Sunday, October 4, 2009

IceSave og afsögn Ögmundar

Írar létu plata sig til að samþykkja Lissabon-sáttmálann og eru það mikil vonbrigði. Þeir felldu hann um árið, en fengu nú annað tækifæri til þess að samþykkja hann. Hvenær ætli þeir fái annað tækifæri til þess að fella hann? Svar: Aldrei. Lýðræðishalli ESB birtist greinilega í því hvernig svona málum er troðið í gegn. Lesið: Lissabon-bókunin: Hvað er nú það?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Guðfríður Lilja vill að Ögmundur verði aftur ráðherra. Ég get alveg tekið undir það, þótt það kæmi mér á óvart ef svo yrði. Maður lætur ekki stilla sér upp við vegg, hvorki í ESB né IceSave. Yfirgangur innan ríkisstjórnar á ekki að líðast, hvorki að fólk stundi hann né láti bjóða sér hann. Lesið hvað Hjörleifur Guttormsson skrifar um Icesave-málið og afsögn Ögmundar.

Í IceSave-málinu er aðalatriðið það að íslenskir skattborgarar stofnuðu ekki til þessara skulda og allar niðurstöður sem fela í sér að þær lendi á herðunum á okkur eru því óásættanlegar. Þetta er aðalatriðið. Það er aukaatriði hvað "lögmæt stjórnvöld" (les: vanhæfir, spilltir klaufar) álpuðust til að gera. Það er makalaus málflutningur, að ætla að selja land og þjóð í hendurnar á handrukkurum alþjóðlegs fjármálaauðvalds, og kalla það ábyrgðarleysi að vilja það ekki. Það er líka makalaus málflutningur að segja að Ögmund hafi skort "kjark til að skera niður". Nei, Ögmundur hafði kjark til að skera EKKI niður.

Það eru örugglega margir fylgismenn og félagar í VG sem telja Steingrím J. vera að gera góða hluti og finnst Ögmundur vera úti í móa. Við þessa félaga segi ég: Opnið á ykkur augun! Ríkisstjórnin er að útfæra hægristefnu, lætur hagsmuni fjármagnsins ganga fyrir hagsmunum fólksins, ætlar sér að skera niður í því sem okkur er mikilvægast til þess að þóknast Alþjóðagjaldeyrismafíunni! Við eigum ekki að láta teyma okkur á asnaeyrum. Ögmundur gerði það eina rétta í stöðunni, og ég fullyrði að hann hefur víðtækan stuðning félaga og flokksmanna. Hægriarmurinn hefur auðvitað líka marga fylgismenn, en ég hygg að þeir fylgismenn séu ennþá fleiri meðal Samfylkingarfólks heldur en Vinstri-grænna.

2 comments:

  1. Vinstri - hægri
    afturábak - áfram
    niður - upp

    Á hvaða leið ert þú?

    Ég mundi leggja til að Vinstri Grænir skiptu sér í tvennt: Vinstri og Græna.

    ReplyDelete
  2. Á hvaða leið er ég? Ég er sósíalisti.

    ReplyDelete