Tuesday, May 31, 2005

Eimskip, Írak, Galloway, verðhjöðnun


Úff, það er ekki á hverjum degi sem Eimskip skipta um eigendur. Eitt þætti mér áhugavert að sjá: Uppdrátt af íslensku atvinnulífi, þar sem eignatengsl koma fram og hægt væri að rekja eignir fyrirtækja, einstaklinga og hópa. Mér finnst satt að segja að viðskiptaráðuneytið ætti að halda slíka skrá og hafa öllum aðgengilega á heimasíðu sinni.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Scott Ritter skrifar beinskeytta grein um það, hvers vegna þessi lélega eftirlíking af kosningum sem fór fram í Írak í janúar var ekkert annað en skrum:
Any informed observer of Iraq could have predicted the failure of the elections to produce any viable result; Iraq as a nation state was simply too deeply fractured for a process sponsored by an illegitimate military occupier to succeed.
Ritter er hægrisinnaður og íhaldssamur, en góður penni og beittur gagnrýnandi mafíunnar í Hvíta húsinu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Maria Tomchick skrifar um meistara Galloway á CounterPunch
Cowardice is the only way to describe the recent coverage of George Galloway's hearing before the Senate Permanent Subcommittee on Investigations. Not only did the nation's two major dailies get many of the facts wrong, they went out of their way to paint Galloway as guilty.
Við hverju hefði verið hægt að búast, að harsoðinn sósíalisti fengi eitthvað í líkingu við sanngjarna meðhöndlun í málgagni bandaríska auðvaldsins? Líklegt eða þannig.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Robert Prechter varar við alvarlegri verðhjöðnun í bandaríska hagkerfinu.

Monday, May 30, 2005

Það er eitt sem ég á bágt með að skilja, og það er að til sé ungt fólk sem styður Framsóknarflokkinn. Eina ástæðan sem mér dettur í hug er að flokkurinn sé svona örugg leið til skjóts frama.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Um helgina sagði ég ónefndum félögum (taki þeir til sín sem eiga) frá grein einni, sem mér fannst svo dæmalaust góð, en mundi ekki nema hrafl úr henni. En hér með linka ég á hana, Marijuana, Gateways and Circuses heitir hún, eftir Mitch Earleywine. Ansi hreint góð grein.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Dauðadómar hafa verið teknir upp aftur í Írak. Lifi lýðræðið.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þriðjudaginn 31.maí kl. 18:30 er fundur um vatn í nýrri Snarrót, Laugavegi 21, í kjallara Kaffi Hljómalindar, á horni Klapparstígs og Laugavegar. Fyrir honum stendur MFÍK - sjá nánar á heimasíðu þeirra. Ég efast um að ég komist, því miður.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Frakkar hafna stjórnarskrá ESB -- gott hjá þeim!

Friday, May 27, 2005

Skemmtilegur verklegur brandari


Farðu á pöbb og finndu stærsta ruminn á svæðinu. Segðu honum að þú kunnir skemmtilegt töfrabragð og bjóðstu til að sýna honum það. Þegar hann tekur því vel, spurðu þá hvort hann reyki. Já, segir hann. Taktu sígarettupakkann hans og segðu honum að rétta út fingurna. Taktu sígaretturnar úr pakkanum, hverja á fætur annarri, og skorðaðu á milli fingra hana svo þær tolli. Þegar pakkinn er tómur og greiparnar á honum fullar, þá krumparðu pakkann hlæjandi saman, hendur út í horn, og segir ruminum að hann sé fífl.
Góða skemmtun.

Thursday, May 26, 2005

Tungunnar bröttu fjöll


Ég er ennþá að hugsa um grein Njarðar P. Njarðvík um íslenskt mál í Lesbók Morgunblaðsins á laugardaginn var. Hún var gagnmerk og tímabær. Boðskapurinn var í stuttu máli þessi: „Við löbbum ekki um tungunnar bröttu fjöll.“ Er fátæklegur orðaforði ekki líklegur til að geta af sér fátæklega hugsun? Hvernig getur maður meint það sem maður segir, ef manni eru ekki töm orðin til að segja það sem maður meinar? Er það snobb eða hégómi að leggja rækt við eigið málfar, að hafa eigið móðurmál í heiðri? Ég hafna því algjörlega. Algjörlega.
Að mínum dómi er íslenskt mál einhver dýrmætasti gimsteinn sem okkar molbúaþjóð hefur áskotnast. Hvaða réttlætingu hefðum við fyrir tilvist okkar sem sérstaks menningarsamfélags, sérstakrar þjóðar, ef ekki væri fyrir málið? Er okkur í alvörunni ekki sárt um að horfa upp á útlenskuslettur og letilegan orðaforða þynna út tjáningarmátann okkar?
Mál þarf að vera lifandi til að það geti spriklað á tungu manns. Eins virðingarvert og það annars er, að fólk sé duglegt að búa til nýyrði, þá þvælir það og steinrennir málið ef þau eru þunglamaleg. Stofnanamál er andleg torfgröf. Fréttir eru fluttar með tilgerðarlega mörgum nafnorðum. Blaðamenn og ráðherrar gera sig þráfaldlega seka um aulalegt málfar. Hér þarf að reiða til höggs hundapísk málverndarinnar. Aðallega á okkar eigin lend.
Ég vildi að fleiri legðu sig fram um að vanda til málfars síns. Að lesa illa skrifaðan texta er eins og að aka holóttan veg. Texti sem er vel skrifaður er hressandi og nærandi fyrir andlegt atgervi manns. Ég held í alvörunni að það sé mannbætandi að lesa virkilega vel skrifaðan texta – og þá er ég að tala um málfarið; innihaldið er kafli út af fyrir sig.
Hér er nýjasta viðleitni mín til að færa sjálfan mig hænufeti fjær vondu máli og nær góðu máli: Ég er hér með hættur að nota orðið „labba“ – hér eftir mun ég nota betri orð til að lýsa þeirri athöfn. Dæmi: Í gærkvöldi lötraði ég upp á Bragagötu. Eftir það stikaði ég svo heim til mín.
Já, við löbbum nefnilega ekki á tungunnar bröttu fjöll.

Monday, May 23, 2005

Nú er hún gamla Grýla dauð...


