Friday, May 29, 2009

Af okkur

Eldey Gígja dafnar vel, verður mannalegri og mannalegri með hverjum deginum. Hún er nú rétt orðin fjögurra mánaða og er mjög efnileg. Ég er kannski svolítið hlutdrægur. Æi, ætli manni fyrirgefist það ekki.
~~~ ~~~ ~~~
Ég hef ekki farið mikinn á netinu undanfarið, hvorki á bloggi né annars staðar. Barnastúss tekur náttúrlega tíma, en frítími hefur aðallega farið í garðvinnu. Ég er búinn að sá og planta mjög miklu af matjurtum, búa til matjurtagarða þar sem áður voru grasblettir í garðinum, og næst á dagskrá er að hlaða grjóti. Hef gripið stein og stein á ferðum mínum um bæinn, en fór áðan við þriðja mann og við sóttum á að giska eitt og hálft tonn af grjóti kerru. Það er samt bara brot af því sem þarf áður en yfir lýkur. Ég hlakka vægast sagt mikið til að fara að hlaða af alvöru.
~~~ ~~~ ~~~
Eftir púl í garðinum er fátt betra en að fá sér einn ískaldan. Ég hef undanfarið lagt mig eftir því að smakka nýjar og nýlegar íslenskar bjórtegundir. Brugghúsið í Ölvisholti kemur sterkt inn; Mungát er hreint sælgæti, Móri hinn ljúffengasti líka og Skjálfti sömuleiðis. Lava er ekki eins fyrir minn smekk; imperial stout höfðar ekki svo til mín. Meðal annarra sem verðskulda meðmæli eru Jökull og Skriðjökull frá Stykkishólmi, og svo sá sem trónir á toppi íslenskra lagera: El Grillo. Öll þessi nýju brugghús eru þörf og tímabær viðbót við ölmenningu Íslands.

Vonbrigði eða...

Ég veit ekki hvort ég get sagt að ég hafi orðið fyrir vonbrigðum með nýju ríkisstjórnina. Það er ekki það að ég sé ánægður með hana, heldur frekar að ég bjóst ekki við neinu byltingarkenndu af henni. So far hefur hún skilyrtan/gagnrýninn stuðning minn: Ef hún drullast til þess að bæta hag heimilanna og hættir að mylja undir auðvaldið, hættir við að sækja um ESB-aðild, lækkar stýrivexti, gengur úr NATÓ og segir AGS að fokka sér, þá skal ég styðja hana. Þangað til gagnrýni ég hana. Læt það alla vega duga, til að byrja með.
~~~ ~~~ ~~~
Hér eru svo þrjár greinar sem ég skora á fólk að lesa

Þórarinn Hjartarson skrifar um Michael Hardt og Antonio Negri: „Kommúnistar“ gefa hnattvæðingunni heilbrigðisvottorð
Óli Gneisti Sóleyjarson skrifar um Dalai Lama: Hans heilagleiki herra Lama
Svanur Sigurbjörnsson læknir skrifar um Detox: ... og afeitrun Jónínu Ben flytur heim
~~~ ~~~ ~~~
Það verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr viðræðum aðila markaðarins um "stöðugleika". Ætli sá "stöðugleiki" verði á kostnað vinnandi fólks, eins og alltaf? Skyldi það nokkuð vera?

Tuesday, May 5, 2009

Hetja?

Vísir greinir frá: Stríðshetja fær háþróaða gervifætur frá Össuri.
Hvers vegna er honum valin einkunnin stríðshetja? Lítur Vísir á það sem hetjuskap að þjóna hernámsöflum í Írak? Eða drýgði hann hetjudáðir meðan hann var þar? Særðist hann kannski þegar hann steig á jarðsprengju þegar hann var að bjarga börnum út úr brennandi húsi? Ég er forvitinn, hvort er hann hetja eða ekki?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Jón Karl skrifar á Eggina: Anarkistar vs. kommúnistar?

Friday, May 1, 2009

3 mánuðir

Eldey varð þriggja mánaða á föstudaginn var. Buðum nánustu ættingjum í heimsókn. Grilluðum í holu úti í garði. Þessir þrír mánuðir hafa liðið hratt.
Eldey dafnar vel. Þegar hún fór í þriggja mánaða skoðun sýndi mæling að frá níu vikna skoðun hafði hún þyngst um 600 grömm og lengst um 3 sentimetra. Með sama áframhaldi verður hún, þegar hún kemst á minn aldur, um 280 kíló að þyngd og um 14 metrar á hæð.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég hef ekki mikið getað unnið í garðinum undanfarið, en það kemur að því að ég geti farið að gera það. Ég er meðal annars ekki viss um að matjurtagarðurinn verði neitt sérstaklega merkilegur í ár. Eða réttara sagt, þá verður hann það varla úr þessu.

Verkalýðshreyfing í kreppu?

Verkalýðshreyfingin hefur tekið ýmsum breytingum í tímans rás, eftir því hvernig þjóðfélagsaðstæður hafa breyst. Þessa dagana breytast þær hratt, og því er rétt að ræða hlutverk og eðli stéttarfélaganna nú, hvaða verkefni þjóðfélagið setur þeim fyrir og hvernig hagsmunum vinnandi fólks er best borgið. Hreyfingin má ekki vera feimin við að endurskoða sjálfa sig í takt við kröfur samtímans.

Það er auðvitað kreppan sem breytir öllu. Þótt hún sé skilgetið afkvæmi fjármálaauðvaldsins, þarf að hafa hraðar hendur til þess að hún dragi ekki allt þjóðfélagið niður. Verkalýðshreyfingin þarf að standa sameinuð og föst fyrir ef hún ætlar að rækja hlutverk sitt í þessari baráttu.

Lesa rest á Egginni: Verkalýðshreyfing í kreppu?