Saturday, November 14, 2009

Þjóðfundur

Þótt væntingar mínar til Þjóðfundar séu jarðbundnar, þá verður nú samt fróðlegt að sjá hvort eitthvað markvert kemur út úr honum. Þótt ég hafi ekki fengið boð um að sitja hann, þá ákvað ég nú samt að leggja mitt af mörkum og fór í morgun og stóð fyrir framan Laugardalshöll við annan mann meðan flestir þátttakendurnir tíndust inn. Við vorum með sitthvort skiltið: "Höfnum hernaði" stóð á öðru og "Hernaður er andstæður grunngildum Íslendinga" á hinu. Flestir létu okkur afskiptalausa, sumirr kinkuðu vingjarnlega til okkar kolli, og nokkrir einstaklingar atyrtu okkur, á frekar lágstemmdum nótum. Það var nú skrítið. Ég meina, að það sé ennþá til fólk á Íslandi sem finnst hernaður vera sjálfsagt mál.
~~~ ~~~
Sumir héldu að við værum steingerfingar úr fortíðinni, við vorum t.d. stundum spurðir hvort þetta væri ekki tímaskekkja. Hvort hernaði á Íslandi hefði ekki lokið þegar ameríski herinn fór. Við bentum þeim þá á að þetta snerist ekkert bara um Ísland. Hvað með þátttöku Íslands í hernaði í Írak, Afganistan eða Kosovo? "Æjá, " sagði þá fólk. Æ já, Írak. Gleymdum því.

No comments:

Post a Comment