Thursday, December 9, 2010

Wikileaks og hótanir

Ef Visa, MasterCard og PayPal endurskoða ekki Wikileaks-bannið fyrir helgi, þá er ég hættur að skipta við þessi fyrirtæki, að minnsta kosti þangað til þau endurskoða það. Ég hvet aðra jarðarbúa til þess sama.

Lífsreynsla dagsins

Ég var að skera mig á skorsteini. Ætli nokkur hafi lent í því á undan mér?

Óþarfur fornleifauppgröftur í Vonarstræti 12

Nú þegar gamla Vonarstræti 12 hefur verið flutt um set, stendur til að grafa eftir fornleifum í gamla húsgrunninum áður en annað verður gert við hann. Ég efast um að nokkuð finnist.

Þegar Skúli Thoroddsen sýslumaður ákvað að byggja húsið, sem til skamms tíma stóð að Vonarstræti 12, þá keypti hann fyrst lóðina af langalangafa mínum, Indriða Einarssyni, sem bjó í Tjarnargötu 3c, við hliðina. Það hús hefur líka verið flutt, og stendur í dag á horni Garðastrætis og Grjótagötu (sunnanmegin).

Ég man ekki með vissu hvar ég heyrði það, en einhver sagði mér hvernig lóðin Vonarstæti 12 varð til. Já, varð til. Þarna er mér sagt að hafi verið dálítil vík norður úr Reykjavíkurtjörn frameftir nítjándu öld. Indriði langalangafi hafi svo haft það fyrir sið að aka einum hjólbörum af mold í víkina á hverjum degi, sér til heilsubótar. Og þegar víkin var á endanum orðin full af jarðvegi, þá seldi hann Skúla hana og Skúli byggði húsið.

Þannig að ég spái því að það finnist ekki annað í húsgrunninum en jarðvegurinn sem Indriði ók í hann, og þar undir gamall tjarnarbotn.

En það er kannski best að maður fullyrði sem minnst út frá munnmælasögum.

Monday, December 6, 2010

Verð á gulli, og góðum og vondum pennum

Gullverðið fór upp í 1423 dali únsan í dag, sem er enn eitt heimsmetið. Hvað segir það okkur? Jú: Kreppan er ekki í rénun. Ónei.
-- -- -- --
Ég fór í dag í Eymundsson og Mál og menningu til að leita mér að sæmilega góðum skriffærum. Nánar tiltekið var ég að leita að einnota svörtu kúlutússi með hæfilega miklu blekflæði til þess að strikið gráni hvorki, né það komi klessur. Í hvorri búð fann ég eina gerð af pennum sem mér fannst passa mér, þótt úrvalið sé mikið á báðum stöðum. Í Eymundsson kostuðu sumir af þessum pennum -- ég er að tala um einnota penna -- vel á annað þúsund, en voru samt ekki nógu góðir. Sá sem ég var ánægðastur með í Eymundsson kostaði undir 150 kr. stykkið. Kræst, hvað vandlátur pennakaupandi þarf að hafa fyrir því að finna almennilega penna.

Sunday, December 5, 2010

Vísa um ólíkan kvikmyndasmekk

Kona mín og ég höfum ólíkan kvikmyndasmekk. Hennar er fjölbreyttari, en minn er sérhæfðari. Sjálfum finnst mér minn betri, en það er víst smekksatriði.

Ef Rósa um myndir þenkir, þá
þung mín heyrist stuna:
Horfa vil ég aðeins á
Apaplánetuna.

Saturday, December 4, 2010

Landspítali: 40 ára gömul tæki

Í fréttum Sjónvarps í kvöld var sagt að Landspítali ætti um 12.000 "tæki" og þau elstu væru orðin 40 ára gömul. Hvað er "tæki" í þessu samhengi? Hrærivél? Og er ég einn um að hafa saknað þess að sjá þetta 40 ára gamla tæki?

Wednesday, December 1, 2010

Kjarasamningar lausir frá og með deginum í dag

Enginn veit hvað samninganefndir verkalýðshreyfingarinnar og launagreiðenda munu sitja lengi að samningaviðræðum áður en samið verður. Mitt félag, SFR, semur við samninganefnd ríkisins, og þar sem opinberir starfsmenn eru ekki í samfloti í samningunum, mun samninganefnd ríkisins líklega þurfa að semja við um 60 mismunandi félög. Einhvern tíma getur það nú tekið, þykist ég vita.

Launagreiðendur, hvort sem það eru ríkið, sveitarfélögin eða Samtök atvinnulífsins, segja nú eins og alltaf að ekki sé hægt að hækka laun. Gott ef kjarabætur mundu ekki bara setja allt á annan endann. Auk þess vilja launagreiðendur gera langan samning -- þriggja ára, minnir mig að SA hafi sagt. Ég yrði hissa ef nokkur einasti maður yrði raunverulega ánægður með samningana sem munu á endanum koma út úr þessu. Ég yrði þó enn meira hissa ef almennt launafólk tæki upp á því að fara að taka þátt, sem þó er forsenda fyrir öllum sigrum verkalýðsins.