Monday, October 31, 2005

Vígstaða BNA í Írak og Kóreu

Skv. þessari grein hefur Bandaríkjaher dregið mikið af vopnabúnaði úr vopnabúrum í S-Kóreu til að nota hann í Írak (og Afghanistan). Ef N-Kóreumönnum skyldi nú detta í hug að láta til skarar skríða gegn S-Kóreu, kemur þá nokkurn tímann eins gott tækifæri og einmitt núna?

Þrennt

Erill hjá lögreglunni. Í þetta skipti kunna þeir engar skýringar aðrar en að það séu mánaðamót. Á menningarnótt kunni Geir Jón þá skýringu á svona erli, að tunglið hefði verið fullt (sjá þessa frétt með heimskulegum ummælum Gunnlaugs stjörnu"spekings"). Lesið þessa grein, þar sem útskýrt er hvað það er mikið vit í þessum fabúlum um tunglið.
=== === === ===
Óeirðirnar í París standa enn. Athyglisverð ummæli: „[I]nnflytjendur búa í kuldalegum blokkum sem virðast hafa verið hannaðar af þeim sem byggðu risahverfi í Sovétríkjunum fyrrum“ -- ha?? (Ég hef nú komið í svona „risahverfi“ og það var bara alls ekki eins kuldalegt og ég bjóst við.)
=== === === ===
Hjálparstarfi hætt í Pakistan vegna fjárskorts?? Það eru þúsundir manna, nei, hundruð þúsunda, í nauðum en þeim er ekki hjálpað vegna fjárskorts? Hvar var þessi fjárskortur þegar verið var að kaupa orrustuþoturnar og skriðdrekana sem núna eru að mala Íraka og Palestínumenn? Peningum sem fara í að drepa múslima er greinilega vel varið. Peningum sem fara í að bjarga þeim er það greinilega ekki. Síðan eru menn hissa á að það sé óánægja. Ja, ég er alla vega ekki mjög hissa.
Það má svo bæta öðru við: Musharraf hershöfðingi, valdaræningi og einræðisherra eyðir morð fjár í hergögn og eldflaugar og kjarnorkuvopn -- ef þeir fjármunir hefðu í staðinn farið í að hækka standardinn á húsbyggingum, bæta samgöngur og heilbrigðiskerfið, þá má telja næsta víst að þessar hamfarir hefðu ekki orðið svona mannskæðar.

Saturday, October 29, 2005

75 ára afmæli

Á þessum degi, 29. október, árið 1930, var Kommúnistaflokkur Íslands stofnaður.

Friday, October 28, 2005

Hugleiðing eftir lestur kversins Hvernig snúa má heiminum á réttan kjöl

Ég var að lesa kverið Hvernig snúa má heiminum á réttan kjöl. Það er mikið vit í því og ég held að ég geti lýst mig sammála flestu, þótt það hefði þolað prófarkarlestur. Það sem mér finnst athyglisvert er að ég les út úr kverinu það sama og ég mundi búast við að frjálslyndur marxisti mundi skrifa. Orðavalið er ólíkt, en hugsunin sú sama. Þ.e.a.s. stór hluti af innihaldi þessa rits er það sama og stór hluti af þeim ályktunum sem ég hef sjálfur dregið af frjálslyndum marxisma.

Það er mikið fjallað um firringu og samsömun við hugmyndakerfi, valdastrúktúra og önnur blæti – sem er fyllilega í samræmi við marxískar kenningar um blætiseðli firrtrar vinnu og við falska sjálfsvitund sem trúarbrögð, þjóðerniskennd og fleiri slík apparöt fylla fólk af. Talað er um hvernig það sem höfundur kallar „framleiðnisamskipti“ – en ég kalla „framleiðsluafstæður“ – hélst (a.m.k. að miklu leyti) í ríkjunum sem hafa kennt sig við sósíalisma – og af valdboðstengdum framleiðsluafstæðum leiðir að ný valdastétt verður til = sósíalíska ríkið spillist innan frá.

Þá kemur fram í ritinu marxísk útskýring á því hvernig gildisauki er framleiddur af vinnandi manni en arðræninginn hirðir hann, og enn fremur kemur fram sú marxíska sýn að það sé hnattræn samstaða vinnandi fólks sem sé fær um að bylta núverandi kerfi.

Nú veit ég ekki hvaða nasaþef höfundur hefur af marxískum pælingum. Annað hvort hlýtur hann að vera einhver, eða þá að hann hefur komist að svipuðum niðurstöðum sjálfur. Á hvorn veginn sem er, þá færir ritið mér heim sanninn um hvað aukin samskipti marxista og anarkista geta gert báðum mikið gagn. Ég veit það sjálfur, fyrir mitt leyti, að ég sem róttæklingur og sem marxisti hef haft mikið gagn af því að lesa mér til um anarkisma. Sumt úr anarkistaritum hef ég tileinkað mér sjálfur, sumt hef ég þóst sjá að gangi ekki upp og hvers vegna það gerir það ekki. Ég er nokkuð viss um að marxismi og anarkismi bæti hvor annan upp ef vænn skammtur af eftirtekt og gagnrýnni hugsun er með í spilinu. Þannig að jafnframt því sem ég mundi hvetja aðra marxista til að lesa rit á borð við þetta og ýmis önnur og velta þeim fyrir sér, þá mundi ég að sama skapi hvetja anarkista til að kynna sér marxisma.

Mér virðist vera mikill misbrestur á því að fólk úr öðrum hópnum kynni sér hvað fólk úr hinum hópnum hefur fram að færa. Þessi einangrun gerir engum gagn; það vantar gagnkvæmt hugmyndaflæði, það vantar gagnkvæma samvinnu og skilning og það vantar að hugmyndirnar fái að renna saman og slípast hvor á annarri þannig að niðurstaðan verði ein kenning sem er miklu betri en hvor hinna um sig: Samruni þess besta úr báðum en að göllunum slepptum.

Ýmsir pólitískir hópar sem ekki eru marxískir, a.m.k. ekki sem slíkir – ég nefni sem dæmi anarkista, feminista og baráttumenn gegn rasisma – melta með sér hugmyndir og vinnubrögð árum saman og komast eftir langa leit að niðurstöðum sem í sjálfu sér eru merkilegar, en eru gjarnan vel þekktar meðal þeirra sem hafa grúskað í marxískum skrifum. Er þörf fyrir að hjólið sé fundið upp í öllum herbúðum? Er ekki hægt að samnýta hugmyndirnar? Lítum t.d. á baráttuna fyrir frelsi kvenna og blökkumanna. Fyrir marxistanum liggur í augum uppi að hún er ekkert annað en stéttabarátta eða hluti af henni, að náttúrlegir bandamenn beggja eru þeir sem hafa sambærilega stéttarstöðu og að jafnrétti kynja og kynþátta er langsótt nema jafnrétti alls fólks sé markmiðið. Jafnrétti alls fólks - það er að segja, sósíalismi. Ég vil taka fram, til að fyrirbyggja misskilning, að ég er ekki að tala um miðstýrðan valdboðssósíalisma, heldur einfaldlega að fólk reki samfélagið sitt á jafnréttisgrundvelli og vinni frjálst, skipuleggi framleiðslu og dreifingu í sameiningu og að valdastéttir og valdabákn heyri sögunni til, hverju nafni sem það nefnist.

En aftur að samnýtingu hugmyndanna. Nú er til heilt vopnabúr af hvössum hugmyndum sem hafa orðið til í smiðju marxismans. Þökk sé valdboðssósíalisma tuttugustu aldar og stríði Vesturlanda gegn honum eru anarkistar, feministar, friðarsinnar, umhverfisverndarsinnar og fleiri (skiljanlega) hikandi við að leita í þessa smiðju. Í staðinn grúskar hver í sínu horni og brýtur heilann þangað til niðurstöður finnast. Þessar niðurstöður eru oftar en ekki í fullum samhljómi við hugmyndir sem hafa verið til hjá marxistum árum eða áratugum saman. Samt liggur fólk í því, jafnvel svo árum skiptir, að komast að niðurstöðum sem þegar voru til. Hugsið ykkur alla fyrirhöfnina sem mundi sparast ef fólk jarðaði fordóma sína og gripi í staðinn fegins hendi góðar hugmyndir sem þegar eru tiltækar og tilbúnar til notkunar. Fólk gæti þá í auknum mæli byggt á starfi annarra og hugmyndum fyrri hugsuða – þ.e.a.s. komist strax að niðurstöðum sem annars tæki óralangan tíma að komast að – og geta haldið áfram þaðan. Stytt sér leið framhjá ómældum heilabrotum og óteljandi mistökum.

Misskiljið mig ekki; heilabrot eru bara af hinu góða. En þar sem vel rökstudd niðurstaða hefur verið kynnt, hvað er þá betra en að kynna sér hana og taka svo gagnrýna afstöðu til hennar? Það er best að ég taki dæmi. Til er bók, afbragðsbók, sem nefnist Díalektísk og söguleg efnishyggja. Höfundurinn er Jósef Stalín. Höfundurinn einn fælir sjálfsagt flesta frá bókinni – en hún er samt ekki annað en vönduð og hnitmiðuð samantekt á grundvelli marxískrar heimsskoðunar, og kemur öðrum verkum Stalíns ekkert við. Í henni er rakið annars vegar hvernig sýn marxista á heiminn er og hins vegar sýn þeirra á mannkynssöguna. Það er semsagt annars vegar heimsskoðunin, sem sér heiminn sem síbreytilegan, undirorpinn breytingum sem eru háðar innra eðli hlutanna og ytri áhrifum og samspili þeirra. Kenning sem flestir fallast á þegar hún er útskýrð, og margir nota í reynd. Í öðru lagi er það mannkynssagan, hvernig hún lítur út í ljósi stéttabaráttunnar og hvað stéttabaráttan eiginlega er; hvernig breytingar á framleiðsluháttum geta af sér stéttaskiptingu af nýju tagi og hvernig mótsetningar eða andstæðir hagsmunir milli stétta hafa margvíslegar afleiðingar, þar á meðal byltingar. Ég mundi hvetja hvaða anarkista sem er til að lesa það litla kver og velta því fyrir sér án þess að láta sakaskrá höfundarins slá sig út af laginu.

