Thursday, September 30, 2010

Öfga hvað?

Það er öruggast að ég útskýri þarsíðustu bloggfærslu mína:
Er Sóley Tómasdóttir öfga-femínisti á sama hátt og Steingrímur J. Sigfússon er öfga-sósíalisti? Nei, nefnilega ekki. Margt hefur verið sagt um Sóleyju, og meðal annars oft af ósanngirni, en ég hef aldrei heyrt neinn efast um að hún sé sannur femínisti. Steingrímur hefur hins vegar "ekki kosið að orða það þannig" að hann sé sósíalisti, og hann hefur heldur ekki kosið að hegða sér þannig eftir að hann komst til valda. Þess vegna skýtur það skökku við að kalla hann öfga-sósíalista, og femínisma Sóleyjar er enginn greiði gerður með því að líkja honum við sósíalisma Steingríms.
Þá ætti það að vera komið á hreint.

Wednesday, September 29, 2010

Burt með draslið!

Eins og bæði Smugan og RÚV greina frá, liggur fyrir umhverfis- og samgönguráði Reykjavíkurborgar tillaga Þorleifs Gunnlaugssonar um að "blómakerin" fyrir framan bandaríska sendiráðið verði fjarlægð. Þótt fyrr hefði verið, og það mætti fjarlægja sendiráðið með þeim.
Í alvöru talað: Ef þetta sendiráð álítur sjálft sig vera skotmark hryðjuverkamanna, þá er fáránlegt að það skuli vera inni í miðju íbúðahverfi. Er það að reyna að skýla sér á bak við óbreytta borgara, eða hvað?

Af aðalfundi VG í Reykjavík

Það fór blanda af kurri og flissi um salinn þegar fleyg orð kvöldsins féllu af vörum fráfarandi formanns undir liðnum skýrslu stjórnar: "Sóley Tómasdóttir er öfgafemínisti", sagði hann, "á sama hátt og Steingrímur J. Sigfússon er öfgasósíalisti."

Heiður og sök foringjans

Segjum að Geir H. Haarde hefði tekist að hlífa landinu við verstu skellina af kreppunni og almennt staðið sig með viðunandi hætti sem forsætisráðherra. Ætli hann hefði einn fengið heiðurinn? Ætli það.

Annað: Segjum að Vinstri-græn, en ekki Sjálfstæðisflokkurinn, hefðu verið í hrunstjórninni ásamt Samfylkingu og allt hefði farið eins og það fór. Ætli Sjálfstæðismenn hefðu allir sem einn greitt atkvæði gegn því að ákæra Steingrím J. Sigfússon? Ætli það.

Tuesday, September 28, 2010

Fífl og asnar á Alþingi

Þeir Alþingismenn sem létu þrjá fávita sleppa við ákæru, og reyndu án árangurs að hlífa þeim fjórða, hafa sýnt að þau hafa ekkert lært, hafa engan vilja til að gera upp við fortíðina og hafa engan áhuga á að réttlætið nái fram að ganga. Umræddir Alþingismenn eru sjálfum sér og þinginu til skammar. Því verður haldið til haga hvernig hver og einn greiddi atkvæði í dag.

Gull sprengir skalann

Gullverðið rauf 1300 dollara múrinn fyrir fáum klukkutímum síðan (sjá rauntíma-línurit yfir gullverð). Það gerir um það bil 30% hækkun á einu ári. Það er ekki til mikið einfaldari og raunsærri loftvog á horfurnar í hagkerfum heimsins, heldur en gullverðið. Þegar það hækkar, þá eru horfurnar slæmar. Kreppan að verða búin? Ætli það.

Aðalfundur VGR

Fundurinn í gærkvöldi var glæsilegur, og það var niðurstaða hans einnig. Til hamingju, þið sem voruð kosin, og til hamingju VG-félagar í Reykjavík með þessa flottu stjórn. Veturinn byrjar vel.

