðin 750 ár frá því Gamli sáttmáli var gerður. Það er kannski orðið of seint að halda upp á afmælið úr því sem komið er, en hefði varla verið óeðlilegt í sjáfu sér. Gamli sáttmáli var eins konar ESB-aðild síns tíma. Íslenska höfðingjastéttin var að rífa landið á hol í innbyrðis erjum og menn sættust að lokum á að beygja sig undir erlent yfirvald til að fara með æðstu málefni landsins, og Noregskonungur var þá nærtækastur.

Mér finnst næg líkindi með Sturlungaöld og Gamla sáttmála, og seinustu árum lýðveldistímans og ESB-aðild, til þess að mér þætti eðlilegt að ESB-sinnar héldu upp á þetta stórafmæli með pompi og prakt.

Og í leiðinni getur samningur um ESB-aðild Íslands heitið: Nýi sáttmáli.

Thursday, November 29, 2012

Alltaf talað fyrir friði

"Ísland hefur ávallt talað fyrir friði í Mið-Austurlöndum" (RÚV í gær)
Góður þessi!

Wednesday, November 28, 2012

Það er ekki sama, fjöldamorð og fjöldamorð

Það hafa ekki margir séð ástæðu til að skrifa um fjöldamorðin í Bani Walid. Hvað þá til þess að mótmæla þeim. En félagi Jón Karl lætur ekki sitt eftir liggja. Lesið grein hans, Bani Walid opinberar hræsni “alþjóðasamfélagsins” og “friðarsinna”.


Friday, October 26, 2012

Slök útkoma íhaldsins í þjóðaratkvæðagreiðslunni

Bjarni Benediktsson og föruneyti hans hafa gert mikið úr því að kosningaþátttakan hafi verið slök í þjóðaratkvæðagreiðslunni um síðustu helgi og að þau 66,9% sem sögðu já við fyrstu spurningunni séu í raun bara helmingur þeirrar tölu, þar sem helmingur kjósenda hafi setið heima og séu þar af leiðandi andvíg nýju stjórnarskránni. En hvað boðaði Bjarni sjálfur? Ekki hjásetu, hann boðaði að fólk ætti að mæta á kjörstað og segja nei. Það gerðu 33,1% þeirra sem kusu. Eða með öðrum orðum, hálft sautjánda prósent landsmanna. Ef það er hlutfallið sem fylgir Bjarna að málum, þá er eitthvað að þokast í rétta átt í þessu landi.

Ég verð að segja að tölurnar um kirkjuna eru ekki bara vonbrigði, heldur koma þær á óvart, enda á skjön við það trend undanfarinna ára að um það bil tveir þriðju hlutar landsmanna vilji aðskilja ríki og kirkju. Hins vegar þekki ég bæði fólk sem er trúlaust og skilaði auðu í þeirri spurningu, og fólk sem vill aðskilnað, misskildi spurninguna og merkti við "já" þegar það meinti "nei". Það hljóta að vera fleiri. Kannski skekkti það niðurstöðuna að spurningin hafi verið gölluð. Eða kannski að kirkjan hafi gengið í gegn um "rebranding" með nýjum biskupi og snaraukið viðskiptavildina í einum hvelli.

Ég og Zippo-kveikjarinn minn

Ég byrjaði að ganga með Zippo-kveikjara áður en ég byrjaði að reykja. Þeir eru ekki bara svalir, heldur gætu þeir líka hugsanlega stöðvað byssukúlu sem væri skotið að manni.

Nú, þegar ég hafði reykt pípu um hríð, fékk ég mér pípu-Zippó. Eldhólfið er lokað að ofan en opið á hliðunum, þannig að maður geti lagt hann láréttan ofan á pípuna og sogið logann ofan í tóbakið. Eldurinn hefur vitanlega ekki alveg eins gott skjól og í venjulegum Zippó, en feykinóg samt, enda þarf meiri gust til að slökkva bensínloga.

Jæja, veikleikinn við pípuzippóinn er að lokið ofan á eldhólfinu er laust, eða, réttara sagt, það er klemmt ofan í hólfið, og ekki beinlínis fast við neitt. Það er kannski ekki hægt að kalla það hönnunargalla, þar sem það þarf að vera hægt að losa það af ef þarf að skipta um kveik -- en það er engu að síður veikleiki á annars pottþéttu tæki.