Annað dæmi: Ríki og bylting eftir Lenín er bók sem útskýrir vel stéttareðli ríkisvaldsins og hvernig ríkisvaldið er afkvæmi yfirstéttarinnar og verkfæri hennar. Ég mundi setja hana á „must read“ lista hvers þess sem berst gegn ríkisvaldinu, þótt ekki væri nema til að setja hlutina í skýrara samhengi: Ríkisvaldið er ekki rót vandans heldur einkenni hans. Til að afnám ríkisvaldsins sé mögulegt verður annað að koma fyrst, afnám valdastéttarinnar – það er að segja, afnám auðvaldsins og framleiðsluafstæðna þess, en í stað eiginlegs valds komi félagslegt og efnahagslegt frelsi og fullveldi almennings, lárétt ákvarðanataka og syndikalísk skipulagning framleiðslunnar.

Ég gæti nefnt fleiri dæmi en læt þessi duga að sinni. Lokapunkturinn er sá, að ég held að þeir, sem eru ekki marxistar sjálfir, sjái í marxisma eitthvað sem ég kannast ekki við í marxismanum sem ég aðhyllist; sjái forsjárhyggju, valdboðshyggju, einhverja fræðilega afskræmingu á náttúrlegri mannlegri réttlætiskennd og andófi gegn valdi, fræðilega réttlætingu á mannréttindabrotum eða eitthvað ópíum fyrir menntamenn. Við vitum öll að þetta er allt saman til í alvörunni. Það sem ég meina er að fræðikenningu ætti ekki að afskrifa vegna þess að bjánar, ofbeldismenn eða rugludallar hafi komið á hana óorði. Ég læt dogmatíska einstefnumenn ekki fæla mig frá því að horfa á heiminn í gegn um gleraugu marxismans. Anarkistar láta Unabomber eða svartklædda unglinga með molotoff-kokteila ekki fæla sig frá anarkisma. Þetta er alveg sambærilegt.

Menntun og reynsla eru tvær hliðar á sama peningi. Það hefur verið sagt að með því að mennta sig sé fólk að stytta sér leið til reynslu – þótt reyndar sé reynslan líka bráðnauðsynleg, þótt ekki sé nema til að setja menntunina í samhengi við hlutlægar aðstæður. Í heiðarlegri fræðimennsku og rökræðu eru (a) upplýsingar og kenningar teknar til greina með gagnrýnu hugarfari og (b) það hrakið sem ekki heldur rökum svo (c) það stendur eftir sem tryggast er vitað. Ég er sannfærður um að með slíku hugarfari er vel hægt að safna þráðunum sem hafa klofnað og klofnað frá því Marx og Bakúnín elduðu grátt silfur, sjóða saman heilsteypta byltingarkenningu sem heldur rökum, meikar sens, er fær um að sameina byltingarsinnað fólk og reynist vel á vígvelli stéttabaráttunnar, og gerir okkur kleift að komast að markmiðinu, að breyta þessu volaða samfélagi okkar til hins betra.

Við þurfum ekki öll að finna upp hjólið. Við getum öll tekið til greina niðurstöður sem eru þegar fundnar – notað vopn sem þegar eru til – og okkur veitir ekki af gagnrýnu aðhaldi sem í senn leiðréttir okkur, þegar við förum með rangt mál eða komumst að röngum niðurstöðum, og byggir upp þéttan og sjálfum sér samkvæman hugmyndalegan kjarna sem getur nýst okkur öllum í sameiginlegri baráttu fyrir betri heimi.

Nokkrar ábendingar

Það er fjáröflunarmatarboð í Snarrót klukkan 19:00 í kvöld. Aðeins 1000 krónur fyrir matinn, rauðleitur drykkur innifalinn, góður málstaður og góður félagsskapur. Nú er tækifærið til að bjóða makanum út, ha?
=== === === ===
Stefán Pálsson skrifar um niðurstöðurnar úr stóru könnuninni um trúarlíf Íslendinga. Þessi könnun var gerð fyrir Þjóðkirkjuna fyrir nokkru síðan og greidd úr Kristnihátíðarsjóði - þ.e.a.s. af ríkinu. Niðurstöðunnar hefur verið beðið með eftirvæntingu, og hún er vonbrigði. Könnunin er ómarktæk, ónothæf, það er hreint ekki mikið hægt að fræðast af henni. Spurningarnar eru leiðandi, valmöguleikar of takmarkaðir, skilgreiningar átakanlega óskýrar o.s.frv. Sjá hér hvað hin æðislega Þjóðkirkja hefur að segja um þessa druslu könnun sína.
=== === === ===
Í Hvíta-Rússlandi er dauðarefsing tekin upp aftur - „tímabundið“. Auk þess segist Lúkasénkó munu hætta við að bjóða sig fram í sautjánda sinn í næstu forsetakosningum ef fólkið „biður hann um það“. Lesendur mínir hafa frjálsar hendur með spekúlasjónir um þetta.
=== === === ===
Indverjum er að fara að berast liðsauki til að reyna að bæla niður byltingu maóista í Andra Pradesh, Uttar Pradesh og víðar. Hvaðan? Frá Kína. Þegar kínverska ríkisstjórnin sker upp herör gegn maóistum í öðrum löndum, ætli megi þá ekki segja að kínverska gagnbyltingin sé fullkomnuð? Það vantar kannski bara að skipta merki hins svokallaða kommúnistaflokks út fyrir öxina og kornknippið?
=== === === ===
Ég hvet fólk til að lesa grein Kurt Nimmo um ummæli Ahmadinejads hins grimma um Ísrael, og um utanríkisstefnu bandarískra nýkóna í Miðausturlöndum.
...og úr því minnst er á Ísrael, þá eru Gush Shalom skýrir að vanda: Another "elimination" - Another suicide bombing - Another retaliation - Another Kassam rocket - And so on, until the next intifada.
=== === === ===
Selwyn Duke heitir maður sem ég fæ ekki betur séð en að sé ansi hægrisinnaður. Samt má lesa þessa grein eftir hann, um málfrelsi og „hate crime“; í henni eru nokkrir góðir punktar.
=== === === ===
Pyndingar Bandaríkjastjórnar eru enn í gangi ef einhverjum datt annað í hug.
=== === === ===
Seinna í dag ætla ég að pósta hérna langri hugleiðingu um hvernig anarkistar og marxistar ættu að slíðra sverðin og taka höndum saman í nýrri fylkingu.

Thursday, October 27, 2005

Ummæli Ahmadinejads

Ég held að Ahmadinejad Íransforseti sé að blöffa með herskáum ummælum sínum um Ísrael. Hann er íhalds-popúlisti og skorar án efa mörg prik hjá trúbræðrum sínum um víða veröld með því að gefa sig út fyrir að vera sterki leiðtoginn sem óttast ekki júðana vondu. Þessi ummæli koma sér illa fyrir frið og stöðugleika en vel fyrir Ahmadinejad sjálfan og þá sem hann treystir helst á. Er þetta ekki nákvæmlega það sama og Bush gerir með því að tala digurbarkalega um hryðjuverkamenn (þ.e.a.s. múslima og aðra skuggalega náunga)?

Úr fréttum

5 dauðir eftir sjálfsmorðsárás í Ísrael. Islamid Jihad lýsir ábyrgðinni á hendur sér og segjast vera að hefna fyrir einn af foringjum sínum sem Ísraelar drápu á mánudaginn var. Ef þessi árás er ekki slitin úr samhengi mætti kannski spyrja: Hvað gekk Ísraelum til með því að drepa þennan foringja til að byrja með? Eiga herskáir Palestínumenn að halda að sér höndum á meðan ísraelski herinn fer sínu fram óáreittur?
=== === === ===
DF-31 eldflaugar Kínverja eiga að drífa alla leið til Ástralíu og Nýja-Sjálands með 1 Mt kjarnaodd. Það er nokkuð langt.
=== === === ===
Kurt Nimmo skrifar um George Galloway og líkurnar á að hann snúi aftur til Washington innan skamms. Ég mun seint gleyma þeirri verðskulduðu rassskellingu sem hann veitti bandarískri blóðhundanefnd.

Wednesday, October 26, 2005

Rosa Parks og allsherjarverkfallið

Ég las í Mogganum að Rosa Parks er látin, í hárri elli. Það eru ekki nema 5 vikur í 1. desember, en það var á þeim degi fyrir 50 árum sem hún neitaði að víkja sæti fyrir hvítum manni, svo sem frægt er orðið. Hver sagði að lög og réttur hlytu að vera það sama? Hver sagði að lögbrot hlytu að vera glæpsamleg?
Allavega stendur nokkuð til eftir 5 vikur, á 50 ára afmæli atburðarins sem markar upphaf Civil Rights Movement. Bandaríska Troops Out Now-bandalagið hefur skipulagt nokkur fjöldamótmæli gegn Íraksstríðinu. Þau mótmæli hafa heppnast geysilega vel og hefur malað bandalaginu talsvert pólitískt kapítal. Nú verður látið reyna á hvort þetta pólitíska kapítal stendur undir eins dags allsherjarverkfalli í Bandaríkjunum.
Eins og ég hef áður sagt, þá tefla menn djarft þar á bæ. Ég mundi ekki hætta á þetta, það er of mikið í húfi og óvissan of mikil. Ef þetta heppnast ekki er það auðmýkjandi ósigur, en ef það heppnast, þá er það mjög mikill sigur og mun auka pólitískt kapítal til muna og verða fyrsta skrefið í öðrum kaflanum í aðdraganda voldugrar and-heimsvaldasinnaðrar hreyfingar.
Eins innilega og ég vona að þetta heppnist, þá get ég ekki sagt að ég sé of bjartsýnn. Ég held að ávöxturinn sé ekki orðinn nógu þroskaður til að tína hann núna. En ég býst við að við sjáum til. Kannski er hin langþráða bylting á næsta leiti.

