Monday, November 30, 2009

Áraun vegna kreppunnar

Í kreppunni eru ærin verkefni fyrir framsækin þjóðfélagsöfl, og þau sjá um það sjálf að skipta sér í hafra og sauði, eftir því hvernig til tekst. Frammistaða ríkisstjórnarinnar hefur valdið vonbrigðum, jafnvel mönnum eins og mér sem gerðu sér ekki nema jarðbundnar væntingar í byrjun. Aðgerðir verkalýðshreyfingarinnar láta líka á sér standa. Ætli erfiðleikarnir megni að hreinsa til í henni?

Í næstu lotu byltingarinnar þarf ný og skýr strategísk og taktísk markmið. Hvorki og mörg né of fá. Hér eru nokkur sem koma sterk inn til að byrja með: Burt með Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, burt með forsetann, burt með forystu Alþýðusambandsins, burt með verðtrygginguna. Fleiri uppástungur, einhver?

Hlutverk verkalýðshreyfingarinnar í kreppunni

Áhugasamir athugið:

Hlutverk verkalýðshreyfingarinnar í kreppunni

Opinn málfundur hjá Rauðum vettvangi
fimmtudaginn 3. desember kl. 20
Friðarhúsi, Njálsgötu 87

Framsögur flytja:
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Bjarki Steingrímsson, varaformaður VR.

Hvert stefnir verkalýðshreyfingin og hvernig ætti hún að bregðast við
kreppunni?
Hvernig geta félagsmenn verkalýðshreyfingarinnar beitt henni til að
vinna bug á kreppunni?

Allir eru velkomnir.

Stjórn Rauðs vettvangs.

Friday, November 27, 2009

Hliðar-ríki í Nepal?

Nepalskir maóistar (sem núna kalla sig Sameinaðan kommúnistaflokk Nepals, eftir sameininguna við Kommúnistaflokk Nepals -- sameinaða marx-lenínista) hafa átt við ramman reip að draga þar sem borgaralegu stjórnmálaflokkarnir eru annars vegar. Forsetinn hefur hindrað þá í starfi, Prachanda sagt af sér forsætisráðherraembættinu og allt verið í stáli. Þeir hafa sniðgengið borgaralega ríkið og boðað nýja andspyrnu. Nú eru þeir að undirbúa stofnun "ríkis við hliðina á ríkinu", þrettán sjálfstæð umdæmi sem þeir munu stjórna. Það verður fróðlegt að fylgjast með því.

Gull með himinskautum

Spár bjartsýnis- og óskhyggjumanna um að kreppunni sé að ljúka eru rugl. Gengið á gulli er glöggur mælikvarði á horfurnar í hagkerfi heimsins. Það fór hæst í 1192 dali únsan í fyrradag. Það var undir þúsund dölum fyrir tveim mánuðum. Þurfið þér frekari vitnanna við?

Thursday, November 26, 2009

Þegar ég studdi hryðjuverkastarfsemi

Á Egginni er grein mín úr Dagfara, þar sem ég segi frá því þegar ég studdi hryðjuverkastarfsemi í Danmörku í hittifyrra. Eða, gerði það a.m.k. að mati hæstaréttar Danmerkur. Sjá: Líttu vel út – og berstu fyrir frelsi: Af Fighters+Lovers og baráttu þeirra

Thursday, November 19, 2009

Þrír talibanar?

Á Vísi er fréttin, skrifuð af Atla Steini Guðmundssyni, sem ber fyrirsögnina "Ómönnuð árásarvél felldi þrjá talíbana". Í fréttinni kemur fram að þessi vél "skaut flugskeyti að húsi ... og segjast sjónarvottar hafa séð þrjú lík borin út úr húsinu skömmu síðar." Það var nefnilega það. Greinilega þrír "talibanar".

Fundur um stofnun Heimavarnarliðs

Fimmtudagskvöld 19. nóvember kemur heldur Rauður vettvangur félagsfund. Aðalumræðuefnið verður: Stofnun Heimavarnarliðs: Hvað eða hverja þarf að verja og hvernig á að skipuleggja þær varnir? Héðinn Björnsson verður fundarstjóri. Vonumst eftir góðri mætingu.
Staður: Friðarhús, Njálsgötu 87 (á horni Snorrabrautar)

Árni Páll í fyrradag

Stéttarfélagið mitt, SFR, varð 70 ára í fyrradag. Í ljósi þjóðfélagsástandsins þótti við hæfi að hafa hátíðahöldin látlaus. Árni Páll Árnason var hátíðarræðumaður á afmælis-trúnaðarmannafundi í fyrradag. Ég get ekki sagt að hann hafi heillað mig upp úr skónum. Eftir ræðu, sem samanstóð að miklu leyti af almennum sannindum, barlómi yfir skuldum og gorgeiri yfir því hvað ríkisstjórnin væri réttsýn, þá klykkti hann út með því að segjast hafa "reynt að stilla marxismanum í hóf". Það verður ekki annað sagt en það síðastnefnda hafi tekist ágætlega.

Eftir ræðuna voru fyrirspurnir. Ég reið á vaðið: Það er margt sem ég hef að athuga við störf ríkisstjórnarinnar, og flest af því á það sameiginlegt að vera með fingraför Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á því. Hvernir litist Árna Páli á að landstjóra sjóðsins á Íslandi yrði sagt að taka pokann sinn og það strax? Hann svaraði í löngu máli og fór út í alls konar smáatriði sem hann hefði ekki þurft. Efnislega var svarið hans samt bara: "Illa".

Monday, November 16, 2009

Haldið til haga

Því verður haldið til haga hvernig þingmenn VG greiða atkvæði um IceSave. Ég hef enn ekki séð hvers vegna það ætti að koma til greina að samþykkja ábyrgð á IceSave. Íslenska ríkinu væri nær að bjóða Bretum og Hollendingum samstarf við að koma fjárglæframönnum, og öðrum sem bera raunverulega ábyrgð, undir manna hendur, og að gera upp eignir þeirra erlendis.

Landspítali: Eitruð áform

Hvernig étur maður fíl? Einn bita í einu.
Hvernig kemur maður á frekari markaðsvæðingu á Íslandi? Eitt skref í einu.
Áætlunin um að lífeyrissjóðirnir fjármagni nýjan Landspítala er hættulegt skref í átt til frekari einkavæðingar í heilbrigðiskerfinu. Við skulum átta okkur á því að lífeyrissjóðirnir eru hluti af auðvaldinu. (Reyndar skrítið að það hafi ekki verið stungið upp á því ennþá, að hlutafélagavæða þá, en það er líklega bara tímaspursmál.) Ef rekstrarforminu er breytt, þá er sjálfri nálguninni breytt, sjálfri hugmyndafræðilegu undirstöðunni. Það, að ríkið leigi húsin af lífeyrissjóðunum, er af sama tagi og að það leigi þau af hverju öðru eignarhaldsfélagi. Eða að það kaupi einhverja aðra þjónustu af prívatauðvaldi, t.d. rekstur á skurðstofu eða nýrnadeild -- nú, eða ræstingar eða mötuneyti.

Þessi áætlun er í fullkominni harmóníu við díabólísk áform Alþjóðagjaldþrotasjóðsins fyrir Ísland. Það á að ryðja brautina fyrir því að aðrir aðiljar en ríkið annist heilsuvernd. Með öðrum orðum, að einkaaðilar veiti hæstbjóðendum fyrsta flokks þjónustu, en aðrir fái annars flokks þjónustu. Annars flokks þjónustu fyrir annars flokks fólk. Hver er yfirlýstur tilgangur þess að láta lífeyrissjóðina gera þetta? Jú, að ríkið safni ekki frekari skuldum. En sú della. Í fyrsta lagi: Ef ríkið skuldbindur sig til að leigja húsin til framtíðar, þannig að þau borgi sig upp á einhverjum áratugum og sjóðirnir eigi þau þá á endanum skuldlaus, þá er snyrtilegra að kötta burtu milliliðinn, láta ríkissjóð borga sömu upphæð á sama árabili, og ríkið eigi húsin þá sjálft á endanum og þurfi ekki að borga leigu. Munurinn er á skuldastöðu ríkissjóðs. Útgjöldin eru þau sömu. Með öðrum orðum er þetta bókhaldstrix, sem mjakar okkur nær einkavæðingu og fjær samneyslu. Vont plan.

Það er í sjálfu sér besta mál að nota lífeyrissjóðina í félagslega uppbyggilegar fjárfestingar, en þetta er hins vegar röng aðferð til þess. Rétta aðferðin er að setja lög sem skylda þá til að kaupa meira af ríkisskuldabréfum. Þannig kemst ríkissjóður í peningana sem geta annars vegar byggt húsin og hinsvegar tryggt áframhaldandi rekstur alls heilbrigðiskerfisins, þess vegna í gegn um alla kreppuna.

Heill þjóðfundur af frösum

Ég sagði einhvars staðar að það yrði fróðlegt að sjá hvað kæmi út úr þessum sk. þjóðfundi. Það sem er fróðlegast að sjá var það sem ég bjóst svosem við, sem er að það kom ekkert út úr honum. Ekkert nema frasar sem þýða ekki neitt. Jæja, það má svo sem segja eitthvað jákvætt um hvernig til hans var boðað og eitthvað þannig, en hvað svo? Hvað á að gera með það að "heiðarleiki" sé æðsta gildið? Kemur það einhverjum á óvart? Er niðurstaðan nokkur önnur en sú að flestir stjórnmálamenn hafi oftast rétt fyrir sér? Hvað er hægt að gera við margra metra langan lista af frösum sem sumir hverjir þýða ekki neitt, eru í mótsögn hverjir við aðra og hver getur túlkað eftir sínu höfði?

Sunday, November 15, 2009

IceSave, hótanir og blaður

Vísir greinir frá því að...

Alþingi hefur nú tvær vikur til afgreiða Icesave frumvarp ríkisstjórnarinnar ... Tíminn er naumur en Bretar og Hollendingar geta sagt samkomulaginu upp einhliða um næstu mánaðmót verði Alþingi ekki búið að afgreiða málið. Óvíst er hvaða afleiðingar það kann að hafa fyrir íslenskt efnahagslíf.
"Óvíst" -- nefnilega það. Getur einhver frætt mig um það, hvað er "worst case scenario" í þessu? Hvað er það versta sem getur gerst ef Alþingi fellir samninginn? Getur það orðið verra en að það samþykki hann? Að það samþykki fáránlegar ábyrgðir sem það mun aldrei geta staðið undir? Er ógnin kannski frá forsætisráðuneytinu? "Jóhanna Sigurðardóttir ... hefur lagt mikla áherslu á að frumvarpið nái fram að ganga [annars] gæti ríkisstjórnin einnig fallið." [Sama heimild.]

Hvað er þetta eiginlega? Heldur hún að þessar eilífu hótanir séu ennþá teknar alvarlega? Ég segi: Látið bara reyna á hvort þetta er blöff eða ekki. Látið hana sýna spilin. Ef Samfylkingin er svo áfram um að koma þjóðinni í skuldahlekki að hún sé tilbúin að fella ríkisstjórnina til þess, þá verði henni að góðu. Og gangi henni þá líka vel að finna samverkamenn til þess. Og kjósendur til að kjósa sig aftur.

"Nú er ekki tíminn til að breyta," hef ég heyrt sagt. Bull. Það er einmitt núna sem það er nauðsynlegt. "Vinstri menn eiga ekki að gagnrýna aðra vinstrimenn," hef ég heyrt sagt. Bull. Ef það er til pólitísk kategóría sem innifelur bæði Gylfa Arnbjörnsson, Einar Karl Haraldsson og sjálfan mig, þá er sú kategóría markleysa. Sá sem styður auðvaldsskipulagið fær gagnrýni frá þeim sem eru á móti auðvaldsskipulaginu. Er það ekki eðlilegt? Hvað er annars hægt að segja um samstarf við fáránlega hægri-Blairista-krata sem eru með Evrópusambandið á heilanum? Hvað er hægt að segja um það að kóa með þeim í ríkisstjórn? Hverjum datt í hug að kalla það "ábyrgð" og "raunsæi" að gera slíkt?