Ég var í teiti um daginn, þar sem félagi minn missti zippóinn góða úr höndunum, lokið datt af eldhólfinu og niður á milli borða í palli úti í garði, þar sem það hefði kostað verulega mikið umstang að ná því upp aftur. Sökudólgurinn tók strax að sér að redda málunum og fór með kveikjarann í umboðið, en þessi lok voru ekki til á lager þar. Þeir voru hins vegar allir af vilja gerðir -- enda ævilöng ábyrgð á Zippókveikjurum -- og sendu kveikjarann alla leið til Þýskalands, þar sem nýtt lok var sett á hann. Í leiðinni var þolinmóðurinn í hjörunum hertur, skipt um bómullarinnvolsið og alltsaman fægt upp og var eins og nýtt þegar ég fékk hann til baka, miklu fyrr en ég átti von á. Auk þess fékk ég heilan brúsa af kveikjarabensíni í kaupbæti, og umboðið ku vera komið með svona lok, eins og mig vantaði, á lager, þannig að næsti kúnni með sama erindi fái jafnvel ennþá greiðari afgreiðslu.

Þetta kalla ég þjónustu. Það eru til ýmsar ástæður fyrir því að reykja tóbak -- misgóðar auðvitað -- en að hafa ástæðu til að ganga með zippókveikjara á sér, það er tvímælalaust ein af betri ástæðunum.

Thursday, October 25, 2012

Hommanýlendan í Hálsaskógi

Það þarf ekki skyggnigáfu til að átta sig á því, hvers vegna það eru eintómir strákar í Dýrunum í Hálsaskógi, ekki frekar en í Strumpalandi.

Vísa um Guðmund og Róbert

Ég orti þessa um daginn, í vikunni þegar Róbert Marshall gekk til liðs við Guðmund Steingrímsson á Alþingi:

Að hann hrósi sigri senn
síst ég tel, né inni
fái Gvendur marga menn
með Marshallaðstoðinni.

Evran svínvirkar -- í alvörunni

Í sumar las ég alveg dúndurgóða grein um evruna, eftir kanadíska rannsóknarblaðamanninn Greg Palast. Svo góða, að ég bað um og fékk leyfi til að þýða hana og birta á Egginni. Lesið hana:

Evran er mjög árangursrík – án gríns

Wednesday, October 10, 2012

Umræður um nýju stjórnarskrána

Það er kominn ágætur umræðuvefur um nýju stjórnarskrána: http://stjornarskra.yrpri.org/

Lenín um Evrópusambandið

Lesið grein Leníns á Egginni: Slagorðið um Bandaríki Evrópu.

Friday, October 5, 2012

Fundur á morgun um framtíð íslenskrar vinstrihreyfingar


Það er best að ítreka þetta fundarboð:

Rauður vettvangur boðar til fundar í Iðnó laugardaginn 6. október kl. 13. Framsögumenn verða Andrés Magnússon geðlæknir, Guðbergur Egill Eyjólfsson bóndi og háskólanemi, Sigurlaug Gunnlaugsdóttir sagnfræðingur og Þorvaldur Þorvaldsson trésmiður.

Nú þegar æ fleiri vinstrimenn þykjast sviknir af stefnu núverandi ríkisstjórnar vaknar umræðan um þörf fyrir nýjan, trúverðugan vinstriflokk fyrir næstu kosningar. Á vinstrisinnuð ríkisstjórn að bjarga einkareknum bönkum og viðhalda aðstöðu þeirra til að féfletta almenning, eða að taka fjármálastofnanir í þjónustu fólksins? Á vinstrisinnuð ríkisstjórn að binda íslenskt samfélag á klafa evrópsks auðvalds til frambúðar, eða styrkja fullveldið þjóðinni til hagsbóta? Á vinstrisinnuð ríkisstjórn að auka ítök auðvaldsins á auðlindum lands og sjávar, eða efla félagsleg yfirráð þjóðarinnar yfir þeim? Þessar og fleiri spurningar þurfa vinstrimenn að ræða af alvöru og finna niðurstöðunni farveg við hæfi.

Thursday, October 4, 2012

Framtíð íslenskrar vinstrihreyfingar

Rauður vettvangur boðar til fundar í Iðnó laugardaginn 6. október kl. 13. Framsögumenn verða Andrés Magnússon geðlæknir, Guðbergur Egill Eyjólfsson bóndi og háskólanemi, Sigurlaug Gunnlaugsdóttir sagnfræðingur og Þorvaldur Þorvaldsson trésmiður.

