Friday, July 30, 2004

Tilraunastofa í stjórnvaldsleysi

Það er til land þar sem er engin ríkisstjórn.  Það land heitir Sómalía.  13 ár eru liðin síðan stjórnkerfi landsins hrundi, með borgarastríði og hungursneyð, sem kostuðu tugþúsundir mannslífa, eins og sumir muna. 

Sviptivindar ættbálkaerja og stríðsherra hafa leikið landið grátt á þessum tíma.  Landið hefur ennfremur klofnað upp í tvö og hálft land.  Hin eiginlega Sómalía, klofningslandið Sómalíland, og sjálfstjórnarhéraðið Puntland, sem þó er hluti af hinni eiginlegu Sómalíu.  Sómalíland hefur ekki verið viðurkennt sem ríki af neinu öðru ríki, svo ég viti, en hefur reyndar miðað bærilega við að koma sér upp innviðum (infrastrúktúr), auk þess sem verslun um Sómalíland er allblómleg.

Það mun ekki hafa verið fyrr en um aldamótin 1900, að vísir að miðstýrðu ríkisvaldi lét fyrst á sér kræla í Sómalíu.  Þar var á ferð nýlendustjórn Breta og Ítala.  Sómalía varð sjálfstætt ríki 1960.

Hinir 8 milljón íbúar Sómalíu eru frekar einsleitir: Um 85% eru eþnískir Sómalar, en arabar, Bantumenn og fleiri eru samtals um 15%.  Landið býr yfir þónokkrum náttúruauðlindum.  Kol og landbúnaðarafurðir eru meðal helstu útflutningsvara.

Eftir hrun ríkisvaldsins má segja að hver hafi verið sjálfum sér næstur.  Allharður ættbálkarígur upphófst, en ættbálkskennd mun vera sterk meðal Sómala.  Þeir eru það einsleitir, eþnískt séð, að hefðbundinn rasismi og þjóðerniskennd ná ekki að kljúfa þjóðina.  Þá er gripið til ættbálkskenndarinnar í staðinn.  Auk ættbálkanna eru stríðsherrar fyrirferðarmiklir.  Þeirra frægastur var sennilega Mohammed Farrah Aidid (1934-1996).  Barist var/er um ítök eða völd, yfir allt frá góðum vatnsbrunnum upp í heilu landshlutana.  Eins og víðar eru völd stríðsherranna háð áframhaldandi ófriði.

SÞ sendu friðargæslulið til landsins og Bandaríkjamenn sendu hermenn.  Myndin Blackhawk Down fjallar einmitt um afdrifaríkan dag í Mogadishu, þegar Bandaríkjamenn misstu 18 Rangers fallna í árás (reyndar munu vera verulegar rangfærslur í myndinni).  Svo fór að bæði BNA og SÞ drógu lið sitt út úr Sómalíu, og hafa afskipti umheimsins af henni verið næsta lítil síðastliðin 7-8 ár.  Helst er það að nágrannalöndin, einkumEþíópía og Djibútí, láti sig varða málefni Sómala, gjarnan tengt eigin hagsmunapoti.



Hvers vegna vekur Sómalía áhuga minn, af öllum löndum?

Það var að renna upp fyrir mér, að vel má líta á Sómalíu sem tilraunastofu í stjórnvaldsleysi.  Hvernig bera menn sig að, þegar ekkert er ríkisvaldið?

Í Sómalíu binda mjög margir trúss sitt við ættbálkinn sem þeir tilheyra, eins og áður segir, og njóta vissrar verndar fyrir vikið.  Sumir gerast handgengnir stríðsherrum og undirgangast þannig vald þeirra.  Stríðsherrarnir taka verndartolla og vegatolla og eru því undirsátum sínum dýrir í rekstri.  Stærri fyrirtæki hafa, hins vegar, vopnaða menn á sínum snærum, sem gæta öryggis þeirra.  Það er dýrt fyrirkomulag, að hafa menn undir vopnum, svo sums staðar, einkum á stærri þéttbýlissvæðum, hafa umsvifamiklir bisnessmenn tekið sig saman og komið upp sveitum vopnaðra manna, eins konar lögreglu, til að verjast ágangi stríðsherranna.  Hefur það víða heppnast ágætlega, og þegar verndar- og vegatollum sleppir hafa tekjur stríðsherranna minnkað og þar með völd þeirra.  Þessir sömu aðilar, umsvifameiri bisnessmenn, eru aðalhvatamenn þess að á ný verði komið upp nýju miðstýrðu ríkisvaldi.  Í skjóli þess gætu þeir stundað sinn fyrirtækjarekstur óáreittir.  Þessi viðleitni gæti verið að skila árangri, ef eitthvað er að marka fréttir þaðan.  Hafa fulltrúar ættbálka og sumir stríðsherrarnir verið fengnir til fylgilags við nýja stjórn, og ríkisstjórnir Eþíópíu og Djibouti einnig.  Það vill svo til að í dag, 30. júlí, stendur til að bráðabirgðaþingfyrir Sómalíu  verði sett í Nairobi í Kenýa (sjá þessa frétt).

Nýja ríkisvaldinu verður trúlega falið að tryggja öryggi og reisa við innviði samfélagsins, en ólíklegt er að það fari seilist ofan í vasana hjá mönnunum sem setja það saman, valdaklíkum og viðskiptablokkum.  Þessi vísir að nýju ríkisvaldi er enn sem komið er mjög veikburða.  Stríðsherrarnir og ættbálkahöfðingjarnir sem eiga aðild að því eru margir hverjir, ef ekki flestir, stórtækir mannréttindabrjótar.  Amnesty International hefur því séð ástæðu til að hafa orð á hættunni, að hin nýja ríkisstjórn láti sér mannréttindi í léttu rúmi liggja (sjá frétt hér).



