Wednesday, September 19, 2007

Nepal, Taser, Eggin

Í Nepal eru maóistar hættir þátttöku í bráðabirgðaríkisstjórninni. Hún var mynduð eftir að konungurinn lét undan margra daga óeirðum í Katmandú, og hlutverk hennar var að undirbúa nýtt stjórnlagaþing. Maóistar kröfðust þess að landið yrði gert að lýðveldi fyrst, auk þess sem hlutfallskosning yrði viðhöfð þegar fulltrúar yrðu valdir á stjórnlagaþingið. Þegar hinir flokkarnir neituðu að mæta þeim kröfum, sögðu maóistar sig úr stjórninni. Þetta var í gær. Baburam Bhattarai, næstráðandi flokksins, boðar friðsamleg mótmæli og segir að fyrst ríkisstjórnin neiti að lýsa yfir stofnun lýðveldis, þá muni maóistarnir gera það á götunni í staðinn, meðal fólksins sjálfs. Aðgerðirnar verða friðsamlegar, en maóistar áskilja sér rétt til að svara fyrir sig ef á þá verður ráðist.
Her maóistanna hefur meira og minna yfirgefið búðirnar þar sem hann er undir eftirliti SÞ, til að taka þátt í götumótmælum og kröfugöngum, en vopn þeirra liggja enn í geymslum undir vökulum augum friðargæsluliða SÞ.
Maóistar hafa þó ekki alveg lagt árar í bát með þingræðisleið til lýðveldis, en þeir eru líka að reyna að fá þingið kallað saman til aukafundar, þar sem þeir vilja leggja fram vantrauststillögu gegn forsætisráðherranum.
Álitsgjafar segja þetta vera sjónarspil sjá maóistunum, því þeir óttist að bíða afhroð í kosningunum. Ég hef ekki forsendur til að meta hvort það er rétt, en í öllu falli gæti þetta verið til marks um jákvæða breytingu í baráttutilhögun þeirra. Það kemur bara í ljós.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
John Kerry hélt fyrirlestur og í fyrirspurnatíma spurði ungur maður hvers vegna hann hefði gefið forsetakosningarnar hér um árið þótt brögð hefðu verið í tafli, og vitnaði í Armed Madhouse eftir Greg Palast. Spurningin var aðeins lengri en sú eina mínúta sem honum var gefin -- og hvað gerist? Jú, lögregluþumbar taka hann fastan og rota hann með Taser-stuðbyssum, af sömu gerð og lögreglan hérna er að íhuga að taka upp. Horfið á vídeóið. Samstúdentar hans hreyfa hvorki legg né lið, sumir brosa jafnvel. Ógeðslegt, hreint ógeð.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Jón Karl Stefánsson skrifar á Eggina: Hjálp, þjófar! og Halldór Carlsson skrifar Lesendabréf um fyrirhugað niðurrif Metelkova-hverfisins í Ljubljana.

Monday, September 17, 2007

Palestína, Írak, Íran...

