Monday, April 22, 2013

Stolt og rísandi vinstristefna

Inga Sigrún Atladóttir skrifar afsökunarbeiðni vegna þess sem miður hefur farið hjá Vinstri-grænum á kjörtímabilinu. Margt er gott í þessum pistli og sumt stendur mér það nærri, sem fyrrverandi félaga í VG, að mér þykir rétt að bregðast við. Inga segir t.d. réttilega að talsmenn vinstristefnu virðist hafa misst sjálfstraustið eftir langvarandi áróður hægriaflanna. Það er út af fyrir sig rétt – en það sem verra er, þá hafa þeir líka bæði misst áttanna, og traustið á fólkinu.

Sá sem hefur skýra vinstrisinnaða sýn, sér að höfuðmeinsemdir þjóðfélagsins hverfast meira og minna í kring um þá staðreynd að hér ræður fámenn yfirstétt ríkjum og arðrænir hina. Í öðru lagi að eina aflið sem getur staðið gegn valdi auðstéttarinnar er samtakamáttur fólksins – og þá því aðeins að hann sé skipulagður og honum sé beint gegn forréttindum valdastéttarinnar. Þessi skilningur einkennir ekki stefnu eða forystu Vinstri-grænna, fremur en annarra krataflokka, hvorki fyrir né eftir formannaskiptin.

Það er ekki nema eðlilegt að forysta flokks, sem stendur í stappi en skilur hvorki hvaða markmiðum hún ætti að berjast fyrir, né með hvaða tækjum, missi sjálfstraustið.

Einhver kynni að spyrja hvað sé þá eiginlega eftir?

Nokkuð annað en þvæld síð-endurskoðunarstefna, í bland við þá speki Tryggva Þórhallssonar* að allt sé betra en íhaldið?

VG hefur sýnt stefnu sína í verki. Það er stefnan um að laga sig að kröfum Samfylkingarinnar, þó það kosti ESB-aðild. Laga sig að kröfum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Laga sig að kröfum fjármálaauðvaldsins og endurreisa gálgana. Laga sig að kröfum kvótaauðvaldsins og fresta afnámi kvótakerfisins þangað til það kemst í öruggt skjól næstu hægristjórnar. Boða sæstreng til Evrópu. Banna verkfall og ríghalda í punginn í kjarasamningum við opinbera starfsmenn. Stefna sem hlýtur að valda vinstrimönnum bæði vonbrigðum og álitshnekki.

Í afsökunarpistli Ingu Sigrúnar nefnir hún að það hafi „ekki verið byggt upp fjármálakerfi á grunni sameignar í anda vinstrimanna“ – það eru orð að sönnu. Ég man ekki á hve mörgum flokksráðsfundum voru fluttar ályktunartillögur, m.a. af mér sjálfum og Þorvaldi Þorvaldssyni, um félagsvæðingu fjármálakerfisins, og ýmist felldar jafnharðan eða vísað frá – að ógleymdum báðum landsfundunum sem ég sat, og mörgum fundum sem ég sat ekki. Ástæðan blasir auðvitað við: Flokkurinn er bara hægrisinnaðri heldur en hann vill sjálfur kannast við, því miður. En verkin tala sínu máli og fáir sem láta plata sig aftur.

Einhver spurði áðan hvað væri eftir. Vinstristefnan er eftir, þótt VG hafi yfirgefið hana.

Kallið mig spámann, en ég bar aldrei miklar vonir til ríkisstjórnarinnar sem nú er að fara frá. Að vísu nógu miklar til að verða dálítið vonsvikinn – en aðallega nógu litlar til að segja bless við flokkinn í tæka tíð til að stofna nýjan, í félagi við fleiri vinstrimenn sem vilja ekki bara kalla sig vinstrimenn heldur fylgja og stunda vinstristefnu.

Alþýðufylkingin er komin fram á sjónarsviðið, komin til að vera og er opin fyrir hverjum þeim sem eru sammála stuttri og skýrri stefnuskrá okkar: Við stöndum fyrir fullveldi, jöfnuð og fyrir félagsvæðingu fjármálakerfisins og annarra innviða samfélagsins. Vinstrimenn eru boðnir sérstaklega velkomnir, til að taka loksins þátt í uppbyggingu flokks sem er á forsendum vinstrimanna og í anda vinstrimanna.

* Mishermi leiðrétt 21. júlí 2013.

Wednesday, April 17, 2013

Félagsvæðing fjármálastarfseminnar

Nýlegt erindi Þorvalds Þorvaldssonar, Félagsvæðing fjármálastarfseminnar, birtist á vefsíðu Alþýðufylkingarinnar í gær. Ég mæli með því að lesa það, það skýrir vel hvað átt er við með hugmyndinni, hvað felst í henni og hvað hún ætti að leiða af sér.

Tuesday, April 9, 2013

Hvað er þessi félagsvæðing sem allir eru að tala um?

Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar og oddviti í Reykjavíkurkjördæmi norður, heldur framsögu um félagsvæðingu í kvöld, þriðjukvöldið 9. apríl kl. 20:00, í kosningamiðstöð Alþýðufylkingarinnar að Hverfisgötu 82: Hvað er félagsvæðing? Út á hvað gengur hún? Af hverju er hún lykillinn að farsælli efnahagsstefnu fyrir Ísland? Hver græðir á henni og hver tapar á henni? Þessum spurningum og fleirum verður svarað í framsögunni.
Einnig má benda fólki á að lesa Félagsvæðingu fjármálastarfseminnar.