Friday, November 24, 2006

Mér var farið að finnast linkasafnið mitt dálítið tómlegt, svo ég bætti nokkrum linkum við.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég hef látið lesendur bíða eftir Norður-Kóreugreininni sem ég lofaði hér um daginn, og enn verður nokkur bið á. Gefið samt ekki upp vonina!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Jóhann Björnsson skrifaði um Kaupum-ekkert-daginn í gærmorgun.

Ég var að rekast á vefrit sem ekki hefur starfað lengi, Nýkrata. Virðist nú í fljótu bragði vera enn ein uppsuðan af gamaldags kratisma, sem ég hef aldrei gefið mikið fyrir. Sé ég þó ástæðu til að vísa á tvær greinar: Fordómalaus dómsmálaráðherra og Eins og jörðin hafi gleypt Illuga.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Talandi um krata: Íhaldsmenn allra flokka geta étið það hver upp eftir öðrum að sósíalistar séu óraunsæir, sósíalismi sé gamaldags og að bylting séu draumórar -- en að ímynda sér að auðvaldshagkerfið sé nútímalegt eða að það sé hægt að "temja" það og beita því fyrir plóg almennrar velferðar -- það kalla ég óraunsæja draumóra!

Friday, November 17, 2006

Uppreisn á Tonga og hugleiðing út frá henni

Naumast eru það fréttirnar [I, II] frá eyríkinu Tonga: Uppreisn sem hefur kostað 8 manns lífið þegar þetta er ritað. Í september dó gamli kóngurinn eftir 41 ár á valdastóli og ráðgjafanefnd lagði til að "lýðræðislegar umbætur" yrðu gerðar. Svo ákvað stjórnin að fresta þeim. Íbúar höfuðborgarinnar Núkúalófa fara út á göturnar, brjóta rúður, velta bílum og allt er í hers höndum.

Ástralía og Nýja Sjáland búa sig undir íhlutun ef ríkisstjórnin fer þess á leit. Að senda hermenn og lögreglu. Til hvers? Jú: Til að tryggja valdastéttina í sessi í þessari hjálendu sinni. Tonga, eins og fleiri eyríki Kyrrahafsins, er tæpast sjálfstæð nema að nafninu til. Þegar íbúunum er nóg boðið og gera uppsteyt þá er hvíti maðurinn fljótur á vettvang með byssurnar sínar.

Hins vegar er þetta lærdómsríkt. Ef Tonga, með sína rúmlega 114.000 íbúa, logar í uppreisn, hvers vegna ætti Ísland þá ekki að geta gert það? Hver hefur heyrt um uppreisn á Íslandi fyrr? Enginn. En hver hefur heyrt um uppreisn á Tonga fyrr?

Það væri auðvitað fánýtt að reyna uppreisn á Íslandi. Fyrir nokkrum öldum síðan lagði heiðursmaður (hver var það aftur, Diðrik frá Minden?) Ísland undir sig með 6 hermönnum. Það þyrfti varla mikið meira í dag, held ég. Eða hvað? Í öllu falli, þá væri uppreisn á Íslandi eins og að gera uppreisn í fiskabúri. Erlent heimsveldi getur komið fram vilja sínum við okkur pólitísku dvergana þegar því dettur það í hug.

Það þýðir að okkar bylting mun ekki fara fram á Austurvelli heldur í Washington.

Það væri gaman að heyra hvað aðrir hafa um þetta að segja.

Thursday, November 9, 2006

9. nóvember, Gúttóslagurinn

Í dag eru 74 ár frá sigri verkamanna í Gúttóslagnum. Fyrir þá sem ekki muna, var kreppan mikla í algleymingi á haustdögum 1932, og bæjarstjórn íhaldsins ákvað að fækka störfum í atvinnubótavinnu og lækka auk þess launin -- hjá sveltandi mönnum. Mannfjölda dreif að Gúttó, húsinu þar sem bæjarstjórn fundaði og stóð fyrir aftan Alþingishúsið, til að skora á bæjarstjórn að láta þetta ógæfuverk ógert. Lögreglulið með kylfur réðst á mannfjöldann. Í stað þess að tvístrast tóku verkamenn á móti, og eftir snörp átök lá meirihluti lögreglunnar óvígur. Bæjarstjórnin sá sitt óvænna og hætti við kjaraskerðinguna.
Að þessum sigri unnum blasti sú spurning við íslenskum byltingarsinnum hvort ætti að láta kné fylgja kviði og gera byltingu. Niðurstaðan varð sú að reyna það ekki, enda væri ekki byltingarástand í landinu; ekki forsendur til byltingar. Eftir slaginn sló valdstjórnin mjög í klárinn, og kom m.a. upp ríkislögreglu. Varnarsigur örvæntingarfullra verkamanna varð átylla til að stórauka valdstjórnina í landinu, tilhneiging sem gætti um öll Vesturlönd.

Tuesday, November 7, 2006

Вся власть советам!

Ég fór mikinn á ritvellinum í nótt, svo að eftir mig liggja tvær greinar á Egginni:
89 ár frá rússnesku byltingunni og
Hvaða stefnu eiga Íslendingar að taka í innflytjendamálum?

Ég held að auðvaldsríkisstjórn sé í eðli sínu ófær um að hafa framsækna og góða innflytjendastefnu. Hún lifir hú einu sinni á því að það sé mannamunur í þjóðfélaginu, hún deilir og drottnar.

Ég vil annars óska öllum byltingarsinnum til hamingju með daginn.

Skæruliðafréttir

Zapatistas í Chiapas búa sig undir að veita andspyrnumönnum í Oaxaca virkan stuðning með því að loka þjóðvegum og leggja drög að allsherjarverkfalli í Mexíkó 20. nóvember nk. "Enginn heiðvirður maður getur setið þegjandi hjá, án þess að aðhafast, á meðan fólkið, einkum innfætt, er myrt, barið og fangelsað" segir í yfirlýsingu frá EZLN og Subcommandante Marcos.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Naxalbari-skæruliðar í Andra Pradesh-héraði á Indlandi gera tilraunaskot með eldflaugar til þess að beita í baráttunni gegn yfirvöldum. Það er greinilegt að þeir eru alvarlegur þyrnir í síðu yfirvalda, því yfirvöld heita því að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að brjóta þá á bak aftur.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Nepalskir embættismenn segjast hafa náð samkomulagi við maóista um hvernig vopnum Hers fólksins verður ráðstafað meðan bráðabirgðastjórnin situr. Önnur stórfrétt frá Nepal: Prachanda formaður maóista hyggst ávarpa fjöldafund á föstudaginn kemur, 10. nóvember. Það verður í fyrsta skipti í 25 ár sem hann kemur fram og ávarpar fund. Já, nú langar mig sko til Nepal!