Friday, October 31, 2008

Mótmæli á morgun

Á morgun, laugardag 1. nóvember, eru stór útimótmæli gegn ríkisstjórninni. Krefjumst afsagnar óhæfra stjórnmálamanna, brottrekstrar óhæfra embættismanna og afnáms óhæfs kerfis! Klukkan 15 á Austurvelli! Látið það berast!

Monday, October 27, 2008

Grein dagsins

Opinn fundur Rauðs vettvangs annað kvöld -- þangað eiga allir góðir sósíalistar erindi.
~~ ~~ ~~ ~~ ~~ ~~ ~~ ~~ ~~ ~~ ~~ ~~ ~~ ~~

Ég vil benda á góða og merkilega grein eftir sjálfan mig:

Davíð Bónaparte
Undanfarin 20 ár, eða tæplega það, hefur stjórnmálaumræða á Íslandi að miklu leyti snúist um persónu Davíðs Oddssonar. Það er ekki að undra, hann hefur enda verið valdamesti maður í landinu mestan hluta þessa tíma. Þegar við héldum að hann hefði sest í helgan stein, fengið þægilega innivinnu og hætt að vera miðpunktur athyglinnar, þá dynur efnahagskreppan á og hann ryðst fram á sjónarsviðið aftur og hefur engu gleymt. Og andstæðingar hans hafa engu gleymt heldur.

Ég ætla ekki að bera blak af Davíð Oddssyni. Ég efast um að nokkur annar Íslendingur beri eins mikla ábyrgð á þessu ástandi eins og hann. En það er barnaskapur að tala eins og hann sé rót vandans og allt verði betra ef hann snúi sér að öðru. Hann gæti dottið niður dauður án þess að við yrðum miklu bættari fyrir vikið. Hann er nefnilega ekki aðalatriðið.

Það heitir Bónapartismi, þegar stjórnmál eins lands hverfast um einn valdamann. Nafngiftin er runnin frá Karli Marx og er dregin af Napóleon I og Napóleon III, sem hvor um sig hrifsaði völdin í Frakklandi með tilstyrk hersins á sínum tíma eftir byltingu (sjá nánar í Átjánda Brumaire Lúðvíks Napóleons eftir Karl Marx). Þeir komu báðir fram sem mjög valdamiklir menn og virtust fæddir í hlutverk hins mikla foringja. Síðar átti Trotskí eftir að kalla veldi Stalíns bónapartískt, og reyndar má segja sama um evrópska einvaldskonunga.

[LESA REST AF GREIN]
~~ ~~ ~~ ~~ ~~ ~~ ~~ ~~ ~~ ~~ ~~ ~~ ~~ ~~

Önnur, sem er eftir sama höfund og mér ber eiginlega borgaraleg skylda til að vísa á:
Kreppan: Aðalatriðin og aukaatriðin -- hún birtist í Mogganum á föstudaginn var.

Valdatafl á Hallveigarstíg

Þetta er strategía Samfylkingarinnar:

Kenna Sjálfstæðisflokknum um kreppuna með því að tengja hana við nýfrjálshyggju og Davíð Oddsson. Láta stjórnarandstöðuarm flokksins leika lausum hala og hædjakka mótmælum þannig að Samfylkingin eigi trúverðugleika og talsmenn sem óánægðir taka mark á. Neyða Geir til að bola Davíð frá, en víkja ella og láta Þorgerði Katrínu taka það að sér, svo að alvarlegir brestir komi í Sjálfstæðisflokkinn, jafnvel klofningur. Láta þá eins og helsta ljónið sé úr veginum, rjúfa þá þing og boða til nýrra kosninga þar sem Samfylkingin kæmi út sem langstærsti flokkurinn og gæti deilt og drottnað. Leita þá á náðir Evrópusambandsins um inngöngu, í von um að það leysi vandamál hagkerfisins. Skrifa loks sögubækurnar upp á nýtt.

Hvernig veit ég þetta? Ja, satt að segja veit ég þetta ekki, ég held þetta bara.

Wednesday, October 22, 2008

Veturinn kominn degi of snemma

Vetur konungur kann greinilega ekki á dagatal, fyrstu vetrardagur er ekki fyrr en á morgun.
Ég á gríðarmikið verk eftir í garðinum. Ætli mér takist að vinna meira í honum fyrir alvöru vetur? Ég veit ekki hvað gefst mikill tími í mokstur þegar snjóa leysir; þá mun ég eiginlega hafa öðru að moka heldur en mold í garðinum.
- - - - - - - - - - -
Herrarnir stunduðu hagsmunapot,
heimsku og spilling' og lygar.
Íslenska krónan er komin í þrot
og kuldinn af vetrinum sligar.

Frelsi auðmagnsins => hringamyndun

Það er lögmál á kapítalískum markaði, að því meira frelsi sem fyrirtækin hafa, þess stærri verða þau. Hvert og eitt keppir eftir hámarksgróða, stækkar því við sig eins og hægt er með því að hlaða upp framleiðslugetu og/eða kaupa upp keppinauta. Þetta gildir um fjölmiðla eins og annað. Með nýjasta útspilinu, sameiningu 365 miðla og Árvakurs, er nú, þannig séð, bara einn alvöru fjölmiðill hérna, plús svo Ríkisútvarpið.
Þorsteini Pálssyni fannst, nóta bene, aðspurðum að Ríkisútvarpið væri aðalvandamálið á fjölmiðlamarkaðnum!
En þetta meikar alveg sens. Meira frelsi => meiri hringamyndun. Ef við viljum heyra önnur sjónarmið heldur en þeirra sem eiga 365-Árvakur og/eða halda þeim uppi með vþí að kaupa auglýsingar, þá verðum við að gera svo vel að stofna frjálsa fjölmiðla. Þegar maður reynir að gera það er maður fljótur að sjá eitt vandamál við það: Það kostar mikla vinnu, og ef maður er í annarri vinnu og hefur ekki efni á að ráða her manns til að sjá um þetta, þá tekur það einfaldlega gríðarlega mikla sjálfboðavinnu. En þetta er víst frelsið! Sumir eiga bara auðveldara með að nýta sér það heldur en aðrir!
Ég vil annars koma því að, að samtökin "Blaðamenn án landamæra" eiga ekkert skylt við þau ágætu samtök Lækna án landamæra. Blaðamenn án landamæra voru stofnuð af kúbönskum útlögum og samverkamönnum þeirra, í þeim tilgangi að grafa undan stjórnvöldum á Kúbu. Tilgangurinn er auðvitað að gera Kúbu aftur að áfangastað fjárhættuspilara og vændiskúnna frá Ameríku. Frelsið, með öðrum orðum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Ég vil líka minna á fund Rauðs vettvangs annað kvöld, fimmtudag, klukkan 20 í Friðarhúsi, Njálsgötu 87. Þið megið gjarnan láta þetta hvort tveggja berast áfram með tölvupósti, bloggi, fésbók eða öðrum leiðum, til fólks sem gæti haft áhuga á að mæta.
Sjá nánar:
* Lengri útgáfa af fundarboði
* Ályktun frá fundi 16. október
* 1. maí-ákall Rauðs vettvangs
* Ávarp til íslenskrar alþýðu

~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Auðvald og sjálfstæði 2008
höfundur: Þórarinn Hjartarson

Sjálfstæði Íslands er 90 ára í ár. Lýðveldistíminn er 64 ár. Þetta er stuttur tími. Nú stendur sjálfstæðið tæpar en það hefur áður gert þessi 90 ár. Ef við lendum upp á náð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins verður sala þess innsigluð, jafnframt því sem íslenskum almenningi verður bundinn baggi á herðar til framtíðar.
Hver er staða Íslands meðal þjóða? Ísland er lítið auðvaldsland sem sýnir heimsvaldaásælni en verður jafnframt fyrir ásælni voldugri heimsvaldasinna. Borgarastéttinni er ekki trúandi fyrir sjálfstæði þjóðarinnar, síst af öllu heimsvaldasinnaðri borgarastétt, eins og allir mega sjá. Þjóðvarnarbaráttan er því verkefni alþýðunnar.