Í næstu byltingu

Síðasta uppreisn gerði kröfur sem hún náði fram, losnaði við ríkisstjórnina, fjármálaeftirlitið og seðlabankastjóra. Það var sætur sigur, en greinilegt að það þarf meira til að fá þetta þjóðfélag til að meika sens. Hér eru þrjár kröfur sem ég legg til að verði inni í kröfugerð næstu byltingar, sem ég reikna allt eins með að hefjist fljótlega:
  • Burt með Alþjóðagjaldeyrissjóðinn -- strax.
  • Leiðréttið höfuðstól húsnæðislána og afnemið verðtryggingu -- núna.
  • Burt með forystu Alþýðusambands Íslands -- núna strax.
Ég gæti bætt við listann, en þetta væri ágæt byrjun.

Kreppan ekki í rénun

Gullverðið hefur náð 1118,50 bandaríkjadölum á únsuna. Það er eins og barómeter á alþjóðahagkerfið. Kreppan er ekki í rénun, ef einhver trúði því.

Saturday, November 14, 2009

Þjóðfundur

Þótt væntingar mínar til Þjóðfundar séu jarðbundnar, þá verður nú samt fróðlegt að sjá hvort eitthvað markvert kemur út úr honum. Þótt ég hafi ekki fengið boð um að sitja hann, þá ákvað ég nú samt að leggja mitt af mörkum og fór í morgun og stóð fyrir framan Laugardalshöll við annan mann meðan flestir þátttakendurnir tíndust inn. Við vorum með sitthvort skiltið: "Höfnum hernaði" stóð á öðru og "Hernaður er andstæður grunngildum Íslendinga" á hinu. Flestir létu okkur afskiptalausa, sumirr kinkuðu vingjarnlega til okkar kolli, og nokkrir einstaklingar atyrtu okkur, á frekar lágstemmdum nótum. Það var nú skrítið. Ég meina, að það sé ennþá til fólk á Íslandi sem finnst hernaður vera sjálfsagt mál.
~~~ ~~~
Sumir héldu að við værum steingerfingar úr fortíðinni, við vorum t.d. stundum spurðir hvort þetta væri ekki tímaskekkja. Hvort hernaði á Íslandi hefði ekki lokið þegar ameríski herinn fór. Við bentum þeim þá á að þetta snerist ekkert bara um Ísland. Hvað með þátttöku Íslands í hernaði í Írak, Afganistan eða Kosovo? "Æjá, " sagði þá fólk. Æ já, Írak. Gleymdum því.

Monday, November 9, 2009

Að sniðganga Moggann

Ég hef sama og ekkert hróflað við Moggablogginu mínu frá því Davíð Oddsson var gerður að ritstjóra Moggans. Á sama tíma hef ég næstum ekkert lesið Moggann, og næstum ekkert opnað Mbl.is. Ég segi "næstum" vegna þess að ég hef alveg gert það í eitt og eitt skipti, en það er mér ekki sáluhjálparatriði. Það er fín tilbreyting að fá fréttirnar aðallega úr öðrum miðlum, þótt það sé nokkuð ólíkt líka. Hinir miðlarnir eru oftast ekki eins yfirgripsmiklir eða vandaðir. Já, og svo eru þeir víst allir pólitískir líka, hver á sinn hátt. Er Ari Edwald eitthvað betri en Davíð Oddsson? Er ekki bara betra að fjölmiðill sé hreinskilinn í sinni harðpólitísku stefnu og hagsmunagæslu? Ég meina, maður veit þó hvar maður hefur hann. Ætti maður kannski bara að lesa Moggann oftar? Er í öllu falli nokkur ástæða til að sniðganga síðuna þeirra?

Minnisblað ASÍ á Wikileaks

Á Wikileaks er minnisblað frá ASÍ um þátttöku samtakanna í samningu "lausna" á húsnæðisvanda heimilanna, sem eru hannaðar til að þjóna fjármagnseigendum. Meira að segja Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telur að það þurfi að skera skuldirnar niður um þriðjung!
Hvernig væri að hafa skuldarana með í ráðum? Hvað með "ekkert um okkur án okkar"?

Þjóðfundur

Það stendur til að halda "Þjóðfundur". Það virðist í fljótu bragði vera ágæt hugmynd og tímabær, og ég ætla ekki að vera með neina svartsýni svona fyrirfram. PR-lyktina sem maður finnur af texta á heimasíðunni verður maður bara að leiða hjá sér. Það verður samt fróðlegt að sjá útkomuna. Ég hnaut um eitt í spurningum og svörum, í #13 segir: "Þjóðfundurinn er ópólitískt ... verkefni". Ópólitískt? Er við miklu að búast af fundi sem ætlar að marka landinu nýja stefnu án þess að vera pólitískur? Ég vil ekki vera með úrtölur, en höfum við ekki fengið nóg af ópólitískum stjórnmálafundum?

Wednesday, November 4, 2009

Sósíalistar í VG ræða kjaramál í kvöld

Umræðuhópur sósíalista innan VG efnir til opins umræðufundar um verkalýðs- og kjaramál og stöðuna á vinnumarkaði miðvikudagskvöld 4. nóvember klukkan 20:00, Suðurgötu 3. Ræðumenn verða Ögmundur Jónasson alþingismaður og Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags á Húsavík.
Allir velkomnir.

Hreinn, Vaclav og Steingrímur

Hreini Loftssyni finnst að nánustu bandamenn sínir eigi að fá annan séns til að reka Bónus. Hverjum kemur það á óvart? Hverjum er ekki sama? Ef einhver vill vita hvað mér, óbreyttum heilbrigðisstarfsmanni, finnst, þá er það að þessi skoffín hafi fyrirgert öllu sínu í þessu landi og eigi bara að vera þakklát fyrir að hafa ekki verið gerð höfðinu styttri.
-- -- -- --
Vaclav Klaus virðist ætla að undirrita Lissabon-sáttmálann. Það eru að sönnu slæmar fréttir. (Sjá grein mína: Lissabon-bókunin: Hvað er nú það?)
-- -- -- --
Steingrímur J. segist bjartsýnn á farsælar lyktir IceSave. Ef IceSave lyktar farsællega í alvörunni, þá verður Steingrímur J. því miður ekki efstur á þakkarlistanum.

Monday, November 2, 2009

Engillinn og púkinn

Á annarri öxlinni á mér situr engill sem segir að allir eigi leiðréttingu orða sinna, að það eigi að gefa fólki annan séns ef það lærir af mistökum sínum og að meiru skipti að laga það sem hefur skemmst heldur en að hefna sín á skemmdarvörgum.
Á hinni öxlinni á mér situr púki sem segir að fólk eigi að uppskera eins og það sáir, fullorðið fólk eigi að hafa vit fyrir sér sjálft og það séu bara makleg málagjöld þegar glannar koma sér í klípu.

Ég býst við að þeir hafi báðir nokkuð til síns máls.

Norrænt bull

Undir stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur aldrei verið og mun aldrei verða byggt upp neitt "norrænt velferðarkerfi". Þetta er staðreynd. Eina velferðin sem kemst að hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er velferð auðvaldsins. Þetta eru hvorki ýkjur, grín né klisja. Ríkisstjórn sem starfar undir handarjaðri AGS er því annað hvort beinlínis að ljúga þegar hún talar um "norræna velferðarstjórn", eða þá að hana skortir alvarlega innsæi í aðstæður. Ég veit satt að segja ekki hvort er verra.

Eitt það sem ríkisstjórn Íslands á sameiginlegt með ríkisstjórnum Norðurlanda er að standa í niðurskurði á velferðarkerfinu. Er það kannski það sem er átt við, að gera eins í velferðarmálum og er í tísku á hinum Norðurlöndunum og skera niður?