Tuesday, October 25, 2005

Jafnrétti, stéttabarátta og fleira

Það var góð tilfinning að ganga um mannhafið í miðbænum í gær. Góð tilfinning að finnast Íslendingar einu sinni vera færa um að sameinast um verðugt málefni. Um leið og ég fagna þróttmikilli jafnréttisbaráttu þykir mér að sama skapi miður hvað hún er takmörkuð. Jafnréttisbaráttan er nefnilega slitin úr sínu náttúrlega samhengi, stéttabaráttunni. Lóðið er nefnilega að valdahlutföll kynjanna hafa allt að gera með hvernig þau skiptast eftir stéttum. Forréttinda- og eignastéttin samanstendur að langmestu leyti af körlum - og það hefur áhrif niður allan píramídann. Lausnin er ekki að fjölga konum í forréttindastéttinni heldur afnema forréttindastéttina sem stétt, en í staðinn komi stéttlaust samfélag þar sem fólk nýtur skilyrðislauss jafnréttis. Ég er hræddur um að jafnréttisbarátta sem stefnir ekki að þessu sé dæmd til að hnjóta um sín eigin fótakefli. Hún verður ekki slitin úr samhengi við stéttabaráttuna án þess að fórna heilum ósköpum af sjálfri sér um leið.
Til að mynda er það grýttur vegur að ætla kvenþjóðinni að komast til áhrifa með aukinni menntun. Menntun er vitaskuld góð og gild og vegur svo sannarlega á metunum - en ein og sér getur hún ekki ráðið úrslitum. Það sem ræður úrslitum er valdið í efnahagskerfinu - eignarhald eða yfirráð. Frá þeirri rót rennur allt annað. Konum er ekki haldið utan við forréttindastéttina af þeirri ástæðu að þær séu konur heldur einfaldlega vegna þess að þær eru ekki hluti af henni nú þegar. Það er sama ástæðan og heldur öllum hinum - á að giska 95% þjóðarinnar - utan við forréttindastéttina. Það eru forréttindin sem þarf að afnema, þá getum við farið að tala um jöfnuð, lýðræði og fleira sem við hlökkum til að njóta.
Í bjartsýni minni á að fólk sé skynsamt og taki sönsum, þá bíð ég með eftirvæntingu eftir að þessi 40 eða 50.000, sem voru með mér í miðbænum í gær, átti sig á stéttasamhengi og stéttaeðli jafnréttisbaráttunnar og beiti spjótunum þangað sem þau eiga að rata: Að rótum vandans, stéttaskiptingu og valdi í samfélaginu almennt.
=== === === ===
Úr þunglega ritskoðuðum pressuheimi Nepals heyrast áhyggjuraddir: Vopnahléinu sem Prachanda og maóistar lýstu einhliða yfir um daginn kann að vera stefnt í voða. Það dansar nú á línu, þökk sé óvarkárni konungshersins:
The question we all wanted to ask [...]: Is the RNA out to sabotage the ceasefire?
At least 35 people have died since the CPN (Maoist) declared, on September 3, unilateral ceasefire for three months. Out of them, 25 have been killed by soldiers of the Royal Nepalese Army (RNA) or by the unified command led by the army, while two policemen and one RNA soldier died in Maoist-laid landmine blasts.
During the ceasefire period, four civilians were also killed - two by Maoists (one of them by Maoist's sham court), one by security forces (in Bahadurpur in Palpa) and the remaining one by state-supported vigilante group in Ama VDC, Rupandehi, Oct 17).
[...]
In at least two incidents, the RNA soldiers killed six and four Maoists in cold blood, according to the reports of the Citizens' Committee to Monitor Ceasefire, the UN OHCHR and INSEC. On September 24, the security forces gunned down six rebels and a civilian in Bahadurpur, Palpa and four rebels in Belbari, Morang on October 15. [...]
Prachanda, in his statement announcing the three-month ceasefire, had also warned of resuming hostilities if his cadres were killed, So far, he and his cadres have not retaliated despite the provocative killings. We just hope they will not only remain steadfast in honoring their ceasefire but also extend it indefinitely. The royal government has been deservedly exposed on where it stands when it comes to establishing peace and ensuring that no more Nepalis die. [...]
The killing of Maoists after taking them into control time and again would force the Maoists to resume violence. And this means, the revival of a major excuse of the royal putsch for absolute power. Also, the army's absolute sway over civil administration throughout the country, as we have seen since February 1, would remain.
=== === === ===
Ísraelsher viðurkennir að notast oft við agent provocateur-aðferðina til að espa upp og réttlæta ofbeldi gagnvart Palestínumönnum við friðsamleg mótmæli.
=== === === ===
Norður-Kóreumenn segjast vilja sama viðmót, sömu virðingu og önnur kjarnorkuveldi njóta. Er það skrítið?
=== === === ===
I am a firm believer in the people. If given the truth, they can be
depended upon to meet any national crisis. The great point is to bring
them the real facts.
-- Abraham Lincoln
=== === === ===
Knowledge will forever govern ignorance; and a people who mean to be
their own governors must arm themselves with the power which knowledge
gives.
-- James Madison

Monday, October 24, 2005

Kvennafrí og stéttabarátta

Kvennafrídagurinn er hið besta mál - um að gera að vekja athygli á kerfisbundnum launamun kynjanna. Mér finnst athyglisvert hvað fyrirtæki, ráðuneyti og fleiri úr röðum Valdsins hafa sýnt málstaðnum stuðning, sbr. blaðaauglýsingar dagsins. Ég veit ekki hvort maður ætti að vera ánægður eða tortrygginn. Ef Valdið styður baráttuna, er hún þá barátta? Eða réttara sagt, þarna birtist stuðningur í orði, en baráttumálið er samt ekki í höfn. Æ, þetta er kannski bara besta mál.
Jafnréttisbaráttan er hluti af stéttabaráttunni. Ástæðan fyrir því að konur bera skarðan hlut frá borði er að kapítalistarnir eru næstum allir karlar og arður dreifist í samræmi við það. Af sömu ástæðu er valdastéttin treg til að stuðla að jafnrétti, því þá þyrftu téðir kapítalistar að afsala sér einhverju af forréttindum sínum til útvalinna kvenna. Hver afsalar sér forréttindum ótilneyddur?
Ég tel að jafnréttisbarátta kynjanna slái að vissu leyti ryki í augu okkar. Okkur vantar ekki fleiri kvenkyns kapítalista, okkur vantar jafnrétti milli fólks. Það felur í sér að stéttaskipting heyri sögunni til - hvort sem hún miðar við kynferði, litarhátt eða hreina stéttarstöðu. Það markmið næst ekki með bænaskjölum eða þingsályktunartillögum heldur með því að ganga hreint til verks og afnema stéttaskiptingu með beinum hætti.
=== === === ===
„Ef þeir eru með eitthvað múður, þá lemurðu þá bara. Þeir eru vanir því.“ Hver segir svona annar en ótíndur glæpamaður?

Friday, October 21, 2005

Stutt blogg í dag

Föstudaginn 21. október verður Kommadistró Íslands í Snarrót í kjallara Kaffi Hljómalindar, Laugavegi 21, milli kl. 18 og 19.
=== === === ===
Hungurverkfallið í Guantanamo-pyntingabúðunum er komið fram á þriðja mánuð. Menn eru orðnir að fram komnir og næringu er neytt ofan í þá í gegn um slöngu sem liggur í gegn um nefið. Það er fátt í samtímanum sem gerir mig eins reiðan og þessi meðferð á lifandi fólki. Þegar meðferð á fólki er annars vegar, þá eigum við okkur standard. Verstu kjör sem við teljum nokkrum manni boðleg eru sá standard. Allt ofan á það eru forréttindi. Það versta sem nokkrum manni er boðið í dag, þannig að við sættum okkur við það, gæti okkur verið boðið næst. Ef við mótmælum ekki hræðilegri meðferð á föngum í Guantanamo, höfum við þá rétt til að mótmæla þegar það verðum við sem sætum svona meðferð? Ef við mundum mótmæla þessari meðferð á sjálfum okkur, hvers vegna látum við þá þessa meðferð á föngum í Guantanamo viðgangast?
Réttindi þeirra eru réttindi okkar. Stríðið gegn þeim í dag er stríðið gegn okkur á morgun.
=== === === ===
Tölvuprentarar prenta leynimerki til að hægt sé að rekja frá hvaða prentara blað er upprunnið. Það er ekki verið að deila þessu með almenningi, hmm?
=== === === ===
Sumt fólk er núna á Anarchist Bookfair í London. Ég væri til í að vera í þeim hópi. En ekki er ég það.
=== === === ===
BNA: Dulbúið skref stigið til að afvopna almenning.

Skrautsýning í Pyongyang

Í tilefni af 60 ára afmæli Verkamannaflokks Kóreu hefur verið mikið um dýrðir í Pyongyang undanfarið. Í þessari flash-sýningu má sjá nokkrar myndir af skrautsýningu sem mér finnst virkilega glæsileg. Segið það sem þið viljið um Norður-Kóreu og sjtórnarhætti þar, en þeir mega eiga það að þeir kunna að setja upp skrautsýningar!

Þakkir fær Stefán fyrir ábendinguna.

