Wednesday, December 31, 2008

Ísrael er þrjótaríki

Undanfarnir dagar hafa verið einhverjir þeir svæsnustu í hernámssögu Ísraels í Palestínu. Þá er mikið sagt. Hefndirnar mörghundruðfaldar, níðingsskapurinn hryllilegur. Hvað á að þurfa mikið til, til að slíta stjórnmálasambandi við ríki sem viðhefur svona stefnu? Hvað er að marka delluhugmyndir íslenskra ráðamanna um "sérstakt samband" við Ísrael, þegar það sérstaka samband virðist aðallega virka í aðra áttina? Nei, ég er hræddur um að það verði að sniðganga Ísrael og slíta stjórnmálasambandi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það var annars grein eftir mig á Vantrú á dögunum, Ýkt mikil kirkjusókn heitir hún.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það var líka grein eftir mig á Egginni á dögunum -- Virka mótmæli eða beinar aðgerðir? heitir hún.

Tuesday, December 30, 2008

Stöðvið blóðbaðið á Gaza: Útifundur í dag

Útifundur til að mótmæla blóðsúthellingum á Gaza fer fram á Lækjartorgi, þriðjudaginn 30. desember kl. 16.00.

Kröfur dagsins eru:
Stöðvið fjöldamorð Ísraelshers á Gaza
Slítum stjórnmálasambandi við Ísrael

Ræðumenn verða:
María S. Gunnarsdóttir, formaður Menningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna (MFÍK)
Ögmundur Jónasson, alþingismaður
Sr. Örn Bárður Jónsson, sóknarprestur

Fundarstjóri: Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands

Fundurinn er undibúinn af Félaginu Ísland-Palestína með stuðningi fjölmargra félagasamtaka.

Monday, December 22, 2008

Andkristnihátíð var mjög vel heppnuð. Severed Crotch svíkja engan. Vantrú bjargaði meira en 30 manns úr klóm ríkiskirkjunnar.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Nokkrar ferskeytlur:

Hratt nú kjörin skerðast, sker
skulda-spennitreyja.
Samfylkingin aðeins er
auðvalds skítug bleyja.

Segi ég: Út með íhaldið
einnig 'fylkinguna,
gera upp við auðvaldið
og alla spillinguna.

Flýr nú Tryggvi, finnst ei náð,
fram skal múgur ræstur.
Lýður vaknar, drýgir dáð:
Davíð, þú ert næstur!

Loks ein hringhenda:

Ég er blankur, einnig þú,
okið sankast stóra.
Út á plankann ég vil nú
ýta bankastjóra.

Thursday, December 18, 2008

Ofbeldi og skrílslæti

Sumir eru meira á móti mótmælum gegn spillingu og fáveldi heldur en þeir eru á móti spillingunni og fáveldinu sem mótmælin beinast gegn.

Sumir kalla það skrílslæti þegar fólk hendir eggjum í grjótvegg, og ofbeldi þegar einhver kastar snjóbolta í Jón Ásgeir. Hvað á að kalla það þegar verður farið að kasta grjóti eða handsprengjum? Eru hagkerfi og mannorð landsmanna ekki nóg, þarf að gjaldfella tungumálið líka? Ef hægrimönnum verður að ósk sinni, ríkisstjórnin heldur velli og spillingin ríkir áfram, eiga þeir sjálfir eftir að þurfa að nota þessi orð áður en veturinn er úti, gegn þeim sem gefast upp á að biðja valdið kurteislega um miskunn.

Úlfur, úlfur!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Löggan, með puttann á púlsinum: Fækka lögmönnum á efnahagsbrotadeild.

Wednesday, December 17, 2008

Mál dagsins

Á Egginni eru tvær góðar nýjar greinar:
"Leiðirnar tvær" eftir sjálfan mig, um valkostina sem Íslendingar eiga í stöðunni.
"Hvernig á að brjóta niður fjöldahreyfingar" eftir Jón Karl Stefánsson. Titillinn skýrir sig sjálfur.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Skilgreiningin á "friðsamlegum mótmælum" eru mótmæli sem er auðvelt að hundsa.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Eftir því sem ég les meira af Moggabloggi, þess meira þreytandi finnst mér vaðallinn á því, og tilgangslaust nöldur á lágu plani. Kemur ekki beint á óvart samt.

Vinsamlegast ekki misskilja þessi orð sem alhæfingu!

En það er svosem lítið hægt að gera í því þótt bjánar fái internetaðgang. Það eru nú einu sinni mannréttindi að vera bjáni, er það ekki? Sá sem ætlaði sér að leiðrétta allt sem er rangt á internetinu mundi varla gera margt fleira þann daginn. Auk þess er tuð ekki eins og rökræða. Það eru ekki bestu rökin sem vinna, heldur mesta þrjóskan.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Menn tala um að allt muni fara á annan endann í febrúar þegar ástandið versni til muna. Það er örugglega rétt. Ég held samt að sú umræða sé ein af ástæðunum fyrir því hvað mætingin á laugardagsmótmælin hefur minnkað. Annir jólanna og skortur á sýnilegum árangri spila þar inn í, og þetta líka, held ég. Er þetta "self fulfilling prophecy"?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Mér bregður fyrir bæði í Fréttablaðinu og Mogganum í dag.
Þetta ástand og viðbrögðin við því eru enginn leikur og ekkert grín, heldur alvarlegt mál.

Monday, December 8, 2008

Fimm ára afmæli

Í dag, áttunda desember 2008, eru fimm ár liðin síðan ég tók merkilega ákvörðun og hætti að éta kjúklinga og svínakjöt. Ástæðan er ógeð á illri meðferð á dýrum í verksmiðjubúskap og bruðli með land og vatn. Ég hugsaði með mér að ef ég gæti ekki hugsað mér að veita einhverju dýri einhverja meðferð, þá ætti ég ekki að borga öðrum fyrir að gera það. Eða, eins og vinur minn orðaði það, "Sá sem er ekki til í að drepa dýrið sjálfur á ekki skilið að éta það." Ég gæti alveg drepið dýr til að éta það eða klæða mig í það. En að loka það fyrst inni í pínulitlu búri í nokkur ár, þar sem það er þjakað af legusárum og sturlað af innilokunarkennd -- þar dreg ég mörkin.
Þann dag bloggaði ég þetta:

mánudagur, desember 08, 2003
Af stækum viðbjóði á meðferð sumra dýra er ég hættur að éta kjúklinga og svínakjöt nema ég hafi ástæðu til að ætla að viðkomandi skepna hafi sprottið úr grasi við viðunandi aðstæður.
Á þessum fimm árum hef ég haldið mig við þetta, og reyndar hefur þetta náð nokkur veginn yfir eldisfisk líka. Ég hef étið einn "free range" kjúkling og eitthvað smávegis af keti af "free range" svínum, sem ég hef þurft að fara til útlanda til að nálgast. Í tvö eða þrjú skipti hef ég í misgripum keypt svínakjöt á veitingastöðum erlendis. Þá hef ég hugsað að ég gæti nú eins étið þetta, fyrst ég var búinn að kaupa það hvort sem er. Í öll þessi tvö eða þrjú skipti hef ég fengið í magann. Iðrin í mér eru ekki spennt fyrir svínakjöti eftir að þau vöndust af því.

Ég veit að það er ekki allt í lagi í nautgripaeldi og meira að segja sauðfjárbúskap. Ég veit líka að loðdýr hafa það skítt í búrum. Ég held samt að svín og kjúklingar hafi það verst. Þar kreppir skórinn mest. Ég get ekki sagt að ég sakni þess að éta þau. Að vísu þætti mér ekki leiðinlegt að geta keypt beikon af "free range" svínum -- og reyndar líka "flæskesvær" -- en það er nú ekkert stórmál á móti því að éta með aðeins betri samvisku en áður.

Friday, December 5, 2008

Byltingu undan oki sérhagsmuna

Grein dagsins á Egginni er eftir sjálfan mig: Efnahagsleg kremja: Hvað skal taka til bragðs?

~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ef við viljum losna undan oki innlendra sérhagsmuna, hvor leiðin er þá betri til þess:
  1. að undirgangast ok erlendra sérhagsmuna sem eru sterkari en þeir íslensku?
  2. að steypa innlendu sérhagsmununum og láta almannahagsmuni ríkja hérna?
Innlenda valdastéttin er okið sem liggur á okkur og hefur gert frá því á söguöld. Hún hefur sjaldnast unnið ein síns liðs -- einu sinni vann hún með norsku valdastéttinni, lengst af með þeirri dönsku, á fyrri hluta 20. aldar mjög með hinni bresku og á síðari hluta 20. aldarinnar með bandarísk-evrópskri. Þeir vilja mynda bandalag við evrópsku auðstéttina núna.
Missum við fullveldið?
Í sannleika sagt, þá er fullveldið ofmetið. Íslendingar sem slíkir ráða minnstu í þessu landi. Þeir sem mestu ráða eru íslenska auðvaldið. Það er logið að okkur þegar okkur er sagt að við séum ein heild, að við sem þjóð stöndum saman í hagsmunabaráttunni. Það er ekki satt: Við erum stéttskipt. Stéttabaráttan hefur aldrei hætt, hún hefur bara verið á einn veginn undanfarna 2-3 áratugi.
Það er ekki lýðurinn sem ræður í þessu "lýðræði", það er yfirstéttin. Þannig hefur það verið frá landnámi og þannig mun það verða þangað til við steypum henni og tökum völdin í landinu í eigin hendur.
Það er valdastéttin sem fer með fullveldið, ekki almenningur.Það er valdastéttin sem stjórnar því hvort við göngum í Evrópusambandið, ekki almenningur.
Þangað til við steypum henni og tökum völdin í landinu í eigin hendur.

Monday, December 1, 2008

Það birtist grein eftir mig á Vantrú í gær: Það eru erfiðir tímar.

Gleðilegt 90 ára afmæli fullveldisins. Ætli árin verði mikið fleiri?

Í dag er Vargastefna við Stjórnarráðið kl. 13:30, trukkaganga frá Hlemmi á Lækjartorg kl. 14:00 og Þjóðfundur á Arnarhóli kl. 15:00. Klæðið ykkur eftir veðri og mætið með kreppta hnefa og slagorð á vörum. Það er mál manna að Davíð Oddsson verði borinn út úr virkinu sínu. Sjáum nú hvernig til tekst með það.

Saturday, November 29, 2008

Hugleiðing um byltingu

Síðasta bloggi mínu svaraði Eva Hauksdóttir í kommenti. Í staðinn fyrir að svara kommentinu þar, ætla ég að svara því og leggja út af því hér, í sér bloggi.

Það eru orðalagshártoganir hvort byltingar verða eða koma eða hvort fólk gerir byltingu eða byltir. Merkingin er sú sama. Það sem kemur og fer er byltingarástand. Kapítalisminn gengur í bylgjum; það skiptast á vaxtarskeið og kreppur og þegar kreppurnar brenna upp afkomu fólks er það sem byltingar komast á dagskrá. Fólk gerir ekki byltingar fyrr en það á engar aðrar leiðir út úr stöðunni. Fólk vill ekki leggja sig í hættu eða vandræði og þess vegna gerir það ekki byltingar meðan einhverjar aðrar leiðir virðast færar. Umbæturnar trompa byltinguna alltaf í venjulegu árferði vegna þess að þær eru ekki eins eldfimar.

Byltingin er ekki spurning um hvort fólk nennir eða ekki, heldur hvort fólk neyðist til þess eða ekki að gera hana eða, réttara sagt, hvenær fólk skilur að það neyðist til þess. Byltingar verða ekki í flippi eða vegna þess að einhver "nenni" að gera þær. Þær eru nauðsyn og þær koma ekki til af góðu. Þegar kerfið hrynur og fólk missir viðurværið, þá opnast augu þess: Kerfið bregst því og það skuldar þessu kerfi ekki neitt. Kerfið er heimskulegt og ósanngjarnt og það verður að koma á nýju kerfi sem er skynsamlegra og sanngjarnara.

Það eru vissulega til byltingarsinnar sem vilja byltingu en hafa "ekki skýra hugmynd um hvað eigi að taka við" og fá ekki "nógu marga með sér fyrr en við förum að sjá hungurdauða" og það eru til byltingarsinnar sem vilja byltingu en eru svo hræddir "um að fá bara verra ástand" að þeir leggja "ekki í að bylta neinu" sjálfir. Eva skipar sjálfir sér í fyrri flokkinn en mér í þann síðari. Ég held að æði margir byltingarsinnar séu í fyrri flokknum. Hver veit hvað "á að taka við"? Ekki þykist ég geta hannað hið fullkomna þjóðfélag. Ég get lagt fram vissar forsendur sem það ætti að byggja á, en ég veit ekki hvort ég treysti mér til að útfæra það í smáatriðum. En það er heldur ekkert mitt hlutverk. Það eru ekki róttæklingarnir, hvorki sem hópur né sem einstaklingar, sem gera byltingar, það er bara venjulegt fólk. Byltingin stendur og fellur með alþýðunni.

Þar stendur nefnilega hnífurinn í kúnni. Ástæðan fyrir því að ég hef ekki gert byltingu er ekki sú að ég sé smeykur við hvernig málin gætu þróast. Ástandinu gæti alveg hrakað mjög mikið, en ef það væri gerð bylting þykir mér samt líklegra að það mundi skána. Málið er bara að hingað til, a.m.k. frá því í stríðinu, hefur íslensk alþýða ekki verið á byltingarbuxunum. Fyrr en kannski núna á allra seinustu vikum.

Eva svartsýna skrifar að "þeir sem á endanum munu gera byltingu eru þeir sem kæra sig því aðeins um byltingu að þeir fái völdin sjálfir" -- þessu játa ég bæði og neita. Ég neita því að litlar klíkur geri byltingar. Þær gera valdarán. Oftast vinna þær sig samt upp metorðastiga kerfisins án þess mikilla átaka; það er auðveldara og öruggara fyrir alla hlutaðeigandi. Hins vegar játa ég því að þeir sem á endanum geri byltinguna geri það til að fá völdin sjálfir. Skárra væri það nú. Það er nefnilega alþýðan sem gerir byltinguna þegar öllur er á botninn hvolft, alþýðan og alþýðan ein.

Hún hefur ekki gert það hingað til vegna þess að skilyrðin hafa ekki verið rétt. Það eru tvenns konar skilyrði sem þurfa að passa til þess að bylting geti orðið:

(A) Hlutlæg (objektíf) skilyrði eru efnahagsástandið. Á meðan flestir eru mettir, þá eru flestir latir og hafa engan áhuga á að gera byltingu. Þegar hin reglubundna kreppa kemur -- og hún kemur alltaf aftur og aftur -- þá byrjar fjöldinn að missa viðurværið eða hrapar í lífskjörum. Því verra sem ástandið verður -- og það verður verra og verra þangað til kreppan leysist (og til að leysa kreppur þarf vanalega annað hvort stríð eða byltingar) -- þess fleiri sjá að bylting er eina leiðin. Þegar hlutlæg skilyrði hafa opnað augu nógu margra, þá getur orðið bylting.

(B) Huglæg (súbjektíf) skilyrði eru vitundar- og skipulagsstig fjöldans, hin viljaða og/eða vitaða hlið á málinu. Það hefur til skamms tíma ekki verið hátt á Íslandi. Flest fólk hefur ekki áhuga á að velta fyrir sér stéttapólitík eða byltingu fyrr en það fer að leita að rótum vandamálanna, og það gerir það ekki fyrr en vandamálin reka það af stað til þess og lausnirnar láta á sér standa. Huglægu skilyrðin fela m.a. í sér hversu meðvitað fólk er um hvernig kapítalisminn virkar, hvort það skoðar samfélagið út frá þjóðerni, stéttum eða öðru og hvort það á sín eigin óháðu baráttusamtök.

