Monday, January 29, 2007

Fáein orð um Bangladesh

Það er ljóta ástandið í Bangladesh. Í stuttu málið, þá lauk kjörtímabili Þjóðernissinnaflokks Bandladesh í haust, og bráðabirgðastjórn tók tímabundið við völdum til að skipuleggja kosningar, en þjóðernissinnarnir reyndust hafa búið þannig um hnútana að hún er rammhlutdræg. Awami-bandalagið, sem er veraldlega þenkjandi miðju-vinstrisinnað og einn stærsti flokkurinn, lýsti því yfir að það mundi sniðganga kosningarnar þar sem þær yrðu greinilega óréttlátar. Afsagnir, útgöngubönn, óeirðir og leiðindi hafa fylgt í kjölfarið.
Nú er ég ekki sérfræðingur í málefnum Bangladesh, en stenst það eiginlega ekki að tjá mig um málið: Ég hef efasemdir um heilindi Kommúnistaflokks Bangladesh, sem mun vera endurskoðunarsinnaður khrústsjofítaflokkur. Þá er spurningin, hvað annað stendur til boða? Öreigaflokkur Bangladesh (Purba Banglar Sarbahara Party) og Kommúnistaflokkur Bangladesh (marxistar-lenínistar) (Dutta) (Bangladesher Samyabadi Dal (Marxbadi-Leninbadi)) eiga báðir aðild að RIM (Byltingarsinnuðu alþjóðahreyfingunni) og CCOMPOSA (Samræmingarnefnd suðurasískra maóistaflokka og -hreyfinga). Ég tel það meðmæli, enda er RIM mikilvægur samstarfs- og samráðsvettvangur fyrir maóistaflokka frá jafn fjölbreyttum löndum og Indlandi, Íran, Sri Lanka, Kólumbíu, Nepal, Perú, Afghanistan, Tyrklandi, Haítí og víðar, en sem kunnugt er eiga þessi lönd það sameiginlegt, þótt ólík séu, að vera í brýnni þörf fyrir kommúníska byltingu.
Klofningshópurinn Maóista-bolsévíka-endurskipulagningarhreyfing Öreigaflokks Bangladesh er líka áhugaverð hreyfing, þar sem hún klauf sig út úr RIM árið 2004 eftir að hafa ályktað að RIM væri komin með gagnbyltingarsinnaða stefnu. Ég fellst hins vegar ekki á yfirlýsingu þeirra frá október 2004, og mundi því ekki styðja þá. Sama máli gegnir um Kommúnistaflokk Bangladesh (marxista-lenínista) (Umar), sem ég sé ekki ástæðu til að styðja.
Já, ég held að Öreigaflokkur Bangladesh sé sennilega málið. Lengi lifi Khalequzzaman formaður!
Ungir múslimar í Bretlandi eru "öfgasinnaðri en foreldrar þeirra" segir Morgunblaðið. Það þykir mér fréttnæmt, þegar ungmenni eru farin að vera róttækari en ráðsett fjölskyldufólk. Bretar þykjast vera hissa á því að "aðlögun" gangi illa. Miðað við eftirlitið, tortryggnina og áróðurinn sem veður uppi, þá er ég satt að segja ekki sérlega hissa. Hvernig er hægt að verða hluti af samfélagi þar sem maður upplifir að manni sé ekki treyst og maður fær það stöðugt á tilfinninguna að maður sé á bandi illskunnar, að áliti samborgara sinna?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
„Það rétta er að vopnum Fatah sé beitt gegn hernámsliðinu en ekki gegn Hamas,” segir talsmaður Íslamska jihad í Morgunblaðinu. Það eru orð að sönnu. Palestínumenn ættu að standa saman gegn kúgurum sínum. Sá sem sáir úlfúð í sínum eigin herbúðum vinnur sínu fólki ómælt tjón.
Ég heyri kjaftaskakórinn spyrja, Ha, styðurðu sjálfsmorðsárásir á ísraelska borgara? Mér til gamans ætla ég ekki að ómaka mig við að svara því.
Hér er frétt: Í þjóðarétti er fólki áskilinn réttur til að verja hendur sínar fyrir hernámsliði. Sá réttur á kannski ekki við þegar menn eru brúnir á litinn eða trúa á Mahómet, ég veit það ekki.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Alveg finnst mér dæmalaust hvernig farið er með Margréti Sverrisdóttur.

