Friday, December 23, 2011

Einkaeign ríkis og borgar??

Bílakjallarinn undir Hörpunni er í "einkaeign ríkis og borgar", segir í frétt RÚV frá gærkvöldi. Hvað í ósköpunum er "einkaeign ríkis og borgar"?

Monday, December 5, 2011

Passið ykkur nú

Ég vara hér með leiðtoga ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna við því, að bola Jóni Bjarnasyni burt úr embætti landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra. Ekki vegna þess að hann sé hafinn yfir gagnrýni, heldur vegna þess að það er ekki tilefni til svo afdrifaríkra ráðstafana. Afdrifaríkra segi ég, því það er lýðum ljóst hvað býr í raun að baki og hvað er í húfi: Jón stendur á sínu í einu brýnasta hagsmunamáli þjóðarinnar, sem er andstaðan við aðild að Evrópusambandinu, og uppsker (skiljanlega) fyrir vikið smán og fæð samruna-harðlínuafla og tækifærissinna. En staðfesta Jóns í þessari nýju sjálfstæðisbaráttu er ekki eina ástæðan fyrir því að ég styð setu hans á ráðherrastóli. Ætli forysta ríkisstjórnarinnar hafi hugsað afleiðingar þess til enda, ef honum verður vikið burt? Ætli brotthvarf hans sé svo mikilvægt, að það megi leggja hvað sem er að veði? Það er ekki bara eining og heill ríkisstjórnarinnar sem ég hef í huga, heldur líka eining og heill Vinstri-grænna, þar með talið fylgið.

Evrópusambandsmálið hefur verið flokknum þungbært, og fyrir því eru góðar ástæður. Margt það fólk sem kaus VG í þeirri trú (á tryggð forystunnar við stefnuskrána) að þá væri ESB-aðild úr augsýn, telur sig illa svikið og mun ekki láta hafa sig að fífli aftur. Að ógleymdu öllu því ærlega fólki, sem hvatti aðra til að kjósa VG og hét staðfestu flokksins í ESB-málinu en hefur verið gert ómerkt orða sinna. Þeir þingmenn VG sem kusu með ESB-umsókninni unnu málstað þjóðfrelsisins, og um leið trúverðugleika flokksins, mikið tjón. Þeim væri nær að taka sér staðfestu Jóns Bjarnasonar til fyrirmyndar. Sá sem vill ekki að Ísland gangi í ESB, styður ekki umsókn um það.

Hvort sem fólki er annt um líf ríkisstjórnarinnar, sjálfstæði þjóðarinnar eða gæfu VG sem flokks, þá er öruggara að Jón sé áfram ráðherra heldur en að hann sé það ekki.

Vinur er sá er til vamms segir: Passið ykkur nú, og leggið ekki meira undir en þið megið við að tapa.

Þessi grein birtist áður á Smugunni 2. desember síðastliðinn.

Tuesday, October 4, 2011

Markmið og skipulag

Soffía Sigurðardóttir bloggar á Smugunni:

Markmið og skipulag skila árangri. Óánægja og upplausn skila líka árangri, – til þeirra sem hafa markmið og skipulag! Íslensk alþýða er óskipulög um þessar mundir, en það er auðvaldið ekki.
Þetta eru orð að sönnu og þetta er það sem að undanförnu hefur mest háð baráttu alþýðunnar, sem nú þarf að fara að vaxa upp úr skuldbindinga- og skipulagsfælni og alhæfandi fordæmingu á allri pólitík og pólitískum stefnum.

Monday, September 12, 2011

Sjafnargata er ekki í Þingholtunum

Þann dag sem einhver fer að hlýða mínum skipunum, mun ég leggja bann við því að fasteignasalar auglýsi eignir þannig að þær séu í Þingholtunum þegar þær eru það ekki. Dæmi: Grettisgata er ekki í Þingholtunum. Ekki Lindargata heldur og ekki Barónsstígur heldur. Og öfugt við það sem segir í auglýsingu í fasteignablaði Fréttablaðsins í dag, þá er Sjafnargata sko ekki í Þingholtunum!

Saturday, September 10, 2011

Noam Chomsky

Ég var heima hjá mér lasinn í gær og komst því ekki á fyrirlestur Noams Chomsky. Gaman hefði verið að sjá eitthvað af honum í Sjónvarpinu. Honum var fléttað örstutt inn í frétt um ellefta september. Og ekki virðist Kastljósinu hafa tekist að fá hann í viðtal. Og ekki minnist Fréttablaðið að hann hafi komið hingað. Hvernig er það, er það ekki fréttnæmt að áhrifamesti stjórnmálagagnrýnandi í heimi troðfylli Háskólabíó?

Fréttablaðið um 11. september

Árásirnar 11. september eru atburður sem er aldeilis ástæða til að fjalla rækilega um nú þegar tíu ár eru liðin frá þeim. Yfirborðsleg umfjöllun Fréttablaðsins stendur ekki undir því. Ætli blaðamaðurinn hafi aldrei heyrt af öllum þeim efasemdum um opinberu söguna sem hafa geisað frá því rykið settist? Það eru margar samsæriskenningar í gangi. Nokkrar geta gengið upp og geta því verið trúverðugar. Fleiri eru ótrúverðugar, þar á meðal opinbera samsæriskenningin, sem er of götótt til að ganga upp.

