Friday, March 31, 2006

Enn af Jótlandspóstinum

27 íslömsk trúfélög höfða mál gegn Jótlandspóstinum. Gott hjá þeim. Í þessu JP-máli kristallast óþolandi mótsögn: Annars vegar eru rasistar og fasistar sem vilja sveipa sjálfa sig skykkju málfrelsis og frelsis til að guðlasta, en hins vegar eru afturhaldssamir klerkar sem fylkja fórnarlömbum margra kynslóða af heimsvaldastefnu á bak við sig. Hinir ráðandi eru afturhaldssamir og hinir kúguðu hafa afturhaldssama forystu. Menn eins og ég erum milli steins og sleggju.
Við fyrstu sýn. Þegar nánar er að gáð er kannski ekki svo erfitt að finna hverja ber að styðja og hverja ekki. Það ber í öllu falli ekki að styðja þá sem eru herskáir og blóðþyrstir - og heldur ekki þá sem vilja misbeita frelsi og réttindum til þess að móðga aðra eða særa og espa þá þannig upp til að auðveldara verði að réttlæta valdbeitingu gegn þeim. Þegar tvær fyrlkingar takast á og báðar berjast fyrir málstað afturhalds, fasisma eða heimsvaldastefnu - þá ætti maður einfaldlega að vera á móti báðum. Vera bæði á móti Jótladspóstinum og klerkunum.
Held ég. Það má auðvitað segja á móti að hver hópur hefur rétt til að velja sér forystu sjálfur, og það væri hrokafullt af mér að þykjast vera í stöðu til að velja forystu fyrir hópa sem ég tilheyri ekki einu sinni sjálfur - en á hinn bóginn væri það líklega mun verra að styðja eitthvað lið sem ég er viss um að hefur á röngu að standa eða sem ég veit að mun bregðast eða láta illt af sér leiða - en í besta falli beina þjóðfélagsátökum í farveg afturhalds og gagnsleysis.
Í þessu máli er annars einu ósvarað: Er Flemming Rose allur þar sem hann er séður? Lesið þetta og/eða þetta og veltið því fyrir ykkur.

Wednesday, March 29, 2006

Fréttnæmt

Í gær var grein eftir mig á Egginni: „Írak í dag í ljósi stéttabaráttunnar“.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Bandarískur málaliði gómaður með sprengiefni í Tikrit, Írak.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Evo Morales býður George Bush í heimsókn til Bólivíu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er svei mér gott til þess að vita að FBI skuli fylgjast með vinstrimönnum sem boða frið og fleira hættulegt.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Til að rifja upp: John Negroponte, dauðasveitir í El Salvador; dauðasveitir í Írak?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Abid Ullah Jan skrifar um nasista tíunda áratugarins sem í þetta skipti eru ekki þýskir.

Tuesday, March 28, 2006

Tvöfalt áfall, einfaldur léttir

Ég fór út að skemmta mér á föstudagskvöld og á laugardagskvöld. Bæði kvöldin voru skemmtileg, en sitthvort áfallið skyggði á þau.

Á föstudagskvöld týndi ég fínu, nýju pípunni minni. Hún hefur annaðhvort týnst á Grettisgötu milli Snorrabrautar og Rauðarárstígs, eða þá á Rauðarárstíg milli Grettisgötu og Laugavegar, eða þá á Laugavegi milli Rauðarárstígs og Snorrabrautar. Ef einhver hefur fundið hana yrði ég mjög feginn því að fá hana aftur í hendur (og munnvik). Satt að segja er ég samt ekki svo bjartsýnn á það.

Á laugardagskvöldið henti mig öllu þungbærara áfall: Ég týndi vasabókinni minni. Fyrir vasabókarfíkil er þetta hrein og bein katastrófa. Það er hægt að kaupa nýja pípu, nýja kveikjara, fá nýjan síma eða veski eða lykla -- allt þetta er afturkræft -- en vasabók geymir hugsanir, minningar, upplýsingar, sem aðeins að litlu leyti er hægt að draga saman upp á nýtt. Að vísu var það lán í óláni að það er tiltölulega stutt síðan hún var tekin í notkun, svo að glataðar upplýsingar námu ekki nema viku af ævi minni.

Ég leitaði töluvert að pípunni en var fljótur að sjá að það væri til lítils. Öllu örvæntingarfyllri leit gerði ég að vasabókinni. Hún var að vísu merkt, svo að ég var heldur vonbetri um að endurheimta hana heldur en pípuna, sem var auðvitað ómerkt. (Hver merkir annars pípu? Ég, næst þegar ég kaupi nýja!) Ég hringdi í veislusalinn sem ég var í um kvöldið. Ekki fannst hún þar. Hringdi í leigubílastöðina, þaðan sem leigubíllinn kom sem keyrði okkur niður í bæ. Ekki fannst hún þar. Ég fór á knæpuna sem við fórum á, ekki var hún þar.

Vegna þess að bókin var merkt var ég í sjálfu sér ekki úrkula vonar. Samt grúfði yfir mér þrumuský allan sunnudaginn og allan mánudaginn, enda leið mér eins og ég væri nakinn, á sama hátt og kúrekanum sem vantar byssubeltið sitt. Þungur á brún bjó ég mig undir að fara á næturvakt, það var í gærkvöldi. Ég tók saman eitthvað af dóti til að hafa með mér. Blöð, rauðan kúlupenna og þess háttar. Það rifjaðist upp fyrir mér að ég ætlaði að skila DVD sem ég var með í láni. Fór og leitaði að honum en án árangurs. Sú leit bar mig hins vegar að tveim skýrslum sem ég ætlaði mér að lesa, og ég tók þær til handargagns.

Undir þeim lá vasabókin og beið þolinmóð eftir mér.

En þeir fagnaðarfundir! Þvílíkur léttir!

Monday, March 27, 2006

Valdarán, lygar, morðhótanir ...

Stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi halda áfram að bæla niður andóf gegn sér. Ansi er ég hræddur um að þessi Kozulin sé að afhjúpa eitthvað sem eigi sér stoð í raunveruleikanum: „Fullyrt er í yfirlýsingu skrifstofu Kozulins, að Milinkevits sé raggeit, og búi ekki yfir pólitískum styrk, þrátt fyrir næga peninga, kynningu og stuðning frá Evrópu og Bandaríkjunum.“ Minnir á marga sem á undan hafa gengið; Walesa, Havel, Saakashvili, Drascovic og auðvitað Jústsénkó.
Þetta er ein tegund af heimsvaldastefnu: Ef það er ríki þar sem samneysla er mikil, olnbogarými fyrir erlent kapítal lítið og yfirvöld stjórnlynd, þá er hægt að æsa til uppreisna og grafa undan gömlu valdaklíkunni, og á sama tíma styðja nýja valdaklíku til að fylla upp í valdatómið sem skapast.
Lesið greinarstúf Vilhelms Vilhelmssonar um þetta á Egginni í dag.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þann 20. mars birtist fréttatilkynning á heimasíðu ALCOA á Íslandi: „Alcoa framleiðir ekki hergögn“ þar sem fyrirtækið ber af sér sakirnar sem Andri Snær Magnason bar á það, að það væri hergagnaframleiðandi. Í fréttatilkynningunni er vísað í frétt á hinni bandarísku heimasíðu ALCOA: „Alcoa Awarded Contract to Produce Aluminum Castings for Tactical Tomahawk Missile Program“ -- frá 1. desember síðastliðnum. Lesið þá frétt með eigin augum. Er ALCOA hergagnaframleiðandi eða er það ekki hergagnaframleiðandi?
Alcoa (NYSE:AA) announced today that its Alcoa Forged Products and Aluminum Castings business has signed a five-year contract with Klune Industries, a supplier of finish-machined parts to prime contractor Raytheon, to manufacture high-strength aluminum structural castings for the U. S. Navy's Tactical Tomahawk missile.
(Rétt er að taka fram að Jón Frímann skrifaði um þetta á undan mér.)
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Skoðanakönnun gefur sterklega til kynna hvað almenningi finnst um Baugsmálið: Hér um bil það sama og mér. Í Baugsmálinu birtist með skýrum hætti hvernig nýr straumur valdastéttarinnar olnbogar eldri straumi valdastéttarinnar frá og þessi átök taka gjarnan á sig pólitíska mynd. Þegar skrifuð verður bók um stéttabaráttuna á Íslandi, þá held ég að þarna sé kominn góður kandídat fyrir sýnidæmi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég hef nokkrum sinnum vísað í greinar eftir þann góða ísraelska friðarsinna, rithöfund og aktívista Uri Avnery. Baruch Marzel heitir maður, leiðtogi ísraelska öfga-hægriflokksins National Jewish Front, og á dögunum hvatti hann til þess að ísraelski herinn dræpi Avnery. Marzel þessi er öfgamaður en hann getur tæplega talist á jaðri ísraelska stjórnmála. Orð þessa fúlmennis ná eyrum óhugnanlegs fjölda heilaþveginna bókstafstrúarmanna. Óábyrg orð geta dregið dilk á eftir sér. Þennan dilk ætti að draga inn á réttargeðdeild.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Talandi um óábyrg orð, þá er nokkuð athyglisvert að fylgjast með hörðum viðbrögðum ráðamanna við neikvæðum ummælum erlendra banka um íslenska hagkerfið. Þegar (...ég segi ekki ef...) spilaborgin hrynur, þá er þarna kominn syndabukkur sem hægrimenn munu benda fingri á. Erlendu bankarnir og Vinstri-grænir já, þeim verður kennt um að hafa kjaftað niður góðærið.
Í alvöru talað, er ekki eitthvað bogið við þetta orsakarsamhengi? Banki lýsir áhyggjum af tilteknu efnahagskerfi meðan hjól þess snúast á fullu. Það fer að ískra í hjólunum og ganga verr; bankinn hlaut að valda erfiðleikunum með bölsýni sinni. Í alvöru talað, jæja, væntingar geta haft sín áhrif á markaði og þannig, en er í alvöru ætlast til þess að maður kaupi þetta?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ulrich Rippert skrifar um frönsku uppreisnirnar í maí/júní 1968 og í mars 2006 og ber saman. Býsna fróðleg skrif.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Mahmoud Abbas heldur áfram að afhjúpa hverjum hann þjónar. Sama gamla sagan, einn fanginn í fangelsinu er settur yfir hina. Hamas hafa fyrir löngu gengið eins langt og þeim er stætt á að gera. Ef það er einhver, sem ætti að krefja um viðurkenningu og vopnahlé, þá er það Ísrael.

Tuesday, March 21, 2006

Meira um Lúkasénkó

BNA viðurkenna ekki kosningarnar í Hvíta-Rússlandi og þeim er mótmælt ákaflega í Minsk (kosningunum, þ.e.a.s.). Ætli Lúkasénkó hafi viðurkennt kosningarnar í Bandaríkjunum? Mig grunar, eins og fleiri, að í uppsiglingu sé svipaður farsi og í Úkraínu, Georgíu og víðar. Tvennt ólíkt: Valdaræningjarnir í Freedom House hafa ekki fengið að athafna sig í Hvíta-Rússlandi og Lúkasénkó er vinsæll í alvörunni, enda gengur efnahagskerfi landsins furðulega vel, skilst mér. Ætli öryggislögreglan láti vaða með ofbeldi gegn mótmælendunum? Það er bara eitt sem ég skil ekki: Fyrst Lúkasénkó er svona vinsæll, af hverju ætti hann þá að svindla í kosningum? Hann fékk nálægt 90% atkvæða -- en hefðu 60% eða 70% eki dugað honum?

Monday, March 20, 2006

Lúkasénkó, 1. maí o.fl.

Í Frakklandi færast mótmælendur í aukana. Pólitísk glöp hægristjórnarinnar taka engan endi, stéttamótsetningar fara vaxandi. Nú er bara að krossa fingur, að pólitískur þroski og stéttarvitund Frakka reynist duga til þess að nýta þennan öldutopp -- eða næsta -- til virkilegra framsækinna breytinga. WSWS skrifa um málið.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Milesovic hefur verið jarðaður. Ég vil af því tilefni ítreka ábendingu mína á grein Jóns Karls Stefánssonar, „Ótrúlegar rangfærslur íslenskra fréttastofa“, sem fjallar einmitt um Milesovic og hvernig hann var hafður fyrir rangri sök, syndabukkur fyrir vestræna heimsvaldastefnu í Júgóslavíu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Guðmundur Gunnarsson áréttar ummæli sín frá því í fyrra, að hann og Rafiðnaðarsambandið telji að leggja beri af kröfugöngur á 1. maí. Ég tjáði mig nú um þá hryggðarmynd sem 1. maí í fyrra var. Þar voru fulltrúar flestra verkalýðs- og mannréttindafélaga, en verkalýðurinn sjálfur var varla sýnilegur. Ef valið stendur milli þess að hafa svona skrípamynd, eða pulsupartí í Laugardalnum, þá er valið ekki erfitt fyrir mig.
Kröfuganga er til þess hugsuð að hreyfing sýni mátt sinn. 1. maí í fyrra gaf frekar til kynna máttleysi íslensks verkalýðs -- ef við þá viljum styðjast við þann mælikvarða. Ég vil það reyndar ekki. Kröfugöngur eru kannski bara ekki rétta tækið fyrir nútímann. Verkalýð nútímans skortir kannski stéttarvitund, en mátt skortir hann ekki. Kannski vill hann bara tjá vilja sinn með öðrum hætti. Og nei, pulsupartí er tæplega leiðin sem rétt er að fara.
Mótmælin á laugardaginn voru kannski vísbending í sömu átt. Mér skilst að salur 1 í Háskólabíói hafi verið fullur -- sem er gott -- en tölur af útifundinum á Ingólfstorgi eru heldur dapurlegri. Kringum 800-1000 manns, má skilja af Samtökum herstöðvaandstæðinga; 300 manns segir Rúv, (og sýnist mér að SHA séu nær lagi). Engu að síður, miðað við að 80-90% þjóðarinnar eiga að vera á móti þessu stríði, hvar er þá fólkið?
Það er greinilegt að þessa taktík þarf að hugsa upp á nýtt.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Maóistar í Nepal leyfa birgðaflutninga til Kathmandú. Þeir eru þá ekki meiri illmenni en það.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Lúkasénkó sigrar með yfirburðum sem koma víst fáum á óvart. Það skrítna við hann er, að hann ku vera vinsæll í alvörunni. Hvað sem stjórnarháttum hans líður, þá hefur hann einn ótvíræðan kost (sem gæti átt þátt í vinsældum hans), sem fleiri stjórnmálamenn mættu tileinka sér: Hann talar enga tæpitungu. Kallar Bush hryðjuverkamann, t.d., og segist munu hálsbrjóta mótmælendur og að þjóð sín sé ekki „tilbúin“ fyrir lýðræði.
Alexander Lúkasénkó gerir það sem Bush og Blair dreymir um að gera og er það sem þá dreymir um að vera. Ekki nóg með stjórnarskrárbreytingar til að opna sjálfum sér áframhaldandi setu við völd, ekki nóg með að setja harðsoðnustu „öryggis“-löggjöf í Evrópu, ekki nóg með að beita hvers kyns lúabrögðum, baktjaldamakki og fautaskap, heldur er hann auk þess ófeiminn við beinar hótanir. Hann þorir að kalla friðsama mótmælendur „hryðjuverkamenn“ og að hóta því að þeir verði hálsbrotnir. Ég er viss um að Bush dreymir blauta drauma þar sem hann er Lúkasénkó.
Ef það er rétt, sem sagt er, að hann sé mjög vinsæll í þokkabót (margt skrítnara hefur skeð í mannkynssögunni; efnahagurinn er a.m.k. býsna góður), þá held ég að hann hafi þetta bara. Vinsæll harðstjóri, hver getur beðið um meira?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Lavrov segist telja að Hamas viðurkenni brátt Ísraelsríki. Hann fylgist greinilega ekki með: Hamas hafa nú þegar viðurkennt Ísraelsríki de facto með því að taka þátt í kosningum sem byggja á Oslóarsamkomulaginu! Hvað er það annað en de facto viðurkenning að gera það, þegar samkomulegið var milli PLO og Ísraelsríkis? Hvernig sem fer, þá býst ég frekar við því að það færi málið í heild sinni framávið, að Hamas hafa nú afhent Abbas ráðherralista. Niðurstaðan gæti orðið sú að heimastjórnin verði afskrifuð. Þá færist ábyrgðin á hernáminu þangað sem hún á heima, til Ísraela, og eitt rangt skref verður tekið aftur. Í öllu falli verður fróðlegt að fylgjast með framvindunni.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Kristinn H. Gunnarsson spáir fögru um að Framsóknarflokkurinn sé að verða „að jaðarflokki með lítil áhrif í íslenskum stjórnmálum á næstu árum.“ (orð blaðamanns Vísis). Vel ef satt reynist. Það er ótrúlegt hvað þetta flokksræksni hefur troðið sér og sínum spilltu peðum hvarvetna að, þar sem bitlinga er að hafa, gjörsamlega úr hlutfalli við fylgi meðal þjóðarinnar. Það er aum tilvera fyrir einn flokk, þegar hann hefur það sér helst til ágætis að einhvers staðar verði vondir að vera.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þess bók ætla ég að kaupa við fyrsta tækifæri.

Friday, March 17, 2006

Úr fréttum + fl.

Jón Karl Stefánsson skrifar um ótímabæran dauða Slobodans Milesovic: „Ótrúlegar rangfærslur íslenskra fréttastofa“ -- þessa grein hvet ég fólk til að lesa!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ráðherra kvaðst ekki vilja ræða Baugsmálið.“ Hah! Ég er ekki hissa á því. Skemmtilega hreinskilið svar, samt.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Sigurður Hólm skrifar um herinn.
Valur Ingimundarson gerir slíkt hið sama, og mælir, eins og oft áður, af viti.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Gríðarlegar loftárásir nærri Samarra í Írak. 50 flugvélar og þyrlur geta borið ansi margar sprengjur og drepið ansi margt fólk. 50 flugvélar! Hvað réttlætir svona hroðalega árás?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hér getur að líta opið bréf til Hugo Chavez frá Bandaríkjamanninum Harry Minetree.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Bandarískur fulltrúadeildarþingmaður, Mack að nafni (R-FL), lagði fram tillögu gegn Venezuela hjá „Subcommittee on Western Hemisphere Affairs in the House Committee on International Relations“ -- og bandarískir vinir venezúelsku þjóðarinnar skrifuðu þingmönnum sínum yfir 10.000 bréf, á aðeins nokkrum klukkustundum, til að mótmæla tillögunni (sem átti að heimila Bandaríkjastjórn aukna íhlutun í málefni Venezuela). Árangurinn varð sá að Mack og félagar hans drógu tillöguna til baka áður en kosið var um hana, vissir um að hún yrði ekki samþykkt. Það voru ANSWER-menn sem m.a. stóðu að mótmælunum, og þar á bæ eru menn að vonum ánægðir með árangurinn: „The People Defeated the anti-Venezuela Mack Resolution! ... Everyone who participated should feel proud. We must intensify our solidarity with the majority of people in Venezuela -- the 80% who live in poverty -- who are mobilizing a many-sided campaign for social, economic and political justice. ... This is a congratulations to all for your participation in this campaign.“ (Þessi texti er úr bréfi (dags. 16. mars) á póstlista ANSWER, en ég hef ekki fundið bréfið á netinu.)
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hægristjórn Rasmussens ver próvókatífar myndbirtingar Jótlandspóstsins (sem ég á eftir að skrifa meira um) en handtekur hins vegar fólk úr Vinstri-Sósíalistaflokknum fyrir að styðja FARC og PFLP. Hræsni? Helmut Arens skrifar um málið.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Evan Derkacz tekur fyrir og hrekur það bull sem margir hægrimenn hafa undanfarið lapið hver upp eftir öðrum, að Hugo Chavez sé gyðingahatari, allt að því nasisti. Það er auðvelt að misskilja (viljandi?) menn þegar orð þeirra eru (viljandi?) tekin úr samhengi! Það er líka auðvelt að bíta í sig vitleysu þegar menn gleypa órökstuddar dylgjur hráar og kynna sér málin ekki betur!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Norður-Kóreumenn áskilja sér rétt til „fyrirbyggjandi árásar“ á Suður-Kóreu, leppríki Bandaríkjanna, ef þeir telja sér ógnað. Ef þeir vildu gætu þeir vitnað í George Bush máli sínu til stuðnings. Samkvæmt honum á þetta víst að vera nýja normið í alþjóðlegum samskiptum. Er það ekki bara argasta afturhald að ætla sér að halda 350 ára gömul viðmið? Erum við, sem erum á móti árásarstríðum, ekki bara gamaldags? Ha? Svarið því nú helvítin ykkar!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í St. Bernard Parish á flóðasvæðunum í Louisiana eru menn að íhuga að setja hættulegt fordæmi: Ráða málaliða frá málaliðaleigunni DynCorp International sem „verktaka“ til að ganga í störf lögreglu. Hvað er eiginlega í gangi? Ekki nóg með að málaliðar séu óábyrgir og vafasamir, ekki nóg með að varasamt sé að blanda prívat gróða saman við nauðsynlega samfélagsþjónustu, heldur eru þeir meira að segja miklu dýrari starfskraftar heldur en venjulegir lögregluþjónar! Ég endurtek, hvað er eiginlega í gangi!?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Enn er tekist á í Frakklandi. Ég þarf að kynna mér nánar hvað er á seyði og hvað er í húfi.

Thursday, March 16, 2006

Af hernum og löngu tímabæru brotthvarfi hans + fleira

Þetta er vafalítið frétt vikunnar. Þegar hinar frábæru orrustuþotur eru flognar úr hreiðrinu, og þyrlurnar líka, hvað er því þá til fyrirstöðu að herinn taki upp síðustu hælana, pakki draslinu sínu af Heiðarfjalli niður og hypji sig heim til sín? Ekkert nema sleikjuskapur íslenskra stjórnvalda. Þetta er svo niðurlægjandi fyrir ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar að ég fæ gæsahúð. Bandaríkjastjórn afhjúpar um leið hvað hún er illa upp alin: Maður sparkar ekki í hundinn sinn.
Nú gæti verið hægur vandi að koma öryggis- og varnarmálum Íslands í betri farveg: Í landi sem á sér enga náttúrulega óvini og er hvort sem er svo gott sem óverjandi í hernaðarlegu tilliti þyrfti ekki meira en að kaupa nokkrar loftvarnabyssur og -sírenur og koma þeim fyrir í helstu bæjum landsins. Þá er kominn tími til að Íslendingar komi sér upp almennilegum björgunarþyrlum og einu eða tveim varðskipum. Úrsögn úr NATO er svo möst. Samningar við ríkin fimm sem hafa neitunarvald í Öryggisráði SÞ, um að þau ábyrgist í sameiningu hlutleysisstöðu Íslands, ætti svo að duga til að ímyndaðir innrásarmenn hugsuðu sig tvisvar um.
Annars kýs ég að líta svo á að Bandaríkjaher sé að hörfa og hafi gefist upp eftir áratugalangt viðnám íslenskra friðarsinna.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ísraelar rændu Ahmad Sa'adat, leiðtoga PFLP, úr fangelsi í Jeríkó, og Hamas segjast nú munu hefna þess með því að ræna ísraelskum hermönnum. PFLP heita vitaskuld líka hefndum. Er það skrítið? Er von að maður spyrji? Nú er spenna í Palestínu eins og kunnugt er. Ísraelar gátu varla fundið heppilegri tíma til að ögra Palestínumönnum. Það er svona sem vítahringurinn gengur fyrir sig. Olmert bætir fylgi Kadima -- til þess hefur leikurinn verið gerður -- og svo var bætt við einni árás á Jenín, eins og kirsuberi ofan á tertuna.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Illfyglið hagmælta segir frá nýlegri kurteisisheimsókn ungra umhverfisverndarsinna í bækistöðvar Illvirkjunar.

Herkví á Nepal og innanbúðarerjur meðal maóista

Madan Prasad Khanal skrifar um ástandið og segir að (a) Indverjar styðji sjöflokkana gegn kónginum, þótt þeir séu í samfloti við maóista, en (b) Bandaríkin hafi á tekið upp fullan stuðning við kónginn, gegn maóistunum, og reyni að beina sjöflokkunum til hans líka. Khanal skýrir m.a. frá viðræðum kóngsins við Donald Camp og sendiherrann Moriarty.
Á Kantipur er fjallað um, og farið nánar ofan í, gagnrýnina sem tveir miðstjórnarmenn CPN(M), Ravindra Shrestha og Mani Thapa (Anukul), settu fram gegn Prachanda og Baburam Bhattarai á dögunum. Gagnrýnendurnir hafa sett á laggirnar hóp sem þeir kalla „New Cultural Revolution Group“ og segjast vilja ræða gagnrýnina opinberlega, frekar en að umræðan fari fram innan flokksins. Þeir segja að yfirlýsingar Prachanda séu mótsagnakenndar (mér sýnist, í fljótu bragði, að það sé rangt hjá þeim), og að Prachanda og Bhattarai sigli stundum undir fölsku flaggi með því að kalla sig öðrum nöfnum (stundum Dr Keshar Jung Raimajhi, eða Lhendup Dorjee). Auk þess að þeir hafi gerst handgengnir Congressflokknum (sem ég leyfi mér að fullyrða að er ekki rétt hjá þeim) og hlífi sínum eigin fjölskyldum við beinni þátttöku í stríðinu. Þeir vilja að Prachanda undirgangist opinbera sjálfsgagnrýni.
Prachanda hefur rekið þá báða úr flokknum og kallaði þá „liðhlaupa úr byltingunni“ og „þjóna krúnuharðstjórnarinnar og gagnbyltingarinnar“. Auk þess sakaði hann þá um „anarkíska og ópólitíska starfsemi“ og fleira. Hann er ekki vanur að spara stóru orðin.
Það eru með öðrum orðum blikur á lofti. Byltingin er komin langt inn á strategískt stig „war of manuever“ og þarf nú á öllu sínu að halda. Árangursrík herkvíin er til marks um það, en rétt er að það komi fram, að Rauða krossinum og fleirum sem starfa að mannúðarmálum óbundnir af ríkisstjórninni er heimil för. Ríkisstjórn konungsins ritskoðar fréttir og bannar blaðamönnum að fjalla um áhrifin af herkvínni – til þess að folk eigi erfiðara með að átta sig á umfangi þeirra. Að öðru leyti lætur krúnan eins og það sé engin herkví. Í Nýju Delhi funda fulltrúar maóista (m.a. Baburam Bhattarai) og borgaralegu sjöflokkanna stíft á meðan.
Klofningur væri reiðarslag fyrir maóistana, og það væru svik æðstu leiðtoga líka. Lesendur mínir hafa tekið eftir því að Prachanda er í nokkrum metum hjá mér. Hitt verð ég að viðurkenna, að miðað við þær upplýsingar sem ég hef, þá hef ég ekki forsendur til að meta með vissu hverjir hafa rétt fyrir sér í þessari misklíð. Á meðan svo er fylgist ég átekta með, og blogga um gang mála og mat mitt á stöðunni eftir því sem mér þykir tilefni til. Það væri hreint glapræði hjá maóistunum, ef þeir misstu það núna, á lokasprettinum.
Að þeim fyrirvara gefnum, að forsendur mínar eru takmarkaðar, þá get ég samt ekki annað en sagt hvað ég held að sé réttast í þessu máli: Ég held að Prachanda og Baburam Bhattarai séu a.m.k. í aðalatriðum á réttri leið, frá sjónarhóli byltingarinnar og stéttabaráttunnar. Það getur verið að eitthvað sé hæft í sumum ásökununum, en ég held að gagnrýnin eigi ekki við rök að styðjast þegar því er haldið fram að þeir hafi tekið „ópróletaríska stefnu“. Stefnan á borgaralegt lýðveldi er raunsæ – það er í sjálfu sér varla neitt sem mun koma í veg fyrir að það markmið náist á næstu misserum – en stefna á að koma strax á sósíalísku alþýðulýðveldi, á þessu stigi stéttabaráttunnar, held ég að væri ekki raunsæ.
Ég held að til þess að halda þeirri stefnu til streitu núna væri dogmatísk blinda á aðstæður, ídeólógískur ósveigjanleiki sem leiddi byltinguna í gönur. Segjum að maóistum tækist að vinna hernaðarsigur í byltingunni (sem er ólíklegt) og að þeir mundu stofna sósíalískt alþýðulýðveldi strax. Slíkt lýðveldi mundi standa eitt og pólitískum berangri, einangrað og bláfátækt, höfuðsetið af herskáum heimsvaldasinnum. Þótt menn hafi ekki átt annarra kosta völ, að taka upp „sósíalisma í einu landi“ í Ráðstjórnarríkjunum á sínum tíma, þá gafst það illa. Og Nepal er ekki Ráðstjórnarríkin, heldur lítið fjallaland með innan vil 30 milljón íbúum sem auk þess eru alls ekki allir á einu máli um ágæti maóistastjórnar! Með öðrum orðum held ég að þarna sjáum við í verki að maóistarnir séu að efna það sem þeir hafa heitið, að læra af mistökum og sigrum sögunnar.
Auk þess er fráleitt að Prachanda sé handgenginn Congressflokknum. Yfirráðasvæði maóista nemur um þrem fjóru hlutum landsins og á því býr mikill meirihluti landsmanna. Þeir bera höfuð og herðar yfir nokkurn annan stjórnmálaflokk og Congressflokkurinn, sem er óneitanlega stór, hefur ekki roð við þeim.