Fyrir hrunið 1991 var nokkur iðnaður í Sómalíu, sem einkum fékkst við að vinnslu landbúnaðarafurða.  Margra ára gripdeildir hafa skemmt mikið fyrir, en vélum hefur verið rænt úr verksmiðjum og verkstæðum og seldar sem brotajárn.  Landsframleiðsla á mann er með því lægsta sem þekkist í heiminum.

Þrátt fyrir afleitt ástand á mörgum sviðum hefur mönnum þó tekist sumt.  Viðskipti ganga t.d. ekki jafn illa og halda mætti.  Einn árangursríkur bisnessmaður ljóstraði upp um leyndarmál sitt og komst svo að orði: „Everything is possible in Mogadishu now, everything.  If you have the money and the knowledge, you can do whatever you want.“ (sjá þessa grein).  Meðal fyrirtækja sem hafa borið eftirtektarverðan árangur eru t.d. símfyrirtækja.

Þar sem ekkert er ríkisvaldið eru heldur enginn seðlabanki.  Stærri fyrirtæki gefa út sína eigin peningaseðla (vörupeninga) sem ganga sem gjaldmiðill vegna þess að fólk treystir þeim.  Það er jú, þegar öllu er á botninn hvolft, það sem sker úr um hvernig einum gjaldmiðli gengur, hvort fólk treystir honum eða ekki.

Þar sem ekkert er ríkisvaldið eru ennfremur hvorki lög né opinberir dómstólar.  Sum svæði hafa komið sér upp sínum eigin dómstólum, sums staðar með eigin lögum, annars staðar með gömlu lögunum, sums staðar með íslömsku shari'a-lögunum (langflestir Sómalar eru múslimar) og sums staðar með hefðbundnum reglum ættbálkanna.  Einnig er það algengt, þegar misklíð verður, að öldungar séu látnir miðla málum.



Í Sómalíu er menntun lítil, bæði akademísk menntun og iðnmenntun.  Alnæmi er alvarlegt vandamál þar eins og víðar, og eru vestrænar hjálparstofnanir litnar hornauga af mörgum þegar þær koma og dreifa ókeypis smokkum meðal fólks.  Sú skoðun er útbreidd að skírlífi og einkvæni séu besta vörnin við alnæmi, en smokkar ýti undir lauslæti, sem aftur auki útbreiðslu sjúkldómsins.

Íslam er sterkt afl í samfélaginu, þar sem langflestir eru súnní-múslimar.  Pólítísk umræða einkennist mjög af íslam, ættbálkaríg og þjóðernislegum eða borgaralegum afturhaldshugmyndum.  Á netinu eru sómalskir spjall-vettvangar á ensku, sem hægt er að skoða til að fá tilfinningu fyrir umræðunni, svosem spjall SomaliNet um stjórnmál eða Somalia Online.



~~~~~~~~~

Ég leik mér að hugmyndinnu um að það væri hægt að gera eitthvað reglulega róttækt og framsækið í Sómalíu.  Á 8. áratugnum var til hreyfing sem nefndist Somali Communist Revolutionary Party, en núna mun ekki vera til neinn róttækur, framsækinn vinstriflokkur í Sómalíu.  Minnugur orða bisnessmannsins, „Everything is possible in Mogadishu now, everything,“ velti ég vöngum yfir hvort ekki væri hægt að hlúa að sjálfsbjargarviðleitni fólks, boða meðal þess róttækan vinstriboðskap, en sameina það gegn afturhaldsöflunum sem ráða ferðinni.  Leiða því fyrir sjónir að ættbálkahöfðingjarnir, stríðsherrarnir, borgaralegu bisnessmennirnir og erlendu útsendararnir eru allir með tölu angar af meira og minna sömu valdastéttinni, og að þeir eru sameiginlegir óvinir undirstéttarinnar.  Klofningur undirstéttarinnar er henni til mikillar óþurftar og stendur framförum fyrir þrifum.  Með liðsinni framsækið þenkjandi athafnafólks mætti kannski koma í kring afrekum.

Ég er nú samt svartsýnn á að þessi draumur mundi rætast í alvörunni.  Ítök trúar og ættbálkskenndar eru mjög sterk.  Ég, fyrir mitt leyti, kem flestum Sómölum sennilega fyrir sjónir sem hvítur Vesturlandabúi, alinn á ofdekri og vínarbrauði, kann ekki að vinna og hef aldrei verið svangur.  Hvað ætti ég svosem að vita um hið raunverulega líf?  Auk þess sem hugmyndir mínar mundu líkast til falla í mjög grýttan jarðveg, þá yrði þeim sennilega veitt geysihörð mótspyrna líka, frá afturhaldsöflunum.  Í landi sem á ofgnótt af fáu öðru en Kalashnikov-rifflum getur slík staða verið varasöm.  Þá má ekki gleyma því að Sómalía er efnahagslega vanþróað land og, eins og áður sagði, menntun slæm og landsframleiðsla lítil.  Stétt verkamanna er fámenn, hvað þá iðnverkamanna.  Stór hluti landsmanna eru hirðingjar.



Ég geri mér semsagt engar grillur um að þessi hugmynd sé raunhæf.  En það er víst í lagi að láta sig dreyma.

Thursday, July 29, 2004

Burtséð frá Gretti og Högna heitnum hrekkvísa í Morgunblaðinu er kötturínn minn sennilega víðlesnasti köttur á Íslandi.  Í Fréttablaðinu í hittifyrradag, 26. júlí 2004, var mynd af henni (bls. 17) - að ég held í sjötta skipti, allt í allt.  Frægðarköttur, hmm?

Tuesday, July 27, 2004

Almenningssamgöngur, Norður-Kórea og fleira



Vegna umræðna um almenningssamgöngur upp á síðkastið held ég að ég geri grein fyrir afstöðu minni: Lengi lifi almenningssamgöngur.  Ég er fylgjandi því að almenningssamgöngur veiti þjónustu eins og eftirsóknarverðast getur verið fyrir notendur: Stundvíslega, greiðlega og ókeypis.  Ha, lásuð þið rétt?  Já, ókeypis.  Ef almenningssamgöngur væru ókeypis, þá mundi mun fleira fólk nýta sér þær en gerir það nú.  Ef maður gæti einfaldlega stigið inn í strætisvagninn, þessvegna að aftan, án þess að þurfa að borga, þá er ég viss um að strætisvagnar yrðu vinsælli ferðamáti en þeir eru.  Hvers vegna þætti mér það æskilegt?

Fyrir hvern mann sem tekur strætó í staðinn fyrir að aka á einkabílnum, þá er u.þ.b. einum einkabíl minna á götunni.  Það þýðir minni bensín/díselolíunotkun, minni mengun, minni umferð, minni hætta fyrir vegfarendur, lægri tryggingakostnaður, minna slit á umferðarmannvirkjum og þar með minni viðhaldskostnaður, minna slit á bílaflotanum og að bílaflotinn geti að ósekju verið mun minni en hann er.

Í stuttu máli, það væri þjóðhagslega hagkvæmt.

Ef almenningssamgöngur væru ókeypis og í umsjá sveitarfélaganna eða á annan hátt hluti af samneyslunni, og væru auk þess betur skipulagðar (t.d. með fjölbreyttara og sveigjanlegra leiðakerfi og vagnaflota), þá mundi fólk án nokkurs vafa nýta sér það mun meira en það gerir nú.  Áður nefndur árangur mundi síðan spara samfélaginu svo mikið að sparnaðurinn einn mundi hrökkva fyrir kostnaðinum af því að hafa almenningssamgöngurnar ókeypis, og gott betur.



Ég held að sérstaklega mikil ástæða sé til að sporna gegn mikilli jeppanotkun landsmanna.  Ekki það, að ég sé á móti jeppum í sjálfu sér, síður en svo.  Jeppi er gott og þarft farartæki þar sem hans er þörf.  En jeppi innanbæjar?  Hvaða ástæðu hefur maður til að keyra jeppa ef maður fer aldrei svo mikið sem út af malbikinu?  Stöðutákn?  Stöðutákn sem eyðir miklu eldsneyti, er þungt og skapar óþarfa hættu í umferðinni og óþarfa fyrirferð líka.  Ég held að það þyrfti að skoða það, hvernig hægt væri að fá fólk til að nota farartæki í samræmi við það sem það er að fara.

********************

Vegna undirtekta við síðasta innlegg mitt ætla ég að gera nánari grein fyrir afstöðu minni til Norður-Kóreu og málefna hennar.

