Sunday, February 27, 2011

Royal Straight Flush

Ég sat að spilum um daginn, og fékk Royal Straight Flush, sem er hæsta höndin í póker. Þetta er tía-gosi-drottning-kóngur-ás í sama lit. Ég fékk í laufi. Ég held að það sé frekar ósennilegt að maður sem spilar frekar sjaldan fái þessa hönd oftar en einu sinni á ævinni. Það súra er að ég var ekki að spila póker heldur ólsen-ólsen.

Líbýski fáninn

Í fréttaflutningi frá Líbýu undanfarið hafa mótmælendur oft sést veifa þverröndóttum fánum rauð-svart-grænum að lit og með hálfmána og stjörnu í hvítu í svörtu röndinni. Það er skiljanlegt að þeir noti þennan fána, þetta er fáni líbýska konungsríkisins, sem var í notkun frá 1951-1969. Líbýska fánanum hefur hins vegar verið breytt, og algrænn fáni verið notaður síðan 1977, eini einliti þjóðfáni heims. Í myndartexta með frétt á RÚV.is í gær er gamli fáninn kallaður "Líbíski fáninn". Mundu menn fallast á að gamli íslenski hvítblái fáninn væri kallaður "íslenski fáninn"?

Saturday, February 19, 2011

Kjararáð og kjarasamningar

Kjararáð hækkar laun dómara. Mér finnst viðbrögð Gylfa Arnbjörnssonar skrítin. Ég hefði tekið því fagnandi að kjararáð gæfi svona tóninn fyrir kjarasamninga almennt. Hvað sem dómurum líður, þá hefðu flestir félagar í ASÍ nefnilega gott af því að fá launahækkun, og það hefði þar með gott af því að Gylfi Arnbjörnsson áttaði sig á því. Og hinn mikli verkalýðssinni Steingrímur J. Sigfússon segir að ákvörðunin sé ekki fordæmisgefandi. Bull. Auðvitað er hún fordæmisgefandi. Verkalýðssinnar mundu nota hana sem fordæmi til að krefjast almennra launahækkana, en í höndum krata og annarra hægrimanna er hún bara annars konar fordæmi: Fordæmi um að sumir eigi bara betra skilið en aðrir.

Thursday, February 10, 2011

Happadagurinn mikli

Í haust var ég einu sinni sem oftar í vinnunni, og það kom stund þar sem lítið var að gera. Til að drepa tímann greip ég spilastokk og lagði kapal. Gamla góða sjöspila-kapalinn sem allir þekkja. Í fyrsta sinn sem ég lagði hann gekk hann upp. Líka í annað skiptið. Og þriðja, fjórða og fimmta skiptið líka. Fimm sinnum í röð. Ég þurfti ekki meira til að átta mig á því að þetta var happadagur. Þannig að þegar ég kom heim fór ég út í sjoppu og keypti miða í Lottóinu og í Víkingalottóinu líka, sannfærður um að ég mundi vinna þann stóra. Ég fylgdist svo spenntur með drættinum. Og getið bara hvað: Ég vann ekki neitt. Hvaða lærdóm má draga af þessari sögu?

Tuesday, February 8, 2011

126 ára

Í fréttum Sjónvarpsins var fjallað um tvær konur, aðra frá Kúbu og hina frá Azerbaídsjan, sem eru báðar 126 ára að sögn, og hafa skilríki (ömmu sinnar?) til að sanna það. Þessi frá Azerbaídsjan, verð eǵ að segja, er ern eftir aldri. Hún lítur ekki út fyrir að vera deginum eldri en 110 ára.

Eldey tveggja ára

Eldey átti tveggja ára afmæli á dögunum. Við höfðum ákveðið með löngum fyrirvara að halda smábarna-ball af því tilefni. Í desember fékk hún æði fyrir Múmínálfa-teiknimyndum, sem enn stendur. Þannig að okkur þótti eðlilegt að reyna að hafa Múmínálfa-þema. Fundum hvergi glös, diska né servíettur með Múmínálfunum -- en ákváðum hins vegar að hafa köku sem yrði einhver persóna úr teiknimyndunum. Spurðum afmælisbarnið hver það ætti að vera. Hún vildi hafa Múmínmömmu. Þannig að Múmínmamma var það. Ég efast um að Múmínmamma sé vinsælasta persónan hjá mörgum börnum. En hún er svo sem vel að því komin.

Orð númer tvö

Bragi sonur minn er orðinn níu mánaða og ég dáist að því hvað færni hans eykst hratt. Hann stóð í fyrsta sinn óstuddur í gær, stutta stund. Og fyrir nokkrum dögum sagði hann orð númer tvö. Fyrsta orðið var hið fyrirsjáanlega "mamma". Annað orðið? Jú: Kisa. Ekki pabbi, heldur kisa. Eftir áhugamálunum að dæma býst ég eins við því að þriðja orðið verði "Eldey".