Ég hef orðið var við að fólk hafi hermt upp á mig stuðning við ríkisstjórnina. Ég styð hana að því leyti að ef hún færi frá núna, kæmi varla neitt betra í staðinn. Ég styð það líka að kratarnir fái að spreyta sig. Besta leiðin til að fólkið skilji nauðsyn byltingarinnar hlýtur að vera að umbótasinnarnir sýni fyrst hvers þeir eru megnugir, eða réttara sagt hvers þeir eru ekki megnugir. Er Kerenskí-stjórn ekki nauðsynlegur undanfari byltingarinnar?
Já, ríkisstjórnin hefur sannarlega stuðning minn -- og hann bæði gagnrýninn og skilyrtan. Ég gagnrýni það sem mér þykir gagnrýni vert, en styð hana þó -- með því skilyrði að hún hætti við ESB-umsókn, gangi úr EES og NATÓ, sýni IMF fingurinn, þjóðnýti grunnstoðir samfélagsins, leiðrétti húsnæðisskuldirnar, boði til stjórnlagaþings, lækki stýrivextina og afskrifi IceSave-skuldirnar. Að lokum legg ég til að ríki og kirkja verði aðskilin.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þessa dagana sér maður ýmsar hugleiðingar um það í umræðunni, hvernig sé hægt að rétta efnahag landsins við. Ýmsar hugmyndir, misjafnlega frumlegar en margar góðar, allt frá innspýtingu í markaðssetningu á landinu til þjóðnýtingar á jöklabréfunum og að þau yrðu látin standa undir atvinnusköpun. Ágætar hugmyndir, ef þær kæmu fram í venjulegu árferði. En ástæðan fyrir hremmingunum núna er ekki skortur á frumkvæði eða mistök við markaðssetningu. Hvernig væri að byrja á að leiðrétta höfuðstól húsnæðislána, og segja nei við IceSave-skuldbindingunum?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ríkisstjórnin endurómar til okkar hræðsluáróðri um að við verðum skóggangsmenn í samfélagi þjóðanna ef við borgum ekki IceSave og hér fari fyrst allt til andskotans ef við dirfumst að snerta á vísitölunni til að lækka höfuðstól húsnæðisskulda. Svo ég noti orð Steingríms J. sjálfs, þá er þetta óábyrgt rugl. Hótanir Breta og Hollendinga eru hugsaðar til þess að hræða okkur og eru að miklu leyti blöff. Ég skil að þeir hóti okkur, en að Steingrímur og Jóhanna hóti okkur? Hvað er málið? Og með húsnæðisskuldirnar: Ef þær væru leiðréttar, þá mundi eigið fé bankanna væntanlega lækka. Þar liggur náttúrlega hundurinn grafinn. Það eru hagsmunir fjármálaauðvaldsins sem eru í húfi, er það ekki?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það eru ákveðin atriði sem verða að komast í framkvæmd. Mér liggur við að kalla það sögulega nauðsyn. Annað hvort gerir ríkisstjórnin það sem þarf að gera, eða þá að það gerist einhvern veginn öðru vísi. Annað hvort leiðréttir hún húsnæðisskuldirnar eða það verður greiðsluverkfall. IceSave verður ekki borgað: Annað hvort neitar ríkisstjórnin eða ríkið verður ófært um að borga. Annað hvort göngum við ekki í ESB vegna þess að ríkisstjórnin hættir að berjast fyrir því, eða vegna þess að ríkisstjórnin mun bíða ósigur í þjóðaratkvæði.
Ef þessi ríkisstjórn gerir þetta ekki, þá neyðumst við til að taka til eigin ráða. Ef ríkisstjórnin ætlar að reyna að synda á móti straumi sögulegrar nauðsynjar, þá verði henni að góðu. Þá er það bylting eða landauðn.
Tuesday, June 23, 2009
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment