Friday, July 20, 2007

Kenning um hugrænt misræmi

Jón Karl Stefánsson skrifar á Eggina: Kenning um hugrænt misræmi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Edinborgarsella Saving Iceland slettir málningu á ræðisskrifstofu Íslands þar. Sjáið viðbrögð allra Moggabloggaranna til hliðar við fréttina. Eru það svona fáir sem styðja aðgerðir af þessu tagi, eða þora þeir bara ekki að tjá sig um það? Hvað er málið með fólk sem skilur ekki að anarkistar, eins og fleiri, líta ekki á lög sem heilög og sjá ekki ástæðu til að fara eftir þeim bara af því þau eru lög?

Útlendingar með leikrit afla málstaðnum ekki fylgis. Þeir einu sem geta stöðvað þessa stóriðjustefnu eru Íslendingar sjálfir og sá sem vill að það verði gert þarf að vinna þá á sitt band. Byltingin verður ekki gerð með ídealíska ævintýramennsku sem leiðarstjörnu, því miður.

Thursday, July 19, 2007

Ingibjörg í Miðausturlöndum

Það var grein eftir mig á Egginni í gær: Ég er líka á móti þessari ríkisstjórn. Lesið hana.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég verð að játa að það eru vonbrigði, að þegar utanríkisráðherra Íslands fer til Palestínu -- og það var tímabært -- þá séu það Abbas og Fayed sem séu helstu viðmælendur hennar af hálfu Palestínumanna. Að vísu reikna ég með að fundurinn með Hanan Ashrawi hafi verið gagnlegur. Ashrawi veit hvað hún syngur. Það hljómar illa að hún hafi ekki heimsótt Gaza „af öryggisástæðum“ -- það liggur í augum uppi að ef Ingibjörg Sólrún vill fara til Gaza til viðræðna við Hamas-menn, þá mun Hamas ábyrgjast öryggi hennar á meðan. Létu hún og utanríkisráðuneytið Ísraela og Fatah-kvislingana ljúga því að sér að það væri ekki öruggt? Hvers vegna kalla ég þá kvislinga? Jú -- í fyrsta lagi eru margir af forystumönnum Fatah hrein og bein handbendi Ísraels. Má þar nefna Abbas og Fayad sjálfa, auk Mohammeds Dahlan, svo dæmi séu nefnd. Það sést hreinlega af verkum þeirra, eins og þegar þeir leystu þjóðstjórnina upp og nú síðast þegar Abbas bað um að Gaza yrði áfram haldið í svelti. Ég sé bara ekki hvaða gagn það gerir að tala við svona menn, samverkamenn Ísraels, og sleppa því að ræða við Hamas.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í morgun birti Eggin fréttatilkynningu frá Saving Iceland vegna aðgerða gærdagsins: Saving Iceland loka veginum að Grundartanga. Umfjöllunin um þetta mál hefur verið með mestu ólíkindum. Moggabloggarar eru þar athyglisvert dæmi, þar sem menn keppast við að dæma þetta fólk í útlegð eða til dauða fyrir að stöðva vinnu. Borgari Þór Einarssyni finnst t.d. „sannir náttúruverndarsinnar eiga ... litla samleið með því hampreykjandi hippapakki“ -- nei, ætli sannir náttúruverndarsinnar kjósi ekki Sjálfstæðisflokkinn og stóriðjustefnuna í hans augum!? Borgar kemst annars skemmtilega að orði: „Fjölmiðlar hafa veitt þessum söfnuði óskaplega athygli og fer þar fremst í flokki Morgunblaðið, kirkja skandífasismans.“ Hvað er „skandifasismi“?
Það er svo annað mál hversu gagnlegar aðgerðir Saving Iceland eru. Ég hef svosem áður gert athugasemdir við þær og sé ekki ástæðu til þess hér og nú, en ætla bráðlega að skrifa um þær.
Að því sögðu, þá tókst löggunni greinilega betur til við Grundartanga heldur en sumarafleysingafólkinu sem hegðaði sér eins og ruddar á Snorrabrautinni.
Hvað er annars málið með þennan heimskulega spuna sem veður uppi? Atvinnumótmælendur, hvað er það? Veit einhver til þess að einhver hafi þegið laun fyrir umhverfisaktífisma? Hvers vegna finnst engum neitt athugavert við að það séu til atvinnumeðmælendur, eins og t.d. Hrannar Pétursson eða Erna Indriðadóttir, nú eða Friðrik Sófusson eða Rannveig Rist? Er allt í lagi að hafa atvinnu af meðmælum, semsagt? Og hvað er málið með klisjuna „þarf þetta fólk ekki að vinna?“? Segir það sig sjálft að fólk sé atvinnulaust ef það kemur hingað til að mótmæla? Ég skil ekki í því. Er ekki sumar? Er ekki fjöldi fólks í sumarfríi?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
VG lýsa áhyggjum af undirbúningi við ný álver -- hvar er Fagra Ísland núna?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Kársnesingar eru gramir vegna landfyllinga -- ef gremjan er næg þá stöðva þeir þær bara. Þeim er það í lófa lagið. Það verður engin landfylling gerð við Kársnes ef Kársnesingar samþykkja það ekki. Í þessu tilfelli er þögn sama og samþykki, og það jafngildir líka samþykki ef fólk situr á rassinum þegar mótbárurnar eru virtar að vettugi.

Monday, July 16, 2007

Það er magnað hvað það eru margir sem finnst ekkert sjálfsagðara en að lögreglan sveifli kylfunum í hausinn á fólki sem lokar fyrir umferð í mótmælaskyni á Snorrabraut. Eru umhverfisverndarsinnar bara asnar sem er réttast að lemja með kylfu ef þeir mótmæla öðruvísi en að standada með sultardropa á Austurvelli? Díses, ég er viss um að þegar stéttabaráttan harðnar aðeins og fasismi kemst virkilega á flug aftur, þá mun Valdið eiga nóg inni hjá afturhaldssömum Íslendingum. Ég meina, kommon, lögregluofbeldi? Ég veit með vissu -- með vissu -- að löggurnar beittu "disproportionate" valdi til að koma mótmælendunum á kné á laugardaginn. Þær beittu ofbeldi þar sem ofbeldis var ekki þörf. Fólk var snúið niður fyrir ekki neitt. Rúða brotin í bíl, bílstjórinn tekinn -- og aðrar löggur brostu í kampinn á meðan. Hverju sætir þetta? Hvað vann þetta fólk til saka? Díses, löggan mætti alveg slaka aðeins á. Og ýmsir Moggabloggarar líka.
Einar Rafn Þórhallsson skrifaði á Eggina á laugardaginn: Lögregluofbeldi á Snorrabrautinni í dag. Lesið það.
Trúið þið því að mannréttindabrot geti átt sér stað á Íslandi?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ísraelar sleppa 250 palestínskum föngum --- og ef ég þekki þá rétt eru það næstum því allt saman fangar sem átti að sleppa eftir viku hvort sem er.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég er svo bit yfir vitleysunni sem ég les á Moggablogginu að allt það vitræna sem ég les þar fellur í skuggann. Þessa stundina er Moggablogg off í mínum bókum. Lesið samt Hlyn.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Stendur til að taka Taser-byssur í notkun hjá löggunni hérna?? Er þetta grín? Halda menn að þetta sé saklaust barnaglingur? Er það æskilegt að löggan beiti meira ofbeldi?

Monday, July 9, 2007

Af stóriðju- og umhverfismálum

Skoðið Alcoa Defense og sjáið hvað besta fyrirtæki í heimi er umsvifamikið í hergagnaiðnaðinum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Lesið úttekt Einars Rafns Þórhallssonar á seinni degi ráðstefnunnar sem var austur í Ölfusi um helgina.
Mogginn í dag er 40 blaðsíður. Fasteignablaðið er 64 blaðsíður.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ísraelar þykjast ætla að sleppa föngum til að styrkja Abbas. Er það ekki bjarnargreiði við lepp sinn að afhjúpa hann svona? Hvað hugsar hinn almenni Palestínumaður? Styður hann þann sem Ísraelar styðja? Mundu Ísraelar styðja raunverulega baráttumenn fyrir réttlæti og þjóðfrelsi? Ætli það?