...eða það skyldi maður ætla. Andi hennar svífur samt ennþá yfir vötnum í nútímanum og virðist hafa tilhneigingu til að líkamnast í körlum með yfirvararskegg. Afsakið, í ófreskjum með yfirvararskegg.
Ég trúi ekki á ófreskjur og á „illmenni“ trúi ég ekki heldur. Tilhneiging okkar til að mála skratta á veggi, þar sem í rauninni er fólk af holdi og blóði, er ekki bara arfavitlaus og einfeldningsleg: Hún er hættuleg. Ef við álítum harðstjóra vera einhvers konar ófreskjur eða ómenni, þá getum við ekki annað en misskilið þá og misskilið hvernig þeir virka: Hvernig þeir komast til valda, hverjir styðja þá, hvað það er sem fer úrskeiðis.
Ef við styðjumst við aulaskýringar um að „Stalín hafi verið svo vondur“ eða að „Hitler hafi nú bara verið brjálæðingur“ -- þá tökum við ekki alvarlega ógnina sem stafar af einræði og gerræði. Ef við eignum veikum einstaklingum ábyrgðina á því að heilt þjóðfélag fari til fjandans -- þá erum við á hálli braut. Alla vega ætti það að vera okkur áminnung um að taka til hendinni í geðheilbrigðismálum!
Sú frumspekilega hughyggja sem stýrir þankagangi þess sem sér Hitler, Stalín og slíka kóna sem brjálæðinga sem eigi sér ekki líka í sögunni, er feigðarflan. Skrípamynd af raunveruleikanum skilar okkur ekki öðru en skrípaskilningi á honum og kemur þannig í veg fyrir að við myndum okkur raunsæja og allsgáða afstöðu.
Skilningsleysi á atburðum fortíðarinnar er því sem næst uppskriftin að því að þeir endurtaki sig.
Heimsstyrjöldin síðari var ekki heilaspuni geðsjúklings. Hún var það sem hlaut að gerast þegar hið nýja, iðnvædda stórveldi Þýskaland krafðist síns hlutar af kökunni. Ógnarstjórnin var það sem hlaut að leiða af ógnarlegri stéttaspennu kreppunnar. Helförin var afleiðing þess að valdastéttina vantaði blóraböggla til að kenna um ófarir landsins og hristi upp þjóðrembingslega ofbeldishreyfingu.
Sá sem er nægilega glöggur til að bera kennsl á fyrirboðana á millistríðsárunum ætti að vera nógu glöggur til að sjá svipaða fyrirboða í dag: Hið iðnvædda stórveldi Bandaríkin rambar á barmi efnahagslegs hruns, grátt fyrir járnum. Með á báti eru bandalagsríki þeirra (þar á meðal nýlendan Ísland). Kreppa stendur fyrir dyrum; atvinnuleysi er þegar orðið grafalvarlega mikið í mörgum Vesturlanda: Vestræna valdastéttin gerir kröfu um að fá stærri hluta af kökunni til að geta haldið áfram að þrútna út. Spenna milli stétta fer vaxandi, sem sést best á því hvernig ríkisstjórnin herða tökin og eftirlitið með almenningi til að geta haft hemil á honum ef í harðbakka slær. Afturhaldssöm og herská hugmyndafræði nýkóna og bókstafstrúarmanna heldur stjórnkerfi Bandaríkjanna í heljargreipum. Blórabögglana þekkjum við, þeir eru kallaðir „hryðjuverkamenn“ og munu vera í flestum skúmaskotum ef vel er að gáð.
Teiknin eru á lofti: Ef við þykjumst vera fær um að draga lærdóma af sögunni, þá spyr ég: Hvenær var betra tækifæri en núna? Um leið og við minnumst loka síðari heimsstyrjaldarinnar, þá fljótum við sofandi að feigðarósi hinnar þriðju, sem háð verður um síðustu dreggjar ódýrrar olíu. Ég efa að hún verði ódýrari, í mannslífum talið, en þær tvær fyrri. Fylkingarnar eru þegar farnar að myndast en eina fylkingu vantar ennþá: Það er hin skipulega fylking vinnandi fólks sem lætur ekki bjóða sér þetta lengur og tekur örlög sín í eigin hendur í stað þess að vera att fram á blóðvöll sem fallbyssufóðri. Sú hreyfing er ekki til í dag og þeir sem segja það sem hún mundi segja eru settir á jaðar stjórnmálanna eins og gólandi vitleysingar.
Það þarf að snúa þessu dæmi við. Það þarf að fylkja alþjóðlegri sveit vinnandi fólks í sókn. Hver gerir það? Það sjálft, enginn annar. Ég er svartsýnn á að ofbeldi skili miklu. Andspyrna gegn ofbeldi hefur sitt að segja, svo og þrýstingur heima fyrir á ríkisstjórnir til að þær slíðri sverðin ... en þegar öllu er á botninn hvolft verða styrjaldir ekki umflúnar meðan þrælvopnaðar elítur bítast um takmarkaðar auðlindir.

Sunday, May 22, 2005

Nepalski herinn hefur undir höndum upptöku á bandi, þar sem því er haldið fram að indverska ríkisstjórnin hafi tengsl við maóistana. Á bandinu segir sá sem gæti verið Prachanda formaður að indverska ríkisstjórnin hafi boðið maóistum að senda sendinefnd til Indlands, m.a. að Prachanda kæmi sjálfur, en hann segir að maóistar hafi komið með gagntilboð, sem væri að indverska stjórnin sendi fulltrúa í búðir þeirra og gætu þá hitt Prachanda, Bhattarai og Mahara og fleiri málsmetandi maóista.
Ég veit ekki hverju maður á að trúa. Indverjar hafa nokkra leiðtoga maóista í haldi í indverskum fangelsum. Mundu þeir ekki láta þá lausa ef vinfengi væri á milli? að vísu hefur verið sagt að vinfengið sé aðallega milli Bhattarais og stuðningsmanna hans og Indverja - og eftir að Bhattarai var settur út af sakramentinu, þá hafi föngunum verið haldið til að setja þrýsting á Prachanda og hans menn, að taka við Bhattarai og félögum aftur. Hljómar vissulega eins og möguleg atburðarás -- en líka eins og möguleg tilraun til að sverta Indverja með tengslum við maóistana, og sverta maóistana með því að láta líta út fyrir að þeir gangi erinda erlends ríkis. Þannig að maður veit ekkert hverju maður á að trúa. Meira að segja gæti þetta verið tilraun Prachanda sjálfs til að sverta Bhattarai og aðra keppinauta síná í flokknum:
In the tape, Prachanda claimed that ‘‘the change of Indian mind’’ had to do with his party’s decision to strip Bhattarai of all powers and posts. ‘‘India was clearly suggesting that the two leaders would be released only after their man Dr Bhattarai was reinstated in his earlier posts,’’ Prachanda said.(*)
En Gyanendra konungur í Nepal haft líka mikil og vinsamleg samskipti við bæði Pakistan og Kína, svo hann gæti verið að reyna að losa um böndin við Indland til að geta spilað þessum þrem stórveldum hverju gegn öðru, sjálfum sér til hagsbóta. Nepalski herinn er allavega ekki átorítet sem ég treysti. Indverjar neita líka - að sjálfsögðu - öllum ásökunum. Þeir gætu verið að ljúga líka, eða þeir gætu verið að svara rógi ... þeir hafa sína hagsmuni eins og aðrir.
Sigri hrósandi nepalskir herforingjar fóru með blaðamenn á stað þar sem bardaga var nýlokið, sögðu þeir.
One point however, missed is how can one confirm whether they were actually 50 dead Maoists, or 50 common people, or 50 dead army men in clothes like those of Maoists? (*)
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Eins og menn muna gerði George Galloway fræga för til Bandaríkjanna á dögunum og sagði valdinu til syndanna. Það má sjá hér ef það hafði farið fram hjá einhverjum. Scott Ritter fer lofsamlegum - og verðskulduðum - orðum um Galloway:
If only more politicians, British and American alike, were able to display such courage in the face of the atmosphere of neoconservative intimidation prevalent in Washington these days. ...
So, Mr Galloway, please accept from this American three cheers for a job well done.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

American Civil liberties Union bjóða upp á stutt kviss: Ertu á lista hjá FBI? Skemmst er frá því að segja, að ég er að velta fyrir mér hvort Freedom of Information Act gefi mér rétt á að sjá hvort ég sé á skrá hjá þeim... Ætli maður geti snúið sér til sendiráðsins með slíkt?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Bagram-flugvöllur í Kabúl (er það ekki þar sem íslensku málaliðarnir vinna?): Fangarnir Habibullah og Dilawar pyntaðir til dauða þótt flestir fangaverðirnir hafi talið þá saklausa. Þegar þeir börðu Dilawar:
"He screamed out, 'Allah! Allah! Allah!' and my first reaction was that he was crying out to his god," Jones said to investigators. "Everybody heard him cry out and thought it was funny."
"It became a kind of running joke, and people kept showing up to give this detainee a common peroneal strike just to hear him scream out 'Allah,"' he said. "It went on over a 24-hour period, and I would think that it was over 100 strikes."

~~~ ~~~ ~~~ ~~~

This so-called ill treatment and torture in detention centers, stories of which were spread everywhere among the people, and later by the prisoners who were freed … were not, as some assumed, inflicted methodically, but were excesses committed by individual prison guards, their deputies, and men who laid violent hands on the detainees.
-- Rudolf Hoess, the SS commandant at Auschwitz.

Saturday, May 21, 2005

Kratabroddarnir hafa valið sér nýjan formann ef það fór framhjá einhverjum. Ég er að hugsa um að kalla Samfylkinguna framvegis „kratabroddana“ eins og góðir menn kölluðu Alþýðuflokksmenn hér á árum áður. Mér hefur aldrei fundist Össur vera efni í leiðtoga í stórum flokki. Mér finnst Ingjibjörg hins vegar vera það. Þannig að ég held að þetta hafi verið vel valið hjá kratabroddunum ... þótt þeir fái ekki mitt atkvæði út á það.
~~~ ~~~ ~~~
Ég datt í dag niður á Einræðisherrann eftir Chaplin í sjónvarpinu. Sú mynd hlýtur nú að vera með þeim áhrifaríkari. Chaplin sagði eftir stríðið að hann hefði ekki gert þessa mynd, hefði hann vitað hvað ætti eftir að gerast. Ekki það að það sé gert grín að þjáningum fólks; skrumskælingin á fíflagangi nasistanna er ekki beint fyndin, þótt fyndni sé blandað inn í. En þvílík mynd. Tilraun til að stappa stálinu í fólk sem helst hefði gefist upp fyrir þessari martröð.
Talandi um martröð, það var að renna upp fyrir mér hvað stjórnartíð nasista í Þýskalandi er fjarri manni. Það jaðrar við að mér finnist súrrealískt að þetta hafi gerst í alvörunni ... að atburðir stríðsáranna og áranna á undan jaðri við fjarstæðu -- en standa þeir þó það nærri okkur í tíma að maður þekkir fólk sem var þarna. Hverju er um að kenna? Ég býst við að það sé það, hvernig þessir atburðir hafa öðlast hálf þjóðsagnakenndan blæ. Það er auðvitað stórvarasamt ef hryllingur verður svo fjarlægur okkur að hann fái smugu til að endurtaka sig. Ég er því miður hræddur um að þess sé ekki langt að bíða, þótt með öðru móti verði.

Friday, May 20, 2005

Bandaríkjaher fordæmir breska blaðið The Sun fyrir að birta auðmýkjandi myndir af Saddam Hussein. Jahérna, þvílík hræsni. Blaðið á auðvitað ekkert skilið annað en fordæmingu fyrir að birta auðmýkjandi myndir af stríðsfanga -- en það hlýtur að kallast koma úr hörðustu átt þegar fordæmingin kemur frá sömu mönnum og birtu sjálfir auðmýkjandi myndir af Hussein þegar hann var dreginn upp úr kúrdískri moldvörpudýflissu eins og lúsugur útilegumaður og skoðað upp í ginið á honum eins og hundi! Hafi Bandaríkjaher skömm fyrir -- og The Sun líka.
~~~ *** ~~~ *** ~~~

Á Múrnum skrifar Sverrir Jakobsson um George Galloway. Ég sé ekki ástæðu til annars en að taka undir hvert orð.
~~~ *** ~~~ *** ~~~

„Er sú trú gagnleg andlegri velferð sem kallar á að menn reiðist fyrir hönd goðmagna sinna?“ spyr Bigir Baldursson á Vantrú í dag.
~~~ *** ~~~ *** ~~~

Ég held að rósturnar í kjölfar þessarar (sönnu) fréttar Newsweek um niðursturtun Kóransins hafi ekki bara verið eitthvað trúarlegt viðbragð. Frekar held ég að fréttin hafi verið kornið sem fyllti mælinn, eða gikkurinn sem hleypti báli á yfirspennt þjóðfélög múhameðstrúarmanna.
~~~ *** ~~~ *** ~~~