Eða þýðir "norræn" velferðarstjórn kannski að velferðin sé frátekin fyrir norrænt fólk og ekki t.d. unga Íraka sem flýja hingað undan stríði sem íslenska ríkið studdi?

Annars finnst mér bjánalegt tal um að stjórnin hérna eigi að vera "norræn". Hvað annað ætti hún að vera? Suðræn kannski? Vísar þetta orð ekki til landfræðilegrar legu?

Baráttan gegn AGS

Pressan og fleiri vefir greina frá því að hópur Íslendinga óski eftir fundi með Strauss-Khan og krefji hann skýringa á stefnu AGS gagnvart Íslandi. Þetta er ágætt, alveg ágætt. Baráttan gegn Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er eitt allra mikilvægasta málið hér og nú. Franek Roswadowsky þarf að fara heim til sín með skófar á rassinum sem fyrst.

Að hugsa sér, það er til fólk sem heldur að þetta sé einhver hjálparstofnun, einhver allt-að-því góðgerðastofnun sem "hjálpar" löndum með "umbætur" og veiti þeim "heilbrigðisvottorð".

Traust á Íslandi eða traust á AGS?

Meirihluti Íslendinga vantreystir AGS, það er léttir að heyra það, en kemur kannski ekki mikið á óvart. Af hverju kemur ekki fram í fréttinni hvert viðhorf kjósenda VG til AGS er? Það væri fróðlegt að vita það. Það vekur athygli að Steingrímur J. segir "aðkomu sjóðsins hafa verið umdeilda og það sé varla nokkuð sem fólk óskar sér að þurfa að vera í samstarfi við aðila af því tagi sem AGS er." Það eru orð að sönnu, og Steingrímur mætti gjarnan breyta í samræmi við þessi orð, með því að hringja í Franek Roswadowsky í fyrramálið og segja honum að vera kominn úr landi fyrir hádegi, annars hafi hann verra af.

Það er stundum sagt að aðkoma AGS sé "heilbrigðisvottorð". Það er í besta falli umdeilanlegt orðalag. Hlutverk AGS er ekki að hjálpa aðildarríkum að koma undir sig fótunum á nýjan leik, heldur að hjálpa þeim að innheimta skuldir sínar. Þetta er innheimtustofnun, og gengur aðallega út á skilyrði um markaðs- og frjálshyggjuvæðingu -- einmitt það sem okkur vantar helst núna, ekki satt? Heilbrigðisvottorðið sem við fáum, sem skuldarar, er vottorð upp á að við erum með handrukkara sem er með þumalskrúfurnar á okkur og fylgir okkur hvert fótmál. Augljóslega má treysta slíkum skuldara, á sama hátt og maður treystir því að innilæstir fangar eða hlekkjaðir þrælar flýi ekki, eða kýr sem eru bundnar á bás og læstar inni í fjósi.

Það má treysta slíkum skuldara til þess að skera niður langt umfram sársaukamörk, markaðssetja ríkisfyrirtæki og auðlindir, opna landið fyrir erlendri fjárfestingu og standa dyggilega vörð um hagsmuni fjármálaauðvaldsins. Alþjóðlega fjármálaauðvaldsins, vel að merkja. Eða réttara sagt, þá má treysta AGS til þess að framfylgja þessari stefnu af hörku heilaþveginna bókstafstrúarmanna. Já, og það má líka treysta Gylfa Arnbjörnssyni til að styðja dyggilega við bakið á handrukkaranum!

Fyrsta, brýnasta og kannski mikilvægasta kosningaloforðið mitt, ef ég býð mig fram á næstunni, verður að láta AGS taka pokann sinn og það tafarlaust.

Gott hjá Lilju Mósesdóttur

Húrra fyrir Lilju Mósesdóttur! Hún er manneskja sem skilur hvað er í gangi og hvað er í húfi.