Wednesday, September 30, 2009

Afsögn Ögmundar og ríkisstjórnarsamstarfið

Ég rak upp stór augu í morgun þegar ég las Fréttablaðið. Þar er haft eftir Jóhönnu Sigurðardóttur að ef ekki náist "samstaða um lyktir Icesave-málsins innan ríkisstjórnarflokkanna í vikunni [sé] ríkisstjórnarsamstarfinu sjálfhætt". Svo er sagt að Jóhanna hafi misst alla þolinmæði.

Ekki er ég hissa á að Ögmundur hafi misst þolinmæðina. Þetta er hvorki meira né minna en fjórða skiptið á innan við tólf mánuðum sem Samfylkingin spilar þessu últimati. Fyrst Ingibjörg Sólrún gegn Sjálfstæðisflokknum um Evrópusambandið síðasta vetur. Svo Jóhanna við VG vegna Evrópusambandsins. Svo vegna IceSave, nú aftur vegna IceSave.

Það sagði mér kona, að ef hún yrði einhvern tímann fyrir heimilisofbeldi mundi hún slíta sambúðinni strax og ekki gefa annan séns. Sama gildir um stjórnarsamstarf. Það kallast ekki samstarf ef annar aðilinn lætur svínbeygja sig í hverju málinu á fætur öðru. Ég reifaði það í stuttu máli á flokksráðsfundi VG fyrir mánuði, í Átta tesum. Síðasta tesan endaði svona: "Hugsjónir eru ekki skiptimynt fyrir ráðherrastóla og hótanir um stjórnarslit koma ekki í stað endurgjalds fyrir eðlilegar málamiðlanir."

Ég rak upp stór augu í morgun vegna þess að ég hélt að Jóhanna væri diplómatískari en svo að halda að það sé hægt að brýna deigt járn án þess að það bíti á endanum. Ég veit ekki hvort hún er fær um að vera forsætisráðherra, en hitt veit ég að hún er ekki fær um að leiða vinstristjórn.

Þótt þessi svokallaða vinstristjórn hafi ekki verið vinstrimönnum að skapi og hafi framfylgt hægristefnu í flestum aðalatriðum, þá skulum við ekki láta eins og hún hafi verið gagnslaus. Nei, þvert á móti hefur hún verið dýr og um leið dýrmæt lexía, með því að skilja hafrana frá sauðunum. Því hefur til dæmis (nýlega) verið haldið fram að flokksmenn VG geti stólað á þingmenn flokksins til að standa gegn Evrópusambandinu. En hvað sýnir reynslan?

Svari hver fyrir sig -- en ef þingmenn VG eru með múður út af ESB eða einhvejru öðru mikilvægu, hótar þá ekki Jóhanna bara að samstarfinu sé sjálfhætt?

2 comments:

  1. Ég rak upp stór augu þegar ég las að þú hefðir haldið að Jóhanna hefði einhverja diplómatíska hæfileika og að þú hefðir talið hún væri hugsanlega fær um að vera forsætisráðherra, ég tala nú ekki um á krísutímum. Jóhanna er engu að síður það sem við kusum yfir okkur.

    "Hrunið" er ekki bara efnahagslegt.Hið raunverulega hrun ristir mikið dýpra og Jóhanna hefur, að mínum dómi,gjörsamlega brugðist hlutverki sínu sem leiðtoga við að sameina þjóðina og endurvekja trú okkar á framtíðina.

    ReplyDelete
  2. Ég neita því ekki að ég hafði annað álit á henni en öðrum ráðherrum síðustu stjórnar. Ætli það álit hafi ekki verið illa ígrundað. Ekki kaus ég hana og satt segirðu, hún hefur gersamlega brugðist.

    ReplyDelete