Það er engu öðru líkt en að' forsjónin hafi ekki ætlað mér að lesa þessa grein. Hún er það löng að ég hafði hugsað mér að prenta hana út og lesa í rólegheitum ... en hefur núna mistekist í fjórgang að prenta hana út svo vel sé. Best að reyna einu sinni enn.
~~~ *** ~~~ *** ~~~

Þetta finnst mér athyglisvert sjónarmið.

Thursday, May 19, 2005

Dreptu átrúnaðargoð þín


Fyrir margt löngu fundu einhverjir upp á slagorðinu hér að ofan, Kill Your Idols. Dreptu átrúnaðargoð þín. Þetta eru orð að sönnu. Það þarf ekki að taka fram að hér er átt við "dráp" í óeiginlegri merkingu: Að drepa átrúnaðargoðið sem átrúnaðargoð, ekki að finna einstakling sem maður trúir á að myrða hann í alvörunni. Sams konar hugsun er uppi á teningnum þegar hin margumtalaða bylting er annars vegar. Afnám valdastéttarinnar þýðir ekki að leiti eigi uppi alla sem hafa völd og myrða þá - þótt sumir hafi misskilið það þannig - heldur að svipta þá völdum eða - réttara sagt - losna undan valdi þeirra. Pólitískir valdamenn blasa nú við, en það væri til lítils að afnema völd þeirra eins og sér. Til að losna undan pólitísku valdi þarf fyrst og fremst að losna undan efnahagslegu valdi: Losna undan kapítalískum framleiðsluháttum. Þegar kapítalismi leikur lausum hala er það fjármagnið sem er félagslega frjálst en fólkið þarf að lúta duttlungum þess. Eðlilegra væri að fólkið væri efnahagslega frjálst og auðmagn þyrfti að lúta vilja samfélagsins. Það verður ekki gert svo vel sé án þess að losna undan ægivaldi efnahagslegrar valdastéttar og kapítalískra framleiðsluafstæðna.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Hér getur að líta málsvörn George Galloway fyrir bandarísku þingnefndinni í fyrradag. Bæði 45 mínútna myndbandsupptöku, og transkrift af því sem hann segir. Meistari Galloway var kallaður fyrir sem sakborningur en mætti sem ákærandi. Þvílíkur boxhanski, þvílík fallbyssukúla af málsvörn!

Wednesday, May 18, 2005

Þegar Kóraninum var sturtað niður í klósettið í Guantanamo pyntingabúðunum, var eins og brysti stífla í Afghanistan, Pakistan og víðar og rosaleg mótmæli brutust út ... og Bandaríkjastjórn kennir Newsweek um að hafa birt illa ígrundaða frétt og þannig "látið þetta gerast" ... þvílík vitleysa. Það getur verið að þessi frétt hafi verið neistinn sem kveikti bálið, að hún hafi verið gikkurinn, en ólgan var þarna fyrir, spennan skapaðist ekki út af einhverri frétt heldur út af framferði áðurnefndrar Bandaríkjastjórnar gagnvart þessum heimshluta. Gráupplagt, samt, að kenna Newsweek um þetta. Eins og allt hafi verið með kyrrum kjörum áður en fréttin spurðist út. Hah! Góður þessi.
Ég vil gera orð Jesaja spámanns að mínum þegar hann segir (32:17): Og ávöxtur réttlætisins skal vera friður, og árangur réttlætisins rósemi og öruggleiki að eilífu. Af réttlæti hlýst friður, ró og öryggi. Af óréttlæti hlýst ófriður, órói og óöryggi. Þarna hitti Jesaja naglann á höfuðið ... og bókstafstrúarmenn mættu taka þetta til greina. Réttlæti fyrst - þá fylgir hitt í kjölfarið.

Tuesday, May 17, 2005

George Galloway er kominn til Bandaríkjanna þar sem hann mun sitja fyrir svörum þingnefndar vegna ásakana um að hafa þegið mútur frá Saddam Hussein. Galloway hefur sagst vera til í að hafa yfirheyrsluna í beinni útsendingu í sjónvarpi. Þá útsendingu þætti mér áhugavert að sjá, þótt hún verði kannski ekkert.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Egill Helgason hefur farið mikinn að undanförnu og Stefán Pálsson er meðal þeirra sem hafa séð ástæðu til að ræskja sig yfir málflutningi hans. Hvað getur maður sagt? Egill hefur uppi - og hefur oft áður haft uppi - málflutning um kommúnisma og Sovétríkin, sem væri hægt að greiða í sundur og svara lið fyrir lið ef einhver nennti því ... og það sem er óþolandi er, að þessi söguskoðun er í senn ósanngjörn og yfirborðsleg, kemst að þeirri fyrirfram gefnu niðurstöðu að Stalín hafi verið vondur og þess vegna séu kommúnistar kjánar eða siðblindingjar og að allt sé þetta að kenna innbyggðu morð-eðli kommúnismans. Ég andvarpa bara og ætla mér ekki að fara að skrifa 55 bls. ritgerð til að hrekja þetta.
~ * ~

Sko... Ég fagna gagnrýni á Sovétríkin, á Stalín, Lenín, Marx og hvern sem er, svo fremi að hún sé heiðarleg og sanngjörn. Það er gagnrýni Egils ekki. Það er ekkert annað en barnaskapur að segja að ástæður þess að svona margt fór úrskeiðis í Sovétríkjunum hafi bara verið vegna þess að Stalín hafi verið svo vondur. Það er alveg jafn barnalegt þótt það sé vafið inn í margra metra umbúðir af orðskrúði.
~ * ~

Það er svo margt sem mér þykir athugavert við umræður undanfarinna vikna, sem hófust kannski helst af því að 60 ár eru liðin frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Hvarvetna sér maður hatur á Rússum og kommúnistum - hatur og fordóma - sem eiga ekkert skylt við heiðarlega gagnrýni. Sem ég segi, þá fagna ég heiðarlegri gagnrýni, vegna þess að hún er uppbyggileg, hvöss og málefnaleg. Sú gagnrýni sem hefur hatur að útgangspunkti slær málefnaleg vindhögg en því meira um sig með frösum.
~ * ~

Æ, ég veit ekki hvað skal segja. Egill Helgason hefur skrifað ýmislegt gott og gagnmerkt, það má hann eiga. En hann mætti alveg láta það eiga sig að ræða um kommúnisma og trúmál á þann hátt sem hann hefur gert. Þar eru strámenn, útúrsnúningar, ýkjur og rangfærslur hans ær og kýr.
Árnar renna upp í móti
Gekk áðan í gegn um Hljómskálagarðinn og sá þar 14 lóur og 24 til viðbótar fyrir framan Háskólann. En annað vakti athygli mína: Straumröst sem lát suður undan brúnum tveim yfir Tjörnina. Er Lækurinn farinn að renna upp í móti? Hverju sætir þetta eiginlega? Ættum við að falla á kné, iðrast og búa okkur undir endurkomu Múhameðs?
Síðan kom ég inn í Hólavallakirkjugarð, þar sem mætti mér stór og fallegur köttur með lítinn og fallegan þrastarunga í klónum og var í þann mund að fara að bíta hann á barkann. Ég hvæsti á köttinn og sagði honum að skammast sín og greip þannig inn í þróunarkenningu Darwins af einskærri eigingirni. Síðan henti ég grjóti og ýmsu lauslegu á eftir honum og hann hljóp í burtur - og þrastarmamma rak flóttann.

Monday, May 16, 2005

Siðrof og firring