Ég veit ekki hvað Mahmoud Abbas heldur að hann sé að gera; í mínum augum lítur þetta út eins og leikrit, að hann sé að reyna að gefa sig út fyrir að standa fastur á sínu gagnvart óvininum, til þess að styrkja stöðu sína heima fyrir. Ég gæti meira að segja trúað því að hugmyndin sé komin frá Ísraelum. Hvað ætti hann svosem að gera á einhverja "friðarráðstefnu"? Heldur hann að hann hafi einhverja samningsstöðu? Ísraelar með öll þau ráð hans í hendi sér sem þeim sýnist, og stendur auk þess á pólitískum brauðfótum heima fyrir. Þótt hann færi á einhverja ráðstefnu og skrifaði undir einhver plögg sem Bandaríkjastjórn mundi fagna sem "tímamótaárangri", þá væru slíkir samningar ómark. Nauðungareiða er ekki skylt að halda.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Alan Greenspan færir okkur aldeilis fréttirnar. Svo þetta snerist þá um olíu allan tímann? Hver hefði trúað því? Það getur verið skemmtilegt að heyra það sem pólitíkusar og embættismenn á eftirlaunum segja, sbr. Jón Baldvin Hannibalsson síðasta vetur. Þegar menn hafa lokið ævistarfi sínu fyrir Valdið, þá er eins og þeir séu lausir úr fjötrum ábyrgðarinnar og getur jafnvel ratast satt orð á munn. Ef þið vissuð það ekki.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þórarinn Hjartarson skrifar á Eggina: Heimsvaldasinnaður femínismi? -- og Eyja Margrét Brynjarsdóttir mótmælir "með-eða-á-móti"-hugsun gagnvart heimsvaldastefnu og pólitískum íslamisma á bloggi sínu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég trúi því ekki að árásir á Íran séu yfirvofandi. Ég held hreinlega að Bandaríkjastjórn hafi ekki bolmagn í þær. Eða, réttara sagt, þá er ég alveg handviss um það. Ahmadinejad veit það vel, og ráðgjafar Bush vita það líka vel. Þeir láta eins og tveir bavíanar sem öskra og gretta sig og fetta og bretta, í trausti þess að hvorugur muni bíta hinn. Þetta er skúespil, ætlað til þess að hvor um sig geti gert sig breiðan, "staðið uppi í hárinu á andstæðingnum", verið "fastur fyrir" og ég veit ekki hvað, hvor um sig rúnkar sínu pólitíska baklandi og hræðir heimsbyggðina, en í rauninni er engin hætta á ferðum.

FINNTROLL

Djöfull var ógeðslega gaman á Finntroll!
Ég hef séð þá tvisvar á Wacken og nú bæði á Grand rokk og Gauknum. Ég held að mér sé óhætt að segja að þeir séu uppáhalds hljómsveitin mín, eða, í það minnsta ein af örfáum sem deila fyrsta sætinu. Á Grand rokk í fyrradag fór ég í moshpyttinn og sleppti gersamlega fram af mér beislinu. Ég geri það ekki svo oft í seinni tíð, en var í pyttinum nánast óslitið frá upphafi til enda í fyrradag. Á Gauknum var ég temmilegri, bæði vegna þess að ég var að fara á næturvakt og bragðaði því ekki deigan dropa af áfengi, en líka vegna þess að ég er með alvarlegar harðsperrur í hálsinum og öxlunum. En sjitturinn, hvað það var þess virði.
Hið íslenska tröllavinafélag tók fullan þátt í þessu. Bæði með aðstoð við eitt og annað, en líka með nærveru sinni. Ég hengdi gunnfánann góða upp á Grand rokk, og hékk hann þar alla tónleikana og undurfögur ásjóna Járngríms jötuns vakti yfir herlegheitunum með velþóknun. Mæting tröllavina var góð, bæði á Jötunmóð (upphitun) fyrir tónleikana og á tónleikana sjálfa. Ég dreifði tugum eintaka af Tröllafréttum á báðum tónleikunum.
Á Gauknum vannst einn stórsigur. Fjórum sinnum hafa tröllavinir fjölmennt á Finntroll-tónleika -- þ.e.a.s. í þessi fjögur skipti sem ég hef séð þá -- og í öll skiptin hefur verið reynt að fá þá til að gefa okkur eiginhandaráritun á gunnfánann. Í þetta skipti, #4, heppnaðist það. Ég komst baksviðs og fékk eiginhandaráritanir þeirra allra á fánann. Ég kiknaði í hnjáliðunum á meðan; sigurinn var sætur.
Þorsteinn Kolbeinsson er maður mánaðarins, fyrir að hafa fært okkur Finntroll.