Svo ég taki bara nokkur dæmi af blaðsíðu 24 í Fréttablaðinu í dag: (1) Ég hef efasemdir um að það hafi verið flugvél sem flaug á Pentagon. Ætli þetta sé ekki mest vaktaða hús í heimi? Af hverju er ekki til mynd sem sýnir að þetta sé flugvél? (2) Ég hef líka efasemdir um að farþegar í vél 93 hafi fengið upplýsingar í gegn um GSM-síma. GSM-símar ná nefnilega ekki sambandi um borð í flugvél á flugi. Ég hef margprófað að hafa kveikt á símanum í flugvél. Hann nær ekki sambandi, ekki einu sinni yfir London eða Kaupmannahöfn. (3) Hvers vegna hrundi WTC7?

Allt pukrið er í meira lagi tortryggilegt. Auk þess sem bæði aðdragandi og eftirmál eru mjög tortryggileg, ef maður veltir því fyrir sér hver hagnist á þessu.

Tuesday, July 19, 2011

Range Rover-æðið

Mér finnst Range Rover ekki einu sinni flottir bílar.

Monday, July 18, 2011

Sælir eru ríkir: Vísa

Arnaldur Bárðarson lýsir því á forsíðu Fréttablaðsins í dag (og á Vísi) hvað það sé miklu betra að vera prestur í Noregi. Þar er hann víst á tvöfalt hærri launum en hér, bílalánið sanngjarnt og síðast en ekki síst miklu minna að gera í vinnunni, færra fólk með sorgarsögur. Mér finnst þetta skondin lesning, í ljósi atvinnugóðmennis-ímyndarinnar sem prestarnir reyna að skapa sér.

Flýja prestar skulda sker,
skapa glæstan frama.
Gleðjast flestir eða er
aðeins næstum sama.

Uppskeruhátíð Grasagarðsins 27. ágúst

Ég hlakka til að fara á uppskeruhátíð Grasagarðsins í Laugardal laugardaginn 27. ágúst næstkomandi, kl. 13. Ég er meira að segja að hugsa um að mæta snemma, jafnvel taka snúning í Húsdýragarðinum áður er uppskeruhátíðin hefst. Tvímælalaust áhugaverðarsti atburður dagsins.

Friday, July 1, 2011

Karlmenn = nauðgarar?

Ég sé/heyri það stundum í umræðunni um kynferðisofbeldi, að karlar þurfi að hætta að nauðga. Í frétt RÚV af yfirstandandi Nei-átaki er vitnað í rannsókn sem segir að 13% kvenna verði fyrir nauðgunum eða tilraunum til nauðgana, sem er hrikaleg tala. En síðan er dæminu stundum snúið við. Í viðtali í DV í dag rifjar Halla Gunnarsdóttir upp hitafund í VG, þar sem hafði verið sagt að 10-20% karla væru nauðgarar, eins og maður heyrir stundum sagt.

En ætli það sé svo? Ætli sé óhætt að draga þá ályktun, að fyrst 13% kvenna verða fyrir kynferðisofbeldi, þá fremji þarafleiðandi 13% karla kynferðisofbeldi? Að hver nauðgari nauðgi semsagt bara einni konu? Ég hefði haldið að maður sem á annað borð nauðgar, geri það oftar en einu sinni. Og meðalfjöldi nauðgana á geranda þarf ekki að vera hár til þess að heildarfjöldinn fari niður í lítið brot af þessum 13%.

Ég kannast ekki við að nauðganir séu viðurkennd hegðun meðal karla, en ég kannast við að vinahópar hafi útskúfað nauðgurum. Yfirlýsingar um að karlar séu nauðgarar eiga heima í sama flokki og yfirlýsingar um að blökkumenn séu eiturlyfjasjúklingar. Það er varla hægt að taka því öðruvísi en sem móðgun. Allavega er það umræðunni ekki til framdráttar. Því að hvað kallar maður karlmann sem nauðgar? Karlmann? Nei, maður kallar hann nauðgara.

Monday, June 20, 2011

Margrét Müller, síðbúin minningarorð

Eftir að ég kláraði Ísaksskóla vorið 1989, fór ég í Landakotsskóla. Hann hafði gott orð á sér og var auk þess næsti skóli við heimili mitt. Ég þurfti bara að fara yfir eina götu, hina rólegu Hávallagötu, og var þá sama og kominn. Ég var í Landakoti frá níu ára til tólf ára, fjóra vetur.

Þar var Margrét Müller, versti kennari sem ég hef á ævi minni haft. Meira en það, hún var langverst. Næstversti kennarinn hafði ekki tærnar þar sem hún hafði hælana. Hún var ósanngjörn, illgjörn, grimm, einstaklega fráhrindandi manneskja sem var gjörsamlega vanhæf til að sinna börnum. Hún hafði svo mörg sígild einkenni stereótýpískrar gribbu, að ef hún hefði verið persóna í leikriti eða skáldsögu hefðu gagnrýnendur sagt að höfundurinn væri að ýkja, svona væri enginn í alvörunni. Hún var fædd og uppalin í Þriðja ríkinu, talaði með sterkum þýskum hreim og bjó meira að segja í turni. Ég held að það hafi enginn saknað hennar þegar hún drap sig fyrir nokkrum árum, í það minnsta ekki ég. Ég hefði ekki óskað mínum versta óvini að vera nemandi hennar. Hún virðist ekki hafa meikað lífið eftir að séra Georg var dáinn, át risaskammt af pillum, stökk út úr turninum og lenti á stéttinni fyrir framan aðaldyrnar, um það bil tíu metrum fyrir neðan, um það leyti sem börnin voru að koma í skólann um morguninn.

