Monday, October 5, 2009

Erfðasynd VG?

Þegar ég sé talað um klofninginn í þingflokki VG þykir mér það ríma við það sem mætti kannski kalla erfðasynd flokksins, að hafa aldrei gert upp við sig afstöðuna til auðvaldsskipulagsins. Með því að skilja þá spurningu eftir óútkljáða hefur verið hægt að sameina sósíalista og krata í einum flokki, -- en getur sú sameining staðið lengur en spurningin er óútkljáð? Á þetta reynir þegar flokkurinn er kominn til valda. Það er undansláttur að láta eins og spurningin skipti ekki máli.

Spurningin er þessi: Erum við sameinuð til þess að mynda gott og réttlátt samfélag eða til þess að betrumbæta kapítalismann? Þetta eru tvö aðskilin og ósamrýmanleg markmið. Til þess að skapa gott og réttlátt samfélag er höfuðverkefnið að losa það við helstu uppsprettu spillingar og ranglætis, sem er kapítalisminn. En með því að betrumbæta kapítalismann eru lífdagar hans framlengdir og með þeim ranglætið og spillingin.

Ef flokkurinn skorast undan því að svara spurningunni opinskátt og heiðarlega -- og ætlar þannig að komast hjá því að gera upp á milli sinna eigin félaga -- þá sýnir hann svarið í staðinn af verkum sínum. Hingað til er ferillinn ekki beysinn, verður að segjast. Það er greinilegt að kratar fara með völdin í þessari ríkisstjórn.

Ég er sósíalisti og ég verð ekki ánægður með þjóðskipulagið á meðan það er kapítalískt. Ég hef engan áhuga á sýndarmennsku í þessum efnum og er að því leyti hrifnari af heiðarlegum auðvaldsseggjum heldur en krötum sem látast bera hag fólksins fyrir brjósti en reynast svo vera höfuðstoð auðvaldsins þegar á reynir og hafa ekkert að bjóða annað en IceSave-skuldir, Alþjóðagjaldeyrissjóð og samband evrópskra auðhringa. Hver þarf hægristjórn þegar maður hefur svona vinstristjórn?

Ítarefni: Grein mín VG og sósíalisminn, skrifuð eftir landsfund VG í vor.

No comments:

Post a Comment