Nú þegar æ fleiri vinstrimenn þykjast sviknir af stefnu núverandi ríkisstjórnar vaknar umræðan um þörf fyrir nýjan, trúverðugan vinstriflokk fyrir næstu kosningar. Á vinstrisinnuð ríkisstjórn að bjarga einkareknum bönkum og viðhalda aðstöðu þeirra til að féfletta almenning, eða að taka fjármálastofnanir í þjónustu fólksins? Á vinstrisinnuð ríkisstjórn að binda íslenskt samfélag á klafa evrópsks auðvalds til frambúðar, eða styrkja fullveldið þjóðinni til hagsbóta? Á vinstrisinnuð ríkisstjórn að auka ítök auðvaldsins á auðlindum lands og sjávar, eða efla félagsleg yfirráð þjóðarinnar yfir þeim? Þessar og fleiri spurningar þurfa vinstrimenn að ræða af alvöru og finna niðurstöðunni farveg við hæfi.

Wednesday, October 3, 2012

Skiptir kirkjuspurningin ekki máli?

Í kosningunni 20. október er ekki spurt hvort fólk vilji hafa þjóðkirkju eða ekki, en það er spurt hvort fólk vilji hafa þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskrá eða ekki. Kirkjunnar menn skrifa sumir, þessa dagana, um að spurningin sé þess vegna ekki svo merkileg. En þeir ætla nú samt að kjósa að hafa ákvæðið kyrrt. En ef spurningin er svona ómerkileg, þá ættu þeir (með sömu rökum) varla að amast við því heldur, að fólk hafni ákvæðinu.
Stjórnarskráin ætti auðvitað að áskilja fullt trúfrelsi fyrir alla, að trú sé einkamál hvers og eins og að ríkið skipti sé ekki af henni. En það er ekki kosið um það, bara hvort eigi að vera þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskránni. Ef menn vilja yfirhöfuð hafa þjóðkirkju, þá duga venjuleg lög alveg til þess. Eða, duga þau ekki fyrir flestar aðrar stofnanir ríkisins?
Stjórnarskrárákvæðið, eins og það er nú, er ákveðin hindrun í veginum fyrir aðskilnaði (þó tekið sé fram að "þessu megi breyta með lögum"). Það er fráleitt að hafa ákvæðið áfram "nokkra áratugi í viðbót" eins og einhver stakk upp á. Frestur er á illu bestur. Kirkjan verður látin róa, það er bara tímaspursmál, og auðvitað vill hún draga það eins og hægt er, að verða tekin af spenanum.

Tuesday, September 25, 2012

Við sama heygarðshornið

Ríkisútvarpið greinir frá því að Ahmadinejad Íransforseti sé "við sama heygarðshornið" og hóti Ísraelum öllu illu. Fjölmiðlar éta það upp hver eftir öðrum að hann boði tortímingu Ísraels, og má skilja af orðunum að hann meini eitt rosalegt blóðbað, fjöldamorð á gyðingum. Þessi dólgur.
Þegar ég les svona frétt, er ég feginn að hafa lesið greinar eins og þessa. Tilfellið er að orð Ahmadinejads hafa aftur og aftur -- og aftur og aftur og aftur -- verið slitin úr samhengi. Fólk á tilverurétt, ríki ekki. Rasismi, aðskilnaðarstefna og hernám eiga ekki rétt á sér og pólitísk mannvirki sem byggjast á þessum eða öðrum mannréttindabrotum ekki heldur. Lesið greinina, hún skýrir þetta vel.
Áróður er ekki eitthvað sem hvarf af sjónarsviðinu þegar Kalda stríðinu lauk. Íran er eitt af næstu skotmörkum heimsvaldastefnunnar, og aðal hótanirnar hafa verið af hálfu Ísraels í garð Írans. Gleymum því ekki, að Ísrael er eina kjarnorkuveldið í þessum heimshluta, og hefur Bandaríkin á bak við sig. Stór hluti af stríðinu gegn Íran er áróðursstríð, þar sem Ahmadinejad er stillt upp eins og blóðþyrstu villidýri, orð hans tekin úr samhengi og undirliggjandi merkingin að þessum brjálæðingi verði að koma frá völdum með góðu eða illu.
Ég efast um að höfundur fréttarinnar, sem ég vísaði á í upphafi, hafi hlustað á ræðuna og skilji persnesku. Líklegra er að fréttin sé bara þýdd. Hrá og gagnrýnislaust.
Ekki það, að ég skil ekki persnesku heldur, og hef ekki lesið þessa ræðu. En miðað við afbakaðan fréttaflutninginn hingað til -- og miðað við frétt IRNA af þessari ræðu -- þá efast ég um að þarna sé sanngjörn umfjöllun á ferðinni.