Thursday, October 20, 2005

Írak: Saddam, Sistani og stjórnarskráin

Saddam er bara vígreifur, hann kann að koma fyrir sig orði þykir mér. Þessi réttarhöld eru skrípaleikur, aulaleg tilraun til réttlætis sigurvegarans. Þórður bendir réttilega á hræsnina; á meðan Saddam er sóttur til saka fyrir glæpi sem framdir voru með vitund Vesturveldanna, þá er ekki verið að kæra neinn fyrir þau hundruð þúsunda mannslífa sem Vesturveldin hafa á samviskunni vegna viðskiptabanns og átaka. Ef einhvern ætti að kæra fyrir glæpi gegn mannkyninu, þá væru það Bush eldri og Clinton og Blair - og samsekir vitorðsmenn þeirra, Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson.
En Saddam er ekki af baki dottinn. Ég með mína réttlætiskennd hef auðvitað samúð með lítilmagnanum, sem í þessu tilfelli er Saddam Hussein. Heimsvaldasinnunum hefur tekist það sem ég taldi ómögulegt, að láta mig fá samúð með Saddam.
Hér er áhugaverð grein um að umsvif shí'íta-klerka í Írak virðast fara minnkandi:
Low Shiite Turnout in South May Signal Waning Influence of clerics [...]
when asked what they liked so much about the document, which even the Shiite Muslim politicians who dominated its drafting have acknowledged is far from perfect, Sarraf gave what turned out to be a common response in this Shiite spiritual center.
"We are with the marjiya ," he said, referring to the members of the highly influential Shiite religious council that asked followers to support the referendum. "If they say 'Vote yes,' we vote yes."
Þarna fer greinilega maður sem veit hvað hann vill. Ég held að á óöruggum tímum eins og eru í Írak, þegar ríkisvald og borgaralegt félag trosna í sundur af álagi, leiti fólk samkenndar og forystu "nær" sér - í ættahöfðingjum og trúarleiðtogum, sem skipta ekki eins miklu þegar ástandið er öruggt eða - réttara sagt - stöðugt. Ef þetta er rétt hjá mér, þá eru mikil áhrif íraskra klerka og ættahöfðingja rökrétt afleiðing af ástandinu að öðru leyti.
On polling day in Najaf, where local officials say more than 80 percent of voters backed the constitution, a majority of those interviewed said they had never read a word of it or knew little or nothing about its contents.
Þar hafið þið það: Höfðu ekki lesið staf í stjórnarskránni sem þeir voru að fara að greiða atkvæði um - fóru bara eftir því sem höfðingjarnir sögðu. Þetta hlýtur nú að gera leikinn auðveldari fyrir hernámsliðið, einhver hrossakaup við höfðingjastéttina er allt sem þarf, en ekki að fólkið sé friðþægt með efnislegum hætti. Ætli Sistani og félagar hafi afnám auðvaldsins og þjóðnýtingu olíulinda og tafarlausan brottflutning innrásarhersins á dagskrá? Ætli það? Hvernig á Írak að geta orðið sjálfstætt með þessum hætti? Svar: Það getur það ekki. Ef Írak á að geta orðið sjálfstætt þarf það forystu sem sameinar fólk í fyrsta lagi ekki eftir trúar-eþnískum brotalínum heldur stéttaskiptingu og sem í öðru lagi ber hagsmuni hinna vinnandi stétta Íraks og þjóðarinnar fyrir brjósti. Já, ég er að tala um byltingarsinnaðan og stéttvísan kommúnistaflokk.
"There are two types of authority: political and religious. And of the two, religious is higher," said Mohammad Khuzai, a representative of Bashir Najafi, one of Iraq's four top Shiite clerics
Þetta er nú ekki alveg nákvæmt hjá karlinum - trúarlegt átorítet er ekki hærra, en (a) þegar hætta steðjar að og fólk verður óöruggt, þá stendur trúin nær því en ríkisvaldið og (b) þegar pólitíski vettvangurinn er í molum en sá trúarlegi ekki - tja, hverjir eru þá best færir um að leiða fólkið?
Across southern Iraq today, the clerics' faces adorn T-shirts, posters and signs along highways and main streets. Ubiquitous graffiti declare "Yes, yes Sistani." [...]
Before Saturday's vote, Sistani "urged" Shiites to support the constitution, using language that fell short of the order he issued in January.
Ég hef játað það áður að Ayatollah Sistani fellur mér heldur betur í geð en flestir trúarleiðtogar gera. Ég held að hann hafi brjóstvit og manngæsku til að bera - en sem prestur hefur hann ekkert að gera með pólitík. Það mega shí'ítarnir nú eiga, að vilja halda trú og pólitík í sitthvoru lagi. En nú telur Sistani sig hafa náð að landa sæmilega góðum díl fyrir sitt fólk - shí'íta - og þá vill hann festa það í sessi með samþykki við þjóðaratkvæði, og skorar á fólk er segja . Þarna er á ferðinni afturhaldssöm sérhagsmunastefna sem snýst um hagsmuni eins trúar-eþnísks hóps umfram aðra og mun blanda loft lævi í mörg ár fram í tímann, og passar alveg við að trúarleiðtogi hafi mótað hana. Hver sá leiðtogi sem talar fyrir hönd tiltekins hagsmunahóps hlýtur að bera hag þess hins sama hóps fyrir brjósti, ekki satt? Það þýðir þá líka að einu stjórnmálaleiðtogarnir sem upp á er púkkandi eru þeir sem bera hag vinnandi almennings fyrir brjósti og eru stéttvísir, gegnheilir og starfa lýðræðislega.
Muhammed Hamuzi, secretary of the Najaf branch of Iraq's Communist Party, one of the country's oldest political institutions, said he believed the marjiya were withdrawing from politics because they feared their reputation had suffered from involvement in the last election.
"The government that came out of it has failed. I am not saying that people do not still follow the marjiya, because they do, but clearly in this referendum many people did not follow their instructions, even Sistani's," Hamuzi said. "People are following political leaders more than before, rather than religious ones."
Þessi skýring þykir mér hljóma nokkuð frambærileg. Átorítet trúarleiðtoga er eðli málsins samkvæmt viðkvæmara en átorítet fjölskyldu eða ríkisvalds þannig að það er vandmeðfarið, jafnvel enn frekar en hitt átorítetið, ef það á að halda trúverðugleika sínum.
"These days I think it depends on their opinions. If the marjiya's opinions are better, people will follow them. If the politicians' are better, they will follow them," said Sadr Aldeen Qubunchi, the top official in Najaf for the Supreme Council.
...það hljómar ekki ólógískt.

Órækur vitnisburður

Um þessar mundir á Verkamannaflokkur Kóreu 60 ára afmæli. Af því tilefni er mikið um dýrðir í Pyongyang. LA Times flytur frétt:
At an ostentatious floral display in Pyongyang [...], a man was pulled aside and asked his opinion of the show.
"It was very wonderful and excellent — it is just as the Korean people feel," Kim Sung Il, 33, an army officer, said. Daily life was fine, he said.
"Thanks to the wise guidance of the Great Leader it has greatly improved and the army and the people are all roused in the struggle for a prosperous country."
Órækur vitnisburður, ha?
Ég, snillingurinn mikli, var að átta mig á því að kvikmyndasýningin áðan, frá hátíðahöldunum 9. september 2003, hefði auðvitað átt að vera auglýst með þetta tilefni í huga. En það er víst of seint.
Nokkrum fjölda bandarískra og annarra erlendra túrista var hleypt inn í landið vegna hátíðahaldanna. Hér er stutt frásögn bandarískrar konu. Sjitt hvað ég öfunda hana. Ég væri meira en lítið til í að heimsækja þetta forvitnilega land. Smávegis úr ferðasögu hennar:
Though North Korea has been labelled the Axis of Evil, the people there didn't fit the stereotype - in fact they shared many of the same values as we hold; concern for family, politeness and courtesy. [...]
In fact the only remaining anti-American propaganda I found was at the Kaesong Youth Park.
There, you could throw darts at an outline of a long-nosed American, or toss a ball into a hole in a picture of an American soldier with his hands cut off.
[...]
each window in the apartment buildings had a light that was on, which was not only beautiful but also quite eerie. When was the last time everyone in your apartment complex was home at the same time?
Hljómar hálf fríkí ... það er satt.
there wasn't a single moment that I didn't feel safe
Ísland er það land sem er kallað vera næst-öruggast í heimi fyrir hryðjuverkamönnum - Norður-Kórea er sögð vera öruggust.
But having been, I highly recommend that others take any opportunity they can to go and see for themselves what Pyongyang is like - as soon as they can, as it won't be the same forever.
Hún hefur lög að mæla. Eftir hverju er maður að bíða, með að skella sér? Norður-Kórea hefur lengi verið efst á listanum yfir lönd sem ég verð að koma til.

Tuesday, October 18, 2005

Kvennafrí, N-Kórea o.fl.

Það var lagið! Ég skora á konur að taka þátt í þessu kvennafríi kl. 14:08 þann 24. október næstkomandi! Kynbundinn launamunur er óhæfa og ætti ekki að þekkjast.
Það minnir mig á að ég þarf að gera grein fyrir atkvæði mínu varðandi feminisma við tækifæri.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
World Peace Herald greinir frá því að brauðkörfur Norður-Kóreu séu meira og minna tómar þrátt fyrir fyrirheit um góða uppskeru. Næststærsta tóbaksfyrirtæki heims, British American Tobacco, „viðurkennir“ að það reki verksmiðju í Norður-Kóreu.* „Viðurkennir“? Eins og þeir megi ekki reka verksmiðju þar? Norður-Kóreumenn gefa í skyn að þeir muni kannski gera meiri „umbætur“ á efnahagskerfinu, segir FT. Mér þætti gaman að vita í hverju þær „umbætur“ felast. Mér þykir ástæða til, í því samhengi, að minna á nýleg skrif Sverris Jakobssonar.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ný sending í Kommadistró Íslands.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Good Americans -- Democrays Grave Diggers?“ spyr Sheila Samples.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Meistari Bill Van Auken skrifar um Judith Miller and the „“New York Times—accomplices in a war based on lies“.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
„They wrote in the old days that it is sweet and fitting to die for one's country. But in modern war, there is nothing sweet nor fitting in your dying. You will die like a dog for no good reason.“
-- Ernest Hemingway

Monday, October 17, 2005

Á nú að fara að einkavæða Landsvirkjun líka? Ég held að nær væri að þjóðnýta hana.
=== === === ===
Jólaauglýsingar IKEA eru byrjaðar strax. Það ætti einhver að skrifa kurteislegt en ákveðið bréf til forsvarsmanna fyrirtækisins og benda þeim á að jólin eru ekki fyrr en í desember.
=== === === ===
Nepalski Congress-flokkurinn ætlar að sniðganga kosningarnar! Það var rétt hjá þeim: Það er ekki hægt að halda frjálsar kosningar við núverandi ástand. Ófrjálsar kosningar eru verri en engar kosningar - þær ber því að sniðganga og það ætlar Congress að gera. Það er gott.
Nepalski herinn drepur fjóra maóista: „In conflicting reports, the army claimed the rebels were killed in a retaliatory attack, while the Maoist rebels alleged they were gunned down in cold blood.“ Þar við bætist: „Maoist insurgents have been carrying out violent activities in different parts of the country despite their unilateral ceasefire, according to the Royal Nepalese Army (RNA).“ (leturbreyting mín) - Herinn er aðili að málinu - hann talar máli konungsins sem ræður honum. Hann er ekki marktæk heimild nema maður muni að hann stendur í baráttu við maóista og allt sem frá honum kemur ber að skoða í því ljósi!

