Wednesday, January 23, 2013

Varnarlínur vegna ESB-viðræðna

Í síðasta tölublaði Blaðs stéttarfélaganna (sem SFR og St.Rv. gefa út) birtist grein eftir mig, sem nú er einnig komin á Eggina: Varnarlínur vegna ESB-viðræðna.

Friday, January 18, 2013

Viðtal við Þorvald á Smugunni

Ég vek athygli á viðtali við Þorvald, sem er nýbirt á Smugunni: Alþýðufylkingin ætlar að sækja um listabókstaf -- stefnt að framboði á landsvísu.

Lesið líka stefnuskrá Alþýðufylkingarinnar.

Tuesday, January 15, 2013

Alþýðufylkingin kynnir sig

Alþýðufylkingin, sem stofnuð var síðastliðinn laugardag, er komin með bloggsíðu, þar sem má lesa stofnályktun og ályktun stofnfundar, auk laga og stefnuskrár. Stefnuskráin verður reyndar ekki fullfrágengin fyrr en á framhaldsstofnfundi í febrúar.
Setjið ykkur í samband ef þið hafið áhuga: althydufylkingin@gmail.com

Friday, January 4, 2013

Nánar um Gamla sáttmála og Nýja sáttmála

Á gamlársdag bloggaði ég um 750 ára afmæli Gamla sáttmála og stakk í leiðinni upp á að ESB-samningur yrði kallaður Nýi sáttmáli. Agli Helgasyni þótti uppástungan "hálf sorgleg" en Páli Vilhjálmssyni virtist lítast betur á hana.

Nú var þessi bloggfærsla stutt og ekki til þess fallin að fara djúpt í saumana, en henni var ekki ætlað slengja bara fram einhverju smellnu slagorði. Ég meina það, að ESB-samningurinn ætti að heita Nýi sáttmáli. Og nú er ég búinn að skrifa grein þar sem ég útskýri það nánar. Gjörið svo vel:

Gamli sáttmáli, Nýi sáttmáli og valkostur fyrir alþýðuna

Tækifærissinnum hegnt

Vinstri-grænum hegnist fyrir tækifærisstefnuna. Vinstrisinnað fólk vill kjósa stjórnmálaflokka með vinstrisinnaða stefnu. Flokkur sem þykist vera andvígur ESB-aðild, en styður samt umsókn, glatar trausti sem er ekki svo árennilegt að endurheimta. Hvað þá þegar sami flokkur er búinn að sitja og standa eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn býður. Eða hefur barist á hæl og hnakka fyrir því að koma IceSave-skuldum á íslenska ríkið. Eða endurreist fjármálakerfi kapítalismans. Eða sett stefnuna á aukna erlenda fjárfestingu.

Thursday, January 3, 2013

Áramótavísa

Þessi orti sig sjálf áðan:

Lítil átti áramót,
ekki fyndið skaupið,
lítið snæddi og lítil bót
að lítið fékk í staupið.

Tuesday, January 1, 2013

Áramótaávarp forsetans

Í gærkvöldi horfði ég á síðasta áramótaávarp Hu Jintao, fráfarandi forseta Kína. Hann kvað árið 2013 verða mikilvægt ár í efnahagsuppbyggingu Kína, ásamt því að merkilegra frétta væri að vænta af átjánda landsþingi Kommúnistaflokksins. Loks óskaði hann heimsbyggðinni friðar og velsædar, auk góðrar heilsu, á nýja árinu.
Svona, svo því sé haldið til haga.