Að gefnu tilefni: Norður-Kórea

Það er ekki til neitt sem heitir "Kommúnistaflokkur Norður-Kóreu". Kommúnistaflokkur Kóreu var lagður niður á fimmta áratugnum, en flokkurinn sem þingar núna í Norður-Kóreu heitir Verkamannaflokkur Kóreu.

Monday, September 27, 2010

Könnun Fréttablaðsins og mín túlkun

Ólafur Þ. Harðarson álítur að það bendi til almennrar þreytu á stjórnmálaflokkunum, að nálægt helmingur svarenda í Fréttablaðskönnuninni hafi ekki lýst stuðningi við neinn þeirra.

Það þarf nú ekki prófessor í stjórnmálafræði til að fatta þetta, ég hélt að þetta vissu allir.

Í borgarstjórnarkosningunum í vor rústaði Besti flokkurinn öllum hinum flokkunum. Hann var hannaður til þess að gera það og þeir voru (augljóslega) ekki hannaðir til að standast svona áhlaup. Sigur Besta var (augljóslega) öskur kjósenda á breytingar.

Það skal enginn halda því fram að vond frammistaða Vinstri-grænna í ríkisstjórn hafi ekki spillt fyrir flokknum í þessum kosningum. Fólk sem kaus VG í síðustu þingkosningum, og varð svo fyrir vonbrigðum með frammistöðuna, sneri eðlilega margt hvert baki við flokknum í næstu kosningum. Og mun gera það áfram. Þetta fólk kvarnast vinstra megin út úr flokknum og út úr fylginu.

Mín túlkun er einföld: Íslendingar eru í hrönnum að gefast upp á borgaralegum stjórnmálum. Hér höfum við ákveðin mál sem er einfaldlega ekki hægt að leysa nema til komi almennileg pólitísk forysta sem þorir að leggja í fjármálaauðvaldið. Slíkri forystu held ég að margir væru tilbúnir til að fylgja og hún gæti valdið straumhvörfum í íslenskum stjórnmálum.

Og meira en það: Hún gæti valdið byltingu í íslenskum stjórnmálum. Og bylting er einmitt það sem þetta land þarfnast. Sósíalísk bylting.

Hinn gríski Gylfi

Rúv greinir frá:
Stéttarfélög á almennum vinnumarkaði í Grikklandi ætla ekki að taka þátt í aðgerðum með opinberum starfsmönnum þann 7.október til að mótmæla efnahagsráðstöfunum ríkisstjórnarinnar.

Talsmaður félaganna segir að þrátt fyrir að þau hafi staðið fyrir margs konar aðgerðum til að sýna andstöðu sína í verki, hafi eigi að síður verið farið að fyrirmælum Evrópusambandsins og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins í efnahagsmálum. Frekari verkföll skili því líklega engum árangri og óljóst sé hvers konar aðgerðir gegn stjórnvöldum geti skilað árangri.

Það mætti halda að hinn týndi tvíburabróðir Gylfa Arnbjörnssonar sé forseti ASÍ í Grikklandi. Ákveðið en kurteislega orðuð bréf geta mögulega haft áhrif á einhverja stjórnmálamenn, en öfugt við þau eru verkföll ekki bara tjáningarmáti heldur líka baráttuaðferð. Munurinn er deginum ljósari, nema í augum örgustu krata. Það sér hver sem vill sjá, að ef verkföllin hafa ekki skilað tilætluðum árangri ennþá, þá hafa þau ekki verið nógu sterk. Hvað er svarið við því? Draga úr þeim? Það er ýmislegt sem er ólíkt í Grikklandi og á Íslandi, en þarna er að minnsta kosti eitt sem við eigum sameiginlegt: Handónýt forysta á almenna vinnumarkaðnum.

Sunday, September 26, 2010

Enginn marxisti

Ed Miliband segist ekki vera marxisti. Skrítið. Ætli það séu margir marxistar í breska Verkamannaflokknum? Einhverjir trotskíistar munu ennþá vera þar, en ætli þeir séu í það sterkri stöðu að formaðurinn komi úr þeirra röðum? Ætli það...

Thursday, September 23, 2010

Grjót og byssukúlur

RÚV greinir frá, leturbreytingar mínar:

Fyrr í dag skaut ísraelskur öryggisvörður Palestínumann til bana í Austur-Jerúsalem. Maðurinn var í hópi palestínskra mótmælenda sem tókst á við bókstafstrúarmenn við landtökubyggð gyðinga. Öryggisvörðurinn segist hafa skotið af því að Palestínumaðurinn hafi kastað steinum í bíl hans.

"Save As: Love"

Vigfús Grafarvogsprestur sagðist, í fréttum í gær, vilja að skilnaður sé erfitt og flókið ferli. Hvers vegna? Fæstir gera það að gamni sínu, að skilja við maka sinn, og skilnaðir eru að því leytinu jákvætt fyrirbæri, að þeir binda oftast endi á vansæl sambönd. Þeir eru lausn á vanda, ekki vandi í sjálfu sér. Þess vegna á auðvitað að vera einfalt að skilja. Vigfús hvatti fólk í skilnaðarhugleiðingum til að leita til kirkjunnar. Hvers vegna ætli hann hvetji fólk ekki til að leita frekar hjónabandsráðgjafa? Menn segja stundum að lögfræðingar, eins og þeir sem stofnuðu vefinn skilja.is, séu hrægammar. En prestar eru það líka. Vigfúsi væri nær að segja af sér fyrir að hylma yfir með kynferðisbrotamanninum Ólafi Skúlasyni, heldur en að þykjast vera einhver séra Love.

Tuesday, September 21, 2010

Landsdómur

Flokkarnir sem brugðust þjóðinni í hruninu, með æðislega slakri frammistöðu í ríkisstjórn, ætla ekki að bregðast sínu eigin fólki heldur koma því undan ábyrgð, undan Landsdómi. Það er hlægilegur fyrirsláttur að Landsdómur sé gamaldags. Voru allir þessu hámenntuðu spekingar að fatta það í gær að Landsdómur væri hluti af formlegu réttarkerfi landsins? Af hverju datt þeim ekki í hug að gera athugasemdir fyrr? Og með lög eða lögleysu, er stjórnarskráin ekki æðst laga í ríkinu? Trompar hún ekki þar með öll önnur lög? Ég bara spyr.

Monday, September 20, 2010

Nímenningar

Nímenningamálið er hneyksli. Pólitískar ofsóknir og rógur af hálfu durga í fjölmiðlum og stjórnmálum eru til skammar. Það er aðeins eitt sem er rétt að gera úr því sem komið er, það er að ákærurnar verði dregnar til baka tafarlaust og hlutaðeigandi beðin auðmjúklega afsökunar á meðferðinni. Ef það verður ekki gert eru allir sem koma að þessum ofsóknum með varanlegan blett á mannorðinu.

Gleraugnagreining á hruninu

Ég fagna því sem Atli Gíslason og fleiri hafa stungið upp á, að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis, og raunar efnahagshrunið í heild, verði skoðuð með kynjagleraugum. Þá mun staðfest það sem við öll vitum vel, að eigendur og stjórnendur fjárglæfrafyrirtækja eru flestir hverjir karlar. Það eru mjög gagnlegar upplýsingar.

Ég vil þá, til samanburðar, í leiðinni leggja til að efnahagshrunið verði líka skoðað með stéttagleraugum. Kannski að þá kæmi líka eitthvað áhugavert í ljós? Ætli það geti t.d. verið, sem marga grunar, að kapítalistar hafi verið í meirihluta þess fólks sem sigldi hagkerfinu í strand? Það væri gaman að vita það.

Ef það á að breyta einhverju hérna, læra af reynslunni og byrgja brunninn, hvort ætli sé þá gagnlegra að skoða gerendur hrunsins sem karla eða sem kapítalista? Hvort ætli sé betra til að glöggva okkur á hruninu, kynhormón eða hagfræði?

Friday, September 17, 2010

Biskupinn í Fréttablaðinu í dag

Karl Sigurbjörnsson skrifar í Fréttablaðið í dag, um rasisma og mál kúbönsku feðganna. Hann mætti kveða svona fast að orði um kynferðisafbrotamenn og þá sem halda hlífiskildi yfir þeim. Ég hef það á tilfinningunni að hvatinn að baki greininni í dag sé að dreifa athyglinni.

Landsdómur: Erfitt fyrir alla?

Alþingismenn -- í það minnsta einhverjir þeirra -- barma sér yfir því hvað þetta landsdóms-mál sé erfitt fyrir þá alla. Hvað er þetta eiginlega, hvað er svona erfitt? Er eitthvað erfitt við það að draga fólk, sem allir vita að ber mikla sök, fyrir rétt? Er ekki hægt að framfylgja réttlætinu í þessu landi? Þeir einu sem ekki kannast við sök Geirs, Ingibjargar eða hinna eru fólk sem er annað hvort heilaþvegið eða hefur annarlegra hagsmuna að gæta, nema hvort tveggja sé. Foringjahollusta einstaklingshyggjumanna er, á dapurlegan hátt, aðdáunarverð. Geir sjálfur væri samt bara hlægilegur ef hann væri ekki svona sorglegur. Hann segist ekki bera höfuðábyrgð á því að hér hafi orðið hrun. Það var og. Ég man ekki eftir að hafa heyrt neinn nema hann sjálfan tengja hann við höfuðábyrgð á sjálfu hruninu. Svona útúrsnúningar eru annað hvort merki um aulahátt, ellegar þá um að hann álíti landsmenn þá aula að taka mark á þeim. Geir klúðraði hins viðbrögðunum við hruninu, sem hann bar ábyrgð á, bæði með heimskupörum og aðgerðaleysi. Já, og svo minnir mig að hann hafi haft eitthvert hlutverk í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, og það var víst ekki við að sækja samlokur fyrir Davíð. Ætli hann hafi ekki haft eitthvað að segja um uppbyggingu hinna háreistu spilaborga auðvaldsins?

Wednesday, September 15, 2010

Réttarríkið Ísland

Ég sá í fréttum um daginn einhverja Alþingiskonu segja að við skyldum nú ekki gleyma því að við byggjum við réttarríki. Ég skellti upp úr. Hún ætti að prófa að segja það við Sævar Ciesielski. Nú, eða einhverja af flóttamönnunum sem hefur verið vísað burt og til Grikklands. Nú, eða nímenningana sem Alþingi ætlar að hefna sín á. Fyrir svo utan alla óþokkana sem réttlætið nær ekki yfir. Réttarríki, einmitt. Réttar- og lýðræðisríki. Og mannréttinda líka. Haha.

Tuesday, September 14, 2010

Brandari

Hvað sagði trotskíistinn við hinn trotskíistann?
"Þú ert dogmatískur."

Sleppið Björgvini

Ég er eiginlega á því að það beri ekki að ákæra Björgvin. Ég held að hann sé ekki sakhæfur, í pólitískum skilningi. Ég held að hann hafi verið plataður til að taka að sér þetta starf, til þess að honum klárara fólk gæti stjórnað honum.

Friday, September 10, 2010

Hreinsunin mikla

Það var grein eftir mig á Vantrú í gær, lesið hana: Hreinsunin mikla: Opið bréf til presta íslensku ríkiskirkjunnar.

Thursday, September 9, 2010

Random heiður

Það var einhver almannatengill í sjónvarpinu í gær að segja frá því að hún hefði verið valin af handahófi á þjóðfund um stjórnarskrá. Hún sagði að henni fyndist þetta mikill heiður. Hvernig getur það verið heiður ef valið er handahófskennt?

Best of both worlds

Það voru mér mjög gleðileg tíðindi að Þráinn Bertelsson skyldi ganga í VG. Í síðustu alþingiskosningum þurfti ég nefnilega að neita mér um þá miklu freistingu að strika hann út. Kannski að ég geti látið það eftir mér í þeim næstu.