Wednesday, March 15, 2006

Rachel Corrie, ártíð píslarvottar

Í dag eru þrjú ár frá því Rachel Corrie var kramin til dauða undir jarðýtu, af ísraelskum jarðýtustjóra í Rafah á Gazaströndinni. Hún var fyrsti erlendi aktívistinn sem Ísraelar drápu. Hennar sök var að reyna að koma í veg fyrir það að palestínskt íbúðarhús yrði jafnað við jörðu, og hún galt fyrir með lífi sínu. Enn hefur enginn verið dreginn til ábyrgðar fyrir þetta dráp. Ekki ísraelski ýtustjórinn, ekki yfirmenn í ísraelska hernum sem reyndu að gera lítið úr málinu eða drepa því á dreif, ekki bandaríska Caterpillar-verksmiðjan sem framleiðir og selur Ísraelum brynvarðar jarðýtur, sérhannaða til þess að eyðileggja hús Palestínumanna.

Michael Rubin, mín upplifun

Jæja, það er best að segja aðeins frá Michael Rubin, þeim athyglisverða manni.

Elías fór á mánudagsmorguninn og lagði inn kæru hjá lögreglunni sem kunnugt er. Auk hans stóðu fimm aðrir að kærunni, þar á meðal ég. Hvers vegna? Jú, það er ástæða til að ætla að Rubin hafi tekið virkan þátt í því á sínum tíma að „matreiða“ upplýsingar í aðdraganda Íraksstríðsins, fyrir yfirmenn sína Donald Rumsfeld og Paul Wolfowitz, til þess að þeir gætu rökstutt sitt pólitíska markmið, árásarstríð gegn Írak, með upplýsingum sem hentuðu málefninu. Með öðrum orðum er ástæða til að gruna Rubin um virka aðild að glæp gegn mannkyni.

Ég mætti í Odda rétt fyrir hádegi á mánudaginn til að hlýða á fyrri fyrirlestur Rubins þann daginn. Áður en fyrirlesturinn hófst dreifðum við flugriti þar sem maðurinn var kynntur og hvað hann hefur gert, upplýsingum sem komu ekki fram í drottningarviðtalinu á miðopnu Morgunblaðsins. Það var líka tekið við mig stutt viðtal fyrir NFS og annað fyrir Ríkisútvarpið. Síðar um daginn fór ég á annan fyrirlestur hans, í Lögbergi. Ég var með diktófón og tók báða fyrirlestrana upp í heild sinni, og sömuleiðis umræðurnar á eftir, meira og minna.

Upphaflega stóð til að gera allt sem hægt væri til að koma í veg fyrir að þessi fyrirlestur yrði haldinn. Frá því var fallið eftir að við hugsuðum málið betur, og ákveðið að láta duga að (a) kæra hann, (b) dreifa flugritum og (c) gagnrýna hann í fyrirspurnatíma.

Það var fróðlegt að sjá alvöru nýkóna í holdi og blóði. Lygara, zíonista, heimsvaldasinna, hrokagikk og glæpamann. Það er Háskóla Íslands til skammar að bjóða þessum manni að gera háskólann að vettvangi fyrir stríðsáróður. Auk þess var það sendiráð Bandaríkjanna sem flutti Rubin inn. Hafði það ekki efni á að leigja sér sjálft sal undir sinn áróður? Háskóli Íslands, nánar tiltekið Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, Félag stjórnmálafræðinga og Háskólinn í Reykjavík hafa svert sinn eigin orðstír. Rubin er doktor, en það sem hann hafði að segja hafði lítið sem ekkert akademískt gildi, en því meira áróðursgildi.

Í stuttu máli var fróðlegt að fylgjast með tilburðum Rubins. Hann er greinilega enginn byrjandi í ræðumennsku, enda notaði hann óspart taktík á borð við að segja einn og einn brandara til að „mýkja“ salinn. Sjaldan hef ég séð einn mann strá eins um sig með rökvillum, útúrsnúningum, undanbrögðum og meira að segja lygum. Lygum? Já, til dæmis sagði hann að Írakar hefðu á sínum tíma ráðist á Kuwait Bandaríkjamönnum alveg að óvörum. Það er hreint og beint ósatt. April Glaspie, ígildi sendiherra Bandaríkjanna í Baghdad, hafði áður gefið Saddam Hussein til kynna að árás á Kuwait væri Bandaríkjunum ekki á móti skapi.

Rubin sneiddi þægilega framhjá atriðum á borð við að árásarstríð er glæpur gegn mannkyni. Af honum mátti skilja að árás á Írak hefði verið réttlætanleg vegna þess að Bandaríkjamenn ætluðu ekki að bíða eftir annarri 11. september-árás. Nú, slíkrar árásar var ekki að vænta frá Írak, og fyrir utan það breytir almannavilji í Bandaríkjunum engu um óréttmæti árásarstríðs á Írak eða nokkuð annað land. Hann minntist líka á að „sumir“ vildu meina að árásirnar 11. september hefðu aldrei átt sér stað. Ég hef aldrei heyrt neinn halda því fram svo ég muni. Þetta var m.ö.o. strámannsrökvilla af billegustu sort.

Elías Davíðsson tók til máls í fyrirspurnatímanum. Hann byrjaði á að kynna sig með nafni. Rubin gall við: „Oh, of course, you’re famous.“ Það var ekki laust við lítilsvirðingu í röddinni, en hann hafði greinilega heyrt af Elíasi áður. Eftir að Rubin hafði svarað Elíasi (án þess að neitt merkilegt kæmi fram) kallaði Elías fram í að Rubin hefði verið kærður til lögreglu fyrir aðild sína að glæpum gegn mannkyni. Rubin svaraði að bragði: „Go ahead, you’re making a parody of yourself.“ Það er hálfpartinn fyndið að hann hafi ekki staðist það að hnýta þessu við, og afhjúpa þannig sinn eigin hroka. Ég verð að vísu að viðurkenna að mér fannst það góð redding hjá Rubin, þegar Elías minntist á vitnisburð Richard Clarke í bók, um tiltekinn fund sem Clarke sat, og Rubin fullyrti að Clarke hefði alls ekki setið téðan fund. Elías spurði Rubin þá hvort hann væri að kalla Clarke lygara og Rubin sagði, eftir sekúndubrots þögn, „He’s inaccurate.“ Góð redding, það viðurkenni ég.