Marx taldi að kapítalískir framleiðsluhættir gerðu verkemenn firrta vegna þess að framleiðslutækin væru í annars eigu, arðurinn rynni til annarra, og sjálf framleiðslan líka. Í staðinn fyrir að framleiða til eigin nota eða í eigin þágu, legðu verkamenn til vinnuafl og hugvit, festu hæfileika sína í form framleiðslunnar, og yrðu sjálfir firrtir fyrir vikið.
Eitthvað held ég að sé til í þessu.
Annað held ég samt að sé nauðsynlegt að taka til greina, að minnsta kosti jafn veigamikla breytu, ef ekki veigameiri: Fjölskyldumunstur. Menn eru hjarðdýr, mönnum er náttúrulegt að búa í félagi við aðra menn, einkum fjölskyldu sína. Vinnustaður utan heimilis, þar sem laun eru það lág að mikillar (tímafrekrar) vinnu er þörf til að ala önn fyrir fjölskyldunni -- að ógleymdum tilbúnum þörfum sem fólk rembist við að mæta -- gera það að verkum að það verður rof í fjölskyldunni. Foreldrarnir vinna úti og eru stressaðir eða dauðþreyttir fyrir framan sjónvarpið á kvöldin. Börn eru geymd í skólum og umgangast aðallega önnur börn (eins þroskandi og það er) og gamalmennin eru falin sjónum samfélagsins á þar til gerðum stofnunum.
Þarf þetta að vera svona? Er þetta óhjákvæmilegur fylgifiskur kapítalískra þjóðfélagshátta? Ekki veit ég það ... en ekki hjálpa þeir til, svo mikið er víst. Þar sem afstæður vinnu og eignar eru firrtar (fólk vinnur án þess að eiga og á án þess að vinna) er strax kominn brestur ... en þegar við bætast firrtir heimilishættir, þá hættir manni að lítast á blikuna.
Já, það þarf að hugsa þetta dæmi ofan í kjölinn. Kapítalisma verður ekki rutt úr veginum svo glatt, nema betra tilboð komi. Framleiðslu- og samfélagshættir sem þjóna mannlegum þörfum betur en kapítalismi gerir mundu, þykist ég vita, ruðja honum úr veginum á svipaðan hátt og kapítalisminn ruddi á sínum tíma lénsveldinu úr vegi. Kapítalismi hefur sitt aðdráttarafl svo fólk getur reynt að loka augunum fyrir göllum hans, en gallarnir eru samt áfram til staðar. Ef fólki stæðu aðrir framfærsluhættir til boða, þar sem kerfisbundnu óréttlæti og kerfisbundinni firringu hefði verið úthýst, þori ég að veðja að þeir framfærsluhættir yrðu fljótir að ná vinsældum.
Kapítalisminn gufar ekki upp af sjálfu sér. Það hefur sýnt sig að það er ekki hægt að bæta fyrir gallana á honum. Nýs kerfis er þörf. Nú er bara að leggja höfuðið í bleyti ... og það sem meira er, bretta upp ermarnar.

Sunday, May 15, 2005

Ég vil hvetja alla til að lesa þessa grein, GlobalCorp. eftir Michael C. Ruppert -- hún fjallar, í stuttu máli, um það hvernig Peak Oilvandinn (olíuþurrðin) er ekki lengur í sjónmáli heldur byrjaður. Hvernig það er orðið of seint fyrir okkur að bjarga heiminum, hvernig hnúturinn er orðinn of harður til að verða leystur, hvernig valdablokkirnar eru þegar búnar að fylkja liði fyrir úrslitaátökin, hvernig næstu ár eru síðustu ár okkar svokölluðu siðmenningar. Áður en fólk hristir hausinn yfir þessu "svartagallsrausi" eða "bölsýni" við ég biðja það að lesa greinina sjálfa. Þetta er ekkert gamanmál.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Annars er hugvekja eftir mig á Vantrú í dag.

Saturday, May 14, 2005

Óeirðirnar í Afghanistan að undanförnu þykja mér vera sorglegur vitnisburður um að ólgan í samfélaginu fái ekki útrás nema í farvegum trúarinnar. Hver hefði, undir eðlilegum kringumstæðum, startað óeirðum með tuga manna mannfalli, út af því að einhver bjáni sturtaði niður í klósettið nokkrum blaðsíðum úr bjánalegri galdraskræðu? svipað má segja um óeirðirnar í Úzbekistan. Í báðum þessum löndum eru stórkostleg félagsleg og pólitísk vandamál, sem eðlilega valda mikilli spennu í samfélaginu, svo gripin eru hálmstrá afturhaldsins til þess að tappa spennunni af. Ef þessi orka færi í að byggja upp framsækið stjórnmálaafl og koma til leiðar virkilegum breytingum á aðstæðum, þá væri það saga til næsta bæjar. Ég vona að Mið-Asía beri gæfu til að koma sér upp framsæknum stjórnmálaöflum áður en hún verður öll ein rjúkandi ördeyða.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í því samhengi má geta þess að í Nepal hafa maóistar boðið þingræðisflokkunum stuðning sinn gegn krúnunni.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Var að bæta við link á hina stórsniðugu heimasíðu Atheist Dictionary.

Tuesday, May 10, 2005

Ég er ekki vanur að taka próf á netinu og pósta niðurstöðunum hérna, en ætla í þetta sinn að gera undantekningu, þar sem ég rakst á próf sem mér fannst óvenjulega gott ... og niðurstaðan um mig er mjög nálægt því sem ég held um sjálfan mig:

You scored as Materialist. Materialism stresses the essence of fundamental particles. Everything that exists is purely physical matter and there is no special force that holds life together. You believe that anything can be explained by breaking it up into its pieces. i.e. the big picture can be understood by its smaller elements.

Materialist

94%

Modernist

81%

Cultural Creative

63%

Existentialist

56%

Postmodernist

56%

Romanticist

50%

Idealist

38%

Fundamentalist

25%

What is Your World View?
created with QuizFarm.com

Monday, May 9, 2005

Chaves segir Bandaríkjamenn vera kúgaða þjóð og ekki munu fara til Bandaríkjanna aftur fyrr en Bandaríkjamenn eru frjálsir, sjá frétt. Það er skemmtilegt hvað Chavez er hispurslaus. Ég er ekki frá því að þarna hafi hann hitt naglann á höfuðið. Annað: Washington Beating War Drums gegn Venezuela
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
The Republican Party and the Christian right: sowing the seeds of an American fascist movement
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Tilvitnun:
Sérhver kommúnisti verður að skilja sannleik þessara orða: „Pólitískt vald kemur úr byssuhlaupi“.
-- Rauða kverið s. 63

Fáar tilvitnanir eru jafn oft hafðar eftir Maó og þessi. Hér er spurning hvað auðvelt er að misskilja og hvað þarf að túlka. Í fyrsta lagi, þá held ég að þessi fullyrðing sé býsna rétt. Ef pólitískt vald kemur úr byssuhlaupi, þá þarf sá sem ætlar að taka völd að hafa byssuhlaupum á að skipa ... en sá sem vill bara losna undan valdi þarf að svipta kúgara sína byssuhlaupunum. Svipta vandsveina valdastéttarinnar kúgunar- og ofbeldistækjum.

