Tuesday, January 29, 2008

44 blaðsíður

Ég man ekki eftir að Morgunblaðið hafi nokkurn tímann verið eins þunnt og í dag.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Egyptar samþykkja tillögu Abbasar um að palestínska heimastjórnin taki yfir landamærastöðina í Rafah. Takið eftir: Egyptar samþykkja að PA taki yfir hana. Er eitthvað bogið við það? Eru það ekki Hamas-samtökin sem ráða ríkjum á Gaza? Hvernig geta Egyptar og PA þá skipt Gaza á milli sín? Abu Gheit, utanríkisráðherra Egypta, segist fordæma „valdarán“ Hamas-samtakanna -- og í prent-Mogga sá ég að Hamas ríktu „í óþökk alþjóðasamfélagsins“. Það var og! Hvenær var „alþjóðasamfélagið“ spurt álits? Þýðir þetta nokkuð annað en að Bandaríkjastjórn og Ísrael séu á móti þeim? Það er best að halda því til haga að það var Fatah sem rændi völdum af réttkjörinni ríkisstjórn Hamas. „Lýðræðislegar kosningar“ -- pah! Hvað haldið þið að palestínskur almenningur fái mikla trú á gildi lýðræðislegra kosninga þegar Vesturveldin hunsa þær eftir hentugleika? Þegar heimsvaldasinnar tala um „lýðræði“ -- eða „frelsi“, „siðmenningu“, „kristni“ eða önnur gildishlaðin orð, þá meina þau aðeins eitt: Eigin völd.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ólafur F. Magnússon var með einhverja glötuðustu innkomu sem ég hef vitað. Hann og Sjálfstæðisflokkurinn hafa drullað upp á bak með þessari fáránlegu leikfléttu. Gott samt að þeir skuli sýna sitt rétta andlit, svona svo maður líti á björtu hliðarnar. Það verður gaman að sjá hvernig þeim vegnar í næstu kosningum. Það besta sem getur hlotist af þessu er að nokkrum gömlum húsum verði þyrmt. Það er mikið gleðiefni í sjálfu sér, að öllu öðru slepptu.

Tuesday, January 22, 2008

Blablabla...

Því verður naumast neitað að nýja borgarstjórnin er eins veik og hugsast getur. Hún fellur um leið og Ólafur fær flensu. Ég hló dátt þegar einhver sagðist fullvissa fréttamenn um að hér væri sterkur málefnagrundvöllur á ferðinni og blablabla!
[Innskot: Ég fékk ábendingu um að ég hefði mislesið orðin, og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hefði talað um "sterkan málamiðlunargrundvöll" -- sem er reyndar mjög asnalegt og fyndið líka..]]
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Musharraf biður Vesturlönd um þolinmæði og mótmælir þráhyggju þeirra fyrir lýðræði og mannréttindum. Flottur kall, Musharraf, ekki satt? Hreinskiptinn, ha? Það er því miður hárrétt hjá honum að Vesturveldin ættu bara að halda kjafti og hætta að skipta sér af því sem kemur þeim ekki við. Hvað eru Vesturveldin að heimta lýðræði í Pakistan þegar þau styðja miðaldakonungdæmi í Saúdi-Arabíu? Hvað eru þau að heimt amannréttindi þegar þau styðja gróf og kerfisbundin mannréttindabrot allt frá Írak og Palestínu alla leið inn í sín eigin fátækrahverfi? Haldið bara kjafti þangað til þið hafið bætt úr eigin göllum! Það er bara einn aðili sem hefur rétt til að krefjast lýðræðis í Pakistan, og það vill svo til að það er sami aðili sem er sá eini sem getur komið því á. Það er pakistanskur almenningur. Það er hans að skipuleggja sig, setja fram kröfur og fylgja þeim eftir með þeim meðölum sem þarf. Annað er bara blaður. Sorrí.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Spurt er: Er kreppan að koma?
Svarað er: Já, hvort hún er. Hlaupið í skjól eða tosið í neyðarhemlana, oft var þörf en nú er nauðsyn.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í Chiapas í Mexíkó kannast menn ekki við að Zapatistas séu veikari en þeir voru áður en hægriöflin byrjuðu að pilla í þá aftur. Þvert á móti; vegna mikils undirbúnings- og skipulagsstarfs eru þeir sterkari en nokkru sinni, ef eitthvað er, og eiga núna samstarf og samhljóm við grasrótarhreyfingar úti um allt ríkið.

Friday, January 18, 2008

Þorsteinn, Bergiðja, milljarðar...

Mikið fannst mér fyndið að sjá Birgi Ármannsson í sjónvarpinu í fyrrakvöld, að reyna að verja skipan Þorsteins Davíðssonar. Þetta er brandari sem heldur bara áfram og áfram. Ég hálfkenni í brjósti um alla þessa ungu sjálfstæðismenn sem lenda í þessu, að þurfa að verja þessa æðislegu skipan. Ég hálfkenni líka í brjósti um Árna Mathiesen. En bara hálf. Honum -- og þeim hinum -- var nær að taka þetta að sér. Trúverðugleikinn í rass og rófu. Greyin. En bara hálf samt.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þann 1. maí nk. á að loka Bergiðjunni hér við Klepp. Þar eru verkstæði og vinnustofur þar sem sjúklingar vinna. Ástæðan er sparnaður, eins og fyrri daginn. Ég skil nú ekki forgangsröðunina -- það er skrúfað fyrir leka þar sem enginn leik er -- skorið niður í kostnaði við sjálfa þjónustu Landspítalans -- en á meðan standa flóðgáttirnar opnar í yfirbyggingunni. Er þetta fyndið? Er þetta smekklegt? Hvers vegna er verið að reka þetta heilbrigðiskerfi á annað borð, ef það er ekki hægt að gera það sómasamlega?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í dag er grein eftir mig á s. 28-9 í Mogganum. Lesið hana. Hún ætti að birtast á Vantrú líka fljótlega.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er eins og það sé allt á öðrum endanum vegna þessa hruns á verðbréfamörkuðum. Jah, ég er alla vega ekki á öðrum endanum. Ég man ekki eftir að þessi verðbréfamarkaður hafi gert mikið fyrir mig nýlega. Kemur þetta einhverjum á óvart? Getur það, í alvöru talað, verið? Það er talað um að svo og svo margir milljarðar hafi „horfið“. Hvernig getur maður annað en hlegið? Það sýnir best hvað þessi markaður byggist á miklu hókuspókusi. Alvöru verðmæti „hverfa“ ekki bara sisona. vitið þið hver galdurinnn er? Á ég að segja ykkur það? Það voru engin verðmæti á bakvið þessa svokölluðu milljarða! Þetta voru bara sjónhverfingar! Og þar hafiði það og hananú.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í Nepal sögðu maóistar sig úr bráðabirgðastjórninni í haust, en hafa gengið til liðs við hana aftur eftir samninga um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð konungdæmisins fyrir áramót, sem eru í apríl hjá þeim. Nú segjast þeir sjá kosningasvindl í uppsiglingu, alla vega í Terai-héraði, en heita aðgerðum til þess að koma í veg fyrir það.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
BP vísa því á bug á olíutindurinn sé yfirvofandi eða yfirstaðinn. Já, tóbaksfyrirtækin neituðu líka skaðsemi tóbaks frameftir öllu. Hver vill að hlutabréfin lækki? Hér er hollráð: Ef þið eigið hlutabréf í olíufélögum, seljið þau þá á stundinni!

Wednesday, January 16, 2008

Febrúar 2006

Hvað varst þú að gera í febrúar 2006? Ég get ekki sagt að ég muni í fljótu bragði hvað ég var að gera, fyrir utan að vinna á næturvöktum. Jú, ég sinnti Egginni meðan hún var ennþá hýst á Blogdrive. Eitthvað var ég að spá í ástandið í Nepal líka. Snarrót líka. Þá voru kosningar í stúdentaráð og mig minnir að ég hafi verið í kjörstjórn. Já, ýmislegt var maður víst að gera. Einu gaf ég þó ekki gaum meðan á því stóð:

Í febrúar 2006 unnu menn nefnilega 84.678.000 tunnur af olíu á dag að jafnaði. Þá hafði aldrei verið framleitt meira -- og síðan hefur ekki náðst að framleiða jafnmikið. Olíutindurinn ógurlegi var, að öllum líkindum, febrúarmánuður 2006. It's all going downhill from now on. Fyrst tiltölulega rólega, eins og undanfarin tvö ár, og síðan fer að halla meira og meira undan fæti.

Finna fleiri en ég eins og lykt af sviðnandi gúmmíi?
Ruslpósturinn flæðir um fleiri póstkassa en á netinu og bréfberum er uppálagt að hunsa frómar óskir fólks um grið. Eva stingur upp á lausn. Ég hef fyrir löngu tamið mér aðra lausn, sem mér finnst betri, svona fyrir mitt leyti: Endursenda bara draslið. Troða því í umslag, stíla á viðkomandi fyrirtæki -- helst forstjórann í eigin nafni heima hjá sér -- og skrifa "burðargjald greiðist af viðtakanda" utan á. Þetta hef ég gert annað slagið í nokkur ár, og stungið þessu svo bara í næsta póstkassa. Ef þúsund manns tækju sig saman um að gera þetta, þá þætti mér gaman að sjá svipinn á spömmurunum.

