Thursday, November 27, 2014

Íslamska ríkið, hvað ber að gera?

Íslamska ríkið fer mikinn og gustar af því þannig að fýluna leggur a.m.k. hingað norður til Danmerkur þar sem ég sit og skrifa. Hér í Aarhus er m.a.s. moska þar sem froðufellandi íslamistar vinna unga menn á sitt band og senda þá á blóðvöllinn. Ég skal játa að ég skil ekki hvers vegna enginn hefur unnið alvarleg ofbeldisverk á þessari mosku og svínunum sem ráða í henni, en látum það liggja milli hluta.

Íslamska ríkið er skilgetið afkvæmi Vesturveldanna. Í aðra ættina er það beint afkvæmi þeirra, og í hina ættina óbeint. Beint, vegna þess að vestræn, einkum bandarísk, öfl hafa beinlínis hjálpað þeim að koma sér á laggirnar með m.a. vopnasendingum og þjálfun, hafa magnað þá upp til að ráða niðurlögum Assads og Baath-flokksins í Sýrlandi. Þeim virðist sem betur fer ekki verða kápan úr því klæðinu, þökk sé stuðningi Rússa og Kínverja og þökk sé tryggð og hreysti sýrlenska hersins og stykri forystu Assads. Og óbeint vegna þess að ólgan sem ÍS sprettur upp úr er meira og minna ruðningsáhrif af Íraksstríðinu, auk þess sem þorparaöfl við Persaflóa leika tveim skjöldum.

Það má heldur ekki gleyma gildi þess að eignast ógurlegan nýjan óvin á svæðinu, sem réttlætir frekari hernað og hermdarverk. Í löndum eins og Sýrlandi og Írak eiga aldrei eftir að ríkja öfl sem eru höll undir Vesturlönd, nema þá í krafti ofbeldis og kúgunar. Á meðan ekki er hægt að brjóta andstöðu fólksins niður með ofbeldi og "friða" löndin þannig, er það því hagur Vesturveldanna að stuðla frekar að upplausn, sundrungu og innbyrðis erjum, þannig að fólkið geti ekki sameinast og veitt heimsvaldastefnunni viðnám. Þá er auðveldara að ráðskast með það. Deila og drottna.

Loftárásir Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra eiga ekki eftir að brjóta ÍS á bak aftur. Þær eiga eftir að valda ómældum hörmungum fyrir óbreytta borgara og þær eiga líka sumpart eftir að styrkja ÍS með því að draga þarna víglínu milli vestrænnar heimsvaldastefnu annars vegar og ÍS hins vegar. Þá munu ungir, róttækir múslimar þyrpast í raðir ÍS og halda að þeir séu að berjast gegn heimsvaldastefnunni.

Ekki bætir það úr skák að réttlætingarnar byggjast á mörgum lögum af hræsni og skinhelgi. Dæmi: IS er stutt af Erdogan Tyrkjavaldi, en Tyrkland er í Nató og á að heita bandamaður Vesturlanda, til að berja á Kúrdum og veraldlega sinnuðum stjórnvöldum Sýrlands. IS er líka stutt af ýmsum, of ríkum, öflum bókstafstrúarmanna við Persaflóa þótt ruddaríkin þar eigi líka að heita bandamenn Vesturvelda. Og Saúdi-Arabar eiga að vera með Vesturveldunum í liði, þótt þeir séu kannski afturhaldssamasta aflið af öllum á svæðinu -- og er þá Íslamska ríkið sjálft kannski eina undantekningin. Eða lítur þannig út í fjölmiðlum; þar er mikið gert úr því þegar Íslamska ríkið í Írak og Sýrlandi hálsheggur gísl -- en þegar íslamska ríkið á Arabíuskaga, Saúdi-Arabía, hálsheggur tugi manns á ári, þá er lítið fjallað um það. Enda bandamenn Vesturvelda.

Það fór um mig hrollur nú síðsumars þegar Bandaríkjamenn kynntu fríðan flokk ríkja sem mundu taka þátt í loftárásum á Íslamska ríkið. Oft var tekið fram í fréttum að það "þætti sterkt" fyrir Obama að hafa Saúdi-Araba og fleiri arabalönd þar á meðal, það gæfi aðgerðinni betra yfirbragð. Ætli arabinn á götunni sé sama sinnis? Ætli þeir séu svo hrifnir af kúgunarvaldi Persaflóafursta?

Fólki getur fundist það sem því sýnist um Bashar al-Assad í Sýrlandi og stjórn hans. Ég fyrir mitt leyti trúi ekki öllu sem ég les í íhaldspressu Vesturlanda, þótt ég viti vel að margt sé að í landinu. Alla vega, það er aukaatriði. Assad og ríkisstjórn hans og her eru (a) tvímælalaust betri kostur en Íslamska ríkið og (b) einu öflin sem geta í alvörunni sigrað það. Skilyrðin fyrir því eru að utanaðkomandi öfl eins og Tyrkir og Flóafífl hætti að styðja Íslamska ríkið og að Sýrlendingar fái stuðning í staðinn. Menn þurfa ekki að elska Assad til að geta valið þann kost, það er einfaldlega skásti kosturinn. Það þýðir ekki að það verði fagurt á að líta; það verður það svo sannarlega ekki, en það eru engir aðrir kostir betri í stöðunni.

Monday, November 24, 2014

Palestína: friður verður aldrei byggður á yfirgangi

Mads Gilbert bannað að fara aftur til Gaza, um aldur og ævi, og öryggisástæðum borið við. Þegar ísraelsk yfirvöld segja "öryggisástæður", þá þýðir það yfirleitt annað hvort að það er geðþótti sem ræður, eða eitthvað annað sem hljómar of illa til að segja það. Ástæðan í tilfelli Gilberts er augljóslega að hann lætur ekki duga að hlynna að særðum, heldur ber líka vitni um það í vestrænum fjölmiðlum hvers vegna ástandið er svona, ber vitni um níðingshátt og grimmd Ísraela.

Um leið berast fréttir af því að ísraelsk yfirvöld ætli aftur að fara að rústa heimilum í hefndarskyni þótt einhverjir embættismenn hafi "dregið árangur þess í efa", eins og Vísir orðar það. Hefndaraðgerðir, með öðrum orðum. Áhrif þeirra er ekki að fæla herskáa Palestínumenn frá því að beita ofbeldi, heldur að reita aðra Palesínumenn enn meira til reiði og framkalla þannig ennþá meira ofbeldi af þeirra hálfu -- sem Ísraelar munu svo nota til að réttlæta fjöldamorð með stórvirkum vinnuvélum næst þegar hægriöfgamenn þurfa að píska upp stuðningsmóðursýki sjálfum sér til handa eða hafa meiri peninga af Bandaríkjunum.

Vandamálið í samskiptum Ísraela og Palestínumanna er í grunninn til ekki flókið. Vandamálið er að Ísraelar halda mestum hluta Palestínu hernumdum, en hafa herkví um afganginn. Fyrir utan þá hluta sem þeir hafa þjóðernishreinsað og innlimað. Skæruhernaður Palestínumanna verður ekki brotinn á bak aftur með hervaldi. Það verður því ekki friður á meðan harðlínuzíonistar (trúar- og þjóðernisöfgamenn) fá að halda ranglæti sínu áfram.

Thursday, November 20, 2014

Skuldaleiðrétting - eða félagsvæðing?

Skuldaleiðréttingin mikla, sem fer fram þessa dagana ef trúa má fréttum, er mjög umdeild. Ég er ósammála báðum meginpólunum. Ég tel ekki rétt að hið opinbera fjármagni þetta, en ég tel heldur ekki rétt að láta bara myllusteininn hanga um háls þjóðarinnar. (Ég sagði stundum á síðasta kjörtímabili, að ég væri mikið á móti ríkisstjórninni, en ég væri ennþá meira á móti stjórnarandstöðunni. Það hefur núna snúist við.)

Efnahagsmálahópur VG
Á misserunum eftir hrun tók ég töluverðan þátt í baráttu fyrir skuldaleiðréttingu. Aðallega innanflokks í VG, þar sem lítill hópur starfaði að því en var skjaldaður af flokkseigendafélaginu á svotil hverjum einasta fundi. Það má segja, með smá einföldunum, að barátta okkar hafi snúist um að leiðrétta forsendubrestinn sem varð í hruninu, t.d. með afnámi verðtryggingar, sem tæki gildi snemma árs 2008, þ.e. væri afturvirkt. Lógíkin var að bankar og lífeyrissjóðir ættu enga heimtingu á kröfum sem tilstofnuðust vegna forsendubrests og þar sem þeir hefðu hvort sem er aldrei reiknað með þeim peningum væri það í raun ekki missir fyrir þá að fá þá ekki. Þessar skuldir væru bara tilbúningur og hægt að fella þær niður með lögum. Það var stungið upp á ýmsum aðferðum sem ég ætla ekki að útlista nánar að sinni, en allar þessar tillögur mættu stífri andstöðu flokkseigendafélagsins.

Heyrði ég oft sagt að efnaðasta fólkið ætti ekki að fara að fá gefins peninga, hvers lags sósíalismi væri það? Svarið við því er auðvitað að það á að eiga við stéttaskiptingu með pólitík sem vinnur gegn arðráni, eða, ef maður er krati, með skattkerfi, en ekki nota hamfarir til að refsa öllum í hóp. Þvert á móti, það hefði átt að kasta bjarghring til allra, og ef einhverjir í hópnum hefðu helst átt skilið að drukkna hefði átt að taka þá umræðu í öðru samhengi.

Á landsfundinum 2009 var ég í efnahagsmálahópi, þar sem reyndist vera meirihluti reyndist vera fyrir leiðréttingartillögum. Hópurinn bar fram ályktunartillögu sína þegar fundurinn afgreiddi ályktanir, og reyndist það vera eina ályktunin sem Steingrímu J. Sigfússon tók til máls um í eigin persónu. Hún var var samþykkt með breytingartillögu Steingríms, m.ö.o. slógdregin og innihaldslaus.

Okkar hópi var mikil alvara, enda vægast sagt mikið í húfi. Japl-og-jaml-tillögur sem komu sem eins konar málamiðlun frá flokkseigendafélaginu -- málamiðlun milli hagsmuna heimilanda og hagsmuna fjármálaauðvaldsins -- fólust í einhverjum frystingum og frestunum og 110% leiðum sem fólk þekkir, og gengu allar út á að afskrifa sem minnst. Ástæðan, sem formælendurnir töluðu aldrei um, var auðvitað að afskriftir mundu rýra eignastöðu bankanna og ógna þannig rekstrargrundvelli þeirra. Þessar hálfkáks-hugmyndir fengu ekki stuðning okkar hóps, enda ber í fyrsta lagi ekki að greiða ranglátar skuldir og í öðru lagi er það bara blekking að halda formlega lifandi einhverjum kröfum sem allir vita að verða aldrei innheimtar.

Þessu þarf að halda til haga: Sá vinstriróttæki hópur sem ég starfaði í á fyrstu árum hinnar svokölluðu vinstristjórnar, barðist fyrir skuldaleiðréttingu, en þessi skuldaleiðrétting sem nú fer fram er ekki það sem við börðumst fyrir, og við eigum hvorki heiður né skömm af henni.

Alþýðufylkingin
Í þá daga var ennþá til vinstrivængur í VG. Hann yfirgaf flokkinn meira og minna fyrir síðustu Alþingiskosningar, og tvístraðist í mörg lítil framboð. Þorvaldur Þorvaldsson og ég reyndum allt sem við gátum til að halda þessu fólki saman, m.a. í gegn um félagið Rauðan vettvang, og þótt það hafi ekki (enn) borið tilætlaðan árangur, nýttist starf efnahagsmálahópsins í frekari úrvinnslu og stefnumótun um varanlegri lausnir, eftir því sem leið frá sjálfu hruninu og skuldaleiðréttingin færðist afturfyrir önnur meira "dagsaktúel" mál og varð um leið tæknilega flóknari og flóknari eftir því sem tíminn leið.

Í staðinn fyrir að láta umræðuna leiðast inn í myrkviði tækni- og lagarefja og blaðurs, vildum við marka skýra stefnu, boðskap sem stefndi í alvörunni annars vegar frá vandamálaunum og hins til varanlegra lausna. Félagsvæðing var svarið sem við fundum, (sjá nánar í stefnuskrá Alþýðufylkingarinnar): Í stuttu máli eigum við að koma á félagslegu fjármálakerfi, byggðu á samfélagslegu eigin fé, sem er ekki rekið í gróðaskyni heldur hjálpar fólki að eignast heimili á kostnaðarverði. Án vaxta. Vextirnir eru nefnilega miklu meira vandamál heldur en verðtryggingin; hún væri frekar lítið mál ef vextirnir væru ekki.

Félagsvætt fjármálakerfi væri ekki bara meiri búbót en skuldaleiðrétting, hún væri í raun á við margar skuldaleiðréttingar þar sem hún mundi að miklu leyti koma í veg fyrir nýjar fjármálabólur og -hrun. Félagsvæðing er ekki það sama og sósíalismi. Hún er skref í áttina. Hvorki meira né minna. Í áttina frá kapítalisma og áttina til sósíalisma. Stórt skref í rétta átt, með öðrum orðum.

Þið sem þetta lesið eruð líkleg til að hafa kosið aðra flokka, jafnvel starfa í þeim. Það hindrar ykkur ekki í að lesa stefnuskrá Alþýðufylkingarinnar og mynda ykkur skoðun á henni. Hún er stutt og skýr og hún á eftir að koma fram í umræðunni aftur -- og aftur og aftur.



Tuesday, November 18, 2014

Laun lækna: Hverju reiddust goðin þá?

Góð kona* sem ég þekki gerðist fráhverf sósíalismanum þegar hún frétti að læknar í Sovétríkjunum hefðu lækkað í launum eftir því sem hlutfall kvenna í stéttinni hækkaði. Voru hálaunastétt 1920 en ekki lengur 1950.

Íslenskir læknar hafa lækkað jafnt og þétt í launum á síðustu árum eða áratugum. Hlutfall kvenna hefur á sama tíma hækkað í stéttinni. Samkvæmt því ætti sá sem er óhrifinn af þróuninni að gerast fráhverfur kapítalismanum. Ekki satt?

* Nafngreini ekki fyrir siða sakir. Hún gefur sig fram ef hún vill.

Sessunautar í stafrófsröð

Ef svo ólíklega fer að Íslamska ríkið náið þeim ítökum að önnur lönd fari að viðurkenna það og það komist þá á lista yfir viðurkennd ríki, þá verður Ísland næst á eftir því í stafrófinu, og næst á undan Ísrael. Þá mun ég leggja til að skipt verði um nafn á Íslandi, við gætum kallað okkur Snæland. Yrðum þá mitt á milli Slóveníu og Salómonseyja, sem eru viðkunnalegri sessunautar.

Hrundar glansmyndir

Ég var tólf ára þegar Jón Páll Sigmarsson dó. Þegar ég var barn, var hann hetja mín og vina minna. Þegar hann dó frétti ég að hann hefði notað stera, og það var útskýrt fyrir mér hvað sterar væru og að hjartaáfalla væri algeng afleiðing af notkun þeirra. Þar hrundi glansmynd.

Næsta glansmynd hrundi nokkrum árum seinna. Ég var seytján og hékk gjarnan á kaffihúsi þar sem ég tefldi, spilaði og byrjaði að reykja og drekka kaffi. Eitt kvöld valt þar inn Hermann Gunnarsson, kófdrukkinn og spurði hvort þarna væru seldar sígarettur. "Nei", sagði vertinn, og Hemmi valt þá út aftur, með þessa þulu á vörunum: "andskotans djöfulsins helvítis andskotans djöfull". Eftir stóð ég, gapandi og með brostin augun, og aðra hrunda glansmynd frá bernskuárum.

Og núna fréttir maður af Bill Cosby. Ég hef, frá því ég var barn og fram á síðustu daga, haldið, og margsagt það fjölda fólks, að hann, sjálfur Fyrirmyndarfaðir, væri líklega besti maður í heimi. Alla vega síðan Freddie Mercury dó. Eðli málsins samkvæmt er svona yfirlýsing ekki bókstaflega meint, en núna eru komnir of miklir brestir í þá glansmynd til að ég muni endurtaka hana aftur.

Monday, November 17, 2014

Öfgahægriflokkur sem er á móti ESB

Í frétt Ríkisútvarpsins um heimkomu Vojislav Seselj til Belgrad segir að hann sé "leiðtogi öfgahægriflokks sem vill að Serbía hætti við aðildarumsókn sína að Evrópusambandinu." Flokkurinn hans, Radikali flokkurinn, er gott betur en það. Þetta er ekki einhver anti-ESB flokkur hægripopúlista, þetta er nánast ígildi nasistaflokks. Þetta er öfgafullur þjóðernisflokkur sem hatar múslima og Króata en þó alveg sér í lagi Albana.

Sumarið 2008, þegar Radovan Karadzic var tekinn fastur, var ég staddur í Mostar í Bosníu-Hercegóvínu, og ákvað að drífa mig til Belgrad til að verða vitni að mótmælunum sem vænta mátti þar. Þar voru haldnir miklir útifundir hægriöfgamanna, og greinilega að andstaða við Evrópusambandið var þeim ekki efst í huga. Gríðarstór fáni með andliti Seseljs blakti yfir fundinum, ásamt fleiri táknum þjóðernissinna, menn gengu í bolum með myndum af Radovan Karadzic og Ratko Mladic herforingja, og aðalslagoðr fundarins var "Kosovo je srtse Srbije" - Kosovo er hjarta Serbíu. Þá skörtuðu margir chetnika-höttum eða öðrum einkennisklæðum serbneskra þjóðernis- og konungssinna.

Þetta er ekki einhver borgaralegur fullveldisflokkur, heldur flokkur sem er nátengdur stríðsglæpamönnum úr Bosníustríðinu og snoðkollahreyfingunni. Það er rétt hjá Ríkisútvarpinu að titla hann öfgahægriflokk -- en það er villandi að láta hljóma eins og hann sé aðallega á móti Evrópusambandinu. Eiginlega hljómar það líkast því að andstaða við Evrópusambandið eigi að hljóma eins og öfgastefna. Varla er það undirliggjandi boðskapur frá Ríkisútvarpinu?

Enn logið upp á Alþýðufylkinguna

DV greinir frá því að Tolli Morthens hafi lært að búa til mólótofkokkteila í Alþýðufylkingunni.
Það er lygi, við höfum aldrei kennt Tolla Morthens að búa til mólótoffkokkteila!

Monday, November 10, 2014

Logið upp á Alþýðufylkinguna

Það skal að gefnu tilefni tekið fram, að sú Alþýðufylkingin sem ég er í hefur aldrei haldið um stjórnartaumana í Jemen!