Monday, September 12, 2011

Sjafnargata er ekki í Þingholtunum

Þann dag sem einhver fer að hlýða mínum skipunum, mun ég leggja bann við því að fasteignasalar auglýsi eignir þannig að þær séu í Þingholtunum þegar þær eru það ekki. Dæmi: Grettisgata er ekki í Þingholtunum. Ekki Lindargata heldur og ekki Barónsstígur heldur. Og öfugt við það sem segir í auglýsingu í fasteignablaði Fréttablaðsins í dag, þá er Sjafnargata sko ekki í Þingholtunum!

Saturday, September 10, 2011

Noam Chomsky

Ég var heima hjá mér lasinn í gær og komst því ekki á fyrirlestur Noams Chomsky. Gaman hefði verið að sjá eitthvað af honum í Sjónvarpinu. Honum var fléttað örstutt inn í frétt um ellefta september. Og ekki virðist Kastljósinu hafa tekist að fá hann í viðtal. Og ekki minnist Fréttablaðið að hann hafi komið hingað. Hvernig er það, er það ekki fréttnæmt að áhrifamesti stjórnmálagagnrýnandi í heimi troðfylli Háskólabíó?

Fréttablaðið um 11. september

Árásirnar 11. september eru atburður sem er aldeilis ástæða til að fjalla rækilega um nú þegar tíu ár eru liðin frá þeim. Yfirborðsleg umfjöllun Fréttablaðsins stendur ekki undir því. Ætli blaðamaðurinn hafi aldrei heyrt af öllum þeim efasemdum um opinberu söguna sem hafa geisað frá því rykið settist? Það eru margar samsæriskenningar í gangi. Nokkrar geta gengið upp og geta því verið trúverðugar. Fleiri eru ótrúverðugar, þar á meðal opinbera samsæriskenningin, sem er of götótt til að ganga upp.

Svo ég taki bara nokkur dæmi af blaðsíðu 24 í Fréttablaðinu í dag: (1) Ég hef efasemdir um að það hafi verið flugvél sem flaug á Pentagon. Ætli þetta sé ekki mest vaktaða hús í heimi? Af hverju er ekki til mynd sem sýnir að þetta sé flugvél? (2) Ég hef líka efasemdir um að farþegar í vél 93 hafi fengið upplýsingar í gegn um GSM-síma. GSM-símar ná nefnilega ekki sambandi um borð í flugvél á flugi. Ég hef margprófað að hafa kveikt á símanum í flugvél. Hann nær ekki sambandi, ekki einu sinni yfir London eða Kaupmannahöfn. (3) Hvers vegna hrundi WTC7?

Allt pukrið er í meira lagi tortryggilegt. Auk þess sem bæði aðdragandi og eftirmál eru mjög tortryggileg, ef maður veltir því fyrir sér hver hagnist á þessu.