Wednesday, September 19, 2012

Besta snjóskófla í heimi

Ég er farinn að hlakka til fyrstu snjókomunnar. Fyrstu 30 ár ævi minnar fannst mér svona tiltölulega leiðinlegt að moka heimreiðina, en lét mig hafa það. Í fyrravor fékk ég hins vegar í bakið -- og það er alls ekki gaman að vera bakveik hengilmæna þegar þarf að moka snjó. Þannig að ég fór í Brynju fyrir tæpu ári og hafði einfalda ósk: Ég vildi fá hina fullkomnu snjóskóflu. Karlinn hélt nú það, rétti mér eina alveg rosalega, með löngu og miklu skafti og svona sköfuhaus. Við venjulega snjókomu er ég núna svona 10-15 sekúndur að moka heimreiðina hjá mér, en uppundir hálfa mínútu ef snjórinn er mjög mikill. Ef ég moka líka innkeyrsluna bætist önnur hálf mínúta við. Og ekki nóg með það, heldur er líka rosalega skemmtilegt að moka með henni. Þannig að ég segi við snjóinn eins og Hallgrímur við dauðann: Kom þú sæll nær þú vilt.

Tuesday, September 18, 2012

Eigin peningastefna

Seðlabankastjóri er sleginn yfir vondri reynslu af eigin stefnu Íslendinga í peningamálum undanfarinn áratug. Ekki skal ég þræta fyrir það. En lexían er ekki að það sé slæmt að hafa eigin peningastefnu, heldur að það sé slæmt að hafa slæma peningastefnu. Árinni kennir illur ræðari.

Ég vil líka fá 20% launahækkun

Maður skyldi ætla að velferðarráðherra með sómakennd mundi ekki hækka laun forstjóra Landspítalans um 20%, og ætlast á sama tíma til þess að spítalinn haldi að öðru leyti áfram að herða sultarólina. Nú ku vera svo mikil þörf fyrir hjúkrunarfræðinga í Noregi, að allir íslenskir hjúkrunarfræðingar gætu fengið vinnu þar, og á hærri launum en hér. Samkvæmt því ætti Guðbjartur að hækka launin þeirra líka um 20%.
Það fer betur á því að Björn skeri upp heldur en að hann skeri niður.

Tonn af rusli ... þau eru nú víða

Áhugafólk um að Hafnarfjarðarhraun þjóni ekki sem sorphaugur, hefur tínt óhemjumagn af rusli í Hafnarfjarðarhrauni, og er það vel. Ég fór í Heiðmörk í gær, ætlaði að fara í berjamó en hefði betur ætlað í ruslamó. Þar er allt fullt af andskotans drasli, hvar sem maður kemur. Sígarettustubbar, tómar dósir, fjúkandi plast og pappadrasl. Aldeilis paradísin.

Thursday, September 13, 2012

Andstaðan við ESB-andstöðuna

Spurning: Hvað kallar maður fólk sem segist vera á móti aðild Íslands að ESB (eða eins og það orðar það sjálft svo varfærnislega, að „telja hagsmunum Íslands betur borgið utan ESB“) en kýs samt með aðildarumsókn? Kýs með umsókn eða styður hana? Það eru til ýmis kjarnmikil nöfn á það, en í minni heimasveit heitir það að vera tækifærissinni.

Tækifærissinni hefur það höfuðmarkmið að komast til valda. Völdin eru ekki verkfæri, heldur eru þau sjálft markmiðið. Að við höfum völdin til þess að hinir hafi þau ekki. Við höfum okkar skoðanir, en erum tilbúin að semja um þær í staðinn fyrir völd.

Það er aumkvunarverð afstaða að þykjast vera á móti aðild, styðja samt umsóknina og aðildarferlið, og hatast svo út í ESB-andstæðinga sem beita sér í alvörunni gegn umsókninni og aðildarferlinu.

