Wednesday, March 18, 2015

Alþýðufylkingin styður viðræðuslit, gagnrýnir málsmeðferð

Ég vek athygli á því að Alþýðufylkingin var að senda frá sér:

Ályktun um viðræðuslit við ESB

Tuesday, March 17, 2015

Landsfundur SHA: hvert á friðarhreyfingin að stefna?

Landsfundi Samtaka hernaðarandstæðinga, sem átti að fara fram sl. laugardag, var frestað vegna veðurs og verður í staðinn haldinn annað kvöld, miðvikukvöld, eins og fram kemur á Friðarvefnum.

Ég býð mig fram til formanns. Af því tilefni vil ég vekja athygli á grein eftir sjálfan mig, sem birtist í síðasta tölublaði Dagfara, málgagns SHA, og einnig á þessu bloggi hér: Hvert eiga SHA að stefna?

Monday, March 16, 2015

ESB, rétt ákvörðun, röng málsmeðferð

Eins og fastir lesendur mínir vita, er ég fortakslaus andstæðingur ESB-aðildar Íslands. Því styð ég að umsóknin sé tekin til baka og helsta gagnrýni mín við afturköllunina er að hún hefði mátt verða fyrr.

Að því sögðu, er naumast hægt að láta málsmeðferðina óátalda. Ríkisstjórnin segir að stjórnarandstaðan hafi drepið málið með málþófi síðast þegar það var tekið upp í þinginu. Því hafi þurft að fara þessa leið. Laggó - en það var samt ekki það sem þeir lögðu upp með í kosningabaráttunni. Þeir sögðust báðir, Framsókn og Sjálfstæðis, mundu leggja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ef það hefur eitthvert gildi að segja tæpum tveim árum seinna hvað aðrir hefðu átt að segja þá, þá hefðu þeir átt að segjast mundu bara slíta viðræðunum. Það er heiðarlegt að segjast ætla að gera það, og ef maður er kosinn út á slíka yfirlýsingu hefur maður líka umboð til að gera nákvæmlega það.

Þá eru reyndar ótalin brögðin sem síðasta ríkisstjórn beitti til að koma málinu áfram. Eins og að selja aðildarviðræður sem eitthvert "kíkja í pakkann"-dæmi og fara svo fram með stórfellt aðlögunarferli. Eða að semja um að leggja fram ráðherrafrumvarp en legga síðan fram ríkisstjórnarfrumvarp.

Hvað um það. Ég styð að umsóknin sé dregin til baka, og þótt fyrr hefði verið, en það er vont bragð af málsmeðferðinni.

Thursday, March 12, 2015

Hvert eiga SHA að stefna?

Þessi grein birtist í Dagfara, málgagni Samtaka hernaðarandstæðinga, sem kom út í vikunni.
-- -- -- -- -- -- --

Veður eru válynd í heiminum og spjót heimsvaldasinna standa á öllum sem reyna að fara eigin leiðir: Sýrlendingar vaða elginn gegn IS-skrímslinu sem Vesturveldin hafa magnað upp gegn þeim; Úkraínumenn eru komnir undir hæl fasískra valdaræningja á bandi Vesturveldanna; Líbýa logar stafna á milli eftir árásarstríð og friður er hvorki í augsýn í Írak eða Afganistan, svo fátt eitt sé nefnt.
 
Í aðdraganda síðara Íraksstríðs, veturinn 2002-2003, hélt Átak gegn stríði vikulega útifundi gegn áformum Amríkana og hjáleigubænda þeirra nær og fjær. Laugardagsmótmælin stóðu mánuðum saman við Stjórnarráðið og stundum líka við amríska og jafnvel breska sendiráðið. Okkur tókst ekki að hindra að morðingjarnir í jakkafötunum tækju þátt í svívirðilegum glæpum í nafni Íslands − en þeir gerðu það að minnsta kosti ekki óátalið. Ef það skiptir einhverju máli.
 
Þó það sé dapurlegt að þurfa að mótmæla stríði, þá er samt uppörvandi að upplifa samstöðuna í baráttunni, að sjá hundruð manns koma aftur og aftur á útifundi til að sýna að stríðið sé ekki okkar stríð, ekki háð með okkar samþykki og að ríkisstjórnin tali ekki fyrir okkur. Ég var einn margra sem gengu í Samtök herstöðvaandstæðinga þennan vetur.
 
Ég sakna þessarar samstöðu, þessarar lifandi hreyfingar, baráttunnar. Eins og hún fyllti okkur eldmóði, fyllti hún margan stríðsæsingamanninn skelfingu og hélt fyrir þeim vöku. Í nágrannalöndum okkar voru aftur og aftur haldnir mörg hundruð þúsund eða milljóna manna fundir. Hvert fór allur þessi gríðarlegi kraftur? Hvað varð um hreyfinguna? Hvert fór baráttan? Höfum við látið slæva okkur með betur hugsuðum áróðri? Trúum við í alvöru á „íhlutun í mannúðarskyni“? Trúum við að lýðræðið skjótist út úr byssuhlaupi heimsvaldastefnunnar?
 
Þegar Líbýustríðið var að byrja héldu nágrannar okkar í bresku friðarhreyfingunni mótmæli gegn Líbýustjórn. Ég held að þá hafi botninum verið náð í niðurlægingu hreyfingarinnar frá 2002/3. Eða ég vona alla vega að það hafi verið botninn.
 
Á meðan heimsvaldastefnan heldur áfram að níðast á saklausu fólki um allan heim, þá verður þörf fyrir friðarhreyfinguna. Ekki til að tilkynna kurteislega að okkur hugnist ekki stríð. Ekki til að fræðast um löndin sem er verið að ráðast á eða til að drekka öl. Heldur til þess að reyna − reyna í alvöru − að hindra að stríð brjótist út og stöðva þau ef það gerist samt. Í íslensku samhengi þýðir þetta að hindra að Ísland styðji heimsvaldastríð, og að leggja alla þá steina sem hægt er í götu þess. Það er baráttan og aðeins baráttan sem réttlætir hreyfinguna.
 
Það er þörf fyrir hreyfingu sem er virk og lifandi, sem er vaxandi að styrk og áhrifum, hreyfingu sem tekur hlutverk sitt alvarlega. Samtök hernaðarandstæðinga eru meira en geymsla fyrir arfleifð úr baráttu fyrri tíma. Við erum burðarásinn í íslensku friðarhreyfingarinnar. Við eigum að vera baráttusamtök sem íslenskir hermangarar taka alvarlega. Refsivöndur sem þeir óttast.
 
Það styttist í landsfund SHA. Hann er vettvangurinn til að marka samtökunum stefnu fyrir komandi starfsár. Gerum það.

-- -- -- -- -- -- --
Landsfundur SHA er á laugardag, 14. mars. Ég gef kost á mér til formennsku.

Friday, March 6, 2015

Aðild að þrotabúi

Evrópusambandið er bandalag evrópsks einokunarauðvalds og auðhringa um hagsmuni sína. Þar ræður fjármagnið för, gjarnan í samfloti við iðjuhölda og stórfyrirtæki.

Ein stór blekking ESB-sinna er að sambandið ráði í raun litlu um innri málefni aðildarríkjanna. Önnur stór blekking ESB-sinna er að gera lítið úr lýðræðishalla Evrópusambandins. Það gefur tóninn í öllum meginmálum, nema kannski trúmálum ef einhver telur þau ennþá til meginmála. Þegar það stjórnar ekki með beinum tilskipunum stjórnar það með því að láta ríkin „sjálf“ ákveða hlutina. Líkt og þegar ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms tók „sjálf“ ákvarðanir um að fara eftir öllum „ráðleggingum“ Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Eða líkt og þegar skuldari ákveður „sjálfur“ að fara eftir „ráðleggingum“ handrukkarans sem „forðar honum“ þannig frá verri hlutum.

Þriðja blekkingin er að setja samasemmerki milli Evrópusambandsins og Evrópu. Evrópa er landfræðilegt hugtak og ekkert getur breytt því að Ísland er Evrópuríki. Og Noregur líka, og Rússland og Hvítarússland og Albanía og Serbía og Sviss.

Áhyggjur af örlögum útgerðarinnar ef við gengjum í ESB eru gild ástæða til efasemda eða andstöðu. Þær eru samt ekki mín höfuðástæða. Sem pólitískt og efnahagslegt bandalag heimsvaldaauðvaldsins, er Evrópusambandið bakhjarl fyrir auðvald sérhvers aðildarríkis. Þar er auðvaldsskipulagið beinlínis bundið í stjórnarskrá. Það er ekki hægt að byggja upp félagslegt fjármálakerfi eða efnahagskerfi og ekki einu sinni félagslegt velferðarkerfi í landi sem er innan Evrópusambandsins. Auðvaldsskipulagið er reyndar líka bundið í stjórnarskrá Íslands - en henni getum við sjálf breytt, án þess að þurfa fyrst að breyta stjórnskipan heillar heimsálfu með einróma samþykki.

Fjórða blekkingin er að Evrópusambandið sé einhver málstaður vinstrimanna, eitthvert bákn félagslegs réttlætis og regluverks til að hafa hemil á auðvaldinu. Það spillir að vísu fyrir þjóðlegu borgarastéttinni, eins og íslenskum útgerðarmönnum, en styrkir þá alþjóðlegu því meir í sessi. Með tímanum rýrnar því og hverfur þjóðleg borgarastétt í aðildarlöndunum. Hagsmunir þeirra fyrirtækja sem eftir lifa samtvinnast aðildinni. Efnahagslífið grær fast. Þannig að eins og ljósmóðirin var vön að segja þegar konunum gekk illa að fæða, þá er auðveldara í að komast en úr að fara.

Mínir fyrrverandi félagar í VG kalla það alltaf svo að „hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins“. Það er mjög varfærnislega orðað. Óeðlilega varfærnislega. Hagsmunum Íslands - alla vega alþýðu Íslands - er beinlínis ógnað af ESB-aðild. Ef við vildum koma hér á félagslega reknu fjármálakerfi eða öðrum sósíalískum ráðstöfunum, væri ESB-aðild ekki girðing heldur borgarmúr í veginum. EES-aðildin getur verið það líka, en það er þó auðveldara að losna úr henni ef því er að skipta.

Ég skil hins vegar vel að stjórnendur í ýmsum atvinnugreinum, eins og verslun, sumum iðnaði og fjármálabraski (ef brask telst atvinnugrein) sjái hagsmuni í aðild.

Núverandi krísa evrunnar, atvinnuleysið og skuldafjallgarðarnir breyta í sjálfu sér engu um ófýsileika inngöngu. Hún var ófýsileg og er ófýsileg. Bara ennþá meira núna en áður fyrr. Að minnsta kosti fyrir flestallt venjulegt fólk. Það er eitt skýrasta dæmið um tækifærismennsku og reiðarek margra evrópskra vinstriflokka, að átta sig ekki á þessu.

Til allrar hamingju fyrir Ísland, er hér til einn vinstrisinnaður stjórnmálaflokkur sem hefur einarða og samkvæma stefnu um afdráttarlausa og trúverðuga andstöðu gegn ESB. Það er Alþýðufylkingin.

Thursday, March 5, 2015

Léleg markaðssetning

Ég er með hálfs metra sítt hár á höfðinu og kollvikin eru á sama stað og þau voru fyrir 10 og 20 árum síðan. Þegar ég opna fréttasíðu Yahoo er þriðja hver "frétt" auglýsing um magnaðar nýjar leiðir til að vinna bug á skalla. Ef þetta á að heita "smart" markaðssetning eða sniðin að einstökum neytendum, þá er mikið verk eftir óunnið á sviði gervigreindar.

Monday, March 2, 2015

Málaflokkur fatlaðra, ríki, sveitarfélög, stéttarfélög

Ég sé á fréttasíðu Ríkisútvarpsins að félagsmálaráðherra „segir það ekki koma til greina að ríkið taki aftur við málefnum fatlaðs fólks. Enginn niðurskurður hafi verið til sveitarfélaganna vegna málaflokksins.“ - En viti menn: „Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga segir þrjá milljarða vanta upp á.“

Þetta þarf því miður ekki að koma á óvart. Málaflokkurinn var færður frá ríki til sveitarfélaga 1. janúar 2011 og hafði þá yfirfærslunni verið frestað að minnsta kosti einu sinni vegna þess að undirbúningi var ábótavant. Ríkisendurskoðun hafði varað við því að tekjustofnarnir sem færðust með málaflokknum til sveitarfélaganna væru ekki nógu gildir, enda hafði málaflokkur fatlaðra verið fjársveltur um langt skeið árin á undan. Ekki nóg með það að sveitarfélögin keyptu þarna köttinn í sekknum, ef það má orða það þannig, heldur endurtóku þau sömu mistök og þegar þau yfirtóku grunnskólana frá ríkinu nokkrum árum áður. Þá fylgdu líka skertir tekjustofnar með og sveitarfélögin því í senn ábyrg fyrir málinu og þröngur stakkur skorinn.

Arkitektar þessarar mislukkuðu yfirfærslu voru Guðbjartur Hannesson, þá félags- og tryggingamálaráðherra og Halldór Halldórsson, þá bæjarstjóri á Ísafirði og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Það var fleira bogið við þetta heldur en tekjustofnarnir. Það var líka tekist á um stéttarfélagsaðild stuðningsfulltrúa við málaflokk fatlaðra. Ég var á þeim tíma formaður Félags ráðgjafa og stuðningsfulltrúa (sem er fagfélag innan SFR - stéttarfélags í almannaþjónustu). Við söfnuðum undirskriftum téðra stuðningsfulltrúa, þar sem þess var krafist að þeir fengju sjálfir að ráða stéttarfélagsaðild sinni. Hér er frétt Mogga af því þegar varaformaðurinn, Guðjón Bjarki Sverrisson, afhenti Guðbjarti undirskriftir 800 félagsmanna.

Niðurstaðan í stéttarfélagsaðildinni var sólarlagssákvæði, sambærilegt við þá félaga Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar sem unnu á Borgarspítalanum þegar hann rann inn í Landspítalann. Þeir sem voru í SFR fengu að vera þar áfram, aðrir fóru í bæjarstarfsmannafélögin. Vegna hárrar starfsmannaveltu er nú um það bil helmingurinn hættur og hinn helmingurinn af stuðningsfulltrúunum, einkum á sambýlunum, kominn í einhverja tugi bæjarstarfsmannafélaga.

Þar tvístraðist heil stétt og vandséð hvernig hún getur náð samtakamætti á nýjan leik.