Einhver fundargesta nefndi olíuauð Íraks sem ástæðu fyrir innrásinni. Rubin vísaði því á bug og fannst það fjarstæða. Bandaríkjamenn hefðu ráðist á Írak til að bægja frá hinni miklu ógn sem stafaði af Saddam Hussein og til að koma á lýðræði. Þeir hefðu auk þess eytt miklu meiri peningum í þetta stríð en þeir gætu nokkru sinni gert sér vonir um að græða á olíunni, og reyndar væri öll olía Íraks ekki einu sinni svona mikils virði, og ekki einu sinni öll olía Miðausturlanda! Ég leyfi mér að fullyrða að það er bull og vitleysa, en eftir sat að hann hafði svarað spurningunni með útúrsnúningum að mínu mati. Þannig að ég notaði tímann milli fyrirlestranna tveggja m.a. til að undirbúa spurningu sem, að mínu mati, var mjög góð. Hún var svona:

Ég hef aldrei heyrt um ríki sem eru góðgerðastofnanir og „stríð til að breiða út lýðræði“ hljómar því fjarstæðukennt í mínum eyrum. Ríki haga sér fyrst og fremst, ef ekki eingöngu, eftir pólitískum hagsmunum. Nú, það er augljóslega olía í spilinu, og hún snýst ekki bara um peninga, heldur umfram allt um strategíska hagsmuni, hnattræna valdapólitík og vingjarnlegar ríkisstjórnir í heimi þverrandi olíulinda. Hugtakið „amerískir hagsmunir“ gerir ennfremur ranglega ráð fyrir því að Bandaríkin séu hagsmunalega séð einsleitt fyrirbæri, sem þau eru ekki. Þau skiptast í skattgreiðendur, sem borga brúsann, og stórfyrirtæki, sem hirða gróðann. Í ljósi þessa, hvað hefurðu að segja um Íraksstríðið og olíuna?

Rubin sagði að þetta væri góð spurning og síðan komu margar mínútur af innihaldslausum moðreyk um hvað Bandaríkin væru lýðræðisleg, hvað forsetinn væri mikill fulltrúi þjóðarinnar sjálfrar og svo framvegis. Með öðrum orðum, þá svaraði hann ekki spurningunni. Reynið ekki að segja mér að Michael Rubin viti ekki að það séu stéttaskipting og sérplægnir hagsmunahópar í Bandaríkjunum!

Rubin hreytti oft ónotum í „left-wing anti-war blogs“ sem virtust vera, að hans mati, helsta uppspretta heimskulegra hugmynda flestra viðstaddra um Írak. Reyndar notaði hann þetta mikið sem ad hominem-rökvillu, að tala um að fólk hefði lesið eitthvað á vinstrisinnuðum bloggum. Reyndar var líka eftirtektarvert að hann skyldi segja „anti-war“ í niðrandi merkingu, það segir kannski eitthvað um hann sjálfan. Einn fyrirspyrjandi, sem hafði ekki fengið svar við spurningu sinni, heldur tóman moðreyk, kvartaði undan því að hann hefði ekki svarað. Rubin svaraði: „Jú, ég svaraði spurningunni, þú fékkst bara ekki svarið sem þú vildir fá, og ef þú bloggar áttu eftir að fara heim og blogga um að ég hafi ekki svarað þótt ég hafi gert það, bara vegna þess að þú ert ósammála mér.“ (Ég býst við, svo ég geri orð Óla Gneista að mínum, að það sé einmitt það sem ég er að gera núna!)

Rubin notaði líka kennivaldsrökvillu (appeal to authority) mikið. Í stuttu máli var hann eini maðurinn í herberginu sem hafði eitthvað vit á því sem var að gerast í Írak, vegna þess að hann hefur dvalist þar sjálfur. Við hin, sem flest vorum ósammála honum, höfðum bara lapið einhverja vitleysu hvert upp úr annars vinstrisinnuðu anti-war bloggum.

Það dylst varla neinum að ég hef eindregna skoðun á þessum fyrirlestrum tveim sem ég fór á. Þetta var hneisa, hneyksli. Þessi maður ætti ekki að standa í pontu í háskóla, spúandi lygum og vitleysu og agíterandi fyrir mannréttindabrotum, heldur ætti hann að sitja á bak við lás og slá. Ummælum á borð við þessi svaraði hann reyndar bæði í áðurnefndu drottningarviðtali á miðopnu Morgunblaðsins á mánudaginn, og í a.m.k. öðrum fyrirspurnatímanum. Menn eins og ég eru, að hans mati, í rauninni ekki annað en hægindastólaeinræðisherrar sem vilja fangelsa alla sem eru ósammála þeim. Þótt rökvillan liggi í augum uppi, þá má ég samt til með að skýra hana: Í fyrsta lagi beitir hann persónuárás til að gera lítið úr gagnrýnendum sínum, og í öðru lagi afvegaleiðir hann umræðuna með frávarpi, þannig að þetta snúist ekki um hvað hann kunni að hafa á samviskunni, heldur séu gagnrýnendur hans svona frekir.

Michael Rubin er fróður og hann er vel gefinn og hann kann ýmislegt fyrir sér í ræðumennsku. Það má hann eiga. Hins vegar er hann bæði hrokafullur rökvillingur, herskár heimsvaldasinni, zíonisti, glæpamaður og ósvífinn og ófyrirleitinn lygari.

Tuesday, March 14, 2006

Ástandið í Nepal undanfarnar og komandi vikur + fleira

Til að byrja með: Ástæða er til að benda á þennan áhugaverða fyrirlestur sem haldinn verður í kvöld í Friðarhúsinu á horni Njálsgötu og Snorrabrautar. Dagur Þorleifsson sagnfræðingur fjallar um trúarhópa og þjóðflokka Íraks og málin verða rædd. Fyrirlesturinn hefst klukkan 20.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þetta þarf ég að skoða nánar við fyrsta tækifæri.
Þetta líka.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er mikið á döfinni í Nepal. Í dag hefst þriggja vikna herkví maóista sem hefur verið í undirbúningi. Vegum verður lokað, Kathmandú og fleiri borgum verður lokað, flutningar stöðvaðir og svo framvegis. Það eru nokkrar vikur síðan þetta var tilkynnt. Fyrirvarinn var hafður til að fólk gæti undirbúið sig; almenningur birgt sig upp af mat og þess háttar. Þessi herkví er samt aðeins aðdragandinn að því sem koma skal: Þann 3. apríl nk. hefst allsherjarverkfall og -verkbann. Maóistar ætla að gera sitt besta til að lama efnahagslífið gjörsamlega. Tilgangurinn er að setja eins mikinn þrýsting á konunginn og mögulegt er. Ríkisstjórnin skorar að sjálfsögðu á nepölsk fyrirtæki að hvika hvergi, en ég sé satt að segja ekki hvernig þau geta staðið gegn allsherjarverkfallinu.

Um leið og maóistar og sjöflokkarnir eiga viðræður er haft eftir tveim af leiðtogum sjöflokkanna að allsherjarverkfallið eigi aðeins að standa í viku (til 10. apríl), en svo muni maóistar lýsa yfir nýju vopnahléi til að gefa sjöflokkunum pólitískt svigrúm. Það kemur nú í ljós hvort satt reynist. Annars eru fréttir misvísandi. T.d. sýnist mér vera talað umstór árás sé yfirvofandi á Kathmandú 6. apríl, nema ég misskilji eitthvað.

Einn af leiðtogum CPN-UML segir að 12-punkta samkomulagið frá því í haust verði bráðum „útskýrt nánar“ – hvað sem hann meinar með því býst ég við að það verði fróðlegt.