Heyrið þið annars, hér er uppástunga: Hvernig væri að bloggarar mundi taka sig saman um að taka eitthvert tiltekið stykki af ruslpósti og senda það, hver fyrir sig, til baka til sendanda einhvern tímann á næstunni? Hvernig væri að velja t.d. stærsta stykkið sem er borið út á föstudaginn, og endursenda það í þúsundatali?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Brói prjónar við þarsíðustu færslu mína.

Thursday, January 10, 2008

Norður-Kórea; Íran; olía og efnahagur

Mér finnst skynsamlegt af Kínverjum -- og vitanlega mjög skiljanlegt -- að hafa áætlanir um innrás í Norður-Kóreu ef hún kiknar og hrynur saman. Kjarnorkuáætlun Norður-Kóreumanna er augljóslega mikilvæg, en fyrir utan hana, þá sitja Kóreumenn á óhemjulega miklu af vopnum. Her þeirra er einn sá stærsti í heimi og landamærin, úff... Í suðvesturhorni landsins hafa þeir t.d. komið upp svo mörgum langdrægum fallbyssum, að ef það yrði gerð innrás úr suðri, gætu þeir jafnað Seoul við jörðu -- bókstaflega þurrkað hana út -- á klukkustund. Það yrði óneitanlega sjón að sjá. Tilfellið er, að gereyðingarmáttur Norður-Kóreu liggur í hefðbundnum vopnum. Feiknalegu magni af hefðbundnum vopnum. Þar við bætast auðvitað efna- og sýklavopn, og kannski ein eða tvær kjarnorkusprengjur. Þessi viðbúnaður vekur auðvitað furðu í augum flestra Vesturlandabúa, en er samt skiljanlegur. Man einhver eftir Kóreustríðinu? Í því varð Kórea sviðin jörð. Því er ekki einu sinni formlega lokið. Nálægt hálf milljón lét lífið og annar eins fjöldi særður. Bandaríkjaher situr ennþá á þröskuldinum, 38. breiddargráðu, grár fyrir járnum. Norður-Kóreustjórn getur vitanlega ekki boðið landsmönnum sínum upp á þann möguleika að sagan endurtaki sig. Ekki frekar en Stalín eftir síðari heimsstyrjöld.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég trúi því vel að þetta atvik í Hormuz-sundi hafi verið vísvitað og úthugsað af Írana hálfu. Reyndar er ég hér um bil viss um það. Tilgangurinn er nokuð skýr, sýnist mér: Þeir voru einfaldlega að minna á að þeir geta lokað Hormuz-sundi þegar þeim sýnist og sökkt hvaða fleytu sem er, sem hættir sér um það, ef þá langar til. Skoðið sem snöggvast kort af Hormuz-sundi. Íran liggur í hálfhring utan um það. Það þýðir að það siglir enginn um það nema með samþykki Írana. Enginn. Hvaða máli skiptir það? Herflutningar Bandaríkjamanna til og frá Írak eru aukaatriði. Um Hormuz-sund er flutt olía. Næstum öll olía Íraks, næstum öll olía Kúveits, næstum öll olía Saúdi-Arabíu, auk Bahrein og Qatar og Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Hormuz-sund er kannski mikilvægasta siglingaleið í veröldinni. Íranar eru semsé að sýna tennurnar og minna á að þeir geta hæglega bitið frá sér ef þeim finnst sér ógnað. Ég held samt að það sé ekki stríð í uppsiglingu milli Írans og Bandaríkjanna.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það lítur út fyrir að framboð á díselolíu fari þverrandi í Bandaríkjunum. Vörubílar, dráttarvélar, öskubílar ... þarf að segja meira? Það blæs heldur ekki byrlega á fjármálamörkuðum fyrir árið 2008, síst þegar olíumarkaðurinn er tekinn með í reikninginn. Það kemur heldur ekki á óvart að gullverðið heldur áfram að hækka -- náði 880 dölum í gær. Ef loftvogin hegðaði sér svona, mundu Almannavarnir þeyta flauturnar og reka fólk ofan í neðanjarðarbyrgi. Verst að loftvog efnahagskerfisins virðist ekki ræsa ráðamenn heimsins. Ef einhvern tímann var rétti tíminn til að taka í neyðarhemlana, þá var það .... fyrir svona fimm árum síðan. Það sem gerir horfurnar ennþá leiðinlegri er að það er ekkert plan B. Ég endurtek: Það er ekkert plan B! Þegar spilaborgin hrynur, hver borgar þá brúsann? Hver ber ábyrgðina? Hver gerði eitthvað sem hann átti ekki að gera eða gerði ekki eitthvað sem hann átti að gera? Sjónir okkar hljóta að beinast að ráðamönnum, fólkinu sem hefur verið við stýrið á þessari fleytu sem nú er við það að sigla fram af fossbrún með manni og mús. Það fólk ætlar ekki að sökkva með skipinu sínu, heldur er það í hraðbát og siglir í burtu.