Ég var nemandi Margrétar í fjóra vetur, frá níu ára til tólf ára aldurs. Ég var ekki sérstaklega berskjaldað barn, bjó í hverfinu, átti stabíla fjölskyldu og hafði þokkalegt atgervi. Hún tók mig ekki sérstaklega fyrir umfram önnur börn. Það átti víst enginn sjö dagana sæla sem hún kenndi, en hún tók sum börn fyrir, einkum þau sem áttu á einhvern hátt erfitt uppdráttar félagslega. Það voru ekki þagnir eða svipir sem hún notaði mest, heldur illmælgi, háð, ósvífni og rógur. Hún hikaði ekki við að niðurlægja okkur fyrir framan allan bekkinn. Ég held að hún hafi ekki farið neitt verr með mig, persónulega, heldur en önnur börn, en ég fór ekki varhluta af henni.

Það eru tuttugu ár liðin, og það hefur fennt yfir ýmislegt, en mér er til dæmis minnisstætt þegar ég skrifaði stíl, á að giska tíu ára gamall, færði henni og hún fussaði (með sínum þýska hreim) að þetta væri bull og drasl. Hún reif síðan stílinn minn í tætlur og grýtti honum í ruslafötuna, fyrir framan allan bekkinn, og skipaði mér að skrifa nýjan stíl, sem ég gerði. Síðar um daginn hitti ég vin minn, sem var í næsta árgangi á eftir. Hún hafði kennt þeim í næstu kennslustund og viti menn, dregið þá upp stílinn minn, sem hún hafði tekið aftur upp úr ruslinu í frímínútunum og límt saman með límbandi. Tilgangurinn var að sýna hinum bekknum hvað ég hefði skrifað ööömurlegan stíl.

Margrét sagði sama bekk – árgangnum sem var ári yngri en ég – að hún „gæti ekki kúkað“ og væri með „rassgat úr plasti“. Hún hefur væntanlega meint að hún væri með stómíu, en við vissum ekki hvað það var og fylltum upp í með ímyndunaraflinu. Mér finnst það einhvern veginn ekki við hæfi að segja níu eða tíu ára börnum svona. Nú, einu sinni þegar ég var veikur heima, greip hún tækifærið og ásakaði tvo bekkjarbræður mína (ranglega) um að vera alltaf að fara heim til mín „og tæma ísskápinn“. Einn félaga, sem hafði verið veikur, ásakaði hún um að hafa verið að ljúga því. Einu sinni saumaði bekkjarbróðir minn handavinnuverkefni sitt fast við buxurnar sínar. Hún engdist um af hlátri yfir því hvað hann væri heimskur, fyrir framan allan bekkinn. Ég man líka þegar hún sagði okkur að Hitler hefði ekki verið slæmur maður, hann hefði endurreist Þýskaland, meðal annars útrýmt atvinnuleysi og lagt hraðbrautir.

Ég hef einu sinni á ævinni farið í verkfall. Það var ekki þegar ég var orðinn fullorðinn og verkalýðssinni, heldur var ég ellefu ára. Þá var mér svo nóg boðið af skólanum að ég neitaði bara að fara. Mórallinn í bekknum var vondur, mikil stríðni, mikið einelti, en ekkert vó jafn þungt og Margrét Müller. Þannig að ég neitaði bara að fara í skólann. Ég gat verið mjög ákveðinn, og foreldrar mínir reyndu ekki að pína mig í skólann, svo ég var heima í viku. Þá kom sr. Georg skólastjóri einn daginn heim til mín og við „sættumst“, og svo mætti ég daginn eftir í skólann.

Ég held að við höfum verið 25 í bekknum í 9 ára bekk, en vorum ekki fleiri en 15 sem kláruðum 12 ára bekk. Um helmingurinn hafði hætt en nokkrir bæst við. Þeir sem hættu fóru margir í Melaskóla eða Vesturbæjarskóla – ástæðan var s.s. oft ekki búferlaflutningar. Þeir sem byrjuðu entust mislengi. Sumir voru að flýja einelti annars staðar og Landakotsskóli var ekki rétti staðurinn fyrir þá að byrja nýtt líf, heldur ormagryfja.

Landakotsskóli mátti eiga það að hafa bólusett mig fyrir kristindómi, með einstaklega óaðlaðandi nálgun sem var haldið að okkur.

Ég sá það glöggt, eins og allir nemendur Landakotsskóla, að þar var alls konar óviðeigandi tal og hegðun gagnvart börnum. Það var ekki bara andlegt ofbeldi. Ég man t.d. vel eftir því líka að hún bað okkur börnin um að gramsa í eldhússkápunum heima hjá okkur og vita hvort við fyndum nokkur eldhúsáhöld sem væru ekki í miklu brúki. Við gætum þá bara fært henni þau, hún gæti notað þau, og það væri meira að segja allt í lagi ef þau væru ekki í lagi. Hún gerði okkur út til að stela brauðristum af foreldrum okkar!