Wednesday, January 24, 2007

Andrea Ólafsdóttir skrifar á Eggina: Fréttastofa RÚV hlutdræg með ólíkindum;
~~~ ~~~ ~~~ ~~~



Merkisfrétt á Egginni: Stríðstæki ALCOA. Alcoa-menn lýsa því stoltir yfir að þeir hafi landað feitum samningi um hergagnaframleiðslu. Það er að segja, lýsa því yfir út um annað munnvikið. Út um hitt munnvikið eru þeir víst að sverja það af sér hér á Íslandi!

Lygarar.

Sunday, January 7, 2007

Svo virðist sem FBI geti notað farsíma fyrir hlerunarbúnað jafnvel þótt það sé slökkt á þeim. Ég hef þá haft ákveðið fólk fyrir rangri sök þegar ég taldi það jaðra við vænisýki að telja að það væri hægt. Já, detti mér allar...
Takk, Gunnar, fyrir að benda á þessa frétt.

Fatah og Hamas

Fatah segir Hamas stríð á hendur.
Ekki með orðaðri stríðsyfirlýsingu, heldur með verkum sínum.
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að verk vega þyngra en orð. Árás sem slík vegur þannig þyngra en stríðsyfirlýsing sem slík.

Þegar Fatah ræðst á Hamas má segja að þeir séu í raun að ráðast á Palestínumenn. Þeir ráðast á samstöðuna, sem er það eina sem Palestínumenn geta treyst á. Þeir kalla ómældar hörmungar yfir fólk sitt, með því að hefja hjaðningavíg. Þeir þjóna Ísraelum og Bandaríkjamönnum með því að veikja þrótt Palestínumanna. Þeir undirstrika sína eigin spillingu með því að ráðast á þá sem hafa gagnrýnt hana hvað harðast. Þeir vanvirða lýðræðið með því að ráðast á lýðræðislega kjörna stjórn -- og leika þar aftur sama leikinn og Ísraelar og Bandaríkjamenn.
Spillingin hjá Fatah er ömurleg byrði á palestínsku þjóðinni. Það er full ástæða að trega það, að Palestínumenn sitji uppi með stjórnmálastétt sem er rotin inn að merg af spillingu. Það mega Hamas eiga, að þeir munu ekki vera nærri því eins spilltir og Fatah. Ég er ekki hrifinn af trúarlegum stjórnmálaöflum, en Hamas er í fyrsta lagi díalektískt afsprengi aðstæðna sinna, og í öðru lagi vöndurinn sem þarf til að sópa og flengja út úr skúmaskotum landráðamanna. Hvað eru það annað en landráð, þegar sitjandi forsætisráðherra á sementsverksmiðju sem selur Ísraelum sement til að byggja aðskilnaðarmúrinn, eins og tilfellið var með Ahmed Qurei?
Palestínumenn geta ekki sett traust sitt á baráttu á borgaralegum forsendum. Það þýðir bara að þeir verða hlunnfarnir af sínum eigin leiðtogum. Baráttan þarf að eiga sér rætur meðal fólksins sjálfs, grasrótarinnar, í skipulagi og samstöðu meðal óbreytts almennings.

Saturday, January 6, 2007

Takk, Grasagudda!

Grasagudda.is fær prik hjá mér. Þar eru í fyrsta lagi oft og tíðum góðar greinar, og auk þess datt ég í lukkupottinn um daginn. Ég skráði mig á póstlistann þeirra, nafn mitt var dregið úr potti, og ég vann þessa forláta fötu undir lífrænan úrgang úr eldhúsinu, sem ég á þá auðveldara með að fara með út í garð til jarðvegsgerðar, í stað þess að henda honum bara í ruslið. Ég byrjaði að búa síðasta sumar og hef alltaf hent lífrænum úrgangi með hálfum hug. Nú er málið leyst, takk Grasagudda!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er meira, að fylgjast með bitsfætinu sem er strax byrjað milli stjórnarandstöðuflokkanna. Ég spái því hér með að næsta ríkisstjórn verði Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin. Ég hristi hausinn yfir Samfylkingunni. Vinstri-grænir eru frekar spólandi líka að mínu mati, en þeir fá samt mitt atkvæði. Þar ráða för sjónarmið um umhverfismálm, fyrst og fremst. Það leiðinlega við íslenska pólitík er bara að það sér ekki fyrir endann á henni. Byltingu, takk, og sópa stjórnlyndi og þýlyndi út af borðinu. Við getum vel stjórnað þessu landi sjálf.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ætli Kaupþing, Toyota, Alcan og hin fyrirtækin hafi spurt starfsfólk sitt álits áður en þau sendu út nýjárskveðjur í nafni þess?