Saturday, April 30, 2005

Víetnamar fagna sigri á heimsvaldasinnum! Að hugsa sér að enn skuli Víetnamstríðið njóta stuðnings sérviturra íhaldsmanna. "My country, right or wrong."
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Nepalski maóistaflokkurinn: Opið bréf til Prachanda formanns frá Baburam Bhattarai, næstráðanda. Sé þetta bréf ekta, þá er bersýnilega alvörumál á ferðum, sem gæti jafnvel varðað framtíð nepölsku byltingarinnar.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Abheek Barman skrifar í Times of India:
Last week, India agreed to lift an arms embargo to Kathmandu. Gleeful at the prospect of more guns, the king threw the leaders of all parties in jail. ...
Nepal is in the clutches of a bumbling and dangerous despot. It is futile to expect Gyanendra to restore democracy, the rule of law and institutions. Though Maoist boss Prachanda says he's with the political parties to overthrow the king, this could be a feint. Why should Maoist militias become the vanguard of democracy? One costly - and uncertain - option is to cut off the king, wait for Nepal to implode and institutions to emerge from the rubble. Actually, the only policy that makes sense for India is this: Export governance and institutions to Nepal. Run it as a protectorate. It is pointless to agonise over Kathmandu's sovereign rights. When states fail, as Nepal has done, sovereignty is a dangerous idea that empowers despots and their cronies. Today, Gyanendra's sovereignty has trapped the people of Nepal, 42% of whom are officially poor, in a cycle of violence and misery.
Freedom has to be earned: Gyanendra, Nepal's venal parties and the Maoists just got the pink slip.

Friday, April 29, 2005

Þjóðsagan um Zarqawi

Zarqawi: Er eitthvað á bak við tröllasögurnar?
Áfram heldur áróðurinn. Þessi "Zarqawi" (sem ég veit ekkert hvort er til eða ekki) fær meiri athygli í vestrænum fjölmiðlum en eðlilegt er miðað við raunveruleg umsvif hans. Ástæðan: Það er gert í áróðursskyni. Til þess að við höldum að íraska andspyrnan samanstandi aðallega af erlendum rummungum sem koma til Íraks að svala blóðþorsta sínum. Það er einfaldlega ekki rétt. Eitthvað er af erlendum rummungum að svala blóðþorsa sínum - flestir eru þeir vestrænir og kalla sig "verktaka" þótt þeir séu málaliðar - en íraska andspyrnan er eðlilegt viðbragð þjóðar við hernámi.

Hvers vegna eru bara súnnítar í þessari andspyrnu? Það eru ekkert bara súnnítar -- en leiðtogum Kúrda hefur verið fróað til stuðnings við Vesturveldin, og shí'ítar hafa haft sitt fram með hörðu. Börðust í Najaf og víðar (man einhver eftir Mahdi hernum?) þangað til Ayatollah Sistani stillti til friðar: Sjí'ítarnir lögðu niður vopn og í staðinn var efnt til tafarlausra kosninga þar sem vitað var að þeir ynnu stórsigur -- og tækju þar með við miklum pólitískum völdum.

En áfram heldur áróðurinn. Áróður til þess að við Vesturlandabúar fáum nú örugglega enga samúð með írösku andspyrnunni. Með mönnum sem eru að verja fjölskyldur sínar og föðurland gegn óvægnu ofurefli bandaríska hersins.

Ég hef nú samúð með þeim samt.
Davíð Oddsson segist ekki vera viss um áframhald framboðs Íslendinga til setu í Öryggisráði SÞ. Ég tel a.m.k. ríkisstjórn Davíðs Oddssonar ekki eiga erindi þangað.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Heimspekikaffihús verður í þriðja sinn þriðjudagskvöldið 3. maí kl. 20:30-22:00 á Café Cultura, Hverfisgötu 18. – Þetta verður jafnframt síðasta heimspekikaffihús vetrarins, en eftir sumarfrí hefst það á ný í september. Umræðuefnið er „hver er vinur?“ ... ég kemst nú ekki sjálfur en mæli eindregið með þessu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Morgan Stanley mæla með ennþá kapítalískari aðferð við sölu Símans. Þeirra uppástunga þykir mér vera glapræði. Reyndar þykir mér það vera glapræði að selja Símann yfir höfuð. Mér finnst að það ætti að gefa Símann. Færa hann úr eign ríkisins, í eign félags sem væri að hálfu eign starfsmanna hans og að hálfu eign viðskiptavina hans, þar sem hver maður hefði eitt atkvæði og fyrirtækið væri lýðræðislega rekið af almenningi og fyrir almenning.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Annan hvetur til "endurreisnar lýðræðis í Nepal"... endurreisnar hvaða lýðræðis? Þessi skrípamynd af lýðræði sem var þar til skamms tíma átti lítið skylt við alvöru lýðræði. Alvöru lýðræði kemur neðan frá. Ef konungur gerir taktíska málamiðlun um að "leyfa" stofnun þings og "leyfa" kosningar, þá er það áfram á valdi konungs að taka allt til baka - sem mannfýlan Gyanendra gerði einmitt 1. febrúar síðastliðinn. Það þarf ekkert að endurreisa neitt lýðræði í Nepal. Það þarf að reisa lýðræði.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
A centralised democracy may be as tyrannical as an absolute monarch; and if the vigour of the nation is to continue unimpaired, each individual, each family, each district, must preserve as far as possible its independence, its self-completeness, its powers and its privilege to manage its own affairs and think its own thoughts.
(James Anthony Froude)

Thursday, April 28, 2005

Í Írak hefur skrípamynd af lýðræðislegu þingi samþykkt ríkisstjórn Ibrahims al-Jaafari. Þetta PR-stönt þjónar fyrst og fremst þeim tilgangi að láta okkur Vesturlandabúa halda að þarna sé að komast á lýðræði. Það er einfaldlega ekki svo. Fyrir kosningarnar töluðu menn um að ef súnnítar sniðgengju þær, þá væri það alvarlegur áltitshnekkir fyrir trúverðugleika kosninganna ... súnnítar sniðgengu þær, en svo láta menn eins og allt hafi verið með felldu. Sjálfar ksoningarnar voru haldnar undir vökulum byssuhlaupum bandaríska hernámsliðsins, listar með nöfnum frambjóðenda voru ekki gerðir opinberir fyrr en á kjördag, og sama má segja um kjörstaði. Að lokum er þetta svokallaða "lýðræði" í Írak háð í skjóli hernáms. Alvöru lýðræði verður ekki þröngvað upp á fólk. Alvöru lýðræði kemur neðan frá og fæðist heima fyrir. Þversögnin við "hernámslýðræði" Íraks er að yfirgnæfandi meirihluti Íraka vill að hernámsliðið hypji sig heim til sín og það án tafar. Ef hernámsliðið færi, þá yrði fljótt bundinn endir á lífdaga þessarar sýndar-lýðræðisstjórnar, sem á allt sitt undir hernáminu!
Íraka vantar þjóðfrelsi, en það öðlast þeir ekki nema þeir geti rekið Bandaríkjaher úr landi af eigin rammleik. Það tekst þeim aftur ekki nema þeir standi sameinaðir í stað þess að leyfa fylkingu þjóðfrelsissinna að klofna. Standa sameinaðir, sameinaðir eftir línum stétta, ekki þjóðernis eða trúar.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Tilvitnun dagsins í Rauða kverið:
Það fellur í vorn hlut að skipuleggja fólkið. Það er verkefni vort að gersigra afturhaldsmennina í Kína. Það gildir hið sama um allt afturhald. Ef þú greiðir því ekki högg, þá fellur það ekki. Þetta er líka eins og sópa gólf. Rykið hverfur ekki af sjálfu sér, þar sem sópurinn nær ekki til, ef að vanda lætur.
Rauða kverið, s. 11-12

Það þarf að taka til hendinni, vinna rösklega gegn afturhaldsöflum í þjóðfélaginu, öðruvísi hverfa þau ekki og halda áfram afturhaldi sínu. Þetta gerir enginn annar en fólkið sjálft, skipulagt af brautryðjendum eða framvörðum.
Hvernig er best að greiða afturhaldinu högg? Ég held að best sé að svelta það: Láta það einangrast þjóðfélagslega og efnahagslega. Með öðrum orðum, koma afturhaldinu í þá aumu stöðu, þar sem andstæðingar þess eru í dag...
Það sem ég hef mesta trú á er þetta: Stofnuð sé hreyfing sem grefur markvisst undan afturhaldinu, meðal annars með því að koma á laggirnar sósíalískum atvinnurekstri (samvinna eða sameign) og "keppa þá út af markaðnum" með því að bjóða launafólki upp á betri störf og neytendum upp á góða samvisku í kaupbæti. Koma þannig upp sósíalískum efnahagsumsvifum og um leið grafa undan efnahagsumsvifum afturhaldsins, þangað til það er orðið að jaðarafli í þjóðfélaginu.