Í október í hittifyrra skrifaði Árni Þór Sigurðsson eina svona grein, „Evrópuvakt í gíslingu öfgahægrimanna“. Honum finnst Styrmir Gunnarsson og Björn Bjarnason vera svo miklir delar að það sé vont að þeir séu áhrifamiklir í andófshreyfingunni gegn ESB. Ég skrifaði athugasemd sem einhverra hluta vegna hvarf af Smugu-vefnum (einskær tilviljun, er ég viss um) en þökk sé Evrópuvaktinni (!) getið þið ennþá lesið hana. Árni getur trútt um talað, hvernig ESB-andstæðingar eigi að haga baráttu sinni. Ef þeir greiddu allir atkvæði eins og hann gerði sjálfur, þann dimma dag 16. júlí 2009, þá þyrfti Evrópusambandið ekki stuðningsmenn á Íslandi.

Nú höggva Elías og Huginn í sama knérunn í annarri svona grein á Smugunni: Teboðshreyfing á Íslandi? Þeir standast það ekki að hnýta í þá VG-félaga sem meina það þegar þeir segjast vera á móti ESB-aðild, og reyna sama ódýra bragðið og Árni Þór, að spyrða þá saman við öfgahægriöfl og stilla þeim upp sem leiksoppum þeirra. Við skulum átta okkur á einu: Þótt ESB-sinnar séu tiltölulega einsleitur hópur, þá eru ESB-andstæðingar það ekki. Ég hef mínar góðu og vinstrisinnuðu ástæður fyrir að vera í alvörunni á móti ESB-aðild. Hægri-andstæðingar hafa annars konar ástæður. Niðurstaðan er samt sú sama: Nei við ESB. Í máli eins og þessu þurfa menn, sem eru ósammála um flest annað, að kyngja annarri misklíð og snúa bökum saman fyrir sameiginlegan málstað í einsmálssamtökum eins og Heimssýn. Ef Árni, Elías og Huginn meina það sem þeir segja, þá verður það ekki skilið öðruvísi en að þeir vilji að ESB-andstæðingar séu sundraðir. Dragi nú hver sem vill sínar ályktanir af því.

Við þessa herramenn – og alla aðra sem eru ESB-andstæðingar í hjartanu en eru svo pragmatískir að þeir hegða sér þveröfugt – vil ég segja og spyrja: Ef þið viljið ekki að öfgahægriöfl ráði ESB-andstöðuhreyfingunni, af hverju eftirlátið þið þeim þá sviðið? Af hverju látið þið ekki til ykkar taka og leggið vinstriandstöðunni lið? Eruð þið kannski meira á móti ESB-andstöðu heldur en ESB-aðild?

Saturday, September 8, 2012

Enn eitt álverið?

Þegar VG settist í ríkisstjórn, hafði ég jarðbundnar væntingar, en ég leyfði mér að halda að það yrði í það minnsta bundinn endir á stóriðjustefnuna. En Century Aluminium ætlar að ræsa álver í Helguvík 2015. Eins og spámaðurinn sagði í ágústtesunum: Sá sem vill stöðva stóriðjustefnu lætur hvorki álversframkvæmdir í Helguvík halda áfram óáreittar né kýs flokk sem gerir það.

Thursday, August 30, 2012

Ég er genginn úr VG

Ég hef sagt skilið við Vinstrihreyfinguna – grænt framboð og hætti um leið í stjórn VG í Reykjavík og öllum öðrum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Ástæðan er megn óánægja með störf og stefnu flokksins í ríkisstjórn, ásamt því að ég tel fullreynt að gera þær breytingar sem nauðsynlegar væru til að ég gæti átt samleið með flokknum.

Stjórnarsáttmálinn vissi á illt frá upphafi, þar sem flokksforystan lét undan í öllum aðalatriðum og fékk lítið í staðinn, og það við aðstæður sem fáir aðrir en smáborgaralegir tækifærissinnar í vinstrigæru hefðu getað gert. Fyrir tækifærissinna eru völd ekki verkfæri til að ná pólitísku markmiði, heldur eru völdin markmiðið sjálft. Sleikjuskapur við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sæmir ekki vinstrisinnaðri ríkisstjórn fullvalda ríkis, en er eðlileg hegðun fyrir smáborgaralega sýndarvinstristjórn sem er hvort sem er tilbúin til að selja fullveldið fyrir baunadisk. Úrræðaleysi í skuldamálum heimilanna sýnir glöggt að fjármálaauðvaldið hefur hér tögl og hagldir. Umsóknin um aðild að Evrópusambandinu var líka löðrungur sem erfitt verður að gleyma.