Já, alls konar óviðeigandi hegðun var daglegt brauð. En uppljóstrunin í Fréttatímanum sl. föstudag kom mér samt verulega á óvart. Mig óraði aldrei fyrir því að kynferðisglæpir gegn börnum hefðu verið í þessu líka. Þau Margrét og sr. Georg virkuðu á mig sem ströng, íhaldssöm og gamaldags, en það hafði satt að segja aldrei hvarflað að mér að þau væru öfuguggar. Ég hafði ekki hugmynd um það, en eftir á að hyggja man ég eftir ýmsu „smávegis“ sem gat bent í þessa átt og hefði kannski átt að hringja bjöllum hjá einhverjum, t.d. að Margrét hjálpaði börnum stundum óeðlilega mikið við að baða sig í sumarbúðunum Riftúni.

Það var nett áfall að átta mig á að flest sem ég kann í skrift, reikningi, kristinfræði, handavinnu og matargerð, lærði ég af tveim barnaníðingum. Barnaníðingum segi ég, vegna þess að mér dettur ekki í hug að efast um frásagnirnar. Þær koma auk þess svo seint fram – þar sem þessi eftirminnilegu skötuhjú eru svo heppin að vera dauð og málin hvort sem er flest fyrnd – að þær geta varla verið hefnd. Það eiga örugglega eftir að koma fram fleiri frásagnir. En réttlætið hefur tvær hliðar, það er ekki bara að sá seki fái makleg málagjöld, heldur líka að fórnarlambið fái hlut sinn réttan. Ég á eftir að sjá kaþólsku kirkjuna gera hreint fyrir sínum dyrum í þessu máli.

Friday, May 6, 2011

Að myrða morðingja og slappur 1. maí

Að það sé hægt að skjóta einhvern jafngildir því ekki að það sé rétt að skjóta einhvern. Það gildir bæði um hvítabirni og Ósama bin Laden. Morð er morð. Að því sögðu, þá trúi ég fáu sem kemur frá her eða leyniþjónustu Bandaríkjanna, og veit ekkert hvað gerðist í Abbotabad þarna um daginn. Ég veit hvorki hvort Ósama bin Laden er lifandi eða dauður né hvort hann hefur nokkurn tímann komið til Abbotabad. Og þið hin vitið það ekki heldur. Það eina sem ég veit er að Ósama hóf hryðjuverkaferil sinn sem handbendi Bandaríkjanna, og að flest illvirki sem hafa verið eignuð honum hafa komið sér vel fyrir valdamikla þorpara í Bandaríkjunum.
~~~ ~~~ ~~~
Síðastliðinn fyrsti maí var sá slappasti sem ég hef tekið þátt í. Hann sýndi glögglega fram á þá gjá sem er milli verkalýðsforystunnar og verkalýðsins. Verkalýðsforystunni finnst ástæðulaust að verkalýðurinn taki annan þátt í hreyfingunni heldur en að mæta á 1. maí, og verkalýðurinn vantreystir verkalýðsforystunni, fyrirlítur hana jafnvel, en reynir ekki að breyta henni til hins betra heldur tekur bara ekki þátt. Skínandi dæmi um þetta er nýleg formannskosning í stærsta verkalýðsfélagi landsins.
Þetta er mjög miður. Verkalýðshreyfingin er eitt það dýrmætasta sem við eigum og það á ekki að henda henni í ruslið, heldur standa vörð um hana út á við og taka til í henni inn á við. Skvetta ekki burtu barninu með baðvatninu. Ég skil svo sem vel að það sé púað á ræðumann ASÍ, eins illa og ASÍ hefur staðið sig undanfarnar kynslóðir, en ég get ekki samþykkt að það sé reynt að hleypa upp fundum verkalýðshreyfingarinnar. Hvort sem fólki líkar betur eða verr, þá jafngildir árás á verkalýðshreyfinguna árás á verkalýðinn.

Wednesday, April 27, 2011

„Víðsýni“ eða bara venjuleg tækifærismennska?

Steingrímur J. Sigfússon kallar eftir „víðsýnni“ umræðu um Evrópusambandið og frábiður sér þröngsýni á borð við þjóðrembu, sérgæsku og einangrunarsjónarmið. Nú ætla ég hvorki að taka upp hanskann fyrir þjóðrembu né sérgæsku, né fara að túlka hvað „einangrun“ þýðir – en hann vill heldur ekki að við séum að draga einhverjar ályktanir af útreiðinni sem ESB veitir Írum, Grikkjum og Portúgölum. Hann um það.

Það fer um mig hrollur þegar Steingrímur talar um að „ljúka verkinu“ – þegar „verkið“ er endurreisn auðvaldsins. Það skýtur skökku við, að þykjast gagnrýna „markaðsvæðingar- og stórfyrirtækjahagsmuni Evrópuveldanna“ – þegar maður hefur sjálfur einkavætt bankana upp á nýtt, látið Magma-málið ganga sinn gang og sóað milljörðum í Sjóvá, svo fátt eitt sé nefnt. Það gremst sumum að verkin sækist seint hjá ríkisstjórninni – en í mörgum stórmálunum mættu þau alveg sækjast seinna mín vegna. Aðlögunin að ESB er ágætt dæmi um mál sem má dragast sem mest. Helst niður á hafsbotn.

Í minni heimasveit var það kallað tækifærismennska, að segja eitt og gera annað. Og þegar menn tala í eina átt þegar þeir eru í stjórnarandstöðu, hegða sér í hina áttina þegar þeir fá völd, og réttlæta allt saman með tali um „raunsæi“ og „ábyrgð“, þá hljómar það ekki eins og raunsæi eða ábyrgð í mínum eyrum, heldur einföld, gamaldags tækifærismennska. Að gefa sig út fyrir að vera andstæðingur ESB-aðildar en (a) greiða atkvæði með umsókn, (b) þykjast ekki vita hvað aðild felur í sér og (c) tala gegn öðrum ESB-andstæðingum – hvað er það annað en tækifærismennska? Ætlast maður sem gaf eftir eitt mikilvægasta vígið í baráttunni gegn ESB-aðild, til þess að sér verði treyst fyrir forystu í úrslitaorrustunni? Þegar Steingrímur kórónar þennan pistil með kokhraustum viðvörunum gegn því að „sundra röðum samherja“ – er þá nema von að maður spyrji, hverjir það eru sem eru samherjar í þessari baráttu?

Hleypum ekki erlendu glæpahyski inn í landið

Þegar erlendir glæpamenn koma til landsins skiptir miklu að viðeigandi ráðstafanir séu gerðar til að taka á móti þeim. Nú þyrfti að rýma til í Njarðvíkurskóla, því "sendinefnd" einhverra stærstu glæpasamtaka heims er væntanleg í kvöld. Þessum óaldaseggjum á að taka á móti með tveim hrútshornum:

Glæpasjóðsins sendinefnd
sæmum gjafavöru:
Ætti að verða endursend
öll í fiðri og tjöru.

Skynsamlegir fjárfestingarkostir

Þegar maður kaupir fyrstu röðina í lottóinu eða fyrsta miðann í happdrættinu, þá aukast vinningslíkurnar úr því að vera engar, upp í að verða dálitlar. Hlutfallslega er það óendanlega mikil aukning á vinningslíkum. Þess vegna er fyrsti röðin/miðinn besta fjárfestingin, og allt umfram það er peningasóun í samanburði.
~~~ ~~~ ~~~
Eins og ég hef nefnt áður er gangverð á gulli sennilega einfaldasti mælikvarðinn á horfurnar í efnahagsmálum heimsins. Það sló heimsmet nýlega og hefur bara farið hækkandi síðan. Það er tæpast til betri fjárfesting, ef undan er skilin ein röð í lottóinu.