Wednesday, April 27, 2005

Í gær byrjaði ég á nýjum "dagskrárlið" á Töflunni á Dordingli, sem er dagleg tilvitnun í Rauða kverið eftir Maó formann, í von um að áhugaverðar umræður skapist, sem vonandi mætti læra eitthvað af.
Þegar þetta er skrifað hafa umræðurnar ekki orðið mjög langar ennþá, en eins og hans var von og vísa kom Siggi pönk með sjónarhorn anarkistans með tilvitnun í Gustav Landauer: „Ríkið er ekki fyrirbæri sem hægt er að eyðileggja með byltingu heldur er það ástand, ákveðin tengsl milli manna, ákveðið hegðunarmynstur. Við eyðileggjum það með því að byggja upp önnur tengsl, með því að hegða okkur öðruvísi.“
Er ekki hægt að eyðileggja ríkið með „byltingu“?
Tja, það fer kannski eftir því hvaða merkingu maður leggur í þetta orð, „bylting“, býst ég við.
Þannig að ég svaraði, og læt því fleygt hér líka:
Það er ... algengur misskilningur að orðið „bylting“ þýði svipað og „valdarán“ ... svo er ekki. Byltingin fer meðal annars fram á vígstöðvum stjórnmálanna, en ekki síður - kannski aðallega - í efnahagskerfinu, í daglegu atferli, í neyslu, í því hvernig við vinnum fyrir okkur, hugsum um okkur sjálf og aðra, hvernig við tökum þátt í samfélaginu. Með öðrum orðum, það sem ég á við þegar ég segi „bylting“ er ekki valdataka stjórnmálaflokks, heldur að þeir sem í dag eru vitlausu megin við valdboðið, öðlist pólitíska meðvitund, fari að hugsa og geri eitthvað í sínum málum, bæði sem einstaklingar og sem heild. Aðeins þannig gæti byltingin orðið gæfuleg. Sjálft ríkisvaldið er svo vissulega ein hliðin á málinu. Það yrði ekki „yfirtekið“ fyrr en slíkt væri tímabært, eða, réttara sagt: Þegar samfélagið hefði burði til að losa sig undan ríkisvaldinu og skipuleggja sig sjálft, þá mundi það bara gerast. Hvernig sem sjálf útfærslan yrði.

Þannig að ... hvað með þessi ummæli Maós gamla? Ég er sammála þeim, en samt aðalleg í yfirfærðri merkingu: Í staðinn fyrir stjórnmálaflokk sem rænir völdum, þá þarf einhverja til að brjóta ísinn, einhverja til að sá fræjunum. Það má kalla þá frumkvöðla, framverði, rugludalla, hugmyndafræðinga, pönkara sem dreifa bæklingum á tónleikum eða hvað sem þið viljið. Þessi hreyfing þarf ekkert að vera með skipulagsskrá eða spjaldskrá ... hluti af henni gæti verið það, en fyrst og fremst byggist hún á því hvað fólk er reiðubúið að taka þátt í henni: Taka ábyrgð, taka afstöðu, taka þátt, taka líf sitt úr höndum þeirra sem fara illa með það.

Hvað með hugmyndafræðina? Verður að vera hugmyndafræði? Ég, fyrir mitt leyti, held að hún sé einn af þáttunum sem ráða úrslitum ... en góð hugmyndafræði þarfnast ekki miðstýrðrar maskínu til að afla fylgismanna. Hún er sett fram ... vegna þess að hún er góð tekur fólk mark á henni.

Tuesday, April 26, 2005

Íraska andspyrnan sendir enn frá sér yfirlýsingu á myndbandi um Dale C. Stoffel, sem nýlega var drepinn, og andspyrnumenn segja að hafi verið "shadow manager" fyrir bandarísku leyniþjónustuna en sagðist sjálfur vera í Írak í viðskiptaerindum. Hann var veginn af andspyrnumönnum, sem nú færa fleiri og fleiri rök fyrir því að hann hafi verið annað og alvarlegra skotmark en bara bissnessmaður.
Árásir írösku andspyrnuhreyfingarinnar beinast að langmestu leyti að hernaðarlegum skotmörkum segir í þessari grein. Talandi um írösku andspyrnuna, þá er hér grein um rétt Íraka til sjálfsvarnar og, það sem meira er, hvers vegna við ættum að styðja írösku andspyrnuna.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég linkaði um daginn á greinina "More on Imperialism" eftir Harpal Brar. Hún er svo góð að ég linka hér með á hana aftur!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Every Labour and Conservative candidate should be held to account by voters over the Iraq war, Liberal Democrat leader Charles Kennedy has argued. Ég tek nú undir það. stjórnmálamennirnir sem bera ábyrgð á Íraksstríðinu verða að standa reikningsskil gjörða sinna. Í því samhengi er vert að minnast athyglisverðs fordæmis, til samanburðar: Við Nürnberg-réttarhöldin voru leiðtogar nasista nefnilega dæmdir fyrir að "hefja árásarstríð", fyrir "brot gegn friðnum" og fyrir "glæpi gegn mannkyni". Þeir voru dæmdir til dauða og hengdir.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Until we go through it ourselves, until our people cower in the shelters of New York, Washington, Chicago, Los Angeles and elsewhere while the buildings collapse overhead and burst into flames, and dead bodies hurtle about and, when it is over for the day or the night, emerge in the rubble to find some of their dear ones mangled, their homes gone, their hospitals, churches, schools demolished — only after that gruesome experience will we realize what we are inflicting on the people of Indochina...
--- William Shirer rithöfundur, 1973

~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Innlimun Júgóslavíu í alþjóðahagkerfið heldur áfram. Eftir að Milosevic var rutt úr veginum er leiðin greið fyrir "mjúku" heimsvaldasinnana að koma sínu fram.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Nýr linkur: Jane T. Christensen.

Monday, April 25, 2005

Fangar í Bandaríkjunum eru fleiri en nokkru sinni. Óhugnanlegar tölur. Ég skil ekki að heilt þjóðfélag geti verið svona fíkið í að hefna sín á ógæfumönnum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Bandaríkjastjórn viðurkennir stórfellda vopnaflutninga til Haítí.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Leyndardómurinn um hinn týnda Baburam Bhattarai ... ef eitthvað er hæft í því, að maóistar í Nepal séu að klofna, þá gátu þeir varla valið verri tímasetningu til þess. Málaher Gyanendra konungs er aðþrengdur og konungurinn er sjálfur aðþrengdur alþjóðlega. Indverjar eru að snúast á sveif með honum aftur og vopnasendingar gætu hafist svo snemma sem eftir 10 daga. Með öðrum orðum: Ætli einmitt núna sé ekki rétti tíminn fyrir samhenta byltingarhreyfingu að láta vaða breiðsíðu?
Það er bensín- og olíulaust í Zimbabwe um þessar mundir. Eftir nokkur ár verður bensín- og olíulaust í öllum heiminum.
Vegna yfirstandandi umræðu um rekstur Landspítala-háskólasjúkrahúss, þá vil ég hér með votta það, að eftir mínum kynnum af þeirri stofnun að dæma, þá tek ég undir með yfirlæknunum sem segja að hún sé illa rekin. Yfirbyggingin er allt of mikil, innra stigveldi gerir reksturinn firrtan og þunglamalegan, skriffinnska tefur og flækir, reynt er að spara með útboðum á m.a. hreingerningum, sem skila sér í freklegu arðráni á starfsfólki, og almennt starfsfólk hefur lítið að segja um sín störf. Og hvað, ætti að einkavæða þetta? Nei. Það ætti að reka helminginn af skriffinnunum, þrjá fjórðu af millistjórnendunum, og stokka þetta upp alveg frá grunni. Ég skal með ánægju taka það að mér ef heilbrigðisráðuneytið vill ráða mig til þess arna. Sjúkrahús þarf að vera almennilegur vinnustaður og veita almennilega þjónustu sínu samfélagi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þessi svarta skýrsla er dæmi um afleiðingar blindrar græðgi auðvaldsskipulagsins. Peningakvarnir kapítalismans mola sundur náttúruna og stunda skefjalausa rányrkju á auðlindum - og fólki. Afraksturinn er sá að vistkerfunum er fórnað fyrir eigingjarnan stundargróða.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
When a person places the proper value on freedom, there is nothing under the sun that he will not do to acquire that freedom. Whenever you hear a man saying he wants freedom, but in the next breath he is going to tell you what he won't do to get it, or what he doesn't believe in doing in order to get it, he doesn't believe in freedom. A man who believes in freedom will do anything under the sun to acquire ... or preserve his freedom. -- Malcolm X