LESA RESTINA AF ÞESSARI GREIN

Friday, October 17, 2008

Nepalskir maóistar búa sig undir að lækka rostann í sjálfum sér

Kommúnistaflokkur Nepals (maóistar) er víst að undirbúa það að leggja niður maóisma-endinn í nafninu sínu. Óskandi að það væri vegna skuldaskila við maóisma, en það er ekki svo.

Prachanda formaður, sem núna er einnig forsætisráðherra í Lýðveldinu Nepal, hefur verið í Kína og tekið upp vinsamleg samskipti við Kínverja. Flokksforysta hins rangnefnda Kommúnistaflokks Kína mun hafa stungið upp á því við hann og Nepalina að þeir sameinuðu hina mörgu kommúnistaflokka sína í einn.

Næstráðandinn, dr. Baburam Bhattarai, benti á að viðskeytin væru til að aðgreina flokkana hvern frá öðrum, t.d. Kommúnistaflokkur Nepals (marxistar), Kommúnistaflokkur Nepals (sameinaðir marx-lenínistar) o.s.frv. Þar sem maóistaflokkurinn ber höfuð og herðar yfir hina, sé kannski eðlilegast að hann kalli sig einfaldlega Kommúnistaflokk Nepals. Nú þegar standa yfir viðræður við Kommúnistaflokk Nepals (sameining-miðja-Masal) um sameiningu. (Sjá Times of India.)

Hugmyndafræðileg skuldaskil eru einkum þau að Nepalirnir segjast munu halda tryggð við fjölflokkalýðræði og federalisma, en hvorugt mun hafa verið Maó gamla að skapi.

Það er engin vanþörf á að endurskoða arfleifð Maós. Sú endurskoðun er hins vegar vandmeðfarin, eins og önnur pólitísk endurskoðun. Ég þori ekki að leggja höfuðið að veði að Nepalirnir endurskoði það slæma og haldi því góða.

Tuesday, October 14, 2008

Hvað ber að gera og hvað ber ekki að gera?

Á Austurvelli eru dagleg mótmæli gegn efnahagsástandinu, klukkan tólf á hádegi. Mætið á morgun og takið vini og ættingja með. Sýnum ráðamönnum að okkur sé ekki sama, að við krefjumst breytinga. Rekum af okkur það slyðruorð, að við nennum aldrei að mótmæla neinu, þótt ekki sé nema í þetta eina skipti.

Ráðamenn þjóðarinnar spóla í sinni eigin for og á meðan sökkvum við dýpra og dýpra. Sumir þeirra tala um Evrópusambandið eins og einhvern Mahómet sem muni leysa málin. Aðrir tala um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, eins og hann muni redda okkur. Þeir sem þannig tala eru greinilega haldnir alvarlegum misskilningi. Þórarinn Hjartarson rekur það í grein dagsins á Egginni:

Náð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er dauði.

~~~ *** ~~~ *** ~~~

"Stefanía Óskarsdóttir ... segir að Íslendingar standi frammi fyrir því að ræða alvarlega, í hvers konar þjóðfélagi þeir vilja búa." (*) Það eru orð að sönnu. Það er kominn tími til að taka allt til endurskoðunar, ekki bara stýrivexti og krosseignatengsl, heldur líka lýðræðið, stjórnmálaflokkana, eðli hagkerfisins, stjórnarskrána og heilan helling af öðru. Við þurfum að taka allt þjóðfélagið til endurskoðunar, halda í það sem er þess virði að halda í en henda miskunnarlaust í burtu því sem spillir og finna nýtt í staðinn.