Eins og sjá má tók ég það fram, að vottaði ekki fyrir því hjá mér, að hafa samúð n-kóreskum stjórnvöldum.  Þau hafa gersamlega rangt fyrir sér í mörgum grundvallarmálum (mannréttindi, herská utanríkisstefna o.fl.), en það er ekki þar með sagt að sjónarmið þeirra séu óskiljanleg.  Eðlilega vilja þau tryggja stöðu sína og völd og þar með hljóta þau að streitast gegn ásælni óvina sinna, svosem Bandaríkjamanna.  Annars hefur vígbúnaðurinn gegn Norður-Kóreu minna að gera með Norður-Kóreu en með Kína.  Hermenn í Suður-Kóreu og Japan gegna fyrst og fremst hlutverki fælingarmáttar gagnvart Kínverjum, en N-Kórea gegnir líka hlutverki fyrir Kínverja.

Ég held að það væri skásti kostur að normalisera tengsl umheimsins við N-Kóreu.  Ég hugsa að borgarar landsins mundu taka réttlætið í eigin hendur ef þeir fengju tækifæri til þess.  Aðstæður eins og ríkja núna spila beint upp í hendurnar á n-kóreskum stjórnvöldum þar eð þau geta í skjóli þeirra komið fram vilja sínum við þegnana í nafni öryggis og nauðsynjar.  Ásakanir Bandaríkjamanna um mannréttindabrot eru að líkindum meira og minna réttmætar.  Hins vegar hafa ásakanirnar lítið með mannréttindabrotin að gera í sjálfu sér.  Mannréttindi eru bara skiptimynt í baráttunni um hagsmunina.  Það sést af því hvernig Bandaríkjastjórn styður dyggilega við stjórnvöld sem brjóta grimmilega á mannréttindum.  Má þar nefna Saúdi-Arabíu, Egyptaland og Ísrael, auk þess sem Bandaríkin sjálf brjóta grimmt á manréttindum jafnt erlendis sem heima fyrir.  Þá má minnast keisarans í Íran, sem steypt var 1979, sem var einhver mesti fantur sem sögur fara af og mun hafa átt heimsmet í mannréttindabrotum á sinni samtíð.  Fjölda annarra dæma mætti tína til.

********************

Það eru nokkrar bækur sem er að verða ansi brýnt að ég lesi.  Ég hef verið að velta því fyrir mér að taka mér frí frá öðru en lestri í nokkra daga.





Friday, July 23, 2004

Bandaríkjaþing samþykkir North Korea Human Rights Act samhljóða.  En fallegt af þeim.  Hvað ætli Bandaríkjaþing hafi í alvörunni mikinn áhuga á mannréttindum í Norður-Kóreu?  Eða, réttara sagt, á mannréttindum yfirleitt?  Ef hann væri mikill, þá getur maður hugsað sér fimmtíu eða sextíu staði sem þeim væri í lófa lagið að taka til á, þótt þeir geri það ekki.

Mannréttindamál eru skiptimynt í valdabaráttu.  Þau eru notuð í þessu máli vegna þess að þau vinna gegn óvininum N-Kóreu.  Annars væru þau ekki nefnd á nafn.

-=-=-=-=-=-=-=-=-=-=-=-=-

Finnst fleirum en mér eins og það sé komið spennufall eftir fjölmiðlamálið?  Gúrkutíð gengin í garð, hmm?

Flokkshollusta er nú meiri meinsemdin.  "Sjálfstæðisflokkurinn er minn flokkur.  Einhverjir galgopar og gosar hafa náð forystunni en þetta er áfram flokkurinn minn og ég læt þá ekki taka hann af mér!  Þess vegna kýs ég hann áfram!" -- Þetta sagði mér roskinn karl sem ég þekki.  Fyndið að sjá hvernig menn geta verið á móti stefnu flokksins, jafnvel harðir stjórnarandstæðingar, en áfram dyggir kjósendur!  Svona er það, þegar flokkur verður að blæti, trúarbragði eða gömlum vana.

Ég hef visst gaman af því, þegar "frjáls"hyggjumenn tala um að lækka skatta og nefna í því samhengi lönd eins og Írland, Lúxemborg o.fl.  Ef fáein lönd lækka skatta á fyrirtæki niður úr öllu valdi, þá laða þau til sín fjármagn, já, og þetta mikla fjármagnsaðsóp hefur góð áhrif á efnahagslíf viðkomandi lands (eða, er það ekki annars?) -- en ef þetta trend breiðist út snýr dæmið öðruvísi við.  Þá keppast lönd við að lækka skatta á fyrirtæki til að laða þau til sín frá hinum löndunum, og slík keppni, getur hún nokkurs staðar endað nema með algerum skattfríðindum fyrirtækja og fjármagnseigenda?  Það er einmitt lóðið: Lækka skatta á þá ríkustu þangað til þeir þurfa ekki að borga neina skatta lengur.

Það er samfélagssáttmáli um að hjálpa þeim sem þarfnast hjálpar.  Það kostar vitanlega peninga.  Er ekki hugmyndin að brúsann borgi undirstéttin, stétt launþega?  Stétt launþega, sliguð af byrðum, eða þá hver og einn svamlandi eða drukknandi einn, arðrændur á einstaklingsgrundvelli, meðan þeir ríkustu dansa milli regndropanna.  Draumsýn hægrimannsins.  Lögga og her vernda réttindi þeirra ríkustu.  Frábært.

Wednesday, July 21, 2004

Í alvöru lýð-ræði eru það hinir almennu borgarar sem eru uppspretta valdsins og stjórnmálamenn eru fulltrúar þeirra eða þjónar, ekki herrar.  Þótt ríkisstjórnin hafi haft ósigur í fjölmiðlamálinu hlýtur það samt að vekja menn til umhugsunar, að svona mál skuli koma upp, þar sem augljóslega eru frekar fáir menn sem telja sér stætt á því að reyna að troða löggjöf ofan í kokið á þjóðinni, hvort sem henni líkar betur eða verr.  Það kann að vera rétt að endurskoða stjórnarskrána en reyndar held ég, fyrir mitt leyti, að hinir háu herrar séu ekki sérstaklega líklegir til að gera mjög framsæknar breytingar á henni.

Hvaða breytingar vildi ég sjá gerðar á henni?

Ég mundi meðal annars vilja sjá tafarlausan aðskilnað ríkis og kirkju.  Ég mundi vilja sjá valdi hins opinbera dreift eins og kostur er.  Sumu til sveitarfélaga, sumu í þjóðaratkvæðagreiðslur, sumt mætti útfæra á einhvern annan hátt.  Sumt mætti hreint og beint leggja niður.

Sagt er að þjóðaratkvæðagreiðsla kosti 200 milljónir.  Ef það skiptist niður á kvartmilljón manna, þá eru það um 800 krónur á mann.  Með öðrum orðum, það kostar okkur jafn mikið að halda eina þjóðaratkvæðagreiðslu og að fara einu sinni í bíó.  Er það svo hræðilega há upphæð?