Maóistar hafa haft mikið umleikis undanfarið. Eru sagðir hafa rænt 1,8 milljón rúpíum úr banka, sprengt einhverja skrifstofu, drepið þrjá hermenn og sært sex í árás í V-Nepal og drepið sjö í viðbót í annarri í A-Nepal. Fyrir rúmri viku féllu heilir 38 í einum og sama bardaganum

En ekki gengur allt fyrir sig eins og smurt innanbúðar hjá maóistunum. Tveir miðstjórnarmenn í maóistaflokknum, Rabindra Shrestha og Anukul, bera Prachanda og Baburam Bhattarai þungum sökum: Að þeir hafi (a) í 8 ár, af 10 sem stríð fólksins hefur staðið, búið erlendis (semsagt í Indlandi) og (b) tekið upp ó-próletaríska stefnu (þá væntanlega nýlega yfirlýsta stefnu á stjórnlagaþing og stofnun borgaralegs lýðveldis), og (c) loks um nepótisma í stjórn flokksins. Þetta eru vægast sagt þungar ásakanir og spurning til hvers þær leiða. Skemmst er að minnast klofningsins milli Prachanda og Bhattarais í vor sem leið, sem hefði getað orðið maóistum mjög þungur í skauti hefði þeim ekki tekist að leysa hann. En nú er spurning. Maóistar hafa aldrei verið sterkari en einmitt nú. Klofningur núna gæti hæglega orðið katastrófa fyrir þá.

Nú, George Bush skorar á kónginn að „endurreisa lýðræðið“ sem aldrei var. Ég held að eina leiðin sem kóngurinn hefur til að láta gott af sér leiða, úr þessu, sé að segja af sér og fara í útlegð. 2000 manna lögfræðiráðstefna skoraði líka nýlega á hann að gera það, að segja af sér. Kóngurinn og menn hans vísa á bug allri erlendri aðstoð við að leysa málin
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
sakaði um vinstrimennsku“ … úff, hann hættir ekki að koma manni á óvart.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það verður víst að bíða til morguns að ég tjái mig að fullu um glæpamanninn Micael Rubin.

Monday, March 13, 2006

Michael Rubin áðan

Ég var í Odda og hlustaði á Michael Rubin. Ég get ekki sagt að ég hafi verið hrifinn. Skrifa meira um það í kvöld eða nótt, en ætla að faraút í Odda líka, þar sem hann spýr áróðri klukkan 17. Rubin var kærður til lögreglu í morgun. Mun lögreglan sinna þeirri skyldu sinni að taka þennan glæpamann fastan áður en hann fer úr landi? Mun hún gera það? Breytni lögreglunnar í dag og á morgun - þ.e.a.s. hvort hún tekur hann fastan eða ekki - verður vísbending um hverjum hún þjónar í raun. Lögreglan lét sig ekki muna um að ofsækja erlenda umhverfisverndarsinna í sumar, en þegar mönnum með umtalsverða aðild að alþjóðlegum glæpum á borð við árásarstríð þóknast að sneypa Íslendinga með nærveru sinni, hvar er hún þá? Hvar? Mér er spurn. Kæruna má sjá á Egginni og á Friðarvefnum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Andrea Ólafsdóttir skrifar um nýju vatnalögin á Eggin.net.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Líkið af Milosevic afhent. Ég hef efasemdir um að lát hans hafi borið að með náttúrulegum hætti. Nánar um það í næsta bloggi.

Saturday, March 11, 2006

Tom Fox finnst látinn. Aktívisti úr friðarsamtökunum Christian Peacemakers Team, pyntaður og myrtur með köldu blóði. Sakir? Engar aðrar en uppruninn.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Annara maður er látinn, sem verður varla mörgum harmdauði, en það e Slobodan Milesovic. Hann var víst orðinn heilsuveill, þannig að það þarf kannski ekki að koma á óvart. Það eru ekki öll kurl komin til grafar varðandi Júgóslavíustríðið, en Milesovic bar ekki nærri því eins mikla ábyrgð á því og af var látið.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Glæsilegt, hats off!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Enn óeirðir í París og víðar í Frakklandi og nú beitir lögreglan táragasi og kylfum gegn stúdentum. Ætli það sé góð hugmynd?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Á Gagnauga skrifar Jón Karl um yfirvofandi árásarstríð gegn Íran.

Friday, March 10, 2006

Glæpamaður og lygari saurgar Háskóla Íslands á mánudag nema...

Í hádeginu, næstkomandi mánudag, verður fyrirlestur í Odda. Þar mun lygarinn og glæpamaðurinn Michael Rubin fjalla um spurninguna „Hvað er Bandaríkjastjórn að vilja í Miðausturlöndum?“ Hann er framarlega í flokki neo-cons í Washington, hefur verið ráðgjafi við Pentagon og átti verulegan þátt í því að gefa Bandaríkjastjórn slæm ráð um Íraksstríðið. Hann er ákafur stuðningsmaður árásarstríðs -- glæps gegn mannkyni. Tryggð Rubins lýtur ekki að Bandaríkjunum heldur Ísrael. Árið 2002 skrifaði hann grein þar sem hann sagði að Mary Robinson, frv. forseti Írlands og núverandi High Commissioner of Human Rights hjá Sameinuðu þjóðunum, væri stríðsglæpamaður vegna stuðnings síns við Palestínumenn. Þessi siðskerta mannfýla á ekkert erindi á ræðupall hjá Háskóla Íslands. Nú er spurningin, hvernig verður komið í veg fyrir þennan ófögnuð?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Nú, Kínverjar gagnrýna Bandaríkjastjórn fyrir mannréttindabrot. Varla hefur þeim þótt það leiðinlegt.

Monday, March 6, 2006

Mjög áhugavert

Í dag eru tvær greinar birtar eftir mig, lesið þær báðar eða þið missið af miklu.
Á Vantrú: „Er guð sekur um brot gegn friðnum?
Á Egginni: „Eru álfyrirtækin ágjörn og sálsjúk mafía?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég hef hugsað mér að fara á þennan fyrirlestur í hádeginu á morgun, þriðjudag. Sumarliði Ísleifsson spyr hvað útrás sé og reynir að svara því.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ísrael: Olmert hyggst loka landtökubyggðum“ -- því trúi ég þegar ég sé það. Kannski að hann lokið nokkrum litlum og einangruðum byggðum, þar sem svarar ekki strategískum kostnaði að halda úti byggð, eins og Sharon gerði. Mun hann loka stóru byggðunum? Mun hann fría Austur-Jerúsalem landtökubyggðum? Mun hann láta rífa niður múrinn? Nei, það mun hann ekki gera. Sannið bara til!

