Wednesday, November 29, 2017

af gekk og kjötið af knjánum

Nú leika þeir, og hefur Þorgrímur ekki við, felldi Gísli hann og bar út knöttinn. Þá vill Gísli taka knöttinn, en Þorgrímur heldur honum og lætur hann eigi því ná. Þá fellir Gísli svo hart Þorgrím, svo að hann hafði ekki við og af gekk skinnið af knúunum, en blóð stökk úr nösunum, af gekk og kjötið af knjánum. Þorgrímur stóð seint upp. Hann leit til haugsins Vésteins og mælti:
Geir í gumna sárum
gnast. Kannk ei þat lasta.

Wednesday, November 8, 2017

Hátíðarræða flutt í Iðnó á byltingarafmælinu 7. nóvember 2017

Góðir gestir,

í dag eru 100 ár frá Októberbyltingunni. Í dag, og þessa dagana, kemur fólk saman um víða veröld og fagnar líkt og við. Við erum ekki komin saman til að biðjast afsökunar, heldur til að fagna sigrum! Við getum öll haldið upp á þetta afmæli, því að þótt Októberbyltingin hafi að sönnu verið rússnesk, er hún um leið okkar allra. Saga hennar og lærdómarnir sem við drögum af henni eru sameign okkar allra, okkar allra sem þráum að draga andann frjáls og byggja í sameiningu réttlátt þjóðfélag. Sigrar Októberbyltingarinnar eru sigrar okkar allra.

Fyrir hundrað árum síðan voru miklar hræringar í Rússlandi, milljónaþjóð ekki lengur tilbúin til að halda áfram undir arftekinni kúgun aldanna, heldur tilbúin til að taka völdin í sínar hendur, og þar með eigin örlög. Þetta er efnið sem byltingarástand er gert úr, en ástæða þess að þessi bylting fór ekki út um þúfur heldur varð sigursæl er að alþýðan var leidd af vel skipulögðum byltingarflokki, sem var vopnaður skýrri byltingarkenningu og einbeittum vilja og haldið við efnið af knýjandi sögulegri nauðsyn.

Heimsskoðun verkalýðssinna, díalektísk og söguleg efnishyggja, er gagnleg til að skoða sögu byltingarinnar, og sjá í gegn um ódýrar skýringar tækifærissinna og borgaralegra sófafasista og sunnudagshvítliða. Í ljósi hennar getum við dregið lærdóma sem duga okkur í byltingum framtíðarinnar, lærdóma bæði af því sem heppnaðist vel og því sem heppnaðist illa.

Díalektísk og söguleg efnishyggja kennir okkur að sagan mótar samtíðina. Sjálf byltingin, hvernig hún sigraði í borgarastríði og hvernig hún festist loks í sessi, stjórnarfar Ráðstjórnarríkjanna, allt er þetta mótað af fortíð Rússlands, sterkri hefð fyrir vægðarlausri valdabaráttu og svikráðum, sem lifði ekki bara byltinguna heldur lifði fram yfir hrun Ráðstjórnarríkjanna og fram á okkar dag.

Hún kennir okkur að þekkja hafrana frá sauðunum, að þekkja mistökin frá glæpunum, að þekkja dygðir sósíalismans frá rótgrónum hugsunarhætti lénstímans eða breyskleikum spilltra manna.

Hún sýnir okkur að fyrir 100 árum síðan var hinn valkosturinn ekki eitthvert borgaralegt þingræðis- og velferðarþjóðfélag, heldur blóðbað og fasismi, hernaðareinræði með áframhaldandi heimsstyrjöld sem leikmynd.

Díalektísk og söguleg efnishyggja kennir okkur að draga lærdóma af því að fylgjast með breytingum, sem verða við átök andstæðra krafta. Hér má nefna að við þá breytingu, að reynt var að skipuleggja efnahagskerfið eftir þörfum alþýðunnar, snarvænkuðust lífskjör hennar: Sovéskir borgarar fengu ókeypis heilbrigðisþjónustu og menntun, fengu þokkalegt húsnæði á viðráðanlegu verði í stað hreysanna sem þeir bjuggu í áður, fengu langt fæðingarorlof áður en það orð var búið til á íslensku, ungbarnadauði og dauði af barnsförum snarféllu, ævilíkur lengdust til muna – svo fátt eitt sé nefnt. Og þegar Ráðstjórnarríkin fengu náðarhöggið 1991 snerist þetta hratt við.

Rússneska byltingin sýndi píndri alþýðunni að draumurinn um að steypa fornum stofnunum er ekki bara draumur, það er hægt að gera það í alvörunni. Það er hægt að steypa keisurum og patríörkum, það er hægt að stöðva heimsstyrjöld, það er hægt að steypa því ranglætiskerfi sem dæmir alþýðuna til sárrar fátæktar meðan elítan situr í marmarasölum og étur næturgalaegg með gullhnífapörum.

Berthold Brecht var einn orðheppnasti maður liðinnar aldar. Hann komst svo að orði: 1917 - síðan þá á veröldin sér von. Þetta er að mínu mati mikilvægasta tilfinningin sem byltingin skilur eftir sig: vonin.

Það er ekki tilviljun að verkalýðsbarátta á Vesturlöndum tók fjörkipp áratugina eftir Októberbyltinguna. Hún fékk kjarkinn þegar hún sá Októberbyltinguna. Það er ekki heldur tilviljun að þjóðfrelsisbarátta nýlendubúa tók slíkan fjörkipp að nýlendustefnan hrundi í þeirri mynd sem við þekktum hana. Nýlendubúarnir fengu einnig kjarkinn þegar þeir sáu Októberbyltinguna og barátta þeirra fékk stuðning með ráðum og dáð.

Fyrsta öld sósíalismans fól í sér uppgjör við það gamla, uppgjör við lénsveldið, uppgjör við alræði borgarastéttarinnar, uppgjör við kúgun kvenna, kúgun þjóða, þjóðarbrota, kynþátta, – uppgjör sem er hvergi nærri lokið, en er svo sannarlega hafið og lýkur ekki nema með fullum sigri fólksins gegn kúgunarvaldinu.

Við getum lært margt af auðvaldinu. Fyrst ber að nefna stéttvísina: í hita stéttabaráttunnar þurfa allir sósíalistar að standa saman. Ekki endilega í einum flokki, en standa saman um lýðræðið – að fólkið ráði sjálft ríkjum í landinu – og um kröfu fólksins um að njóta ávaxta síns eigin erfiðis og auðlinda.

En einnig þarf að nefna, að auðvaldið áttaði sig mjög hratt á því hvað til þess friðar heyrði, að rússneska byltingin gaf alþýðu heimsins fordæmi og kjark sem bar að taka alvarlega. Þótt hugmyndir alþýðunnar hafi verið alla vega skildi auðvaldið á Vesturlöndum, að án einhverrar eftirgjafar mundi fara eins fyrir því og rússneska auðvaldinu. Sér í lagi eftir seinni heimsstyrjöldina, þar sem milljónir ungra alþýðumanna fengu þjálfun í vopnaburði og var síðan att út í blóðbað. Við heimkomu þeirra, og kröfu um betri lífskjör, skapaði fordæmi rússnesku byltingarinnar og sósíalismans pláss fyrir umbætur, sem yfirstéttin hefði hlegið að nokkrum áratugum fyrr. Í skjóli Ráðstjórnarríkjanna voru þannig byggð upp velferðarsamfélög á Vesturlöndum til að kaupa auðvaldinu frið, og um leið til að keppa við Ráðstjórnarríkin í tækni og framleiðslugetu.

Við Íslendingar höfum aldrei gert byltingu þótt við höfum á margan hátt notið áhrifanna af Októberbyltingunni eins og aðrar vestrænar þjóðir: þeirra áhrifa að auðvaldið skildi að það gat ekki leyft sér allt, það yrði að taka tillit til krafna verkalýðsins áður en byltingarástand skapaðist. Nú er farið að fenna verulega í þessi spor, auðvaldið fer sínu fram þegar ekkert er mótvægið. Það stendur upp á okkur – núlifandi verkalýðssinna – að minna auðvaldið á hvað til þess friðar heyrir. Það gerum við ekki öðru vísi en með því að minna okkar eigin stéttsystkin á það: Ef við ætlum okkur og börnunum okkar að lifa góðu lífi þurfum við að skipta gæðunum, sem vinnandi fólk framleiðir, upp á nýtt með réttlæti og samstöðu að leiðarljósi. Það þýðir að við – alþýðan – þurfum að taka völdin í þjóðfélaginu.

Stéttabaráttan fór upp á nýtt stig fyrir einni öld síðan, stig verkalýðsbyltingarinnar. Þessi öld var fyrsta öld sósíalismans. Næsta öld sósíalismans byrjar á morgun. Stéttabaráttan bíður okkar og ef við viljum lifa þann dag, að geta um frjálst höfuð strokið og heyrt áhyggjulaus hlátur barnanna okkar, þá þurfum við að standa okkur. Þetta er ekki bara spurning um réttlæti og ranglæti. Fyrir hundrað árum var það andstaðan við fyrri heimsstyrjöldina sem sameinaði byltingarsinnana með sinni þungu áherslu. Í dag eru það ekki bara stríðshætta og fasismi heldur líka, og ekki síst, umhverfisógnin, sem beinlínis ógnar framtíð okkar.

Verkefnin eru því mörg, en við erum líka mörg. Óvinir okkar eru sterkir, en þegar við stöndum saman erum við sterkari. Októberbyltingin sýnir okkur að leiðin er ekki greið, en hún er fær.

Til þess að farsæl bylting geti orðið er ekki nóg að byltingarástand skapist. Það þarf líka, eins og áður sagði, byltingarflokk vopnaðan byltingarkenningu. Ekki tækifærisstefnu sem forðast málefnin og skýlir sér bakvið formsatriði, ekki umbótastefnu sem vill betrumbæta kapítalismann, ekki endurskoðunarstefnu sem friðmælist við kerfið og þrífst best inni á skrifstofu, heldur byltingarsinnaðan sósíalistaflokk sem setur byltinguna á dagskrá sem alvöru verkefni til að leysa á vorum dögum, uppgjör við auðvaldið og uppbyggingu sósíalismans. Sá flokkur verður ekki til á einni nóttu. Hann þarf að vera til áður en byltingarástandið skapast. Eða með öðrum orðum: Það þarf að undirbúa hinn vísvitaða þátt byltingarinnar áður en þjóðskipulagið fer í mola af völdum kapítalismans. Samstaða allra sósíalista er lykilatriði til að þetta heppnist. Og svo það fari ekki milli mála, þarf þessi vinna að fara fram núna.

Til hamingju með hundrað ár af bjartsýni, hundrað ár af vissu um að þegar fólkið stendur saman, þá getur það það sem það ætlar sér. Fyrsta öldin er liðin, en bjartsýnin er ekki liðin og stéttabaráttan hefur ekki farið neitt. Þannig að til hamingju líka með næstu öld sósíalismans, sem hefst á morgun, öldina þegar við brjótum endanlega af okkur hlekki fortíðar, fáfræði og fátæktar. Eins og þörfin hefur aldrei verið meira knýjandi en nú, þá hafa möguleikar okkar heldur aldrei verið betri en nú. Við erum rétt að byrja.

Brettum upp ermarnar, herðum upp hugann, niður með auðvaldið, lifi fólkið og lifi byltingin! 

Sunday, November 5, 2017

Októberbyltingin 100 ára

 Hátíðarfundur í Iðnó þriðjudaginn 7. nóvember kl. 20

Pólitísk menningardagskrá í boði Alþýðufylkingarinnar, MFÍK, MÍR og Sósíalistaflokks Íslands

Aðgangur ókeypis, en frjálsum framlögum safnað á staðnum.

Fyrir 100 árum var Rússland í djúpri alhliða kreppu í miðri heimsstyrjöld. Baráttan gegn stríðinu og þrengingum alþýðunnar náði hámarki þegar 2. Sovétþingið tók völdin 7. nóvember, og hóf að knýja fram friðarsamning og félagsvæðingu í samfélaginu.

Þetta er einhver merkasti og áhrifamesti atburður seinni tíma sögu, og veitti innblástur fyrir baráttu verkalýðsins um allan heim fyrir sósíalisma og bættum kjörum. Októberbyltingin hefur haft áhrif á framvindu sögunnar æ síðan. Þó að beinir ávinningar hennar hafi tapast um tíma að verulegu leyti, er hún mikil uppspretta lærdóma í verkalýðsbaráttunni og verður um ókomna tíð.

Á þessum tímamótum hafa fern samtök, Alþýðufylkingin, MFÍK, MÍR og Sósíalistaflokkur Íslands tekið sig saman um að minnast byltingarinnar á hátíðarfundi í Iðnó, þriðjudaginn 7. nóvember kl. 20

Kynnir er Árni Hjartarson

Ávörp flytja:
Skúli Jón Unnarson
Sólveig Anna jónsdóttir
Vésteinn Valgarðsson

Sólveig Hauksdóttir les ljóð

Gunnar J Straumland kveður frumsamið efni

Tónlist:
Svavar Knútur
Þorvaldur Örn Árnason
Þorvaldur Þorvaldsson