Tuesday, December 28, 2021

Styrkja, ekki sprengja

Ég styrki björgunarsveitirnar beint. En flugelda kaupi ég ekki af þeim og er reyndar þeirrar skoðunar að það ætti ekki að leyfa alla þessa flugeldasölu og -notkun.

Ég er eins og aðrar skepnur með það, að ég fælist sprengingar. Stressast allur upp. Ég er ekki að ýkja; gamlársdagur hefur að jafnaði verið versti dagur ársins hjá mér árum saman. 

Síðan ég dvaldi í Palestínu sumarið 2002.

Það breytir upplifuninni að heyra gnýinn í vopnuðum átökum.

Þegar dóttir mín var lítil, fór hún á hestbak í Húsdýragarðinum í lok janúar eða byrjun febrúar, þegar einhver hálfviti og lögbrjótur sprengdi flugeld, svo hesturinn hrökk við.

Það bjargaði barninu, að ég var varla búinn að sleppa því og gat því gripið það áður en það datt af hestbaki.

Ef tillitssemi við astmasjúklinga og fólk með áfallastreitueinkenni er ekki næg ástæða, þá mætti kannski sleppa flugeldunum af tillitssemi við okkur dýrin. 

Tuesday, December 21, 2021

Satt, skáldað og logið

Ef maður vill fara varlega ætti maður eiginlega ekki að segja brandara. Ef brandarinn er á kostnað forréttindakarls, þá er það svo dæmigert og gerir konur ósýnilegar, eða aðra minnipoka- eða jaðarsetta.

Nú, og svo er það gagnrýnin um að karlkyns rithöfundur geti ekki skrifað kvenpersónu þannig að hann setji sig í hennar spor. Það sé bara ekki hægt. Sama hlýtur að mega segja um aðra hópa sem eiga aðra lífsreynslu en við forréttindapésar. Gæti ég sett mig í spor blökkumanna eða indíána? Fatlaðra? Hinsegin fólks? Munaðarlausra? Nú, dýra?

Þetta gæti líka virkað á hinn veginn. Getur niðursetningur sett sig í spor húsbóndans svo raunhæft sé?

Það er öruggast að halda sig bara við það sem maður þekkir. Segja sögur frá eigin reynslu, eða eftir tilgreindum heimildum. Enda er skáldskapur bara fancy orð fyrir skrök. Ég ætla að gera orð Ara í Aravísum að mínum: Þið eigið að segja mér satt!

Tuesday, December 14, 2021

Grímuleysi í Bretlandi

Ég fór til Bretlands um daginn. Var nokkra daga í London. Það var sláandi hvað grímunotkun er lítil hjá almenningi þar. Í verslunum og á veitingastöðum er varla neinn með grímu, hvorki kúnnar né starfsfólk. Í mannhafi fjölfarinna veralunargatna sást ekki kjaftur með grímu. Meira að segja ekki í neðanjarðarlestinni.

Niðurstaðan er einföld: breskum almenningi þykir ekki nógu margir vera dánir úr Covid.

Tuesday, December 7, 2021

Tepruskapur skaðar

Tepruskapur í kynferðismálum er skaðlegur fyrir samfélagið. Líka fyrir börnin.

Ég fullyrði að það hefur aldrei neinn tekið skaða af að fá hvolpavitið snemma. Spyrjið hvern sem er, sem hefur alist upp í sveit.

Hitt er verra, að fá ekki að kynnast kynferðismálum á eðlilegan hátt. Ungt fólk leitar sér upplýsinga um leið og það verður forvitið. Sem það verður yngra en við viljum almennt viðurkenna, þótt við vitum það öll. Ef hvorki skólakerfi né foreldrar fræða almennilega, þá vitum við hvernig internetið fræðir.

Feimni fer náið saman við skömm og skömm yfir sínum eigin líkama er stórskaði. Spyrjið bara hvaða átröskunarsjúkling sem er.