-------------------------------------

Hannes Hólmsteinn skrifar smá innlegg í Morgunblaðið í dag, sennilega það sjötugasta og sjöunda það sem af er sumri.  Mér er óskiljanlegt að þessum manni skuli vera hampað eins og snillingi meðan maður eins og Elías Davíðsson er í ritbanni.  Nú hefur Morgunblaðið víst rétt til að ráða hvað það birtir og hvað ekki.  Mér finnst það hins vegar undarleg vinnubrögð að gera svona mikið úr því þegar Hannes eys eiturspýjum á báða bóga.  Smábarnalegar og ómálefnalegar árásir á Ólaf Hannibalsson eru til að mynda ekki háskólaprófessor sæmandi.  Hvað sem um Ólaf má segja hlýtur það altént að vera grundvallarkrafa, þegar svona þjóðfélagsumræða er annars vegar, að lágmarksvirðingar gæti í skrifum manna, eða hvað?  Hannes á ekki í fórum sínum svör gegn Ólafi og hvað gerir hann?  Hann breytir bara um umræðuefni.  Ef út í það er farið má segja að Hannes hafi ekki beinlínis manna mest efni á persónulegu skítkasti.

-------------------------------------

Í fréttum RÚV:

SÞ: Ísraelar eiga að rífa múrinn

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti með yfirgnæfandi meirihluta, ályktun í gærkvöld þar sem Ísraelum er skipað að rífa aðskilnaðarmúrinn, sem þeir eru að reisa kringum lönd Palestínumanna. 

Ályktun um að múrinn 640 kílómetra langi,  sé brot á alþjóðalögum og ólöglega reistur á herteknu landi, var samþykkt með  atkvæðum 150 aðildarríkja, gegn sex en 10 sátu hjá.


Sé skyggnst á heimasíðu Sameinuðu þjóðanna sést þetta:

Voting against the measure were Australia, the Federated States of Micronesia, Israel, the Marshall Islands, Palau and the United States. The countries that abstained were Cameroon, Canada, El Salvador, Nauru, Papua New Guinea, the Solomon Islands, Tonga, Uganda, Uruguay and Vanuatu.



Þetta mundi, á máli neoconservative Bandaríkjastjórnar, sennilega kallast "bandalag" eða "víðtæk samstaða" eða eitthvað þvíumlíkt.  Athygli vekur að á þessum lista er Ísland ekki.  Það þýðir að Ísland hefur, einu sinni, greitt atkvæði á móti aðskilnaðarmúrnum.  Það er nú óvenjulegt en gott.

Eins og fram kemur í frétt Morgunblaðsins er fyrirhuguð lengd aðskilnaðarmúrsins um 640 kílómetrar að lengd.  Ummál Vesutrbakkans í heild er 404 kílómetrar.  Landamæri Vesturbakkans og Ísraels eru allt í allt 307 kílómetrar.  Múrinn er meira en tvöföld sú lengd.  Enn og aftur bendi ég fólki á að skoða þetta góða kort, sem sýnir legu múrsins og hvernig honum er ætlað að skera Vesturbakkann í smáparta.

Ísraelar ætla að sjálfsögðu ekki að láta þessa skýru niðurstöðu hagga við sér.  Stigamannaríkisstjórn Sharons lætur ekki kvikindi eins og SÞ eða „mannúðarsjónarmið“ [les: áróður og samsæri kommúnista og hryðjuverkamanna] segja sér fyrir verkum, en heldur ótrauð sínu striki.  Með væntanlegum stuðningi hins friðelskandi Verkamannaflokks.  Úff...

Arafat virðist vera kominn í hann krappan á Gazaströndinni.  Það er enginn leikur þegar verður til valdatóm.  Mismunandi fylkingar bítast um að fylla upp í það.

-------------------------------------

Paul Harris skrifar um argentínskt spil sem er kannski keimlíkt Matador, en snýst um að maður leikur land og á að safna sem minnstum skuldum í togstreitu við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn.  Þetta er spil sem mig langar að prófa!  Óska hér með eftir spænskumælandi sjálfboðaliða sem vill kaupa þetta spil, þýða það á íslensku og spila það við mig!

-------------------------------------

Hin umdeildu samtök PETA sýna myndband, tekið upp á laun, sem sýnir illa meðferð kjúklinga á kjúklingabúi í Bandaríkjunum.  Ógeðfellt, svo ekki sé meira sagt.

Monday, July 19, 2004

Ef annað skyldi hafa hvarflað að einhverjum, þá vil ég aðskilnað ríkis og kirkju.  Því fyrr, þess betra.  Stjórnmál og trúarbrögð eiga ekki samleið, aldrei, aldrei!  Sama hvort stjórnvöldin eru íslömsk, bókstafstrúar kristin, kaþólsk, hindúísk eða hvaðeina.  Tafarlausan aðskilnað ríkis og kirkju!  Ég tel trú vera á bilinu frá því að vera gagnslaus yfir í að vera skaðleg.  Ég aðhyllist trúfrelsi, ekki spurning, en trú og pólítík ættu að vera stranglega aðskilin.  Svona finnst mér að þetta ætti að vera: Afhelgað og veraldlega ríkisvald skipti sér ekki neitt af trúarbrögðum fólks eða öðrum lífsskoðunum.  Þeir sem telja lífsskoðanir sínar eiga erindi til annarra gera það á eigin forsendum, annað hvort sem einstaklingar eða hópar, eftir því sem þeim þykir tilefni til, á vettvangi grasrótarinnar og óháð afskiptum ríkisvaldsins.  Ég veit að ég er ekki einn um þessa skoðun og held reyndar að skoðanasystkinin séu býsna mörg.  Þarna væri lag að koma á laggirnar þverpólítísku þjóðarátaki um aðskilnað ríkis og kirkju.  SARK - Samtök um aðskilnað ríkis og kirkju - eru að vísu til nú þegar, en mér þætti kannski ástæða til víðari regnhlífarsamtaka.

--------------------------------

Á Múrnum er þessi skemmtilega grein sem ég hvet fólk til að lesa: Matadorkynslóðin.

--------------------------------

