Friday, March 30, 2007

Dylgjað um öfgamenn

Ég er að verða langþreyttur á dylgjum um ónafngreinda „öfgamenn“ í náttúruvernd. Um hverja er verið að tala? Við hvern eiga menn við? Er verið að tala um skyrslettara? Eða líka ljóðalesara? Eða fólk sem skrifar undir áskoranir? Eða kannski bara fólk sem er búið að fá nóg af þessari andskotans stóriðjustefnu? Og hvað er eiginlega „umhverfisverndarsinni í jákvæðri merkingu“, eins og ég sá einhvers staðar?
Ég hef velt því fyrir mér hvort íbúar höfuðborgarinnar séu kannski áhugalausir um afdrif landsbyggðarinnar. Hvort andstaða höfuðborgarbúa við virkjanir og álver á Austurlandi sé blönduð skilningsleysi á atvinnumálum eystra, eða því um líkt. Eiginlega er ég ekki viss um hvað svarið er. Ekki það, að alhæfingar í þeim efnum eru innistæðulausar.
Hins vegar ergir það mig hvernig það er eins og það sé opið skotleyfi á Reykvíkinga í orðræðunni. Má maður ekki leggja til málanna, eða hefur maður kannski sjálfkrafa rangt fyrir sér, ef maður er Reykvíkingur? Er ástæðulaust að hlusta á skoðanir Reykvíkinga vegna þess að þeir séu ófærir um að hafa vit á málunum, nema þeir séu stóriðjusinnar?
Það er sterk fylgni milli meiri menntunar og meiri áhuga á umhverfisvernd. Ég skil ekki hvernig það getur verið umhverfisvernd í óhag í augum nokkurs manns. Nema þá að viðkomandi sé þjakaður af einhverri meinloku varðandi menntun.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég las grein eftir Salman Rushdie og fannst hún svo góð að ég ákvað að þýða hana yfir á íslensku. Þannig að nú getið þið lesið hana líka: Skilið mér aftur gamla góða trúleysinu!“ og birtist á Vantrú í fyrradag.
Í umræðum eftir greinina er einhver Gummi, sem vísar í ritdóm Joe Kay:
Science, religion and society: Richard Dawkins’s The God Delusion“ -- og það er skemmst frá því að segja, að ég vildi að ég hefði skrifað þennan ritdóm sjálfur. Þannig að ég mæli með því að fólk lesi hann líka. Grundvallarpunktur Kays er að árangursrík barátta gegn hindurvitnum verður naumast háð nema í pólitísku samhengi við aðrar, og víðari, félagslegar vígstöðvar.

Thursday, March 29, 2007

Þýðingarvilla?

Mbl.is:
Bush brá sér í hlutverk uppistandara
Bestu viðtökurnar fékk Bush þó þegar hann sagðist áforma að skrifa ævisögu sína eftir að hann færi úr embætti og sagði að Bill Clinton hefði skrifað 10 þúsund blaðsíðna langa grafhvelfingu. [leturbreyting mín]
Sagði hann tomb eða sagði hann tome?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Baráttusamtökin? Frábært.

Monday, March 19, 2007

Frá Hebron...

Eva birtir lýsingu á atburðum gærdagsins, sem rangt voru hermdir á Mbl.is, auk þess að vísa í aðra palestínska frétt af málinu til viðbótar við þá sem ég hef þegar vísað í.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Önnur játning sem er ekki pappírsins virði sem hún er prentuð á. Píslarbekkirnir í Guantanamo eru ekki uppspretta trúverðugra heimilda heldur lyga, blekkinga og viðbjóðs.

Fundur í kvöld + fleira

4 ár frá innrásinni í Írak í dag.
Ég þarf varla að minna á það, en geri það samt, að það er fundur í kvöld og skyldumæting á hann:

Stundin: Mánudagskvöldið 19. mars, kl. 20
Staðurinn: Austurbær (gamla Austurbæjarbíó)
Dagskráin:
Ávörp: Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Helgi Hjörvar
Tónlistaratriði: XXX Rottweilerhundar, Ólöf Arnalds & Vilhelm Anton Jónsson
Upplestur: Bragi Ólafsson
Kynnir: Davíð Þór Jónsson
Aðstandendur: Hinir staðföstu stríðsandstæðingar:
Samtök hernaðarandstæðinga
MFÍK
Þjóðarhreyfingin - með lýðræði
Ung vinstri græn
Ungir Jafnaðarmenn

~~~ ~~~ ~~~ ~~~ ~~~ ~~~ ~~~ ~~~ ~~~ ~~~ ~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Að öðru:

Naumast eru það fréttirnar, ungur Íslendingur sagður handtekinn í Hebron. Ég veit ekki meira um þetta heldur en stendur í fréttinni. Nánasti aðstandandi hans bendir á það sem raunverulega gerðist. Það virðist sem Morgunblaðið hafi verið ónákvæmt. Ekki það, að það er mjög eðlilegt. Þegar hlutirnir gerast hratt í fjarlægum löndum er ekki auðvelt að átta sig á framvindu svona mála út frá takmörkuðum upplýsingum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hver er tilgangurinn með íslenskum fána í þingsal? Hvers vegna hefur Guðmundur Hallvarðsson ekki eitthvað brýnna við tíma sinn að gera en að berjast fyrir þessu?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í síðustu viku birtist greinaröð eftir mig á Vantrú, Strategískar ráðleggingar handa Þjóðkirkjunni I, II og III; ég var þegar búinn að vísa á fyrstu greinina, Opnið augun önnur greinin heitir Rætur vandans og sú þriðja: Ráðið ykkur framkvæmdastjóra.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Eggin birti á dögunum áskorun sem ber titilinn Friðsöm utanríkisstefna, eftir Lárus Pál Birgisson sjúkraliða og friðarsinna. Það var hún sem Lárus og félagar (ég þar á meðal) voru að afhenda stjórnmálamönnum fyrir framan Alþingishúsið þegar víglína tjáningarfrelsisins færðist til á miðvikudaginn var.

Saturday, March 17, 2007

Samúð með níðingum og hugleiðing

Flestir hafa almennt litla samúð með níðingum, en því meiri með þeim sem verða fyrir níðingshætti. Ég er engin undantekning þar á. Annað slagið hendir mig það þó. Já, ég get fengið samúð með hinum verstu bófum. Besta leiðin til að láta mig fá samúð með níðingi, er að láta hann í hendurnar á öðrum níðingi sem níðist á honum. Þá er hann ekki lengur í hlutverki níðingsins, heldur kominn í hlutverk fórnarlambsins. Með þessum hætti hafði ég samúð með Saddam Hussein -- sem ég hafði andstyggð á -- frá því hann var niðurlægður fyrir alþjóð og skoðað upp í ginið á honum og honum leitað lúsa, þangað til hann mætti dauða sínum af stillingu og karlmennsku.

Annar er sá sem ég játa fúslega samúð með: Khalid Sheikh Mohammed. Fjölmiðlar éta það hver upp eftir öðrum að hann hafi játað ábyrgð á 11. september. Ég veit ekkert um hvað hann játaði. Allt sem ég veit -- sem er það sama og fjölmiðlar vita -- er að bandarísk yfirvöld segja að hann hafi játað þetta og fleira. Þar að auki er vitað að hann hefur verið pyndaður til andskotans og aftur til baka, á meðan hann hefur verið í haldi Bandaríkjamanna. Er eitthvað mark takandi á því sem menn segja þegar er verið að pynda þá? Ég játa fúslega að ég dauðskelfist tilhugsunina, og mundi örugglega játa að hafa skotið Olof Palme ef ég væri pyndaður nóg.