Það má kannski orða þetta þannig, að meðan valdastéttin er grá fyrir járnum, er reiðubúin og fær um að beita valdi, þá getum við ekki losnað undan henni með góðu ... á hinn bóginn er það hægara sagt en gert að eiga alls kostar við valdastétt sem er t.d. með í NATO og með bandarískan her í hlaðinu hjá sér. Ég sé ekki að valdbeiting sé til neins gagnvart einhverjum sem er 100 sinnum sterkari. Hins vegar má spyrja sig hvort það sé, með einhverju móti, hægt að snúa vopnin úr höndum þeirra? Ein leið blasir við, sem er að frjálslyndir sósíalistar vinni stórsigur í kosningum og taki við valdatækjum ríkisins sjálfir ... en kannski er hægt að grafa undan ríkinu og valdastéttinni með því að byrja að byggja upp annað kerfi innan þess. Sókn í efnahagskerfinu til dæmis. Byrja að byggja upp fyrirtæki með sósíalísku rekstrarfyrirkomulagi og eignarhaldi, sem aftur geta fjármagnað t.d. heilbrigðis- og velferðarkerfi við hliðina á gamla kerfinu, sína eigin skóla, tekið við umsvifum ríkisvaldsins, og smám saman gert það óþarft? Hvaða réttlætingu hefur ríkisvaldið á skattheimtu ef það hefur verið svipt allri gagnsemi? Hvernig gæti það rekið kúgunartæki ef ekkert væri skattféð?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Skrifað stendur:
Þú getur talað um sjálfan þig sem Marxista en ég hef hugsað aðeins út í viðhorf yðar nútímakomma og komist að þeirri niðurstöðu að stefna yðar er í fáu ósvipuð stefnu flestra anarkista (enda var anarkismi talinn einn angi sósíalisma á sínum tíma).
Kanski að marxistar fari loksins að láta undan hugmyndum um mikilvægi ríkisvaldsins og fylkingarnar að sameinast á ný *hugs, hugs*


Svarað er:
Eins og talað úr mínum munni. Ég samsinni því reyndar ekki að mín stefna sé "í fáu ósvipuð anarkisma" (þótt ónefndur trotskíisti hafi líka haldið því fram...) en hins vegar skal ég manna fyrstur samþykkja að hún sé að ýmsu leyti svipuð. Og að sameina fylkingarnar? Ég sé ekki hvað ætti að vera því til fyrirstöðu.
Annars gerði ég grein fyrir frjálslyndum marxisma í bloggi fyrir nokkru síðan. Sjá annars hér.

Sunday, May 8, 2005

BBC birtir greinargerð um klofning nepalskra maóista, sem mér sýnist vera sanngjörn og vel unnin:
A power struggle between Communist Party of Nepal (Maoist) Chairman Prachanda and an influential leader of the party, Baburam Bhattarai, has been hidden from the Maoist rank and file for many months but is now very much in the open.
Analysts say the rift could jeopardise what the rebels call the "people's war", which has claimed 11,000 lives in the last 10 years. ...
The lists of accusations Prachanda and Bhattarai have against each other are long and wordy, in true Maoist tradition. ...
Both men acknowledge that their argument plays into the hands of those they refer to as "class enemies".
Já, þetta spilar óneitanlega upp í hendurnar á óvinum þeirra. En meðal annarra frétta af Nepal, er að Sameinuðu þjóðirnar munu taka upp eftirlit með mannréttindamálum. Það getur varla boðað annað en gott. Einnig eru hinir stjórnmálaflokkarnir, sem lentu í klemmu 1. febrúar sl. og leiðtogar þeirra handteknir, að reyna að fylkja liði sínu á nýjan leik, ef það mætti verða til þess að koma aftur á formlegu þingræði ... og talað er um bandalag þeirra og maóistanna gegn krúnunni. Jahh, hvað getur maður sagt? ÉG fylgist bara áfram með, átekta.

Til hamingju með daginn...


60 ár frá sigrinum á nasistum. Mér finnst áberandi í umræðunni um síðari heimsstyrjöldina og um helförina, hvað eitt fær litla athygli miðað við annað. Það er and-kommúníski broddurinn í nasismanum. Síðari heimsstyrjöldin var umfram annað hugsuð sem (haka)krossferð gegn Sovétríkjunum, og það voru umfram annað fórnir Sovétríkjanna sem á endanum unnu bug á nasismanum. Og þótt það sé óvinsælt að þakka Stalín nokkurn skapaðan hlut, þá verður að viðurkennast að honum og Mólótoff tókst, með naumindum, að snúa taflinu Þýskaland (+ Vesturveldin) vs. Sovétríkin = útþurrkun Sovétríkjanna við, svo að útkoman varð Þýskaland vs. Sovétríkin + Vesturveldin = útþurrkun nasismans. Þvílíkar fórnir, þvílík blóðtaka. Maður fölnar við tilhugsunina um að fasisminn, sú ægilega stjórnmálahreyfing, sé að ganga í endurnýjun lífdaga, og það í því ríki heimsins sem ber höfuð, herðar og hné yfir öll önnur. Þegar fasismi með rætur í kristnum fúndamentalisma og bráðfeigum síð-kapítalisma fer að spenna vöðvana af alvöru, þá verður ekki gaman ... og ég óttast að þess sé ekki langt að bíða.
Í því samhengi má minnast hins sem ég gat um í byrjun, en það er helförin. Helförin var ekki bara kerfisbundin útrýming á gyðingum og sígaunum, heldur var broddinum í upphafi beint gegn þeim sem fastast stóðu gegn nasistum: kommúnistum og verkalýðsleiðtogum. Þegar þeim hafði verið rutt úr vegi kom röðin að næsta dagskrárlið. And-kommúnismi var það sem nasistar lögðu umfram annað áherslu á ... og það er annað sem ég óttast að við eigum eftir að sjá aftur. Mun Bandaríkjastjórn smala saman bandarískum vinstrimönnum og skjóta þá? Ég leyfi mér að efast um það ... en hvað er þess langt að bíða, að hröð stjórnarandstaða verði kriminaliseruð? Ég bara spyr.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hér er annars góð frétt: Í Bretlandi kom RESPECT Coalition tveim mönnum á þing, þar af var annar sjálfur George Galloway! Það var nú gott hjá þeim.

Friday, May 6, 2005

Múgurinn virkjaður. Þjóðkirkjan í feni sínu.


Haukur skrifaði komment sem ég svara að einhverju leyti:
Vésteinn vill virkja múginn. Það er sniðug hugmynd í sjálfu sér og engan vegin ný. Hann er nú svolítill lenínisti inn við beinið, þ.e. hann álýtur að fámennur hópur skipulagðra og heitra einstaklinga geti leitt byltingu í krafti stuðnings alþýðunnar sem þurfi bara að örva hreifings.
Ég tel að þegar ólga kemur upp í samfélaginu, eins og á krepputímum, þá verði að vera til staðar eitthvað plan, einhver farvegur fyrir þessa ólgu, þannig að hún nýtist í framsæknu og félagshyggnu starfi og geti (vonandi) sprengt helgrindur kapítalismans og byggt annars konar samfélag í staðinn, byggt á húmanískum gildum og lýðræðislegu efnahagskerfi. Það er ekki sjálfgefið að þetta gerist -- og það er meira að segja vandasamt. Verðugra verkefni er hins vegar ekki til, og þess vegna tel ég það hlutverk okkar að leggja höfuðið í bleyti og reyna að byggja upp þetta plan.
