Tuesday, July 27, 2021

Taktísk afglöp

Allt þetta fólk sem hélt að það hljómaði svo gáfað þegar það sagðist að vísu styðja stefnu Alþýðufylkingarinnar, en ætla "að kjósa taktískt í þetta skipti" og kaus svo VG (eða Pírata) ... það hljómaði ekkert gáfað. Það lét bara lokka sig til að gefa tækifærisstefnunni brautargengi einu sinni enn. Verði ykkur að góðu.
Best var auðvitað fólkið sem viðurkenndi að VG væri að vísu tækifærissinnaður flokkur, en að það yrði bara að hafa það að kjósa þau, í því skyni að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum. Það trompaði allt. Verði ykkur að góðu. 

Tuesday, July 20, 2021

Aldur og kyn í pólitík

Tilraun Miðflokksins til að breyta ásýnd sinni er óvenju skýrt dæmi um staðreynd sem mörgum yfirsést:

Pólitíkin skiptir meira máli en aldur og typpafjöldi.

Furðulegt hvað margir skilja ekki þetta einfalda aðalatriði. Vond pólitík batnar ekki við það að ung kona tali fyrir henni og það eru ekki rök gegn góðri pólitík (og með vondri), að miðaldra karl sé talsmaður. Það missir einfaldlega marks. Og gagnrýni á þessu plani missir almennt marks.

Áður en fólk á þessu plani  fer að misskilja mig viljandi vil ég taka fram að auðvitað eiga fleiri erindi í pólitík en miðaldra karlar, og aldur og kyn (og fleira) skipta auðvitað máli, en þegar þau ryðja öllu öðru frá sér er fókusinn farinn af því sem skiptir máli. Kannski er það stundum tilgangurinn, hvað veit ég?

Tuesday, July 13, 2021

Geðheilsuvandamálið sem einnig er byggðastefna

Ég hef oft sagt að húsnæðismálin á höfuðborgarsvæðinu séu stærsta geðheilsuvandamál þjóðarinnar. Pólitískt ákveðinn lóðaskortur gerir skort á íbúðarhúsnæði, sem spennir verðið upp eins og hægt er. Skuggalegur fjöldi heimilislausra segir ekki nema hluta af sögunni; miklu fleiri eru á hrakhólum og ná rétt svo að halda þaki yfir höfuðið. Og enn fleiri eru með stöðugar áhyggjur og kvíða -- raunhæfan kvíða -- vegna húsnæðiskostnaðar. Þurfa um leið að vinna meira en þeir ella þyrftu. Haldið þið að börnin fari varhluta af þessu? Þau gera það ekki. Þau taka þetta allt inn á sig, stressið, kvíðann, skortinn, og þau munu taka það með sér inn í fullorðinsárin í formi vandamála. Þess vegna er húsnæðisstefnan, sem hefur verið undanfarin 23 ár eða svo, vaxandi vandamál en fyrir löngu stærsti geðheilbrigðisvandi þjóðarinnar, og á eftir að halda áfram að skapa vanda næstu 75+ árin, sama þótt hann yrði leystur í dag.

Einu sinni var ekki kjallari svo saggafullur eða dimmur, að ekki mætti troða þangað barnafjölskyldu. Svo losnuðu braggarnir og kjallararnir tæmdust. Braggarnir urðu lélegir með tímanum og á endanum var byggt Breiðholt og braggarnir hurfu. Núna er löngu komið að því að byggja nýtt Breiðholt og útrýma ósamþykktu bælunum í iðnaðarhúsunum, og skúrunum í bakgörðunum.

En svo er hin hliðin. Þegar húsnæðisverð er orðið of íþyngjandi á höfuðborgarsvæðinu, þá er auðvitað ein lausn að flytja bara burt. Strax og maður er kominn norður fyrir Hvalfjörð eða austur fyrir Hellisheiði er verðið mun lægra. Að ég nú ekki tali um þegar lengra dregur.

Það væri hreint ekkert skrítið ef fólk gæfist bara upp á borginni og flytti jafnvel lengra burt. Og ég þekki reyndar allnokkra sem hafa gert það eða ætla að gera það. Ef það er byggðastefna, að halda landinu öllu í byggð, þá gæti húsnæðisstefna Reykjavíkur kannski flokkast sem eins konar byggðastefna. Hún hefur þessi óbeinu áhrif, þótt ekki komi til af góðu. Og auðvitað setur hún því um leið skorður, að fólk flytji til höfuiðborgarsvæðisins.

Tuesday, July 6, 2021

Þegar ég gleymdi hvernig ég hjóla

Þegar ég var lítill og var að læra að hjóla, var sagt við mig, eins og alla, að þegar maður læri einu sinni að hjóla, þá gleymi maður því aldrei. Það er kjaftæði.

Ég fór allra minna ferða hjólandi, meira og minna, frá því ég lærði að hjóla og þangað til ég var fjórtán ára, fór til giktarlæknis vegna verkja og stirðleika í hnjám, og hann sagði mér að taka pásu frá því að hjóla í svona ár eða svo. Og frí úr leikfimi, allan tíunda bekk.

Ég hef ekki hjólað síðan, og er fertugur ... það gerir um það bil 26 ára pásu frá hjólinu.

"Ekki síðan" er reyndar ekki alveg nákvæmt, því ég hef reyndar sest á hjól síðan, í tvö eða þrjú skipti, eða á svona tíu ára fresti, og komist að því að ég held ekki lengur jafnvægi þegar ég hjóla og er þ.a.l. ekki öryggur á stýrinu, og reyndar ekki á pedölunum heldur. Og einu sinni ætlaði ég að bremsa, fattaði ekki að það væru handbremsur, reyndi að bremsa með fótbremsu sem engin var og var næstum lentur í slysi.

Þannig að það er bull að maður gleymi því aldrei, hvernig maður hjólar. Ég segi ekki að ég gæti ekki rifjað það upp frekar auðveldlega, en hef engu að síður gleymt því.

Hins vegar fór ég einu sinni ekki í sund í 20 ár, eða frá því ég var fjórtán þangað til ég var þrjátíuogfjögurra. Og eftir tuttugu ára pásu var ég ennþá alveg jafn vel syndur og ég var 1994. Í því hafði ég engu gleymt.

Við gleymum hjóli, en við gleymum ekki sundi.

Merkilegt.