~~~ *** ~~~ *** ~~~

Ég er sammála Guðna Ágústssyni um að við eigum ekki að koma skríðandi til Evrópusambandsins. Ef Ísland hefur þörf fyrir meiri samninga við það, þá á að semja þegar samningsstaðan er sterk, ekki þegar við þurfum að koma eins og beiningamenn.

Hér er grein um málið, eftir sjálfan mig: Nokkrar ástæður fyrir andúð á Evrópusambandinu;

...einnig má benda á grein Ólafs Þórðarsonar: Hrædd og skjálfandi í pilsfaldi ESB.

~~~ *** ~~~ *** ~~~

Össur vill lífeyrissjóði í Kaupþing. Grétar hvetur til varkárni í þeim efnum. Ég sammála Grétari -- án þess að maður útiloki neitt, þá væri glapræði að hlaupa að neinu. Á þeim nótum er hér vísukorn:

Púkkar upp á auðvaldið
sem okkur hefur glapið.
Össur bindur vonir við
að við öll borgum tapið.

Monday, October 13, 2008

Mótmælum óstjórn í efnahagsmálum!

Finnst þér að seðlabankastjóri sé starfi sínu ekki vaxinn og eigi að víkja tafarlaust? Finnst þér krónan vera vonlaus gjaldmiðill? Finnst þér stýrivextir of háir? Finnst þér að Geir H. Haarde eigi að segja af sér? Finnst þér efnahagsástandið vera í einu orði sagt óþolandi?

Komdu þá á Austurvöll í hádeginu í dag. Mótmælum því að vera dregin með ofan í svaðið, sýnum þessum mönnum nú einu sinni að við látum ekki bjóða okkur hvað sem er!

- - - - - - - - - - - -

Meistari Jón Karl ritar á Eggina: "Gandreið nýfrjálshyggjunnar, 2. hluti" OG "Smjörklípan súra". Lesið það.

Fáum frekar gjaldeyri hjá Norður-Kóreu

Hið eina sanna föðurland verkalýðsins, Lýðræðisalþýðulýðveldið Kórea, hefur verið tekið af lista yfir hryðjuverkaríki. Þetta býður upp á tækifæri.

Opinber stefna Norður-Kóreu heitir "Juche-hugmyndin" og er þökkuð ástsæla og eilífa forseta Kim Il-sung. Nafnið þýðir "sjálfsþurft" og er nokkurt réttnefni. Hugmyndin krefst skilirðislauss fullveldis landsins, í bókstafstrúarlegum skilningi orðsins, m.a. að landið sé sjálfu sér nægt um allar nauðsynjar. Nú, það er það auðvitað ekki, en í samræmi við þessa stefnu þá hafa Norður-Kóreumenn átt það til að borga fyrir innfluttar vörur með dollaraseðlum sem þeir prenta sjálfir. Það kalla ég sjálfsbjargarviðleitni. Nú, ef þeir eru ekki á þessum hryðjuverkalista, þá ættum við að geta fengið dollara hjá þeim án þess að óhreinka á okkur hendurnar.

Reyndar held ég ekki að margir viti að það eru alveg diplómatísk tengsl milli Íslands og Norður-Kóreu. Ef þið skoðið opinberan fréttavef norður-kóresu ríkisstjórnarinnar, má sjá fréttir af samskiptum ríkjanna sem ég hef ekki séð fréttir um í íslenskum miðlum. Dæmi: Þingforseti Norður-Kóreu sendi Ólafi Ragnari Grímssyni og Íslensku þjóðinni hugheilar hamingjuóskir á þjóðhátíðardaginn árið 2000 (*). Ég man ekki eftir að Ólafur hafi fært okkur þá kveðju, en ég var reyndar erlendis þá, þannig að það hefur máske farið framhjá mér. Sams konar kveðja barst árið 2001, með heilla- og hamingjuóskum frá vinaþjóð okkar Norður-Kóreumönnum (*).