Wednesday, April 13, 2011

Vantraust á stjórnarandstöðuna

Ég get ekki sagt að ég treysti ríkisstjórninni, nema þá með neikvæðum formerkjum. En í svipinn er ekkert skárra stjórnarmynstur í sjónmáli, þannig að ef ég væri alþingismaður mundi ég hiklaust verja ríkisstjórnina vantrausti. Það væri eiginlega meiri ástæða til að samþykkja vantraust á stjórnarandstöðuna. Eiginlega væri ástæða til að gera byltingu gegn henni, ef það væri hægt. Vantraust á stjórnmálamenn er mjög mikið og mjög stór hluti kjósenda sem segist ekki vera ánægður með neinn flokk. Það getur hver sem er túlkað það eins og hann vill, en ég ætla að leyfa mér að túlka það þannig að það séu ekki stjórnmál sem slík, heldur borgaraleg stjórnmál sem hefur þrotið erindið.

Kosningasigur Besta flokksins sl. vor var harkalegt öskur á breytingar, sem verða ekki framkvæmdar með borgaralegum aðferðum. Besti flokkurinn hefur rekið sig á þann sama vegg og allir hinir flokkarnir. Borgaraleg stjórnmál eru komin að endimörkunum; vandamálin sem við stöndum frammi fyrir verða ekki leyst öðruvísi en með stéttabaráttu. Það þýðir að borgaralegu stjórnmálaflokkarnir eru beinlínis ófærir um að leysa málin. Ég túlka hina útbreiddu óánægju með öðrum orðum þannig, að hér sé orðið til pláss fyrir flokk sem er reiðubúinn til að leggja til atlögu við auðvaldsskipulagið.

Afskiptasemi Samtaka atvinnulífsins

Það er hrein móðgun við opinbera starfsmenn, þegar Samtök atvinnulífsins setja fram kröfur um að laun þeirra séu ekki hækkuð eða að lífeyriskjör þeirra verði skert. Kannski að BSRB-félögin ættu bara að semja beint við SA? Meðvirkni Alþýðusambands Íslands, að taka undir kröfur SA eða láta það afskiptalaust að þau blandi þeim inn í viðræðurnar, er varla hægt að kalla annað en firn mikil, svo ég taki ekki dýpra í árinni. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, vinur litla mannsins, krefur ríkið um að halda útgjöldum í lágmarki, en það þýðir ekki síst að sýna hörku í kjaraviðræðum. Fyrir mánuði sagði Steingrímur J. Sigfússon að eigendastefna ríkisins fæli í sér "hófsemd í launamálum". Hann sagði það um bankana, en það þarf ekki sterk gleraugu til að sjá að hið sama gildir um annað starfsfólk og ríkisins.