Friday, September 14, 2007

Í gærmorgun þegar ég kom heim af vaktinni, drap ég sjö geitunga. Bessi, frændi minn og meðleigjandi, hafði drepið eina fimm. Það gerir tólf stykki sama morguninn. Það sér ekki fyrir endann á þessari andskotans óværu ennþá, en við hvikum hvergi!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í morgun tók ég mig loksins til og hófst handa við að sortera umfangsmikið geisladiskasafn mitt. Fyrsta skref var að skipta þeim í tvo afarstóra stafla, annan með diskum sem ég er ákveðinn í að eiga áfram, og hinn með diskum sem ég þarf að gera upp við mig hvort ég ætla að halda eða losa mig við. Sú flokkun verður óhjákvæmilega nokkuð tímafrek, en á endanum ætti ég að geta glaðst yfir því að verða 100-200 diskum fátækari.
Mér fannst fyndið að í Mogganum í gærmorgun (fimmtudag 13. sept) var grein um að Össur Skarphéðinsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir væru með plön á prjónunum um allsherjar náttúruverndar/nýtingaráætlun, dálítið í ætt við skrif mín frá því á mánudaginn (Hvað viljum við vernda?), þótt þau reki sína áætlun einhver ár aftur í tímann.
Mér fannst samt neyðarlegt þegar Össur talaði um að þetta væri til marks um einhverja sátt í nýtingar/verndarmálum, þar sem nú sætu umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra hlið við hlið og stæðu saman að þessu. Eins og Siv Friðleifsdóttir hafi andæft Valgerði frænku eitthvað þegar sú síðarnefnda hélt um stjórnvölinn?!? Siv tók við ráðherrastól og afsalaði sér um leið fyrri skoðunum sínum á umhverfismálum. Hvað er slíkt atferli aftur kallað?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Fyndið að fagna lokum hvalveiða á Íslandi með því að sökkva norskum hvalabát.

Wednesday, September 12, 2007

12. september

Ég hvet fólk til að mæta við Stjórnarráðið klukkan 12 á hádegi og taka þátt í mótmælum Saving Iceland gegn stóriðjustefnu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Dan Shapley skrifar um hugleiðingar þess efnis, að á OPEC-fundi sem var settur í gær, muni Saúdi-Arabía sýna spilin sín og viðurkenna að þeir, og þar með heimsbyggðin öll, séu komnir á hátind olíuframleiðslu sinnar. Það er frétt sem við munum heyra, ef ekki á næstu dögum, þá á næstu misserum. Það gæti hæglega orðið versta frétt mannkynssögunnar, svo ég taki ekki dýpra í árinni.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Jón Karl átti grein á Egginni í gær: Það á að rífa Metelkova.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í tilefni af því að ellefti september er nýafstaðinn, þá vil ég taka fram að ég skil ekki þá áráttu margra, þegar heimsvaldastefna er gagnrýnd, að þurfa í sífellu að afsaka sig með því að segjast ekki styðja hryðjuverk eða fjöldamorð. Er eðlilegt að reikna með því að sá sem gagnrýnir Ísraelsríki sé gyðingahatari? Eða að sá sem gagnrýnir Bandaríkjastjórn hafi eitthvað á móti Bandaríkjamönnum sem slíkum? Eða að sá sem er á móti morðum sé líka hlynntur þeim?
Ég þoli heldur ekki tal um "illsku" hinna og þessara. Ég trúi ekki á "vont fólk", bara á orsakir og afleiðingar.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
"Vinnuhópur" Olmerts og Abbasar um stofnun "Palestínuríkis" hljómar í mínum eyrum eins og kattarþvottur. Hvað haldið þið að Ehud Olmert kæri sig um Palestínuríki sem stendur undir nafni? Abbas hefur sýnt sitt rétta andlit með samstarfi við óvinina um að bola lýðræðislega kjörinni heimastjórn frá völdum. Hvað haldið þið að hinn almenni borgari í Palestínu trúi heitt á það "lýðræði" sem borgarastéttin þar talar um? Ef ég þekki Ísraela og leppa þeirra rétt mun þessi vinnuhópur leggja drög að nokkrum dvergvöxnum bantústönum, gettóum fyrir Palestínumenn, og jafnvel þau verða ekki að veruleika vegna þess að harðlínuöfl Ísraels munu róa öllum árum gegn stofnun þeirra. Ég get ekki gert upp við mig hvort einsríkis- eða tveggjaríkjalausn er hið rétta í stöðunni, en hitt veit ég að málamyndalausnir þjóna harla litlum tilgangi fyrir Palestínumenn.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Skæruliðar láta til skarar skríða í Mexíkó. Það er grein á Wikipediu um þessa hreyfingu (kemur á óvart). Ég veit nú ekkert annað um hana; kannski að hún sé ekki svo galin.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í Nepal hótar Prachanda því að ekkert verði af fyrirhuguðum kosningum í nóvember, nema landið verði gert að lýðveldi fyrst, og fer um landið og skorar á flokksmenn sína að vera tilbúnir fyrir nýja uppreisn. Andstæðingar hans segja að hann óttist bara að fá slæma útreið í kosningunum. Það getur verið. Eftir að maóistaflokkurinn yfirgaf próletarískar rætur sínar er ekki eins greinilegur munur á þeim og öllum þeim aragrúa flokka, sem kenna sig við kommúnisma í þessum heimshluta, eins og áður var. Maóistar gætu tekið upp vopn að nýju, en ég sé ekki hvaða gagn það ætti að gera málstað byltingarinnar nema þeir nái fyrst hugmyndafræðilegum vopnum sínum, og vinni hina stritandi alþýðu landsins á sitt band.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég er á næturvöktum þessa dagana, en í gær þurfti ég að skreppa á fund í BSRB-húsinu. Fyrst ég var á fótum á annað borð leit ég fyrst að fyrirlestur Eiríks Bergmann Einarssonar, "Er Ísland í Evrópu?" í Þjóðminjasafninu. Það sem hann sagði þar var nú nokkurn veginn í takt við nýja bók hana, "Opið land", og þar sem ég er nýbúinn að lesa hana, þá hefði ég kannski getað sparað mér fyrirlesturinn og sofið klukkustund lengur um morguninn. Um kvöldið var "Sköllfest", þar sem Kommadistró Íslands hefði eiginlega átt að vera, og síðar um kvöldið var Hitt hjá Femínistafélaginu, sem ég sleppti líka vegna svefnþarfar. Það er að segja, ef einhver saknaði mín á þessu tvennu síðastnefnda.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Talandi um Kommadistró Íslands, þá er dálítið nýtt á leiðinni, sem ég hlakka ósegjanlega til að geta boðið upp á næst þegar distróið fer á vettvang, sem verður vonandi fljótlega. Það kemur bara í ljós hvað það er.

Monday, September 10, 2007

Geitungar á klósettinu og lóur úti á túni

Um daginn, þegar ég kom heim frá Evrópu, varð mér aldeilis bylt við. Ég fór í sakleysi mínu á klósettið, og glugginn var allur morandi í geitungum. Ég stökk til, greip kröftugt flugnaeitur, og drap hvern einasta sem ég fann -- það voru 13 stykki þann daginn. Síðan sprautaði ég eitri inn í rifurnar á veggnum og þykist vita að allmargir til viðbótar hafi drepist við það. Síðan þá, þ.e.a.s. undanfarnar tvær vikur, hef ég verið að drepa þetta 2-4 geitunga á dag, vanalega á klósettinu en líka einn og einn annars staðar í íbúðinni. Jibbí!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Um daginn steig ég út á hlað á Kleppi, og sá stóreflis hóp af lóum á túninu fyrir norðan húsið. Ég taldi 72 stykki. Það eru ólíkt viðkunnalegri skepnur heldur en geitungarnir.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í gær fór ég upp í Esju og Hvalfjörð og tíndi krækiber. Mér tókst að öngla saman einu og hálfu kílói, en ekki get ég sagt að sprettan hafi verið mikil.
Berjasprettan í garðinum hjá mér er talsvert meiri. Á laugardaginn fyrir viku kom ég heim af næturvakt, fór út í garð og tíndi 11 kíló af rifsberjum. Þau, ásamt 3 sem ég hafði áður tínt, sultaði ég síðan og saftaði næstu tvær nætur, og sit nú á fullum kjallara af rifsberjaafurðum.

hóst

Það er grein eftir mig á Egginni í dag: Hvað viljum við vernda?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Kemur það ekki úr hörðustu átt þegar ungir Framsóknarmenn saka ríkisstjórnina um stefnuleysi? Getur verið að Samfylkingin sé í sterkari samningsstöðu gagnvart Sjálfstæðisflokknum heldur en Framsóknarflokkurinn var, og þess vegna gangi ákvarðanatakan eða stefnumótunin ekki eins hratt fyrir sig?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Meirihluti Íraka telur að Bandaríkjamönnum hafi mistekist að koma á röð og reglu í Írak. Það er aldeilis stórfréttin!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Um daginn var ég spurður hvers vegna Írakar væru eiginlega að streitast gegn hernáminu. Hvers vegna menn slökuðu ekki bara á, kæmu sér saman um frið og uppbyggingu og ynnu bara saman að uppbyggingu Íraks. Það var og. Hvers vegna komu menn sér ekki saman um frið um Saddam Hussein, og uppbygigngu Íraks undir hans forystu?