Í þessu máli hafa bandarísk stjórnvöld hagað sér af algerum níðingsskap. Það er svosem ekki í fyrsta sinn, og varla það síðasta. Hér eru fréttir fyrir þá sem ekki vissu: Það er ekki vitund mark á því takandi sem menn segja þegar er verið að pynda þá. Ekki vitund. Það er heldur ekki tilgangurinn með pyndingum. Böðlar og aðrir sérfræðingar í pyndingum vita það manna best að vitnisburður og játning pyndaðs manns er einskis virði. Nema að einu leyti. Vitnisburðurinn um hvað pyndingarnar voru hræðilegar -- hann vegur þungt. Hann fer eins og logi um akur og fólk áttar sig á því hvað bíður þeirra sem setja sig nógu mikið upp á Valdinu.

Pyndingar eru terrorismi. Þær gegna því hlutverki að láta fólki -- einkum hinum herskárri stjórnarandstæðingum -- renna kalt vatn milli skinns og hörunds. Pyndingar kunna að vera gefnar út fyrri að vera einhvers konar yfirheyrsla, en raunverulegur tilgangur þeirra er ekki upplýsingaöflun heldur refsing -- grimmileg refsing -- sem er ætlað að vera öðrum víti til varnaðar.

Það er síðan ekkert annað en ógeðslegt að sjá fjölmiðlana éta þetta hvern upp eftir öðrum, eins og hundur snýr aftur til spýju sinnar. Meint einskisverð játning er þarna notuð til að stimpla því inn í hausinn á fólki að nú sé málið upplýst, afgreitt. Því er logið að okkur.

Því fastar sem maður kreppir hnefann utan um sandlúku, þess meiri sandur rennur milli fingra manns. Hver trúir því að stríð gegn hryðjuverkum geti verndað Vesturlandabúa til eilífðar fyrir illum suðurálfubúum? Það er ekki hægt að útiloka allar leiðir og fyrir menn sem eru tilbúnir að deyja fyrir málstaðinn er nóg að vera heppinn einu sinni. Fyrir utan þá dómadags heimsku Bandaríkjaforseta, ef hann vill ekki fá serkneskar sprengur í bandarískum borgum, hvað er þá best að gera? Jú: Færa Serkjum bandarísk skotmörk til Miðausturlanda! Þá sting ég frekar upp á að menn hætti að afla sér óvina með heimsvaldastefnu. Ég veit samt fullvel að sú uppástunga hefur varla nema áróðursgildi fyrir sjálfan mig. Ekki bið ég mink að láta hænsnabúið mitt í friði, eða hvað?

Þetta stríð gegn hryðjuverkum er fáránlegur skrípaleikur. Ég hef þegar nefnt að það er ekki hægt að útiloka allt, en þess utan er ekki hægt að ráðast á taktík. Mestu skiptir samt, að þetta svokallaða stríð gegn hryðjuverkum er alls ekkert stríð gegn hryðjuverkum. Þetta er hryðjuverk gegn fólki. Ein allsherjar, alhliða aðför að venjulegu, heiðarlegu fólki. Borgararéttindum sópað út af borðinu, eftirlit aukið til muna, skattpeningum veitt til hergagnaiðnaðar, málaliða og annarra ámóta erkióþokka. Hvað ætli við mundum hugsa um Bandaríkin, ef okkar helstu kynni af þeim væru að þau hefðu lokað fyrir vatn og rafmagn, drepið frændfólk okkar eða nágranna, og við mættum sífellt vera á verðbergi til að fá ekki sprengju í hausinn?

95. grein Almennra hegningarlaga er eitthvað á þessa leið:
Davíð Oddsson kallaði Saddam Hussein slíkum ónefnum í aðdraganda Íraksstríðsins, að ekki er hafandi eftir. Af hverju var hann ekki ákærður? Ætli þinghelgi hafi gert hann stikk? Talandi um það, þá var Robert Gabriel Mugabe kallaður afar óvirðulegum nöfnum í frétt í Morgunblaðinu í gær eða fyrradag. Væri rétt að kæra Styrmi Gunnarsson? Nei, ég bara spyr. Ætli þetta sé kannski ekki lengur refsivert?

Tuesday, March 13, 2007

Vantrú, Zimbabwe, VG, klám...

Það er grein eftir mig á Vantrú í dag, Strategískar ráðleggingar handa Þjóðkirkjunni I: Opnið augun heitir hún. Framhaldsgreinar munu birtast á næstu dögum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þetta auðlindaákvæði í stjórnarskrá er fíflaleg markleysa, móðgun við kjósendur. Ingibjörgu Sólrúnu fannst mér