Til skamms tíma hafa huglægu skilyrðin ekki verið til staðar og þau hlutlægu ekki heldur. Þegar hlutlægu skilyrðin byrja að breytast -- þ.e.a.s. þegar kreppan kemur -- þá snúast hjólin hins vegar hratt og breytingarnar geta orðið örari en við áttum okkur á. Fólk getur logað upp í skilningi, meðvitund og umfram allt hneykslun og reiði og baráttuanda á svipstundu. Það hefur verið að gerast hér á Íslandi undanfarnar vikur.

Spurningarnar er bara hvað þessi öldudalur verður djúpur og langvarandi og hversu fljótt fólk er að tileinka sér baráttuanda og skynsamlegar hugmyndir. Það eru atriðin sem skera úr um hvort það verður bylting eða ekki.

Ég er sæmilega bjartsýnn.

Má vera að þá lifi hana hvorugur okkar

Ég sat í gærkvöldi á tali við mann á níræðisaldri. Við vorum að ræða hvort það væri að skapast byltingarástand núna og hver sénsinn sé á því að á næstu misserum verði Byltingin loksins, sem gott fólk hefur verið að bíða eftir undanfarnar kynslóðir. Það hafa komið nokkur tímabil þegar hún virtist vera innan seilingar, og var það kannski, þótt hún hafi ekki orðið ennþá, hverju sem um er að kenna.

Allavega, þá sagði ég þessum manni, sem ég endurtek að er á níræðisaldri, að ef hún yrði ekki á næstu misserum þá mættum við líklega bíða lengi enn. Að annað hvort mundum við báðir lifa það að sjá hana verða, eða þá að hvorugur okkar mundi lifa það.

Ég held, svei mér þá, að þetta gæti verið rétt hjá mér.

En á hinn bóginn, þá gæti mér skjátlast líka.

Annað eins hefur víst gerst.

Wednesday, November 26, 2008

Piparúði, Taíland og Kosovo

Á laugardaginn lét löggan bara vaða með piparúðanum, fólkið var ekki varað við. (Fólk hefði hvort sem er varla heyrt það vegna hávaða og troðnings.) Úðinn fór bara af stað. Á myndbandsupptökum heyrist greinilega kallað "Gas gas" -- það eru mótmælendur sem kalla það til að vara aðra mótmælendur við, eftir að gasið er byrjað að sprautast.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er ekki allt sem sýnist í þessum mótmælum í Taílandi. Fólkið hefur auðvitað góða ástæðu til að mótmæla og vera reitt, en mótmælahreyfingin er leidd af annarri spilltri valdaklíku sem er engu betri en sú sem er við völd. Þessi mótmæli eru ekki byltingarsinnaðri en svo að konungurinn og herinn tilheyra klíkunni sem leiðir þau. Hver veit samt, þegar svona eldar eru einu sinni kviknaðir kann að vera að þeir njóti hans ekki síðastir sem fyrstir kveiktu þá. Kannski bera Taílendingar gæfu til að steypa öllu gamla draslinu og reisa betra ríki á rústum þess gamla. Það er samt ekki ýkja líklegt held ég. Lesið um málið á WSWS: Thailand’s political crisis intensifies amid economic slowdown.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þrír Þjóðverjar í gæslu í Kosovo segir Mogginn.

Í stjórnkerfum heimsins vinna menn sem eru heiðarlegir og grandvarir og menn sem eru óheiðarlegir og svífast einskis. Þeir síðarnefndu eru hlutfallslega fleiri í leyniþjónustunum en öðrum stofnunum stjórnvalda. Stundum sjá þeir að óhæfuverk geti komið þeim vel ef það er hægt að kenna andstæðingunum um þau. Stundum komast þeir á snoðir um óhæfuverk sem andstæðingarnir eru að plana en sjá sér leik á borði með því að stöðva þau ekki heldur nýta sér þau. Dæmi um þetta er byssupúðursplottið í London árið 1605 og neðanjarðarlestasprengingarnar í sömu borg í júlí 2005. Þessi grófa taktík er stundum kölluð "LIHOP" (fyrir "Let it happen on purpose").

Nú, svo er það stundum að þessi krímínel element sjá að eitthvert óhæfuverk mundi hræða almenning til að sætta sig við útfærðar valdheimildir, eða jafnvel fagna þeim, án þess að andstæðingarnir séu með neitt slíkt á prjónunum. Þá er alltaf hægt að fremja bara sjálfur óhæfuverkin, gæta þess vandlega að enginn sjái í gegn um samsærið, kenna andstæðingunum strax um og hjóla beint í að þjarma að þeim. Sígilda dæmið um þetta er þinghúsbruninn í Berlín 1933. Önnur dæmi þar sem þetta er sennileg skýring er þegar USS Maine sprakk í höfninni í Havana árið 1898 og varð Bandaríkjamönnum tilefni til stríðs við Spánverja, þar sem þeir unnu Kúbu og Filippseyjar af þeim, -- og síðan 11. september 2001, sem varð Bandaríkjastjórn tilefni til að hjóla í mannréttindi bandarískra borgara og ráðast inn í a.m.k. tvö ríki, allt í nafni "stríðs gegn hryðjuverkum". Þessi grófa taktík er stundum kölluð "MIHOP" (fyrir "Made it happen on purpose").

En svo er það stundum að heiðarlegir menn, sem oft eru í lögreglunni, fletta ofan af svona plottum og ná jafnvel að stöðva þau. Þegar G8-fundurinn stóð yfir í Heiligendamm í Þýskalandi í fyrra, þá voru mjög mikil mótmæli gegn þeim í Rostock og víðar í nágrenni Heiligendamm. (Þorpið sjálft var girt af og gríðarlega öflug löggæsla hélt því einangruðu frá mótmælum.) Nú, á einum vegatálmanum fundu öryggisverðir þýsku lögreglunnar sprengiefni í bíl sem nokkrir bandarískir leyniþjónustumenn óku. Þeir sögðu lúpulegir að þeir hefðu nú bara verið að reyna hversu örugg öryggisgæslan væri. Einmitt.

En núna eru það þýskir leyniþjónustumenn sem böndin berast að, í Kosovo. Spurningin hlýtur að vakna, hvað gengur þeim til? Hvaða hagsmunir búa að baki? Ég veit það ekki. Kannski vilja þeir láta líta út fyrir að reiðir Kosovo-Serbar séu að hegna ESB fyrir að styðja sjálfstæði Kosovo.

En eitt er víst: Svona fréttum verður að halda til haga.

Monday, November 24, 2008

Götubardagi, hryðjuverkamenn, sjóræningjar og ráðherrar!

Laugardagurinn var einn af þeim viðburðaríkari sem ég man eftir nýlega. Útifundurinn á Austurvelli gríðarlega vel heppnaður í alla staði. Katrín Oddsdóttir og Sindri Viðarsson með fantagóðar ræður -- og tímabærir úrslitakostirnir sem Katrín setti ríkisstjórninni: Stjórnin fær viku til að boða til kosninga, annars fer illa. Tímamörk voru það sem vantaði (eða a.m.k. eitt af því). "Hingað og ekki lengra"-lína. Auðvitað á ríkisstjórnin að boða til kosninga strax og það á ekki að þurfa margra vikna mótmæli til að leiða þeim það fyrir sjónir.

Ég leyfi mér að segja að það vilja fáir að næstu valdaskipti fari fram með illu, en ef þau fara ekki fljótlega fram með góðu munu þau fara fljótlega fram með illu! Ríkisstjórnin mun ekki hanga mikið lengur á roðinu. Úff, ég vona að þau komi því inn í þykka hausinn á sér að þau eru að leika sér að eldi. Hvað halda þau að þau græði á því að hanga svona!?

Það er líklega skynsamlegt af þeim að hafa lífverði þessa dagana. Án gríns.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Það er hægt að finna einhverjar hryðjuverkanaglaþjalir eða of stórar kókómjólkurfernur með öryggisleit á flugvöllum, en öryggið eykst ekki af viti með reaktífu rugli rugli. Sá sem ætlar sér í alvörunni að fremja hryðjuverk í kring um flugsamgöngur og veit eitthvað hvað hann er að gera, verður ekki stoppaður með strípimyndavélum. Það er bara of auðvelt.

Það er til nóg af útsmognum aðferðum sem er ekki séns að verjast. Ef þetta er stríð og víglínan er dregin á flugvellinum, þá er stríðið þegar tapað. Eina leiðin til að hindra hryðjuverk gegn flugvöllum er að banna flugvelli.

Í fyrsta lagi, þá eru hin réttu viðbrögð við hryðjuverkum ekki að þjarma að almenningi heldur að ráðast að rótum vandans. Hvers vegna fremur einhver hryðjuverk? Getur verið að það sé eitthvað athugavert hérna megin við járnmúr Vesturlanda, sem mætti bæta? Hvað með t.d. utanríkisstefnu? Hvað ef það væri tekin upp ábyrg utanríkisstefna í staðinn fyrir heimsvaldastefnu? (Það verður auðvitað ekki breytt um stefnu sem er inngróin í auðvaldsskipulagið nema skipta um þjóðskipulag -- ég er auðvitað fylgjandi því, en það er önnur saga.)

Í öðru lagi, þá snúast "hryðjuverkalög" ekki um að vernda okkur, vestrænan almenning, fyrir hryðjuverkum. Nei. Þau eru samt réttnefni. Þau snúast nefnilega um að beita okkur hryðjuverkum. Og hver skyldi gera það? Jú: Þeir sem þykjast vera að passa okkur. Það eru þeir sem eru að byggja upp eftirlitssamfélag, svipta burtu mannréttindum heima fyrir og leggja línurnar fyrir hátæknivætt lögregluríki þegar stéttabaráttan fer að fara harðnandi. "Hryðjuverk" eru oft sviðsett til þess að réttlæta óeðlilega útfærslu á valdheimildum valdstjórnarinnar, til að hræða okkur í fangið á stóra bróður. Dæmi? Ríkisþinghúsbruninn í Berlín 1933.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Í Sómalíu er íslamistarnir eina aflið sem er fært um að koma á lögum og reglu. Allir aðrir kostir í stöðunni eru verri.

Sómalía hefur, sem kunnugt er, verið án ríkisstjórnar síðan stjórn Siad Barre hrundi árið 1991. Hún hefur, sem kunnugt er, verið í hers höndum, eða réttara sagt hers, stríðsherra, ættbálkahöfðingja og íslamista.

Í fyrstu réðu stríðsherrar lögum og lofum. Síðan klufu tvö héröð sig frá, Sómalíland og Puntland, bæði norðantil í landinu, og lýstu sig sjálfstæð. Ættbálkahöfðingjar réðu miklu um það. Ættbálkurinn er sterkasta samfélagsfestið í Sómalíu, og er einmitt það samfélagsfesti sem torveldar samstöðu hvað mest. Ættbálkurinn stendur svo þétt saman, sér um sína og stendur fólki svo nærri. Þótt klofningshéröðin tvö hafi verið í raun sjálfstæð árum saman, hafa stríðsherrarnir haldið áfram að deila restinni af landinu á milli sín.

Bandaríkjaher reyndi að bæla Sómala niður fyrir hálfum öðrum áratug en snýtti rauðu, eins og lýst er í Black Hawk Down. Fyrir tveim árum réðust Eþíópíumenn inn, sem leppar Bandaríkjamanna og með stuðningi þeirra, að sögn til að koma til valda einhverri "stjórn" sem Sameinuðu þjóðirnar hafa úthlutað Sómalíu en Sómalir virðast ekki kæra sig um. Allavega hefur hún ekki fest rætur. Raunverulegur tilgangur innrásarinnar er auðvitað að tryggja siglingaleiðina um Aden-flóa og þar með Rauðahaf og Súez-skurð, siglingaleið sem stór hluti olíuframleiðslu heimsins fer um. Sómalir eru herskáir og hugrakkir og hafa snýtt Eþíópíumönnum duglega líka.

Nú, eitt er það samfélagsfesti sem er til í Sómalíu og sker þvert á ættbálkana. Það er íslam. Í stjórnlausu landinu sættust menn á að láta íslamska dómstóla skera úr í mörgum deilumálum, og smám saman öðluðust þeir viðurkenningu og vald. Vopnaðir menn fóru að ganga þeim á hönd og hjálpa til við að framfylgja dómum og treysta vald þeirra í sessi. Þetta hélt áfram þangað til Bandalág íslamskra dómstóla sté fram sem sterkasti aðilinn meðal deilenda í Sómalíu, og vígi stríðsherranna féllu eitt af öðru. Það leit út fyrir að upp úr rjúkandi rústum landsins væri að rísa afl sem gæti orðið nýtt ríkisvald.

Þessu undu Vesturveldin ekki og gerðu Eþíópíuher út af örkinni til að ráðast inn. Þeir bættust s.s. við sem enn ein fylkingin, fylking sem er frekar auðvelt að sameina Sómalina um vegna þess að innrásarherinn er erlendur. Íslamistarnir eru sterkir. Þótt þeir eigi í vök að verjast gegn bandarískum loftárásum, þá njóta þeir baklands meðal fólksins og heyja árangursríkan skæruhernað. Innrásarherinn getur ekki sigrað þá.

Ríkisvald er framkvæmdanefnd ríkjandi afla, það vitum við. Ríkisvald er ekki stöðugt nema það njóti stuðnings ríkjandi afla í landinu. Ríkisvaldið sem SÞ reyna að koma að mun aldrei geta setið á friðarstóli á meðan fólk tengir það við Bandaríkin og innrásarher. Aldrei. Ekki frekar en í Írak eða Afganistan. Eina leiðin til þess að koma á relatífum friði í Sómalíu er að eftirláta hana öflunum sem ráðandi öfl í Sómalíu velja sjálf -- það er að segja, íslamistunum. Þeir eru þeir einu sem geta þetta.

Það eru líka þeir sem hafa náð mestum árangri í baráttunni við sjóræningjana hingað til.
Sjóránum snarfækkaði nefnilega á meðan þeir voru á hátindi valda sinna. Þegar þeim var bolað burt (í bili) snarjukust sjóránin aftur.

Svipað og með ópíumræktun í Afganistan.

Valið í Sómalíu stendur milli þess að hafa skálmöld stríðsherra og sjóræningja eða röð og reglu að hætti íslamista. Það eru ekki aðrir kostir í boði.

(Ég reikna með að af þessum ástæðum styðji saúdi-arabískir olíuflytjendur íslamistana rausnarlega.)

~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Forysta Samfylkingarinnar er ekki að fara að rjúfa samstarfið, einfaldlega vegna þess að hún á engan valkost sem hentar henni jafn vel.

Það er aftur spurning hvað öfl innan Samfylkingarinnar, sem eru ekki ofan á í svipinn, eru að spá. Það er óneitanlega mikil spenna í einum flokki þegar annar endinn vill fyrir alla muni vera í stjórninni en hinn armurinn alls ekki.

Hvað eru kjósendur að segja með því að þyrpast frá Sjálfstæðisflokki til Samfylkingar skv. skoðanakönnunum? Að þeir styðji ríkisstjórnina? Hljómar það ekki afkáralega? Og á maður að trúa því að þingmenn Samfylkingarinnar séu allir svona ánægðir með ástandið? Og vilji halda áfram að hafa Davíð Oddsson í boði Samfylkingarinnar?

Á sama tíma stynur Sjálfstæðisflokkurinn og er við það að rifna líka. Munu einhver öfl innan hans gera miðsvetrarhreingerningu á landsfundinum í janúar?

Ég held að þetta sé "a game of dare" -- hvor hrekkur og hvor stekkur? Annar hvor flokkurinn á eftir að bresta innan frá, bara spurning hvor verður á undan. Báðir flokkarnir hljóta að hugsa hvort það sé ekki réttara að slíta samstarfinu áður en samstarfsaðilinn dettur í sundur. Forysta hvorugs vill slíta því, en bakland Samfylkingarinnar vill það greinilega og bakland Sjálfstæðisflokks er eitthvað að stokkast upp og spurning hvert það fer.

Um leið og annar flokkurinn springur, þá verður stjórnarkreppa og hún endar varla öðruvísi en með kosningum. Það er bara tímaspursmál. Því lengur sem það bíður, þess verr mun það líta út fyrir Sjálfstæðisflokkinn, og þetta nýja fylgi Samfylkingarinnar er varla traust heldur.

Væri þá ekki snyrtilegast að horfast bara í augu við það og boða strax nýjar kosningar, kannski í febrúar?

Saturday, November 22, 2008

Limra um handtekinn Bónusflaggara

Í ríkinu eitthvað er rotið,
rækalli dýrt er smábrotið;
ef svo er ein flís
af fjármagnsins grís
þá gyltunnar dýrt mundi gotið!
(V.V.22/11)

Anarkisti tekinn úr umferð

Í gærkvöldi var ungur maður, aktífisti, handtekinn saklaus og verður haldið í fangelsi fram yfir helgi. Tilgangurinn? Að hindra hann í að fremja pólitísk prakkarastrik á almannafæri í síðdeginu í dag.
Lesið nánar um málið á bloggi Evu Hauksdóttur: Aktivisti úr umferð - valdníðsla í verki -- í alvörunni, lesið þetta, þetta er skandall dagsins og þótt víðar væri leitað.

Friday, November 21, 2008

Hvað ber að skera?

Ég vil segja fernt um niðurskurð og hagræðingu í heilbrigðiskerfinu:
1. Það er ekki hægt að skera mikið niður í grunnþjónustu, "á gólfinu". Þar er boginn nú þegar spenntur til hins ítrasta og nær að auka framlög þangað til muna. Lesið Ávarp Lárusar Páls frá 1. nóvember til að skilja hvað ég á við. Aukin framlög kosta ekki peninga heldur spara peninga. Betri mönnun þýðir betri aðhlynning, þar á meðal færri mistök. Betri aðhlynning þýðir að færri þurfa að leggjast aftur inn.
2. Það má hagræða talsvert innan heilbrigðiskerfisins! Svo ég taki dæmi af Landspítalanum, þar sem ég vinn, þá rogast hann með úr sér vaxna yfirbyggingu, mjög dýra og pilsmikla. Ég get ekki metið hvað væri hægt að skera niður mikið þar, en held að það sé talsvert meira en 10%!
3. Einkavæðing er ekki hagræðing. Hún er dýrari og verri. Lesið erindi dr. Allyson Pollock frá því í vor.
4. Nú er ekki tíminn til að lækka launin hjá heilbrigðisstarfsfólki eða segja því upp. Við erum láglaunastéttir sem bárum ekki of mikið úr býtum í þessu svokallaða góðæri. Það erum ekki við sem eigum að fjúka núna. Við erum saklaus af ástandinu og mér er til efs að við tökum stórfelldum niðurskurði þegjandi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~


Mótmæli á Austurvelli klukkan 15.00 laugardag!
Raddir fólksins boða til mótmæla á Austurvelli á morgun, laugardag kl. 15:00.
Komum vanhæfum ráðamönnum úr embættum sem þeir ráða ekki við, stöndum saman!
Ræðumenn:Sindri Viðarsson, sagnfræðinemi; Katrín Oddsdóttir, laganemi og Gerður Pálma, atvinnurekandi frá Hollandi. Fundarstjóri: Hörður Torfason.
(Svona fundir kosta því miður peninga. Vinsamlegast styrkið: 1132-05-41500)

~~~ ~~~ ~~~ ~~~


Það var Malcolm X, ef ég man rétt, sem skipti svertingjum í tvo hópa, akurnegra og húsnegra (field negro og house negro). Þessi orð hafa nokkurn veginn sömu merkingu og í Íslandsklukkunni: Betra er að vera barinn þræll en feitur þjónn.
Barack Obama er karlkyns lögfræðingur miklu frekar en að vera svertingi. Já, málstaður svertingja sem slíkra á alveg eftir að hafa eitthvað gott af setu hans sem forseta, en málstaður karlkyns lögfræðinga sem slíkra á eftir að njóta hans ennþá betur. Að ég nú ekki tali um auðvaldið.
Já, Barack Obama er hvítahúsnegri. Er það ekki?

Thursday, November 13, 2008

Skúli Thoroddsen

Skúli Thoroddsen, framkvæmdastjóri Starfsgreinssambandsins, talar réttilega um ábyrgð útrásardólganna og skuldadaga þeirra, og um óbærilega skuldabagga, sem eiga að sliga okkur það sem við eigum eftir ólifað, ef allt heldur áfram að fara á versta veg. Á sama tíma er erfitt að skilja annað af honum en að hann telji það vera okkur nauðsynlegt að fá lán hjá IMF ("brýnasta nauðsyn dagsins í dag").
Í áramótagrein Skúla varaði hann við útrásinni og hvernig fjármálaauðvaldið væri að fara með okkur (1. janúar 2008 - Um nýkapitalisma). Núna vill hann ganga bónarveg til IMF, sem er alþjóðlegt fjármálaauðvald holdi klætt. Það má bóka að undir forræði IMF verður ekkert "til hagsbóta í þágu þegnanna" eins og hann sagði um áramótin að markaðskerfið ætti að vinna. Það má bóka það.
Ég skrifaði grein í janúar þar sem ég mótmælti nýársgrein Skúla: Af ný-auðvaldi og ný-misskilningi. Lesið þær báðar.

Tuesday, November 11, 2008

Opinn fundur Rauðs vettvangs

Rauður vettvangur heldur opinn fund í kvöld, þriðjudagskvöld 11. nóvember, klukkan 20, í Friðarhúsi, Njálsgötu 87 (á horni Snorrabrautar).

Umræðuefnið er erindi sósíalismans inn í þjóðmálin á Íslandi í dag, hvert skal stefna, hvað skal gera, stofnun sósíalískrar hreyfingar og hvernig hún á að vera.

Allir áhugasamir eru hvattir til að mæta.

Þetta fundarboð má gjarnan fara lengra, með tölvupósti, bloggi eða á annan hátt.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Jón Karl Stefánsson ritar á Eggina: Hversdagslegar lausnir á efnahagskreppunni.

Friday, November 7, 2008

Margt á seyði

Það er í mörg horn að líta þessa dagana. Mótmæli, stíf fundahöld Rauðs vettvangs, ýmis önnur félagsstörf, skriftir -- og svo vinnan.
Það er kannski síðasti séns til að lyfta grettistaki í garðinum, og ég hef ekki tíma til þess.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hvað fær fólk til þess að skrifa moggablogg sem er ekkert annað en endursögn á fréttinni sem er bloggað við? Hvernig getur fólk fengið það af sér að ofnota leturbreytingar? Af hverju er til fólk sem ofnotar upphrópunar- og spurningarmerki? Hvers vegna ofnota sumir semikommur?
Hvers vegna hafa sumir andlag á undan umsögn, í upphafi setningar, þar sem það á ekki við? (Dæmi: Kosningar í Bandaríkjunum vann svertingi.)
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ætli Hvíta húsið verði núna málað svart?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það eru svo margir brandarar sem mig langar til að deila með heiminum en geri ekki vegna pólitískrar rétthugsunar. Og nei, þeir eru hvorki á kostnað svertingja, homma, gyðinga, kvenna né neinna slíkra hópa.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hvers vegna þurfa tækifærissinnar, ævintýramenn og æsingamenn að reyna að príla upp eftir mótmælahreyfingu venjulegs fólks?

Á döfinni

Það var grein eftir mig á Vantrú á dögunum: Guð blessi Ísland.

Það verður borgarafundur kl. 13 á laugardaginn í Iðnó.

Gleymið ekki útifundinum á Austurvelli kl. 15 á laugardag. Takið fleiri með ykkur, látið orðið ganga. Niður með vanhæfa bjána sem ráða landinu, lifi lýðræðið!

Thursday, November 6, 2008

Burt með eftirlaunaósómann

Ég vil að einhver af góðu gæjunum á Alþingi leggi tafarlaust fram frumvarp um að eftirlaunaósóminn verði afnuminn. Ég vil að atkvæðagreiðsla fari fram með handauppréttingu. Sjáum hvort einhver er á því plani að andæfa.
Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingar, sagði einhvers staðar um daginn að það ætti að afnema eftirlaunaósómann, og ef einhver hlutaðeigandi gæti ekki sætt sig við það gæti sá hinn sami bara farið í mál, fengið sér dæmd eftirlaunin sín og orðið sér um leið til skammar. Þetta er hárrétt hjá Árna. Hvers vegna leggur hann þetta þá ekki til?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~ ~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég vil vekja athygli á opnum fundi Rauðs vettvangs í kvöld, fimmtudag 6. nóvember, kl. 20:00 í Friðarhúsi, Njálsgötu 87.
Til umræðu verða þjóðfélagsmálin og hin eilífa spurning: Hvað ber að gera?
Hvað hafa sósíalistar fram að færa í umræðuna, sem borgaraleg sjónarmið eygja ekki?
Hvernig getum við endurreist þjóðfélagið á manneskjuvænni, skynsamlegri og lýðræðislegri grundvelli en verið hefur?
Látið sjá ykkur, leggið orð í belg, verið með. Takið áhugasama með ykkur.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~ ~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Brósi ritar: Af forsetakosningum í Bandaríkjunum

Tuesday, November 4, 2008

Mótmæli, lýðræði og spilling

Einhver reyndi að segja okkur það einhvern tímann að kerfið á Íslandi væri hið "óspilltasta" í heimi. Ég trúði því nú aldrei, en núna hugsa ég að það séu ansi margir fleiri sem trúa því ekki. Ef mælingamennirnir voru ekki beinlínis að skrökva, þá eru mælikvarðarnir þeirra alvarlega gallaðir. Og ef mælikvarðarnir eru ekki gallaðir, þá er heimurinn í verri málum en ég hélt...

Það eru ekki lítil umbrot sem við getum séð fram á í stjórnmálaumhverfinu hér á Íslandi á næstunni. Það þarf svosem enga spádómsgáfu til að segja þetta. Ef það verður ekki beinlínis bylting, þá verða eflaust mjög miklar umbætur. Ef það verður ekki bylting, þá veit ég ekki nema ég finni óspilltasta land í heimi og flytji þangað. Og þó. Ef það verður ekki bylting, þá verður áfram þörf fyrir byltingarsinnana, er það ekki?

Enginn af stjórnmálaflokkunum er mér að skapi. Nei, ég er ekki vinstri-grænn. Ég er ekki spenntur fyrir borgaralegum stjórnmálum og hef engan áhuga á því að "bæta kapítalismann". Það þarf nýjan stjórnmálaflokk sem er ekki enn einn krataflokkurinn heldur stefnir beinlínis að því að taka hér upp nýtt þjóðskipulag sem meikar sens, er réttlátt og auk þess lýðræðislegt. Ef stefnan er á eitthvað minna, þá hef ég meiri áhuga á kartöflugarðinum mínum.

Mótmælin undanfarið hafa verið mjög áhugaverð. Mogginn dregur úr fjöldanum eins og alltaf. Mitt gisk er að það hafi verið rúmlega 2000 á Austurvelli á laugardag. Kannski 2500. Það er náttúrlega massamæting -- en hvers vegna var hún ekki tíföld það? Ég er kannski of óþolinmóður. Fólkið á eftir að vakna við vondan draum. Fleira og fleira. Það mun fjölga í mótmælunum og það kemur ekki til af góðu.

Það er til fólk sem er ennþá svo sofandi að það amast við því að það sé verið að mótmæla. Ég hreint og beint átta mig ekki á þessu. Það er pínulítill hópur óreiðumanna, klaufa og mafíósa sem er að kurla hagkerfið í smátt og leggja þrælahlekki á okkur sem tekur margar kynslóðir að losna úr. Látum það vera að einhverjum lítist vel á þær horfur. Hann um það. En að ætlast til þess að öðrum lítist líka á þær, kommon!?!

Það hefur ekki farið framhjá mörgum að það er klofningur í mótmælahreyfingunni. Hann skrifast á tækifærissinna sem reyna að hædjakka þessari óánægjuöldu. Ég veit ekki í hvaða tilgangi -- en mig grunar það. Þetta er óþolandi ástand, það verður að segjast eins og er.

Lýðræði er hugtak sem margir misskilja. Sumir halda að það þýði það sama og kapítalismi. Aðrir halda að það þýði að kjósa Sjálfstæðisflokkinn á fjögurra ára fresti og halda kjafti þess á milli. Hvort tveggja er langt úti á þekju.

Að því sögðu ... þá kann að vera kominn tími til að dusta rykið af lýðræðisfrumvarpinu.

Friday, October 31, 2008

Mótmæli á morgun

Á morgun, laugardag 1. nóvember, eru stór útimótmæli gegn ríkisstjórninni. Krefjumst afsagnar óhæfra stjórnmálamanna, brottrekstrar óhæfra embættismanna og afnáms óhæfs kerfis! Klukkan 15 á Austurvelli! Látið það berast!

Monday, October 27, 2008

Grein dagsins

Opinn fundur Rauðs vettvangs annað kvöld -- þangað eiga allir góðir sósíalistar erindi.
~~ ~~ ~~ ~~ ~~ ~~ ~~ ~~ ~~ ~~ ~~ ~~ ~~ ~~

Ég vil benda á góða og merkilega grein eftir sjálfan mig:

Davíð Bónaparte
Undanfarin 20 ár, eða tæplega það, hefur stjórnmálaumræða á Íslandi að miklu leyti snúist um persónu Davíðs Oddssonar. Það er ekki að undra, hann hefur enda verið valdamesti maður í landinu mestan hluta þessa tíma. Þegar við héldum að hann hefði sest í helgan stein, fengið þægilega innivinnu og hætt að vera miðpunktur athyglinnar, þá dynur efnahagskreppan á og hann ryðst fram á sjónarsviðið aftur og hefur engu gleymt. Og andstæðingar hans hafa engu gleymt heldur.

Ég ætla ekki að bera blak af Davíð Oddssyni. Ég efast um að nokkur annar Íslendingur beri eins mikla ábyrgð á þessu ástandi eins og hann. En það er barnaskapur að tala eins og hann sé rót vandans og allt verði betra ef hann snúi sér að öðru. Hann gæti dottið niður dauður án þess að við yrðum miklu bættari fyrir vikið. Hann er nefnilega ekki aðalatriðið.

Það heitir Bónapartismi, þegar stjórnmál eins lands hverfast um einn valdamann. Nafngiftin er runnin frá Karli Marx og er dregin af Napóleon I og Napóleon III, sem hvor um sig hrifsaði völdin í Frakklandi með tilstyrk hersins á sínum tíma eftir byltingu (sjá nánar í Átjánda Brumaire Lúðvíks Napóleons eftir Karl Marx). Þeir komu báðir fram sem mjög valdamiklir menn og virtust fæddir í hlutverk hins mikla foringja. Síðar átti Trotskí eftir að kalla veldi Stalíns bónapartískt, og reyndar má segja sama um evrópska einvaldskonunga.

[LESA REST AF GREIN]
~~ ~~ ~~ ~~ ~~ ~~ ~~ ~~ ~~ ~~ ~~ ~~ ~~ ~~

Önnur, sem er eftir sama höfund og mér ber eiginlega borgaraleg skylda til að vísa á:
Kreppan: Aðalatriðin og aukaatriðin -- hún birtist í Mogganum á föstudaginn var.

Valdatafl á Hallveigarstíg

Þetta er strategía Samfylkingarinnar:

Kenna Sjálfstæðisflokknum um kreppuna með því að tengja hana við nýfrjálshyggju og Davíð Oddsson. Láta stjórnarandstöðuarm flokksins leika lausum hala og hædjakka mótmælum þannig að Samfylkingin eigi trúverðugleika og talsmenn sem óánægðir taka mark á. Neyða Geir til að bola Davíð frá, en víkja ella og láta Þorgerði Katrínu taka það að sér, svo að alvarlegir brestir komi í Sjálfstæðisflokkinn, jafnvel klofningur. Láta þá eins og helsta ljónið sé úr veginum, rjúfa þá þing og boða til nýrra kosninga þar sem Samfylkingin kæmi út sem langstærsti flokkurinn og gæti deilt og drottnað. Leita þá á náðir Evrópusambandsins um inngöngu, í von um að það leysi vandamál hagkerfisins. Skrifa loks sögubækurnar upp á nýtt.

Hvernig veit ég þetta? Ja, satt að segja veit ég þetta ekki, ég held þetta bara.

Wednesday, October 22, 2008

Veturinn kominn degi of snemma

Vetur konungur kann greinilega ekki á dagatal, fyrstu vetrardagur er ekki fyrr en á morgun.
Ég á gríðarmikið verk eftir í garðinum. Ætli mér takist að vinna meira í honum fyrir alvöru vetur? Ég veit ekki hvað gefst mikill tími í mokstur þegar snjóa leysir; þá mun ég eiginlega hafa öðru að moka heldur en mold í garðinum.
- - - - - - - - - - -
Herrarnir stunduðu hagsmunapot,
heimsku og spilling' og lygar.
Íslenska krónan er komin í þrot
og kuldinn af vetrinum sligar.

Frelsi auðmagnsins => hringamyndun

Það er lögmál á kapítalískum markaði, að því meira frelsi sem fyrirtækin hafa, þess stærri verða þau. Hvert og eitt keppir eftir hámarksgróða, stækkar því við sig eins og hægt er með því að hlaða upp framleiðslugetu og/eða kaupa upp keppinauta. Þetta gildir um fjölmiðla eins og annað. Með nýjasta útspilinu, sameiningu 365 miðla og Árvakurs, er nú, þannig séð, bara einn alvöru fjölmiðill hérna, plús svo Ríkisútvarpið.
Þorsteini Pálssyni fannst, nóta bene, aðspurðum að Ríkisútvarpið væri aðalvandamálið á fjölmiðlamarkaðnum!
En þetta meikar alveg sens. Meira frelsi => meiri hringamyndun. Ef við viljum heyra önnur sjónarmið heldur en þeirra sem eiga 365-Árvakur og/eða halda þeim uppi með vþí að kaupa auglýsingar, þá verðum við að gera svo vel að stofna frjálsa fjölmiðla. Þegar maður reynir að gera það er maður fljótur að sjá eitt vandamál við það: Það kostar mikla vinnu, og ef maður er í annarri vinnu og hefur ekki efni á að ráða her manns til að sjá um þetta, þá tekur það einfaldlega gríðarlega mikla sjálfboðavinnu. En þetta er víst frelsið! Sumir eiga bara auðveldara með að nýta sér það heldur en aðrir!
Ég vil annars koma því að, að samtökin "Blaðamenn án landamæra" eiga ekkert skylt við þau ágætu samtök Lækna án landamæra. Blaðamenn án landamæra voru stofnuð af kúbönskum útlögum og samverkamönnum þeirra, í þeim tilgangi að grafa undan stjórnvöldum á Kúbu. Tilgangurinn er auðvitað að gera Kúbu aftur að áfangastað fjárhættuspilara og vændiskúnna frá Ameríku. Frelsið, með öðrum orðum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Ég vil líka minna á fund Rauðs vettvangs annað kvöld, fimmtudag, klukkan 20 í Friðarhúsi, Njálsgötu 87. Þið megið gjarnan láta þetta hvort tveggja berast áfram með tölvupósti, bloggi, fésbók eða öðrum leiðum, til fólks sem gæti haft áhuga á að mæta.
Sjá nánar:
* Lengri útgáfa af fundarboði
* Ályktun frá fundi 16. október
* 1. maí-ákall Rauðs vettvangs
* Ávarp til íslenskrar alþýðu

~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Auðvald og sjálfstæði 2008
höfundur: Þórarinn Hjartarson

Sjálfstæði Íslands er 90 ára í ár. Lýðveldistíminn er 64 ár. Þetta er stuttur tími. Nú stendur sjálfstæðið tæpar en það hefur áður gert þessi 90 ár. Ef við lendum upp á náð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins verður sala þess innsigluð, jafnframt því sem íslenskum almenningi verður bundinn baggi á herðar til framtíðar.
Hver er staða Íslands meðal þjóða? Ísland er lítið auðvaldsland sem sýnir heimsvaldaásælni en verður jafnframt fyrir ásælni voldugri heimsvaldasinna. Borgarastéttinni er ekki trúandi fyrir sjálfstæði þjóðarinnar, síst af öllu heimsvaldasinnaðri borgarastétt, eins og allir mega sjá. Þjóðvarnarbaráttan er því verkefni alþýðunnar.

LESA RESTINA AF ÞESSARI GREIN

Friday, October 17, 2008

Nepalskir maóistar búa sig undir að lækka rostann í sjálfum sér

Kommúnistaflokkur Nepals (maóistar) er víst að undirbúa það að leggja niður maóisma-endinn í nafninu sínu. Óskandi að það væri vegna skuldaskila við maóisma, en það er ekki svo.

Prachanda formaður, sem núna er einnig forsætisráðherra í Lýðveldinu Nepal, hefur verið í Kína og tekið upp vinsamleg samskipti við Kínverja. Flokksforysta hins rangnefnda Kommúnistaflokks Kína mun hafa stungið upp á því við hann og Nepalina að þeir sameinuðu hina mörgu kommúnistaflokka sína í einn.

Næstráðandinn, dr. Baburam Bhattarai, benti á að viðskeytin væru til að aðgreina flokkana hvern frá öðrum, t.d. Kommúnistaflokkur Nepals (marxistar), Kommúnistaflokkur Nepals (sameinaðir marx-lenínistar) o.s.frv. Þar sem maóistaflokkurinn ber höfuð og herðar yfir hina, sé kannski eðlilegast að hann kalli sig einfaldlega Kommúnistaflokk Nepals. Nú þegar standa yfir viðræður við Kommúnistaflokk Nepals (sameining-miðja-Masal) um sameiningu. (Sjá Times of India.)

Hugmyndafræðileg skuldaskil eru einkum þau að Nepalirnir segjast munu halda tryggð við fjölflokkalýðræði og federalisma, en hvorugt mun hafa verið Maó gamla að skapi.

Það er engin vanþörf á að endurskoða arfleifð Maós. Sú endurskoðun er hins vegar vandmeðfarin, eins og önnur pólitísk endurskoðun. Ég þori ekki að leggja höfuðið að veði að Nepalirnir endurskoði það slæma og haldi því góða.

Tuesday, October 14, 2008

Hvað ber að gera og hvað ber ekki að gera?

Á Austurvelli eru dagleg mótmæli gegn efnahagsástandinu, klukkan tólf á hádegi. Mætið á morgun og takið vini og ættingja með. Sýnum ráðamönnum að okkur sé ekki sama, að við krefjumst breytinga. Rekum af okkur það slyðruorð, að við nennum aldrei að mótmæla neinu, þótt ekki sé nema í þetta eina skipti.

Ráðamenn þjóðarinnar spóla í sinni eigin for og á meðan sökkvum við dýpra og dýpra. Sumir þeirra tala um Evrópusambandið eins og einhvern Mahómet sem muni leysa málin. Aðrir tala um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, eins og hann muni redda okkur. Þeir sem þannig tala eru greinilega haldnir alvarlegum misskilningi. Þórarinn Hjartarson rekur það í grein dagsins á Egginni:

Náð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er dauði.

~~~ *** ~~~ *** ~~~

"Stefanía Óskarsdóttir ... segir að Íslendingar standi frammi fyrir því að ræða alvarlega, í hvers konar þjóðfélagi þeir vilja búa." (*) Það eru orð að sönnu. Það er kominn tími til að taka allt til endurskoðunar, ekki bara stýrivexti og krosseignatengsl, heldur líka lýðræðið, stjórnmálaflokkana, eðli hagkerfisins, stjórnarskrána og heilan helling af öðru. Við þurfum að taka allt þjóðfélagið til endurskoðunar, halda í það sem er þess virði að halda í en henda miskunnarlaust í burtu því sem spillir og finna nýtt í staðinn.

~~~ *** ~~~ *** ~~~

Ég er sammála Guðna Ágústssyni um að við eigum ekki að koma skríðandi til Evrópusambandsins. Ef Ísland hefur þörf fyrir meiri samninga við það, þá á að semja þegar samningsstaðan er sterk, ekki þegar við þurfum að koma eins og beiningamenn.

Hér er grein um málið, eftir sjálfan mig: Nokkrar ástæður fyrir andúð á Evrópusambandinu;

...einnig má benda á grein Ólafs Þórðarsonar: Hrædd og skjálfandi í pilsfaldi ESB.

~~~ *** ~~~ *** ~~~

Össur vill lífeyrissjóði í Kaupþing. Grétar hvetur til varkárni í þeim efnum. Ég sammála Grétari -- án þess að maður útiloki neitt, þá væri glapræði að hlaupa að neinu. Á þeim nótum er hér vísukorn:

Púkkar upp á auðvaldið
sem okkur hefur glapið.
Össur bindur vonir við
að við öll borgum tapið.

Monday, October 13, 2008

Mótmælum óstjórn í efnahagsmálum!

Finnst þér að seðlabankastjóri sé starfi sínu ekki vaxinn og eigi að víkja tafarlaust? Finnst þér krónan vera vonlaus gjaldmiðill? Finnst þér stýrivextir of háir? Finnst þér að Geir H. Haarde eigi að segja af sér? Finnst þér efnahagsástandið vera í einu orði sagt óþolandi?

Komdu þá á Austurvöll í hádeginu í dag. Mótmælum því að vera dregin með ofan í svaðið, sýnum þessum mönnum nú einu sinni að við látum ekki bjóða okkur hvað sem er!

- - - - - - - - - - - -

Meistari Jón Karl ritar á Eggina: "Gandreið nýfrjálshyggjunnar, 2. hluti" OG "Smjörklípan súra". Lesið það.

Fáum frekar gjaldeyri hjá Norður-Kóreu

Hið eina sanna föðurland verkalýðsins, Lýðræðisalþýðulýðveldið Kórea, hefur verið tekið af lista yfir hryðjuverkaríki. Þetta býður upp á tækifæri.

Opinber stefna Norður-Kóreu heitir "Juche-hugmyndin" og er þökkuð ástsæla og eilífa forseta Kim Il-sung. Nafnið þýðir "sjálfsþurft" og er nokkurt réttnefni. Hugmyndin krefst skilirðislauss fullveldis landsins, í bókstafstrúarlegum skilningi orðsins, m.a. að landið sé sjálfu sér nægt um allar nauðsynjar. Nú, það er það auðvitað ekki, en í samræmi við þessa stefnu þá hafa Norður-Kóreumenn átt það til að borga fyrir innfluttar vörur með dollaraseðlum sem þeir prenta sjálfir. Það kalla ég sjálfsbjargarviðleitni. Nú, ef þeir eru ekki á þessum hryðjuverkalista, þá ættum við að geta fengið dollara hjá þeim án þess að óhreinka á okkur hendurnar.

Reyndar held ég ekki að margir viti að það eru alveg diplómatísk tengsl milli Íslands og Norður-Kóreu. Ef þið skoðið opinberan fréttavef norður-kóresu ríkisstjórnarinnar, má sjá fréttir af samskiptum ríkjanna sem ég hef ekki séð fréttir um í íslenskum miðlum. Dæmi: Þingforseti Norður-Kóreu sendi Ólafi Ragnari Grímssyni og Íslensku þjóðinni hugheilar hamingjuóskir á þjóðhátíðardaginn árið 2000 (*). Ég man ekki eftir að Ólafur hafi fært okkur þá kveðju, en ég var reyndar erlendis þá, þannig að það hefur máske farið framhjá mér. Sams konar kveðja barst árið 2001, með heilla- og hamingjuóskum frá vinaþjóð okkar Norður-Kóreumönnum (*).

Nú, í júní 2004 tók Ólafur Ragnar Grímsson við trúnaðarbréfi Jon In Chan, sendiherra Norður-Kóreu gagnvart Íslandi, með aðsetur í Stokkhólmi. Við það tækifæri sagði Ólafur að Ísland óskaði þess að "styrkja tengslin við Norður-Kóreu og eiga samstarf á alþjóðavettvangi" (*). Ég minnist þess ekki heldur að Íslendingar hafi sýnt Kóreumönnum sérstaka samstöðu nýlega. Kannski að við getum byrjað á því með því að fá hjá þeim dollaraseðla. Getum borgað þeim með hvalkjöti frá Kristjáni Loftssyni og 550.000 óseljanlegum gæruskinnum hjá sláturfélagi Sauðárkróks.

Ólafur Ragnar er ekki sá eini sem hefur átt hlý samskipti við þessa heiðursmenn frá Kóreu. Pak Pong Ju, forsætisráðherra Norður-Kóreu, sendi Geir H. Haarde hamingjuóskir þegar sá síðarnefndi tók við embætti forsætisráðherra Íslands í hittifyrra, og árnaði honum heilla í þessu ábyrgðarfulla starfi. Kannski að þetta sé að koma fram þessa dagana, með norður-kóreskum formerkjum? Á sama tíma fékk Valgerður frænka mín Sverrisdóttir einnig hamingjuóskir frá utanríkisráðherra Norður-Kóreu, með að hafa orðið utanríkisráðherra Íslands (*).

Fyrst það er uppi á borðinu að fá lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eða Rússlandi, þá sé ég ekki hvers vegna við ættum ekki líka að skoða þann möguleika að rækta vinskapinn við vinaþjóð forsetans og forsætisráðherrans, Norður-Kóreu.

Saturday, October 11, 2008

Úr öskunni í eldinn?

Ef Ísland kemst á framfæri IMF, þá held ég nú að það muni harðna á dalnum. Úff.

--- --- --- ---

Í dag laugardag eru mótmæli á Austurvelli kl. 12. Krafa dagsins er: Burt með þá sem komu okkur í þetta klandur! Látið það berast.