Náttúruanarkistar hafa haldið því fram um langa hríð að til þess að bylting geti orðið þurfi fyrist að verða fækkun á mannkyni. Hungrið sem fygli olíutindinum sé því engan vegin slæmt.
Þetta finnst mér nú einkennileg afstaða, að hungursneyð og milljarða manna horfellir sé eitthvað annað er stórkostleg hörmung. Ekki hef ég áhuga á að lenda í þessu, svo mikið er víst.
Byltingarhesturinn sem ég veðja á er þessi: Í staðinn fyrir að taka yfir ríkisvaldið með einhvers konar valdaráni og reyna að nota það til að breyta samfélaginu, þá byrjum við á byrjuninni og breytum efnahagskerfinu, undirstöðunni sem samfélagið hvílir á. Efnahagslegt vald er í aðalatriðum það sama og pólitískt vald. Nýtt efnahagskerfi lítur dagsins ljós og í stað kapítalískra stéttaafstæðna er það stéttlaust, sósíalískt og lýðræðislegt. Þegar stéttlaust efnahagskerfi er komið á laggirnar og engin er valdastéttin, þá er kominn tími til að leggja niður ríkisvaldið eins og hverja aðra tímaskekkju.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er makalaust að fylgjast með málflutningi Þjóðkirkjunnar í umræðunni um kristniboð í skólum. Nýjasta útspilið eru freklegar rangfærslur Arnar Bárðar Jónssonar í Neskirkju, sem Birgir Baldursson kryfur í grein sinni á Vantrú, "Hvort er Örn Bárður lygari eða hálfviti?". Þjóðkirkjan ætti nú bara að vera heiðarleg og viðurkenna það sem satt er. Það getur hún auðvitað ekki sagt opinberlega, svo ég býst við að ég neyðist til að segja það: Þjóðkirkjan veit vel að kristniboð í skólum samrýmist ekki hugmyndum um borgaralegt nútímasiðferði, hún veit líka vel að ríkisrekið trúfélag er forneskjulegt, og loks veit hún vel að ef forréttindastöðu hennar væri ógnað mundu raðir hennar grisjast svo um munaði. Þjóðkirkjan er í hreinni hagsmunabaráttu, hún vill hafa stöðugt innstreymi nýrra sauða í fjárhúsið sitt, nýrra spena að sjúga.

Wednesday, May 4, 2005

Flugleiðir markaðssetja dætur sínar .. gróf árás á friðargöngu .. fjölmiðlafrelsi .. Nepal


Í kjölfar þessarar heimsóknar Svanhildar Hólm til Opruh Winfrey hefur aftur blossað upp umræðan um orðstír íslenskra kvenna erlendis. Ég get nú ekki sagt að samfélagslegt umburðarlyndi og kynferðislegt frelsi sé nema af hinu góða ... en markaðssetning Sigurðar Helgasonar og félaga á Flugleiðum, sem gerir út á lauslæti þeirra eigin dætra og systra, finnst mér alveg hroðaleg. Í Morgunablaðinu í gær skrifaði svo Heiðrún Ýrr Júlíusdóttir "Bangkok norðursins hjá Oprah Winfrey" ... og það þótti mér athyglisvert. Látum það liggja milli hluta að Bandaríkjamenn sjái sódómisma og babýlóns-lifnað þar sem við sjáum frjálslyndi (sem vissulega getur gengið of langt) -- en mér finnst magnað að Heiðrún þessi skuli út um annað munnvikið verja heiður íslenskra kynsystra sinna -- en út um hitt taka undir þær raddir sem sverta orðstír thaílenskra kynsystra! Þetta þykir mér vera dæmi um alveg meiriháttar yfirdrepsskap!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
A Tale of Two Demonstrations er nýjasta grein Uri Avnery, hins 82 ára gamla ísraelska rithöfundar, aktívista og frv. þingmanns, sem flestum öðrum pennum er beittari þegar kemur að málefnum Ísraels og Palestínu. Í henni segir hann frá tveim mótmælagöngum og muninum á því hvernig komið var fram við göngumenn. Lesið greinina! Önnur gangan, sem innihélt alls um þúsund manns, um 200 Ísraela og fjölda Palestínumanna, varð fyrir árás ísraelskrar varðsveitar -- og var infiltreruð af agent provocateurum sem köstuðu grjóti í verðsveitina til að hleypa af stað ofbeldi. Í alvöru talað, lesið þessa grein!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í nýjustu skýrslu Freedom House um fjölmiðlafrelsi í heiminum deila Ísland, Svíþjóð og Finnland fyrsta sætinu - en Bandaríkin eru í 24. sæti ásamt nokkrum öðrum. Hvers vegna? Sjá hér.
In one case, the administration -- seeking to build support among black families for its education policies -- paid a prominent African-American pundit, Armstrong Williams, 240,000 dollars to promote the ''No Child Left Behind'' law on his nationally syndicated television show and through his newspaper column, and to urge other black journalists to do the same.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Verður "rhododendron-bylting" í Nepal? Þeim möguleika er velt upp í ritstjórnargrein í Nepali Times. Að minnsta kosti er almenningi orðið heitt í hamsi. Sko ... flauelsbylting er eitt ... sedrusbylting líka .. en rhódódendronbylting? Það er vægast sagt óþjált nafn á byltingu! Annars er þessi grein ekki alveg galin. Smá forsaga: Konungurinn Gyanendra hefur aflétt neyðarástandi að hluta, og á von á vopnasendingum frá Indlandi. Hann kennir "lýðræði" undanfarins áratugar um spillinguna sem hafi kveikt byltingu maóista (já: lýðræði -> spilling -> róstur) og vill því fara hægt í sakirnar, en beygir sig núna fyrir alþjóðlegum þrýstingi. Á meðan hefur Prachanda formaður maóista viðurkennt klofning í sínum röðum: Sakar næstráðandann Baburam Bhattarai um að kljúfa fylkinguna með því að gegna ekki skilyrðislaust því sem miðstjórn segir, en Bhattarai hefur kvartað undan klíkuskap í miðstjórn, og skorti á lýðræði (í bréfi sem ég linkaði á um daginn). Ég held að Bhattarai hafi rétt fyrir sér, að Prachanda ætti að hlusta á hann þegar hann kvartar undan einræðistilburðum. Það sem okkur vantar er ekki að enn ein byltingin fari út um þúfur vegna mistækra stjórnarhátta í viðkomandi stjórnmálaflokki.

Tuesday, May 3, 2005

Enn af 1. maí


Síðasta andsvar (frá Hauki) er tilefni til að skrifa aðeins meira um 1. maí.
Múgamaðurinn sem situr í lánasúpu, með heimili sitt veðsett, situr í LaZBoy stól og horfir á 28 tommu sjónvarp, sem hann hefur keypt á lánum, eins og fína jeppann sinn ... er honum vorkunn? Tja, það má kannski segja að fólk eigi að kunna fótum sínum forráð sjálft - og það ætti að kunna það - en ég get nú samt ekki sagt að mér finnist það allt í lagi. Lifnaðarhættir okkar, vinnandi Vesturlandabúa, eru niðurgreiddir með óheyrilegu arðráni í þriðja heiminum, og neyslan sem er að sprengja okkur er að talsverðu leyti á lánum, sem, ólíkt því sem einhverjum gæti virst, eru ekki það sama og gjöf. Vinnandi Íslendingar hafa verið friðþægðir nógu mikið til að kaupa þá til fylgilags við valdastéttina, og getur maður áfellst fólk fyrir að gleypa við gylliboðum? Tja, ég spyr bara.