mælast vel um það í Mogganum, hvað sagði hún, að með þessu væri verið að bregðast við vilja landsmanna með blekkingu? Eitthvað á þá leið.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég hef lesið margt og mikið að undanförnu. Ein allrabesta lesningin held ég samt að hafi verið svar Kristins Hrafnssonar, fyrir hönd Kompáss, við gremjuskrifum Karls Sigurbjörnssonar, fyrir hönd Þjóðkirkjunnar, vegna Kompássþáttar fyrir skemmstu. Ef þetta fór framhjá einhverjum, þá má sjá bæði bréfin á vef Kompáss. En sú flenging.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Nú taka einhverjir andköf vegna slæmrar meðferðar á Morgan Tsvangirai í Zimbabwe, og hreyfingar hans MDC. Ég er ekki sannfærður um að MDC sé neitt fýsilegri kostur en ZANU-PF Mugabes. Man einhver eftir Ian Duncan Smith núorðið? Hann leiddi apartheidstjórnina sem Mugabe og hans menn komu frá á sínum tíma. Hann er í MDC núna. Það þýðir væntanlega að hann sjái MDC sem andstæðing sem gæti ógna ZANU-PF, frekar en að apartheid sé í aðsigi aftur -- en ég sé það nú sem bjarnargreiða að fá stuðning þannig karla. Zimbabwe er í kaldakoli, það er kunnara en frá þurfi að segja, en ég held að MDC sé ekki það sem landsmenn vantar.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Egill Helgason hefur farið mikinn (1, 2, 3, 4, 5, 6, 7, 8 o.fl. til skýringar) að undanförnu og hamast gegn okkur „öfgamönnunum“ sem vogum okkur að mótmæla trúboði í grunnskólum. Ég veit ekki hvað ýfði svona á honum stélið, en fyrr má nú vera. Ef Egill færi að mínum ráðum mundi hann núna slaka vel á og reyna að komast í betra jafnvægi.
Egill má samt alveg eiga það sem hann má eiga. Hann nefndi góðan punkt í grein sinni í gær, semsé að ungliðar í Vinstrihreyfingunni-grænu framboði „eru ekki alveg búnir að gleyma róttækninni, þótt ýmislegt bendi til að flokksforystan ætli að að vera nógu skikkanleg til að hægt sé að bjóða henni inn á skrifstofur bankastjóra.
Þar stendur nefnilega hnífurinn í kúnni. VG er ekki sósíalistaflokkur heldur flokkur vinstri-krata sem ætla sér allt annað en að steypa kapítalismanum. Bylting er ekki á dagskrá hjá VG. Flokkur sem stefnir á samfélag þar sem hagkerfið er kapítalískt, getur ekki kallast sósíalískur samkvæmt mínum kokkabókum. Í þessu samhengi er vert að minna á grein Þórarins Hjartarsonar: Við þurfum öðruvísi flokk, um VG og ástæður úrsagnar hans nú í haust.
Ég er utan flokka. VG er vettvangur þar sem ég er þess fullviss að mínar grundvallarhugsjónir eiga sér ekki farveg. Hins vegar eru aðrar ástæður fyrir því að kjósa þau, að mínu hógværa mati: VG er eini íslenski stjórnmálaflokkurinn sem er trúverðugur í jafnréttismálum og í umhverfismálum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Um daginn skrifaði Matti grein á Vantrú, Vantrú fer í framhaldsskóla, þar sem kemur punktur sem mér finnst ónóg fjallað um:
Berum þetta saman við prestana sem eiga afar auðvelt með að herja á börn en þegar kemur að því að svara gagnrýni frá fullorðnu fólki virðist vera minni vilji eða geta, þá hlaupa prestarnir í skjól og vilja sem allra minnst segja.
Hvað getur maður sagt? „Látið börnin koma til mín.“
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég þarf ekki að rifja upp fyrir fólki hver mín afstaða var í máli klámráðstefnunnar. Ég heyrði einhvers staðar minnst á að einhverjir hergagnaframleiðendur ætli að standa fyrir einhverju hér í sumar. Ég eftirlæt fólki að giska á hvað mér finnst um það.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Talandi annars um klám, ég held að Smáralindarbæklingurinn alræmdi geti ekki flokkast undir klám. Ég veit ekki hvernig var ákveðið að hafa þessa mynd eins og hún er, eða hvers vegna, en ég held að það sé ekkert athugavert við hana -- í það minnsta ekki það að hún sé á neinn klæmin.

Monday, March 5, 2007

Ungdomshuset rifið

Í þessum töluðum orðum er verið að rífa Ungdomshuset. Það er ömurlegt. Burtséð frá sögulegu gildi hússins, sem var friðað af þeim ástæðum á 6. áratugnum, og hefði eitt og sér átt að duga til að friða það áfram, þá verða víst einhvers staðar vondir að vera, er það ekki? Hvernig er það með pacta sunt servanda-regluna, gildir hún bara þegar hagsmunir auðvaldsins eiga í hlut? Eða bara þegar hagsmunir auðvaldsins eru öruggir? Einn góðan veðurdag var hústökufólkinu á Jagtvej lofað að það fengi að hafa þetta hús um ótiltekinn tíma. Jess, sigur, hafa þau hugsað.
Löngu seinna: Húsið selt utan af þeim. Krysslingasamtökum sem höfðu það vafasama markmið frá upphafi að koma þessum guði vanþóknanlega skríl á götuna. Oj bara, anarkistar, á götuna með þetta. Sagt er að Faderhuset hafi ekki verið hleypt inn í sitt eigið hús. Ljóta dellan:
Í fyrsta lagi var þeim ekki einu sinni hleypt inn í það til að skoða það áður en þau keyptu það. Þau vissu m.ö.o. vel að hverju þau gengu og vissu að það var ávísun á átök að ráðast á þennan illa þefjandi skríl.
Í öðru lagi var þeim boðin geysileg fjárhæð fyrir húsið, mun hærri en þau greiddu fyrir það til að byrja með, sem þau höfnuðu og sögðust ekki mundu selja það fyrir neina upphæð. Hús sem þeim hafði ekki einu sinni verið hleypt inn í til að skoða.
Í þriðja lagi: Eftir 25 ára uppbyggingarstarf ungdómsins sem húsið var kennt við, þá var húsið fyrir löngu orðið þeirra. Það stóð ónotað þegar þau tóku það yfir til að byrja með, þau byggðu það upp, og þá sé ég ekki að með sanngjörnum rökum sé hægt að halda öðru fram en að þau hafi áunnið sér rétt til að njóta þess áfram. Ef Faderhuset eignast húsið í vafasömum tilgangi aldarfjórðungi seinna, þá breytir það barasta engu. Ef Faderhuset hafa lögin sín megin, þá sýnir það bara að lögin eru ekki sanngjörn.

Saturday, March 3, 2007

Skrítin nótt á Kleppi...?

Ég held að ég bregðist engum trúnaði þótt ég ljóstri því upp, að nýliðin nótt var viðburðalítil á Kleppi. Á minni deild svaf fólk almennt vel, og sama er að segja um aðrar deildir. Misvel, auðvitað, en ekkert frekar en venjulega, nema síður sé. Og hvers vegna er ég að ljóstra þessu upp? Jú, það er fullt tungl, og hjátrúin kennir oss að þá eigi allir að verða snarbilaðir, ekki síst þeir sem eru svo óheppnir að vera vanheilir á geðsmunum. En það gekk sumsé ekki eftir í nótt er leið. Ætli það þurfi ekki að endurskoða þessa hjátrú eitthvað?

Ég legg annars til að hafist verði handa við að útbreiða þá hjátrú að það boði ógæfu að fara yfir götu án þess að líta til beggja hliða, það sé fyrirboði um fallegt sólarlag að svifryksmengun mælist sérstaklega há, og að það boði gæfu að vista reglulega tölvugögn sem eru í vinnslu.

Friday, March 2, 2007

Harley Davidson lækka arðsemisspá sína fyrir árið eftir langt verkfall í aðalverksmiðju fyrirtækisins. Gott dæmi um að hagsmunir auðvaldsins eru andstæðir hagsmunum verkamannanna.