Saturday, July 7, 2007

07:07, 07. 07. '07
Sveinn Andri Sveinsson stofnar blogg til að verja mannorð sitt fyrir vondu Moggabloggurunum sem eru ósáttir við sýknudóminn yfir nauðgaranum sem hann varði. Skrifar pistil þar sem hann rekur viðhorf sín, miklar umræður spinnast og áður en við er litið er hann búinn að eyða blogginu sínu -- þ.e.a.s. síðunni, ekki færslunni. Síðan var horfin þegar ég ætlaði að forvitnast um þetta, en ég fékk afrit af færslunni í pósti. Ég er ekki viss um að Sveinn hafi gert mannorði sínu svo mikið gagn með því að byrja á þrefi yfirhöfuð. Ef hann hefði haldið sig til hlés hefðu flestir verið búnir að gleyma þessu eftir viku.
Jón Karl Stefánsson skrifar á Eggina: Um nýlendustefnuna og Grænland. Okkur hættir til að gleyma því að landið við hliðina á okkur er fórnarlamb heimsvaldastefnu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Félagi Rafauga kemst vel að orði eins og fyrri daginn, um mannskæða loftárás í Afghanistan:

Árásarmennirnir sýndu ekki einu sinni þá sjálfsögðu kurteisi að drepa sjálfa sig í leiðinni.
Á meðan lesum við um djóksprengjur á Bretlandi. Hve lélegir geta terroristar eiginlega verið?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er núorðið ekki svo margt, held ég, sem ég lúsles á netinu. Eitt af því er What's New eftir eðlisfræðinginn Robert Park í Maryland. Það er fróðlegt og hressandi að lesa hispurslaus skrif eftir mann sem vit er í.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Doddi benti á grein sem ég vil hér með benda á líka. Hugmyndasamkeppni um einföld, hugvitssamleg og gerleg hryðjuverkaplott.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Eins og glöggir lesendur hafa án efa tekið eftir, þá hef ég tekið aðeins til í tenglasafninu hér til hliðar. Ég hef ekki hent mörgum tenglum út (nokkrum þó), en raðað mörgum þeirra upp á nýtt, auk þess sem ég hef lagað innsláttarvillur og fleira þvíumlíkt sem hefur farið í taugarnar á mér lengi.

Thursday, July 5, 2007

Ruslpóstur

Ég fékk ruslpóst um daginn, frá íslensku vefsíðunni spilverk.com. Þar stóð mér ýmislegt fínerí til boða á "ótrúlegum verðum" eins og það var orðað. Þegar ég svaraði og spurði hvar þeir hefðu fengið netfangið mitt og hvenær ég hefði samþykkt að fá auglýsingapóst, þá svaraði einhver Sigþór (eða, réttara sagt, svaraði ekki) og sagði að netfangið mitt væri "út um allt internet". Hann hlýtur að hafa verið að skoða eitthvert af bloggunum mínum, eða þá heimasíðu Félagsins Ísland-Palestína, því það eru síðurnar sem mín eigin Google-leit skilaði mér þegar ég sló netfanginu upp. Jæja, ég sagði honum að taka netfangið mitt af þessum lista þeirra og það undir eins. Ég veit ekki betur en hann hafi gert það.
Ég er hins vegar forvitinn. Hverjir aðrir fengu þennan póst? Mér þætti fróðlegt að heyra hverjir aðrir fengu sama sent og ég. Er nokkur af mínum kæru lesendum í þessum hópi? Svona, látið nú í ykkur heyra.

Hryðjuverk og Moggi

Hvaða andskotans rugl er þetta? Var dómstóll dæmdur? Þetta er komið út í vitleysu. Mogginn ætti að skipta um prófarkarlesara. Og talandi um prófarkarlestur, þá ætti ritstjórnin líka að sjá sóma sinn í því að ritstýra minningargreinum og hafna þeim sem eru ekki prenthæfar. Kannski að þessi hnignandi vandvirkni sé í einhverjum tengslum við þynnri og þynnri Mogga.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Páll Hilmarsson hitti naglann á höfuðið: Alþjóðleg hryðjuverkasamtök.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Enn um Morgunblaðið: Þessi leiðari, Ný tegund hryðjuverkamanna, fær mig til að reyta af mér höfuðprýðina. Auðvitað er ekki aðalatriðið að hefna sín á þessum örmu Serkjum sem eiga að hafa framið tilræði við frelsið okkar elskaða. Það þarf ekki einu sinni að pynda þá við yfirheyrslur til að skilja "hvers vegna þetta fólk grípur til svona aðgerða" -- ég get sagt fólki það, og það þarf ekki einu sinni að pynda mig til þess. Stundum gæti maður samt haldið að það þyrfti að beita pyndingum til þess að fá ráðamenn til að hlusta. Dæs.

Wednesday, July 4, 2007

Kerfill...

Náttúrufræðistofnun hvetur til aðgerða gegn kerfli. Heyr heyr, segi ég, orð í tíma töluð! Kerfill er eitthvað illviðráðanlegasta skrímsli sem ég hef att kappi við. Undanförnum mánuðum hef ég varið að verulegu leyti í að kljást við hann í bakgarðinum. Hann er með geitungum og minkum í hópi lífvera sem ég vildi sjá upprættar á landinu.
Ég var mjög mótfallinn því á sínum tíma, að Íbúðalánasjóður hækkaði lánshlutfallið úr 75% í 90%. Nú vill Jóhanna lækka það í 80%. Eins sakleysislega og þessar tölur kunna að hljóma, þá er þetta spurning um hvort fólk getur leyft sér að kaupa fjórfalt, fimmfalt eða tífalt dýrara húsnæði en sem nemur peningunum sem það hefur til ráðstöfunar, undir ákveðnum mörkum þó, nema ég hafi misskilið eitthvað hrapallega. Er rétt að lækka hlutfallið? Bitnar það á þeim tekjulægstu og þeim sem eru að koma sér þaki yfir höfuðið? Eða er þetta nauðsynleg aðhaldsaðgerð til þess að lækka geipiverð á fasteignamarkaði, þótt hún sé sársaukafull fyrir suma?
Ég hallast að því að þetta sé hið rétta í stöðunni, að öðru óbreyttu. Offramboð á lánsfé til þess að kaupa húsnæði þýðir aðeins eitt, og það er óeðlilega mikil eftirspurn, með tilheyrandi óeðlilega háu verði. Varla hagnast hinir verst settu á því, eða hvað? Offramboðið gagnast fyrst og fremst auðvaldinu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Alcoa hækkar yfirtökutilboðið í Alcan. Það verður rækilegur halli á Íslandi ef þessi tvö fyrirtæki sameinast. Ekki er nú á það bætandi.

Skemmtileg vísa, og önnur til

Ég man ekki hvort ég hef hent þessari hingað áður eða ekki, en í öllu falli verður hún seint of oft kveðin. Hún lýsir landkostum á Reykhólum á Barðaströnd:

Söl, hrognkelsi, kræklingur,
hvönn, egg, reyr, dúnn, melur,
kál, ber, lundi, kolviður,
kofa, rjúpa selur.
(Eiríkur Pálsson)
Hér er önnur, ekki síður hress:
Veröld fláa sýnir sig,
sú mér spáir hörðu.
Flest öll stráin stinga mig
stór og smá á jörðu.
(Þjóðvísa, eftir því sem ég kemst næst)

Tuesday, July 3, 2007

Eitt og annað...

Elías Davíðsson skrifar: Svæsin áróðursskrif Davíðs Loga Sigurðssonar í Morgunblaðinu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ætli þessi hafi verið að tuska leigt vinnudýr til? Er það ekki það sem þetta er vant úr heimalandi sínu, samkvæmt einum innflytjanda verkafólks til leigu?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ingibjörg fræðist um flóttamenn í Írak -- hvað eigum við að bíða lengi eftir því að Ísland segi sig frá stuðningi við þetta hernám?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hvaða andskotans della er þetta? Skíðishvalir éta svif, það sama og loðnan étur, sem þorskurinn étur síðan, er það ekki? Einhvern tímann heyrði ég að eitt kíló af þorski þyrfti að éta ca. tíu kíló af loðnu, sem aftur þyrftu að éta hundrað kíló af svifi. Leiðréttið mig endilega ef ég fer með rangt mál. Skíðishvalur þarf að éta ca. tíu kíló af svifi fyrir hvert kíló af kjöti, skv. sömu þumalputtareglu. Þannig að til að styrkja þorskstofninn um eitt tonn þarf að drepa tíu tonn af hval. Núna eru veiddir einhverjir tugir hvala, úr stofnum sem hlaupa á þúsundum dýra. Skil ég það ekki rétt, að það hafi sama og engin áhrif á stofninn? Skil ég það ekki rétt að það þyrfti að drepa þúsundir hvala til þess að hafa mælanleg áhrif á þorskstofninn? Á svo að selja þetta í hundamat eða hvað?