Sunday, April 24, 2005

Vísindamönnum hefur tekist að láta mýs leggjast í dvala með því að láta þær anda að sér vetnissúlfíði, og ræða nú um að gera tilraunir á mönnum. Ef hægt er að láta mann leggjast í dvala, þá gæti það aukið til muna líkurnar á því að sum læknismeðferð heppnist vel, og það er bara gott. Hins vegar: Ég sé fyrir mér að þetta verði notað í fangelsum. Hægt að láta óstýriláta fanga leggjast bara í dvala í nokkur ár. Hagkvæmt og áhættulaust. Það fer um mig hrollur.

Thursday, April 21, 2005

Gorbatsjov segir að Bandaríkin séu "sýkt af sigursæld" ... hverjum er ekki sama hvað Gorbatsjov segir? Hann hefur verið forseti risaveldis og þótt hann hafi lagt sitt af mörkum til að koma í veg fyrir kjarnorkustríð, þá hefði hann getað staðið sig mun betur þegar hann var forseti Sovétríkjanna ... hann er búinn að fá kannski heimsins besta tækifæri til að láta gott af sér leiða og árangurinn var ófullnægjandi. Núna, þegar hann hefur engin völd lengur, sé ég ekki hvaða átorítet hann er, annað en sem heimild um síðustu fjörbrot rússnesku byltingarinnar.
Gleðilegt sumar.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í dag eru liðin 9 ár frá þeim degi sem rússnesk sprengjuflugvél varð Dzokhar Dudayev, forseta Chechníu, að bana. Það er skarð fyrir skildi, þar sem Dudayev var, skarð sem hefur enn ekki verið fyllt. Að honum föllnum píslarvættisdauða fyrir þjóð sína hefur þjóðfrelsisbarátta Chechena tekið á sig æ afturhaldssamri mynd íslamisma og bókstafstrúar. Það hryggir mig að sjá þennan rétta málstað í höndum rugludalla.
Í dag eru einnig liðin 2757 (ekki 2758!) ár frá stofnun Rómarborgar - ad urbe codita. Um leið eru sjö ár frá 2750 ára afmæli borgarinnar, en þann dag var loksins saminn formlegur friður milli Róbar og Karþagóar. Með öðrum orðum voru púnversku stríðin langvinnari en nokkurt annað stríð. Meira en 200 sinnum langvinnari en 90% allra stríða!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ætli ritarar Annáls hafi frelsast til sósíalisma og tekið til við bolsévíska sjálfsgagnrýni? Nógu mikið er yfirstrikað hjá þeim....
Gleðilegt sumar, gott fólk.

Ég setti undirskál með vatni í út og ætla að vakna snemma og sjá hvort það kemur hem (þunnur ís) á vatnið. Ef frjósa saman sumar og vetur veit það á að gott verði undir bú í sumar. Annað er sagt, að ef "Reykjavíkurtjörn er íslaus fyrir sumarmál" - sem hún hefur verið (sumarmál eru síðustu fimm dagar fyrir sumardaginn fyrsta) - "þá er von á íkasti eftir þau" ... með öðrum orðum, þar sem Tjörnin hefur verið íslaus undanfarna viku, þá eigum við von á "íkasti". Ég hlakka til, ég kemst þá kannski að því hvað "íkast" er, einhvers konar hret. Ef "íkast" er nálægt sumarmálum er það kallað "sumarmálarumba".

"Eldiviðarþerrir fer eftir því hvernig viðrar fyrsta laugardag í sumri, en heyþerrir eftir því hvort rigning er eða þerrir fyrsta sunnudag í sumri." ... þannig að við höfum augun hjá okkur um helgina.

Heimild: Jón Árnason: Íslenskar þjóðsögur og ævintýri, II. bindi, Reykjavík MCMLXVI, s. 538.

Wednesday, April 20, 2005

Harpal Brar er ritstjóri Lalkar, aðalritari CPGB(ML), formaður Stalín-félagsins og einn af leiðtogum Indian Workers Associatinon, með meiru. Skiljanlega er hann umdeildur og umdeilanlegur. Hann er einn af þeim sem er úthúðað í greininni sem ég linkaði á í gær eða fyrradag og ég er nokkuð viss um að höfundar þeirrar greinar hermi rétt frá. Með öðrum orðum, svo það fari ekki á milli mála, þá er hann fulltrúi fyrir strauma í vinstriheyrfingunni sem ég er andsnúinn. Svo ekki sé dýpra í árina tekið. Engu að síður má hann nú eiga það sem hann má eiga. Greinin "The world socialist revolution in the conditions of imperialist globalisation" er eitt af því. Já, þessi grein er bæði löng, tyrfin og 5 ára gömul, en hin merkilegasta fyrir því. Í henni rekur Brar samþjöppun fjármagns og samruna stórfyrirtækja í rökréttri þróun einokunarauðvalds, fyrirrennara eiginlegrar heimsvaldastefnu. Þetta er í aðalatriðum það sama og er kallað "efnahagsleg hnattvæðing" þessa dagana. Fyrir þá sem nenna að lesa, þá er þetta grein sem er þess virði.

Fjárreiður stjórnmálaflokka, nýi páfinn, Gaza og grein


Humm ... það á að endurskoða lög um fjárreiður stjórnmálaflokka. Það er nú kominn tími til. Þarft verk að endurskoða þessi lög.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
RÚV skýrir frá:
Jósef Ratzinger, fyrsti þýski páfinn frá því á 11. öld, söng fyrstu messu sína sem páfi í Vadikaninu í morgun. Margir kaþólskir menn fagna kjöri hans segja kirkjuna í góðum höndum því nýi páfinn hlaupi ekki eftir duttlungum tíðarandans.
...með öðrum orðum, þessi maður lætur það sem vind um eyru þjóta, að kaþólska kirkjan sé steinrunnin miðaldastofnun sem gangi á kreddufestu og forneskju. Engar áhyggjur af því. Benedikt hleypur sko ekki eftir "duttlungum tíðarandans". Ætli þessir "duttlingar" séu hlutir á borð við alnæmi, samkynhneigð eða jafnrétti kynjanna?
Í Mogga í fyrradag (ég held í fyrradag) var vitnað í Benedikt, sem þá hét ennþá Josef Ratzinger, vitnað í predikun hans í messu yfir kardínálunum, þar sem hann sagði víst að mannkyninu og "hinum kristna heimi" stafaði hætta af "alræði afstæðishyggjunnar" ... ætli hr. Ratzinger hafi verið nýbúinn að lesa predikun eftir Karl Sigurbjörnsson?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hafin er aðgerð til að treysta tök zíonískra landræningja á Vesturbakkanum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
"A Televisual Fairyland" nefnist grein sem George Monbiot skrifaði fyrir endurinnsetningu George Bush í janúar síðastliðnum. Hún fjallar aðallega um bandaríska fjölmiðla, og er býsna góð. Ég mæli með henni, og hana má sjá hér.

Monday, April 18, 2005

Dave Spencer og Hanna Khamis skrifa grein sem ég mun nota ef ég skrifa einhvern tímann kennslubók í því hvernig á ekki að reka stjórnmálaflokk. Hún er ekki svo löng, og ég mæli eindregið með henni: Why We Have Left the Socialist Labour Party: The Dead Hand of Stalinism Without the Lure of Moscow Gold. Úff, hvað ég skil þau vel. Ég býst við að ég hefði gert nákvæmlega það sama og þau gerðu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Róbert Jack er byrjaður að blogga: Blekklessur heimspekings nefnist hans blogg.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Háir herrar segja að til greina komi að byggja Sundabraut fyrir andvirði Símans. Var ekki verið að tala um að byggja nýtt hátæknisjúkrahús fyrir það? Alla vega, þá er ég með áætlun sem ég er bjartsýnn á að mundi virka. Halldór Ásgrímsson, ef þú lest þetta, þá er þér velkomið að nota þessa áætlun:
1. Síminn ekki seldur.
2. Sundabraut og hátæknisjúkrahús bæði byggð.
3. Meðan þau eru í smíðum rennur arðurinn af Símanum eyrnamerktur til þess að borga fyrir þau.
4. 2010: Íslenska þjóðin á: (a) Sundabraut, (b) hátæknisjúkrahús og (c) sitt eigið símafyrirtæki.