Ég segi skilið við VG vegna þess að ég er sósíalisti og VG er því miður ekki sósíalískur flokkur, heldur kratískur. Íslenskir kratar hafa undanfarin ár haft fordæmalaust tækifæri til að sýna hvað í þeim býr – eða, réttara sagt, að í þeim býr hvorki vilji né geta til að ganga gegn auðvaldsskipulaginu.

Ísland sárvantar sósíalískan flokk. Hann mun aldrei fæðast upp úr vopnahlésályktunum eða skilyrðislausri samstöðu með krötum og tækifærissinnum. Hið nýja verkefni er því að safna liði og stofna þennan flokk.

Wednesday, April 4, 2012

Cheney ekki lengur hjartalaus

Það var kominn tími til að Dick Cheney fengi hjarta. Þá vantar bara að einhver græði í hann samvisku og siðferðiskennd. Verst að það er ekki hægt að laga sakaskrá með skurðaðgerð, annars veitti honum ekki af því.

Monday, March 26, 2012

Ódýr hugsjón

Það er auðvelt fyrir Bandaríkjaforseta að tala fjálglega um eyðingu kjarnorkuvopna þegar hann er að tala um kjarnorkuvopnin sem hinir eiga. Hvernig væri að byrja á því að eyða megninu af sínum eigin kjarnorkuvopnum, og segja Bretum, Frökkum og Ísraelum að gera hið sama?

Monday, February 6, 2012

Hólavallakirkjugarður

Það væru nú ýkjur að segja að Reykjavík væri eitt samansafn af uppáhaldsstöðum, þótt það hvarfli stundum að mér. Á gönguferðum, sem eru oftast um eldri hluta borgarinnar, rek ég sífellt augun í staði sem mér finnst athyglisverðir eða hrífandi á einhvern yfirlætislausan hátt. Það er viss nautn að finna litla gullmola sem eru utan alfaraleiðar, margir vita ekki um og mörgum fyndist örugglega ekkert merkilegir þótt þeir vissu um þá. Það er engin kúnst að finna þá, það er nóg að horfa í kring um sig, taka eftir smáatriðunum og hafa gaman af þeim. Þúsund litlir vitnisburðir um hagleik, hugvit, sögu eða smekk, sem oft eru ætlaðir til heimabrúks en allir geta notið, sem á annað borð taka eftir þeim milli húsanna eða undir þakskeggjunum.

Mér dettur því margt í hug þegar ég er inntur eftir uppáhalds staðnum, enda er uppáhaldið síbreytilegt eins og flest í tilverunni. Það er samt einn staður sem trónir á toppnum og mér þætti gaman að sjá stað sem gæti keppt við hann. Þessi staður er hvorki lítill, leyndur né fáfarinn, og hann er svo sem ekkert frumlegur heldur. Hann heitir Hólavallakirkjugarður. Hann er almenningseign, fullur af sögu og framliðnum ættingjum og vinum. Sögu hans má finna á netinu eða bókasafninu, en ég ætla að segja af hverju ég held upp á hann.

Ég flutti á Hólatorg við norðurhlið kirkjugarðsins þegar ég var á fimmta ári, bjó þar í tuttugu ár og hafði garðinn fyrir útsýni, leikvöll og skjól. Ég man það eins og það hafi gerst í gær, þegar ég ákvað að láta varnaðarorð foreldra minna sem vind um eyru þjóta og fara og kanna þennan mikla garð sjálfur. Ég hef líklega verið fimm ára. Ég skaust óséður burt frá barnapíunni, og beint inn um hliðið á norð-vesturhorni garðsins. Rangalar myrkviðanna voru fljótir að gleypa mig og þar sem ég reikaði smeykur undir laufkrónunum, einn í heiminum og mál að pissa, fann mig geðstirður en miskunnsamur útigangsmaður, sem hjálpaði mér heim.

