Saturday, October 29, 2016

Þess vegna eigið þið að fara og kjósa Alþýðufylkinguna í dag

Alþýðufylkingin boðar jöfnuð og félagslegt réttlæti, fullveldi og velferð og hefur skýra sýn á hvernig þessum markmiðum verði náð: Með félagsvæðingu. Með því að félagsvæða fjármálakerfið (banka, lífeyrissjóði og tryggingafélög) og reka það sem samfélagslega þjónustu en ekki í gróðaskyni, getum við sem samfélag sleppt því að borga nokkur hundruð milljarða á ári í vexti. Og með því að félagsvæða aðra innviði samfélagsins, þannig að enginn geti makað krókinn með dýrum einkarekstri sem ríkið borgar að mestu fyrir, getum við nýtt peningana betur í velferð, í heilbrigðisþjónustu, í sjálf markmiðin með innviðunum.

En þetta er ekki allt: Þessi markmið munu því aðeins nást, að fólkið í landinu berjist fyrir þeim með virkum hætti. Við verðum í þeirri baráttu, hvort sem við verðum innan eða utan Alþingis. Við eigum ekki að trúa stjórnmálamönnum sem lofa okkur öllu fögru, að gera allt fyrir okkur. Það er ekki hægt að stytta sér leið. Framfarir kosta baráttu. Þá baráttu boðum við.

Þið eigið ekki bara að kjósa Alþýðufylkinguna, það er góð byrjun en ekki nóg. Þið eigið að ganga til liðs við hana og gera ykkur gildandi í baráttunni fyrir framtíð okkar allra.
Vsteinn Valgarðsson
varaformaður Alþýðufylkingarinnar
(Þessi pistill hefur áður birst í DV.)

Monday, October 24, 2016

Hverjum treystir þú?

Auglýsingaherferð VG "Hverjum treystir þú?" byggist greinilega á einhverri markaðskönnun á trausti og kjörþokka. Hún er ómálefnaleg, eins og reyndar auglýsingaherferðir VG hafa oft verið áður. Nægir þar að rifja upp slagorðið, ef slagorð skyldi kalla: "VG - vegur til framtíðar" sem flokkurinn var með 2007 og sá ekki ástæðu til að endurskoða, frekar en nokkuð annað, fyrir kosningarnar 2009, þótt efnahagshrun hefði orðið í millitíðinni.

"Við eigum bara að minna á það", sagði Katrín Jakobsdóttir þá, "að við berum ekki ábyrgð á hruninu!" Forystunni þótti Hrunið ekki vera ástæða til að endurskoða stefnu flokksins, sem gekk til kosninga sem pólitísk jómfrú.

Pólitíska jómfrú er samt ekki beint hægt að kalla það VG sem var í ríkisstjórn 2009-2013. Listi vonbrigða og svika er svo langur að ég óttast helst að hafa gleymt einhverju stórmálinu, það var ESB-umsóknin, IceSave, Magma-málið, einkavæðing bankanna. Það var úrræðaleysi í húsnæðismálum, eða réttara sagt bankarnir látnir um að útfæra húsnæðisstefnuna, sem VG gat þá þvegið hendur sínar af. Það var áframhaldandi stóriðjustefna. Það var efnahagsstefnan, mótuð af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ég reifaði þetta allt saman árið 2012 þegar ég sagði mig úr VG og fór að undirbúa stofnun Alþýðufylkingarinnar.

"En dokaðu við," segið þið kannski, "það var Steingrímur sem bar ábyrgð á þessu öllu!" Hann bar kannski mesta ábyrgð sem formaður flokksins, en Katrín var varaformaður og hefur sjálf margsagt að það hafi ekki gengið hnífurinn á milli þeirra Steingríms. Ekki hnífurinn á milli. Og meirihluti flokksins, sjúkur af tækifærisstefnu og meðvirkni, tók fullan þátt. Ég man meira að segja að aðstoðarmenn ráðherra VG voru farnir að skrifa greinar þar sem þeir réðust á ESB-andstöðuna, sjálfir flæktir inn í svikin upp á herðablöð.

