Saturday, December 22, 2007

Gleðilegar vetrarsólstöður!

Málflutningurinn er Askasleikis-kortinu skemmir ekki málstað femínismans -- jafnréttið -- en spillir hins vegar fyrir baráttunni. Einhver bloggari kom með ágætan samanburð; að kalla karlmenn nauðgara á einu bretti er áþekkt því að kalla konur hórur á einu bretti. Hvernig mundi það hljóma, ef Gáttaþefur óskaði þess að konur hættu að vera hórur? Ömurlega, auðvitað! Líkingin við útlendinga og afbrot er líka jafn nöturleg og góð. Móamangi óskar þess að útlendingar hætti að brjóta lögin. Er einhver hissa á því að mér, sem karli, finnist þetta móðgun?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hvað sagði ég ekki, Þorsteinn Davíðsson hefur "einstaka reynslu" í starf héraðsdómara. Einstaka, hvorki meira né minna. Árni veit hvað hann syngur. Að fólk skuli nenna að vera að býsnast yfir þessu. Hvað er þetta, á að refsa blessuðum manninum fyrir að vera sonur föður síns? Er hann verri manneskja vegna þess? Er einhver pólitísk erfðasynd í beinum hans?

Friday, December 21, 2007

Askasleikir óskar sér þess ...

Ég veit ekki hvort mér finnst rétt að kæra, en ég er sammála FÁF um að þetta jólakort sé ósmekklegt. Að karlar hætti að nauðga? Ég biðst forláts! Hvað eiga svona alhæfingar að þýða? Þeir sem ég hef talað við eru hér um bil á einu máli um að svona tal sé móðgun við karla. Ég held að það sé ekki bara gagnslaust, heldur beinlínis skaðlegt fyrir málstað femínismans og samskipti kynjanna.

Saturday, December 15, 2007

Illugi, gefðu þig fram!

Í leiðara Morgunblaðsins í fyrradag skrifaði leiðarahöfundur (Styrmir, vænti ég):
Hér skal dregið í efa að íslenzkur þegn hafi nokkru sinni fengið aðra eins
meðferð og Erla Ósk lýsir, m.a. í Morgunblaðinu í dag, hjá ríkjum kommúnismans
eða fasismans eða nokkru einræðis- og kúgunarríki í veröldinni.
Aldrei nokkru sinni? Jæja, aldrei að segja aldrei. Fyrir rúmum tveim árum hlaut Arna Ösp Magnúsardóttir sambærilega meðferð þegar hún kom til Ísraels. Henni var haldið í um 30 klukkutíma og síðan snúið öfugri úr landi eftir ógnanir og illa meðferð. Hvað hafði aðstoðarmaður forsætisráðherra, Illugi Gunnarsson, um málið að segja? Jú: »Ísraelar hafa nú rétt til að verja sig,« sagði hann. Það var og! Hvar er Illugi núna, að segja að Bandaríkjamenn hafi nú rétt til að verja sig? Illugi, gefðu þig fram!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í gær birti Fréttablaðið grein eftir mig: Trúleysingjar eru líka fólk heitir hún, og mun líklega birtast á Vantrú innan skamms. Kannski að það sé bara tilviljun, en vegna veðurs var einmitt þetta tölublað Fréttablaðsins ekki borið út í hús. Var guð að leggja stein í götu mína?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er búið að laga dálkaskiptinuna á Egginni, svo síðan er aðeins þægilegri í meðförum núna. Þar skrifaði Þórarinn Hjartarson einmitt í gær: 11. september og „stríðið gegn hryðjuverkum“ og Hrafn Malmquist á miðvikudaginn: Hver eru leikföng? Hvað er bara fyrir krakka? -- lesið þetta og hafið gagn og gaman af.

Monday, December 10, 2007

Mikil er trú þín, Karl

Siðmennt hefur svarað bréfi Karls Sigurbjörnssonar. Ég á bágt með að trúa að Karli finnist hann hafa sterka stöðu í þessum deilum. Og þó, maður veit aldrei. Hugrænt misræmi getur verið furðulega sterkt afl og tekið stjórnina af skynseminni þegar hagsmunir, sjálfsmynd eða annað merkilegt er í húfi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Jón Karl Stefánsson skrifar: Burt með hryðjuverkalögin.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hvernig geta Ísraelar haft áhyggjur af því að Rússar vilji fá þá Rússa heim til Rússlands, sem hafa flutt til Ísraels?„“
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Er þetta grín? Ég leyfi mér að halda því fram að hækkun olíuverðs eigi ekki nema að litlu leyti rætur að rekja til aukinnar olíunotkunar í olíuframleiðsluríkjum.

