Monday, March 15, 2004

Seinnipartinn í gær kom móðir mín inn um útidyrnar haldandi á ketti, illa til reika. Um það bil 8 mánaða gömul gullpersa-læða, mjög fallegt dýr, en óskaplega illa til reika: Grindhoruð, feldurinn í mjög miklum kleprum, ekkert hálsband, miklar stírur í augum. Köld, hungruð og hrakin. Megandi ekkert aumt sjá aumkvuðum við okkur vitaskuld yfir veslings dýrið, gáfum henni að éta og drekka og bjuggum henni fleti. Læðan var kassavön og fór í kattafat þegar henni varð mál - það bendir til uppruna í mannabústað. Mín ágiskun: Dýrið hafði verið lengi á flækingi, mögulega eftir að móðir þess spyrnti því út í hafrót lífsins. Það hafði verið á rangli í kring um húsið okkar í nokkra daga og leitaði nú ásjár. Við leyfðum henni að hafast við hjá okkur í nótt og áðan var hún sótt og farið með hana í Kattholt - sem btw. á þakkir skildar fyrir nsögg viðbrögð og gott starf. Þar sem við eigum tvo ketti fyrir var ekki alveg einfalt að bæta þeim þriðja við, þótt ekki væri nema um sólarhrings skeið. Eldri köttinn höfðum við fyrst úti í garði til að forða blóðugum slagsmálum, en prófuðum að sýna þeim yngri stálpaðan kettlinginn. Kettirnir okkar eru mæðgur, 13 og 14 ára læður. Yngri kötturinn kemur inn í eldhús og varð hvumsa við að sjá þar ókunnugan kettling. Meira en hvumsa, hún stirðnaði upp af undrun. Þegar hún hafði áttað sig eftir ca. 2 mínútur urraði hún - þennan blíða, ofdekraða kött hef ég næstum aldrei vitað urra - en hopaði samt undan krílinu þar sem það fikraði sig nær henni, forvitið. Mín hugumprúða læða, Skotta, bakkaði upp stigann og upp á loft undan forvitnum, hálfstálpuðum kettlingsræfli. Fyrir norðan eru læður kallaðar bleyður.



Jæja, nóg um það. Þetta var góðverk dagsins.