Wednesday, August 20, 2014

Fangabúðirnar í Garðastræti

Fyrr á árinu bloggaði ég um útþenslustefnu kínverska drekans í Þingeyjarsýslu. Þeir kalla það ekki herstöð, en skarpskyggnir Íslendingar vita að útlendingar eru varhugaverðir og kalla herstöðvar sínar jafnan tilbeiðsluhús, glæsihótel eða þá norðurljósaathugunarstöðvar. (Það er hins vegar allt í lagi með herstöðvar sem eru bara kallaðar herstöðvar, að áliti skarpskyggnra Íslendinga, sbr. þá sem var á Miðnesheiði.) Ekki skil ég ábyrgðarleysi Framsóknarflokksins, að aðhafast ekki meðan gula hættan hreiðrar um sig í Reykjadalnum.

En hvað um það, ég ætlaði ekki að skrifa um herstöðina í Reykjadal, heldur fangabúðir í Garðstræti, Reykjavík. Og þá meina ég ekki húsaþyrpinguna í garði rússneska sendiráðsins.

Næst þegar þið gangið Garðastræti í Reykjavík, athugið þá Garðastræti 41, þar sem kínverska sendiráðið hefur Efnahags- og viðskiptaskrifstofu. Þar má ganga niður að spennistöð sem er milli Garðastrætis 41 og 43 og kíkja norður og niður yfir vegginn: þar sést stór tennisvöllur, umlukinn hárri, mannheldri girðingu. Ef þið eigið ekki leið hjá getið þið séð þetta á Borgarvefsjá, þar sem skuggarnir sýna glöggt stærð mannvirkisins. Hvað er þetta eiginlega? Hefur einhver séð Kínverja í tennis þarna? Ég bara spyr.

Ég er með kenningu. Kínverjana vantaði fangabúðir, ef Njarðvíkurskóli stæði ekki til reiðu næst þegar Falun Gong kæmu til landsins. Og þá kemur öfuga verkfræðin: Hvernig réttlæta menn það að byggja fangabúðir inni í Reykjavík, og það á Garðastætinu, þessari meinleysislegu götu?

Menn láta nágrannana auðvitað fara fram á það. Og maður fær þá til þess með því að slá nokkra tennisbolta í gegn um rúður á gróðurhúsi þeirra (sem sést ekki á loftmynd fyrir laufþekju).

Þannig að Kínverjarnir byrjuðu á tennisvellinum.

Nú, granninn kvartar eins og sjá mátti fyrir, sendiráðið lofar að leysa málið -- og byggja 5 metra háa fangabúðagirðingu í kring um tennisvöllinn. Ég fylgdist með í rauntíma og fannst skrítið að breyta gamla bílastæði Síldarútvegsnefndar í tennisvöll -- en það meikaði meiri sens þegar 5m há girðing bættist við.

Byggingarfulltrúi hefði aldrei samþykkt hana ef nágranninn hefði ekki beðið um þetta. Í girðingunni er svo hægt að geyma a.m.k. 200 manns, við þröngan kost. Lögregluyfirvöld geta ekkert gert þar sem Vínarsáttmálinn undanskilur sendiráð og -lóðir lögum og rétti gestgjafalandsins. Þannig að þarna eru fangabúðirnar, faldar sjónum ókunnugra milli krónmikilla trjáa Suðurgötu og Garðastrætis, og bíða eftir kínverskum stjórnarandstæðingum.

(Völlurinn er þarna í alvörunni og girðingin mikla var reist eftir á, en best er að taka fram að kenningin um tilganginn er frá mér komin og ekki annað en tilgáta sem gengur grunsamlega vel upp.)

Saturday, August 9, 2014

Varað við pyntingaskýrslu

Í Bandaríkjunum óttast menn að útgáfa skýrslu um pyntingar bandarísku leyniþjónustunnar í Miðausturlöndum muni leiða af sér ofbeldisfull mótmæli. Vara þess vegna við að hún verði gefin út. Einhver mundi draga aðrar ályktanir. Hvernig væri að hætta að pynta fólk?

Friday, August 8, 2014

Vill Katrín Jakobsdóttir viðskiptaþvinganir??

Þetta er skrítin frétt. Er ég að misskilja eitthvað, er fréttamaður ríkisútvarpsins að hafa rangt eftir eða er Katrín Jakobsdóttir komin út í móa? Vill KJ að Rússar beiti Íslendinga viðskiptaþvingunum?

Thursday, August 7, 2014

Hvað eru geiturnar margar?

Samkvæmt þessari frétt ríkisútvarpsins eru um 400 íslenskar geitur mögulega í hættu, eða um fjórðungur af stofni sem telur um 900 dýr.

Hver andskotinn! Ég var á máladeild, en ég er nokkuð viss um að þarna er rangt farið með eitthvað -- og einhver hefði átt að koma auga á það en gerði ekki.

Tuesday, August 5, 2014

Að skeina sig á litlu lambi

Á umbúðum Lambi-klósettpappírs er mynd af litlu, ljúfu lambi. Og á umbúðum Andrex-klósettpappírs er mynd af ómótstæðilega sætum hvolpi. Sem vekur hugrenningartengsl um mýkt og þægindi -- sem fylgja því væntanlega að skeina sig á þessum mjúku dýrum.
Jæja, ósmekklegt gæti dýraverndunarsinnum þótt þetta, en ég sá nokkuð nýtt í gær. Tvennt meira að segja. Búðin Kiwi á Vesterbro Torv hér í Århus selur íkorna-klósettpappír. Hvað er yndislegra til að skeina sig á heldur en íkorni? Kannski næsta tegund: álfta-klósettpappír. Hvernig í andskotanum skeinir maður sig á álft?

Lespíur og múslimir

Rosalega er fólk trúverðugt sem þykist hafa vit á einhverju sem það er á móti, og kann ekki að stafsetja orðið: lespía, múslimur, moskva, femenistar, komonisti, manrétnidi.

Eða eins og kerlingin sagði, "sko, ég er enginn rasmismi, en..."

Monday, August 4, 2014

Skrítið mat á skrítnum sendiherraskipunum

RÚV greinir frá skipun Geirs Haarde og Árna Þórs Sigurðssonar sem sendiherra. Nú getur vel verið að það sé röng aðferð að skipa frv. stjórnmálamenn sendiherra (látum það liggja milli hluta), en það er út af fyrir sig ágætt að Árni skipti um starfsvettvang. Skrítnara finnst mér mat Katrínar Jakobsdóttur, sem segir að það sé „kannski fyrst og fremst sérstakt í ljósi þess að Geir á auðvitað í máli við íslensk stjórnvöld fyrir Mannréttindadómstólnum.“ Eru það allir meinbugirnir sem Katrín sér á því að Geir verði sendiherra Íslands!?
(Ef einhver skilur ekki hvað ég meina, þá var Geir einn höfuðpaurinn í stóra Hruns-málinu fyrir nokkrum árum.)

Hættu að ljúga, Hanna Birna

Hanna Birna situr við sinn keip. Hvaða hag ætti hún að hafa af þessu máli? Hún ætti að spyrja hann að því, aðstoðarmanninn sem fannst það góð hugmynd að leka þessu þarna skjali. Hins vegar þætti mér gaman að vita hvaða hag hún hefur af að ljúga um málið. Tony Omos "var eftirlýstur af lögreglu á þessum tímapunkti" segir Hanna. Það er löngu komið fram að það er lygi. Af hverju lýgur hún? Og hverju öðru lýgur hún þá? Ef hún átti einhvern tímann von um að koma út úr þessu máli með hreint mannorð, þá er sú von úti og það fyrir löngu. Því lengur sem hún dregur afsögnina óumflýjanlegu, þess sársaukafyllri verður hún fyrir hana sjálfa. Verði henni að góðu.

Sunday, August 3, 2014

Benjamin Netanyahu er vitfirringur. RÚV hefur það eftir honum að
"Hernaðaraðgerðum verði haldið áfram þar til öryggi íbúa Ísraelsríkis væri tryggt."
Hvernig tryggja fjöldamorð á Gazaströnd "öryggi íbúa Ísraelsríkis"? Hvernig? Ætlar hann að láta drepa alla, eða hvað?

Hanna Birna búin

Það er aulalegt þegar stjórnmálamenn þekkja ekki sinn vitjunartíma heldur hanga á ráðherrastólnum eins og hundur á roði og kunna ekki að skammast sín heldur halda að þeir geti bara beðið þangað til demban gengur yfir. En demban sem núna stendur á Hönnu Birnu er ekki eitthvað sem gengur bara yfir. Ef hún hefði haft vit á að víkja strax tímabundið á meðan málið væri rannsakað, þá hefði hún hugsanlega átt afturkvæmt. Úr því sem komið er, er það of seint. Því lengur sem hún dregur hið óumflýjanlega, þess erfiðara verður það og pínlegra. Hún er búin.

Hanna Birna, segðu af þér

Mig dreymdi í nótt að Hanna Birna hefði sagt af sér.
Það var ágætur draumur.
Hún ætti endilega að láta verða af því.