Hvernig étur maður fíl? Einn bita í einu.
Hvernig kemur maður á frekari markaðsvæðingu á Íslandi? Eitt skref í einu.
Áætlunin um að lífeyrissjóðirnir fjármagni nýjan Landspítala er hættulegt skref í átt til frekari einkavæðingar í heilbrigðiskerfinu. Við skulum átta okkur á því að lífeyrissjóðirnir eru hluti af auðvaldinu. (Reyndar skrítið að það hafi ekki verið stungið upp á því ennþá, að hlutafélagavæða þá, en það er líklega bara tímaspursmál.) Ef rekstrarforminu er breytt, þá er sjálfri nálguninni breytt, sjálfri hugmyndafræðilegu undirstöðunni. Það, að ríkið leigi húsin af lífeyrissjóðunum, er af sama tagi og að það leigi þau af hverju öðru eignarhaldsfélagi. Eða að það kaupi einhverja aðra þjónustu af prívatauðvaldi, t.d. rekstur á skurðstofu eða nýrnadeild -- nú, eða ræstingar eða mötuneyti.
Þessi áætlun er í fullkominni harmóníu við díabólísk áform Alþjóðagjaldþrotasjóðsins fyrir Ísland. Það á að ryðja brautina fyrir því að aðrir aðiljar en ríkið annist heilsuvernd. Með öðrum orðum, að einkaaðilar veiti hæstbjóðendum fyrsta flokks þjónustu, en aðrir fái annars flokks þjónustu. Annars flokks þjónustu fyrir annars flokks fólk. Hver er yfirlýstur tilgangur þess að láta lífeyrissjóðina gera þetta? Jú, að ríkið safni ekki frekari skuldum. En sú della. Í fyrsta lagi: Ef ríkið skuldbindur sig til að leigja húsin til framtíðar, þannig að þau borgi sig upp á einhverjum áratugum og sjóðirnir eigi þau þá á endanum skuldlaus, þá er snyrtilegra að kötta burtu milliliðinn, láta ríkissjóð borga sömu upphæð á sama árabili, og ríkið eigi húsin þá sjálft á endanum og þurfi ekki að borga leigu. Munurinn er á skuldastöðu ríkissjóðs. Útgjöldin eru þau sömu. Með öðrum orðum er þetta bókhaldstrix, sem mjakar okkur nær einkavæðingu og fjær samneyslu. Vont plan.
Það er í sjálfu sér besta mál að nota lífeyrissjóðina í félagslega uppbyggilegar fjárfestingar, en þetta er hins vegar röng aðferð til þess. Rétta aðferðin er að setja lög sem skylda þá til að kaupa meira af ríkisskuldabréfum. Þannig kemst ríkissjóður í peningana sem geta annars vegar byggt húsin og hinsvegar tryggt áframhaldandi rekstur alls heilbrigðiskerfisins, þess vegna í gegn um alla kreppuna.
Monday, November 16, 2009
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment