Monday, November 2, 2009

Traust á Íslandi eða traust á AGS?

Meirihluti Íslendinga vantreystir AGS, það er léttir að heyra það, en kemur kannski ekki mikið á óvart. Af hverju kemur ekki fram í fréttinni hvert viðhorf kjósenda VG til AGS er? Það væri fróðlegt að vita það. Það vekur athygli að Steingrímur J. segir "aðkomu sjóðsins hafa verið umdeilda og það sé varla nokkuð sem fólk óskar sér að þurfa að vera í samstarfi við aðila af því tagi sem AGS er." Það eru orð að sönnu, og Steingrímur mætti gjarnan breyta í samræmi við þessi orð, með því að hringja í Franek Roswadowsky í fyrramálið og segja honum að vera kominn úr landi fyrir hádegi, annars hafi hann verra af.

Það er stundum sagt að aðkoma AGS sé "heilbrigðisvottorð". Það er í besta falli umdeilanlegt orðalag. Hlutverk AGS er ekki að hjálpa aðildarríkum að koma undir sig fótunum á nýjan leik, heldur að hjálpa þeim að innheimta skuldir sínar. Þetta er innheimtustofnun, og gengur aðallega út á skilyrði um markaðs- og frjálshyggjuvæðingu -- einmitt það sem okkur vantar helst núna, ekki satt? Heilbrigðisvottorðið sem við fáum, sem skuldarar, er vottorð upp á að við erum með handrukkara sem er með þumalskrúfurnar á okkur og fylgir okkur hvert fótmál. Augljóslega má treysta slíkum skuldara, á sama hátt og maður treystir því að innilæstir fangar eða hlekkjaðir þrælar flýi ekki, eða kýr sem eru bundnar á bás og læstar inni í fjósi.

Það má treysta slíkum skuldara til þess að skera niður langt umfram sársaukamörk, markaðssetja ríkisfyrirtæki og auðlindir, opna landið fyrir erlendri fjárfestingu og standa dyggilega vörð um hagsmuni fjármálaauðvaldsins. Alþjóðlega fjármálaauðvaldsins, vel að merkja. Eða réttara sagt, þá má treysta AGS til þess að framfylgja þessari stefnu af hörku heilaþveginna bókstafstrúarmanna. Já, og það má líka treysta Gylfa Arnbjörnssyni til að styðja dyggilega við bakið á handrukkaranum!

Fyrsta, brýnasta og kannski mikilvægasta kosningaloforðið mitt, ef ég býð mig fram á næstunni, verður að láta AGS taka pokann sinn og það tafarlaust.

2 comments:

  1. Það kom fram að 4% VG fólks treysta AGS. 79% vantreysta.

    ReplyDelete
  2. Aha, sá það ekki. Það eru frekar afgerandi tölur.

    ReplyDelete