Með þessa lexíu í farteskinu – að ekki skal fara svo langt að maður rati ekki til baka – gat garðurinn opnast mér hæfilega hratt, með öllum þeim gæðum sem hann hefur að bjóða. Ber þar fyrst að nefna óviðjafnanlegt leiksvæði. Ég held að ég hafi aldrei reynt þar feluleik, enda væri það óðs manns æði. Garðurinn er hins vegar eins og hannaður fyrir eltingaleiki og hvers kyns ærsl. Alla vega í augum tíu ára drengs. Ég er nú vel upp alinn, og vinir mínir flestir líka, svo við pössuðum auðvitað að stíga ekki á leiðin þótt hamagangurinn væri mikill.

Þótt ég yxi upp úr skessuleikjum bernskunnar, fann ég mér ný not fyrir kirkjugarðinn. Þar er alltaf næði og þegar veðrið er gott er kjörið að leggjast á mjúkan blett og lesa, til dæmis fyrir próf. Þangað lá leiðin líka oft þegar ég var að byrja að reykja. Og auðvitað er stór skógarlundur með stígum og bekkjum líka kjörinn fyrir tilhugalíf, og reyndar líka fyrir rifrildi. Hvort sem það er sólskin eða þrumuveður.

Ég skil ekki af hverju sumir tengja kirkjugarða við dauðann. Fyrir mér eru þeir fullir af lífi: Þar ægir saman trjám og öðrum gróðri, örugglega hundruðum tegunda, og mér skilst að veggurinn umhverfis garðinn sé heimili fleiri mosategunda en nokkur annar staður á landinu. Svo vex þarna sveppur sem ku vera sjaldgæfur – fýluböllur heitir sá, og get ég vottað að það er réttnefni.

Við áttum kött sem Pamína hét, stælta bæði og djúpspaka. Hún eignaði sér að minnsta kosti fjórðung af kirkjugarðinum þegar hún var upp á sitt besta. Grá-hvítskjöldótt, með hvíta týru í rófubroddi, tvírifað aftan vinstra og svart leðurhálsband með göddum. Þessi ógnvaldur kirkjugarðsins lét engan eiga neitt inni hjá sér, síst af öllu fuglana.

Það er sagt að kirkjugarðarnir séu fullir af ómissandi fólki, og segja má að í stórum og gömlum garði liggi heilu þjóðfélögin. Móðurættin mín hefur búið lengi í Reykjavík og því eru margir ættingjar mínir grafnir í Hólavallagarði: Stóri bróðir minn, langafi og langamma, langalangafar og langalangaömmur og fleiri. Þegar amma mín var aðeins léttari í spori, fórum við stundum tvö saman með blóm í kirkjugarðinn, eða kerti eftir atvikum, en í seinni tíð geri ég þetta stundum einn.

Sá sem hefur gaman af að rölta um og líta í kring um sig, verður seint þreyttur á Hólavallakirkjugarði. Þessi vin í hjarta borgarinnar geymir óendanlega fróðleiksmola og maður sér alltaf eitthvað nýtt, hvort sem það er í gróðrinum eða höggvið í steinana. Það ættu öll börn að fá að njóta þeirra lífsgæða að alast upp með gamlan og gróinn kirkjugarð í hlaðvarpanum.

Vésteinn Valgarðsson

Þessi grein birtist í Reykjavík vikublaði í maí 2011. Ég birti hana hér ef ske kynni að einhver hefði gaman af því.

Monday, January 23, 2012

Fjölnisvegur í Þingholtunum?

Fréttastofa Ríkisútvarpsins:

"Glæsihýsi í Þingholtunum ... á Fjölnisvegi 11"

Nei, Fjölnisvegur er ekki í Þingholtunum.
Fasteignasalar ættu að setja sér reglur um hvar þeir segja að hús séu.

Wednesday, January 18, 2012

Lundinn í útrýmingarhættu

ÁTVR setur spurningamerki við sölu á íslensku neftóbaki um leið og það tekur (tímabundið?) fyrir sölu á Lunda og Skugga, grófkornóttu tóbaki sem er aðeins rakara en það íslenska, þótt standi "neftóbak" á miðanum. Kommon, kemur það einhverjum við í hvaða líkamsop fólk treður tóbaki sem það er búið að kaupa?

Thursday, January 12, 2012

Hleranir ekki hættar?

Mér hefur ekki verið tilkynnt um að það sé hætt að hlera símann minn. Það þýðir væntanlega að það sé ennþá verið að hlera mig.

(Vísir: Tugum tilkynnt um hleranir.)