Saturday, April 16, 2005

Palestínufundur á vegum MFÍK í Snarrót, Garðastræti 2, þriðjudaginn 19.apríl kl. 18:30

Palestínufararnir Guðrún Ögmundsdóttir, Svala Norðdahl og Þuríður Backmann munu þar segja frá nýlegri för sinni til Palestínu.

Á eftir verður boðið upp á léttan málsverð á miðjarðarhafslegum nótum: Falafel, húmus, tatzíki og fleira góðgæti.

Ágóði af matarsölu verður notaður til styrktar ferð Örnu Aspar Magnúsardóttur
á alþjóðlega kvennaráðstefnu sem samtökin Women in Black halda í Palestínu í ágúst.

Fundurinn er öllum opinn.

(Ég skora á fólk að mæta, en kemst því miður ekki sjálfur.)
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Kúrdar eru sagðir vera að undirbúa skæruhernað í Íran. Ætli það sé þannig sem Bandaríkjamenn hafa hugsað sér að grafa undan Íran, með kúrdískum skæruliðum?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hans Blix gerir lítið úr hættunni af hitnun jarðar.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Á Íslandi - og annars staðar á Vesturlöndum - eru ekki fluttar miklar fréttir af brostnu lýðræði í Mexíkó.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Munu Bandaríkjamenn nota Kólumbíu til að koma höggi á Venezuela?

Friday, April 15, 2005

Friður.is vitnar í grein Egils Helgasonar og það geri ég hér með líka og tek heils hugar undir þessi orð:
Næst á eftir Fischer og Aroni Pálma verður að bjóða Mordechai Vanunu hæli á Íslandi. Hann hefur ekkert gert annað en að ljóstra því upp að Ísraelsmenn eigi kjarnorkuvopn. Þetta telst varla vera glæpur; þvert á móti er glæpsamlegt ef ríki koma sér upp kjarnorkuvopnum á laun. Ísrael kemst upp með að vera óopinbert kjarnorkuveldi. Fyrir þetta var Vanunu haldið í fangelsi í 18 ár. Eftir að honum var sleppt í fyrra er hann enn beittur kúgun; honum er meinað að tjá sig og ferðast, yfir honum vofir alltaf að vera aftur settur í tukthús.
Ég las í dag að Norðmenn hefðu hafnað því að veita Vanunu hæli - er þá ekki komið að Íslendingum og þeirra nýfengna skilningi á hlutskipti þeirra sem sæta ofsóknum?

Sjá frétt Morgunblaðsins um þetta.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Stefán Pálsson skrifar um páfa og því sem lítur út eins og sneið til Vantrúar svarar Birgir á Vantrú.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég var að átta mig á því hvernig hægt er að lagfæra (edita) komment í Haloscan. Ekki bara edita, heldur sjá IP-tölur. Sú vitneskja getur verið gagnleg.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég aþrf að taka mig til - og skrapa saman peningum - til að kaupa áskrift að nokkrum merkilegum tímaritum.
Þeim sem lesa þýsku bendi ég á þessa grein: Mit Kanonen auf Spatzen schießen -- Schily erprobt "Null-Toleranz"-Politik in Berlin ... það er semsé verið að taka upp "Zero Tolerance" stefnu gagnvart veggjakroturum í Berlín, og það svo um munar, eins og lýst er í greininni.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ástæða er til að benda fólki á að safndiskurinn Frjáls Palestína er kominn í netsölu ... sjá hér ... og með því að kaupa þennan ágæta disk getur fólk lagt af mörkum til barnastarfs í Palestínu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í Kyrgyztan gerðist hið dæmigerða, almenningur fékk sig fullsaddan af slæmri ríkisstjórn og upphófust róstur og fjöldamótmæli, birtingarmynd slæms þjóðfélagsástands. Forsetinn sagði af sér og við stjórnvelinum tók hin borgaralega stjórnarandstaða, sem á ekki eftir að leysa þau vandamál sem brýnast brenna á almenningi í Kyrgyztan, þótt eitthvað eigi hún eftir að koma til móts við þungavigtarhópa í borgarastétt. Dæmigert fyrir það þegar hitnar í kolunum og almenningur á sér ekki sjálfstæðan pólitískan málsvara, pólitíska framvarðarsveit.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Nepalskir maóistar hafa bundið enda á ferðabannið á Kathmandú sem stóð í 11 daga -- en maður hefur heyrt að hafi ekki heppnast neitt allt of vel, sökum örðugleika í samskiptum. En hvers vegna fréttist ekki meira af Baburam Bhattarai? Bharat Bhushan skrifar um málið á The Telegraph í Kalkútta í grein sem mér virðist vera nokkuð sanngjörn:
Shyam Shreshtha, who was once in the Maoist politburo and now edits a Left-wing magazine Mulyankan, says: “I do not personally believe that Baburam Bhattarai is under arrest. But I also do not believe that nothing has happened. My information is that he has been suspended for six months from the central committee and politburo on the issue of inner-party democracy. Of this two months are already up.”
...og áfram heldur hann:
Bhattarai also wrote in Kantipur daily against lack of inner party democracy and the “raja-rajouta pravratti (feudal tendency)” of the Maoist leadership.
His explanation was sought and he replied with a 13-point reply that challenged the leadership further. He questioned the elevation of the revolutionary path called “Prachandapath” to “Thoughts of Prachanda”, the centralisation of party, army and state posts in one person and adding Prachanda’s photograph to the pantheon of Marx, Engles, Lenin, Stalin and Mao.

Það virðist semsagt vera ásteytingssteinn, að menn séu ósammála um (a) innra lýðræði í maóistaflokknum og (b) persónudýrkun á Prachanda. Ég þarf varla að taka fram hvaða skoðun ég hef á málinu.

Thursday, April 14, 2005

Síminn, Nepal


Ég vildi sjá Símann rekinn af almenningi og fyrir almenning. Til að hann væri lýðræðislega rekinn yrði hann að vera að fullu í eigu almennings. Ég sé fyrir mér að þegar maður byrjaði viðskipti við Símann fengi maður um leið hlut í honum sem viðskiptamaður hans; að hann væri í sameiginlegri eigu þeirra sem ættu viðskipti við hann. Annað hvort hefði hver maður einn hlut (fyrirtæki kannski tvo hluti) ellegar þá að einn hlutur væri fyrir hverja símalínu ... ellegar þá að vægi hluthafa væri í samræmi við símreikningana sem þeir borguðu. Ég held að það væri óráðlegt að haga eignarhaldinu þannig að fólk gæti selt hlutinn ... frekar ætti hluturinn að fylgja viðskiptunum, og vera óframseljanlegur, en ganga aftur inn í fyrirtækið þegar maður hætti viðskiptum við það, samanber að íslenskur ríkisborgari getur ekki afsalað sér kosningarétti á Íslandi. Ef arður er af Símanum ættu viðskiptavinirnir að hagnast á því, annað hvort með því að fá hann útgreiddan, eða með því að hann niðurgreiddi þjónustuna.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það eru deildar meiningar um ástand mála í Nepal. Í því sambandi vil ég benda á ágæta grein í Lalkar, þar sem fjallað er um málefni Nepals.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hmm.. ég bendi á þessa frásögn Michaels Shermer af rökræðum hans við trúmann. Áhugaverð lesning.
Viðbrögðin við fyrirhugaðri sölu Símans virðist vera í bærilegum farvegi. Mikið vona ég að gangi eins vel og maður gæti ætla.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þessi grein á Múrnum hittir beint í mark. Að kalla vandamálið sínu rétta nafni er fyrsta skrefið til að ráðast gegn því. "The traditional way to exorcise a demon is to start by recognizing it for what it is, calling it by it's right name" minnir mig að Anton LaVey hafi orðað það.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Á Link TV má sjá sjónvarpsfréttir á ensku frá Miðausturlöndum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Um 200 íraskir andspyrnumenn réðust á bandaríska herstöð eigi allfjarri sýrlensku landamærunum. Það er athyglisvert að bera saman annars vegar bandaríska sjónarhornið og hins vegar það íraska.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Zimbabwe fjölgar í flughernum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Caterpillar-vinnuvélaverksmiðjurnar hafa árum saman selt ísraelska hernum vopnaðar og brynvarðar jarðýtur til þess að jafna palestínsk hús við jörðu. Selt vopn mönnum sem þeir vissu að mundu nota þau gegn óbreyttum borgurum. Á hluthafafundi greiddu 97% hluthafa atkvæði gegn því að þetta mál yrði rannsakað með tilliti til þess hvort fyrirtækið hefði brotið eigin siðareglur. 97%! Næst þegar ég kaupi mér jarðýtu, þá verður það sko ekki Caterpillar! Algert siðleysi, fullkomið ábyrgðarleysi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Nepalskir maóistar segjast fagna því ef alþjóðlegt eftirlitslið Sameinuðu þjóðanna kæmi til Nepal.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Mér finnst þessi rannsókn hljóma áhugaverð.

Wednesday, April 13, 2005

Ég minni á fundinn í kvöld sem boðaður er hér að ofan í feitletri.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Einar Karl Haraldsson skrifar grein í Moggann í dag. Ég get ekki að því gert, en alltaf þegar ég sé nafn Einars rifjast upp fyrir mér bæklingur frá honum í prófkjöri, sem innihélt sprenghlægilegt (hlægilegt semsagt...) viðtal Hrafns Jökulssonar við Einar sjálfan. Í því dró Einar upp ótrúverðuga mynd af sér sem skrautlegum en ábyggilegum karakter, en upp úr stóð samt þetta:
Hrafn: Einar, eru kommúnisti?
Einar: Ég er kristilegur félagskrati með trú á markaðssamfélag.
Þvílíkur meistari!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Rumsfeld’s mission to Baghdad: keeping Saddam’s secret police in power
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í DV í dag er viðtal, á bls. 17, við Óla Gneista, einn af forsprökkum Vantrúar. Ágætt viðtal þar á ferð.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Mordechai Vanunu, píslarvottur baráttunnar gegn útbreiðslu kjarnorkuvopna, er dreginn aftur fyrir rétt vegna meintrar borgaralegrar óhlýðni. Er hægt að ætlast til þess að menn fylgi reglum sem brjóta á mannréttindum þeirra? Ég segi NEI! Dæmi um borgaralega óhlýðni Vanunus má sjá hér, þar sem hann brýtur bann við því að hitta erlenda ríkisborgara eða tala við þá.

Monday, April 11, 2005

Reykbann á kaffihúsi
-- afstaða hins frjálslynda marxista


Tesa 1: Einkaeignarrétturinn er mannasetning. Hann er ekki náttúrulögmál, guð bjó hann ekki til, og hann er ekki sjálfsagður. Hann er mannasetning.

Tesa 2: Atvinnuvegi þarf að reka með þarfir fólks í fyrirrúmi, ekki ávöxtunarkröfur fjármagnseigenda. Aðeins þannig má tryggja öllum aðgang að lífsviðurværi og koma í veg fyrir bruðl.

Reglur um reykingar á kaffihúsum eru það sem ég þarf að létta á mér með. Það stendur til að banna reykingar á kaffihúsum. Ég er á móti því að ríkisvaldið banni þær algjörlega. Ég tel reykreglur á kaffihúsum ekki koma ríkisvaldinu við. Ég get samt ekki fallist á að þau mótrök hægrimanna, að kaffihúsið sé í einkaeign, séu gild mótrök. Að mínu mati ætti ákvörðunin að vera tekin af þeim sem hún kemur við, það er að segja, þeim sem ákvörðunin snertir. Það eru þá annars vegar þeir sem vinna á kaffihúsinu, hins vegar þeir sem eiga viðskipti við það. Þar við bætist sá sem á kaffihúsið, sem hlýtur að reyna að græða á báðum hinum. Þeir sem vinna á kaffihúsinu geta varla ráðið yfir því nema þeir séu jafnframt eigendur þess, þannig að ég sé ekki að einfalt sé að leysa þetta nema kaffihúsið sé samvinnurekið.

En á meðan samvinnurekin kaffihús fyrirfinnast varla ... þá fellst ég á að þeir sem vinna þar hafi, eins og annað vinnandi fólk, rétt til að sæta ekki heilsuspillandi starfsumhverfi af hálfu vinnuveitanda. Ef starfsfólkið samþykkir -- ótilneytt og af eigin hvötum -- að á kaffihúsinu séu reykingar heimilar, þá sé ég ekki að neinum sé stætt á að banna það. Það er hins vegar vafasamara, að eigandi sem vinnur ekki þar sjálfur (og einn), hafi mikinn rétt til að ákveða þetta.

Samfélagið getur sett sér reglur um hvernig hlutirnir eiga að vera. Þær reglur geta brotið í bága við einkaeignarrétt ef almannahagsmunir krefjast þess -- enda er einkaeignarrétturinn, eins og ég sagði í byrjun, ekki annað en mannasetning. Það sem meira er, þeir sem græða á að einkaeignarrétturinn sé í hávegum hafður eru einkum þeir ríkustu -- sem jafnframt hafa töglin og hagldirnar í ríkisvaldinu -- sem aftur gengur umfram annað út á að tryggja einkaeign. Tryggja mannasetningu sem gagnast fáum en skaðar marga. Tryggja forréttindi fámennrar elítu fyrir hagsmunum fjöldans.

Aftur að fyrirhuguðu reykbanni. Ríkisvaldið er ekki það sama og samfélagið, en stundum tekur ríkisvaldið vissulega að sér að gera það sem samfélagið hagnast á eða vill. Heilsusamlegt vinnuumhverfi er óneitanlega nokkuð sem má telja hagstætt ...

Kaffihús í einkaeigu eru háð sama annmarka og svo margt annað í einkaeigu: Hagsmunir stangast á. Andstæðir hagsmunir eiganda og starfsmanns kaffihúss eru, í eðli sínu, ósættanlegir. Hér er á ferðinni ekkert annað en smækkuð mynd af stéttaandstæðum þjóðfélagsins sjálfs. Stéttaandstæðurnar eru ósættanlegar -- og þess vegna þarf ríkisvaldið til að breiða yfir þær -- með ofbeldi. Það er ekkert annað en ofbeldi að neyða mann til að vinna í reyk ef hann vill það ekki sjálfur -- og það er ekkert annað en ofbeldi að banna kaffihúsaeiganda að ráða í sínum húsum. Það þarf að höggva á hnútinn með ofbeldisaðgerð: Lagasetningu. Lögin sætta ekki andstæðurnar; ef það væri hægt að sætta andstæðurnar þyrfti ekki lög. Lögin eru aðferð annars hagsmunaaðilans til að hafa sitt fram.

Andstæða hagsmuni eiganda og starfsmanns er ekki hægt að sætta. Hins vegar er hægt að leiða andstæðuna til lykta, og það er ekki einu sinni svo flókið: Allt sem þarf er að eigandi og starfsmaður sé sami aðilinn. Hann þarf þá ekki að hugsa um hagsmunina nema út frá sjálfum sér, og stéttaandstæðurnar eru úr sögunni. Það er frábært þegar litlir hnútar í samfélaginu eru leystir með stofnun samvinnurekinna fyrirtækja eða öðrum sósíalískum rekstri. Það er frábært. Það er ennþá frábærara ef hægt er að koma þeirri breytingu í kring í öllu samfélaginu: Þegar einkaeign heyrir sögunni til, og samvinnu- og sameignarrekstur er normið, þá heyrir og efnahagsleg stéttaskipting sögunni til, stéttaandstæðurnar eru leiddar til lykta með því að stéttunum er útrýmt. Það ferli er það sem vér köllum byltingu. Svo ég svari spurningunni áður en hún er borin upp: Nei, ég er ekki að tala um að skjóta alla kapítalistana í hausinn. Ég er að tala um að keppa þá út af markaðnum sem kapítalista. Afnema einkaeignina, en í stað komi sameign. (Ha, stela bara af kapítalistunum? Nei, kjáni!) Einkaeignarrétturinn, aftur á móti, er annað mál. Ef frjálslyndur sósíalismi er jafn góð hugmynd og ég held að hann sé, þá mun spurningin um einkaeignarréttinn svara sér sjálf í fyllingu tímans. Ef sameignarfyrirkomulag er betra, þá virkar það af sjálfu sér og verður normið - og þegar einkaeign sem slík er orðin að gamaldags sérviskuhætti er einkaeignarrétturinn ekki lengur svo merkilegt spursmál.

En byltingin er nú ekki byrjuð. Hvernig leysum við þessa reykingaþrætu án þess að til þurfi byltingu?

Ja, ég sting upp á þessari málamiðlun: Kaffihúsaeigendum verði heimilt að leyfa reykingar í einangruðum, vel loftræstum hluta kaffihússins, gegn því að þeir greiði fyrir það gjald (sbr. vínveitingaleyfi) og setji upp merkingu utan á kaffihúsið: Varúð, hér má reykja.

Málið leyst.
Í sunnudagsmogganum var ágæt grein um Nepal og ástandið þar. Ég held að greinarhöfundi hafi tekist vel upp með að skrifa grein sem var í senn fróðleg og sanngjörn. Maóistar hafa nú lag sem aldrei fyrr. Það er umhugsunarefni að þeir skuli ekki láta til skarar skríða og taka þetta með einu roknaáhlaupi. Kannski að þeim finnist ekki á það hættandi að leggja allt undir ... kannski að þeim finnist það skynsamlegra að vinna fleiri smærri en öruggari sigra, vinna smám saman á. Kannski að þeir séu að sýna þolinmæði sína og yfirvegun. Kannski að þeir séu að sýna á sér veikleikamerki. Ég hef tekið þann pól í hæðina að trúa ekki orði sem Gorkhapatra-fréttastofa nepölsku krúnunnar segir. Það er nú ljóta spunameistarakvörnin. Nema hvað þeir eru engir sérstakir meistarar. Varla telst það vel spunnið, þegar leikmenn hinu megin á hnettinum sjá í gegn um það, eða hvað?
Ég efast um að nokkuð sé til í fréttum Gorkhapatra af klofningi í röðum maóista. Hins vegar er því ekki að neita að maður verður hugsi yfir því að þeir skuli ekki gefa allt í botn. Á laugardaginn fyrir viku lýstu þeir yfir 11 daga allsherjarverkfalli ... og maður hefði líklega meiri spurnir af því ef það gengi vel, ekki satt? Farsímakerfið er ennþá í lamasessi og boðleiðir tepptar ... þannig að kóordinasjón maóista er slegin út af laginu. En ég er hræddur um að málið eigi sér aðra skýringu, semsé þá, að Prachanda, Bhattarai og félagar hafi misreiknað sig í taktískum ákvörðunum. Ég hef það t.d. á tilfinningunni að meiri virðing fyrir mannréttindum hefði skilað sér margfalt í auknu fylgi. Sama má segja um alvöru lýðræði innan flokks og utan. Án þess að ég þekki til þess í smáatriðum, þá efast ég um að "lýðræðislegt miðstjórnarvald" hafi gefist mikið betur í CPN(M) en öðrum flokkum ... og ég geri ekki ráð fyrir því að þorpsbúum haldist uppi að vilja bara lifa sínu lífi í friði. Það má þræta fram og til baka um að nauðsyn brjóti lög, að hagsmunir heildarinnar gangi fyrir, að í miðri byltingu verði herinn að vera samhentur o.s.frv. og kannski er það alveg rétt. Kannski. Þegar öllu er á botninn hvolft þykir mér það samt dapurlegt, ef virðingarleysi fyrir mannréttindum verður þess valdandi að byltingin misheppnist. Ef bylting yrði farsæl þrátt fyrir einhver mannréttindabrot ... þá mætti kannski líta á það út frá hagsmunum heildarinnar. Ef byltingin yrði ekki sigursæl en byltingarmannanna yrði minnst með hlýju og aðdáun næstu áratugina, þá hefðu þeir líka unnið eins konar sigur, þótt ekki hefði hann verið á vígvellinum. En ef saman fara ónóg virðing fyrir mannréttindum og óyfirstíganlegir erfiðleikar sem keyra byltinguna út af sporinu ... þá tapa einfaldlega allir.

Sunday, April 10, 2005

Ein af uppáhalds Biblíutilvitnunum mínum er þessi:
Og ávöxtur réttlætisins skal vera friður, og árangur réttlætisins rósemi og öruggleiki að eilífu. (Jesaja 32:17)
Í þessari frétt er sagt:
Miklar öryggisráðstafanir komu í veg fyrir að ísraelskir öfgamenn héldu fund á Musterishæðinni í Jerúsalem í morgun. ... Einungis múslimum er heimilt að fara á hæðina til bæna. Þeir verða að vera orðnir fertugir til að fá aðgang.
Þarna hefði nú mátt vanda betur til. Ástæðan fyrir því að þeir verði að vera orðnir fertugir er nefnilega sú, að Ísraelar banna fólki undir fertugu aðgang að hæðinni!

Friday, April 8, 2005

Hmm ... lesið þennan pistil Hreins Hjartahlýs. Egill Helgason var ekki beint að fá plús í kladdann núna. Ekki frekar en í umræðunni um kristniboð í grunnskólum. Æi, hann Egill er stundum á hálum ís.
Þetta er nú bara óhugnanlegt. Best að yfirvöld hafi óskoraðar heimildir til að hnýsast í einkalíf fólks. "Þeir sem hafa ekkert að fela hafa ekkert að óttast krakkar." "Stóri bróðir er vinur þinn."
"Saddam reyndi að kaupa úraníumgrýti frá Níger" sögðu menn í aðdraganda Íraksstríðsins, og höfðu sem heimild skjöl sem fljótlega kom á daginn að voru fölsuð. Þau voru meira að segja fölsuð á bréfsefni merkt embættismanni sem var ekki lengur í því embætti þegar skjölin voru dagsett. Sagt var að skjölin hefðu verið fölsuð í Níger, og þegar flett var ofan af fölsuninni brást Bushöstjórnin við með því að fletta á móti ofan af sínum eigin diplómata/njósnara sem hafði uppgötvað fölsunina. M.ö.o. sendiboðanum var refsað. En hvar liggur hundurinn grafinn? Voru skjölin kannski ekki fölsuð í Níger, heldur í Bandaríkjunum sjálfum? Þeirri spurningu er velt upp í þessari grein.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Einar Ólafsson skrifaði komment:
Kjarni málsins er ... að atvinnuvegirnir eiga að þjóna fólkinu. En mér finnst þetta tímabær pæling hjá þér með ríkið, sú var tíðin að menn ræddu um stéttareðli ríkisins en sú umræða hefur lognast út af án þess séð verði að neitt hafi breyst nema þá helst að sjaldan hefur ríkisvaldinu verið beitt jafn markvisst víðast hvar í þágu borgarastéttarinnar og á undanförnum aldarfjórðungi.
...og ég svaraði:
Einmitt. Hvað sem einstökum ríkisstjórnum kann að líða, þá hlýtur ríkisrekstur að hafa þennan innbyggða galla. Mér þætti það ávinningur í sjálfu sér ef hægt væri að reka atvinnuvegi af almenningi og fyrir almenning, en tengja framhjá ríkisvaldinu.
Ríkisvaldið, framkvæmdanefnd valdastéttarinnar, er ekki vinur okkar.
Það kann að vera að vingjarnleg ríkisstjórn komist til valda og geri eitthvað jákvætt með ríkisvaldinu. Það breytir ekki sjálfu eðli þess, sem er að það er tæki til stéttardrottnunar. Borgaralegt ríkisvald er hannað með þarfir borgarastéttarinnar í huga ... það þjónar hennar hagsmunum vegna þess að það er hannað til að gera það. Atvinnuvegir í þágu almennings eru betur reknir af almenningi sjálfum, án milligöngu ríkisvaldsins. Hvernig er það best úrfært? Ég get ekki svarað því sisona .. það eru sjálfsagt ýmsar leiðir færar. Í tilfelli Símans þætti mér það reynandi, að hann væri rekinn sem lýðræðislegt fyrirtæki, þar sem almenningur ætti auðvelt með að koma að því og hver hefði aðeins eitt atkvæði.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Now I shall ask you to imagine how/ Men under discipline of death prepare for war./ There is much more to it than armament/ . . . and for a while they join a terrible equality;/ Are virtuous, self-sacrificing, free;/ And so insidious is this liberty/ That those surviving it will bear/ An even greater servitude to its root:/ Believing they were whole, while they were brave;/ That they were rich because their loot was great;/ That war was meaningful because they lost their friends
: Homer - Source: War Music A verse translation of Books 16 - 19 of the Illiad by Christopher Logue. 1981. King Penguin.

Wednesday, April 6, 2005

Skemmtikvöld Hins íslenska tröllavinafélags í Snarrót


Að kveldi laugardags komanda, níunda dag aprílmánaðar, verður lítils háttar skemmtikvöld á snærum Hins íslenska tröllavinafélags. Það verður haldið í félagsmiðstöðinni Snarrót í Garðastræti 2 (101 Rvk) og hefst klukkan 20:00 stundvíslega. Fyrst verða sýndar myndir úr sögulegri og frækilegri ferð félagsmanna á slóðir Jóru tröllkonu þann 12. mars sl., en um þá ferð eiga þulir eftir að kveða söguljóð meðan land er byggt. Að myndasýningunni lokinni verður sýnd kvikmynd. "Hvaða kvikmynd?" spyrjið þið ... þið ykkar komist að því sem mætið á kvöldið... Það er von okkar að sem flestir mæti. Burtséð frá sýningunum tveim verða fundargögn höfð um hönd. Dolla verður látin ganga fyrir frjáls framlög, en rukkað um symbólska upphæð fyrir fundargögnin. Heimilt er að mæta með sín eigin fundargögn (þið þurfið samt ekki að koma með blýanta eða strokleður).
Næsta miðvikudag, 14. apríl, verður fundur um málefni Símans. Hann hefst klukkan 20:00. Rætt verður um Símann og fyrirhugaða einkavæðingu á honum. Hvað skal til bragðs taka? Á að reyna að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu? Á að stofna félag um þjóðnýtingu Símans og reyna að kaupa hann eða hlut í honum þegar ríkið selur sinn hlut? Þetta verður rætt og kannski fleira. Ákveðinn verður framhaldsfundur ef ástæða þykir til. Fólk er hvatt til að mæta.
Sjá einnig www.snarrot.net.

Lengi lifir í ...


Kötturinn Pamína er á fimmtánda aldursári, gotin 1990, sannkallað svaðaketti til margra ára en mýkist á gamals aldri. Það er ennþá leikur í þessum gamla veiðiketti, og gaman að fylgjast með henni hendast um húsið í eltingaleik við samankrippluð pappírssnifsi, í miklum ham. Við tókum eina þannig syrpu í gær, kötturinn og við bræðurnir ... og kom mér þá orðaleikur í hug.

Lengi lifir í gömlum læðum.

Hoho.
Hér með lýsi ég eftir fólki, áhugasömu um að Síminn verði í þjóðareign án milligöngu ríkisvaldsins. Hugmyndin er að stofna félag um þjóðnýtingu Símans. Áhugasamir vinsamlegast láti vita: vangaveltur@yahoo.com.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
"Kárahnjúkasvæðið ekki eins stöðugt og talið var" með tilliti til jarðhræringa. Þetta hef ég vitað í 2 eða 3 ár. Er þetta að koma mönnum á óvart núna? Menn hefðu alveg getað hugsað sig aðeins betur um áður en þeir óðu út í þetta. Nei, það má ekki hlusta á kommana. Bannsetta kommana.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hér er minningargrein um páfann, sem ég mæli með að fólk lesi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
An evil exists that threatens every man, woman, and child of this great nation. We must take steps to ensure our domestic security and protect our homeland: Adolph Hitler : In 1933, Hitler used the burning of the Reichstag as a pretext to push through emergency decrees suspending the basic civil liberties of German citizens. The "emergency" decrees remained in effect until the fall of the Third Reich in 1945.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Írösk andspyrnuhreyfing segist hafa drepið æðsta skuggabaldur CIA í Írak í desember sl., mann sem þóttist vera í Írak í viðskiptaerindum, en hafi í raun verið CIA-foringi bak við tjöldin. Sjá yfirlýsingu hér.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Mashkadov gaf lífvörðum sínum fyrirmæli um að drepa sig frekar en að láta sig falla lifandi í hendur Rússum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Seðlabankastjóri Bandaríkjanna, Alan Greenspan, ber sig mannalega þrátt fyrir dæmalaust hátt verð á olíu, sem sér ekki fyrir endann á. Greenspan er enginn heimskingi. Hann veit vel hvað það þýðir fyrir efnahags heimsins, ef framboð á ódýrri olíu þverr skyndilega. Sem mun gerast í náinni framtíð. Það, að hann skuli bera sig mannalega, er ills viti. Er hann að vera macho? Er hann í veruleikafirrtri afneitun? Eða skirrist hann ekki við að fara vísvitandi með rangt mál? Ég veit ekki hver þessara möguleika væri verstur .....

Tuesday, April 5, 2005

Síminn, einkavæðing, ríkisrekstur eða þjóðnýting?


Þetta mál með Símann hefur vakið mig til umhugsunar um þjóðnýtingu. Að mínu mati er þjóðnýting hið besta mál ef hún fer rétt fram. Dæmi um þjóðnýtingu sem færi rétt fram væri ef ríkið seldi Símann félagi sem hefði alla Íslendinga eða alla viðskiptavini Símans sem meðlimi. Kannski að það væri sniðugt að stofna það félag núna strax? Félag íslenskra símnotenda? Hvernig hljómar það? Félag með 150.000 meðlimi þar sem hver hefur eitt atkvæði og kjörin stjórn annast umsjón félagsins og reynir að kaupa Símann af ríkinu og reka hann sem sameignarfyrirtæki allra þjóðarinnar? Eiginlegur rekstur fyrirtækisins yrði líklega með svipuðu móti og hann er núna. Andskotinn, þetta er flott hugmynd! Kannski að þarna liggi bara hundurinn grafinn? Þjóðnýtum Símann! Þeir sem hafa áhuga á að vera með í að stofna þetta félag óska ég eftir að hafi samband hið fyrsta: vangaveltur@yahoo.com ...þetta kallar á að höfuðið sé lagt í bleyti!