Nú, í júní 2004 tók Ólafur Ragnar Grímsson við trúnaðarbréfi Jon In Chan, sendiherra Norður-Kóreu gagnvart Íslandi, með aðsetur í Stokkhólmi. Við það tækifæri sagði Ólafur að Ísland óskaði þess að "styrkja tengslin við Norður-Kóreu og eiga samstarf á alþjóðavettvangi" (*). Ég minnist þess ekki heldur að Íslendingar hafi sýnt Kóreumönnum sérstaka samstöðu nýlega. Kannski að við getum byrjað á því með því að fá hjá þeim dollaraseðla. Getum borgað þeim með hvalkjöti frá Kristjáni Loftssyni og 550.000 óseljanlegum gæruskinnum hjá sláturfélagi Sauðárkróks.

Ólafur Ragnar er ekki sá eini sem hefur átt hlý samskipti við þessa heiðursmenn frá Kóreu. Pak Pong Ju, forsætisráðherra Norður-Kóreu, sendi Geir H. Haarde hamingjuóskir þegar sá síðarnefndi tók við embætti forsætisráðherra Íslands í hittifyrra, og árnaði honum heilla í þessu ábyrgðarfulla starfi. Kannski að þetta sé að koma fram þessa dagana, með norður-kóreskum formerkjum? Á sama tíma fékk Valgerður frænka mín Sverrisdóttir einnig hamingjuóskir frá utanríkisráðherra Norður-Kóreu, með að hafa orðið utanríkisráðherra Íslands (*).

Fyrst það er uppi á borðinu að fá lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eða Rússlandi, þá sé ég ekki hvers vegna við ættum ekki líka að skoða þann möguleika að rækta vinskapinn við vinaþjóð forsetans og forsætisráðherrans, Norður-Kóreu.

Saturday, October 11, 2008

Úr öskunni í eldinn?

Ef Ísland kemst á framfæri IMF, þá held ég nú að það muni harðna á dalnum. Úff.

--- --- --- ---

Í dag laugardag eru mótmæli á Austurvelli kl. 12. Krafa dagsins er: Burt með þá sem komu okkur í þetta klandur! Látið það berast.

Friday, October 10, 2008

Tilkynning og hugleiðingar dagsins

Það á víst að láta þetta berast áfram. Ekki stendur á mér að verða við því:
Við krefjumst þess að Seðlabankastjórar segi af sér á stundinni. Nú er nóg komið!
Safnast verður saman við styttuna af Ingólfi Arnarssyni
kl. 12, þann 10. október og rölt yfir að torginu fyrir framan Seðlabankann.
Nallinn verður sunginn og gjallarhorn til staðar fyrir þá sem taka vilja til máls.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Menn segja að eins og General Motors fer, svo fari Bandaríkjunum. Nú, í gær lækkuðu bréf GM um 31%. Miðað við hvernig reksturinn hjá þeim gengur, þá eiga þeir eftir að missa fleiri spóna úr aski sínum áður en langt um líður. Og svo fer Bandaríkjunum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Gærdagurinn bar þó a.m.k. eina gleðifrétt í skauti sér: SPRON og Kaupþing eru ekki að fara að sameinast! Guðlegt inngrip? Ég skal ekki segja – en ég er alla vega hress með það. Eins og ég rakti í bréfi til stjórnenda SPRON um daginn, nenni ég varla að hætta viðskiptum við Kaupþing í annað sinn, þótt fyrra skiptið hafi verið mjög ánægjulegt nú fyrr á árinu. En ég þarf kannski ekki að hafa áhyggjur af því þessa dagana. Hitt veit ég, að SPRON fær áframhaldandi séns.