Ljótu fréttirnar frá Palestínu eins og oft áður.  Ég held að það hafi ekki verið sterkur leikur hjá Arafat að skipa þennan frænda sinn.  Þessir menn, sem gerðu aðsúg að lögreglu, hertóku eitt hús heimastjórnarinnar og hvaðeina, voru sagðir tilheyra hópi sem "tengdist Fatah-hreyfingu Arafats".  Ég held að eitt sé ljóst: Fatah-hreyfingin er ekki strengjabrúða Arafats ef menn hennar ráðast á menn Arafats sjálfs.  Fatah-hreyfingin hefur ekki getað haldið aðalfund í fjölda ára og raunveruleg völd innan hreyfingarinnar endurspeglast því ekki í embættum hennar.  Ég get ekki sagt hvernig niðurstöðurnar yrðu ef stokkað væri upp í forystu Fatah eftir vilja almennra félagsmanna.  Hins vegar get ég sagt eitt þeim sem ekki vita: Fatah-hreyfingin er ekki bara "hreyfing Arafats" eins og mætti halda af fréttaflutningi.  Fatah er stjórnmálaflokkur, sá stærsti meðal Palestínumanna.  Er Sjálfstæðisflokkurinn "hreyfing Davíðs Oddssonar"?  Skárra væri það nú.  Þarna veikist líka ein tengingin, sem mjög er haldið að okkur: Um Al-Aqsa herdeildirnar, sem ávallt eru sagðar "tengjast Fatah, hreyfingu Arafats".  Ég dreg í efa að Arafat ráði miklu um gang mála innan Al-Aqsa herdeildanna.

--------------------------------

Ekki eru heldur skemmtilegar fréttir frá Íraq.  Þarna getur að líta quislingastjórnina í essinu sínu, að gera það sem til er ætlast af henni: Ljá stríðsglæpum Bandaríkjamanna lögmæti á yfirborðinu.  "Allawi heimilar loftárásir á Fallujah" - hvað er verið að segja með þessu?  Fyrir það fyrsta, Allawi er bandarískur leppur.  Þegar er sagt að Allawi heimili eitthvað mætti skipta "Allawi" út fyrir "Bandaríkjastjórn": Bandaríkjastjórn heimilar loftárásir á Fallujah.

Alltaf þegar eru gerðar atlögur að borgurum Fallujah, þá er það undir yfirskyni þess að verið sé að ráðast á "jórdanska hryðjuverkamanninn Abu Mussab al-Zarqawi".  Ég er ekki einu sinni sannfærður um að þessi maður sé til, til að byrja með.  Ef hann er til í alvörunni, þá tel ég sirka 75% líkur á að hann sé bandarískur leppur líka.  Alla vega virðist allt sem hann gerir spila beint upp í hendurnar á Bandaríkjamönnum.  Sú alda ógnarverka sem er eignuð honum gefur Bandaríkjaher "heimild" til að fara sínu fram í nafni óræðs "öryggis".

Hvað með Fallujah?  Þessi borg varð hrottalega fyrir barðinu á bandaríska hernum fyrir nokkrum mánuðum.  Tveir bandarískir "öryggisverktakar" (les: málaliðar) voru drepnir.  Eftir því sem ég kemst næst voru þessir menn ótíndir hrottar sem hefðu aldrei átt að koma til Íraq til að byrja með.  Leitt að þeir hafi verið drepnir, en það er nú samt ekki eins og þetta hafi verið óbreyttir borgarar.  Þungvopnaðir menn, þrautþjálfaðir í hverskyns ofbeldi og ráðnir til að lúskra á heimamönnum.  Ef maður dúsar í fangelsi að ósekju og fangavörður skemmtir sér við að misþyrma honum, hver láir þá fanganum fyrir að reiðast??

En þetta var ekki bara árás á tvo gaura.  Þetta var árás á tvo bandaríska gaura sem gengu erinda heimsveldisins.  Með öðrum orðum, þetta var árás á heimsveldið.  Þar sem drápin nutu almennrar hylli Fallujah-manna var ekki annað hægt en sýna þessum óstýrilátu heiðingjum í tvo heimana.  Við tóku margra daga bardagar þar sem ekkert var gefið eftir.  Í fréttum var látið líta svo út að um frekar fámennt lið útlendinga og Zarqawi-manna væri að ræða, auk saddamista, en í rauninni vörðu íbúar Fallujah borgina sína í örvæntingu fyrir innrásarhernum og andspyrnan var almenn.  Gekk þeim vörnin nægilega vel til þess, að bandaríski herinn féllst á málamiðlanir.  Hvernig datt íbúum Fallujah í hug að þeir væru lausir allra mála?  Kannski datt þeim það aldrei í hug.

Ögrun við yfirburði Bandaríkjanna þarf að svara með viðeigandi hætti: Ofbeldi.  Það var bara tímaspursmál hvenær Fallujah yrði hegnt fyrir að hafa streist á móti innrásarhernum.  Fyrir að hafa barist gegn yfirgangi og fyrir þjóðfrelsi.

 

Í millitíðinni er írösq leppstjórn komin til sögunnar.  Allawi quislingur hefur að nafninu til vald til að "heimila" fyrir hönd írösqu þjóðarinnar, m.a. að Bandaríkjamenn fái olíuvinnslu á silfurfati, auk annarra samninga sem þeir munu hagnast verulega á, og að þeir berji niður mótspyrnu í landinu.  Að nafninu til er það því forseti Íraqs sem er að reyna að halda friðinn í ríkinu, þegar "hryðjuverkamaðurinn Zarqawi" espar til "óeirða" og "brota gegn valdstjórninni".

Fær einhver annar en ég óbragð í munnunn af þessu?  Sumir segja að árásin á Fallujah eigi kannski mest skylt við árás ísraelska hersins á Jenín-flóttamannabúðirnar í apríl í hittifyrra.  Alla vega lærðu Bandaríkjamenn af ísraelskum liðþjálfum og horfðu á kennslumyndbönd gerð um árásina á Jenín.

Ég hef gengið um rústir flóttamannabúðanna í Jenín.  Þær hlutu örlög sem ég óska engu byggðarlagi.

 

Fallujah er skotmark Bandaríkjamanna, ekki vegna þess að Zarqawi sé þar eða Ósama eða David Koresh.  Íbúarnir streittust á móti þegar átti að misnota þá.  Dauðasök.

--------------------------------

 

Franska stelpan sem tilkynnti lögreglu um árás norðurafrískra gyðingahatara á sig viðurkennir að hún hafi verið að skrökva.  Fyndin skröksaga?  Skondin uppákoma?  Lesið þessa grein eftir heiðursmanninn hann Uri Avnery og sjáið hvað ykkur finnst.

Sunday, July 18, 2004

Þessi skoðanakönnun bendir til þess að meirihluti Bandaríkjamanna telji núna að Bandaríkin hefðu aldrei átt að ráðast á Íraq.  Betra er seint en aldrei, býst ég við.  Á sama tíma gefur John Kerry út yfirlýsingar sem styggja ekki valdastéttina í Bandaríkjunum: Bandaríski herinn verði í Íraq ekki skemur en til 2008 og hann kveðst reiðubúinn fyrir "any political move".  Andófsmennirnir Michael Moore og Noam Chomsky hafa báðir lýst stuðningi við að Kerry nái kjöri -- þ.e.a.s. hvatt fólk til að kjósa hann, meinandi að með kjöri hans til forseta fengi hreyfingin gegn stríði útrás og nokkurn hljómgrunn.  Kerry er ekki friðarsinni og ef hann nær kjöri mun hann ekki sitja á friðarstóli frekar en forverar hans.  Því miður.  Stuðningur málsmetandi andófsmanna við hann er afturhaldssamur og grefur undan trúverðugleika þeirra sem málflytjenda framsækni og raunverulegra umbóta.

Þegar ég tala við Bandaríkjamenn hvet ég þá til að veita Bill Van Auken og Jim Lawrence brautargengi í kosningunum.  Þeir bjóða fram fyrir Socialist Equality Party og eru langbesti kostur sem ég hef séð.  Kannski ekki fullkomnir en ekki hef ég séð annan kost betri.

-------------------------------------

Naumast eru það fréttirnar frá Palestínu.  Maður hlýttur að reka upp stór augu, þegar mannræningjar eru farnir að setja heimastjórninni skilyrði og spilltir embættismenn (?) eru fyrst reknir þegar mannræningjarnir krefjast þess?  Nú er palestínska heimastjórnin ekki beysin og hefur reyndar aldrei verið.  Ég er mjög efins um að hún hafi nokkra burði til að koma almennilegum umbótum í höfn, af ýmsum ástæðum.  En það keyrir nú um þverbak ef það er sem virðist, að framsæknar uppstokkanir og umbætur komi frá mannræningjum?  Ég hef ekki nákvæmar fréttir af Frökkunum sem var rænt, en mér þykir bæði einkennilegt og sérstaklega óskemmtilegt ef erlendir hjálparstarfsmenn eru farnir að verða fyrir barðinu á vígamönnum í herbúðum Palestínumanna.  Reyndar svo einkennilegt og óskemmtilegt að ég hlýt að spyrja mig, hvort það hafi verið Palestínumenn eða etv. einhverjir aðrir, sem áttu upptökin að því?  Ekki það, að auðvitað eru svartir sauðir meðal Palestínumanna.

Ísraelar fara annars mikinn í Beit Hanoun á Gazaströndinni um þessar mundir.  Brjóta hús og limlesta fólk og drepa, og skutu nú síðast á bílalest frá Sameinuðu þjóðunum, sem var á leið til borgarinnar með hjálpargögn.

Talandi um Palestínu, þá vil ég benda fólki á að kíkja á þessa skýringarmynd sem Palestine Monitor býður upp á á heimasíðu sinni.  Á myndinni sjást landakort sem sýna landsvæðið sem Palestínumönnum hefur verið ætlað í gegn um tíðina, skýrt og skorinort.

-------------------------------------

Ég var annars að reka augun í opinbera norðurkóreska heimasíðu -- þrátt fyrir alla galla norðurkóresku stjórnarinnar, þá get ég ekki varist áhuga á þessu óvenjulega landi.

Norður-Kórea er þrælvel vopnum búin og getur á augabragði skotið stóra hluta Japans og Suður-Kóreu í sand og ösku.  Sumar eldflaugar þeirra (Taepo-dong-3) drífa alla leið til Alaska.  Norðurkóreski herinn ku vera sá fimmti fjölmennasti í heimi og er ógnvænlegur.  Í stuttu máli sagt, Norður-Kórea er óárennileg.  Bandaríkin geta ekki hætt á það að ráðast á hana með beinum hætti, bæði vegna vígbúnaðar Norðurkóreumanna, og einnig vegna Kínverja.  Kínverjar eiga hagsmuna að gæta í Norður-Kóreu og það er þeim mikilvægt að ríkið hrynji ekki saman.  Reyndar er hættuleg Norður-Kórea líka gagnleg Bandaríkjamönnum.  Meðan hún er trúverðug ógn geta þeir skýlt sér á bak við hana til að viðhalda massívri hernaðarviðveru í A-Asíu og halda Kínverjum í skefjum án þess að vera opinberlega í vígbúnaðarkapphlaupi við þá.  BNA eru með Kína í sigti í praxís þótt þeir séu það ekki að nafninu til.

Ef Bandaríkjamenn eða aðrir óvinir Norður-Kóreumanna fá nóg af ógninni sem stafar af stigamannaríkinu, hvaða leiðir eru þá færar til að draga úr því tennurnar?  N-Kóreumenn hafa lýst því yfir að þeir mundu líta á viðskiptabann sem jafngildi stríðsyfirlýsingar.  Beint stríð er svo gott sem útilokað vegna mutually-assured-destruction ástands á svæðinu.  Eina leiðin sem ég get ímyndað mér að sé fær er að útsendarar mundu komast í innstu raðir stjórnkerfisins og hersins og gera hallarbyltingu, og koma svo í kring þeim breytingum sem yfirmenn þeirra vildu.  Ég held að þetta séu sennilegustu lyktir á hnútnum í Kóreu.  Það þyrftu ekki einu sinni að vera útsendarar Bandaríkjamanna.  Rússar eða Kínverjar gætu allt eins komið til greina.  Ég hugsa að Kim Jong-il sé mjög meðvitaður um þessa hættu og stundi hreinsanir í röðum manna sinna af miklum móð til að afstýra henni.  Hver sagði að það gæti ekki gert mönnum gagn að vera vænisjúkir?

1999 fór þýski læknirinn dr. Norbert Vollertsen til Norður-Kóreu til að leggja heimamönnum lið ef henn gæti.  Þar dvaldi hann í 18 mánuði, varð margs vísari og miðlaði af óhugnanlegri reynslu sinni.  Fróðlega grein um hann og störf hans má lesa hérna.  Auk þess bendi ég áhugasömum á langa en mjög fróðlega ferðasögu Bandaríkjamanns sem fór til N-Kóreu og hafði ýmislegt um hana að segja.

Wednesday, July 7, 2004

Alveg eru kostulegar brellur ríkisstjórnarinnar með fjölmiðlafrumvarpið. Veruleikafirringin er algjör. Davíð Oddsson lætur eins og naut í flagi, ölvaður af valdhroka og samdauna embætti sínu. Meira að segja G.W. Bush hefur orð á því að hann sé "fastur fyrir og fylginn sér" og "mjög ákveðinn"!

Ég kenni í brjósti um pólítíska andstæðinga mína á hægri vængnum, þ.e.a.s. þá þeirra sem láta píska sig til hlýðni. Ég held að með hliðsjón af því, hvernig ég hallast í pólítík, hafi ég efni á að segja þetta: Það kann ekki góðri lukku að stýra þegar þarf að lemja menn til að halda sig á línunni, hvort sem línan er gefin í Kreml eða Valhöll. Þegar farið er að láta menn tala opinberlega þvert gegn betri vitund, samvisku og sannfæringu, þá er illt í efni.

Það skal enginn segja mér að Sjálfstæðismenn almennt séu hrifnir af þessari aðferð, að skella fram ljótu frumvarpi og ætla sér með ljótum brellum og aflsmunum að koma því í kring. Núna, sem oftar, er ég því feginn að hafa hoppað af lest Sjálfstæðisflokksins á sínum tíma.

Það er reyndar fróðlegt að fylgjast með um þessar mundir, því ríkisstjórninni gengur svo óvenjulega illa að sveipa sitt sanna eðli tjásulegri dulu lýðræðisins eða auðmjúkrar þjónkunar við almenning. Óvenjulega illa. Auk þess gengur óvenju illa hjá ríkisstjórninni að þykjast reka heiðarlegan erindisrekstur í þingsölum.

Ríkisvaldið er verkfæri valdastéttarinnar og borgaralegur stjórnmálaflokkur sem keppir að áhrifum er fulltrúi fyrir straum eða strauma í valdastéttinni, fyrir valdablokkir og hagsmunahópa. Sjálfstæðisflokkurinn er fulltrúi sægreifa og heildsala, meðal annarra. Um þessar mundir þjónar hann, eins og endranær, dyggilega þeim sem stjórna honum, og þar með þeim hagsmunum sem þeir standa fyrir en ekki hagsmunum þess hóps sem í daglegu tali kallast þjóðin. Andspænis þeim stendur önnur valdablokk, hið rísandi veldi Baugsfeðga. Innbyrðis skylmingar borgarastéttarinnar eru háðar fyrir óvanalega opnum tjöldum, og það er fróðlegt að fylgjast með.



-------------------------



Félagið Ísland Palestína og Græna ljósið bjóða til sérstakrar forsýningar fimmtudaginn 8. júlí klukkan 20:30 í Háskólabíói á kvikmyndinni Divine Intervention. Miðasala rennur óskert til neyðarsöfnunar FÍP. Ég hvet fólk að sjálfsögðu til að fjölmenna og taka vini sína með. Ég hef beðið eftir þessari mynd með eftirvæntingu. Burtséð frá því hvaðan hún kemur og um hvað hún fjallar, þá ku hún vera listavel gerð, og hefur enda unnið til verðlauna og verið bönnuð í Ísrael. Nánari upplýsingar hérna.



-------------------------



Nokkrar ábendingar um áhugavert lesefni:



* Lenín: Sósíalismi og trúarbrögð.



Frá World Socialist Web Site:

* Frábær og analýtísk grein um sýndarréttarhöldin yfir Saddam Hússein;

* Sígild grein James P. Cannon um þjóðhátíðardag Bandaríkjanna og Karl Marx.



Frá Power and Interest News Report:

* Readjustment to American Weakness: Signs of a Power Vacuum;

* The Weakness in the White House: The President.



Frá AlterNet.org:

* The Progressive Case for Patriotism;

* Vitnisburður um þjóðarmorð í Súdan;

* Úttekt á umhverfisstefnu Bush-stjórnarinnar.



-------------------------



Í fréttum:

* Össur lætur skína í, með hverjum hann hefur áhuga á að vinna - og þar með hvaða stjórnarmynstri má búast við ef Samfylkingin fær mikið fylgi?

* Stjórn Norður-Kóreu varar þegna sína við skaðlegum áhrifum af smygluðum Biblíum og áróðri kapítalista;

* Ratzinger kardínáli bannfærir John Kerry óformlega.

Friday, July 2, 2004

Þú færð sanngjörn réttarhöld og svo verðurðu hengdur.



-- Hrói Grænbaun við Lukku-Láka í Rangláta dómaranum



Ég er einn þeirra sem líst ekkert á þessi sýndarréttarhöld yfir Saddam Hussein. Til að afstýra ásökunum þá tek ég það fram að það er ekki vegna þess að mér finnist Saddam Hussein svona æðislegur. Það er vegna þess að ég aðhyllist svokölluð "mannréttindi" og tel þau vera universal - það er að segja að þau gildi um alla, alltaf. Réttindin sem Bandaríkin sýna Saddam Hussein eru sömu mannréttindi og ég get vænst af þeirra hálfu, sömu mannréttindi og hver sem er getur vænst af þeirra hálfu.

Sá sem þjónar ekki hagsmunum bandarísku valdastéttarinnar getur búist við viðeigandi ráðstöfunum. Ef Saddam hlýtur ósanngjörn endalok geta aðrir ekki átt von á sanngjarnari endalokum ef þeir skyldu ekki kæra sig um að þjóna bandarísku valdastéttinni.



Hægt er að lesa fyrsta hluta réttarhaldanna, m.a. hér.



Alþjóða stríðsglæpadómstóllinn í Haag væri réttasti vettvangurinn til að rétta yfir Saddam, býst ég við. Ef leitað er að sanngjörnum eða óhlutdrægum dómara, er þá ekki vafasamt að leita hans í hópi óvina sakborningsins?



Ef sá sem etur kappi við bandarísku valdastéttina bíður lægri hlut getur hann, eins og aðrir sem bíða lægri hlut, átt von á réttlæti sigurvegarans. Flóasirkus er sjónhverfing: Hann er sirkus, en það eru engar flær í honum. Eins er því farið með réttlæti sigurvegarans: Það er sigurvegarans, en það er ekkert réttlæti.