Monday, February 6, 2012

Hólavallakirkjugarður

Það væru nú ýkjur að segja að Reykjavík væri eitt samansafn af uppáhaldsstöðum, þótt það hvarfli stundum að mér. Á gönguferðum, sem eru oftast um eldri hluta borgarinnar, rek ég sífellt augun í staði sem mér finnst athyglisverðir eða hrífandi á einhvern yfirlætislausan hátt. Það er viss nautn að finna litla gullmola sem eru utan alfaraleiðar, margir vita ekki um og mörgum fyndist örugglega ekkert merkilegir þótt þeir vissu um þá. Það er engin kúnst að finna þá, það er nóg að horfa í kring um sig, taka eftir smáatriðunum og hafa gaman af þeim. Þúsund litlir vitnisburðir um hagleik, hugvit, sögu eða smekk, sem oft eru ætlaðir til heimabrúks en allir geta notið, sem á annað borð taka eftir þeim milli húsanna eða undir þakskeggjunum.

Mér dettur því margt í hug þegar ég er inntur eftir uppáhalds staðnum, enda er uppáhaldið síbreytilegt eins og flest í tilverunni. Það er samt einn staður sem trónir á toppnum og mér þætti gaman að sjá stað sem gæti keppt við hann. Þessi staður er hvorki lítill, leyndur né fáfarinn, og hann er svo sem ekkert frumlegur heldur. Hann heitir Hólavallakirkjugarður. Hann er almenningseign, fullur af sögu og framliðnum ættingjum og vinum. Sögu hans má finna á netinu eða bókasafninu, en ég ætla að segja af hverju ég held upp á hann.

Ég flutti á Hólatorg við norðurhlið kirkjugarðsins þegar ég var á fimmta ári, bjó þar í tuttugu ár og hafði garðinn fyrir útsýni, leikvöll og skjól. Ég man það eins og það hafi gerst í gær, þegar ég ákvað að láta varnaðarorð foreldra minna sem vind um eyru þjóta og fara og kanna þennan mikla garð sjálfur. Ég hef líklega verið fimm ára. Ég skaust óséður burt frá barnapíunni, og beint inn um hliðið á norð-vesturhorni garðsins. Rangalar myrkviðanna voru fljótir að gleypa mig og þar sem ég reikaði smeykur undir laufkrónunum, einn í heiminum og mál að pissa, fann mig geðstirður en miskunnsamur útigangsmaður, sem hjálpaði mér heim.

Með þessa lexíu í farteskinu – að ekki skal fara svo langt að maður rati ekki til baka – gat garðurinn opnast mér hæfilega hratt, með öllum þeim gæðum sem hann hefur að bjóða. Ber þar fyrst að nefna óviðjafnanlegt leiksvæði. Ég held að ég hafi aldrei reynt þar feluleik, enda væri það óðs manns æði. Garðurinn er hins vegar eins og hannaður fyrir eltingaleiki og hvers kyns ærsl. Alla vega í augum tíu ára drengs. Ég er nú vel upp alinn, og vinir mínir flestir líka, svo við pössuðum auðvitað að stíga ekki á leiðin þótt hamagangurinn væri mikill.

Þótt ég yxi upp úr skessuleikjum bernskunnar, fann ég mér ný not fyrir kirkjugarðinn. Þar er alltaf næði og þegar veðrið er gott er kjörið að leggjast á mjúkan blett og lesa, til dæmis fyrir próf. Þangað lá leiðin líka oft þegar ég var að byrja að reykja. Og auðvitað er stór skógarlundur með stígum og bekkjum líka kjörinn fyrir tilhugalíf, og reyndar líka fyrir rifrildi. Hvort sem það er sólskin eða þrumuveður.

Ég skil ekki af hverju sumir tengja kirkjugarða við dauðann. Fyrir mér eru þeir fullir af lífi: Þar ægir saman trjám og öðrum gróðri, örugglega hundruðum tegunda, og mér skilst að veggurinn umhverfis garðinn sé heimili fleiri mosategunda en nokkur annar staður á landinu. Svo vex þarna sveppur sem ku vera sjaldgæfur – fýluböllur heitir sá, og get ég vottað að það er réttnefni.

Við áttum kött sem Pamína hét, stælta bæði og djúpspaka. Hún eignaði sér að minnsta kosti fjórðung af kirkjugarðinum þegar hún var upp á sitt besta. Grá-hvítskjöldótt, með hvíta týru í rófubroddi, tvírifað aftan vinstra og svart leðurhálsband með göddum. Þessi ógnvaldur kirkjugarðsins lét engan eiga neitt inni hjá sér, síst af öllu fuglana.

Það er sagt að kirkjugarðarnir séu fullir af ómissandi fólki, og segja má að í stórum og gömlum garði liggi heilu þjóðfélögin. Móðurættin mín hefur búið lengi í Reykjavík og því eru margir ættingjar mínir grafnir í Hólavallagarði: Stóri bróðir minn, langafi og langamma, langalangafar og langalangaömmur og fleiri. Þegar amma mín var aðeins léttari í spori, fórum við stundum tvö saman með blóm í kirkjugarðinn, eða kerti eftir atvikum, en í seinni tíð geri ég þetta stundum einn.

Sá sem hefur gaman af að rölta um og líta í kring um sig, verður seint þreyttur á Hólavallakirkjugarði. Þessi vin í hjarta borgarinnar geymir óendanlega fróðleiksmola og maður sér alltaf eitthvað nýtt, hvort sem það er í gróðrinum eða höggvið í steinana. Það ættu öll börn að fá að njóta þeirra lífsgæða að alast upp með gamlan og gróinn kirkjugarð í hlaðvarpanum.

Vésteinn Valgarðsson

Þessi grein birtist í Reykjavík vikublaði í maí 2011. Ég birti hana hér ef ske kynni að einhver hefði gaman af því.