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Björgólfarnir bera ekki nafn með rentu. Ég spái því að þeir séu nú í Sviss og hafi látið breyta á sér andlitunum með skurðaðgerð. Nema þeir séu í felum í helli í ættbálkahéröðum í Norður-Pakistan, þar sem ég held reyndar líka að Elvis dyljist. Síðari tilgátan kann að vera sennilegri; ég sá það í fréttum að Pakistan er líka í björtu báli af efnahagserfiðleikum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er ekkert annað en móðgun út í okkur öll, þegar Davíð Oddsson þykist enga ábyrgð bera á ástandinu. Það er móðgun að ætlast til þess að við séum nógu heimsk til að trúa því. Hann kennir auðvaldsdólgunum um að hafa „misnotað frelsið“ og það sé þeim sjálfum að kenna. Nei Davíð, þeir misnotuðu forréttindin. Það „frelsi“ sem Davíð innleiddi var ekki frelsi fyrir fólk heldur fyrir peninga – það er að segja, gegn fólki. Auðmagn fylgir einfaldri reglu: Að éta eða vera étinn. Við vorum étin. Verði okkur að góðu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Talandi um snillinga og frjálshyggju (og menn í felum), þá hefur bloggið hans Friðbjörns Orra breytt um svip síðan ég sá það síðast. Er þetta nýskeð? Ég er mun ánægðari með það svona!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég vil annars líka vekja athygli á þessu.

Thursday, October 9, 2008

Tveir meistarar

Ég gat um það í síðustu færslu að Sævar Cieselsky væri maður dagsins. En ég held að Snorri Ásmundsson verði að kallast það líka: Seðlabankastjóra sagt upp. Úff, það þurfti einhver að gera þetta.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er viðeigandi að nota hryðjuverkalöggjöf gegn alvöru hryðjuverkamönnum til tilbreytingar, en ekki gegn fólki sem er á móti Íraksstríði eða Sellafield-stöðinni. Ég er viss um að Ósama er grænn af öfund út í Björgólfsfeðga núna.

Ef út í það er farið, gæti ég alveg trúað því að Björgólfsfeðgar sitji núna í helli í löglausu ættbálkahéraði í Norður-Pakistan. Þeir, Ósama og Elvis saman í helli.

Wednesday, October 8, 2008

Bubbi með opna buxnaklauf

Ég mætti á "mótmælatónleika" Bubba Morthens, aðallega af forvitni. Að því leyti varð ég ekki fyrir vonbrigðum; þetta var talsvert forvitnilegt. Fyrstu mótmælin sem ég hef verið við, sem leysast upp í popptónleika. Minnti mig ekki mikið á mótmæli, meira sjómannadaginn, fyrir utan að það var minna rok. Þetta minnti kannski ennþá meira á fyrsta maí. Róttæknin var í það minnsta ekki meiri, þótt klisjurnar hafi verið ennþá yfirgengilegri. Þegar ég hélt að hafsjór brimskaflanna væri þurrausinn, þá kom Bubbi Morthens og sýndi fram á annað með slíkri skorpu að ég réð varla við mig af hryllingi. Bubbi sagði frá því hvað getur verið erfitt hjá fjölskyldum, og hvað það er núna erfitt hjá okkar fjölskyldu. Hann líkti því við sína eigin fjölskyldu. Einhvern tímann var hann með víst með deliríum tremens og það var bleikur fíll í stofunni hjá honum. Stofan fór í rúst áður en nokkur minntist á fílinn. Og núna er stofan hjá fjölskyldunni okkar allra komin í rúst. Skáldlegt.