Ljóðaþýðing: Der heimliche Aufmarsch


Alla fyrrinótt var ég með lag á heilanum, lagið Der heimliche Aufmarsch eftir Weinert og Eisler, flutt af Ernst Busch. Þetta er baráttusöngur kommúnista frá millistríðsárunum, þegar þeir börðust gegn uppgangi fasista og um leið gegn stríðinu sem var verið að undirbúa gegn Sovétríkjunum, og braust loks út sem síðari heimsstyrjöldin. Lagið er hrífandi, og þegar ég kom heim úr vinnunni í gærmorgun tók ég mig til og þýddi það yfir á íslensku:

Blásið til sóknar


Það er hvíslað í hverju landi, hvað er það, verkamenn?
Það eru herskáir heimsvaldasinnar, hlustið á, verkamenn!
Auðhringar bæði og iðnjöfrar makka, arðræningjarnir í klíkunum,
safnandi liði um veröldu víða: Í víking gegn Sovétríkjunum!

Félagi, sjá: Þeir fylkja hernum, fnasandi og grenjandi um kynstofnsins rétt!
Þetta er atlaga heimsins herra, gegn hungraðri, kúgaðri öreigastétt!
Trompetablásturinn, trumburnar þungu, eiga að traðka byltinguna undir hæl!
Sem öskrandi bylur fer stríðið um storð, stríðið gegn þér, börðum þræl!

Verkamenn, bændur, vopn ykkar mundið, verjist nú sveinar og fljóð!
Fasista ræningjafylkingar mölvið, funi hver bringa af móð!
Af geirunum dreyrrauðir gunnfánar blakta, glymja um verksmiðjur heróp og köll,
úr rjúkandi auðvaldsins rústum vér sjáum rísandi framtíðar ódáinsvöll!
Úr rjúkandi auðvaldsins rústum vér sjáum rísandi framtíðar ódáinsvöll!


Upprunalegi þýski textinn er svona:

Der heimliche Aufmarsch


Es geht durch die Welt ein Geflüster, Arbeiter hörst du es nicht?
Es sind die Stimmen der Kriegsminister, Arbeiter hörst du sie nicht?
Es flüstern die Kohle,- und Stahlproduzenten, es flüstert die chemische Kriegsproduktion,
es flüstert von allen Kontinenten: MOBILMACHUNG GEGEN DIE SOWJETUNION!

Arbeiter horch, sie ziehen ins Feld und schreien für Nation und Rasse!
Das ist der Krieg der Herrscher der Welt gegen die Arbeiterklasse!
Denn der Angriff gegen die Sowjetunion, ist der Stoß ins Herz der Revolution
und der Krieg der jetzt durch die Länder geht, ist der Krieg gegen dich, Prolet!

Arbeiter, Bauern, nehmt die Gewehre, nehmt die Gewehre zur Hand!
Zerschlagt die faschistischen Räuberheere, setzt alle Herzen in Brand!
Pflanzt euren roten Banner der Arbeit auf jeden Acker, auf jede Fabrik!
Dann steigt aus den Trümmern der alten Gesellschaft die sozialistische Weltrepublik!
Dann steigt aus den Trümmern der alten Gesellschaft die sozialistische Weltrepublik!

Sunday, October 16, 2005

Í gær, laugardag, stóð ég mína fyrstu pligt á anarkistabókasafninu í TÞM. Þar var hið sívinsæla Kommadistró Íslands með í för. Eftir það fór á á styrktartónleika Radda málleysingjanna, og þar var Kommadistróið einnig á borðum. Rúnari og Tomma þakka ég kærlega aðstoðina.
Chavez segir að heimurinn sé á barmi olíukreppu. Eins og Mogginn segir þetta mætti næstum því halda að þetta kæmi einhverjum á óvart. Að heimurinn sé á barmi olíkreppu, það er að segja, ekki að Chavez skyldi hafa orð á því.
=== === === ===
Dindill.is er heimasíða sem ég var að rekast á í fyrsta skipti. Er hún nýtilkomin? Hver veit nema maður eigi eftir að reka nefið þar inn í framtíðinni.
=== === === ===
Nýleg árás í rússnesku borginni Nalchik segir Sunday Times að sé verk íslamskra öfgamanna sem eigi sér það markmið að stofna íslamskt harðlínuríki í Suður-Rússlandi. Svona fullyrðingum tek ég með fyrirvara. Það sama er sagt um Checheníu. Eins og allt í einu spretti upp einhver öfgahreyfing, eins og úr pólitísku eða félagslegu tómarúmi. Trúverðugt? Mér þykir sennilegri skýring að í þessu héraði sé mikil óánægja með stjórn Rússa - eins og í Checheníu - og þess vegna grípi menn til vopna. "Herskáir múslimar" er það sem rússnesk yfirvöld vilja að við álítum þessa menn, svo okkur þyki allt í lagi að það sé gengið milli bols og höfuðs á þeim. Herskáir eru þeir, greinilega. Múslimar líka. Það þýðir samt ekki að það sé orsakarsamband þar á milli. Nei, ég tel pólitískar, félagslegar og efnahagslegar skýringar sennilegri en einhverja sjálfsprottna "illsku" sem lyktar meira af áróðri en nokkru öðru.
=== === === ===
Indverska ríkisstjórnin hefur gagnrýnt aðför nepölsku krúnunnar að borgararétitndum, ekki síst ritskoðun. Nú bregðast nepalskir kóngsmenn harkalega við, segja að þetta séu innanríkismál og þau komi Indverjum ekkert við. Bhuwan Thapaliya skrifar á Global Politician að Nepal sé sennilega verr stjórnað en nokkru öðru landi í Suður-Asíu, stjórnmálin þar séu svo þversagnakennd, flóking og misvísandi að óhætt sé að kalla Nepal "pólitíska tilraunastofu". Mér finnst það góð líking; þetta er nú einu sinni ein aðalástæðan fyrir áhuga mínum á málefnum Nepals.
Talandi um áhuga minn á Nepal: Um daginn skrifaði ég tvær litlar greinar á Wikipedia, báðar tengdar stríði fólksins í Nepal. Gaman þótti mér að sjá að það er einhver hreyfing á þeim; þeim hefur verið eitthvað breytt síðan ég gekk frá fyrstu útgáfu. Það hlýtur að benda til þess að einhver lesi þær og kæri sig um að bæta þær. Það getur varla verið nema gott. Ef einhver hefur áhuga á að vita það, þá er önnur greinin um Chandra Prakash Gajurel, miðstjórnarmann í nepalska maóistaflokknum, sem situr í fangelsi í Chennai (sem áður hét Madras) á Indlandi. Hann er betur þekktur sem félagi Gaurav. Hin greinin fjallar um CCOMPOSA, (Coordination Committee of Maoist Parties and Organizations of South Asia - nafnið útskýrir sig væntanlega sjálft).
=== === === ===
Norður-Kóreumenn eiga von á mjög góðri uppskeru í ár að sögn FAO. Það er gott.

Friday, October 14, 2005

Í kommenti sem Þórður Sveinsson skrifaði við þarsíðustu færslu komu fram þónokkrir gildir punktar sem mér er ljúft og skylt að svara, og geri það í þessari sérstöku færslu.

Þórður skrifar að þá „sem nú fara með völdin í Írak [sé] samt ekki hægt að afgreiða sem landráðamenn“ eins og ég geri.
Mitt svar: Þeir sem fara með völdin í Írak er Bandaríkjastjórn. Þeir sem leggja Bandaríkjastjórn lið við að ljá hernáminu blæju lagalegrar réttlætingar eru að mínu mati alveg tvímælalaust landráðamenn. Í því sambandi mætti hafa hliðsjón af íslenskum lögum um landráð, í X. kafla almennra hegningarlaga, greinar 86-89. Mér sýnist ekki vera nein tvímæli, að quislingastjórnin hefur gerst sek „um verknað, sem miðar að því, að reynt verði með ofbeldi, hótun um ofbeldi, annarri nauðung eða svikum að ráða [íraska] ríkið eða hluta þess undir erlend yfirráð“, „að skerða sjálfsákvörðunarrétt [íraska] ríkisins“, „að erlent ríki byrji á fjandsamlegum tiltækjum við [íraska] ríkið eða hlutist til um málefni þess“ auk þess sem quislingastjórnin „veitir fjandmönnum [íraska] ríkisins liðsinni í orði eða verki eða veikir viðnámsþrótt [íraska] ríkisins“.
Nú viðurkenni ég að það er umdeilanlegt að eitthvað sé til sem heitir „íraska ríkið“ í dag - það má annars vegar halda því fram að svo sé ekki, þar sem sá aðili sem krefst einokunar á valdbeitingu innan landamæra Íraks sé utanaðkomandi afl og leppar þess og því sé einkunnin „íraska“ óviðeigandi. Á hinn bóginn má segja að þetta ríki sé fullt eins „íraskt“ og ríkisstjórnin á undan (eða, réttara sagt, að stjórnin á undan hafi ekkert frekar verðskuldað þessa einkunn) - enda er íraska þjóðin fjarri því að vera einsleitur hópur. Hún er klofin í stéttir og ríkisvaldið er, sem kunnugt er, framkvæmdanefnd valdastéttarinnar. Þannig er það kannski ekki aðalatriði hvort ríkisstjórn er „innlend“ eða ekki - hlutverk hennar er það sama eftir sem áður, að halda undirstéttunum niðri með valdbeitingu.

Þórður bendir á að „[þ]ó svo að misjafn sé sauður í mörgu fé þá vinna örugglega margir ráðherranna í ríkisstjórn landsins störf sín af heilindum.“
Mitt svar: Það kann vel að vera að þeir trúi því að þeir séu að gera gott. Það breytir því ekki að þeir vinna þjóð sinni tjón með gjörðum sínum, og ég sé ekki að góð trú eða góður ásetningur breyti afleiðingum gjörðanna. Það breytir því vissulega, að ekki sé um tóm hrakmenni að ræða, og yrði sjálfsagt tekið til greina af sanngjörnum dómstól - en olíulindunum er jafnmikið stolið og fólk er jafnmikið drepið fyrir því.