Friday, September 7, 2007

Þung spor, en tímabær

Í morgun ókum við þrjú, ég, móðir mín og okkar elskaði köttur Pamína, upp í Víðidal á dýraspítalann þar. Við móðir mín ókum bara tvö til baka og var þungt í skapi.
Pamína var orðin sautján ára. Hún var alla tíð hraust -- og vissi vel af því. Hún bar sig alla tíð sem sá sanni töffari sem hún var. Auk þess var hún sá greindasti köttur sem ég hef kynnst. Hverjum þykir sinn fugl fagur og allt það, en þetta eru engar ýkjur. Framan af var hún frekar hörð í skapi, en varð ástleitin á miðjum aldri. Síðasta vetur var ég eitt sinn að strjúka henni, og var þá var við æxli á rófunni. Það fór stækkandi, og nú í vikunni var svo komið að það var ekki annað hægt en að binda endi á þetta. Það var erfitt að kveðja fjölskyldumeðlim.
Ég gæti haft mörg orð um Pamínu, en læt þetta nægja.

Bróðir minn minnist hennar líka í nokkrum orðum.
Ýmis orð get ég valið ríkisstjórninni, og er skemmst frá því að segja að ég er ekki einn af þessum 80% sem styðja hana víst. Mér finnst það samt skrítið; flokkarnir sem standa að henni hafa samanlagt 72% stuðning ef ég legg rétt saman. En Jóhanna Sigurðardóttir fær prik; í kladdann hjá mér.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Niðurstöður hugmyndasamkeppninnar um Lækjargötu/Austurstræti er að finna hér (pdf skjal). Þessi hugmynd sýnist mér bara ekki vea svo galin. ég sé eftir að hafa ekki sent inn hugmynd. Hvernig hefði verið að byggja hornið í vinkil sem sneri inn en ekki út, þannig að torgið stækkaði? Ég er reyndar líka efins um há hús sem mér sýnist vera gert ráð fyrir í Hafnarstræti, þar sem nú eru gömul, frekar lág hús. En ef lækurinn verður opnaður, þá kætist ég!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ríkislögreglustjóri ætlar að láta "kanna ástæður þess að lögreglumenn hafa sagt upp störfum". Ég skil þetta ekki, veit hann ekki að laun þeirra hafa dregist langt aftur úr launum samanburðarstéttanna, fangavarða og tollvarða? Veit hann ekki að það ríkir megn óánægja meðal lögreglunnar vegna bágra launakjara? Veit hann ekki að Lögregluskólinn hefur þurft að lækka standardinn hjá sér til að geta mannað bekkina nokkurn veginn? Ef löggan vill hafa nægan mannskap þarf hún að borga nógu há laun. Maður hefði haldið að það lægi í augum uppi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það væri brýnna að byggja stríðsglæpadómstól fyrir aðra Guantanamo-menn heldur en fangana, er ég hræddur um.

Wednesday, September 5, 2007

Fínt að íslenskir námsmenn fái aðgang að skólabókum á netinu -- en hvers vegna skrifar Edda undir samning við Kaupþing? Er það Kaupþing sem er svona gjafmilt? Var það ekki Samfylkingin sem lofaði þessu? Hvað eru þessar fjármálastofnanir að pósa sem góðarðasamtök?

Tuesday, September 4, 2007

DPRK og hryðjuverk

Getur einhver frætt mig um það, hvers vegna Norður-Kórea var sett á lista yfir ríki sem styðja hryðjuverkastarfsemi til að byrja með? Núna er verið að taka hana af honum, en hvernig komst hún á hann? Veit einhver til þess að Norður-Kóreustjórn hafi stutt hryðjuverk? Mér er að minnsta kosti ekki kunnugt um það. Hugur sem væri innstilltur á brjálæðislegar samsæriskenningar mundi kannski hugsa sem svo, að þessi listi væri fyrst og fremst pólitísks eðlis. Ætli Bandaríkjastjórn sé annars sjálf á honum?