Spádómur Stefáns Friðriks rættist næstum því; Bubbi flutti splunkunýtt lag. Það var að vísu hvorki samið gegn FL Group, Hannesi Smárasyni né öðrum kónum sem hafa farið illa með peningana hans og annarra, heldur var boðskapurinn í stuttu máli þessi: "Við erum fjölskylda, stöndum nú saman og þraukum í gegn um þessa erfiðleika eins og fjölskylda, því við erum ein stór fjölskylda." Hann bætti við, eitthvað á þessa leið: "Nú er ekki tíminn til að finna sökudólga eða benda fingri, heldur til að standa saman og bíða eftir að þetta líði hjá." Með öðrum orðum, þá benti hann engum fingrum og minntist ekki á neina sökudólga. Bubbi hefur semsé greinilega ekki dregið lærdóm af dæmisögunni sinni um bleika fílinn. Það er nefnilega bleikur fíll í stofunni hjá okkur og sá fíll heitir AUÐVALD. Það er sökudólgurinn sem kom okkur í þetta klandur og þarf að benda á og gera upBubbiOgVodafone%2002p við í eitt skipti fyrir öll. Hann meinti kannski að þetta væri ein fjölskylda, hann og auðvaldið. Alla vega hefur eitthvað sljákkað í honum reiðin út í það í seinni tíð. Það er kannski eins og með fjölskyldur; þótt pabbi manns sé stundum leiðinlegur við mann þá er hann þó áfram pabbi manns?

Bubbi bað líka guð að blessa Ísland , nokkrum sinnum. Það hefði virst óviðeigandi, en í hópnum voru nokkrir með mótmælaskilti þar sem stóð "Guð blessi Ísland", svo kannski var það bara viðeigandi, þrátt fyrir allt.

Ég hef nú verið við ófá mótmælin um dagana, en af því fólki sem maður sér stundum þar, voru ekki ýkja margir á Austurvelli í dag. Bara löggurnar, rónarnir og svo ég og nokkur önnur. Þar á meðal var anti-bubba-herdeildin, sem hefur ekki áður komið fram opinberlega undir því nafni. Þau viðhöfðu viðbjóðslegan áróður gegn neyslumenningunni sem hefur gert okkur svo göfug og hamingjusöm. Siggi pönk var á svæðinu og seldi "Bankanum þínum er sama um þig"-boli. Hann er líklega einn af fáum Íslendingum geta geta séð fram á að efnast sæmilega á næstu vikum og mánuðum.

Þegar kristilegur rappari hafði lokið sér af og Bubbi var ennþá bíðandi baksviðs eftir að verða klappaður upp, sté maður dagsins á svið. Það var Sævar Cieselsky. Hann tók lagið, spann blús án nokkurs undirleiks eða tilgerðar og uppskar meira og einlægara lófatak en önnur númer. Ég mundi alveg mæta á tónleika með honum aftur. Bubbi kom svo aftur fram, bað guð að blessa lýðinn og minnti okkur á að við værum öll ein fjölskylda. Auðvaldið og við.

Enn af blessuðum efnahagsmálunum

Ætla ekki allir að mæta á Austurvöll klukkan 12 til að mótmæla með alþýðumanninum óbrotna, Bubba Morthens?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í Markaðnum í dag var haft eftir Robert Zoellick, forstöðumanni Alþjóðabankans, að hann óttaðist að heimskreppa gæti verið að skella á.


Sá er skarpur. Er ekki til einhver orða sem er hægt að sæma svona snillinga?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Lesið grein Jóns Karls Stefánssonar á Egginni: Gandreið nýfrjálshyggjunnar, 1. hluti
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Ef maður nennir ekki að lesa marga fjölmiðla á dag, eða hefur ekki tíma til þess, þá er til mjög fljótleg leið til að sjá aðalatriðin í hentingskasti. Það er nóg að tékka á kúrsinum á gulli, og þá veit maður hvernig er umhorfs í efnahagsmálum. Gullverð fyrir hagkerfið er eins og loftvog fyrir veðrið. Þegar verðið hækkar, þá eru markaðirnir óöruggir. Hér fyrir neðan sést þróun gullverðs undanfarna tvo mánuði:

...segir nokkurn veginn allt sem segja þarf, er það ekki?