Monday, April 11, 2011

Hver er "réttkjörinn" forseti Fílabeinsstrandar?

Hver fjölmiðillinn étur upp eftir öðrum að í forsetakosningunum á Fílabeinsströndinni hafi illvirkinn Gbagbo tapað, en mótframbjóðandinn Ouattara, frv. starfsmaður AGS með meiru, verið "réttkjörinn". Ja, ég er ekki svo viss. Hvað ef hagsmunir heimsvaldasinna hafa, aldrei þessu vant, eitthvað með málið að gera? Lesið þessa grein á WSWS eða þessa grein í Lalkar til að fá nasaþef af öðru sjónarmiði. Það skyldi þó aldrei vera.

Sunday, April 10, 2011

Ríkisstjórnin og IceSave, tvennt ólíkt

Ég heyri víða fólks segja að margir hafi kosið "nei" í gær til þess að lýsa vanþóknun sinni á ríkisstjórninni. Ekki efa ég að það hafi haft sín áhrif. En af einhverjum ástæðum hef ég ekki heyrt hina hliðina nærri því eins oft: Að fólk hafi kosið "já" til þess að styðja ríkisstjórnina. Ég er ekki í vafa um að það hefur líka haft sín áhrif. Að minnsta kosti þekki ég fólk sem ég veit að nálgaðist þetta þannig. Það er auðvitað ómögulegt að meta stærð þessara hópa, þótt það væri fróðlegt.

Ég hef ekki nennt að fylgjast með allri þessari endalausu umræðu um IceSave-málið nýlega. Mér finnst lítið interressant að velta fyrir mér málalenginum samningsgreinum, spádómum um vexti eða túlkun á lögum, sem annar hver maður virðist vera orðinn sérfræðingur í. Kjarni málsins er miklu einfaldari en ætla mætti af umræðunni: Ranglátar skuldir á ekki að borga. Og ranglátum lögum eða dómum á heldur ekki að hlýða. Það er bara ekki siðlegt að taka þátt í ranglæti.

Afstaðan til IceSave á ekki að mótast af afstöðunni til ríkisstjórnarinnar, og því síður af afstöðunni til stjórnarandstöðunnar, hvað þá ritstjóra Morgunblaðsins. Ég er í sjálfu sér á móti öllum borgaralegum ríkisstjórnum, en á meðan enginn skárri valkostur er í sjónmáli sé ég ekki ástæðu til að fella þessa og sjá svo bara hvað gerist. Það þarf bara að taka málefnin fyrir hvert fyrir sig. Ferill núverandi ríkisstjórnar hefur í aðalatriðum ekki verið glæsilegur og hvert málið rekið annað sem ber að berjast gegn á hæl og hnakka.

Sýnið mér félagslega framsækna stefnu í efnahagsmálum, húsnæðismálum, velferðarmálum o.s.frv. og ég skal styðja hana. Haldið áfram að sýna auðvaldinu auðsveipni, og ég skal leggja steina í götu ykkar.

Ábyrgðin á auðvaldinu

Í eðlilegum skilningi orðsins "ábyrgð" bera bankamenn fyrst og fremst sjálfir beina ábyrgð á gjörðum sínum. Stjórnmálamenn og eftirlitsstofnanir bera líka sína ábyrgð, fyrir að búa í haginn fyrir bankamennina, ýmist með verkum sínum eða vanrækslu. En hvað með almenning? Ber almenningur ábyrgð? Já og nei: Ekki beina, en á sinn hátt óbeina. Óbeina ábyrgðin sem allt venjulegt fólk ber, er sú að hafa ekki látið sig varða að hagkerfið væri vitskert og með innbyggða siðblindu. Það er að segja, að hafa ekki fyrir löngu tekið málin í sínar hendur með því að gera byltingu og byggja upp réttlátt og skynsamlegt þjóðfélag. Jæja, segjum að við berum öll þessa (óbeinu) ábyrgð á atburðarás síðastliðinna ára. Hvað ber þá að gera núna? Það er kjarni málsins: Það á ekki að halda áfram meðvirkninni við kröfur óseðjandi auðvalds, heldur sýna þá ábyrgð að afleggja loksins auðvaldsskipulagið og skipuleggja þjóðfélagið upp á nýtt. Það væri ábyrgt. Annað er ekki ábyrgt.

Saturday, April 9, 2011

Að kyssa vöndinn

Þegar ósanngjarnir og pedagógískt vitlausir foreldrar flengdu börn sín í gamla daga, létu þeir þau stundum kyssa á vöndinn á eftir, til þess að hámarka niðurlæginguna. Í mínum augum er já-atkvæði í IceSave-kosningunni sambærilegt. Að samþykkja ranglætið er að kyssa vöndinn. Fari það svo á endanum, að þessar ranglátu skuldir verði ekki umflúnar, þá skal það aldrei verða með mínu samþykki.

Friday, April 8, 2011

Ályktun Rauðs vettvangs um IceSave

Íslenskur almenningur stofnaði ekki til IceSave-skulda og á ekki að borga þær. Fjármálaauðvaldið getur átt sínar skuldir sjálft. Almenningur á Íslandi og almenningur í Bretlandi og Hollandi ætti að berjast sameiginlega gegn sameiginlegum óvinum sínum í bönkum, ríkisstjórnum og öðrum valdastofnunum heimsvaldasinnaðs fjármagns. Höfnum IceSave í þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl!

