Sunday, December 31, 2006

Enn um Saddam -- og Valgerði

Mér geðjaðist aldrei að Saddam, frekar en öðrum með álíka syndaregistur. Ég er undrandi á þeim merkilega árangri Bandaríkjastjórnar, að fá mig til að hafa samúð með honum. Sú var tíðin að ég gat ekki hugsað mér svo slæm örlög að mér fyndist hann ekki eiga þau skilin, en þegar réttlæti sigurvegarans hrósar sigri, þá er ég bara með óbragð í munninum.

Ég býst við að það þýði að ég sé betri, eða alla vega þroskaðri, manneskja en ég var einu sinni.

Staða mannréttinda sést af því hvernig farið er með verstu glæpamennina. Dauðarefsingar eru óréttlætanlegar. Að íslensk stjórnvöld "virði" niðurstöðuna [1] finnst mér næg ástæða í sjálfu sér til þess að fordæma þau. Að "virða" morð?? Ég er hræddur um að þetta sýni innri mann Valgerðar frænku minnar enn eina ferðina. Sveiattan. Lepjandi upp rassgatið á hvaða stórbokka sem getur veitt bitlinga eða vegtyllur. Ég eftirlæt lesendum mínum að giska á hvað ég kalla slíka hegðun.

Valgerður Sverrisdóttir sýndi það enn og aftur, hvað hún hefur fágætt lag á að spæla mig. Hitt er mér ljúft og skylt að taka fram, að ég varð fyrir vonbrigðum með leiðtoga stjórnarandstöðunnar líka. Hispurslaus fordæming er það eina sem á við í máli sem þessu. Sá sem ekki tekur eindregna afstöðu gegn svona morði -- og fordæmir það jafn eindregið og óheflað og við á -- missir einfaldlega marks.

Saddam dó eins og karlmenni. Það er meira en hægt er að segja um suma.

Friday, December 29, 2006

Sýndarréttlæti er ekki réttlæti

Saddam enn "í haldi Bandaríkjamanna" segir Moggi. Heyr á endemi, eins og hann sé ekki jafnraunverulega í haldi Bandaríkjamanna þegar hann er kominn í hendurnar á strengjabrúðum þeirra?? Og þessi kvislingur, al-Maliki, sem segir að "enginn" geti mótmælt þessari niðurstöðu þar sem dómstóll hafi komist að henni. Nú jæja, þá getum við víst í leiðinni hætt að nöldra yfir ýmsum öðrum réttarhöldum. Ég meina til dæmis, var það ekki dómstóll sem dæmdi Búkarín, Kamenev og Sinovév? Að píslarvottum Íraks sé sýnd vanvirðing með því að mótmæla dauðadómi yfir Saddam -- úff! Ef einhver er að sýna einhverjum vanvirðingu, þá eru það Bandaríkjastjórn og leppar hennar sem fjölga stöðugt umræddum píslarvottum!
Ég vona að írösku andspyrnunni auðnist það sem fyrst, að hrekja innrásarherinn af höndum sér og veita al-Maliki og hans líkum þá ráðningu sem þeir eiga skilið!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Svo er annað: Sómalía. Ég þoli ekki þegar menn geta ekki drullast til að kalla hlutina sínum réttum nöfnum. Svona er þetta í alvörunni: (1) Bandalag íslamskra dómstóla eru ekki uppreisnarmenn. Þeir eru aðeins ein fylking í borgarastríði sem hefur varað í mörg ár. Þeir hafa verið sigursælir upp á síðkastið, og það er gott. Ef það er eitthvað sem Sómalía þarfnast, fyrir utan góða maóistahreyfingu, þá er það friður og öryggi. Friður og öryggi koma innanfrá. Hreyfing sem sprettur upp meðal fólksins sjálfs, sem á í hlut, og nær yfirhöndinni, hlýtur það ekki að vera hreyfingin sem eðlilegast er að taki völdin? (2) Bráðabirgðastjórn Sómalíu er hlægileg strengjabrúða Eþíópíustjórnar og annarra útlendinga sem ásælast áhrif og völd í Sómalíu. Það er hreint og beint bjánalegt að kalla stríðsmenn hennar "stjórnarherinn", vegna þess einfaldlega að hún er engin ríkisstjórn! Stjórn sem er ekki stjórn, og hefur ekki stjórn, hefur eðlilega engan stjórnarher heldur. "Bráðabirgðastjórnin", spilaborg dubbuð upp af íhlutunarsömum útlendingum, er bara enn ein fylkingin í borgarastríðinu. (3) Eþíópíuher er innrásarher og ætti að drullast heim til sín. Réttast væri að bandalag íslömsku dómstólanna sparkaði þeim öfugum aftur til baka. Eþíópíustjórn gengur ekkert til annað en eigingirnin, og er í slagtogi við Bandaríkjastjórn, sem hefur lengi viljað koma böndum á Sómala, aðallega til að tryggja siglingaleiðina um Aden-flóa.

Wednesday, December 27, 2006

Alcan álítur Hafnfirðinga vera hórur

Alcan álítur að það sé hægt að kaupa Hafnfirðinga. Tónleikar með Björgvin Halldórssyni, konfektkassi og nú síðast geisladiskur. Getur verið að Hafnfirðingar séu svo ginnkeyptir að þeir láti bjóða sér þetta? Gefa þeim geisladisk og hvetja þá svo til að taka málefnalega afstöðu, einmitt það! Svona gjöf er ekki ætluð til þess að hvetja fólk til málefnaleika, heldur þveröfugt. Gjöf af þessu tagi plantar þakklæti í fólk, tilfinningunni um að þeir eigi eitthvað inni hja manni. Þetta er ekki einu sinni pent útfært. Kosningar um stækkunina eru fyrir dyrum, þvert á vilja álrisans sem vill bara að stjórnvaldið ákveði þetta, eins og venjan er í þessu mjög svo lýðræðislega landi. En ef pöbullinn á að fá að skemma þetta fyrir þeim, þá er best að kaupa hann bara, er það ekki? Kaupa pöbulinn eins og hóru, brauð og leikar, það er það sem þetta vill.
Þetta múv segir náttúrlega mest um hvaða álit Alcan hefur á Hafnfirðingum.

Wednesday, December 20, 2006

Málefni líðandi stundar

Ég held að í seinni tíð hafi ég tjáð mig eitthvað minna um ýmis málefni líðandi stundar en ég var kannski vanur, ef ég man rétt. Kompásmálið sem allir eru að tala um er til dæmis hít sem ég nenni ekki einu sinni að þykjast hafa einhverju í að bæta. Af hverju ætti ég að gera það? Af hverju ætti ég að segja það sem allir eru að segja, að ég er sammála öllum sem ég hef séð tjá sig um það? Ég veit ekki hvað er satt og hvað er logið í málinu. Ég hef ímugust á því að hjálparstarf sé rekið á trúarlegum grundvelli -- skil auðvitað vel að menn geri það -- en lít svo á að það eigi að koma til móts við t.d. þörf fyrir úrræði fyrir fíkla á samfélagslegum jafnréttisgrundvelli -- og það þarf að vera sekúlar, annars er jafnréttið í hættu.

Svo það komi fram: Jólin fara ekkert sérstaklega í taugarnar á mér nú á efri árum, ég sé ekki að Árni Johnsen hafi bætt ráð sitt hætishót, Eyþór Arnalds hefur sýnt að hann er efnilegur stjórnmálamaður ef satt er sem sýnist, að hann kunni ekki að skammast sín heldur. Færeyskir kynvillingar eiga mína samúð alla, en ég fann ekki hjá mér sérstaka þörf fyrir að tilkynna að ég samgleddist þeim yfir löngu tímabærri réttarbót. Ég held í fljótu bragði að tvöföldun Hellisheiðarvegar sé peningasóun, að 2+1 leið væri lógískt fyrsta skref og að menn hljóti að geta ekið nógu varlega til að drepa sig ekki.

Ég held ég hafi tjáð mig nógu mikið um nógu margt til þess að ekkert af ofangreindu þurfi að koma neinum á óvart, af þeim sem lesa þetta blogg eða þekkja mig að öðru leyti. Hvers vegna ætti ég þá að vera að segja þeim það? Hvers vegna að eyða tímanum í að vélrita texta sem 3000 bloggarar eru búnir að vélrita á undan mér? Og hver mundi nenna að lesa þetta blogg ef það innihéldi ekki annað en vísanir í önnur blogg?

En hafið ekki áhyggjur, einhverjum gæti virst þetta hljóma eins og formáli að tilkynningu um blogghlé, en sú er ekki raunin. Þið losnið ekki við mig alveg strax. Nema ég detti niður dauður eða gleymi af einhverjum ástæðum hvernig maður vélritar. Þetta á sér skýringar, sem ég ætla að vélrita frekar en að fara strax að sofa eins og skynsemin býður næturverðinum í síðdeginu.

Eggin.is er verkefni sem ég tel í alla staði verðugt tíma míns. Ég held að ég hafi skrifað meira þar en hér upp á síðkastið. Vantrú hefur líka fengið sinn skerf, og svo er ég snúinn aftur á Töfluna eftir rólegt tímabil. Þar við bætist skólinn og svo ýmislegt fleira. Þetta eru samt smærri skýringarnar. Aðalskýringin er þessi: Ég er ekki eins spenntur og ég var fyrir því að velta mér upp úr dægurmálum. Pólitík á hug minn allan, en ég held að ég líti í seinni tíð minna í hornin sem hinir eru að líta í. Annars vegar er þeoría mér mjög hugleikin, hins vegar eitt og annað mál sem ekki fær mikla athygli, sbr. ítarlega umfjöllun mína um Nepal á tímabili.

Jæja, þá vitið þið það, þið sem voruð að velta þessu fyrir ykkur. Ég er farinn í háttinn.

Sunday, December 3, 2006

Kæri Einar...

Ég er að hugsa um að senda Einari K. Guðfinnssyni, sjávarútvegsráðherra, tölvupóst sem mundi byrja á þessa leið:

Kæri Einar,
ég er ósammála flestu sem stendur á heimasíðu þinni, þar á meðal aldri þínum.

Saturday, December 2, 2006

Eini maður á Íslandi

Guðjón Arnar hlýtur að vera eini maður á Íslandi sem kveikir ekki á því hvað fólk er að bendla brottrekstur Margrétar við Jón og Magnús. Ég meina, varla er hann svo óheiðarlegur að hann þykist ekki skilja þetta. Hver heldur hann líka að trúi því að Margrét þurfi hjálp við að hætta sem framkvæmdastjóri ef það er fyrir hana sjálfa gert? Ef rasistar eru ekki búnir að hædjakka Frjálslynda flokknum með beinum hætti, þá eru þeir búnir að því með óbeinum. Það er erfitt fyrir lítinn flokk að venja sig af spena þegar hann er einu sinni kominn á bragðið af þjóðernis-lýðskrumi. Jón Magnússon er köttur í sekk.