Fylgisaukningin bendir til þess að þessi ný-stalíníska persónudýrkun: innihaldslaust slagorðaskrum og brosandi andlit - virki kannski. Það er svosem ekkert við því að segja. En þó vil ég segja þetta: Ég treysti ekki Vinstri-grænum. Ég treysti ekki þeim sem hafa svikið sína eigin stefnuskrá og sína eigin kjósendur í heilt kjörtímabil. Ég treysti ekki þeim sem hafa látið flokkseigendafélag VG draga sig á asnaeyrunum, gera það enn og eru staðráðnir í að gera það líka í framtíðinni.
Þegar ég sagði mig úr VG árið 2012 skrifaði ég m.a. þetta:

Ég segi skilið við VG vegna þess að ég er sósíalisti og VG er því miður ekki sósíalískur flokkur, heldur kratískur. Íslenskir kratar hafa undanfarin ár haft fordæmalaust tækifæri til að sýna hvað í þeim býr – eða, réttara sagt, að í þeim býr hvorki vilji né geta til að ganga gegn auðvaldsskipulaginu.
Ísland sárvantar sósíalískan flokk. Hann mun aldrei fæðast upp úr vopnahlésályktunum eða skilyrðislausri samstöðu með krötum og tækifærissinnum. Hið nýja verkefni er því að safna liði og stofna þennan flokk.

Þennan flokk sárvantar ekki lengur, hann er til. Hann heitir Alþýðufylkingin. Það ber ekki að skilja þessa færslu svo, að baráttan okkar snúist eitthvað sérstaklega um VG. Hún gerir það ekki. En fólk þarf að vita hvers vegna við stofnuðum Alþýðufylkinguna. Það var vegna þess að VG voru (og eru) rúin trúverðugleika eftir síðasta kjörtímabil og hafa ekki einu sinni reynt að afsaka sig heldur stefna ótrauð í sama farið. Verði þeim að góðu sem kýs þau.

Tuesday, October 11, 2016

Íslenska þjóðfylkingin afneitar hlýnun af mannavöldum

Á Rás2 í gærkvöldi mættust oddvitar allra framboðanna í Reykjavíkurkjördæmi norður í útvarpssal. Ég var talsmaður Alþýðufylkingarinnar. Harla ánægður með þáttinn.

Eftirtekt vakti -- já, hlátur í salnum -- að talsmaður Íslensku þjóðfylkingarinnar sagðist ekki trúa því að hlýnun jarðar væri af mannavöldum heldur væri hún einhvers konar samsæri runnið undan rifjum vinstriróttækra vísindamanna.

Þetta er skondin viðbót við útlendingaandúðina og hómófóbíuna! Nú spyr maður sig, hvað næst? Afneitar Íslenska þjóðfylkingin líka þróunarkenningunni?

Offramboð á hægriflokkum

Í útvarpssal í gær voru viðstaddir, sem sjálfir álitu sig talsmenn vinstriflokkar, spurðir út í muninn á sínum flokki og hinum vinstriflokkunum. Þar svöruðu talsmenn beggja flokkanna sem kenna sig við vinstri: Katrín Jakobsdóttir fyrir VG og ég fyrir Alþýðufylkinguna.

Einnig svaraði Sigríður Ingibjörg fyrir Samfylkingu, sem nýkjörinn formaðurinn hefur sagt að sé hvorki hægri né vinstri. Björn Leví svaraði fyrir Pírata og sagði að þeir væru bæði hægri og vinstri. Laggó. Magnús Þór svaraði fyrir Flokk fólksins, sem hvorki kallar sig hægri né vinstri en allir sjá samt að er almennt með vinstrisinnaðar áherslur. Björt svaraði fyrir Bjarta framtíð, og ef maður gefur sér að þar sé ekki málefnaágreiningur við Samfylkinguna hlýtur það að teljast sanngjarnt.

Athygli vakti að sá ágæti maður Hólmsteinn Brekkan tók ekki til máls fyrir Dögun. Dögun hefur hafnað því að kalla sig vinstriflokk, þótt flestir mundi líklega segja að stefnumálin þeirra séu mjög til vinstri. En það er ákveðið integritet hjá Hólmsteini að taka ekki til máls þótt honum byðist það.

Nú, svo var spurt: En hver er munurinn á öllum þessum hægriflokkum? Það er góð spurning og skondið að hún heyrist ekki oftar. Fjöldi hægriflokkar er kannski eðlilegri heldur en fjöldi vinstriflokka. Hægriflokkar boða leynt og ljóst hagsmuni auðvaldsins, og þeir hagsmunir eru miklu fjölbreyttari heldur en hagsmunir alþýðunnar.

(Frá bæjardyrum Alþýðufylkingarinnar eru auðvitað allir hinir flokkarnir hægriflokkar.)

Saturday, October 8, 2016

Friðarverðlaun hvað?

Santos Kólumbíuforseti fær friðarverðlaun Nóbels fyrir friðarsamninginn við FARC. FARC-menn fá ekki friðarverðlaun. Hvað er málið?

Þegar Arafat fékk verðlaunin fékk Peres þau líka. Og þegar Mandela fékk þau, fékk de Klerk þau líka. Hvar er jafnræðisreglan?