Wednesday, February 24, 2010

Vandinn er kerfið, ekki persónurnar

Fjárglæframenn hafa leikið land okkar hart, því neitar enginn. Verðskulda þeir ekki að vera dregnir til ábyrgðar á einhvern hátt? Að sjálfsögðu. Leysis þá vandamálið? Aldeilis ekki. Fólk sem ver kerfið segir að kreppan stafi af siðferðisbresti, klaufaskap eða kynhormónum. Sannleikurinn er hins vegar sá að að kreppa er innbyggð í auðvaldsskipulagið og hvort er öðru háð. Auðvaldsskipulag án kreppu er óhugsandi. Fjármálakreppa er bein afleiðing af upphleðslu auðmagns og af lögmálinu um lækkandi gróðahlutfall þess. Eina leiðin út úr kreppunni er leiðin sem liggur út úr auðvaldsskipulaginu. Það er því rétt í sjálfu sér sem stjórnvitringurinn Geir H. Haarde sagði, að það ætti ekki að persónugera vandann. Vandinn er kerfið. Ef fjárglæframenn geta notað kerfið til að leika almenning grátt og hagnast á því sjálfir, þá munu þeir gera það. Þótt allir auðmenn landsins væru settir á bak við lás og slá, en kerfið látið standa óbreytt, þá yrðu til nýir auðmenn og ný kreppa. Þeir eiga að sæta ábyrgð, en það dugir ekki til. Ranglátt og heimskulegt efnahagskerfi á einfaldlega að afnema og setja í staðinn upp efnahagskerfi sem byggist á réttlæti og skynsemi.

Tuesday, February 23, 2010

Forsendur IceSave og völdin í landinu

Að undanförnu virðist ótrúlegasta fólk vera orðið að sérfræðingum í lagatæknilegum atriðum í kring um IceSave-hneykslið. Ég er ekki einn af þeim. Lagatæknileg atriði þykja mér ekki áhugaverð, þar sem þau eru ekki aðalatriði heldur aukaatriði. Umræðan er á villigötum þangað til hún fer að snúast um aðalatriði málsins, sem eru forsendurnar sem menn gefa sér. Það er ranglátt að íslensku almenningur borgi fyrir fjárglæfra bankaauðvaldsins. Vegna þess að það er ranglátt er það óásættanleg forsenda.

Ég get alveg unað við lagatæknilega fundna niðurstöðu sem sýknar íslenska alþýðu af svikum fjármálaauðvalds með íslenskt ríkisfang. En það í besta falli tvísýn leið. Þetta er nefnilega ekki spurning um lög, heldur um völd. Þetta er pólitísk spurning og hún er þessi: Hverjir fara með völdin í þessu þjóðfélagi? Svarið á ekki að þurfa að koma neinum á óvart: Fjármálaauðvaldið ræður ennþá ríkjum. Hagsmunir þess og hagsmunir almennings eru ósættanlegir og þegar öllu er á botninn hvolft verður annað hvort að víkja. Annað hvort fer drjúgur hluti þjóðarinnar á hausinn -- og þá verður allt vitlaust -- ellegar að fjármálafyrirtækin verða látin gjalda sjálf fyrir eigið sukk. Á meðan fjármálaauðvaldið ríkir, þá er farið eftir hagsmunum þess. Þá mun almenningur halda áfram að borga brúsann en sökudólgarnir sleppa tiltölulega vel.

Þjóðfélagið er stéttskipt og ríkjandi stefna er ávallt stefna ríkjandi stéttar. Að kalla ríkisstjórnina "vinstristjórn" er merkingarlaust, tómt orð á meðan fjármálaauðvaldið markar ennþá stefnuna. Af hverju heldur fólk að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Evrópusambandið séu inni í dæminu? Fyrst og fremst sem bakhjarlar fjármálaauðvaldsins. Stéttabaráttan á Íslandi í dag stendur öðru fremur milli skuldara og okurlánara. Okurlánararnir þekkja sína hagsmuni og skipuleggja sína baráttu vel. Það verða skuldararnir líka að gera.