Friday, October 10, 2008

Tilkynning og hugleiðingar dagsins

Það á víst að láta þetta berast áfram. Ekki stendur á mér að verða við því:
Við krefjumst þess að Seðlabankastjórar segi af sér á stundinni. Nú er nóg komið!
Safnast verður saman við styttuna af Ingólfi Arnarssyni
kl. 12, þann 10. október og rölt yfir að torginu fyrir framan Seðlabankann.
Nallinn verður sunginn og gjallarhorn til staðar fyrir þá sem taka vilja til máls.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Menn segja að eins og General Motors fer, svo fari Bandaríkjunum. Nú, í gær lækkuðu bréf GM um 31%. Miðað við hvernig reksturinn hjá þeim gengur, þá eiga þeir eftir að missa fleiri spóna úr aski sínum áður en langt um líður. Og svo fer Bandaríkjunum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Gærdagurinn bar þó a.m.k. eina gleðifrétt í skauti sér: SPRON og Kaupþing eru ekki að fara að sameinast! Guðlegt inngrip? Ég skal ekki segja – en ég er alla vega hress með það. Eins og ég rakti í bréfi til stjórnenda SPRON um daginn, nenni ég varla að hætta viðskiptum við Kaupþing í annað sinn, þótt fyrra skiptið hafi verið mjög ánægjulegt nú fyrr á árinu. En ég þarf kannski ekki að hafa áhyggjur af því þessa dagana. Hitt veit ég, að SPRON fær áframhaldandi séns.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Björgólfarnir bera ekki nafn með rentu. Ég spái því að þeir séu nú í Sviss og hafi látið breyta á sér andlitunum með skurðaðgerð. Nema þeir séu í felum í helli í ættbálkahéröðum í Norður-Pakistan, þar sem ég held reyndar líka að Elvis dyljist. Síðari tilgátan kann að vera sennilegri; ég sá það í fréttum að Pakistan er líka í björtu báli af efnahagserfiðleikum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er ekkert annað en móðgun út í okkur öll, þegar Davíð Oddsson þykist enga ábyrgð bera á ástandinu. Það er móðgun að ætlast til þess að við séum nógu heimsk til að trúa því. Hann kennir auðvaldsdólgunum um að hafa „misnotað frelsið“ og það sé þeim sjálfum að kenna. Nei Davíð, þeir misnotuðu forréttindin. Það „frelsi“ sem Davíð innleiddi var ekki frelsi fyrir fólk heldur fyrir peninga – það er að segja, gegn fólki. Auðmagn fylgir einfaldri reglu: Að éta eða vera étinn. Við vorum étin. Verði okkur að góðu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Talandi um snillinga og frjálshyggju (og menn í felum), þá hefur bloggið hans Friðbjörns Orra breytt um svip síðan ég sá það síðast. Er þetta nýskeð? Ég er mun ánægðari með það svona!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég vil annars líka vekja athygli á þessu.

Thursday, October 9, 2008

Tveir meistarar

Ég gat um það í síðustu færslu að Sævar Cieselsky væri maður dagsins. En ég held að Snorri Ásmundsson verði að kallast það líka: Seðlabankastjóra sagt upp. Úff, það þurfti einhver að gera þetta.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er viðeigandi að nota hryðjuverkalöggjöf gegn alvöru hryðjuverkamönnum til tilbreytingar, en ekki gegn fólki sem er á móti Íraksstríði eða Sellafield-stöðinni. Ég er viss um að Ósama er grænn af öfund út í Björgólfsfeðga núna.

Ef út í það er farið, gæti ég alveg trúað því að Björgólfsfeðgar sitji núna í helli í löglausu ættbálkahéraði í Norður-Pakistan. Þeir, Ósama og Elvis saman í helli.

Wednesday, October 8, 2008

Bubbi með opna buxnaklauf

Ég mætti á "mótmælatónleika" Bubba Morthens, aðallega af forvitni. Að því leyti varð ég ekki fyrir vonbrigðum; þetta var talsvert forvitnilegt. Fyrstu mótmælin sem ég hef verið við, sem leysast upp í popptónleika. Minnti mig ekki mikið á mótmæli, meira sjómannadaginn, fyrir utan að það var minna rok. Þetta minnti kannski ennþá meira á fyrsta maí. Róttæknin var í það minnsta ekki meiri, þótt klisjurnar hafi verið ennþá yfirgengilegri. Þegar ég hélt að hafsjór brimskaflanna væri þurrausinn, þá kom Bubbi Morthens og sýndi fram á annað með slíkri skorpu að ég réð varla við mig af hryllingi. Bubbi sagði frá því hvað getur verið erfitt hjá fjölskyldum, og hvað það er núna erfitt hjá okkar fjölskyldu. Hann líkti því við sína eigin fjölskyldu. Einhvern tímann var hann með víst með deliríum tremens og það var bleikur fíll í stofunni hjá honum. Stofan fór í rúst áður en nokkur minntist á fílinn. Og núna er stofan hjá fjölskyldunni okkar allra komin í rúst. Skáldlegt.

Spádómur Stefáns Friðriks rættist næstum því; Bubbi flutti splunkunýtt lag. Það var að vísu hvorki samið gegn FL Group, Hannesi Smárasyni né öðrum kónum sem hafa farið illa með peningana hans og annarra, heldur var boðskapurinn í stuttu máli þessi: "Við erum fjölskylda, stöndum nú saman og þraukum í gegn um þessa erfiðleika eins og fjölskylda, því við erum ein stór fjölskylda." Hann bætti við, eitthvað á þessa leið: "Nú er ekki tíminn til að finna sökudólga eða benda fingri, heldur til að standa saman og bíða eftir að þetta líði hjá." Með öðrum orðum, þá benti hann engum fingrum og minntist ekki á neina sökudólga. Bubbi hefur semsé greinilega ekki dregið lærdóm af dæmisögunni sinni um bleika fílinn. Það er nefnilega bleikur fíll í stofunni hjá okkur og sá fíll heitir AUÐVALD. Það er sökudólgurinn sem kom okkur í þetta klandur og þarf að benda á og gera upBubbiOgVodafone%2002p við í eitt skipti fyrir öll. Hann meinti kannski að þetta væri ein fjölskylda, hann og auðvaldið. Alla vega hefur eitthvað sljákkað í honum reiðin út í það í seinni tíð. Það er kannski eins og með fjölskyldur; þótt pabbi manns sé stundum leiðinlegur við mann þá er hann þó áfram pabbi manns?

Bubbi bað líka guð að blessa Ísland , nokkrum sinnum. Það hefði virst óviðeigandi, en í hópnum voru nokkrir með mótmælaskilti þar sem stóð "Guð blessi Ísland", svo kannski var það bara viðeigandi, þrátt fyrir allt.

Ég hef nú verið við ófá mótmælin um dagana, en af því fólki sem maður sér stundum þar, voru ekki ýkja margir á Austurvelli í dag. Bara löggurnar, rónarnir og svo ég og nokkur önnur. Þar á meðal var anti-bubba-herdeildin, sem hefur ekki áður komið fram opinberlega undir því nafni. Þau viðhöfðu viðbjóðslegan áróður gegn neyslumenningunni sem hefur gert okkur svo göfug og hamingjusöm. Siggi pönk var á svæðinu og seldi "Bankanum þínum er sama um þig"-boli. Hann er líklega einn af fáum Íslendingum geta geta séð fram á að efnast sæmilega á næstu vikum og mánuðum.

Þegar kristilegur rappari hafði lokið sér af og Bubbi var ennþá bíðandi baksviðs eftir að verða klappaður upp, sté maður dagsins á svið. Það var Sævar Cieselsky. Hann tók lagið, spann blús án nokkurs undirleiks eða tilgerðar og uppskar meira og einlægara lófatak en önnur númer. Ég mundi alveg mæta á tónleika með honum aftur. Bubbi kom svo aftur fram, bað guð að blessa lýðinn og minnti okkur á að við værum öll ein fjölskylda. Auðvaldið og við.

Enn af blessuðum efnahagsmálunum

Ætla ekki allir að mæta á Austurvöll klukkan 12 til að mótmæla með alþýðumanninum óbrotna, Bubba Morthens?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í Markaðnum í dag var haft eftir Robert Zoellick, forstöðumanni Alþjóðabankans, að hann óttaðist að heimskreppa gæti verið að skella á.


Sá er skarpur. Er ekki til einhver orða sem er hægt að sæma svona snillinga?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Lesið grein Jóns Karls Stefánssonar á Egginni: Gandreið nýfrjálshyggjunnar, 1. hluti
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Ef maður nennir ekki að lesa marga fjölmiðla á dag, eða hefur ekki tíma til þess, þá er til mjög fljótleg leið til að sjá aðalatriðin í hentingskasti. Það er nóg að tékka á kúrsinum á gulli, og þá veit maður hvernig er umhorfs í efnahagsmálum. Gullverð fyrir hagkerfið er eins og loftvog fyrir veðrið. Þegar verðið hækkar, þá eru markaðirnir óöruggir. Hér fyrir neðan sést þróun gullverðs undanfarna tvo mánuði:

...segir nokkurn veginn allt sem segja þarf, er það ekki?

~~~ ~~~ ~~~ ~~~

"Ekki lengur hætta á þjóðargjaldþroti" segir Geir. Já, hann segir það. Hann getur talað um traust. Geir ætti að skipta um vinnu, hann er svona álíka fyndinn og Spaugstofan.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég held ég verði gráhærður ef ég heyri fleiri klisjur úr sjómannamáli.

Tuesday, October 7, 2008

Kraftur og slen

Síðasta vika var mjög kraftmikil, en fór öll í garðvinnu á meðan veður leyfði, þ.e.a.s. þangað til snjór var kominn yfir allt. Ekki eltist ég jafnmikið við fréttir og umræðu alla dagana. Ég fór svo og sá Tý á laugardagskvöldið og einhvern veginn fór sunnudagurinn að miklu leyti í eitthvert slen. Ekki var það þó vegna þess að ég hefði tekið svona hraustlega á því kvöldið áður, meira vegna óreglulegs svefns, held ég.

Á gamals aldri er ég farinn að taka eftir þeirri ónáttúru hjá sjálfum mér, að verða syfjaður þegar fer að rökkva og vilja helst fara að sofa fyrir miðnætti, en vakna helst vel í tæka tíð fyrir morgunfréttir RÚV. Mjög hentugt fyrir næturvörð, hmm?

Ég lét loksins verða af því í vor, að ganga í Kvæðamannafélagið Iðunni. Hef nú farið á nokkra fundi, sett saman nokkrar vísur sem ég hef fleygt hér á blogginu, og legið yfir silfurplötunum líka. Þetta er hobbí sem ég kann að meta.

Örvæntingin, sem stór hluti þjóðarinnar var að sökkva í síðast þegar ég vissi, hefur farið nokkurn veginn fram hjá mér. Mikið er ég ánægður með reka hvorki bíl né skuldabagga.

Við hvað eru Ung vinstri-græn feimin?

Ef „Ung vinstri græn telja einsýnt að dagar þessa óhefta heimskapítalisma séu senn taldir“ og harma að „hrun hins óhefta og ómannúðlega heimskapítalisma skuli nú bitna á þeim sem síst skyldi“, hvað vilja þau þá að komi í staðinn? Í ályktun þeirra get ég ekki séð að þau stingi upp á nýju þjóðskipulagi í stað þess sem þau sjá að er að hrynja. Það er út af fyrir sig flest rétt sem kemur fram í þessari ályktun UVG, svo langt sem hún nær. En hvers vegna fara Vinstri-græn alltaf í kring um aðalatriðið eins og heitan graut?

Lausnin heitir sósíalismi. Hann hefur ekki verið á dagskrá Vinstri-grænna hingað til, og meira að segja verið bannorð þar á bæ. Hann er það greinilega ennþá. Djörfustu ályktanir ganga ekki svo langt að leggja til upptöku sósíalísks hagkerfis. Þarna sjáið þið ástæðuna fyrir því að ég er ekki félagi í VG. Þarna er ástæðan lifandi komin.

Sjá meira um málið:

* VG eru vinstrikratar

* Við þurfum öðruvísi flokk
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
"Smástirni á leið til jarðar" Það fyrsta sem mér datt í hug var að þetta smástirni væri íslenska hagkerfið.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Yrði það ekki kaldhæðnislegt ef Björgólfur Guðmundsson yrði höfuðpaurinn í nýju máli, þar sem Eimskip kæmu í stað Hafskips og Landsbankinn í stað Útvegsbankans?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Sá sem birti FL-Group myndböndin, með atbeina Jóns Geralds Sullenberger fyrir nokkrum vikum, hefur nú sett saman tvö afhjúpandi myndbönd til viðbótar, sem setja málefni líðandi stundar í samhengi: Glitnir 1 og Glitnir 2. Látið þetta ekki fram hjá ykkur fara. Í myndböndunum eru einfaldlega tekin saman atriði sem hafa komið fram í fréttum og túlkað og skýrt með trúverðugum og allsgáðum hætti hvernig óprúttnir fjármálamenn spiluðu með fólk og högnuðust sjálfir gríðarlega á því.

Monday, September 29, 2008

Lofkvæði um Ara sterka

Ari frændi var um daginn að hjálpa mér í garðinum og tók svo hraustlega á því að mér varð hugsað til sameiginlegs forföður okkar, Jóhanns Bessasonar bónda á Skarði í Dalsmynni, sem var annálað hraustmenni.

Það var kraftaverka von
víst í mínum garði --
Ari er dóttursonarson-
arsonur trölls á Skarði.

Það er aldeilis

84 milljarðar króna fyrir þjóðnýtingu Glitnis. Það er um það bil kvartmilljón á hvert mannsbarn á Íslandi, ef mér skjátlast ekki. Það verður fróðlegt að sjá hvað almenningur fær fyrir þessa aura.
Það verður líka fróðlegt að sjá hvernig greiðslan fer fram. Ætli ríkið borgi fyrir með hlutabréfum í sjálfu sér? Og hvers vegna er Lárus Welding beðinn um að vera bankastjóri áfram? Var það ekki hann sem sigldi bankanum í strand?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hrafn H. Malmquist ritar á Eggina um ævisögu Freyju Haraldsdóttur: Ævintýri Postulínu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Svanur Sigurbjörnsson skrifar á blogg sitt: Hin frelsandi þjóð - þjóð Thomas Jeffersons. Hvar er hún?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hugo Chavez segir Venezúela munu koma sér upp kjarnorkuverum í friðsamlegum tilgangi.

Saturday, September 27, 2008

Kveðskapur

Hringhenda um veðrið:

Himnavatnavosbúð er,
vætir gatnabekki.
Víst ei batnar veðrið hér,
vonzkan sjatnar ekki.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Þar sem listaskáldið Þorsteinn Erlingsson hefði orðið 150 ára í dag, hefði hann lifað, langar mig til að pósta hér vísu sem annað listaskáld, Andrés Björnsson, orti til hans eftir að Þorsteinn hafði farið rangt með seinnipart í vísu eftir Andrés:

Drottnum illur, þrjóskur þræll,
Þorsteinn snilli-kjaftur
botnum spillir, sagnasæll
Sónar-fylliraftur.

Og hafiði það.

Monday, September 1, 2008

Heill hildi frá ... svona nokkur veginn

EFtir sex vikna ferðalag um Evrópu sneri ég heim rifbeinsbrotinn og hef verið á leyfi frá vinnu vegna þess. Undanfarnar vikur hafa ekki verið alveg viðburðasnauðar þótt ég hafi lítið bloggað. Ég fór ásamt Rósu austur í sumarbústað, þar sem ég tíndi kíló af krækiberjum og 5 kíló af bláberjum. Þá fór ég í berjaferð á Fáskrúðsfjörð/Reyðarfjörð (með viðkomu í Grímsnesi), þar sem ég tíndi allt í allt um 25 kíló af krækiberjum, 7 kíló af bláberjum og 5,5 kíló af aðalbláberjum. Fyrir utan þetta hef ég tínt eitt og hálft kílí af sólberjum og ellefu af rifsberjum og á eftir að tína eitthvað meira. En er s.s. kominn upp í um það bil 56 kíló allt í allt. Ekki slæm byrjun það, eða hvað?



Árið 2003 mætti til leiks á Töfluna notandinn Tanngnjóstur, sem því miður hefur verið tekinn af lífi núna. Í einum umræðum, þar sem spurt var hvað fólk mundi velja ef það mætti velja sér dauðdaga sjálft, þá sagðist Tanngnjóstur óska þess að vera étinn af villidýri. Þá orti ég til hans gagaraljóðið "Tanngnjóstur reynir að láta ísbjörn éta sig" og póstaði því. Í fyrradag tók ég það ljóð, sem er löngu dottið út, og fínpússaði það aðeins. Hér er afraksturinn:

Tanngnjóstur reynir að láta ísbjörn éta sig II
(Upphaflega ort 21. nóvember 2003, fínpússað 29. ágúst 2008)
Vésteinn Valgarðsson

Leggur hafís landi að.
Lítur út að sjónarrönd
ungur maður, þenkir það:
„Þetta er tími að fórna önd.“

Skíði bindur skóna á,
skellir á sig húfubút.
Hugsar: „Því að nesta ná?“
Næst frá hlaði rennur út.

Heldur út á hafsins þak,
hemin brakar undir fír.
Sér á hjarni hramma tak
- hér mun gott að elta dýr.

Fylgir Gnjóstur fóta slóð,
fæti veldur lagður sjór.
„Dreifast mun vort dýra blóð,
drekka skal það kaldur snjór.

Étinn trú'eg verði vel,
villidýr skal mettun fá.
Þar í iðrum dimmum dvel,
dauði væri flottur sá!“

Sígur rökkur austri úr
- ekki styttir skugga þá.
Úr lofti finnur skafla skúr.
Skata faðmar þoka grá.

Gegnum veður vont hann brýst,
vandfundin er skepnu leið.
Dýrið finnur seggur síst,
sárna gerist kulda neyð.

Gnjóstur fram á gengur dýr,
gleiðan hefur skolt og þjó.
Æpir, stappar borgarbýr,
björninn ekki vaknar þó.

Nemur af sér skati skíð.
Skepna verði á fætur ræst.
Sefur björninn sem í híð
sé og ekki vakna læst.

Af afli tekur halur hopp
- hygg eg lipurt væri mjög.
Lendir - brestur! - *skvúmp* og *skvopp*
- skvettist sjór á fannalög.

Dettur kappi kraps í vök,
köldum sjó hann dreypir á.
Sunds þó reynir rekkur tök
- rostungar hann etið fá.


Þegar þessari endurgerð var lokið hugsaði ég að það mætti nú gera betur en þetta. Svo ég ákvað að yrkja allt saman upp, undir dýrari bragarhætti. Mansöngserindið er sjöþætt braghenda, hinar skárímaðar, frumþrístiklaðar, síðhendar braghendur. Takið, með öðrum orðum, eftir innríminu:

Tanngnjóstur reynir að láta ísbjörn éta sig III
(Ort upp úr (II) þann 29. ágúst 2008)
Vésteinn Valgarðsson

Vil ég bjóða vænum fljóðum Vestra róður.
Vil eg hljóð að veitist óðum,
vil eg tróður hugi að ljóðum.

Lífs úr sút þá leit hann út, hann lagðahrútur,
breiðu ísa gefur gætur,
gjörði rísa strax á fætur.

Tækifæri telur hæru-Týr að væri
lífi að fórna, létt í spori
leika skórnir sem á vori.

Ísaröndu rekkur öndrum rann frá löndum.
Vetti bar á báðum mundum
- blástur var á frosnum grundum.

Lífs ei gjarn nú lýður hjarna- leitar -bjarnar.
Dauðaþrár hann dreymir ærnar,
dýrið fláa noti klærnar.

Veðrið lægir, lýðum vægir lagður Ægir.
Sporin hrammahunds er eygir
hraðar þrammar bogasveigir.

Laut var freðin, ljúft á beði lá þar héðinn.
Af sér losar skati skíðin,
í skottið tosar ekki kvíðinn.

Bersi ei gegnir Gnjósti er egnir gramur þegninn.
Áfram lúrir heimskauts högninn,
þótt hvetji búri raddar gögnin.

Æstum Gnjósti býr í brjósti bráðar þjóstur.
Röddu dátt hann brýnir byrstur,
belgja knátti dauðaþyrstur.

Gnjóstur klappar, knýr og stappar kuldahrappi.
Er í blundi bjarnarseppi,
brestur undan klaki greppi.

Sundtök drengur æfir, engist, illa gengur.
Veisla rostungs verður lungur
í vök við brostin ísaklungur.

Saturday, July 26, 2008

Motmaeli i Beograd

Eins og einhverjir vita er eg staddur i Beograd i Serbiu. Her eru motmaeli a hverjum degi, gegn handtoku Radovans Karadzic. Eg fylgdist med einum slikum i fyrradag (sja hitt bloggid mitt) og odrum nu adan a medan eg sat og at burek a Trg Republike. Eg giska a ad thad hafi verid eitthvad a thridja thusundid i motmaelunum adan, og thonokkur hiti i monnum. Logreglan var med mikinn vidbunad.

I gaer for eg a rokktonleika og taladi thar vid serbneskan ponkara. Eg spurdi hann hvort Antifa vaeri ekki til herna, og hann helt nu thad, thad vaeri meira ad segja sterkt. Eg sa Antifa samt hvergi vid thessi motmaeli.

Thursday, June 19, 2008

Ferðasaga frá ágúst 2007 -- IV. hluti

Þetta er fjórði og síðasti hluti af ferðasögunni frá því í fyrra. Hér má lesa: I. hluta, II. hluta og III. hluta.

Ég man ekki hvað klukkan var þegar við fórum á fætur þann 19. ágúst. Plan dagsins var svosem einfalt: Ganga um gamla bæinn og miðbæinn. Við vorum vopnuð „plan grada“ svo við gengum beint niður í gamla bæ – Stari grad. Ef gamla bæ skyldi kalla. Eftir að hafa farið í súpermarkað og keypt mat og drykk og gætt okkur á því á einhverju sem leit út eins og áhorfendabekkir umhverfis stórt blómaker (?). Þjóðernissinnað veggjakrot var áberandi – einkum serbakrossar og áletranir svartfellskra snoðkolla.
Að kýldri vömb, röltum við inn í gamla bæinn, sem var síst beysnari en fátækrahverfið þar sem hótelið var. Furðulega rislítil hús, og fæst virtust einu sinni vera sérlega gömul. Helst einn turn, sem gat verið meira en aldar gamall. Eftir að hafa gengið þarna um og séð, tja, ekki neitt, þá fórum við á veitingahús og fengum okkur að éta. Ljúffengar steiktar lambapylsur. Eineygður flækingsköttur fékk líka bita.
Svo fórum við og skoðuðum „Þúsaldarbrú“, ferlega ljóta brú byggða í tilefni af árþúsundamótunum, tvær-þrjár styttur í stórum almenningsgarði og eitthvert hverfi þar sem annað hvert hús virtist vera yfirgefið og niðurnítt, og hefði getað orðið fyrirtaks hippakommúna. Vínviður og kívíjurtir í laufskálum spilltu ekki fyrir. Við enduðum á Búdda Bar, flottri knæpu með flottum innréttingum, sem var mælt með í Lonely Planet-bókinni. Jamm, fínasta knæpa það. Eftir að hafa setið þar í nokkra klukkutíma gengum við í gegn um miðbæinn, aftur á hótelið, og fórum frekar snemma að sofa.
Þann tuttugasta ágúst vöknuðum við snemma, pökkuðum niður farangri okkar, tékkuðum okkur út og fórum út á rútubílastöðina við hliðina. Þar keyptum við okkur miða með rútunni til Cetinje, og svo þaðan til Kotor.
Cetinje er gamla höfuðborgin í Svartfjallalandi. Ástæða þess að það er svona fátt að sjá í Podgorica er, að hún hefur einfaldlega ekki verið höfuðborg það lengi. Varla meira en öld. Í Cetinje eru hallirnar, söfnin o.s.frv. Við stigum út úr rútunni á rútubílastöð og vingjarnleg kona sem rak greiðasöluna þar lofaði okkur að geyma farangurinn okkar hjá sér fyrir eina evru. Ekkert mál. Því næst gengum við niður í bæinn (m.a. framhjá íþróttavelli sem hin pólitíska þróunarhjálp Bandaríkjanna kostaði). Við eina götuna gat að líta lágreista kumbalda við hlið glæsihalla sem eitt sinn hýstu erlend sendiráð í Svartfjallalandi. Við fundum almenningsgarð, þar sem við settumst og supum einn bjór. Síðan var það þjóðminjasafnið. Það var sko þess virði að heimsækja! Þar gat að líta sömu rómversku fornleifarnar og á flestum þjóðminjasöfnum Evrópu, og allstóra sýningu um júgóslavnesku andspyrnuna í stríðinu – aftur, eitthvað sem mátti sjá víðar – en loks var það aðalatriðið: Þannig er mál með vexti, að Svartfellingar héldu sjálfstæði sínu (gegn Tyrkjum) í um 800 ár – frá því á 13. öld og þangað til þeir gengu sjálfviljugir inn í júgóslavneska ríkjasambandið upp úr fyrri heimsstyrjöld. Tyrkir reyndu ítrekað að leggja landið undir sig – oh, hvað þeir reyndu – en urðu frá að hverfa í hvert einasta sinn. Svartfjallaland var eins og brimbrjótur, sem stóðst hverja holskefluna á fætur annarri. Tyrkir gerðu semsé heilar 44 innrásir á þessum átta öldum eða svo, og um það vitnar þjóðminjasafnið: 44 herteknir, tyrkneskir gunnfánar! Það var óneitanlega glæsileg sjón, og vel þess virði að koma til Cetinje til að sjá þá!
Auk þjóðminjasafnsins, skoðuðum við Lovcen-klaustrið, sem er frá 13. öld. Það er voða snoturt, en við skoðuðum það bara lauslega. Þar keypti ég mér þó svartfellskan hatt, með serbakrossi uppi á kúfnum. Klæðilegasta flík. Eftir að hafa skoðað klaustrið ætluðum við að fá okkur einn kaldan, settumst inn á gangstéttakaffihús, en eftir að þjónninn hafði gengið fram hjá okkur svona 20 sinnum á hálftíma, fórum við aftur á rútustöðina. Hana fundum við eftir dálitla leit, og tókum næstu rútu til Kotor.
Leiðin lá eftir hlíð Lovcen-fjalls, og síðustu kílómetrana var farið í óteljandi kengkröppum bugðum niður bratta og háa brekku. Lækkunin var vel yfir hálfur kílómetri, og bugðurnar á að giska tuttugu. Fyrir neðan okkur opnaðist Kotor-fjörður, dýpsti fjörður Miðjarðarhafs, og innst við hann borgin. Gamla borgin er á heimsminjaskrá UNESCO, enda með órofnum borgarmúr, sem er sambyggður við kastala uppi á hamri fyrir ofan með tveim nánast þverhníptum veggjum. Ekki er hægt að koma við bílaumferð um þröngar göturnar, þannig að allar götur eru göngugötur í gömlu borginni. Í mesta lagi ein og ein vespa sem þar sést. Fyrir framan aðalhliðið var markaður, þar sem mér bauðst að kaupa nokkuð flotta brjóstmynd af Tító á heilar svimandi 40 evrur – og standmynd sem ég spurði ekki einu sinni hvað kostaði.
Ef Podgorica og Cetinje eru ósnortnar af ferðamönnum, þá er Kotor það ekki. Minjagripabúðirnar voru alls staðar, seljandi allt frá friðuðum kuðungum í útrýmingarhættu niður í snjóknetti og staup, framleidd í Kína. Skran og skrum. Mér datt helst í hug einhvers konar kappát, eins og hjá pírana-fiskum. Það, eða diskótek. Erill og ös, feitir Þjóðverjar á hverju strái, fólk sem var í baðstrandarhugleiðingum. Semsagt, fólk sem var þarna í öðrum erindagjörum en við Rósa. En borgin var geysilega falleg. Við tékkuðum okkur inn á gistihús og vorum svo heppin að fá herbergi þar sem glugginn vissi ekki út að mestu ösinni, svo það var sæmilegur svefnfriður. Um kvöldið fórum við út og borðuðum mjög ljúffenga sjávarrétti – Rósa fékk sér svart risotto með kolkrabba; ég fékk mér fylltan smokkfisk. Það var sko matur. Eftir matinn gengum við meira um borgina, m.a. framhjá götusalanum sem ætlaði að okra á mér með Tító-brjóstmyndina. Ég spurði hvað standmyndin kostaði. Sá sem var að afgreiða var auðvitað þýskumælandi sígauni, og auðvitað reyndi hann að hössla mig: 120 evrur, takk fyrir! Spes verð fyrir mig því ég var svo frábær: Bara 90 evrur! Ég skoðaði standmyndina aðeins betur: Það vantaði nefið og önnur „smáatriði“ og hún var ekki einu sinni almennilega fest á sökkulinn. Nei takk. Hins vegar sá ég stóra brjóstmynd af Slobodan Milosevic – stóra, þunga og örugglega dýra. En það hefði óneitanlega verið gaman að eiga hana... Við fórum frekar snemma að sofa, enda höfðum við farið víða þennan dag.
Þann 21. ágúst vöknuðum við snemma, átum ljúffengan morgunverð og tékkuðum okkur út. Þar sem við höfðum dálítinn tíma, skoðuðum við nokkrar kirkjur og sjóminjasafn, en Kotor var mikill verslunarstaður fyrr á tíð (og er það sjálfsagt enn). Svo tókum við rútu áfram til Dubrovnik, í Króatíu. Hún var nokkra tíma á leiðinni. Við ókum meðfram ströndinni lengst af, framhjá óteljandi þorpum og sumarbústöðum og strandhúsum af öllum stærðum og gerðum. Í hlíðunum á hægri hönd var gróðurinn áberandi dökkur – oftar en ekki beinlínis svartur. Við vissum ekki hvers vegna, en héldum (og höldum enn) að það gæti tengst miklum skógareldum sem höfðu geisað á Grikklandi skömmu áður. Voru trén brunnin? Ég veit það ekki. En svört voru þau.
Þegar við komum til Dubrovnik, í síðdeginu, vissum við ekkert hvað við ættum næst að gera. Við vorum ekki með pantaða gistingu eða neitt slíkt. Á rútustöðinni var allt fullt af fólki sem bauð ferðamönnum gistingu. Eftir að hafa veifað svona sjö frá okkur, þá datt okkur í hug að tékka á þessu. Fullorðin kona var sú heppna, og keyrði okkur heim til sín, þar sem þau hjónin höfðu innréttað þetta líka glæsilega gistirými. Þar gistum við semsagt næstu tvær næturnar.
Þar sem aðeins var farið að síga á síðdegið ákváðum við að geyma gömlu borgina til dagsins eftir, og gengum þess í stað niður að höfninni, þar sem voru snekkjur í hundraðatali og skemmtiferðaskip fyrir landi. Í Lonely Planet-bókinni fundum við veitingastað sem var hrósað í hástert og ákváðum að tékka á honum. Það reyndist þrautin þyngri að finna hann, svo þegar við gengum fram á annan veitingastað sem einnig fékk góða dóma, þá prófuðum við hann bara í staðinn. Þetta var sjávarréttastaður. Ég man hvorki hvað hann hét né hvað ég fékk mér, en við vorum mjög ánægð með hann. Það kvöldaði og við fórum á gistihúsið og lögðumst til svefns.
Þann 22. ágúst, afmælisdag bróður míns, ákváðum við að skoða gömlu borgina. Á meðan ég var að hafa mig til, talaði Rósa við einhvern mann sem stóð fyrir utan gistihúsið, og hann sagði okkur margt og mikið um afstöðu sína og Króata almennt til Tító-tímans og stríðsins og þess alls. Meðal þess sem hann sagði var að fólk saknaði Tító-tímans almennt, en þetta hefði hrunið eftir að hann féll frá – auk þess sem Króatar og Slóvenar væru „vestrænir“ en Serbar og alveg sérstaklega Kosovo-Albanar væru „austrænir“. Þeir ættu einfaldlega svo fátt sameiginlegt menningarlega að það hefði verið ómögulegt að búa í sama ríkinu, eða alla vega sæju Króatar og Slóvenar ekki hvaða erindi þeir ættu í sama ríki og Kosovo, fátæku og vanþróuðu. Króatar í dag, sagði maðurinn, væru ennþá súrir út í Serba eftir borgarastríðið, og fannst þeir hafa gengið fram af hörku og grimmd. Meðal annars með stórskotaliðsárásum á friðsælar borgir eins og Dubrovnik. Þeir væru samt ekkert sérlega súrir út í Svartfellinga, og það mætti vel vingast við þá.
Þegar ég var loks til, þá héldum við af stað. Það var á að giska klukkustundar gangur til gömlu borgarinnar. Á leiðinni stoppuðum við á veitingahúsi og fengum okkur að borða. Gamla borgin er á heimsminjaskrá UNESCO, eins og gamla borgin í Kotor. Hún er líka með órofinn borgarmúr frá því í gamla daga og ber aldurinn vel. Hún ber það samt með sér að hafa verið miklu auðugri en Kotor – eða borgir yfirleitt – því mikið var af afar skrautlegum byggingum. Já, og göturnar voru hellulagðar með marmarahellum. Án djóks. Við skoðuðum okkur dálítið um. Gömul, há hús, þröngar brattar götur með þvottasnúrum strengdum yfir, kaffihús og veitingahús o.s.frv. Rósa tyllti sér á kaffihús á meðan ég spásseraði niður að gömlu höfninni, um torg eitt og svo upp eina götuna upp að gamalli sýnagógu og gyðingasafni sem ég skoðaði. Aðgangseyririnn var hár miðað við hvað safnið var fáfengilegt. Sýnagógan var aðeins áhugaverðari; ég hafði aldrei komið inn í slíkt samkunduhús áður og það var athyglisvert. Eftir þetta fór ég og fann Rósu og við gengum meira um þangað til við ákváðum að líta á veitingastað og fá okkur meira að éta. Bosnískur staður varð fyrir valinu og þar átum við bosnískar pylsur úr lambakjöti, ljúffengar mjög. Það kom kvöld, við tókum leigubíl upp á gistihúsið, pökkuðum dótinu okkar og lögðumst til svefns.
Hinn 23. ágúst vöknuðum við snemma, tékkuðum okkur út og fórum út á flugvöll. Við áttum flugmiða með innanlandsflugi til Zagreb, þar sem við ætluðum að hitta félaga Jón Karl og taka síðan lest þaðan til Þýskalands. Það var löng bið eftir því að tékka inn. Þegar það var búið fórum við inn í einhvern biðsal, og eftir langa bið þar fórum við í gegn um vopnaleit. Þá kom í ljós að ég hafði auðvitað gleymt að taka töngina mína upp úr handfarangrinum. Öryggisvörðurinn sem leitaði leit mjög stórt á sig og ég held að hann hafi verið í einhverjum minnimáttarkenndar-fílingi, að Króatar yrðu að sanna það í augum Vesturlandabúanna að hér væri hart tekið á öryggismálum, svo þeir ættu skilið að fá að ganga í Evrópusambandið og þann pakka allan. Það var alla vega það sem við hugsuðum.
„Og hvað er þetta?“ spurði hann með töngina í hendinni. „Þetta er töng,“ sagði ég, „hvað með það?“ „Það má nota hana sem vopn!“ sagði hann. „Nei,“ sagði ég, „þetta er meinlaust verkfæri og væri glatað sem vopn.“ Hann opnaði töngina, sneri henni við, tók á henni innan frá svo handföngin sneru sitthvoru megin út úr hnefanum á henni: „You could do anything with this,“ sagði hann. „Fífl,“ hugsaði ég, „ef þú reyndir eitthvað með töngina svona, þá mundirðu bara klípa sjálfan þig í lófann eða greipina.“ Ég lét mér nægja að segja að það væri rangt hjá honum, það væri alls ekkert hægt að gera hvað sem er með þessu. Þá, já haldið ykkur nú fast, krafðist hann þess að fá að sjá vegabréfið mitt – og skrifaði númerið á því niður. Það var og. Bara settur á svartan lista hjá innanlandsflugvellinum í Dubrovnik fyrir að rífa smá kjaft við einhvern bjálfa. Það þýddi ekki að þræta við þennan herramann, svo við ypptum öxlum og leyfðum honum að hirða þessa töng, sem hann þóttist geta gert hvað sem er með. Þannig séð var þetta nú eiginleg aheppilegt; út af veseninu með töngina tók hann ekki eftir því að ég var með vasahnífinn í vasanum, sem mér hefði orðið ólíkt sárara um að missa.
Við lentum í Zagreb, tókum lest inn á aðalbrautarstöðina og þar tróðum við farangrinum inn í geymsluskáp. Ég hugsaði með mér að það væri best að vera sniðugur, stakk hattinum mínum með inn í skápinn og setti í staðinn svartfellska hattinn með serbakrossinum á hausinn. Voða fyndið í Króatíu. Við fundum Jón Karl fljótt og hann benti mér á augngoturnar sem ég fékk. Karlarnir þarna í Króatíu – og það ber að taka fram að Zagreb ku vera höfuðborg nýnasisma í Evrópu – hafa auðvitað þekkt hattinn um leið og merkið líka, virt mig síðan fyrir sér og hugsað að ég hlyti að vera heimskur túristi sem fattaði ekki ögrunina sem fælist í þessu. Enda fattaði ég hana ekki. Ekki strax. „Hverjum er ekki sama um einhvern hatt?“ hugsaði ég. En Jón Karl fékk mig til að setja hattinn ofan í poka áður en við rækjumst á einhverja snoðkolla með hnífa. Það var líklega skynsamlegt. Við litum á krá, svo í búð þar sem við keyptum svolítið nesti, þar á meðal hinn ágæta króatíska Karlovacko Pivo, og síðan litum við á aðra krá áður en við þurftum að ná lestinni. Kvöddum Jón og ókum svo í næstum sólarhring, í gegn um Slóveníu, Austurríki og Þýskaland alla leið til Århus, þangað sem við komum að kvöldi 24. ágúst.
Þann 25. ágúst pakkaði ég til Íslandsferðar, og svo fórum við bæði tvö með lest til Kaupmannahafnar. Í sjálfu sér dreif ekki margt á daga okkar þar; við gistum tvær nætur hjá Eiríki bróður Rósu, heimsóttum höfuðstöðvar Kommunistisk Parti og skoðuðum ritstjórnarskrifstofu og prentsmiðju blaðsins þeirra, Arbejderen, í leiðinni. Bo vinur okkar sýndi okkur það allt saman og síðan borðuðum við kvöldmat með honum og Lene, konu hans.
Þann 27. ágúst flaug ég síðan heim og lýkur þar með frásögn þessari.

Monday, June 16, 2008

Nepölsku maóistarnir og stuðningur Kína?

Á Moggablogginu hef ég undanfarið séð nokkra bloggara halda því fram að ríkisstjórn Kína sé bakhjarl Kommúnistaflokks Nepals (maóista). Þetta er misskilningur. Kínverjar og Pakistanar studdu Gyanendra konung, Indland og Vesturveldin hafa stutt borgaralega sjöflokkabandalagið en maóistarnir hafa engan opinberan stuðning haft frá öðrum löndum, heldur fyrst og fremst treyst á snautt bændafólk nepalskra sveita. Nánar um þetta í greins em ég skrifaði á Eggina fyrir helgi: Nepölsku maóistarnir og stuðningur Kína.

Friday, June 13, 2008

Tvær vísur sem urðu til í gær

Lýsing á kettinum mínum, sem er orðinn 17 ára:

Skotta er orðin gamalt grey,
garmurinn illa meltir.
Skítur á gólfið, út fer ei,
ælu á fjalir geltir.

Oddhenda um veðrið undanfarna daga:

Geislum starði stíft á barð,
stundu jarðir merkar.
Af þurrki svarðar víst ég varð
að vökva garð -- og kverkar.

Wednesday, June 11, 2008

Stefnivargur í garði mínum

Ég hef verið að stússa heilmikið í garðinum að undanförnu. Gróðursett jurtir ýmsar; jarðarberjaplöntur, rósir, rammfang, jötunurt og fleira, og svo hef ég lyft grettistaki í matjurtagarðinum, eins og ég held að ég hafi einhvern tímann nefnt á þessum vettvangi. Í gær og fyrradag umplantaði ég öllum rófunum og radísunum -- á að giska 300 rófuplöntum og 600 radísuplöntum -- og hef haft í mörg önnur horn að líta.

En í fyrrimorgun var Bleik brugðið. Það voru spor í garðinum. Í kartöflu- og radísubeðunum. Spor eftir skó í barnastærð. Einhverjir pottormar hafa verið að hlaupa í gegn um fallega matjurtagarðinn minn.

Hvert ætli maður geti farið til að fá efni í rafmagnsgirðingu?

Monday, June 9, 2008

Landspítalinn sendi út viðhorfskönnun sem starfsfólk var beðið að svara. Könnunin sneri að nýja háskólasjúkrahúsinu, sem ég held að enginn viti hvort verður byggt á næstunni eða ekki. Sérstakelga var tekið fram að svörin væru ekki persónurekjanleg. Síðan komu spurningar um hitt og þetta, og í lokin var spurt um bakgrunnsbreytur: Kyn, barnafjölda, búsetu, nám, starfsaldur og vinnustað! Hvað haldið þið að það séu margir starfsmenn á Kleppi, sem eru barnlausir karlar með háskólapróf, búsettir í miðbænum og með lengri starfsaldur en 7 ár?

Lýðræðisflokkurinn

Frjálslyndi flokkurinn hefur reynt að gleypa atvinnubílstjórana með lýðskrumi en þeir eru kannski ekkert á því að láta gleypa sig. Eða hvað? Það verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr þessu, hvort hinn langþráði byltingarflokkur er þarna að fæðast, eða hvort þetta verður stefnulaust rekald. Hingað til hefur mér ekki þótt fara mikið fyrir pólitísku perspektífi í baráttu bílstjóranna. Baráttan hefur aðallega gengið út á að biðja ríkisstjórnina að lækka tolla og gjöld, eins og það skili einhverju.

Atvinnubílstjórum er auðvitað vorkunn. Menn sem voru verkamenn fyrir nokkrum árum síðan og með sín hagsmunasamtök samkvæmt því, en létu plata sig til að gerast "verktakar", færðu sig úr verkalýðsstétt yfir í smáborgarastétt, misstu um leið öryggi verkalýðshreyfingarinnar og eru á efnahags-pólitískum berangri nú þegar harðnar á dalnum. Það er ekkert grín að hafa fjárfest persónulega í stórvirkum vinnuvélum og ráða ekki lengur við afborganir af þeim vegna hækkandi olíuverðs.

En lausnin er ekki innan marka núverandi kerfis. Hvað ætti ríkisstjórnin að gera, afnema tolla og gjöld af eldsneyti? Eins og það leysi eitthvað málið? Olía er þverrandi auðlind og ekkert sjálfsagt hvernig henni er ráðstafað. Nei, málið er auðvitað að það þarf að taka allt saman upp og fara yfir það frá upphafi til enda. Það þarf að taka allt borgaralega efnahagskerfið, allt borgaralega þjóðskipulagið til efnahags-pólitískra gjaldþrotaskipta. Það er betra að gera það strax heldur en að bíða eftir að allt fari til andskotans fyrst.

Ferðasaga frá ágúst 2007 -- III. hluti

Vegna lengdar pósta ég þessari sögu í nokkrum hlutum. Þetta er þriðji hluti. Hér má lesa: I. hluta og II. hluta. Afgangnum verður póstað á næstu dögum.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Lestin kom til Ljubljana klukkan 06:05 að morgni fimmtudaginn sextánda ágúst. Ég var örþreyttur og glorsoltinn. Ég stakk farangrinum mínum inn í þar til gert hólf, borðaði svo það skásta sem ég fann á lestarstöðinni, sem var eitthvað snakk og kaka. Svo settist ég á kaffihús, fékk mér kaffisopa og tvo bjóra og las frameftir morgni. Þar kláraði ég síðustu síðurnar í Opið land (og ég get ekki sagt að ég sé bergnuminn af lestrinum) og las síðan Að vera eða sýnast eftir Hörð Bergmann, og það er bók sem allir ættu að lesa; hnífskörp greining á sýnimennsku og látalátum markaðsskrumara og auglýsingasnápa, orðræðu og skilyrtri hugsun og þar frameftir götunum – í alvöru talað, lesið hana, hún er stutt og hnitmiðuð og auðlesin, en skilur mikið eftir sig.