~~~ ~~~ ~~~ ~~~

"Ekki lengur hætta á þjóðargjaldþroti" segir Geir. Já, hann segir það. Hann getur talað um traust. Geir ætti að skipta um vinnu, hann er svona álíka fyndinn og Spaugstofan.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég held ég verði gráhærður ef ég heyri fleiri klisjur úr sjómannamáli.

Tuesday, October 7, 2008

Kraftur og slen

Síðasta vika var mjög kraftmikil, en fór öll í garðvinnu á meðan veður leyfði, þ.e.a.s. þangað til snjór var kominn yfir allt. Ekki eltist ég jafnmikið við fréttir og umræðu alla dagana. Ég fór svo og sá Tý á laugardagskvöldið og einhvern veginn fór sunnudagurinn að miklu leyti í eitthvert slen. Ekki var það þó vegna þess að ég hefði tekið svona hraustlega á því kvöldið áður, meira vegna óreglulegs svefns, held ég.

Á gamals aldri er ég farinn að taka eftir þeirri ónáttúru hjá sjálfum mér, að verða syfjaður þegar fer að rökkva og vilja helst fara að sofa fyrir miðnætti, en vakna helst vel í tæka tíð fyrir morgunfréttir RÚV. Mjög hentugt fyrir næturvörð, hmm?

Ég lét loksins verða af því í vor, að ganga í Kvæðamannafélagið Iðunni. Hef nú farið á nokkra fundi, sett saman nokkrar vísur sem ég hef fleygt hér á blogginu, og legið yfir silfurplötunum líka. Þetta er hobbí sem ég kann að meta.

Örvæntingin, sem stór hluti þjóðarinnar var að sökkva í síðast þegar ég vissi, hefur farið nokkurn veginn fram hjá mér. Mikið er ég ánægður með reka hvorki bíl né skuldabagga.

Við hvað eru Ung vinstri-græn feimin?

Ef „Ung vinstri græn telja einsýnt að dagar þessa óhefta heimskapítalisma séu senn taldir“ og harma að „hrun hins óhefta og ómannúðlega heimskapítalisma skuli nú bitna á þeim sem síst skyldi“, hvað vilja þau þá að komi í staðinn? Í ályktun þeirra get ég ekki séð að þau stingi upp á nýju þjóðskipulagi í stað þess sem þau sjá að er að hrynja. Það er út af fyrir sig flest rétt sem kemur fram í þessari ályktun UVG, svo langt sem hún nær. En hvers vegna fara Vinstri-græn alltaf í kring um aðalatriðið eins og heitan graut?

Lausnin heitir sósíalismi. Hann hefur ekki verið á dagskrá Vinstri-grænna hingað til, og meira að segja verið bannorð þar á bæ. Hann er það greinilega ennþá. Djörfustu ályktanir ganga ekki svo langt að leggja til upptöku sósíalísks hagkerfis. Þarna sjáið þið ástæðuna fyrir því að ég er ekki félagi í VG. Þarna er ástæðan lifandi komin.

Sjá meira um málið:

* VG eru vinstrikratar

* Við þurfum öðruvísi flokk
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
"Smástirni á leið til jarðar" Það fyrsta sem mér datt í hug var að þetta smástirni væri íslenska hagkerfið.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Yrði það ekki kaldhæðnislegt ef Björgólfur Guðmundsson yrði höfuðpaurinn í nýju máli, þar sem Eimskip kæmu í stað Hafskips og Landsbankinn í stað Útvegsbankans?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Sá sem birti FL-Group myndböndin, með atbeina Jóns Geralds Sullenberger fyrir nokkrum vikum, hefur nú sett saman tvö afhjúpandi myndbönd til viðbótar, sem setja málefni líðandi stundar í samhengi: Glitnir 1 og Glitnir 2. Látið þetta ekki fram hjá ykkur fara. Í myndböndunum eru einfaldlega tekin saman atriði sem hafa komið fram í fréttum og túlkað og skýrt með trúverðugum og allsgáðum hætti hvernig óprúttnir fjármálamenn spiluðu með fólk og högnuðust sjálfir gríðarlega á því.