Tuesday, September 25, 2012

Við sama heygarðshornið

Ríkisútvarpið greinir frá því að Ahmadinejad Íransforseti sé "við sama heygarðshornið" og hóti Ísraelum öllu illu. Fjölmiðlar éta það upp hver eftir öðrum að hann boði tortímingu Ísraels, og má skilja af orðunum að hann meini eitt rosalegt blóðbað, fjöldamorð á gyðingum. Þessi dólgur.
Þegar ég les svona frétt, er ég feginn að hafa lesið greinar eins og þessa. Tilfellið er að orð Ahmadinejads hafa aftur og aftur -- og aftur og aftur og aftur -- verið slitin úr samhengi. Fólk á tilverurétt, ríki ekki. Rasismi, aðskilnaðarstefna og hernám eiga ekki rétt á sér og pólitísk mannvirki sem byggjast á þessum eða öðrum mannréttindabrotum ekki heldur. Lesið greinina, hún skýrir þetta vel.
Áróður er ekki eitthvað sem hvarf af sjónarsviðinu þegar Kalda stríðinu lauk. Íran er eitt af næstu skotmörkum heimsvaldastefnunnar, og aðal hótanirnar hafa verið af hálfu Ísraels í garð Írans. Gleymum því ekki, að Ísrael er eina kjarnorkuveldið í þessum heimshluta, og hefur Bandaríkin á bak við sig. Stór hluti af stríðinu gegn Íran er áróðursstríð, þar sem Ahmadinejad er stillt upp eins og blóðþyrstu villidýri, orð hans tekin úr samhengi og undirliggjandi merkingin að þessum brjálæðingi verði að koma frá völdum með góðu eða illu.
Ég efast um að höfundur fréttarinnar, sem ég vísaði á í upphafi, hafi hlustað á ræðuna og skilji persnesku. Líklegra er að fréttin sé bara þýdd. Hrá og gagnrýnislaust.
Ekki það, að ég skil ekki persnesku heldur, og hef ekki lesið þessa ræðu. En miðað við afbakaðan fréttaflutninginn hingað til -- og miðað við frétt IRNA af þessari ræðu -- þá efast ég um að þarna sé sanngjörn umfjöllun á ferðinni.

Wednesday, September 19, 2012

Besta snjóskófla í heimi

Ég er farinn að hlakka til fyrstu snjókomunnar. Fyrstu 30 ár ævi minnar fannst mér svona tiltölulega leiðinlegt að moka heimreiðina, en lét mig hafa það. Í fyrravor fékk ég hins vegar í bakið -- og það er alls ekki gaman að vera bakveik hengilmæna þegar þarf að moka snjó. Þannig að ég fór í Brynju fyrir tæpu ári og hafði einfalda ósk: Ég vildi fá hina fullkomnu snjóskóflu. Karlinn hélt nú það, rétti mér eina alveg rosalega, með löngu og miklu skafti og svona sköfuhaus. Við venjulega snjókomu er ég núna svona 10-15 sekúndur að moka heimreiðina hjá mér, en uppundir hálfa mínútu ef snjórinn er mjög mikill. Ef ég moka líka innkeyrsluna bætist önnur hálf mínúta við. Og ekki nóg með það, heldur er líka rosalega skemmtilegt að moka með henni. Þannig að ég segi við snjóinn eins og Hallgrímur við dauðann: Kom þú sæll nær þú vilt.

Tuesday, September 18, 2012

Eigin peningastefna

Seðlabankastjóri er sleginn yfir vondri reynslu af eigin stefnu Íslendinga í peningamálum undanfarinn áratug. Ekki skal ég þræta fyrir það. En lexían er ekki að það sé slæmt að hafa eigin peningastefnu, heldur að það sé slæmt að hafa slæma peningastefnu. Árinni kennir illur ræðari.

Ég vil líka fá 20% launahækkun

Maður skyldi ætla að velferðarráðherra með sómakennd mundi ekki hækka laun forstjóra Landspítalans um 20%, og ætlast á sama tíma til þess að spítalinn haldi að öðru leyti áfram að herða sultarólina. Nú ku vera svo mikil þörf fyrir hjúkrunarfræðinga í Noregi, að allir íslenskir hjúkrunarfræðingar gætu fengið vinnu þar, og á hærri launum en hér. Samkvæmt því ætti Guðbjartur að hækka launin þeirra líka um 20%.
Það fer betur á því að Björn skeri upp heldur en að hann skeri niður.

Tonn af rusli ... þau eru nú víða

Áhugafólk um að Hafnarfjarðarhraun þjóni ekki sem sorphaugur, hefur tínt óhemjumagn af rusli í Hafnarfjarðarhrauni, og er það vel. Ég fór í Heiðmörk í gær, ætlaði að fara í berjamó en hefði betur ætlað í ruslamó. Þar er allt fullt af andskotans drasli, hvar sem maður kemur. Sígarettustubbar, tómar dósir, fjúkandi plast og pappadrasl. Aldeilis paradísin.

Thursday, September 13, 2012

Andstaðan við ESB-andstöðuna

Spurning: Hvað kallar maður fólk sem segist vera á móti aðild Íslands að ESB (eða eins og það orðar það sjálft svo varfærnislega, að „telja hagsmunum Íslands betur borgið utan ESB“) en kýs samt með aðildarumsókn? Kýs með umsókn eða styður hana? Það eru til ýmis kjarnmikil nöfn á það, en í minni heimasveit heitir það að vera tækifærissinni.

Tækifærissinni hefur það höfuðmarkmið að komast til valda. Völdin eru ekki verkfæri, heldur eru þau sjálft markmiðið. Að við höfum völdin til þess að hinir hafi þau ekki. Við höfum okkar skoðanir, en erum tilbúin að semja um þær í staðinn fyrir völd.

Það er aumkvunarverð afstaða að þykjast vera á móti aðild, styðja samt umsóknina og aðildarferlið, og hatast svo út í ESB-andstæðinga sem beita sér í alvörunni gegn umsókninni og aðildarferlinu.

Í október í hittifyrra skrifaði Árni Þór Sigurðsson eina svona grein, „Evrópuvakt í gíslingu öfgahægrimanna“. Honum finnst Styrmir Gunnarsson og Björn Bjarnason vera svo miklir delar að það sé vont að þeir séu áhrifamiklir í andófshreyfingunni gegn ESB. Ég skrifaði athugasemd sem einhverra hluta vegna hvarf af Smugu-vefnum (einskær tilviljun, er ég viss um) en þökk sé Evrópuvaktinni (!) getið þið ennþá lesið hana. Árni getur trútt um talað, hvernig ESB-andstæðingar eigi að haga baráttu sinni. Ef þeir greiddu allir atkvæði eins og hann gerði sjálfur, þann dimma dag 16. júlí 2009, þá þyrfti Evrópusambandið ekki stuðningsmenn á Íslandi.

Nú höggva Elías og Huginn í sama knérunn í annarri svona grein á Smugunni: Teboðshreyfing á Íslandi? Þeir standast það ekki að hnýta í þá VG-félaga sem meina það þegar þeir segjast vera á móti ESB-aðild, og reyna sama ódýra bragðið og Árni Þór, að spyrða þá saman við öfgahægriöfl og stilla þeim upp sem leiksoppum þeirra. Við skulum átta okkur á einu: Þótt ESB-sinnar séu tiltölulega einsleitur hópur, þá eru ESB-andstæðingar það ekki. Ég hef mínar góðu og vinstrisinnuðu ástæður fyrir að vera í alvörunni á móti ESB-aðild. Hægri-andstæðingar hafa annars konar ástæður. Niðurstaðan er samt sú sama: Nei við ESB. Í máli eins og þessu þurfa menn, sem eru ósammála um flest annað, að kyngja annarri misklíð og snúa bökum saman fyrir sameiginlegan málstað í einsmálssamtökum eins og Heimssýn. Ef Árni, Elías og Huginn meina það sem þeir segja, þá verður það ekki skilið öðruvísi en að þeir vilji að ESB-andstæðingar séu sundraðir. Dragi nú hver sem vill sínar ályktanir af því.

Við þessa herramenn – og alla aðra sem eru ESB-andstæðingar í hjartanu en eru svo pragmatískir að þeir hegða sér þveröfugt – vil ég segja og spyrja: Ef þið viljið ekki að öfgahægriöfl ráði ESB-andstöðuhreyfingunni, af hverju eftirlátið þið þeim þá sviðið? Af hverju látið þið ekki til ykkar taka og leggið vinstriandstöðunni lið? Eruð þið kannski meira á móti ESB-andstöðu heldur en ESB-aðild?

Saturday, September 8, 2012

Enn eitt álverið?

Þegar VG settist í ríkisstjórn, hafði ég jarðbundnar væntingar, en ég leyfði mér að halda að það yrði í það minnsta bundinn endir á stóriðjustefnuna. En Century Aluminium ætlar að ræsa álver í Helguvík 2015. Eins og spámaðurinn sagði í ágústtesunum: Sá sem vill stöðva stóriðjustefnu lætur hvorki álversframkvæmdir í Helguvík halda áfram óáreittar né kýs flokk sem gerir það.