Þórður skrifar: „Varla eru þeir margir sem vilja sjá þá sem leiða hina vopnuðu baráttu gegn hernámsliðinu á valdastólum. ... Það að innrásin í Írak hafi verið röng réttlætir ekkert þeirra baráttu; hún er glæpsamleg og veldur ómældum þjáningum.
Mitt svar: Að mínu mati verðskuldar þjóðfrelsisstríð Íraka skilyrðislausan stuðning. Innan írösku andspyrnunnar eru vissulega menn sem ég mundi ekki treysta fyrir völdum í ríkinu. Í vestrænum fjölmiðlum er látið líta út fyrir að íraska andspyrnan samanstandi almennt af dýrvitlausum trúarnötturum. Ég legg ekki trúnað á það. Það þarf ekki að vera dýrvitlaus trúarnöttari til að taka upp vopn til varnar föðurlandi sínu, eins og dæmin sanna. Það er ekki spurning að stór hluti írösku andspyrnunnar berst gegn hernámsliðinu vegna særðrar réttlætiskenndar og þjóðarstolts, og við það er ekkert að athuga. Samviskuspurning: Hver mundi ekki gera það sama í þeirra sporum?
Að svo miklu leyti sem baráttan er (a) gegn hernámsliði heimsvaldasinna og leppum þeirra og (b) fyrir írösku þjóðfrelsi og fullveldi, þá á hún minn stuðning skilyrðislausan. Segjum að þeir vinni sigur. Ef íslamskt klerkaveldi yrði þá á dagskrá mundi ég andæfa því af fullum krafti líka. Barátta gegn hernámi er eitt, barátta fyrir klerkaveldi annað - sú síðarnefnda þætti mér afleit niðurstaða. Hver sem niðurstaðan verður, ætti hún samt að vera fundin af Írökum sjálfum. En gætum að: Nú þegar er vísir að íslömsku ríki í burðarliðnum. Sharía-lögin verða að miklum hluta stofninn í írösku lögbókinni, ef leppstjórnin fær sínu framgengt, enda eiga klerkarnir þar margan hauk í horni. Geymir ekki stjórnarskráin tilvonandi ákvæði um að lög megi ekki brjóta í bága við sharía? Leiðir það ekki af sér að mannréttindi t.d. kvenna og samkynhneigðra verði fyrir borð borin? Verða shí'íta-klerkar eins og al-Sistani ekki voldugustu menn ríkisins? Ég mundi frekar vilja búa við al-Sistani en Mullah Omar - en það er ekki þar með sagt að Sistani væri æskilegur kostur. Þetta er hálfgert false dilemma: Við megum ekki gleyma þeim kosti af hafna báðum og að Írak geti orðið sekúlar ríki aftur.

Þórður ritar: „gildi þessara stjórnarskrárkosninga er umdeilanlegt, ekki þó af sömu ástæðu og þú nefnir; það að fólk sé fátækt og að lífsbaráttan sé erfið á aldrei að nota sem ástæðu fyrir ólýðræðislegum stjórnunarháttum.“
Mitt svar: Ég er hjartanlega sammála. En í Írak helst þetta einmitt í hendur: Hernámsyfirvöld eru í hæsta máta ólýðræðisleg, og þessi stjórnarskrá á ekki eftir að breyta neinu um það. Ég tel réttara að sniðganga kosningar eins og þessar, þar sem fullvíst er að sama hver niðurstaðan verður, þá verða hagsmunir Bandaríkjastjórnar ofar hagsmunum írösku þjóðarinnar. Það er ekkert lýðræðislegt við ólýðræðislegar kosningar!

Þórður segir að menn eigi ekki að segja sem svo: „Fólk hefur engan tíma til að setja sig inn í málin og þess vegna skulum við bara ákveða þetta sjálfir og ekkert vera að láta kjósa um þetta.
Mitt svar: Þegar öllu er á botninn hvolft verður Írak samt sem áður stjórnað frá sendiráði Bandaríkjanna í Baghdad. Fólki er boðið að kjósa um trivial málefni. „Tafarlaus brottflutningur hernámsliðsins og uppbygging sekúlar, lýðræðislegs alþýðulýðveldis“ er ekki valkostur á kjörseðlinum, sem er skiljanlegt. Þeir sem stjórna ferðinni vilja ekki að það sé á dagskrá.

Í stuttu máli sagt: Bandaríkjastjórn fer sínu fram í krafti hervalds og yfirburða. Hún reynir að slá ryki í augu írösku þjóðarinnar með glamri um „lýðræði“ sem ekkert er í raun, og fær sér til stuðnings leiðtoga úr röðum Íraka sjálfra. Sá sem liðsinnir erlendu hernámsliði við að kúga sína eigin þjóð er samkvæmt skilgreiningu landráðamaður, eftir því sem ég kemst næst. Þar af leiðir að quislingastjórnin í Írak er sek um landráð.

Eina bjargráðið sem ég eygi í stöðunni hef ég nefnt áður og ég nefni það hér með aftur: Írakar þyrftu að koma sér upp stéttvísum, sterkum og þróttmiklum verkalýðsflokki með skýr markmið og eindregna afstöðu, sem mundi fylkja Írökum úr hinum vinnandi stéttum í eina sveit, sama úr hvaða trúar-eþníska hópi þeir kæmi, á grundvelli stéttarstöðu, og sparka hernámsliðinu öfugu út í Persaflóa þaðan sem það kom, og svipta innlenda arðræningja, pokapresta og bronsaldarhöfðingja völdum í leiðinni. Við tæki lýðræðislegt lýðveldi þar sem allt kapp yrði lagt á uppbyggingu innviða og efnahagslífs og afrakstrinum yrði varið í þarfir fólks, ekki fjármagns. Hvernig þessi fjarlægi draumur rætist veit ég ekki - en ég sé ekki að aðrir kostir séu í stöðunni.

Ég vil í leiðinni lýsa ánægju með orðalag Ríkisútvarpsins, sem kallar stjórnina „hina veikburða leppstjórn Bandaríkjamanna“ - þar er henni nefnilega rétt lýst.
Gyanendra einvaldur í Nepal boðar kosningar árið 2007. Þingflokkarnir sjö hafa sagt að kosningar undir beinni stjórn konungsins séu ómarktækar, sem er auðvitað alveg rétt. Ef það er planið hjá kóngsa, þá getur ástæðan ekki verið önnur en að hann vilji bæta samskiptin við Indland, Bretland og Bandaríkin. Kóngsi segir: "Meaningful multiparty democracy is possible only by re-energising representative institutions through free and fair elections" - eins og kosningar geti verið "frjálsar" þegar hans hávelborinheitum náðarsamlegast þóknast að halda þær! Nei, þetta er bara vitleysa. Ef þessar kosningar verða haldnar verða þær ekki annað en glamur og ryk sem slegið í augu áhorfenda. Nepal vantar vissulega lýðræði - en lýðræði verður ekki fengið með bænaskjölum til einvaldskonunga. Það næst með átökum, þegar almenningur rís upp og spyrnir hásætinu um koll og kóngsdruslunni með, í krafti samstöðu sinnar. Sjöflokkarnir ættu að mynda bandalag við maóista og veita stríði fólksins pólitískan stuðning. Þegar er búið að ganga milli bols og höfuðs á einveldinu er hægt að stofna lýðveldi, og maóistar hafa þegar kvaðst vera reiðubúnir að taka þátt í stofnunum lýðveldisins - jafnvel setjast á þing - ef leikreglurnar verða sanngjarnar. Vonandi að það gerist sem fyrst.
=== === === ===
Það styttist í allsherjarverkfall gegn Íraksstríðinu sem Troops Out-bandalagið hefur boðað í Bandaríkjunnum 1. desember, til minningar um dirfsku Rósu Parks, svörtu konunnar sem neitaði að eftirláta sæti sitt í strætó hvítum karli þann 1. desember 1955 - og hratt af stað Civil Rights Movement. Eins og ég hef áður sagt á þessum vettvangi þykir mér þetta allsherjarverkfall vera furðu djarft útspil hjá aðstandendum. Eftir hrikalega vel heppnuð mótmæli gegn Íraksstríðinu er vissulega spurning hvað næst. Þetta er svar þeirra við spurningunni. Ef þetta gengur vel og margir leggja niður vinnu, þá er sigurinn mikill og pólitískur höfuðstóll hreyfingarinnar vex til muna, og flýtir fyrir næsta skrefi eftir það, sem yrði líklega að byggja upp fjöldahreyfingu á landsvísu. Ég get hins vegar ekki sagt að ég sé of bjartsýnn. Ég er frekar varkár að eðlisfari þegar svona nokkuð er annars vegar, og efast um að ég mundi hætta á þetta. En þau ætla að gera það. Ef þetta misheppnast mun það ekki líta vel út og mikil fyrirhöfn og mikill tími fara fyrir lítið. En á hinn bóginn - ef þetta heppnast, þá er baráttan gegn Íraksstríðinu komin á nýtt stig. Stig beinna efnahagslegra aðgerða. Það er vissulega skref fram á við - og vonandi að það sé ekki verið að reyna að stíga það of snemma eða gleypa stærri bita en menn geta kyngt...
=== === === ===
Meistari John Pilger skrifar um fjölmiðla sem bregðast, um Írak og fyrri heimsstyrjöldina og Suharto grimmdarsegg í Indónesíu, einn hroðalegasta fjöldamorðingja sögunnar, sem aldrei er talað um vegna þess að hann var með réttum mönnum í liði, átti rétta vini. Og hvað eru 500.000-1.000.000 mannslíf milli vina?
=== === === ===
Nigel Morris skrifar um ástandið í Írak og vitnar meðal annars í Robert Fisk. Hvílíkur skrípaleikur þær eru, þessar kosningar sem eiga að vera á morgun, um fyrirhygaða stjórnarskrá. Hann bendir m.a. á að íraskar fjölskyldur eru með hugann við að fæða sig og klæða, frekar en að ræða um þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvað ættu menn líka að vera að ræða? Hverjum dettur í hug að útkoma þessarar atkvæðagreiðslu muni skila því að vilji írösku þjóðarinnar fái að ráða? Góðir menn hafa bent á að kosningar breyta (yfirleitt) engu - þá væru þær ólöglegar, að sjálfsögðu! Velviljaðir borgarar Íraks eiga sjálfsagt eftir að gefa þessu séns og mæta á kjörstað af tómri óskhyggju, en quislingastjórnin sem Bandaríkjastjórn nota sem lítt dulda leppa sína er ófær um að fullnægja vilja Íraka, því þá yrði hún að vísa Bandaríkjaher úr landi - og þar með slá allar stoðirnar undan sínum eigin völdum. Sénsinn að það gerist. Leppar Bandaríkjamanna í Írak eru hvorki meira né minna en landráðamenn.
=== === === ===
"The consequences of the calculated hysteria of a new anti-Semitism haven’t been just to immunize Israel from legitimate criticism. Its overarching purpose, like that of the “war against terrorism,” has been to deflect criticism of an unprecedented assault on international law." - Norman Finkelstein
=== === === ===
Meira að segja Zbigniew Brzezinsky gagnrýnir Bush og stefnu hans. Þá er nú fokið í flest skjól, held ég.