Verkalýðurinn getur étið það sem úti frýs vegna þess að stéttabræðrum gæti ekki verið mikið meira sama hverjum um annan. Bræðralag vinnandi manna er horfið.
Vissulega fer lítið fyrir stéttarvitund á Íslandi í dag. Vissulega er það svo. Ég vona samt að það sé ekki svo til frambúðar - og ég sé ekki annan betri hest að veðja á, heldur en að vita hvort hægt er að blása lífi í glæðurnar.
Síðan geta þeir sem í alvörunni eru ósáttir við að láta troða á sér hist einir sér, án kúkalabbanna sem halda þeim niðri ... og skipulagt alvöru baráttu.
Já, en gallinn við það er að alvöru barátta verður ekkert háð af fámennum hópi óstýrilátra ungmenna. Við getum haft hugmyndirnar, en við höfum ekki vöðvana til að stinga upp arfabeð þjóðfélagsins upp á eigin spýtur. Sá eini sem hefur það er mannfjöldinn sem finnst hann ekki vera verkalýður vegna þess að hann á þægilegan hægindastól.
1. Maí er minningarathöfn um gamla baráttu en það þarf engum að koma á óvart að forn frægð gagnist lítið í dag. Það er einfaldlega kominn tími til að gefa skít í aumingjana sem mynda Íslenska alþýðu og fara að vinna að einhverju sem skiptir máli.
Gefa skít og gefa skít ... mér líst betur á að reyna að finna framsæknari leiðir til að fá þessa alþýðu til að spenna vöðvana. Það er ekki hægt að vera sár út í fólk fyrir að mæta ekki á 1. maí ef því finnst það ekki eiga erindi. Kannski að þetta form, kröfugangan, sé í alvörunni úrelt. Ég sé alla vega ekki að það skili miklu eins og ástatt er. Fólk getur tuðað í kaffitímum en svo verið tregt til að taka til hendinni þegar á reynir. Eða hvað, hefur reynt á? Ég vil geta þess í framhjáhlaupi að ég labbaði frá Ingólfstorgi upp á Garðastræti og leit þar í sjoppu ... labbaði til bara niður Fischersund, og sýndist ég sjá þar inn um glugga á nýlegu hóteli, hvar tveir erlendir verkamenn voru að leggja teppi. Á 1. maí. Eini innflytjandinn sem ég sá á fundinum var að tína dósir. Er 1. maí dagur nostalgíu fyrir ráðsetta verkalýðsrómantíkera? Er 1. maí orðinn meinlaus farvegur fyrir háleitar hugsjónir, meinlaus í þeim skilningi að hann sé ekki minnsta ógn við ríkjandi skipulag? Tja, er það ekki bara?
Alla vega, ég held að það þurfi að hugsa þetta dæmi alveg frá grunni. Hætta að ríghalda í hugmyndir sem þjóna ekki markmiðum dagsins, en leggja höfuðið í bleyti eftir nýjum. Ég, fyrir mitt leyti, held að þetta sé hægt með því að setja fram prógram sem fólk tekur til sín og vill taka þátt í. Slíkt prógram mundi einkum felast í nýju skipulagi á atvinnuvegunum, þannig að sameign og samvinna kæmu í stað vinnustaða-stigveldis og þjónkunar við fjármagnseigendur. Slíkt prógram getur haft drjúgt forskot á kapítalíska atvinnuhætti, og dregið til sín fólk, bæði vinnandi fólk og neytendur ... en það þarf að útfæra það nánar, sem ég geri ekki hér og nú.
Verkamaður samtímans áskilur sér rétt til að sitja heima og hvíla lúin bein á 1. maí. Nema hvað. Auðvitað kemur fólk ekki ef því finnst það ekki eiga neitt erindi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Annars er áðurnefndur Haukur nýjasti gestapenninn á Vantrú.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Blair vill þróa ný gjöreyðingarvopn.

Monday, May 2, 2005

Í gær var fyrsti maí, eis og einhver kynni að hafa tekið eftir. Ég fór, eins og góðum erkikomma sæmir, í kaffi hjá herstöðvarandstæðingum og svo í kröfugöngu. Í kröfugöngunni og á fundinum á eftir á Ingólfstorgi sýndist mér vera viðvera flestra þeirra hreyfinga sem andæfa súverandi ástandi. Samtök herstöðvarandstæðinga, Náttúruvaktin, Femínistafélagið, Félagið Ísland-Palestína, nokkur verkalýðsfélög. Með öðrum orðum, þarna voru samankomnir flestir aðrir en verkalýðurinn sem þetta á víst að snúast um. Sjálfur bar ég fána Íraks á stöng.
Já, þarna voru allir nema verkalýðurinn. Ég held að fjöldaágiskun Morgunblaðsins, 1000 manns, sé ekki fjarri lagi. Heldur fleiri í sjálfri göngunni, held ég, en ekki mikið fleiri á fundinum. Það er til lítils fyrir Moggann að gera lítið úr mannsöfnuðinum þegar hann er lítill í alvörunni. Það felst enginn úrdráttur í því að kalla fámennan hóp fámennan, en það er það sem þessi hópur var.
Þá er komið að því að benda fingri ásökunarinnar.
Get ég áfellst vinnandi fólk á Íslandi fyrir að finnast 1. maí ekki eiga erindi við sig? Nei, það finnst mér ekki. Dagskráin var bara hreint ekki spennandi fyrir fólk sem vildi frekar hvíla lúin bein (og huga) yfir Stöð tvö. Ég er hræddur um að það verði bara að viðurkennast, að þetta er orðið frekar gamaldags. Ekki að mér hafi ekki fundist fólk eiga erindi, en fyrst fólkinu sjálfu finnst það ekki eiga erindi, hvernig er þá annað hægt en að velta því fyrir sér?
Get ég áfellst verkalýðsforystuna, gelda krata með deiga branda í vopnabúrinu, standandi á sömu fúnu sápukössunum og undanfarna öld? Tja, varla. Í fyrsta lagi er bara verið að gera það sem í gamla daga stóð alltaf fyrir sínu, og ekki skrítið að menn haldi áfram að smala fánaliðinu á fundi þegar þó 1000 mæta. Á hinn bóginn hefur Guðmundur Gunnarsson, forseti Rafiðnaðarsambandsins, stungið upp á því að breyta kröfugöngunni í pylsugrill í Fjölskyldugarðinum. Það mundi örugglega trekkja betur, þótt lítið færi fyrir blóðhitanum.

Æ, ég held að það þurfi bara að skoða þessi mál alveg upp á nýtt. Á hvaða grundvelli er hægt að höfða til vinnandi fólks í dag? Upp á hvað er hægt að bjóða, sem hefur meira aðdráttarafl en sjónvarpsdagskráin? Já, það þarf tvímælalaust að endurskoða þetta, af hispursleysi. Það er einhver hlekkur keðjunnar brostinn. Hver? Er kannski "vandamálið" það, að það séu engin vandamál lengur til að krefjast úrlausnar á? Eða er fólk orðið þreytt á innantómu orðagjálfri? Eða nennir það ekki út í útsynninginn?

Ég kem víst ekki með neitt almennilegt svar við þessu hér og nú. Læt frekar spurninguna hanga eins og snöru, sjálfum mér og öðrum til umhugsunar. Skjótið bara að vild, það er auðvelt að hitta þessa skotskífu, og sá sem hittir í miðjuna, festir fingurinn á "málinu" fær verðlaun.