Wednesday, April 6, 2011

Fyrirsögn dagsins?

Já, ætli RÚV eigi ekki fyrirsögn dagsins: 10 hnökkum stolið á Selfossi.

Vísa um skammtímastefnu í efnahagsmálum

Fjármálaauðvaldsins taktu tjón
-- annars trylltur múgur mun ná þér --
og farðu og troddu því, feiti þjón,
upp í fjárlagagatið á þér.

Tileinkað þeim sem vilja þjóðnýta bankahrunið.

Friday, April 1, 2011

Aðalfundur SFR

Fyrir utan að flestar mínar tillögur voru felldar eins og venjulega, þá var samt ekki dónalegt á aðalfundi SFR á þriðjudaginn.

Wednesday, March 30, 2011

Ofnotkun á mótmælum

Lesið grein Jóns Karls á Egginni: Ofnotkun á mótmælum

Tíu ár á Kleppi

Í dag eru tíu ár síðan ég hóf störf á Kleppi. Aldeilis tímamót, hm?

Monday, March 28, 2011

Parísarkommúnunnar minnst

Af því tilefni, að í dag eru 140 ár frá formlegri stofnun Parísarkommúnunnar, skrifaði ég grein um hana fyrir Eggina. Lesið hana: Parísarkommúnan 140 ára.

Thursday, March 24, 2011

Hvernig er heilsan? Þekki ég...?

Fyrir fáeinum dögum gekk ég nokkuð stóran hring um miðbæinn, sinnti nokkrum erindum og ók barnavagninum á undan mér. Í þessum göngutúr, sem stóð varla lengur en rúman klukkutíma, sá ég hvorki meira né minna en fimm sinnum eitthvert fólk sem mér fannst í fljótu bragði sem ég þekkti. Einu sinni þóttist ég sjá frv. samstarfskonu, einu sinni frv. stjórnarmeðlim í Félaginu Ísland-Palestína, einu sinni gamla bekkjarsystur og ég man ekki hver hin tvö áttu að vera. Ég sá svo á svipnum á öllum fimm að þau þekktu mig ekki, og voru heldur ekki þau sem mér þótti fyrst. Einkennilegt, verð ég að segja. Nú ... ég veit ekki nógu mikið um mannsheilann til að vita hvort það er til einhver ákveðin heilastöð sem geymir tilfinninguna "ah, þarna er einhver sem ég þekki" -- en ef sú heilastöð er til, þá datt mér helst í hug að það hefði orðið eitthvert skammhlaup í henni. Sú tilgáta styrkist líka af því að fjórum sinnum þennan sama dag byrjaði fólk samtal við mig á orðunum "hvernig er heilsan?" -- sem er svo sem ekki sjaldgæf kveðja, en sannarlega óvanalegt að heyra hana fjórum sinnum sama daginn.

Sunday, February 27, 2011

Royal Straight Flush

Ég sat að spilum um daginn, og fékk Royal Straight Flush, sem er hæsta höndin í póker. Þetta er tía-gosi-drottning-kóngur-ás í sama lit. Ég fékk í laufi. Ég held að það sé frekar ósennilegt að maður sem spilar frekar sjaldan fái þessa hönd oftar en einu sinni á ævinni. Það súra er að ég var ekki að spila póker heldur ólsen-ólsen.

Líbýski fáninn

Í fréttaflutningi frá Líbýu undanfarið hafa mótmælendur oft sést veifa þverröndóttum fánum rauð-svart-grænum að lit og með hálfmána og stjörnu í hvítu í svörtu röndinni. Það er skiljanlegt að þeir noti þennan fána, þetta er fáni líbýska konungsríkisins, sem var í notkun frá 1951-1969. Líbýska fánanum hefur hins vegar verið breytt, og algrænn fáni verið notaður síðan 1977, eini einliti þjóðfáni heims. Í myndartexta með frétt á RÚV.is í gær er gamli fáninn kallaður "Líbíski fáninn". Mundu menn fallast á að gamli íslenski hvítblái fáninn væri kallaður "íslenski fáninn"?

Saturday, February 19, 2011

Kjararáð og kjarasamningar

Kjararáð hækkar laun dómara. Mér finnst viðbrögð Gylfa Arnbjörnssonar skrítin. Ég hefði tekið því fagnandi að kjararáð gæfi svona tóninn fyrir kjarasamninga almennt. Hvað sem dómurum líður, þá hefðu flestir félagar í ASÍ nefnilega gott af því að fá launahækkun, og það hefði þar með gott af því að Gylfi Arnbjörnsson áttaði sig á því. Og hinn mikli verkalýðssinni Steingrímur J. Sigfússon segir að ákvörðunin sé ekki fordæmisgefandi. Bull. Auðvitað er hún fordæmisgefandi. Verkalýðssinnar mundu nota hana sem fordæmi til að krefjast almennra launahækkana, en í höndum krata og annarra hægrimanna er hún bara annars konar fordæmi: Fordæmi um að sumir eigi bara betra skilið en aðrir.

Thursday, February 10, 2011

Happadagurinn mikli

Í haust var ég einu sinni sem oftar í vinnunni, og það kom stund þar sem lítið var að gera. Til að drepa tímann greip ég spilastokk og lagði kapal. Gamla góða sjöspila-kapalinn sem allir þekkja. Í fyrsta sinn sem ég lagði hann gekk hann upp. Líka í annað skiptið. Og þriðja, fjórða og fimmta skiptið líka. Fimm sinnum í röð. Ég þurfti ekki meira til að átta mig á því að þetta var happadagur. Þannig að þegar ég kom heim fór ég út í sjoppu og keypti miða í Lottóinu og í Víkingalottóinu líka, sannfærður um að ég mundi vinna þann stóra. Ég fylgdist svo spenntur með drættinum. Og getið bara hvað: Ég vann ekki neitt. Hvaða lærdóm má draga af þessari sögu?

Tuesday, February 8, 2011

126 ára

Í fréttum Sjónvarpsins var fjallað um tvær konur, aðra frá Kúbu og hina frá Azerbaídsjan, sem eru báðar 126 ára að sögn, og hafa skilríki (ömmu sinnar?) til að sanna það. Þessi frá Azerbaídsjan, verð eǵ að segja, er ern eftir aldri. Hún lítur ekki út fyrir að vera deginum eldri en 110 ára.

Eldey tveggja ára

Eldey átti tveggja ára afmæli á dögunum. Við höfðum ákveðið með löngum fyrirvara að halda smábarna-ball af því tilefni. Í desember fékk hún æði fyrir Múmínálfa-teiknimyndum, sem enn stendur. Þannig að okkur þótti eðlilegt að reyna að hafa Múmínálfa-þema. Fundum hvergi glös, diska né servíettur með Múmínálfunum -- en ákváðum hins vegar að hafa köku sem yrði einhver persóna úr teiknimyndunum. Spurðum afmælisbarnið hver það ætti að vera. Hún vildi hafa Múmínmömmu. Þannig að Múmínmamma var það. Ég efast um að Múmínmamma sé vinsælasta persónan hjá mörgum börnum. En hún er svo sem vel að því komin.

Orð númer tvö

Bragi sonur minn er orðinn níu mánaða og ég dáist að því hvað færni hans eykst hratt. Hann stóð í fyrsta sinn óstuddur í gær, stutta stund. Og fyrir nokkrum dögum sagði hann orð númer tvö. Fyrsta orðið var hið fyrirsjáanlega "mamma". Annað orðið? Jú: Kisa. Ekki pabbi, heldur kisa. Eftir áhugamálunum að dæma býst ég eins við því að þriðja orðið verði "Eldey".

Monday, January 31, 2011

Meira um lærdóminn af Mark Kennedy

Eggin.is birtir síðari hluta greinar Þórarins Hjartarsonar: Dæmið Mark Kennedy: II. Útsendarar og ofurróttækni

Thursday, January 27, 2011

Mark Kennedy, útsendarar og ofurróttækni

Þórarinn Hjartarson skrifar áhugaverða grein á Eggin.is: Dæmið Mark Kennedy: I. Útsendarar og ofurróttækni; -- annar hluti birtist eftir helgi.

Thursday, January 20, 2011

Niðurskurður strætó er hneyksli

Ég er hneykslaður á því að menn ætli að sitja fast við sinn keip í því að skera niður strætó. Í strætó er svo gott sem ekkert eftir til að skera niður, annað en sjálf þjónustan. Nokkrir tugir milljóna munu sparast á rekstri strætó með því að hætta að aka klukkutíma fyrr á kvöldin, byrja tveim tímum seinna á laugardögum og hætta að keyra leiðir 2 og 5 um kvöld og helgar. Nokkrir tugir milljóna. Á sama tíma munu flestir vinnustaðir vaktavinnufólks þurfa að borga leigubíla þegar strætó gengur ekki. Útgjaldaaukning Landspítalans eins verður þannig margfalt meiri en sparnaðurinn hjá strætó.

Hvaða rugl er þetta eiginlega? Það er eins og menn fatti ekki að það er trikk við strætó, eins og reyndar sitthvað annað í grunnþjónustu samfélagsins. Trikkið við strætó er þetta: Það kostar peninga að reka hann, en það sparar ennþá meiri peninga annars staðar.

Rúv segir borgarstjórnarmeirihlutann hafa bókað að "að hagræðingarkrafa til Strætó sé ekki meiri en í annarri viðkvæmri þjónustu, s.s. leikskólum og grunnskólum." Fyrir utan að það er ekki hagræðing heldur þjónustuskerðing sem um ræðir, þá segir þessi lína mér að það ætti þá líka að þyrma annarri viðkvæmri þjónustu.

Við skulum ekki gleyma því, að á sama tíma og borgin er að skerða grunnþjónustu, þá á hún tekjustofna sem hún nýtir ekki til fulls. Það er ábyrgðarhlutur.

Wednesday, January 19, 2011

Nímenningar fyrir dómi

Nímenningamálið er skandall. Það hefði aldrei átt að fara svona langt. Það hefði aldrei einu sinni átt að gefa út ákæru. Sakargiftir vafasamar, sumar beinlínis fáránlegar. Ef þau verða dæmd mun íslenska réttarkerfið með því fella dóm yfir sjálfu sér.

Thursday, January 13, 2011

Lyfjarisi lýtur í lægra haldi

Hrafn Malmquist skrifar um alþjóðlega lyfjafyrirtækið GlaxoSmithKline á Eggina: