Thursday, April 27, 2006

Einhliða vopnahlé maóista í Nepal

Nepölsku maóistarnir hafa lýst yfir einhliða vopnahléi í þrjá mánuði (til 26. júlí). Þeir segjast ekki munu gera árásir, en veita virkt viðnám ef á þá verður ráðist. Með öðrum orðum, þá gefa þeir borgaraflokkunum séns. Nú er spurningin hvort kóngurinn svarar með gagnkvæmu vopnahléi. Síðast gerði hann það ekki, en í ljósi undangenginna atburða neyðist hann kannski til þess. Menn hafa spurt sig hvort stjórnmálaflokkarnir reynist færir um að stjórna hernum; það er bara blaður. Kóngurinn stjórnar hernum, en hins vegar má spyrja sig hvort hann metur það svo að stjórnmálaflokkarnir hafi það mikil ítök meðal almenning, að honum sé hollast að lúta vilja þeirra. Ég held að þeir hafi ekki þessi ítök, heldur séu þeir leppar kóngsins, til þess að hann geti keypt tíma og haldið krúnunni. Nytsamir sakleysingjar, tækifærissinnaðir leiksoppar. Hins vegar gæti kóngurinn séð sér hag í því að láta flokkana halda að þeir ráði, til að villa um fyrir almenningi og grafa undan maóistunum, og í því skyni gæti hann fallist á vopnahlé við maóistana (og ég held að hann muni gera það). Þá gætu friðarviðræður hafist að nýju. Sem taktík af hálfu kóngsins.

Ég býst semsagt frekar við því að friðarviðræður muni hefjast núna í vor. Það er spurning hver gengur í hvers gildru, hver bítur á annars agn... Á meðan kóngurinn hefur herinn á sínu bandi mun hann ekki segja af sér, svo að hann mun ekki láta herinn af hendi sjálfviljugur. Hann á án efa eftir að setja það sem skilyrði fyrir varanlegum friði, að hann verði áfram kóngur. Ef lýðveldisstofnun yrði niðurstaðan af friðarviðræðum og/eða stjórnlagaþingi, þá mundi kóngurinn einfaldlega segja borgaraflokkunum að taka pokann sinn aftur -- eins og hann gerði 1. febrúar í fyrra.

Almenningur í landinu er orðinn verulega andsnúinn konungdæminu, svo að í raun er honum ekki mögulegt að sitja á friðarstóli til langframa. Maóistarnir hljóta að skilja hvað kröfur þeirra um lýðveldi og skilyrðislaust stjórnlagaþing eiga mikinn hljómgrunn meðal almennings. Ef þeir nýta sér það ekki sem pólitískt bakland, til að styrkja sig enn frekar í sessi, þá er alvarlegur brestur í forystunni hjá þeim. Atburðir undanfarinna daga hafa, geri ég ráð fyrir, komið flestum á óvart, svo þetta er varla fyrirfram hugsuð strategía. (Það er auðvitað hugsanlegt að þeir hafi reiknað dæmið í grófum dráttum í vetur og veðjað á að þetta færi svona, en það er ómögulegt að segja; bara spekúlasjónir mínar...)

Sem fyrr fylgist ég átekta með.

Það er annars vert að benda á að Kínastjórn firrir sig tengslum við maóista í Nepal. Það undirstrikar að gagnbyltingin er fyrir löngu orðin sigursæl í Kína. Það sem Kína vantar er bylting!

Wednesday, April 26, 2006

Chernobyl og Nepal

Í dag eru 20 ár frá Chernobyl-slysinu, sem er með því óhugnanlegasta sem ég veit um. Ég ætla ekki að skrifa mikið um það -- hef svosem ekki neinu sérstöku að bæta við umræðuna -- en vil benda á myndir þaðan; myndaseríuna Land úlfanna frá sveitunum norðanvið Chernobyl; myndir úr safni Greenpeace, og svo linkar Wikipedia-færslan á fjölda síðna með myndum (fyrir utan að þar er hægt að lesa um slysið sjálft).
Sjáið einnig ChernobylInfo, heimasíðu tileinkaða þessu slysi og afleiðingum þess og eftirmálum.
Að þessu sögðu verð ég að segja eitt -- ekki í fyrsta skipti, en það þolir að vera endurtekið: Prypiat er borg sem ég vil koma til -- á sama hátt og ég vil koma til Hiroshima og Auschwitz -- yfirþyrmandi í auðn sinni og þörn -- grafarþögn.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í Nepal virðist mótmælum hafa linnt að sinni og maóistar hafa aflétt herkví, en segjast bíða fram á föstudag og ætla að sjá hvað verður úr nýja þinginu áður en þeir ákveða næsta skref. Það er m.ö.o. ekki loku fyrir það skotið að þeir gefi því séns. Stjórnlagaþingið vilja þeir hins vegar að verði háð án skilyrða -- þ.e.a.s. að það muni hafa eða áskilja sér vald til þess að svipta kónginn völdum. Það mun varla hafa slíkt vald ef það er boðað af þingi sem situr í sama öndvegi og kóngurinn, eða hvað? Því það verður þannig núna, virðist vera. Hvað voru sjöflokkarnir að spá, að þiggja eitthvað úr hendi kóngsins, viðurkenna vald hans, gefa honum séns? Eins og fram kom í gær, þá á Gyanendra kóngur heima í dýragarði, ekki á hásæti.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Roger Toussaint er dæmdur í fangelsi fyrir að veita verkfallsmönnum forystu í samgönguverkfallinu mikla í New York í desember. WSWS fjallar um málið.

Tuesday, April 25, 2006

Hvað er að gerast í Nepal?

Það hefur varla farið framhjá neinum að það hvín í hjólum sögunnar í Nepal um þessar mundir. Maóistar ráða sem kunnugt er 50-80% landsins og þeir, í bandalagi við borgaraflokkana sjö, settu Kathmandú í herkví á dögunum, og undanfarnar þrjár vikur tæpar hafa fjöldamótmæli verið daglegt brauð, ásamt götubardögum og lögregluofbeldi sem hefur kostað mörg mannslíf.

Ég ætla ekki að rekja aðdraganda þessara atburða sérstaklega, enda hef ég gert það áður og um hann er hægt að lesa víða (t.d. „Nepal's Instability in the Regional Power Struggle“) og fyrir þá sem vilja fræðast um sjálfa atburði undanfarinna daga má m.a. benda á „Intelligence Brief: Nepal's King Reinstates Parliament“.

Í stuttu máli: Eftir 14 mánaða einræði konungsins (sem tók sér alræðisvald 1. febrúar 2005) er fólkinu nóg boðið. Það segir sína sögu að 100.000 manns hafi mótmælt í Kathmandú! Þessi mótmæli hefur kóngurinn reynt eftir megni að berja niður, en án árangurs: „Nepalese king bows to mass protests and offers to recall parliament“ – fyrst bauðst hann til að skipa Koirala, leiðtoga Congress-flokksins, forsætisráðherra, en því var hafnað. Á endanum gafst hann upp – í gærkvöldi – og bauð að hann skyldi kalla þingið saman að nýju OG skipa Koirala aftur – og það samþykktu þingræðisflokkarnir, hafa boðað að mótmælum skuli hætt og sigurganga gengin þess í stað – og það var gert í dag.

Sigur? Já – fyrir einhvern, auðvitað, en hvern? Hér eru nokkur atriði sem þarf að taka til greina. Það er hæpið að segja að þingræðisflokkarnir hafi eitthvað umboð, að kalla megi, fyrir mótmælendurna. Þessi mótmælahreyfing, sem hefur aðallega krafist afsagnar konungsins, á sér ekki eiginlega forystu – hvorki meðal borgaraflokka né maóista. Maóistar leiða þessa hreyfingu ekki heldur, en gætu kannski haft áhrif á hana eða veitt henni forystu á einhvern hátt.

Nú segja maóistar að sjöflokkarnir hafi svikið sig, brotið 12-punkta samninginn frá því í haust – og svikið nepölsku þjóðina. Mótmælahreyfingin setti slíkan þrýsting á kónginn að hann var þvingaður til að bjóða samninga. Þegar valdið vill semja hefur það yfirleitt tapað – svo ef sjöflokkarnir hefðu hafnað boði konungs, þá hefði valdatími hans ekki orðið langur héðanífrá, kannski ekki nema til mánaðamóta. Mótmælahreyfingin hefði gengið af einveldinu dauðu (ef til vill kónginum sjálfum líka, nema hann hefði flúið land) og því næst hefðu maóistarnir og sjöflokkarnir getað sest niður og haldið stjórnlagaþing skv. 12-punkta samkomulaginu.

Þess í stað taka sjöflokkarnir þann kost sem er öruggari fyrir valdastéttina: Þeir ganga til samninga við gamla valdið; þeir gera málamiðlun sem gerir kónginum kleift að sitja áfram – og hér liggur hundurinn grafinn: Kóngurinn er áfram æðsti maður hersins og hefur þar með vopnavald hins opinbera í hendi sér! Sjöflokkarnir segja að eitt fyrsta verk nýs þings verði að boða til stjórnlagaþings – en mun maður sem ræður yfir her bara láta setja sig af sisona? Svar: Nei!

Svik, segja maóistar: Sviknir samningar, svikin þjóð. Þeir boða áframhaldandi mótmæli og herkví. „Yfirlýsing konungsins á mánudaginn er bragð til þess að kljúfa nepölsku þjóðina og standa vörð um hans eigin gerræðisvöldsegir í yfirlýsingu Prachanda formanns og Baburams Bhattarai næstráðanda. „Hún kemur ekki inn á kröfur fólksins, sem mótmælir á götum úti, um stjórnlagaþing og lýðveldi, né samkomulagið milli okkar og stjórnmálaflokkanna.“ Þeir kalla þetta samsæri og gabb – og það er það líka. „Þeir flokkar sem hafa tekið yfirlýsingu konungsins fagnandi hafa brugðist vonum fólksins og veitt samkomulagi okkar við þá högg.

Hvers vegna býður kóngurinn sjöflokkunum til samninga? Svar: Vegna pólitísks þrýstings. Ekki bara frá fólkinu á götunum, heldur frá heimsvaldasinnunum sem telja sig hafa hagsmuna að gæta í Nepal. Það eru einkum Indland, Bandaríkin og Bretland. Þessi ríki kæra sig ekki um maóista við völd og þau átta sig á því að ef mótmælahreyfingin heldur áfram, þá verður fleiru steypt en kónginum. (Tengt því má geta þess að Bandaríkjamenn hafa kallað næstum alla sendiráðsstarfsmenn sína burt.) Svona hreyfingu þarf að keyra út af sporinu: Hana þarf að svíkja, og þar koma borgaralegir sjöflokkarnir inn í dæmið. Þeir stilla sjálfum sér upp sem pólitískri forystu fyrir mótmælendurna, þótt það hafi verið vitað fyrirfram að mótmælendurnir vildu ekki samninga við kónginn heldur að hann segði af sér.

Sjöflokkarnir ganga að samningum við kónginn þótt þeir eigi að geta sagt sér það sjálfir að hann er að kaupa sér pólitísk grið og tíma og ekkert annað. Hann er að nota sjöflokkana til þess að binda endi á mótmælin, binda mótmælendurna fyrir vagn sjöflokkanna. Sjöflokkunum etur hann svo saman við maóistana og klýfur þjóðina, deilir þannig og drottnar. Þetta er nefnilega pólitíkus.

Sjöflokkarnir segjast ætla að semja við maóista um að þeir leggi niður vopn. Hljómar það raunhæft? Ekki finnst mér það. Mér sýnist valdastéttin vera komin á sama reit og hún var fyrri 1. febrúar í fyrra: Sjöflokkarnir á þingi og í ríkisstjórn, kóngurinn með vopnavald hins opinbera á sinni hendi, en undir stynur þjökuð þjóð og maóistarnir vinna á, pólitískt og hernaðarlega. Þá er þess næstum því bara að bíða að kóngurinn fái aftur nóg af pólitískri vanhæfni sjöflokkanna og víki þeim frá í nýju valdaráni! (Samt varla; auðvitað haa orðið miklar breytingar á pólitíska landslaginu.)

Áætlun bandalags maóista og sjöflokkanna var að (a) þingmenn sjöflokkanna mundu koma saman, (b) lýsa sig löglegt þjóðþing Nepals, (c) mynda ríkisstjórn óháða kónginum og (d) sú ríkisstjórn mundi síðan semja um vopnahlé við maóista. Síðan yrði (e) haldið stjórnlagaþing og (f) reynt að fá viðurkenningu annarra ríkja, en (g) jafna um gamla ríkið, hvernig sem það yrði gert. Með öðrum orðum, að stofna lýðveldi í Nepal og hrekja kónginn einfaldlega í burtu eins og hund, þ.e. nema þjóðarvilji væri fyrir því að hafa hann áfram, sem Prachanda þótti ósennilegt og er líklega rétt metið hjá honum. Nú hafa sjöflokkarnir brugðist þessu bandalagi. Ætli maóistarnir séu spenntir fyrir áframhaldandi samstarfi? Ég á síður von á því en það kemur í ljós.

Á föstudaginn var rakti ég áhyggjur mínar af nepalska maóistaflokknum og hvort hann væri orðinn að nútíma endurskoðunarsinnaflokki. Á því augnabliki sem kommúnistaflokkur í miðri byltingu segir „þetta er orðið fínt, þetta er næg bylting í bili“, þá hættir hann að vera byltingarsinnaður. Milljón dollara spurningin er, hafa maóistarnir fallið í þá gryfju? Í viðtali 13. febrúar sagði Prachanda að þeir hefðu tekið strategíska stefnu á lýðveldisstofnun. Ber að skilja það svo að það sé sjálft markmið þeirra núna? Hann sagði líka að sósíalismi yrði að bíða betri tíma; Nepal væri of veikburða til að geta verist íhlutun erlendra innrásarherja (það er varla rétt, sbr. Víetnam á sínum tíma).

Það eru ekki nema þrír dagar síðan Prachanda áréttaði þaðstjórnlagaþing og lýðveldisstofnun án tafar, þetta væru kröfur fólksins og maóista. Þeir Baburam Bhattarai gáfu svo frá sér yfirlýsingu í dag, þar sem þeir segja sjöflokkana hafa gert söguleg mistök með því að svíkja samninginn við maóistana og bregðast fólkinu; það eina rétta sé að halda skilyrðislaust kosningar til stjórnlagaþings – þ.e.a.s. án samráðs við kónginn.

En svosem, við hverju var að búast? Hvernig gætu borgaralegir flokkar verið nothæfir sem strategískir bandamenn fyrir byltingarsinna? Taktískir kannski, en strategískir? Með því að bregðast byltingunni á ögurstundu, þá hafa borgaraflokkarnir einmitt gert það sem venjan er að borgaraflokkar geri: Tekið gagnbyltingarlega afstöðu. Ég meina, þetta eru þrátt fyrir allt borgaraflokkar! Hver ætlar að segja mér að Congress-flokkurinn sé byltingarafl? (Ef ég tilbæði Prachanda sem guð mundi ég líklega halda því fram að þetta hafi verið planið frá upphafi!)

Ef það fer sem horfir, að bandalag maóista við sjöflokkana heyri sögunni til, þá er það kannski það sem maóistarnir þurfa til þess að komast á rétta línu aftur (sé gengið út frá því að þeir hafi verið á rangri línu fram að því). Það er þá hins vegar tæpast þeim sjálfum að þakka, og ef þeir voru einu sinni komnir á ranga braut afturhalds, munu þeir þá ekki bara gera það seinna í staðinn, þegar ennþá meira er í húfi? Er þá ekki best að ljúka því bara af?

Ég veit það ekki. Ég spáði því á föstudaginn var að málamiðlun við kónginn væri ekki lengur möguleg, en hún reyndist vera það. Ég ofmat greinilega hollustu sjöflokkanna við fólkið. Mér gæti skjátlast um eitthvað núna líka (já, mér) en eitt þykist ég vita fyrir víst: Frá sjónarmiði byltingarinnar hefur þetta einn ótvíræðan kost, held ég, sem er að þetta skerpir og skýrir víglínuna og spíssar stéttabaráttuna í Nepal. Þegar sjöflokkarnir eru skriðnir aftur í samstarf við kónginn (sem ég held að sé ekki ofmælt að segja ef bandalagið við maóistana heyrir sögunni til), þá er valdið annars vegar: Sjöflokkarnir og borgarastéttin, saman við konunginn og landeigendaaðalinn – fara saman með ríkisvaldið – en hins vegar er fólkið, með maóistana í forystu. Þannig að þrátt fyrir allt er þetta kannski fyrir bestu, á sinn hátt.

Það er svo mikið að gerast, svo mikið skrifað um Nepal, að maður hefur varla við að fylgjast með. Ég má til með að benda á tvær greinar enn, til viðbótar við heimildir og vísanir í textanum: „Nepal: A people's movement grows with fury“ og „Democracy in Nepal: Rucksacks amid the revolution

Fleyg orð vikunnar koma annars frá Bharat Sharma í Kathmandú, sem sagði í viðtali við The Independent: „If the King thinks he can control us with bullets he'd better forget it. This is the 21st century and a king is a rarity, something that belongs in a zoo.

Ég mun fylgjast átekta með gangi mála.

Saturday, April 22, 2006

Gyanendra kóngur í Nepal gefur eftir, réttir út höndina: „Ég vil semja“ segir hann. (Yfirlýsing hans í óopinberri þýðingu.) Þegar valdið vill semja er það búið að tapa. Þegar kóngurinn segist vilja semja er hann að viðurkenna að hann hafi ekki bolmagn til að berja niður andstæðinga sína með meira ofbeldi. Valdamönnum, sem ekki skilja vitjunartíma sinn, þarf stundum að koma frá með öðrum leiðum en friðsamlegum. Það þykir fáum skemmtilegt.
Núna reynir á. Stjórnmálaflokkarnir, maóistarnir og mótmælendurnir hljóta að sjá sér leik á borði til að láta nú kné fylgja kviði. Fyrst konungurinn sýnir veikleikamerki, þá ætti nú að vera lag, sem aldrei fyrr, til að koma honum frá. Milljón dollara spurningin núna er hvort einhver úrslitahlekkur í pólitískri forystu Nepala bregst þegar mest á ríður.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ríkisstjórn Hins lýðræðislega alþýðulýðveldis Kóreu sakar Bandaríkjastjórn um það alvarlega athæfi að hafa falsað sína eigin seðla til þess að koma sökinni á Kóreumenn!

Friday, April 21, 2006

Enn gerast hlutirnir hratt í Nepal

Það hafa verið stórtíðindi frá Nepal upp á hvern dag undanfarið -- eða, réttara sagt, flutningabannið og verkföllin sem nú eru komin á þriðju viku eru auðvitað ekkert annað en samfelld stórtíðindi -- en ef það verður ekki kvalitatíf breyting á nepalska stjórnkerfinu bráðlega, þá er ég illa svikinn. Ég held að það væri jafnvel ekki ofrausn að spá því að konungdæmið eigi ekki lengra eftir en frameftir vori. Það er samt rétt að fara varlega í spádómana þegar maður hefur ekki kristalskúluna við höndina...

En engu að síður. Ég býst við að fyrirsagnirnar tali fyrir sig sjálfar:

Nepal’s king refuses to fold in face of protests
Trucks to Nepal stalled at border
On Scene: A Revolution in Nepal?
Nepal: Last stand of a monarchy
Nepal formula: Maoists in govt, titular role for King

Ef kóngurinn var ekki gjörsamlega búinn að fyrirgera möguleikunum á málamiðlun, sem fæli í sér að hann bæri kórónuna áfram, fyrir svosem 10 vikum síðan, þá er ekki ólíklegt að hann hafi gert það núna. Þessi mótmæli eru meira en bara mótmæli, þetta er þéttbýlisuppreisn. Það er álitamál hvort hægt er að kenna hana við stjórnmálaflokkana eða maóistana, kannski helst að hægt sé að kenna hana við kónginn sjálfan. Með skefjalausu lögregluofbeldi hefur kónginum tekist að æsa ólíklegustu hópa upp í pólitíska uppreisn gegn sér – það er greinilega hægt ef menn eru nógu óprúttnir. Sumir mótmælenda hafa sagt að ef flokkarnir semji við kónginn, þá beinist mótmælin bara að þeim næst.

Þá er spurningin, hvað næst? 5. þessa mánaðar skrifaði ég „
Svolitla greinargerð um ástandið í Nepal í byrjun apríl“ sem ég hygg að standi jafnvel undir sér nú og þá. Það sem mér virðist vera alveg á hreinu núna er þetta: Maóistarnir munu ekki semja við kónginn. Sjöflokkarnir gera það ekki heldur, enda væri það pólitískt sjálfsmorð -- tvöfalt í þokkabót. Múgurinn mundi snúast gegn þeim og maóistarnir hada auk þess taumhald á þeim. Kóngurinn er dæmdur maður. Það skynsamlegasta fyrir hann væri að fara í útlegð til Sviss og vona að stríðsglæpadómstólar nái ekki til hans.

Spurningin sem ég hugsa mest um sjálfur þessa dagana er hvort sósíalísk bylting maóistanna kunni að vera á enda -- og þá meina ég ekki hvort hún sé að vera sigursæl heldur hvort hún sé að taka ranga stefnu. Með öðrum orðum, hvort maóistarnir hafi tekið ranga stefnu. Lesið t.d. opið bréf Kommúnistaflokks Perú (sem eru engir smákarlar í bransanum) til Kommúnistaflokks Indlands (Maóista) (Naxalbari) sem
getur að líta á heimasíðu þeirra.

Fyrir mitt leyti finnst mér samt of snemmt af gefa upp vonina. Það getur verið að þetta sé liður í stærri strategíu -- sem mér þykir reyndar ólíklegt. Það getur verið að byltingin geti haldið áfram með öðrum leiðum en vopnaðri baráttu gegn afturhaldinu -- þótt ég þori ekki beint að leggja höfuðið að veði. Er nútíma endurskoðunarhyggja að hreiðra um sig meðal maóista? Það segja nefnilega sumir. Það væri alveg dæmigert ef þetta klikkaði á lokasprettinum vegna þess að forysta maóistanna sjálfra brygðist. Athugið að ég þori engu að slá föstu um þetta. Þetta kemur í ljós býst ég við.

Wednesday, April 19, 2006

Af Perú, Nepal og Palestínu

Ollanta Humala vann fyrstu umferð forsetakosninganna í Perú. Önnur umferð verður í maí. Hann fékk innan við 3,5 milljónir atkvæða, sem kallað var 31% fylgi. Á kjörskrá voru meira en 16 milljónir. Það þýðir að nálægt 6 milljónum hafa ekki greitt neinum frambjóðanda atkvæði. Auðir seðlar og ógildir voru „í öðru sæti“ -- þ.e.a.s. næstflestir atkvæðaseðlar voru annað hvort. 11% fólks á kjörskrá mætti ekki á kjörstað, þótt við því liggi sektir. Hversu trúverðugar hljóma svona kosningar?
„The Republic of Peru is in a state of ongoing democratization“ segir Wikipedia, en þar á bæ eru menn ekki vanir að taka sterkt til orða. Orðin „ongoing democratization“ held ég að megi fullyrða að séu bull, nema í þeim tilfellum sem raunveruleg barátta á sér stað. Sú er líka raunin í Perú. Kommúnistaflokkur Perú hóf Stríð fólksins í Perú 17. maí 1980, og skemmst er að minnast þess þegar ríkisvaldið hafði verið hrakið frá völdum í meirihluti landsins. Þeir hafa ekki farið hátt í fjölmiðlum undanfarin ár, en eru ekki af baki dottnir þótt Gonzalo formaður hafi dúsað í fangelsi síðan 1992.
Í því samhengi getur verið athyglisvert að skoða kosningatölurnar. Í mars gaf Kommúnistaflokkur Perú frá sér yfirlýsingu þar sem skorað er á fólk að sniðganga kosningarnar og réttilega bent á að þær gera ekki annað en að styrkja valdið í sessi heldur eigi fólk þess í stað að taka þátt í stríð fólksins í styðja það. „Ongoing democratization“ þýðir á mannamáli að þar er ekki lýðræði. Hvernig getur almenningur fengið pólitískum vilja sínum framgengt ef það býr ekki við lýðræði?
Heyri ég einhvern hvísla bylting?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~~
Talandi um byltingu, þá víkur sögunni að öðrum brennipunkti stéttabaráttunnar í dag. Nepal. Flutningabann bandalags stjórnarandstæðinga hefur nú staðið yfir í tvær vikur. Í tvær vikur hafa stjórnarandstæðingar -- sjöflokkarnir og maóistarnir -- auðmýkt ríkisstjórnina og sýnt í verki að hún hefur ekki einu sinni raunverulegt vald til að halda þjóðvegunum til Kathmandú opnum. Það er fátt, ef nokkuð, sem grefur eins mikið undan valdinu og þegar sýnt er fram á að það sé ekki það vald sem það gefur sig út fyrir að vera.
Í gær komust 23 flutningabílar í herfylgd til borgarinnar -- einnar og hálfrar milljónar manna borgar. Það er dropi í hafið. Þótt flutningabannið hafi verið tilkynnt með margra vikna fyrirvara -- og fólki gefinn kostur á að birgja sig upp eftir megni -- sverfur hungrið samt að. Eftir því sem það ágerist má búast við því að flutningabanninu verði aflétt um stundarsakir í mannúðarskyni. Tilgangurinn er jú fyrst og fremst að demonstrera bjargarleysi konungsins. Í gær lögðu líka starfsmenn í einu ráðuneyti niður störf í mótmælaskyni við konunginn. Þeir voru að sjálfsögðu handteknir strax, enda hættulegt fordæmi: Fyrsta merki um að ríkisstarfsmenn séu að afneita honum.
Hjól sögunnar snúast hratt í Nepal; snaran herðist um kverkarnar á Gyanendra konungi. Nýjasta frétt RÚV um málið nefnist Nepal: Mannréttindasamtök kalla eftir aðgerðum -- þau „saka Gyanendra og aðra ráðamenn um að valda nepölsku þjóðinni óumræðilegum þjáningum.“ Ég væni Amnesty International ekki um lygar.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ísraelsstjórn ákveður að gera Hamas-menn ábyrga fyrir sjálfsmorðsárásinni í Tel Aviv og áskilur sér rétt til að drepa leiðtoga þeirra, þar á meðal ráðherra Palestínsku heimastjórnarinnar. Svo segja Olmert og hinir glæpamennirnir að þeir hafi enga til að semja við!? Þetta kalla ég kokhreysti, svo ég kveði ekki fastar að orði!

Sunday, April 16, 2006

Palestínustjórn hvött til að semja við Ísrael -- Palestínustjórn hefur enga samningsstöðu. Hún er hernumin af Ísrael. Samningur Palestínustjórnar við Ísrael núna hefði ekki meiri þýðingu en samningar Vidkuns Quisling við nasista þegar Noregur var hernuminn. Svo er annað: Hvernig er hægt að ætlast til þess að sá sem er hertekinn ábyrgist öryggi þess sem hertekur? Á fanginn að ábyrgjast öryggi fangavarðarins sem níðist á honum? Eitt enn: Ísraelar krefjast þess að Palestínumenn leggi niður vopn og að Hamas fjarlægi ákvæðið um eyðingu Ísraels af stefnuskrá sinni. Hamas hafa haldið einhliða vopnahlé í meira en ár og Ísraelar hafa ekki goldið í sömu mynt! Dettur einhvejrum í hug að vopnaðir Palestínumenn muni eyða Ísrael? Það geta ekki aðrir eytt Ísrael en Ísraelar sjálfir og mögulega Bandaríkin!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Nepalska lögreglan skýtur á göngu lögfræðinga.
Ætli þeir hafi verið með róstur?

Saturday, April 15, 2006

Úff...
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Rússar hlaupa undir bagga meðan Bush gerir illt verra.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Vatnavextir í Dóná. Alltaf finnst mér jafn skrítið að til skuli vera menn sem eru svo blindaðir af hugmyndafræði að þeir neiti að tengja saman punktana og sjá mynstrið sem ber vitni um hækkandi hitastig jarðar. Ronald Reagan tjáði sig einhvern tímann um hækkandi hitastig jarðar og möguleikana á því að t.d. Holland færi undir vatn -- og sagði að það væri ódýrara að flytja Hollendinga bara til Ameríku og fá sér sterkari sólgleraugu heldur en að stemma stigu við útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Þetta finnst sumum vera snarplega svarað, gott ef þetta á ekki að hafa stungið upp í þessa vælandi rassblæðandi umhverfiskomma sem nota sjálfir rafmagn og bensín.
Maðurinn var fábjáni, og það sem verra er: Óábyrgur fábjáni með of mikil völd. Slæm blanda. Að hann eigi sér fylgismenn er líka einkennilegt. Of dýrt já? Það er greinilegt að það er enginn verðmiði á valkostum á borð við það að það sé áfram vitsmunalíf á jörðinni. Hver græðir svosem á því? „Samfélagið“? Hvernig getur samfélagið í heild haft hagsmuni? Eru þetta ekki bara einstaklingar? Mikið væri gaman ef aðeins fleiri sæju spönn frá rassi einstaklingshyggjunnar.

Thursday, April 13, 2006

Fréttir + almenn hugleiðing um byltingar og skipulag

Það verður seint ofbrýnt fyrir fróðleiksþyrstum netlesendum að skoða Eggin.net!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í Nepal afléttir Gyanendra kóngur útgöngubanni og Prachanda formaður biðlar til vandsveina hins opinbera að beita mótmælendur ekki ofbeldi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Chavez sakar sendiherra Bandaríkjanna í Caracas um að æsa til ofbeldis og hótar því að reka hann úr landi ef það endurtekur sig.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
"Something's rotten in the state of Iceland" skrifar Ed Warner í Telegraph.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í samræmi við fyrstu athugasemd við síðasta blogg mitt, þá er kannski við hæfi að vísa í þessa frétt: Hans Blix segir að Íranir séu að minnsta kosti 5 ár frá því að koma sér upp kjarnorkusprengju. Að minnsta kosti.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er valdastéttin sem ræður því hvort bylting fer fram með blóðsúthellingum eða ekki. Það er hún sem velur hvort hún beitir valdi eða ekki. Ef valdastéttin beitir ekki ofbeldi hafa byltingarmenn heldur enga ástæðu til þess. Hins vegar virðist valdastéttin aldrei þekkja sinn vitjunartíma. Hversu oft hefur verið reynt, án árangurs, að berja byltingu niður með valdi? Byltingin sigrar samt, valdastéttin er blóðið drifin upp á herðar en tapar samt forréttindum sínum gagnvart samtakamætti fólksins sem vill nýja stjórnskipan.
Þegar menn hafa setið lengi á valdastólum fyllast þeir gjarnan hroka og drambi. Þegar fólkið rís gegn þeim ímynda þeir sér að það sé hægt að lægja ólguna með ofbeldi. Ofbeldi getur af sér ofbeldi. Þeir sem liggja á forréttindum eins og hundar á roði hljóta að verða að grípa til ofbeldis til að verja þau. En enginn má við margnum. Eina spurningin er hvernig fólkið er skipulagt. Óskipulögð ólga er ekki bara ólíkleg til árangurs -- hún er, í orðanna bókstaflegu merkingu, feigðarflan. Man einhver eftir Chile 1973? Illa skipulagðri tilraun til gerbreytingar var drekkt í blóði. Farsæl bylting verður því aðeins háð, að fólkið sem framkvæmir hana eigi sér óháða og vel skipulagða pólitíska framvarðasveit með tilheyrandi forystu, boðleiðum og áætlunum. Annars fer illa, er ég hræddur um.

Wednesday, April 12, 2006

Góð frétt, slæm frétt

Góð frétt: Íranar farnir að auðga úran. Þá má segja að þeir séu einu skrefi sjálfstæðari en þeir voru til skamms tíma. Það er óravegur, frá því að auðga úran, til þess að gera það nothæft í kjarnorkusprengjur. Þess er því enn alllangt að bíða að Íran komi sér upp kjarnorkusprengjum. Sú staðreynd mun hins vegar varla stöðva Bandóðríkjastjórn í að gera loftárásir á landið og berja þennan þjóðfrelsisvilja niður. Helst vildu þeir auðvitað steypa klerkastjórninni og koma upp leppstjórn eins og var til 1979 -- en hér er á ferðinni sama hugsunarvillan og í aðdraganda Íraksstríðsins: Strategísk hugsun nýkóna er of menguð af hugmyndafræði til þess að vera raunsæ. Þeir halda að loftárásir muni geta af sér uppreisnir eða byltingu. Það mun ekki gerast. Það er varla neitt til sem þjappar fólki betur á bak við stjórnvöld, heldur en utanaðkomandi árás. Loftárásir mundu m.ö.o. styrkja Ahmadinejad og félaga í sessi. Ég heyri hann glotta: Make my day, gefið mér tækifæri til að sýna þjóðinni hvað ég er óhræddur!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þetta er hins vegar vond frétt -- nei, afleit frétt: Tímaritið Vera hætt að koma út. Það eru alls ekki of mörg vitræn tímarit sem koma út á Íslandi, og nú er einu færra. Ég mun sakna Veru.

Wednesday, April 5, 2006

Svolítil greinargerð um ástandið í Nepal í byrjun apríl

Á morgun, fimmtudag, hefst fjögurra daga allsherjarverkfall í Nepal. Á meðan á því stendur munu maóistar leggja niður vopn.

Sumir byltingarsinnar hafa gefið upp vonina á Prachanda og maóistana. Segja að þeir hafi selt sig burgeisunum með hrossakaupum um að stefnt skuli á lýðveldisstofnun með borgaralegu fyrirkomulagi, frekar en að taka völdin og stofna sósíalískt ríki í stað lénsks einveldis. Ég veit ekki. Ég held að forysta maóista sé ekki að svíkja byltinguna. Prachanda hefur gagnrýnt Lenín, Stalín og Maó og sagt að hann og aðrir í forystusveit maóistanna vilji „læra af mistökum“ þeirra. Hann nefnir að vísu aðallega niðurstöður fyrri byltinga og að þeir vilji læra af mistökum á borð við persónudýrkun eða að forystusveitin verði ómissandi og þar af leiðandi valdameiri en gott er. Ég fæ ekki séð annað en að þetta sé hárrétt hjá honum. Það dylst varla neinum að Lenín, Stalín og Maó eru þarna til tals -- en síðan hvenær eru þeir dýrlingar sem ekki má gagnrýna?

Lýðveldisstofnun -- ég held að hún sé af hinu góða í sjálfu sér, skref fram á við. Það er hins vegar réttmæt spurning hvort menn eigi að láta þar við sitja, eða láta kné fylgja kviði og taka öll völd þegar þeir geta það. Ég er á báðum áttum. Hallast helst að því að byrja á lýðveldisstofnun og stjórnlagaþingi, og næsta skref yrði þá útkljáð í næstu lotu, þegar lýðveldisskipulag hefur fest sig í sessi. Á hitt hefur verið bent, að hlutverk kommúnista og kommúnistaflokka sé að veita fólkinu forystu í byltingu, nú sé byltingin möguleg, og að enginn geti sigrað fólkið þegar það stendur saman. „Forysta í byltingu“, hlýtur það ekki að merkja að menn leggist á árarnar til þess að byltingin haldi áfram þangað til björninn er unninn? Það má hugsa sér að stríði fólksins ljúki ekki með lýðveldisstofnun, heldur taki maóistar völdin í landinu í sínar hendur. Það gerist ekki gegn vilja fólksins. Hvað svo? Fyrst þyrfti að brjóta gagnbyltingaröfl innanlands á bak aftur. Svo mætti búast við innrás erlendra ríkja til að reyna líka gagnbyltingu. Þá mætti búast við því að nepalska þjóðin mundi sameinast gegn innrásinni, National Front yrði þá til í stað People's Front og mundi þjappa þjóðinni saman um unninn byltingarsigur. Skæruhernaður yrði innrásarherjum þungur í skauti og mundi á endanum hrekja hann úr landi.

Maður spyr sig samt, yrði fórnarkostnaðurinn of mikill? Hvenær er fórnarkostnaður of mikill til að bylting geti verið hið rétta í stöðunni? Vissulega eru það afturhaldsöflin sem eiga upptökin að ofbeldinu. Krúnan og jarðeignaaðallinn núna, innrásarherinn ef það yrði gerð innrás. Þótt það sé fjarri mér að telja það rétt af fólkinu að gefa sífellt eftir -- þá mundi ég ekki vilja vera í þeirri stöðu að þurfa að velja. Valkost, sem felur í sér dauða þúsunda og þjáningar hundruða þúsunda, er erfitt að meta sem góðan, jafnvel þótt hörmungarnar yrðu á ábyrgð einhvers annars.

Á hinn bóginn, hvaða valkostur er það að ofurselja milljónir manna áframhaldandi arðráni og áhrifaleysi og ofbeldi af hálfu spilltra yfirvalda, ef það er mögulegt að gera byltingu að sópa þessu öllu út í hafsauga og byggja ríki af nýju tagi á rústunum? Ef það er mögulegt að gera farsæla byltingu og frelsa 25 milljónir manna úr ánauð -- og þá meina ég alveg úr ánauð, ekki bara með annan fótinn -- ef þetta er mögulegt, maður hefur aðstöðu til að beina atburðarásinni í þann farveg, og maður gerir það ekki, hvað er maður þá? Byltingarmaðurinn sem hrökk þegar hann gat stokkið. Maðurinn sem brast þegar hann þurfti að halda?

„Ef heimsbyltingin á öll að fara fram í einni atrennu verður engin bylting“ var mér sagt. Það er nú það. Á hvaða stigi stéttabaráttunnar erum við? Um það er varla hægt að segja nema eftir á. Á hvaða stigi voru Rússar 1917 eða Kínverjar 1949? Voru þeir tilbúnir fyrir byltinguna? Ef maður skoðar söguleg lögmál stéttabaráttunnar, er þá hægt að gera byltingu fyrr en tíminn er réttur? Eru líkur á því að heilbrigður kjúklingur komi úr eggi ef skurnin er brotin of snemma? Hvenær er bylting tímabær? Þegar hún heppnast? Ætli það sé til nokkur betri mælikvarði en það?

Hugsum okkur tvo valkosti: Annaðhvort það sem að ofan hefur verið lýst, að Nepal upplifi áframhaldandi byltingu, með öllu sem henni tilheyrir. Ellegar þá að kónginum verði gerð skil, lýðveldi stofnað og unnið á þeim grundvelli og beðið eftir því að aftur komi tími þegar byltingin er möguleg, og vona þá að til verði nógu traust skipulag meðal fólksins til að framkvæma hana örugglega og skipulega. Síðari kosturinn hefur þann galla að við getum ekki vitað hvort fólkið verður almennilega skipulagt við næstu byltingaraðstæður. Það er það núna, það gæti gert þetta núna. Á að hætta á blóðbað eða reginsvik í næstu umferð ef það gæti verið hægt að leiða hana til lykta núna? Eða á að nota dampinn og skipulagið sem núna eru og stofna „sósíalisma í einu landi“? Þegar Prachanda talar um að „læra af mistökum fortíðar“ -- hvað leynist þá á bak við orðin?

Ég get, skiljanlega, ekki sagt nákvæmlega til um hvað er rétt og hvað er rangt að gera við þessar aðstæður. Áframhaldandi bylting hljómar betur í mínum eyrum -- hún mundi ábyggilega heppnast ef fólkið vill hana og ef flokkurinn svíkur það ekki -- og fórnirnar þyrftu ekki að verða óbærilegar samanborið við ávinninginn: Þjóðfrelsi og sósíalisma. Fórnirnar hafa nú þegar verið það miklar að það væri móðgun við píslarvotta byltingarinnar að hún færi út af sporinu núna. Hitt játa ég, að mér þykir skiljanlegt að Prachanda og menn hans tali um að kapp sé best með forsjá, og svoleiðis. Prachanda er líklega valdamesti maður í Nepal -- og þegar menn eru í slíkri stöðu öðlast þeir mikla ábyrgð. Sagan dæmir valdamenn sem axla ekki ábyrgð sína. Nú er spurningin, hvort er ábyrgara: Að halda byltingunni áfram og leiða vígamóða alþýðuna til sigurs, sem etv. ynnist ekki fyrr en eftir einhver ár í viðbót -- eða að vinna áfangasigur og festa hann í sessi, en geyma næsta skref til næstu lotu.

Monday, April 3, 2006

Draugabanar

Ég er á blaðsíðu 25 í DV í dag -- pósandi ásamt Birgi og Óla -- einkennisklæddir og vígalegir með draugabanagræjur. Tilefnið er viðtal við Birgi og mig um draugabanaþjónustu Vantrúar.

Þrjár ábendingar

Douglas Adams þarf vart að kynna. Árið 1998 flutti hann ræðu sem nefndist „Is there an Artificial God?“, þar sem hann fjallar um tækni og þekkingu, þróun og líffræði, félagsleg mím og atferli og þróun hugmynda, hagnýti sem hugmyndir geta haft þótt þær séu vitlausar á yfirborðinu, og um stöðu manna í veröldinni. Já, ræðan er yfirgripsmikil og, eins og þarf ekki að koma á óvart, frekar löng líka. Hins vegar fannst mér tíminn vera fljótur að líða þegar ég las hana; hún er bæði vel sett fram og mjög innihaldsrík og áhugaverð -- og auk þess var flutti hann ræðuna af fingrum fram. Hér með hvet ég fólk til að lesa þessa skörpu ræðu!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Á Egginni skrifar Jón Karl Stefánsson: „Krabbamein heimsins“ -- lesið það líka.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hér eru áhugaverð fróðleikskorn á Vísindavefnum: „Hvað er drómasýki?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þennan fyrirlestur kl. 20 í kvöld get ég varla látið framhjá mér fara.