Thursday, October 13, 2005

Já, trúarnöttarar eru líka til í ligeglad Danmörku. Sú var tíðin að Boðorðin tíu, þau er krysslignar menn eiga að fylgja, innihéldu bara eitt "þú skalt ekki girnast"-boðorð. Þá var tíunda boðorðið þetta: "Þú skalt ekki gera þér mynd af drottni guði þínum." Með öðrum orðum áttu krysslingar ekki að vera skurðgoðadýrkendur (Erich von Däniken hafði aðra skýringu á þessu samt). Boðorðinu var breytt einhvern tímann á ármiðöldum, kannski til þess að auðvelda trúboð meðal heiðingja, rétt eins og heiðnar hátíðir á borð við jól og páska voru teknar upp til þess að auðvelda trúboð meðal fólks sem hélt upp á þær. Ef "guð" gefur fyrirmæli um að aðdáendur hans skuli ekki búa sér til myndir af honum, og leiðtogar aðdáendaklúbbsins segja síðan að það sé allt í lagi, hvað eiga þá sannkrysstnir til bragðs að taka? Væri rökrétt að gera iconoclastíska menningarbyltingu og hreinsun á kirkjum landsins, byggðasöfnum og heimilum trúaðra?
=== === === ===
Ég er einn af þeim sem hafa ekki nennt að setja sig inn í Baugsmálið. Eða, réttara sagt, ég hef ekki nennt að setja mig inn í smáatriðin. Það er samt eitt aðalatriði sem mér þykir merkilegra en önnur: Baugsmálið er skólabókardæmi um innbyrðis mótsetningar auðvaldsins. Sama gamla sagan. Nýr sproti vex úr grasi valdastéttarinnar, fer að aukast að umsvifum á kostnað valdamanna sem fyrir eru, þeir fara að ókyrrast og reyna að spyrna á móti. En þar sannast hið fornkveðna, að hið unga, vaxandi sigrar einatt hið gamla, fúnandi. Ég held, í alvöru talað, að þegar sá dagur rennur upp að ég skrifi bók um stéttabaráttuna á vorum dögum, þá verði mál Baugsmanna tekið sem dæmi um innbyrðis mótsetningar auðvaldsins.
=== === === ===
Talandi um málefni og átök auðvaldsins, þá þykir mér líka athyglisvert hvað olíusamráðsmálið hefur farið hljótt að undanförnu. Kostaði það ekki einhvern borgarstjóra hempuna á sínum tíma? Voru kannski óvandaðir menn bara að nýta sér tækifærið til að koma pólitísku höggi á R-listann?
=== === === ===
Sýrlenskur ráðherra "talinn" hafa framið sjálfsmorð, hermir Mogginn. Nú þykir sumum þetta fráfall ekki hreinlegt. BBC setur gæsalappir utan um 'suicide' og segir "Kanaan is said to have shot himself at his Damascus office" (leturbreyting mín).
Þegar áhrifamenn "fremja sjálfsmorð" eða "deyja af slysförum" undir grunsamlegum kringumstæðum skýtur því oftast upp í kollinn á mér hvort aðrir menn hafi virkilega ekki "hjálpað til". Eins og spekingurinn sagði, Hjálpaðu tilviljuninni og tilviljunin mun hjálpa þér.
Hvað ef það væri sagt í fréttunum að hr. Kaanan hefði nauðgað sjálfum sér og síðan keyrt yfir höfuðið á sér á bílnum sínum?

Wednesday, October 12, 2005

Í dag, miðvikudag 12. október, verð ég með Kommadistró Íslands í Snarrót í kjallara Kaffi Hljómalindar, Laugavegi 21, milli kl. 18 og 22. Til að fræðast um hvað stendur til boða eða fræðast nánar um distróið, sjá heimasíðu þess.
=== === === ===
Mbl.is hermir frá:
Forseti Níkaragva nær samkomulagi við Sandínista
Enrique Bolanos, forseti Níkaragva, hefur ákveðið í samráði við leiðtoga hinna vinstrisinnuðu stjórnarandstæðinga í Sandínistaflokknum, Daniel Ortega, að fresta til næsta árs stjórnarskrárbreytingu sem minnka átti völd forsetans.
Stjórnarskrárbreyting sem á að minnka völd forsetans, já, Íslendingar eru þá ekki eina þjóðin þar sem slíkt er á stefnuskránni. Síðan segir að Samtök Ameríkuríkja hafi "varað við því að lýðræðinu yrði stefnt í hættu við slíka breytingu og líklegt þótti að sú breyting myndi veikja stöðu ríkisstjórnarinnar." Stefnir það lýðræðinu í hættu að veikja stöðu hægrisinnaðs forseta? Annað hefði ég nú haldið. Hin svokölluðu "Samtök Ameríkuríkja" eru auk þess ekki beint trúverðugur gagnrýnandi. Þau eru stofnuð af Bandaríkjunum og Bandaríkin ráða hérumbil því sem þau vilja ráða innan samtakanna. Með öðrum orðum eru samtökin heimsvaldasinnuð í meira lagi, sbr. að Kúba var á sínum tíma rekin úr sambandinu. Var það út af áhyggjum af stöðu mannréttinda? Ætli það?
Áfram heldur fréttin: "Varautanríkisráðherra Bandaríkjanna, Robert B. Zoellick, sagði að Bandaríkin myndu hætta allri fjárhagsaðstoð við landið ef stjórnarandstaðan léti ekki af þeirri iðju að grafa undan forsetanum." -- Það er nefnilega það. Fyrst Bandaríkjamenn setja úrslitakosti, þá má næstum því ganga út frá því sem vísu að þessi breyting verði til batnaðar.
=== === === ===
Enn á Mbl.is: Breska ríkisstjórnin lofar að bæta tjónið af atlögu breskra hermanna á lögreglustöð í Basra nýverið, þegar þeir ruddust inn á skriðdreka til að frelsa nokkra breska hermenn sem höfðu verið handteknir, óeinkennisklæddir. Það fylgir vitanlega ekki sögunni fyrir hvað þessir heiðursmenn voru handteknir. Þeir voru nefnilega að koma fyrir sprengjum, ætluðum heimamönnum, sem áttu að virðast vera frá súnnítum komnar. Lesið nánar um málið og samhengi þess hérna.
=== === === ===
Sjónvarp skemmir heilann í börnum og veldur margvíslegu tjóni á þeim og fullorðnum, m.a. tengt Alzheimer, ótímabærum kynþroska o.fl. skv. nýlegri rannrókn. Félagi Björn Darri fær þakkir fyrir ábendinguna.
Þetta finnst mér vafasöm fyrirsögn á frétt: Súnnítar lýsa yfir stuðningi við nýja stjórnarskrá í Írak. Það væri hægt að segja að margir af leiðtogum súnníta samþykktu þetta, en að gefa til kynna að súnnítar sem slíkir geri það - það er tóm vitleysa. Með því að skipta Írökum í shííta, súnníta og Kúrda er verið að reyna að láta þeim og okkur finnast að Írak sé mjög klofið þjóðfélag. Ég held að það sé ofmælt. Sekúlar þjóðernisvitund - að Írakar líti á sig sem Íraka fyrst og fremst - var til skamms tíma mjög sterk í Írak. Hún er það kannski enn - alla vega trúi ég því varla að það sé djúpt á henni. Klofningur eftir trúar-eþnískum línum tvístrar röðum írösku þjóðarinnar í baráttunni gegn hernáminu og þjónar þannig hernámsliðinu og quislingastjórninni. Auk þess er um leið horft framhjá stéttaskiptingu í Írak: Hvorki shíítar, súnnítar né Kúrdar eru einsleitir hagsmunahópar. Þeir eru allir þverklofnir eftir stéttum - og það eru stéttirnar sem eru mun eðlilegri grundvöllur til sameiningar heldur en eitthvað trúar-þjóðernis-glamur. Skrum. Auðvitað er auðvelt að sameinast um skrum, en það er engu minna skrum fyrir því. Með klofningi af þessu tagi er vinnandi fólk látið fylkja sér á bak við leiðtoga sem eru í besta falli misjafnir, konur fylkja sér bak við karla, kúgaðir á bak við kúgara. Niðurstaðan verður að Írakar falla sundraðir, frekar en standa sameinaðir. Með öðrum orðum, hún verður æskileg fyrir heimsvaldasinnana sem tröllríða landinu. Írak vantar þróttmikinn og stéttvísan kommúnistaflokk.
=== === === ===
Madhav Kumar Nepal, aðalritari Kommúnistaflokks Nepal - Sameinaðra marx-lenínista (ath. það eru ekki maóistar heldur afturhaldssamur flokkur borgaralegra endurskoðunarsinna) hélt ræðu í fyrradag hjá félagi nepalskra blaðamanna, og um hana má lesa hér. Meðal þess sem kom fram er þetta:
"The government's latest announcement of municipality polls has further made it clear that it doesn't want to step down and the confrontation is now between the monarch and democratic forces." [...]
He also said that the seven-party alliance is holding an informal negotiation with the Maoists. "But the Maoists should first make their position clear about multi-party democratic system, human rights and peoples' sovereignty," he said. "I think the Maoists are now holding their internal meeting regarding these issues and the formal talk will take place after they come out with a decision," he added. [...]
He also said the parties were expecting harsher moves in the days to come. "New constitution may be introduced, political parties and unions could be banned," he said, adding, "But we are undeterred in our mission and will continue with our movement until democracy and peoples' sovereignty is restored."

Tuesday, October 11, 2005

Nepalska stjórnin kynnir herta ritskoðun - þá þarf maður ekki lengur að velkjast í neinum vafa um hversu trúverðugar fréttir frá Nepal eru. Þær eru m.ö.o. allar óeðlilega vilhallar konungdæminu. Af því má álykta að myndin sem hefur verið upp af maóistum sé líka óeðlilega dökk.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Abimael Guzman bregst ókvæða við ásökunum um að vera hryðjuverkamaður í enduruppteknum málaferlum gegn honum: "Ég er byltingarmaður og hef hvorki verið né mun nokkurn tímann verða hryðjuverkamaður," segir hinn sjötugi perúvíanski maóistaforingi.

Monday, October 10, 2005

Meðal aðal stefnumála Gísla Marteins er að setja skautasvell á Ingólfstorg og fjölga blómum í borginni. Ágætar hugmyndir, en vægast sagt þykir mér framboð hans þunnur þrettándi ef áherslurnar eru þessar. Þessar og brosmilda beibífeisið með skeggbroddana sína tíu. Reyndar þykir mér árangur R-listans í borgarstjórn vera býsna góður ef þetta er það besta sem Gísli á til, að kvarta undan blómaleysi. Hvað er líka málið með hann og námsferil hans? Útskrifaðist úr Verzló án þess að hafa lokið prófum, og sagðist vera stjórnmálafræðingur þótt hann ætti 1/3 eftir af náminu. Hvaða rugl er þetta eiginlega? Hverju sætir þessi óheiðarleiki?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ögmundur Jónasson skrifar gegn einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Samfélagsþjónusta á að vera rekin af samfélaginu og hananú!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Kommadistró Íslands verður með umsvif á miðvikudaginn og laugardaginn. Sjá nánar hér.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í einhverri grein í Mogganum í dag skrifaði verkfræðingur einn um Reykjavíkurflugvöll. Sagði að ríkið og borgin sæju fram á að hagnast um stórfé af sölu landsins sem flugvöllurinn þekur, og tók svo fram að þau rök væri "ótæk" vegna þess að hið opinbera ætti ekki að standa í slíku. Hægrisinnaður áróður gegnsýrir okkur. Hver segir að hið opinbera eigi ekki að standa í slíku? Hver segir það? Svarið er að þetta eru engin rök, þetta er bara mantra sem hægrimenn hafa tönnlast svo mikið á að fólki finnst hún vera sönn. M.ö.o. áróður.

Friday, October 7, 2005

Það hlýtur að vera erfitt að búa í Zimbabwe. Prófessor Jonathan Moyo skrifar harða ádeilu um Mugabe forseta í blaðið New Zimbabwe: Murambatsvina: a compelling case for early presidential elections. Ég held að Mugabe sé á miklum villigötum, en reyndar held ég að tilraunir hans til að skipta löndum hvítra búgarðaeigenda milli landbúnaðarverkamanna - Aðgerð Chimurenga - sé góð hugmynd til að byrja með. Þótt framkvæmdin hafi ekki gengið sem skyldi. Ég held að það sé spælandi að vera stjórnarandstæðingur í Zimbabwe samt. Stjórnarandstaðan, Movement for Democratic Change (MDC) er ekkert skárri en Mugabe. Þar er meira að segja skítablesinn Ian Smith innanborðs, þrælmennið sem stýrði landinu meðan það hét Suður-Rhódesía og var með apartheid eins og Suður-Afríka - sem Mugabe braut á bak aftur með flokki sínum, ZANU-PF. Það var í öllu falli gott hjá honum, að koma Smith frá.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Meira frá Afríku: Stjórnvöld í Eþíópíu fullyrða að Al Qaeda sé með mikil umsvif í Sómalíu. Er þetta ekki að verða þreytt? Ef heimsvaldasinnar vilja hlutast til um eitthvað land, þá fullyrða þeir bara að Al Qaeda sé með umsvif þar, eins og það rétltæti hvað sem er. Ef ég vildi ráðast á Jan Mayen, þá yrði mitt fyrsta verka ð lýsa því yfir að það væri nauðsynlegt vegna hryðjuverkaógnar. Eþíópía hefur langa sögu um að hlutast til með innanríkismál Sómalíu. Þeim gengur ekkert til annað en einkahagsmunir.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Nepalskir maóistar láta 500 manns lausa eftir að hafa haldið þeim á nokkurra daga "endurmenntunarmnámskeiði". Sko ... ég get alveg fallist á það að fólk hafi gott af að fræðast um byltingarsinnaða hugmyndafræði, en að gera það undir gínandi byssuhlaupum, það líst mér öllu verr á.
Á hinn bóginn, þá gæti þetta fólk vel hafa farið sjálfviljugt en sagst hafa farið tilneytt til að komast hjá hefndum þrælahers konungsins. Það er ekkert grín að hafa samúð með maóistum í Nepal ef maður býr á yfirráðasvæði konungsins og þræla hans.
Hmm... hér er samanburður á Nepal og Perú sem er ekki alveg galinn.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Alexander Lúkasénkó skýrir frá því að Vesturlönd stundi áróður gegn Hvíta-Rússlandi. Það ku vera athyglisvert að svipast um í Hvíta-Rússlandi. Hver veit nema maður eigi það eftir.

Wednesday, October 5, 2005

Kona dæmd í 20 ára fangelsi fyrir að leyna Abimael Guzman (sem einnig er þekktur sem General Gonzalo og hefur útnefnt sjálfan sig "fjórða sverð marxismans"). Ég hefði leynt honum líka, þótt það hefði kostað þessa áhættu. Í fréttinni er hreyfingin sem Guzman leiðir kölluð "Skínandi stígur" - Sendero Luminoso. Ég hef heimildir fyrir því að þessi nafngift sé della og rugl, skáldskapur áróðursdela CIA og perúvíönsku leyniþjónustunnar, sem unnu hörðum höndum að því að sverta perúvíanska byltingarmenn. Hið rétta nafn þessarar hreyfingar - sem virðist vera flestum gleymt, þökk sé árangursríkum áróðri - er Kommúnistaflokkur Perú (maóistar). Og hananú!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þessa stuttu frétt ætla ég að leyfa mér að birta í heild sinni:

Nánast stjórnleysi í Írak


Ástandið í Írak er hrikalegt og í raun er stjórnleysi ríkjandi, segja íraskir fræðimenn, sem Magnús Þorkell Bernharðsson, sérfræðingur um sögu Mið-Austurlanda, hitti á ráðstefnu í Amman í Jórdaníu fyrir nokkrum dögum. [*]

Þurfið þér frekari vitnanna við? Ég á ekki von á öðru en að þarna fari menn sem vita um hvað þeir eru að tala. Ég skal éta hattinn minn ef mér skjátlast um að myndin sem við fáum í fjölmiðlum af ástandinu í Írak er alvarlega skökk og gefur ekki góða mynd af ástandinu þar - já, við fáum þá mynd að ástandið sé vissulega slæmt, en það sé meira og minna takmarkað við einhvern "súnní þríhyrning" sem ég hugsa að einhver bandóðrískur áróðursdeli hafi fundið upp. Ástandið er hrikalegt. Ég vona bara - innilega - að Írakar láti hernámsliðinu ekki takast að kljúfa þjóðina eftir marklausum trúar-eþnískum brotalínum. Það sem Íraka vantar er sterkur og óbilgjarn kommúnistaflokkur sem byggist á stéttarvitund vinnandi Íraka og þjóðernisvitund Íraka sem Íraka, auk þess að hafa tengsl við framsæknar og and-heimsvaldasinnaðar hreyfingar um víða veröld.
Það er haft eftir Santosh Budha Magar, einn af leiðtogum maóista í Nepal, að maóistar geti mögulega verið reiðubúnir til viðræðna við stjórnvöld, ef þau virði vopnahléð sem maóistar lýstu nýlega yfir, og veiti þegnunum meiri réttindi. Þetta kann vel að vera rétt; í Nepal reyna allir hinna þriggja aðila að spila á hina tvo aðilana til að bæta sína eigin víg- eða samningsstöðu. Krúnan á núna í vök að verjast þótt hún hafi öll völd að forminu til. Indverska sendnnefndin sem er í landinu segir t.d. að kóngsi verði stöðugt einangraðri. Maóistar ráða drjúgum hluta landsins en eiga nokkuð erfitt með að ná á sitt vald þéttbýlli svæðunum. Þingræðisflokkarnir sjö reyna að semja samtímis við krúnuna og maóista - það er því ekki nema eðlilegt að maóistar reyni sama. Ég mundi ekki kalla þetta að leika tveim skjöldum, heldur að haga seglum eftir vindi.
Stefna maóista er ekki að mölva allar stofnanir núverandi stjórnar núna og byggja síðan upp alþýðulýðveldi strax á eftir. Þeir stefna að því að taka þetta í a.m.k. tveim áföngum. Áfanginn sem þeir stefna að núna er að stofna lýðræðislegt lýðveldi (democratic republic) í samvinnu við borgaraleg öfl, og reyna svo að vinna innan þess að næsta áfanga, sósíalisma í Nepal. Í aðra röndina spyr ég mig hvort þetta séu tækifærissinnuð svik við byltinguna - en reyndar held ég að þetta sé skynsamlegt. Annars vegar hafa þeir ekki burði til að leiða byltinguna til lykta strax. Hins vegar er það rétt hjá þeim að borgaraleg bylting sem steypir einveldi og stofnunum einveldisins og kemur á borgaralegum þjóðfélagsháttum ætti eiginlega að koma á undan sósíalískri byltingu. Á tímabili borgaralegra þjóðfélagshátta er þá vonandi hægt að byggja upp iðnaðinn og efnahaginn og þannig væri auðveldara að koma á sósíalisma en í löndum eins og Sovétríkjunum eða Kína, þar sem handstýra varð óhemjuhraðri iðnvæðingu, með öllum þeim fórnum sem það hafði í för með sér.

Tuesday, October 4, 2005

Gróðureyðingarflugvél skotin niður yfir Kólumbíu. Gott! Þessi fumigation-herferð Bandaríkjanna er ekki bara ómannúðleg, heldur er hún heimskuleg - stórkostlega heimskuleg, og virkar öfugt við það sem henni er ætlað. Ég get, samvisku minnar vegna, ekki annað en glaðst fyrir hönd kólumbískra bænda þegar þeim tekst að verja hendur sínar gegn árásarmönnum.