Friday, December 7, 2007

„Skalat maðr rúnir rísta, nema ráða kunni“

Það eru gömul sannindi að maður á ekki að vekja upp drauga sem maður getur ekki kveðið niður aftur. Það hefði áróðursdeild Þjóðkirkjunnar átt að geta sagt sér sjálf. Nú virðist herferðin, sem hefur staðið yfir undanfarna daga, vera að snúast í höndunum á þeim. Það er sama sagan og alltaf, að ódrengileg framkoma Þjóðkirkjunnar við aðra -- hvort sem það eru samkynhneigðir eða trúlausir -- kemur sér verst fyrir hana sjálfa. Á dögunum birti Vantrú greinaflokk eftir mig sem kallast Strategískar ráðleggingar handa Þjóðkirkjunni, I: Opnið augun, II: Rætur vandans og III: Ráðið ykkur framkvæmdastjóra. Kirkjan hefði gott af því, og allir aðrir líka, að hún tæki það til athugunar sem ég skrifaði þar.

Í dag er heilsíðuauglýsing í Fréttablaðinu (s. 25), sem Siðmennt keypti til þess að koma því á hreint hvað hún vill og hvað hún vill ekki. Þessar rangfærslur eru óþolandi, og étur hver eftir öðrum. Ábyrgð Bjargar Evu Erlendsdóttur er mikil í því máli, eftir að hún ranghermdi það eftir Bjarna Jónssyni að Siðmennt væri á móti litlu jólunum í skólum. Þvílík fásinna. Siðmennt er á móti helgileikjum að svo miklu leyti sem í þeim felst trúboð. Það er málstað kirkjunnar síst til framdráttar að halda þessu blaðri áfram, til viðbótar við allan þann ófögnuð sem talsmenn hennar hafa látið út úr sér um trúleysingja í gegn um tíðina. Dylgjur og vísvituð ósannindi fara henni illa.

Trúboð í leikskólum er ekki spurning um vinsældakosningar trúarbragða, heldur um mannréttindi. Einstaklingsbundin mannréttindi og ófrávíkjanleg.

Tuesday, December 4, 2007

Siðmennt. Líka Venezuela.

Rógsherferð Þjóðkirkjunnar undanfarið gegn Siðmennt er með ólíkindum. Eða, öllu heldur, hún er dæmigerð í eðli sínu þótt umfangið sé meira en maður á að venjast. Talsmenn Siðmenntar hafa staðið sig vel; það er kúnst að halda stillingu og þolgæði frammi fyrir svona breiðsíðu af dylgjum og rangfærslum, þar sem bloggarar og fjölmiðlamenn éta vitleysu hver upp eftir öðrum og láta liggja óbættar hjá garði -- það er að segja, óleiðréttar. Svakalegt. Ef ég væri ekki orðinn félagi í Siðmennt fyrir löngu mundi ég gerast það á stundinni. Ég mæli með því að fólk skoði heimasíðu Siðmenntar og gangi jafnvel í félagið. Það er margur húmanistinn sem ætti heima meðal skoðanasystkina sinna og leggja lóð á vogarskálarnar.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Bandaríkin fagna ósigri Chavez -- ekki undrast ég það. Þau reru líka öllum árum að honum. Þetta kemur samt á óvart, verð ég að segja. Ekki held ég samt að öll kurl séu komin til grafar -- þeir eiga fleira í pokahorninu og eru með virk og svæsin plön um að steypa Chavez með illu. Tapið í kosningunum er bara hluti af stærra plotti. Venezúelsk stjórnvöld komust að því um daginn, fundu leyniskjöl þegar þau rótuðu í tösku bandarísks diplómata, og gerðu plönin opinber. Verkbönn, samgöngutruflanir, valdarán. Þetta er í pípunum, en dokum við og sjáum. Ég reikna með að tjá mig meira um þetta áður en langt um líður.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Um glæpamanninn Pútín hef ég ekki annað að segja en að hann mundi ekki þekkja lýðræði þótt því væri vafið um hálsinn á honum og hert að. Ég skil ekki að nokkur stjórnmálamaður með heiðarlega hugsjón fyrir lýðræði vilji nokkuð saman við hann sælda ótilneyddur. Þessi ófyrirleitni asni og ruddi.