Friday, March 3, 2006

Íslamismi, stórsókn í Nepal og fleira

Í Mogganum í gær áttu Sjón og Þorsteinn Vilhjálmsson sitthvora frábæra greinina. Þeir fá báðir stóran plús í kladdann fyrir það!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ungir Danir snúast til íslam“ -- tengt við Mahómetsteikningarnar ófyndnu á dögunum. Samt er þetta í takt við trend sem hefur borið nokkuð á í Evrópu undanfarin ár: Ungmenni af innfæddu, kristni bergi brotin, turnast til íslams. Hvers vegna? Gremja eða firring sem fær þau til að snúa baki við vestrænum gildum? Uppgjöf á kapítalisma, en leit að lausnum í trúarbrögðum? Ætli það ekki?
Ég hef engar áhyggjur af þessu. Íslamstrú er reaktíf og forneskjuleg, rétt eins og kristni, og hún býður ekki upp á neinar lausnir við aðsteðjandi vandamálum tengdum auðvaldi, heimsvaldastefnu, mengun eða öðrum þjóðfélagsmeinum. Þegar þessi leitandi ungmenni finna ekki í íslam lausnirnar sem þau leita að, þá munu þau ganga af trúnni aftur. Þessi leit að lausnum er hins vegar bara jákvæð. Ég er ekki í vafa um -- altént bjartsýnn á -- að á næstu árum muni ungmenni í Evrópu og víðar finna aftur frjálslyndi og sósíalisma. Næsta byltingaalda í Evrópu verður ekki íslömsk, því get ég lofað ykkur. Uppreisnin í París í haust er leið var forsmekkur -- sekúlar uppreisn æstra ungmenna sem skorti skipulag og pólitíska menntun til að spila úr henni. Menntunin kemur -- bæði í baráttu og í fræðslu -- og þá vænkast hagur Strympu.
Íslamisminn, sem er í sókn meðal eþnískra evrópskra ungmenna um þessar mundir, er ekkert til að óttast. Kannski að þetta séu frekar fjörbrot mannkynslausnara í klerkaskykkjum? (Ekki að ég sé svo naív að spá endalokum trúarbragða í bráð...)
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Einar Rafn skrifar: „Nýtt álver á Norðurlandi“.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í Nepal eru bardagar og mannfall. Þar fyrirhuga maóistar allsherjarverkfall sem mun hefjast 3. apríl, en aðdragandinn hefst 14. mars. Nú verður látið sverfa til stáls, vegum lokað, Kathmandú sett í herkví. Hvað mun þetta vara lengi? Það hefur ekki verið ákveðið hvenær verkfallið tekur endi.
Hvort mun hafa meira úthald, verkfallið eða konungdæmið?
Mun verða fjöldaliðhlaup úr hernum?
Munu maóistar hefja árásir á sjálfa Kathmandú?

Þessu verður fróðlegt að fylgjast með næstu mánuði.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Talinn sigurstranglegur“? Ja, varla er það ofmælt hjá Mogganum....

(Nafn Þorsteins Vilhjálmssonar leiðrétt skv. athugasemd Braga.)

Thursday, March 2, 2006

Af álveri og öðru

Þá er það komið í ljós: Leyniþjónustur Bandaríkjanna vöruðu stjórnvöld við því fyrir meira en tveim árum síðan, að íraska andspyrnan hefði djúpar rætur og að henni mundi vaxa ásmegin eftir því sem fram liði. Ráðamenn hefðu líka getað lesið bloggið mitt eða eitthvað af þúsundum blogga, heimasíðna, blaða og bóka þar sem þetta kom fram. Það vissu nefnilega allir sem kærðu sig um, að andspyrnan yrði kröftug.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Á Vísi segir: „Halldór Ásgrímsson ... telur ekki að álverið muni valda aukinni þenslu í hagkerfinu.“ AUÐVITAÐ segir hann það! Það þarf heldur ekki stjórnmálafræðing til að skilja hvers vegna! Ráðamenn skella skollaeyrum við hollráðum og viðvörunum þeirra sem vita betur, vegna þess að borgaraleg stjórnmál snúast ekki um að gera það sem best er að gera, heldur að moka sem mest undir þá sem hafa mest völd. Við vitum hverjir hafa hendurnar upp að olnbogum í görninni á hverjum.
Ríkisstjórn Halldórs kvislings Ásgrímssonar er leppur fyrirtækisins ALCOA, smánar þjóðina, níðir niður landið, hleður undir samviskulaust heimsvaldaauðmagn og þiggur hundsgjald fyrir.
Á meðan, annarsstaðar í bænum: „Mótmælendur ruddust inn á skrifstofu Alcoa“, „Ungliðar mótmæltu álverframkvæmdum“ [sic], „Mótmæli við skrifstofu Alcoa í Reykjavík“, „Mótmæli við skrifstofur Alcoa í Reykjavík“ (önnur frétt með sama nafni). Lesið meira rant eftir mig á Egginni.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Baburam Bhattarai var að missa móður sína áttræða. Það var leitt.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Íranskir byltingarverðir búa sig undir að loka Hormuz-sundi ef til átaka kemur.

Wednesday, March 1, 2006

Hugleiðing + meira um Afghanistan o.fl.

Hugleiðing eftir mig á Egginni. Lesið hana ef þið elskið mig.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Rushdie gagnrýnir bókstafstrú.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Naxalítar drepa marga menn. Höfundur þessarar fréttar hefði mátt taka fram að þetta væri á Indlandi, eða í það minnsta í sunnanverðri Asíu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
[E]ins og hann orðaði það“?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Fangauppreisnin í Afghanistan heldur áfram.
Afganskir embættismenn segja að meðal fanganna í þessari álmu séu um það bil 350 meðlimir Al Kaída og talibanahreyfingarinnar. ...
Því miður er engin eining í röðum fanganna og þeir hafa ólíkar kröfur. Það er enginn leiðtogi sem getur talað við okkur, sagði Hashimzai.“ [Leturbreytingar mínar.]
Sjá fleiri en ég eitthvað tortryggilegt við ummælin hér að ofan?
1. Eru embættismenn yfirleitt trúverðugt átorítet um hvers eðlis menn eru sem berjast gegn yfirvöldum?
2. Ef sk. „al Qaida“ menn og Talibanar fara fyrir uppreisnarmönnum, hljóta þeir þá ekki að vera í forsvari?

Af Íran, Sómalíu og Afghanistan

Hægripressan er farin að tönnlast á því aftur að Saddam hafi átt gereyðingarvopn -- eða haft áætlanir um að koma sér þeim upp -- eða langað til þess.
Moggi greinir frá: Auðgun úrans er hafin í Íran. Því fyrr sem Íranar koma sér upp sprengjunni, þess betra. Þegar þeir eru komnir með hana eru þeir loksins öruggir fyrir árás Bandaríkjanna og Ísraels.
Menn gleyma (viljandi?) einu: Árásarstríð verður ekki réttlætt með gereyðingarvopnaeign. Kjarnorkusprengjur í skotstöðu réttlæta ekki einu sinni árásarstríð. Ef þær gerðu það, hvaða land á þá þúsundir slíkra?
Íslenska ríkisstjórnin á eftir að lepja úr görninni á Bandaríkjastjórn í þessu stríði eins og undanförnum stríðum. Halldór Ásgrímsson á eftir að taka fagnandi tækifæri til að bæta enn einu atriðinu á syndaregistrið, sem var nógu langt fyrir. Hvað getur maður sagt? Svei þeim sem leggja blessun sína yfir glæpi gegn mannkyni.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Jon Henke skrifar um Sómalíu og leggur út af grein á Mises.org sem honum finnst heimskuleg. Í stuttu máli sagt, þá er Sómalía skínandi (eða réttara sagt, rjúkandi) dæmi um hvers vegna „anarkó-kapítalismi“ er vonlaus. Það fer að nálgast heila öld síðan Lenín útskýrði þetta: Stéttamótsetningar -- semsagt andstæðir hagsmunir, samstíga við stéttarstöðu -- verða smám saman meiri og meiri þangað til þær verða ósættandi. Á því stigi er það nauðsynlegt að til komi ríkisvald sem setur niður mótsetningarnar með ofbeldi -- með því að áskilja sér einkarétt á ofbeldi. Þetta verða óhjákvæmileg örlög Sómalíu, og Henke lýsir því ágætlega.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í Afghanistan berjast fangar fyrir frelsi sínu, gegn leppum Bandaríkjastjórnar. Getur maður annað en haft samúð með þeim? Maður er varla terroristi þótt maður hafi samúð með mönnum sem leggja allt í sölurnar til að brjótast úr böðla höndum.