Um fyrirhugaða sölu Símans


Nú á að selja Símann. Ég sé ekki hvers vegna þess ætti að þurfa. Vinstri-grænir vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um málið ... og ég tek undir það. Þjóðaratkvæðagreiðsla væri ágæt, svona til tilbreytingar. En hvers vegna ættu hinir háu herrar að efna til hennar? Hún er svo dýr. Kostar margar milljónir. Svo er hún líka ástæðulaus. "L'état, c'est moi" heyrist mér foringinn segja. Er það svo nokkuð annað en útfærsluatriði, hvaða fálmari á auðvaldinu það er sem stýrir þessu? Hvort það er sá hluti valdastéttarinnar sem situr í holdi og blóði í ráðherrastól og gerir vinum sínum gott -- eða sá hluti hennar sem situr í forstjórastól og gerir vinum sínum gott -- það breytir kannski ekki öllu. Lítill munur á kúk og skít.
Einn af þeim sem hafa tjáð sig um söluna er minn kæri Sigurður Hólm á Skoðun.is. Ég má til með að leggja út af nokkrum orðum hans sem ég er ósammála:
Yfirvöld hafa ekkert að gera með því að reka símafyrirtæki í samkeppnisrekstri.
Þessi mantra hefur verið endurtekin svo oft að fólk kinkar ósjálfrátt kolli þegar hún er höfð yfir. Hver segir að hið opinbera ætti að halda sig fjarri atvinnuvegunum? Hver segir það? Hver segir að atvinnuvegirnir séu í alvörunni betur komnir hjá kapítalistum? Að mínum dómi eiga atvinnuvegirnir að þjóna fólkinu í landinu, ekki auðmagni fámennrar elítu. Eina leiðin til að þeir þjóni almenningi í alvörunni er að almenningur eigi þá sjálfur. Og nú kemur hið áhugaverða twist: Ég held að ef atvinnuvegirnir eru í ríkisrekstri í borgaralegu, kapítalísku ríki eins og Íslandi, þá séu þeir einmitt ekki reknir í þágu almennings í raun. Atvinnuvegir í eigu einkaauðmagns eru slæmir ... en atvinnuvegir í eigu opinbers auðmagns eru slæmir líka, þótt þeir séu að sumu leyti skárri. Þeir eru undir stjórn ríkisvaldsins -- og ríkisvaldið er ekkert annað en framkvæmdanefnd auðvaldsins. Munurinn á fyrirtæki í einkaeign og fyrirtæki í ríkiseign er að það sem er í einkaeign er í eigu eins eða fárra kapítalista, meðan það sem er í ríkiseign er í eigu kapítalistastéttarinnar í heild, en ég kem að þriðja möguleikanum síðar. Pétur Blöndal (eins ósammála honum og ég er að mörgu leyti, þá kann ég að meta hreinskilni hans) hitti í mark um daginn þegar hann sagði að Landsíminn væri ekki eign þjóðarinnar heldur ríkisins. Það er hárrétt hjá honum.
Sigurður Hólm heldur áfram:
Hvað sem okkur finnst um aðferðirnar þá er einkavæðing Símans gleðiefni í sjálfu sér.
Einkavæðing Símans er skref í ranga átt, frá dreifðari eignaraðild og völdum til samþjappaðri eignaraðildar og valda. Með öðrum orðum, umsvifin í téðu fyrirtæki færast fjær fólkinu. Það er slæmt í sjálfu sér. Þar við bætast auðvitað meingölluð vinnubrögð (eins og venjulega), manna sem fara sínu fram í fullvissu þess að værukærir sauðirnir mögli ekki.
Ríkiseign slæm. Einkaeign verri. Hvað vil ég þá í staðinn? Ég hlýt að þurfa að svara því. Það er mér líka ljúft: Ég vil sjá sameignarfyrirkomulag og samvinnurekstur. Ekki à la Sovétríkin eða SÍS 1985, heldur lárétt, milliliðalaust skipulag, kerfi sem rekið er á svo lýðræðislegan hátt sem kostur er. Milliliðalausa aðkomu fólksins, án þess að ríkisvald eða auðvald setji stól fyrir dyr eða heimti afnotagjöld. Það mætti kannski kalla þetta þjóðnýtingu án ríkisvæðingar, en mig langar frekar til að kalla það lýðvæðingu.
Ef einhvern langar að stofna félag um lýðvæðingu Símans, safna a.m.k. 100.000 félögum, og kaupa svo Símann af ríkinu, þá er ég til viðtals um það.

Monday, April 4, 2005

Í fyrradag, laugardag 2. apríl, hófst 11 daga allsherjarverkfall í Nepal, skipulagt af Kommúnistaflokki Nepal (maóistum), til þess að setja þrýsting á krúnuna. Það var boðað með löngum fyrirvara, svo vonandi kemur það ekki illa við kauninn á almennum borgurum. Ég vil annars benda á þessa stórfínu grein um Nepal og ástandið þar.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Annars fékk ég áðan í pósti áhugaverða bók sem ég mun lesa þegar ég hef tíma til þess. Hún heitir Chimurenga - the Liberation Struggle in Zimbabwe og er eftir Harpal Brar, sem einnig er formaður CPGB-ML og ritstjóri Lalkar. Bókin er 600. bls löng. Sérviska? Ég býst við því. Áhugavert? Svo sannarlega.
Ásatrúarfélagið boðar "siðfestu" í stað fermingar og mótmælir því hvernig trúarbrögð sitja ekki við sama borð í skólum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Reynir Traustason handtekinn fyrir að smygla kókaíni til landsins og framvísa því við tollverði. Skyldi tollgæslan ekki hafa neitt betra við tímann að gera en að handtaka heiðarlega menn?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ísraelsstjórn planar ólöglega og umhverfisspillandi urðun á sorpi á Vesturbakkanum ... þessir heiðursmenn. Kemur nú ekki á óvart.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
"The peak oil idea – which says that world oil production will go into irreversible decline sometime in the next decade or two – is quickly morphing into conventional wisdom," segir Stan Cox í grein á Alternet ...og svo það sé sett í samhengi, þá hefur olíuverð aldrei verið hærra: 58 dalir tunnan ...og ChevronTexaco er að kaupa Unocal. "Hubbert hit the bullseye with his prediction that U.S. production would peak in 1970. And over the past half century, country after country has seen its oil production hit a peak and start dropping. Yet for decades, economists, petroleum executives and government officials refused to follow Hubbert's analysis to its logical conclusion – that in the easily foreseeable future, humanity will pass over a global peak of oil production, where there awaits a very grim, slippery slope."*

Sunday, April 3, 2005

Ef eitthvað er að marka þessa skýrslu var Askar Akayev hreint ekki eins slæmur forseti í Kyrgyztan og sumir vildu láta hljóma. Hreint ekki góður heldur, en hefur varla notið sannmælis í fréttum. Það þarf ekki að koma neinum á óvart, en ríkisstyrkt valdaránsstofnun sem er meðal ötulustu forsvara bandarískrar heimsvaldastefnu hefur haft hönd í bagga með stjórnarandstöðunni.
Meðan stór hluti heimsbyggðarinnar syrgir páfann og vottar rómversk-kaþólsku kirkjunni samúð sína vottar Vantrú.net fórnarlömbum páfans og kirkjunnar sína samúð í staðinn. Það held ég að sé nær.
Seventeen Techniques for Truth Suppression
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ísland, zíonismi og gyðingahatur eftir Egil Helgason er býsna góð grein. Ég hefði leyft að fljóta með ættartölu zíonismans, þar sem hann og fasisminn eiga sameiginlegan afa á síðari hluta 19 aldar, en býsna góð grein engu að síður.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Fjandinn, hvað er þetta annað en óhugnanlegt!? Annað: Bráðum heyrir sektarkennd sögunni til. Hermenn munu geta "hlýtt skipunum" án þess að sjá fyrir sér brennandi konur og börn í hvert skipti sem þeir loka augunum næstu 35 árin.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Martraðar-vopn: Ef þau eru smíðuð verða þau notuð.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Peak Oil er eitt ... en "Peak Military"?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Lesið líka þessa grein eftir Netu Gólan (ísraelskan friðar-aktivista).
Fyrir svona einu og hálfu ári síðan, eða rétt rúmlega það, þá hætti ég að éta svín og kjúklinga. Þessi dýr eru ræktuð við ómannúðleg skilyrði, skilyrði sem ég gæti ekki hugsað mér sjálfur að búa lifandi dýri. Ef ég get ekki hugsað mér að veita dýri einhverja meðferð en borga í staðinn einhverjum öðrum fyrir að gera það, hvað er ég þá annað en hræsnari? Í viðleitni minni til að vera aðeins minni hræsnari, aðeins meðvitaðri og aðeins ábyrgari neytandi, að ógleymdri aðeins betri samvisku, þá ákvað ég því að hætta að éta svínakjöt eða kjúkling, nema mér þyki sýnt fram á að viðkomandi dýr hafi ekki liðið ástæðulausar kvalir af mannavöldum. Ég geri að vísu þá undantekningu, að ég ét stundum egg. Sumum finnst þetta fáránlegt. Hvað með það hvernig einhverjum heimskum dýrum líður? spyrja sumir. Við höfum alltaf étið dýr, hvers vegna ættum við að hætta því núna? spyrja aðrir. Málið snýst ekki um að ég éti ekki dýr per se. Það er ómannúðleg meðferð á dýrum sem ég vil ekki taka þátt í af samviskuástæðum. Stundum kemur þetta mér í asnalega klípu. Mér er kannski boðið í mat og það er kjúklingaréttur á boðstólum. Hvað á ég að gera, sía kjúklingabitana úr? Það er oftast vandræðaleg sitúasjón sem þá kemur upp.

Saturday, April 2, 2005

Olíuverð heldur áfram að rjúka upp. Meira en 57 dollarar tunnan í gær, það hæsta sem um getur. Þetta óhemju háa verð er ekki á leiðinni niður aftur, vegna þess að olíulindir heimsins fara þverrandi. Það eru vægast sagt slæmar fréttir fyrir samfélag sem bókstaflega á allt sitt undir ódýrri olíu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
"A standing army is one of the greatest mischief that can possibly happen." (James Madison)

"Over grown military establishments are under any form of government inauspicious to liberty, and are to be regarded as particularly hostile to republican liberty." (George Washington)
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég get ekki að því gert, en það syngur í mér eitt erindið úr þeim merkilega söng "Malakoff":
Hann Þórður er dauður og það fór vel
nú kryfjum við þann húðarsel.