Monday, February 22, 2010

Geðdeild, gyðingar og spilling

Grein Einars bróður, sem birtist í Fréttablaðinu í fyrradag, er nú komin á Eggina: Mælikvarði menningar heitir hún og fjallar um lokun deildarinnar okkar og, reyndar, geðheilbrigðismál almennt. Lesið hana.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Gyðingar í Malmö hrekjast burtu vegna ofsókna, segir Óli Tynes. Það er auðvitað rétt, sem hann hefur eftir borgarstjóranum Ilmar Reepalu, að gyðingaofsóknir séu "skiljanlegar" í ljósi þess hvernig Ísrael hegðar sér í nafni gyðinga, en það er óþolandi þegar menn gera ekki greinarmun á zíonisma og gyðingum sem slíkum og réttmætur and-zíonismi snýst upp í ranglátan and-semítisma. En það eru víst til fávitar í öllum hópum. AntiFa í Svíþjóð hafa einmitt stundum mætt á mótmæli gegn Ísrael, sem nýnasistar hafa boðað til, lamið nýnasistana og hrætt þá í burtu og komið í veg fyrir að þeir gætu blandað gyðingahatri saman við and-zíonisma, og síðan --þegar þeir eru flúnir burt -- hefur AntiFa haldið sín eigin mótmæli gegn Ísrael, og þá á eðlilegum forsendum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Finnur einhver lykt af spillingu þegar Sveinbjörnsson segir flatar afskriftir vera "óraunhæfar"? En það bull. Óraunhæft fyrir hvern? Hvers vegna eru afskriftir fyrir stórfyrirtæki í lagi en ekki fyrir heimili? Hér er mergur málsins: Tilvistarskilyrði fjármálaauðvaldsins og tilvistarskilyrði fólksins í landinu eru komið í ósættandi mótsögn sem harðnar bara og harðnar. Auðvitað vill fjármálaauðvaldið ekki gefa neitt eftir sisona. En það mun gera það á endanum, þótt það kosti baráttu. Þá væri víst strategískt viturlegra að gefa strax eftir óverjanleg vígi, og vona það besta. En nei, þrjóskan og eigingirnin vega þyngra. Eitt mikilvægasta verkefni okkar tíma er að sigrast á fjármálaauðvaldinu.

Sunday, February 21, 2010

Nýtt Ísland: Höldum þessu til haga

Nýtt Ísland fer mikinn þessa dagana. Sífellt fleiri átta sig á furðulegu eðli þeirra, sem virðist vera í ætt við einhverja tegund fasismans. Eða, ég veit ekki hvernig öðru vísi er hægt að skilja þeirra eigin skrif. Þeirra eigin heimasíða er reyndar síbreytileg, þeir virðast breyta henni eftir því sem fleiri gera athugasemdir við innihaldið, sbr. þegar þeir breyttu orðunum "Við erum hægrisinnaður félagsskapur..." í "Við erum hægri og vinstri sinnaður félagsskapur...". Er til betra dæmi um hentistefnu?
En það er best að halda til haga tilvitnunum "úr samþykkt NÍ", sem hafa verið teknar af heimasíðu þeirra:

"* Regluverkið verði tekið til mikillar endurskoðunar. Smá sem stór brot verði skilgreind í hertari refsiramma þar sem það á við. Harðari og skilgreindari refsirammi smá sem stórra afbrota, veiti refsingu við hæfi, þannig verður lög og regla framfylgt betur í siðuðu þjóðfélagi. Lög og reglur nái yfir alla á Íslandi, líka stjórnmálamenn.
* Dreifingu og innflutningi fíkniefna og glæpasatarfsemi verði lýst stríð á hendur. Lögin skilgreind betur og harðari refsingar e áður þekkist. Lýðreglu verði komið á ásamt sérstakri lögreglu sem vinnur í lí nafnleysi manna að því að útrýma almennri glæpastarfsemi á Íslandi. [...]
* Fangelsi gerð rammgirtari og fleiri fangelsi byggð. Skylduvinna og ábótakerfi fyrir fanga verði komið upp við afplánun."


Svo er hér annar moli sem best er að týnist ekki:
"Samstarfshópur NÍ og austurríska JRDE í Vínarborg skilar fljótlega af sér skýrslu um ágæti svokallaðar Lýðreglu fyrir hag hins almenna borgara."

Hvað er þetta dularfulla "JRDE"? Ég hef leitað með Gúgli og ekkert fundið, og þekkir hr. Gúgl þó marga. Er "lýðregla" kannski íslensk þýðing á þýska orðinu Freikorps?

Tuesday, February 16, 2010

Það er aldrei....

"Það er aldrei sem mér líður eins vel," sagði karlinn, "og þegar ég hef tekið svo mikið í nefið að ég þoli ekki við fyrir helvítis kvölum."
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Tveir heiðursmenn dæmdir í fangelsi fyrir að gera sitt til að hindra að maður sé sendur út í dauðann. Hvað er hægt að segja? Fáránlegur og ranglátur dómur en kannski í fullu samræmi við fáránlegt og ranglátt kerfi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hvernig er það, geta menn ekki sammælst um að lýðræði í lífeyrissjóðum sé vond hugmynd?

Friday, February 12, 2010

Tólfti febrúar

Eldey tók upp á því í fyrrakvöld, að ganga óstudd í fyrsta sinn, nokkur skref.
Lítil skref fyrir eina manneskju, en risastökk fyrir mannkyn.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Eigendur niðursetningafyrirtækja skulu njóta trausts, segir RÚV. Trausts hverra? Jóhannes í Bónus og Ólafur í Samskip njóta ekki míns trausts, svo mikið er víst.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Sjálfstæðisflokkurinn mælist stór. Er það ekki sikk?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þórður birtir tíunda hluta, og síðasta að sinni, af æsilegri frásögn sinni af miður ánægjulegum samskiptum við Guðmund Hjörvar Jónsson, lögregluþjón í Borgarnesi. Mæli með þessari lesningu þótt löng sé.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Hringhenda sem ég orti á dögunum:

Setur hryggð að okkur oft,
auðvald tryggðir seldi.
Höldum dygðum hátt á loft:
Hamri, sigð og eldi.

Saturday, February 6, 2010

Styrkjum félagsþjónustuna

Það birtist grein eftir mig á Smugunni í gær: Styrkjum félagsþjónustuna. Lesið hana! (Hún birtist reyndar líka á Egginni í morgun; þið megið alveg lesa hana þar líka ef þið viljið...)

Hringhenda

Þessi fæddist í gærvköldi:

Ljótur blettur á oss er,
illsku-grettur Sjóður.
Alþjóð flettir fé og mer,
fáum léttir róður.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Ef einhver er búinn að gleyma hvað er að gerast hjá VG í Reykjavík, þá skal ég minna ykkur á það:

Gerum hreint um borg og bý,
í bláa spyrnum fæti:
Kjósið Véstein annað í
eða þriðja sæti!

Friday, February 5, 2010

Lítil vísa eftir sjálfan mig

Þegar ég lít á þjóðarhag
þannig flétta ég óðinn:
Nú skal höggva, nú er lag,
niður með Gjaldeyrissjóðinn!

Thursday, February 4, 2010

AGS er innheimtustofnun

Tilgangurinn með veru AGS á Íslandi er ekki að hjálpa íslenskum almenningi með því að bæta þjóðfélagið. Tilgangurinn er að innheimta skuldir, að "ráðleggja" ríkinu um hvernig það eigi að fara að því að bera drápsklyfjarnar. Meðölin: Skera niður útgjöld til félagslegrar þjónustu; opna landið fyrir "erlendri fjárfestingu" alþjóðlegs fjármálaauðvalds; selja eignir hins opinbera, þar með taldar auðlindir. Með öðrum orðum, gefa í í áframhaldandi frjálshyggjustefnu.

"Hugsið ykkur hvað væri gaman," sagði Hannes Hólmsteinn um árið, "ef við gæfum bara í." Þeir sem hafa gaman af að gefa í í frjálshyggjuvæðingunni ættu að vera ánægðir með Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Stúdentapólitíkin og ég

Ekki nenni ég að blanda mér inn í stúdentapólitík núna, mörgum árum eftir að ég kláraði sjálfur, en úr því að Óli Gneisti skrifar um hana langar mig að gera það líka.

Einn góðan veðurdag fyrir nokkrum árum, þegar ég var kominn heim úr skólanum, var hringt í mig frá Vöku. Þar var á ferðinni gamall bekkjarbróðir sem skoraði á mig að fara nú og kjósa Vöku. Til þess valdi hann vanhugsuð orð. Nógu vanhugsuð til þess að reka mig á lappir og arka út í Árnagarð aftur til þess að kjósa Röskvu. Ekki semsé vegna þess að ég hefði einhvern áhuga á Röskvu, heldur vegna þess að Vaka styggði mig.

Ég var ekki lengi að hugsa mig um þegar mér var boðið að vera með í að stofna Háskólalistann einu eða tveim árum seinna. Þegar ég fór að kynna mér hvernig þetta leit út, blasti við hvað stúdentapólitíkin á Íslandi er hallærisleg og bjánaleg, en það sem verra er: grunnrist. Það eina sem ég sá áhugavert við hana var að leggja til atlögu við hana sem slíka með það fyrir augunum að brjóta upp sandkassakerfi aukaatriðanna. Það var líka tilgangurinn með stofnun Háskólalistans, og gekk í sjálfu sér ágætlega á tímabili, þótt ekki ynnist fullur sigur. Ég tók rétt nógu mikinn þátt í listanum til þess að geta verið stoltur af að hafa verið með.

Stúdentapólitík hentar mjög vel fyrir grínframboð. Ég tók þátt í einu slíku, Alþýðulistanum. Þar hélt ég fram harðlínu and-endurskoðunarstefnu á einum málfundi fyrir erlenda stúdenta. Það var gaman. Gaman að snúa út úr og fíflast. Svo sneri ég við blaðinu, fór aftur að styðja H-lista opinberlega og lýsti í leiðinni frati á Alþýðulistann og að hann hefði nú að fullu gengið til liðs við auðvaldið og væri orðinn þess helsti þjónn.

Núna býður Skrökva fram í kosningum. Eins og Óli Gneisti, þá mundi ég kjósa hana ef ég gæti. Á meðan stúdentapólitíkin er of innihaldslaus til þess að fólk nenni að kjósa í kosningunum, hvað þá annað, þá eru grínframboðin ágæt ástæða til að mæta.

Bjarni og sakleysið

Ég horfði á Bjarna Benediktsson útskýra sakleysi sitt í þessu Vafnings-máli í Kastljósi í gærkveldi. Nú hef ég ekki forsendur til að meta málið sjálft, en mér finnst það ekki skipta höfuðmáli. Aðalatriðið í orsökum kreppunnar er ekki hvort menn hafi brotið reglurnar eða ekki, heldur að reglurnar voru meingallaðar til að byrja með. Fjármálakerfi getur ekki vaxið endalaust. Síst ef það er byggt á skuldum. Okurlánastarfsemi er afleit undirstaða fyrir þjóðfélag. Kreppan er skilgetið afkvæmi auðvaldsskipulagsins sjálfs, kapítalismans. Hún er innbyggð í hann og kapítalismi án reglulegrar kreppu er ekki til. Sá sem vill í alvörunni fara út úr kreppunni á að stefna út úr kapítalismanum.

Wednesday, February 3, 2010

„Eru að missa þolinmæðina“

Ég hef ekki farið dult með gagnrýni mína á stefnu núverandi ríkisstjórnar Íslands í flestum meiriháttar málum. Ég sækist ekki eftir því að hún falli, af þeirri einföldu en augljósu ástæðu að ef hún félli, þá tæki verra við. Nú þykjast forystumenn stjórnarandstöðunnar vera að missa þolinmæðina. Ekkert nýtt þar á ferð, en jæja, hér er þá frétt af mér sjálfum: Ég er að missa þolinmæðina gagnvart stjórnarandstöðunni. Látum Hreyfinguna liggja milli hluta, en Sjálfstæðisflokkur og Framsókn hafa spilað sína stjórnarandstöðu af svo makalausri tækifærisstefnu að ég get ekki einu sinni hlegið að því. Ímyndar einhver sér að Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson muni leysa betur úr vandamálum landsins? Ímyndar einhver sér að þeir muni slíðra niðurskurðarhnífinn? Eða standa fastar í lappirnar gegn Alþjóðagjaldeyrissjóðnum?

Það er margt í íslenskum stjórnmálum sem ég get reytt hár mitt yfir. Eitt af því sem ergir mig mest að hvað stjórnarandstaðan er lufsuleg og ótrúverðug. Já, og að Sjálfstæðisflokkurinn skuli sækja í sig veðrið í skoðanakönnunum.

Díses kræst, þetta eru sjálf öflin sem leiddu okkur út í svaðið!

Monday, February 1, 2010