Ég gekk sem leið lá frá lestarstöðinni í Ljubljana, eftir stórri götu, þangað til ég kom að Drekabrú. Svo gekk ég eftir suðurbakka árinnar þar til ég kom að Þreföldubrú, og norður yfir hana, þar sem ég settist á gangstéttarkaffihús og kvittaði fyrir komuna með því að skrifa nokkur póstkort. Kaffihúsið var á aðaltorginu í miðbænum, með Þreföldubrú á aðra hönd og Laxableikukirkju á aðra. Í flestum borgum er aðaltorgið prýtt styttu af einhverjum kóngi á hesti og með sverð í hendi, en í Ljubljana er það þjóðskáldið sem vakir yfir aðaltorginu. Yfir honum er listadís sem heldur lárviðarkransi yfir höfði hans, og sú dís táknar stúlkuna sem hann fékk aldrei að kvænast, en varð honum innblástur í óteljandi harmaljóð. Sönn skáld eru í ástarsorg alla ævi, ekki satt? Eftir þetta fór ég yfir á Lýðveldistorg og leit á háskólann sem Hrafn meðleigjandi minn var á leiðinni í. Síðan fór ég yfir á Torg frönsku byltingarinnar, og aftur suðurfyrir ána og austur eftir bakkanum og inn í gamla bæinn og skoðaði hann; gullfallegur. Þegar ég hafði gengið nokkurn spöl eftir helstu götunni í gamla bænum, ákvað ég að leggja leið mína í gegn um einhver undirgöng sem voru upphaf á þröngri, gamalli götu. Heitir sú Kljucavnicarska, og þar, í húsi númer fimm, fann ég krá sem heitir Pr’ Skelet – Beinagrindabar. Það er kannski flottasta krá sem ég hef séð. Kjallari, allur innréttaður með beinagrindum, bæði af fólki, dýrum, og ýmsum skrímslum og meira að segja dreka. Þegar ég ætlaði á klósettið fann ég það ekki, spurði hvar það væri og var bent á að fara „út eftir þessum gangi og til hægri“ – og þar sá ég ekkert klósett. Þá kom afgreiðslustúlkan með mér og ýtti á bókahillu – sem opnaðist og við blasti þetta líka huggulega kló!
Ég fór svo frá Pr’ Skelet til að sækja Rósu á lestarstöðina. Hún var væntanleg um klukkan 14 frá München, og lestin hennar kom frekar stundvíslega. Það urðu fagnaðarfundir. Við fórum svo og fundum okkur gistingu. Ég reyndi líka að ná í Mateju og Drago, vinafólk foreldra minna sem býr í Ljubljana, en það svaraði ekki hjá þeim og ekki hjá Urc syni þeirra heldur, því miður. En þar sem ég var búinn að skoða margt af því helsta, þá var ég fljótur að sýna Rósu það líka. Síðan fórum við á gistihúsið. Þetta gistihús var dálítið spes. Það er semsé heimavistarskóli á vetrum, en gistihús á sumrum, og allt innréttað eins og frekar óvistlegur austurevrópskur heimavistarskóli. Morgunmaturinn var ekki sérlega góður heldur. En það var ekki dýrt.
Seytjánda ágúst fórum við af stað og tókum kláf upp í Ljubljana-kastala. Hann er ansi hreint flottur. Þar ægir öllu saman, rómverskum hleðslum, rómönskum byggingarstíl, hinum og þessum síðari tíma stílum og síðan hrikalegum steinsteypukassa frá áttunda áratugnum. Við fórum upp í útsýnisturninn, þaðan sem sér yfir um þriðjung Slóveníu í góðu skyggni. Fengum okkur líka öl, og litum inn í gallerí þar sem má kaupa slóvenskt handverk. Þar á meðal voru hefðbundnar framhliðar á býflugnakassa. Þær voru alveg æðislegar; mótífin voru eitt og annað úr reynsluheimi og ævintýrum fólks í gamla daga; þar á meðal kóngurinn sem situr við borðið sitt, sem svignar af gullpeningum, með skegg svo sítt að það nær niður á borð. Einnig „útför veiðimannsins“, mótíf sem kom fyrir í nokkrum útgáfum, þar sem veiðimaðurinn er dauður og dýrin eru að bera hann til grafar: Gaupa með prestakraga, rebbi heldur á krossi, hérinn og úlfurinn halda á líkbörunum og fleiri veiðidýr fylgja á eftir, eitt klætt sem meðhjálpari og annað með Biblíuna og eitt þerrar hvarmana með vasaklút. Eitt mótífið sýndi Kölska haldandi andlitinu á konu niður að hverfisteini – það táknar hina hvössu tungu sem konur nota víst til að slúðra með – og svo var eitt þar sem björn var að stela býflugnabúi, býflugurnar flugu sjóðvitlausar í kring um hann en býflugnabóndinn skaut á hann með haglabyssunni sinni. Svakalega skemmtilegar, naívar og sjarmerandi myndir.
Þar sem lestin okkar átti að fara upp úr hádegi stöldruðum við ekki svo lengi við í kastalanum, en á leiðinni þaðan komum við samt við á Pr’ Skelet til þess að fá okkur einn Gorski Skrat – fjalladverg – kokteil sem samanstendur af 1 melónuvodka, 1 amaretto, 1 malibu, dass af grenadine, ananassafa og ísmolum, og smakkast hreint ljómandi vel. Og síðan héldum við á lestarstöðina, en næst ætluðum við til Podgorica.
Lestin til Podgorica fór semsagt upp úr hádegi. Júgóslavneskar lestir eru ekki beint fljótar í förum, og auk þess er lestakerfið býsna götótt, þannig að við þurftum að fara í gegn um Zagreb og Beograd – það er að segja í risastóran krók – og ferðalagið tók 19 klukkutíma! Við ókum og ókum, átum, lásum, spjölluðum, sváfum, en þessi ferð virtist engan endi ætla að taka. Nokkru eftir miðnætti þurftum við að skipta um lest. Karl og kona frá Serbíu stóðu sig eins og hetjur í að útskýra fyrir okkur á serbókróatísku að við ættum ekki að fara út þarna heldur þarna – og í leiðinni sagði karlinn okkur að við skyldum kíkja til Lovcen í Svartfjallalandi; kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.
Á lestarstöðinni í Novi Beograd stigum við út og biðum í hrollkaldri nóttinni eftir lestinni okkar. Hún kom fljótlega, og upp í hana fórum við, og í henni gátum við loks lagt okkur, og var ekki vanþörf á.
Við vöknuðum frekar árla morguns þann átjánda ágúst og vorum þá búin að skröltast alla nóttina í þessari mjög svo nýtískulegu lest. Við ókum í gegn um fjallgarð, ýmist um göng eða einstigi, þar sem útsýnið var í einu orði sagt stórfenglegt. Alveg stórfenglegt. Hrikaleg fjöll, öskuljós að lit, snarbrattar hlíðar og hamrarnir uppeftir öllu og allt saman vaxið runnum og smátrjám á stangli, en hyldjúpir dalir kljúfa fjöllin í rætur niður og gljúfur og gil rista þau þver og endilöng, en lækjarsprænur skoppa niður eftir giljunum og ár bugðast eftir dalbotnunum.
Við störðum hugfangin út um gluggana og tókum myndir. Síðan nálguðumst við Podgorica – sem fyrrum hét Titograd, höfuðstað Svartfjallalands. Borgin sú er á stærð við Reykjavík og nágrenni – nálægt 180.000 íbúar, en tæplega 700.000 í landinu öllu, sem er nálægt 30.000 ferkílómetrum að stærð. Leiðin lá í gegn um skítug, lágreist og gisin úthverfi, lestarteinarnir voru ekki girtir af. Ég ætla ekki einu sinni að lýsa klósettinu.
Þegar við stigum út í Podgorica var semsagt skammt liðið á morgun laugardagsins 18. ágúst. Klukkan var á áttunda tímanum. Við litum í kring um okkur á brautarpallinum; járnbrautarstöðin var lítil og lág og virtist þarfnast viðhalds. Þjóðernissinnað veggjakrot var sýnilegt út um allt. Við fórum inn, vorum svöng svo við litum inn á matsölustað sem var þarna á lestarstöðinni. Lögregluþjónn og lestarvörður sátu og drukku kaffi, grindhoraður þjónn á miðjum aldri, með mjög stórt yfirvararskegg, fékk okkur matseðil en við fundum ekkert þar sem okkur leist á. Við sáum inn í eldhúsið, þar sem stóðu nokkrar gríðarstórar grýtur sem bullsauð í, allt frekar skítugt og fátæklegt. Við þökkuðum fyrir okkur og fórum út.
Við áttum pantað herbergi á Hótel Europa, sem við vissum ekki hvar var. Planið var því að fá okkur að éta og finna svo hótelið og gera svo eitthvað annað. Við byrjuðum á því að spyrja í hvaða átt miðbærinn væri, og gengum svo þangað. Litum inn í nokkrar búðir á leiðinni til að biðja um plan grada (kort af bænum) og spurðum líka til vegar nokkrum sinnum. Í hvert skipti spurði fólk okkur hvaðan við værum, og var alltaf jafn hissa – „Hvers vegna Svartfjallaland??“ vorum við spurð oftar en einu sinni. Gjaldmiðillinn í Svartfjallalandi er evra, eftir aðskilnaðinn frá Serbíu 2006. Við sáum lókal bjór, sem kostaði eina evru eða svo, og keyptum hann til að smakka – hann heitir Niksicko, og er alveg ljómandi góður, alveg hreint ljómandi. Á leiðinni niður í bæ gengum við fram á dálitla búð, þar sem við keyptum okkur ýmislegt matarkyns, en okkur var farið að svengja. Eftir dálitla göngu (kannski 2 kílómetra) komum við að lystigarði, þar sem við settumst á bekk og tókum til matar okkar. Rúgbrauðið sem ég hafði keypt reyndist vera eins konar jólakaka, með einhverjum hrísgrjónum í, ekki vond, svosem, en ekki heldur það sem mann langaði að éta eintómt klukkan níu að morgni í steikjandi hita á bekk í Podgorica. Svo ég henti henni. Í lystigarðinum sáum við eðlu, pínulitla og græna, sem stóð fyrst og góndi upp í loftið en þaut svo í burtu þegar hún varð þess áskynja að það var verið að horfa á hana. Maurarnir urðu líka hressir yfir jólakökumylsnunni sem hraut niður á gangstéttina. Við sáum einn maurinn taka stykki af skorpunni, sem var á stærð við nögl á litla fingri, og rogast með það, fyrst framaf gangstéttarbrún, og síðan upp eftir þverhníptri hliðinni á gangstéttarhellunni. Það var mögnuð sjón, pínulítið kvikindið með að minnsta kosti fimmtíufalda þyngd sína í eftirdragi upp lóðréttan hamarinn – rétt eins og ég væri að tosa sendiferðabíl upp brúnina á Almannagjá.
Þegar ég var í Ungverjalandi um árið, þá sá ég furðulega margar verslanir sem seldu kvenföt og kvenskó af lakara taginu. Ég furðaði mig samt ennþá meira yfir fjölda brúðarkjólaleiga. Í Podgorica eru það apótekin sem varla er þverfótandi fyrir. Alveg hreint ótrúlega mörg. Á einu fjölbýlishúsinu sáum við þrjú hlið við hlið á jarðhæðinni, og eitt eða tvö til hliðanna.
Við spurðum konu til vegar, í hvaða átt Hótel Europa væri, og hún benti til suðausturs og sagði að það væri við hliðina á rútustöðinni, sem væri við hliðina á lestarstöðinni, sem við vorum að koma frá. Jæja, við snerum þá við og gengum þangað, og eftir drjúgan spöl spurðum við aftur til vega, og höfðum þá farið allt of langt. Við snerum þá aftur við, fundum rútustöðina, og spurðum þjón á veitingahúsi til vegar, og þá sáum við hvar Hótel Europa var.
Hótelið var skínandi fínt. Hverfið sem þar er í er allt drabbað niður – og húsin af miklum vanefnum byggð. Nema þetta hafi verið fátækrahverfi frá upphafi. Kassafjalir og bárujárn; þetta minnti helst á Mexíkóborg eða eitthvað. Ryk og drasl. En alveg hreint skínandi huggulegt hótel. Það var nú ekki ókeypis, en bæði snyrtilegt og rúmgott herbergi, og ég hugsa að við höfum fengið hreppstjórasvítuna, þar sem við fengum svalir sem vissu út yfir laufskálann á framhliðinni, með ægifagurt útsýni yfir ryðgaða lestarvagnana á lestarstöðinni við hliðina. Loftkælingin var með sterkara móti. Rósa lagði sig, en ég settist út á svalirnar með bjór í annarri og bók í hinni, á nærbrók einni fata. Vegna sterkrar sólar var ekki hægt að sitja á garðhúsgögnunum nema breiða blaut handklæði á þau fyrst. Það fór nú bara ansi vel um okkur, þannig að okkur lá lítið á.
Það leið á daginn og það fór að rökkva. Við hugsuðum okkur til hreyfings, enda var okkur farið að svengja. Við röltum út af hótelinu og ætluðum að finna okkur veitingastað – það gat varla verið erfitt. Það vildi svo til að við vorum mun fljótari að finna krá, litla svakalega „lókal“ krá þarna rétt við hlið hótelsins. Þar sem við vorum líka þyrst, ákváðum við að tékka á henni. Fórum inn. Kráin var tvískipt; aðalstofa fyrir innan og forskáli fyrir framan. Við fórum á barinn, ég pantaði „dva pivo, molim“ og svo settumst við út í horn, við borð sem þar var.
Lókal fólkið á lókal barnum sá langar leiðir að við vorum útlendingar – það var dálítið horft á okkur. Fljótlega kom karl af næsta borði og gaf sig á tal við okkur. Hann var forvitinn um hver við værum og hvaðan og hvers vegna og allt það. Hann reyndist sjálfur vera eigandi apóteks, og var á djamminu með tveim eða þrem aðstoðarmönnum sínum. Við skröfuðum og skröfuðum. Hann var á sjöunda eða áttunda glasi. Hann sagði okkur hvað hann væri hrifinn af gengilbeinunni. Líka hvað Svartfellingar hefði stórt hjarta – „hér er pláss fyrir alla“ sagði hann, og nefndi til dæmis að einn félaga hans, hann Slavko, væri Serbi. Þriðjungur landsmanna væru Serbar, og það gerði ekkert til, hér væri nefnilega pláss fyrir alla, allir velkomnir í þessu litla landi með stóra hjartað. Hann spurði hverrar trúar ég væri. Ég sagðist vera trúleysingi. „Nú? Jæja, það er allt í lagi líka,“ sagði hann, „hér eru allir vinir. Hér í Svartfjallalandi eru allir orþódoxar, í serbnesku rétttrúnaðarkirkjunni, allir!“ sagði hann. Ég spurði hvort það væru ekki 12% landsmanna Albanar – væru þeir ekki múslimar? Lyfsalinn hristi hausinn og fussaði. „Tölum ekki um þá,“ sagði hann. Við Rósa kímdum.
Næst á dagskrá var tónlistaratriði. Karl lék á skemmtara og kona söng og sló tambúrínu. Þetta var svartfellskt popp, sterklega innblásið af þjóðlagahefð. Svartfellingar halda enn þétt í gamla menningu, eldri en nágrannaþjóðir þeirra sem voru meira eða minna undir Tyrkjum og Austurríkismönnum, með tilheyrandi menningarblöndun. Tónlistina sjálfa hefði ég satt að segja tæpast þekkt frá annarri þjóðlegri tónlist frá Balkanskaga – og textarnir voru áþekkir milljón öðrum textum líka. Lyfsalinn knái þýddi þá yfir á ensku jafnóðum, eftir bestu getu – þeir voru yfirleitt á þá leið að skáldið elskaði konu svo mikið að það hefði getað dáið fyrir hana, hún vildi ekkert með hann hafa og hvað gat hann þá gert? – semsagt, mjög skemmtileg tónlist, fjörug og melankólísk.
Slavko og lyfsalinn og þeir buðu okkur upp á umgang til að sýna gestrisni sína. Áður en við náðum að bjóða þeim upp á umgang, buðu þeir okkur upp á annan umgang. Þannig að við buðum þeim upp á tvo umganga – og þeir okkur síðan aftur og svo við þeim. Þá sættumst við á að segja þetta gott. Við höfðum þá drukkið sjö drykki og þeir einhverju fleiri.
Klukkan var á ellefta tímanum að kvöldi þegar við komum út af kránni. Það rifjaðist upp fyrir okkur að við áttum ennþá eftir að snæða kvöldmat, svo við ákváðum að kíkja bara niður í bæ. Gengum þangað sem ég held alveg örugglega að sé aðaltorgið. Það er umkringt fjölbýlishúsum í júgóslavneskum stíl – ekki nein fagurfræðileg stórvirki þar á ferð, en óneitanlega mun vistlegra en kassafjalaskúrarnir í hverfinu þar sem hótelið okkar var. Við fórum á hálfgerðan handborgarastað og keyptum okkur handborgara. Sami staður var jafnframt bakarí (þar sem var hægt að fá mjög snotra Barbie-afmælistertu fyrir börn) og einnig var þar bjórkælir. Ég bað um Niksicko, en afgreiðslustúlkan bað mig vinsamlegast um að fara í bolinn minn – það samræmdist víst ekki dresskódinu að vera ber að ofan, þótt hitasvækjan væri lítt bærileg. Jæja, ég gerði það, fékk minn bjór, við keyptum þessa handborgara og settumst út á bekk.
Sígaunarnir komu aðvífandi. Hópur af sígaunastrákum á unglingsárum, á BMX-hjólunum og í hvítu íþróttagöllunum. Ég veit ekki hvað það er með mig og sígauna, en þetta var í annað skiptið sem ég tala við sígauna (fyrra skiptið var í Bosníu-Herzegóvínu árið áður), hann talaði þessa fínu þýsku eins og sá fyrri og hann reyndi líka að snuða mig. Armin hinn bosníski náði af okkur nokkrum dínörum, sem mér var svosem sama um (vorkenndi meira Kananum í næsta klefa sem missti bakpokann sinn) og þessi – tja, eftir að ég sagði honum að ég nennti ekki heim til hans að tala við pabba hans og gista, þá sníkti hann af mér tvær eða þrjár evrur. Ekkert mál – ég átti svosem skítnóg af þessum evrum – en mikið finnst mér betl eitthvað leiðinlegt. Þeir sígaunar sem ég hef kynnst hingað til hafa ekki verið þjóð sinni til sóma.
Eftir að hafa stutt fordóma mína gegn sígaunum með reynslu númer tvö, þá fórum við á Hótel Evrópu og lögðumst til svefns.