Friday, December 31, 2004

Rakettur og gamlárskvöld



Eins og ég rakti í gær, þá hef ég litlar mætur á flugeldum núna í seinni tíð. Hvað er málið með þessar "vopna-rakettur"? "Sverð", "spjót", "hnífur", "atgeir", "bogi", "lásbogi"? Lásbogi? Ég veit ekki til þess að það hafi nokkurn tímann verið til svo mikið sem einn lásbogi á Íslandi fyrr en kannski á tuttugustu öld. Allavega, mér finnst þessi heiti ekki sérstaklega smekklega valin. Annað, sem mér þykir kannski ennþá ósmekklegra, er að kalla einhverjar skotkökur "Njálsbrennu" og "Flugumýrarbrennu". Skyldu þeir sem ákváðu þetta ekki átta sig á alvöru málsins? Eða er það eitthvað til að hafa í flimtingum, að brenna fólk inni? Er það langrækni, að maður skuli enn í dag ekki hafa gleymt frændum sínum, sem voru brenndir á Flugumýri? Já, ég hristi hausinn yfir þessu.

Thursday, December 30, 2004

Á mínu heimili hefur verið tekin ákvörðun um að sleppa því að kaupa flugelda í ár og nota sömu peninga í staðinn til þess að styrkja hjálparstarf við strendur Indlandshafs. Þar er þeim betur varið en og skynsamlegar en gert væri með því að sprengja þá í tætlur. Ég hvet aðra til að gera það sama: Nota rakettupeningana til mannúðarmála í ár.

(Það hefur varla farið fram hjá neinum að söfnunarsími RKÍ er 907-2020, auk þess sem hægt að styðja starfið á þessari síðu.)

~~~~~~~~



Talandi um flugelda, þá hef ég alveg misst smekkinn fyrir flugeldum á undanförnum árum. Var mjög spenntur fyrir þeim sem krakki -- eins og svo margir aðrir krakkar -- en áhuginn dofnaði svo, eins og hann gerir hjá flestum. Í mínu tilfelli var þó eitt atvik sem deyfði áhugann ennþá meira: Ég fór sem sjálfboðaliði til Palestínu. Eftir andvökunætur í Jerúsalem, Nablus og Ramallah, þar sem vélbyssuskot dundu við í nokkur hundruð metra fjarlægð og fallbyssuskot þess á milli er minn smekkur fyrir gamlárskvölds-rakettum alveg farinn. Ég fékk nú ekki áfallastreituröskun eftir heimkomuna frá Palestínu, en hef orðið var við að það fer stundum um mig: Raketturnar minna mig á byssu- og fallbyssuskotin og hljóð í jarðýtum og öðrum vélum á beltum minna mig á hljóðið í skriðdrekum Ísraela. Annað, sem angrar mig í minni mæli, eru hljóðin í þotum og þyrlum, og lykt af úldnandi rusli.

~~~~~~~~



Í fréttum frá Kóreu: Natsagiin Bagabandi, forseti Mongólíu, hefur gefið Norður-Kóreustjórn loforð um að ekki verði settar upp flóttamannabúðir í Mongólíu fyrir flóttamenn frá Norður-Kóreu. Auk þess gerðist sá fáheyrði atburður að maður flúði til Norður-Kóreu. Það þykir mér nú fréttnæmt, verð ég að segja!

~~~~~~~~



Á MIFTAH.org er áhugaverð grein um kosningarnar til embættis forseta Palestínsku heimastjórnarinnar. Þar er líka þessi mynd af krakka í jólasveinabúningi að fara inn í fæðingarkirkjuna í Bethlehem. Takið eftir því hvað dyrnar sem hann er að ganga inn um eru lágar. Þetta eru aðaldyrnar á kirkjunni.

~~~~~~~~



Ögmundur Jónasson veltir fyrir sér endurþjóðnýtingu í Rússlandi. Ég get nú, fyrir mitt leyti, ekki sagt að ég kenni mikið í brjósti um oligarchana.

Wednesday, December 29, 2004

Eiga Bandaríkjamenn aðild að hörmungunum í Suður-Asíu með glæpsamlegri vanrækslu? Því er haldið fram í þessari grein.
Walden Bello er filippeyskur rithöfundur, pólítískur aktívisti og prófessor í félagsfræði. Þegar fyrri árásin á Fallujah var gerð, í vor, skrifaði hann þessa grein, sem ég var núna fyrst að reka augun í. Hún er frekar löng of yfirgripsmikil, en ansvíti góð. Fjallar um írösqu andspyrnuna.



~~~~~~~~

Á Electronic Intifada er önnur grein sem ég vil benda á, um yfirvofandi kosningar í Palestínu og blekkingar, skrípaleik og tvískinnung.

Tuesday, December 28, 2004

Styrmir Gunnarsson segir að Jústsénkó sé "ólíklegur byltingarmaður" -- og undir það get ég tekið. Enda er hann ekki byltingarmaður. "Flauelsbyltingin", "rósabyltingin", "apperlsínugula byltingin" ... þetta eru ekki neinar byltingar. Þetta eru bara valdaskipti þar sem ný valdablokk tekur við af þeirri gömlu. Nýja valdablokkin er hallari undir Vesturlönd og endurspeglar aukin ítök vestræns auðmagns í viðkomandi löndum. Jústsénkó verður þannig fulltrúi fyrir þann hluta úkraínsku elítunnar sem mest styðst við Vesturlönd og vestrænt auðmagn, tákngerfingur þess hvernig vestrænt auðmagn hefur smeygt sér inn í Úkraínu og þanist þar út. Auðmagn stendur í útþenslustefnu í A-Evrópu eins og annars staðar.

Það er rétt hjá Styrmi, að Jústsénkó er ólíklegur byltingarmaður. En það er annað sem Styrmir hermir rétt í dag: Stuðningur Bandaríkjamanna við úkraínskar hreyfingar, sem kenna sig við lýðræði, nemur a.m.k. 65 milljónum dollara. Styrmir segir að "deila megi um hvort slíkt teljist pólítísk afskipti, en lágmarkskrafa hljóti að teljast að þau fari fram fyrir opnum tjöldum" -- satt er það. Ég býst við að Styrmir hefði kallað það pólítísk afskipti ef Sovétmenn hefðu stutt Sameiningarflokk alþýðu -- Sósíalistaflokkinn um 65 milljónir. Það er alveg satt, að svona laun-stuðningur er fyrir neðan allar hellur. Reyndar má segja það sama um hreyfingarnar sem hann hefur runnið til. Þetta eru engar lýðræðishreyfingar, þetta eru auðvaldshreyfingar, sem kenna sig við lýðræði vegna þess að það hentar hagsmunum þeirra betur.



Jústsénkó er ekki góði gaurinn í Úkraínu. Hvorki hann né Janúkóvitsj.
Sá sem stjórnar fjölmiðlunum stjórnar orðræðunni, sá sem stjórnar orðræðunni getur komið til skila öllum þeim áróðri sem hann vill með því að velja réttu orðin.



Hverjir ráða vestrænum fjölmiðlum? Það er vestræna valdastéttin, vestræna auðvaldið. Þegar þjóðarleiðtogar eru kallaðir „brjálæðingar og harðstjórar“ í vestrænum fjölmiðlum, hvað er þá á feðrinni?

~ Þeir gætu verið brjálæðingar og harðstjórar í alvörunni.

~ Þeir gætu átt í beinum eða óbeinum deilum við vestræna auðvaldið og verið rægðir.

~ Þeir gætu staðið í heiðarlegri baráttu gegn auðvaldi og heimsvaldastefnu og uppskorið róg og níð fyrir.



Hvað sem öllu líður er rétt að leggja við hlustir þegar brjálæðingar og harðstjórar berast í tal í fjölmiðlum. Fyrir utan að ekta brjálæðingar eru oft áhugaverðir, þá held ég að fullyrða megi að ofter en ekki séu þeir, umfram annað, fórnarlömb rógs. Hvað svo sem segja má um þá menn að öðru leyti, þá hafa Saddam Hussein, Slobodan Milesovic, Muammar Khaddafi, Hugo Chavez, Fidel Castro og fleiri verið rægðir miskunnarlaust í vestrænum fjölmiðlum. Gleymum heldur ekki Yasser heitnum Arafat.



Ef framsækinn leiðtogi kemur fram á sjónarsviðið og leiðir fólk sitt í varnarstríði gegn innlendu og erlendu auðvaldi og heimsvaldastefnu, hvernig má þá búast við að sjá talað um hann í vestrænum, heimsvaldasinnuðum fjölmiðlum?



„Brjálæðingur og harðstjóri!“



Einkareknir fjölmiðlar eru að mestu leyti í eigu kapítalista, fréttaveitur á borð við AFP og Reuters eru í eigu kapítalista, og ríkisreknir fjölmiðlar eru oft og tíðum í umsjón möppudýra og bürókrata -- atvinnu-erindreka auðvaldsins í kerfinu. Þegar (einkarekinn) fjölmiðill bregst ókvæða við ríkisstjórn eigin lands, þá eru verulegar líkur á að eitthvað merkilegt sé að gerast.

Uppgjör milli valdablokka er algeng skýring, sbr. fjölmiðlamáls-upphlaupið hér á Íslandi. Líka æsa framsæknir fjölmiðlar sig (skiljanlega) yfir atlögum afturhaldsins gegn alþýðunni.



Allavega, það er einn þjóðarleiðtogi sem mig grunar að sé fórnarlamb ósanngjarns rógburðar. Það er ... haldið nú niðri í ykkur andanum: Robert Mugabe, forseti Zimbabwe. Hann er óspart kallaður brjálæðingur og harðstjóri, en er hann það? Ég veit það ekki fyrir víst. Hann hefur staðið í uppskiptum (Chimurenga) á risabúgörðum í landinu, sem hafa verið teknir eignarnámi af hvítum fyrrum eigendum sínum og fengnir í hendur svörtum bændum. Hann hefur ríkt í 24 ár sem forseti. Hann var skæruliði á yngri árum og barðist við menn Ians Smith (ætli stríðsglæpamaðurinn „Halli málaliði“ hafi ekki verið þar á meðal?), hermenn hvítu minnihlutastjórnarinnar sem stjórnaði í sama anda og apartheid í Suður-Afríku. Mugabe kallaði sig eitt sinn marxista -- ég veit ekki hvort hann gerir það ennþá. Hvað veit maður mikið um Mugabe og verk hans í alvörunni? Ekki svo mikið. Ég ætla hins vegar að kynna mér hann þegar ég hef tíma til, sem verður í janúar eða febrúar.

Monday, December 27, 2004

Ég vil meina að trúarbrögð séu í aðra röndina löguð að okkur til að við fílum þau og samþykkjum, en í hina röndina geri þau okkur undirgefin og of þolinmóð gagnvart kúgurum, arðræningjum og öðrum óvinum. Það mætti líkja okkur við fiska og trúarbrögðunum við öngul með agni: Við sjáum þennan girnilega ánamaðk, gleypum hann, en þá er öngull trúarinnar kominn ofan í okkur og hægara sagt en gert að losna við hann. Hmm ... vekur vangaveltur um etýmólógískan uppruna orðsins "engill" ... ætli það sé skylt "öngull"?
Dr. Mustafa Barghouti handtekinn í gömlu Jerúsalem, saklaus. Mustafa er forsetaframbjóðandi, og frömuður í mannréttindamálum, friðsamlegri þjóðfrelsisbaráttu og læknishjálp. Um daginn börðu ísraelskir hermenn hann hjá vegatálma, saklausan. Sharon sagði að Palestínumönnum yrði leyft að halda kosningar. Hvernig er hægt að halda kosningar ef mönnum er meinað að stunda kosningabaráttu? Í hundraðasta sinn: Á orðum Sharons er ekki mark takandi, aðeins á gjörðum hans.

Ég er annars alveg bit yfir þessu flóði við strendur Indlandshafs. Hreint ótrúleg hvað þetta er hrikalegt.
Jústsénkó virðist hafa rúllað upp þessum kosningum í Úkraínu. Kemur ekki beint á óvart. Nú verður vestrænu auðvaldi og heimsvaldasinnum hleypt í kjötkatla Úkraínumanna.

~~~~~~



Reynt myrða háttsettan shíítaklerk. Ef þetta voru herskáir súnnítar, þá var þetta sérdeilis heimskulegt og 'counterproductive' fyrir þjóðfrelsisstríð Íraqa. Innbyrðis erjur eru ekki það sem írösqu þjóðina vantar -- og súnnítar eru ekki réttbornir til valda í Íraq. Ef CIA eða Mossad skipulögðu þetta tilræði var það hins vegar klókt: Sundrar kannski írösqu andspyrnunni og veikir hana.

~~~~~~



Góðar fréttir frá Bretlandi.
Á heimasíðu Félagsins Íslands-Palestínu er ný grein, skrifuð að Uri Avnery og þýdd af bróður mínum. Fyrir þá sem ekki vita, er Avnery stofnandi ísraelsku friðarsamtakanna Gush Shalom. Hann stendur á áttræðu og hefur verið pólítískur aktífisti í meira en 60 ár. Geri aðrir betur.



|=|=|=|=|=|=|=|=|=|

The Proletarian er ágætt blað. Innan um umdeilanlegan boðskap þess má finna sönn gullkorn. Þessi orð geri ég að mínum:

The questions 'addressed' by Kyoto -- gas emissions and global warming -- are issues that, in the interests of the continued existence of mankind, need to be fully investigated and solved without further delay. It certainly is not beyond the realm of human ability to find a solution to these pressing problems -- such is the level of scientific and technical ability at our disposal.

However, the capitalist system cannot and will not mobilise the forces of science for such a purpose. To the imperialist, every penny not used for profit-generating capital is a penny wasted -- a penny closer to being driven out of the market by the competitors.

(The Proletarian, Dec.04/Jan.05, s.7)

Sunday, December 26, 2004

Þessar kosningar í Úkraínu eru meiri farsinn. Ljóti skrípaleikurinn. Ég hugsa að Jústsénkó taki þetta núna, en ég vísa á bug þessum áróðri í vestrænum fjölmiðlum, um að hann sé frábær og Janúkóvitsj ömurlegur. Ég er nokkuð viss um að þeir séu ömurlegir báðir tveir, þótt Jústsénkó sé reyndar líklegri til að gera úkraínsku þjóðinni ógagn.

Í leiðara The Proletarian, des04/jan05 tbl., segir:

Despite the best efforts of our 'free' and 'impartial' media, conversation on the topic of the Ukraine regularly arrives at the conclusion that there is something fishy about the favourable coverage given to 'popular' demonstrations and strikes. After all, whi is George Bush to talk about democracy and fair elections? And when did the US ever support a really popular uprising?


Þetta þykir mér vel mælt. (Og til að taka af tvímæli: Er ég að segja að The Proletarian sé mitt leiðarhnoð í völundarhúsi lífsins, óskeikul ritning réttsýnna og ósérplæginna vísdómsvita sem blablabla? Nei.)

~~~~~~~~~~~~~~~~



Lítið á þetta myndband frá írösqu andspyrnunni. Myndskreytt ákall til umheimsins frá vopnuðum viðnámssveitum írösqu þjóðarinnar.

Hins vegar vil ég benda á þessa grein, sem fjallar um írösqu andspyrnuna, og hvernig ruddar, ofstækismenn og hálfvitar hafa rutt sér óeðlilega mikið til rúms innan hennar, og hvernig Íraqar gætu tekið sér Palestínumenn til fyrirmyndar. Löng en áhugaverð.

Ég ítreka það sem ég hef áður sagt á þessum vettvangi, nýlega, sem er að það Íraqsdeild af RIM (Revolutionary International Movement), írasqan maóistaflokk, sekúlar, óbilgjarnan og framsækinn flokk.

Thursday, December 23, 2004

Var að taka þátt í könnun á viðhorfum til jafnréttismála. Ágæt könnun þar á ferð. Ég skil samt ekki hvers vegna nálgunin á jafnrétti kynja eða annarra þjóðfélagshópa hefur svona mikla tilhneigingu til að vera borgaraleg, reaktíf og, tja, einhvern veginn vandræðaleg eða eitthvað. Ég vil taka fram að nú er ég ekki að tala um þessa tilteknu könnun, umfram aðrar. En t.d. með umræðuna um jafnrétti og hvernig sú umræða hefur áhrif á brautargengi kvenna. Nú býst ég við að hún geri það að einhverju leyti, en hvað ætli ráði mestu um stöðu kvenna í efnahagslífinu? Ég leyfi mér að fullyrða að það er það sama og ræður flestu öðru í efnahagslífinu: Eignarhald. Konum vegnar verr í efnahagskerfinu vegna þess að þær eiga miklu minni eignir en karlar. Svo einfalt er það. Já, það eru fleiri breytur. Auðvitað. Þetta er samt breytan sem ræður úrslitum. Jafnrétti kynjanna í reynd kemst þá og því aðeins á, að eignarhald þeirra í efnahagskerfinu verði jafnt.



Ein leið til þess, kannski sú einfaldasta og skilvirkasta, auk þess sem hún þjónaði fleiri hópum sem eiga undir högg að sækja (=næstum því öllum), væri sósíalisminn. Obbobobb, hvað, er ég að tala um gúlag og stalínískar hreinsanir? Nei, auðvitað ekki. Ég er að tala um að einkaeignarhald á tækjum efnahagskerfisins, tækjunum sem þjóðfélagið framleiðir lífsviðurværi sitt með, heyri sögunni til, og í stað þess að framleiðslan þjóni fámennri forréttindastétt (les: hvítir karlar) og gróðafíkn hennar, þá miðist hún við þarfir alla almennings.



Þessi sterka borgaralega tilhneiging, til að vilja leysa öll vandamál innan ramma auðvaldsins og borgaralegra þjóðfélagshátta, þýðir að þótt eitt vandamál leysist, þá eru hin eftir óleyst.

Það, að konur sem heild eigi minna og ráði minna en karlar sem heild, þýðir að þær eru undirstétt. sama má segja um aðra hópa sem eiga undir högg að sækja, t.d. innflytjendur. Undirstétt. Undirstéttunum vegnar best ef þær halda saman gegn sameiginlegum andstæðingi, yfirstéttinni. Með því að undirstéttir standi ekki saman, er yfirstéttinni ekki ógnað og oftast er henni í sjálfs vald sett hvort hún verður við kröfunum. Samstaða undirstéttanna væri hins vegar svo mikill þrýstingur, að yfirstéttin gæti ekki staðið gegn honum. Ef undirstéttir standa saman geta þær unnið mikla sigra.

Það þarf að eyða stéttamismun, og þá eyðist af sjálfu sér sá pólítíski og þjóðfélagslegi mismunur sem leiðir af honum. Þann dag, sem þessi skilningur verður almennur, verður hægt að fara að gera eitthað af viti.





~~~~~~~~~~~~~~~~

Ísraelski hermaðurinn sem skaut Tom Hurndall viðurkennir að hafa vitað að Hurndall væri óvopnaður. He also claims that he was under orders to open fire on anyone, even unarmed people. Hmmm?



~~~~~~~~~~~~~~~~

Nepalskir maóistar ætla að setja Katmandú í herkví - öðru sinni síðan í haust.



~~~~~~~~~~~~~~~~

Bandarískt verktakafyrirtæki dregur starfsemi sína burt frá Íraq.



~~~~~~~~~~~~~~~~

Bernard Kerik hættir hjá ráðgjafarfyrirtæki sínu og Giulianis -- Kerik er sá sem varð að hætta við að gerast þjóðaröryggisráðgjafi í BNA vegna þess að hann hafði ráðið ólöglegan innflytjanda sem barnfóstru. En hann er með fleira á samviskunni: Lesið þetta!



~~~~~~~~~~~~~~~~

Að lokum, ég hef fjarlægt linkinn á Útvarp Sögu. Ég geri það með trega, en þetta gengur alveg fram af mér. "Næst heyrum við kraftaverkasögur af fólki sem fór í spjaldbeinablabla"-vitleysa.



Enn fremur hef ég bætt nokkrum linkum neðarlega í dálkinn til hægri. Flestir þeirra eru á flokka maóista, m.a. í Nepal, Afghanistan og Tyrklandi.
Já, Morgunblaðið fór sko fram úr sjálfu sér í ósmekklegheitum á laugardaginn var, 18. desember. Í sjálfu barnablaði Moggans var þessi þraut:



Kona, sem bjó í Þýskalandi í heimsstyrjöldinni síðari, vildi fara yfir landamærin til Sviss til að flýja undan nasistum. Brúin sem hún þurfti að fara yfir var um 800 metrar að lengd yfir stórt og djúpt gil. Á þriggja mínútna fresti kemur vörður út úr byrginu sínu og athugar hvort nokkur sé að stelast yfir brúna. Ef einhver er gripinn við að reyna að flýja frá Þýskalandi til Sviss án vegabréfs verður hann skotinn, en ef einhver reynir að fara frá Sviss til Þýskalands án vegabréfs verður hann sendur til baka. Konan veit að það tekur alla vega 5 mínútur að komast yfir brúna, þannig að líklega muni hún sjást og verða skotin. En hvernig gæti hún komist heil á húfi yfir brúna?




Finnst einhverjum öðrum en mér ósmekklegt að hafa svona þraut í barnablaðinu?

Wednesday, December 22, 2004

Það er naumast mannfallið í Mosul. Það er ekki sama Jón og séra Jón; ekki sér styrmir Gunnarsson ástæðu til að slá því upp með 72 punkta letri, á forsíðu Morgunblaðsins, þegar 20 írasqir borgarar falla.

George Bush Bandaríkjaforseti segir fráleitt að hætta hálfnuðu verki í Írak þrátt fyrir mannfall, hlutverk Bandaríkjahers sé að koma þar á friði og lýðræði.

Góður þessi. Svo ég vitni í Jesaja spámann, þá sprettur friður upp af réttlæti. Ef Bandaríkjastjórn vill frið í Íraq ætti hún að byrja á að draga þaðan burt mesta ófriðarvaldinn, sem jafnframt á 99% af öllum vopnum sem eru það. Þá mætti hún taka með sér seppann, afsakið, leppinn Allawi og leyfa Íröqum að ráða sínum málum sjálfir. Gallinn er bara að þetta stendur ekkert til. Réttlæti?

Réttlæti fæli í sér að Íraqar réðu sjálfir yfir olíulindum sínum og væru ekki myrtir í þokkabót.

Efnavopna-Halldór situr mumlandi í Stjórnarráðinu og heldur að hann sé sniðugur, að styðja fjöldamorð á saklausu fólki.



Talandi um réttlæti, frið, lýðræði og fleira í þeim dúr, þá má taka fram að allt tal yfirvalda um þetta er skrum eitt. Sá rithöfundur sem flestir virðast elska að vitna í, Orwell, fann einmitt upp nafn á þetta mál: Newspeak. Newspeak er það sem heldið hefur verið að okkur. Orð eru svipt merkingu sinni eða gefin ný merking til að styrkja valdastéttina. Lesið þetta.



Bandaríkjamenn segja að þessi "Abu Musab al-Zarqawi" sé kominn til Mosul. Kjaftæði! Hann er jafn mikið í kjallaranum heima hjá mér og hann er í Mosul! Ég neita að trúa að þessi grýla sé til í alvörunni. Fréttir hermdu að hann hefði verið drepinn í loftárás í apríl 2003; ég held mig við þá frétt þar til annað sannast. Hvað held ég að þetta sé? Ég held að þessi tengsl sem þessi hópur hans á að hafa við al-Qaeda séu nánar tiltekið tengsl við CIA. Í fyrsta lagi leikur enginn vafi á því að CIA hefur meira en nógu lágt siðferðisþrek til að sviðsetja svona. Stofnanir hafa ekki siðferði; þær hafa verkefni og þær hafa hagsmuni. Í öðru lagi er meira en lítið dularfullt hvað (a) allt sem "Zarqawi" gerir spilar beint upp í hendurnar á Bandaríkjastjórn og (b) allt sem hann gerir fær mikla athygli í heimspressunni. Þá skulum við ekki gleyma hinni sviðsettu aftöku á Nick Berg.



~~~~~~~~~~~~~~~~~



Að lokum: Styrmir Gunnarsson lýsir því hvernig Jústsénkó hafi flengt Janúkóvitsj í kappræðum í sjónvarpi í Úkraínu. Lætur þess hins vegar ógetið, að báðir eru frambjóðendurnir langt til hægri, og báðir vilja þeir þjóna erlendum hagsmunum umfram úkraínska. Jústsénkó er "vinur Vesturlanda" og vestræna pressan vorkennir honum af því það er farið svo illa með þennan góða, heiðarlega lýðræðisvin. Blablabla. Hann er "góði gæinn" vegna þess að hann vill opna Úkraínu meira fyrir vestrænni fjárfestingu, sækja um í NATÓ, ESB o.s.frv. Gott, ekki satt? Nei, ekki gott. Vestræn fjárfesting er ekkert annað en vestræn nútíma útþenslustefna. Hvað ætli alþýða Búlgaríu sé mikið hrifin af því að einhverjir Íslendingar séu að kaupa landssímann þeirra?

Monday, December 20, 2004

Ég fór í gær og sá sýningu Stúdentaleikhússins, Þú veist hvernig þetta er. Það var nú aldeilis góð sýning; 90 mínútur sem voru fljótar að líða. Sviðið var á fjóra vegu í kring um áhorfendastæði, og voru tjöldin dregin frá á víxl, svo stundum var ein hlið opin en stundum tvær. Sjálft leikritið var kröftug og tryllingsleg ádeila á íslenskt samfélag skeytingarleysis og værukærðar, ádeila á ríkisstjórnina og neysluhyggjuna, á Íraqsstríðið og fleira og fleira. Frábær sýning, þótti mér. Verst að hún var sú síðasta, þannig að þeir sem þetta lesa og eru orðnir spenntir hafa nú þegar misst af henni.

Saturday, December 18, 2004

Heilbrigða, heilbrigða veröld...



Við búum við allsnægtir en þeim er svo misskipt að sumir lepja dauðann úr skel. Það er til nægur matur til að láta allt mannkynið verða að offitusjúklingum, en samt sveltur stór hluti þess. Fólk deyr í hrönnum úr sjúkdómum sem hægt er að lækna með litlum tilkostnaði, en það er ekki gert. Meðan sumir fá ekki að læra að lesa sitja aðrir uppi sem eilífðarstúdentar. Við mengum umhverfið eins og það sé enginn morgundagur, við ruslum til eins og jörðin sé ófyllandi sorphít og rányrkju okkar á auðlindum jarðarinnar verður varla líkt við neitt nema brennivínsbender frá helvíti -- nema kannski ef maður líkti henni við heróínfíkn.

Í stuttu máli sagt: Það er mikið að. Blasir það ekki við? Það þarf ekki annað en að opna augun til að sjá það. Vitanlega eru sumir sem einfaldlega kæra sig ekkert um að opna augun. Eins og sagt var við hina bruðlandi, sukkandi hirð Frakkakonungs, syndaflóðið kemur eftir vora daga.

Í alvöru talað, það þarf að taka til hendinni. Kapítalismi og önnur krabbamein mannkynsins eiga eftir að tröllríða okkur öllum til andskotans ef við höldum áfram að fljóta svona sofandi að feigðarósi.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~



Þessu rippaði ég af Schnews:

CRAP ARREST OF THE WEEK



Girl, 10, Cuffed for Scissors in School

Anyone can be a terrorist or murderer these days you know. Even a

ten year old school girl. At an elementary school in Philadelphia,

a girl was cuffed then taken to a police station. The reason? A

pair of scissors were discovered in her school bag, breaking the

school's strict no weapons policy. The cops decided as she hadn't

threatened anyone with the 8-inch blades she had not committed a

crime and let her go but she's still waiting to hear whether

she'll be expelled to a special disciplinary school. The girl,

reported to have "cried and cried" with "no idea what she did

wrong"


~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~



Áðan bjó ég mér til glæsilegt mótmælaskilti. Fer með það með mér næst þegar ég mæti á mótmæli. Langar þig að mótmæla? Mótmæla Íraqsstríðinu, til dæmis? Skráðu þig þá á póstlistann Fólkið, fáðu að vita af atburðum, láttu vita af atburðum og vertu með í vaxandi hreyfingu sem stefnir hátt.



~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Angela Merkel, þýskur kristilegur demókrati, sagði á dögunum (reyndar hefur hún oft sagt það) að "Þýskaland sé kristið land og byggi á kristnum gildum". Nú er þetta í fyrsta lagi ekki nema hálfsannleikur, þar sem Þýskaland byggir aðallega á borgaralegum gildum sem kristindómurinn hefur mótast af. "Kristin gildi" eru ekki til. En látum það liggja milli hluta. Nú skilgreinir hún Þýskaland sem kristið land. Augljóslega stangast það á við þá staðreynd að fjöldi Þjóðverja er trúlaus og fjöldi hefur kastar kristinni trú og tekið upp aðra trú, fyrir utan alla þá innflytjendur sem eru ekki kristnir. En það eru líka til venjulegir, innfæddir ekta Þjóðverjar sem hafa ótvírætt ekki kristnar rætur: Gyðingar.

Angela Merkel var, með öðrum orðum, að lýsa því yfir að gyðingar væru ekki ekta Þjóðverjar.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~



Ég vænti þess að allir séu búnir að kaupa sér (eða stela) dagbók fyrir árið 2005. Skrifið þetta þá hjá ykkur og takið frá:

Fimmtudag 20. janúar verður Blóð-Bush settur í

embætti í annað sinn. Þá verður sko mótmælt!

Skyldumæting! Tími og staður tilkynnt síðar.

Friday, December 17, 2004

"Sharon vill semja við Palestínumenn" er sagt á vef Ríkisútvarpsins. Hvaða heimildir skyldi RÚV hafa fyrir því að hann vilji það í alvöru, sé að tala í einlægni? Ætli þeir geti lesið hugsanir? Þessi fyrirsögn hefði átt að vera öðruvísi orðuð: Sharon segist vilja semja við Palestínumenn hefði verið nær sanni.

~~~~

Léttlestir á höfuðborgarsvæði úr sögunni, er sagt. Ég skil það svosem. Þykir samt eftirsjá að þeirri hugmynd. Ég held að það hefði vel mátt útfæra hana þannig að hún kæmi vel út.

~~~~

Það þarf að fara að leysa þessa Kýpurdeilu. Kannski að þetta skilyrði ESB sé það spark í rassinn á Tyrkjum senm gæti orðið til að leysa deiluna?

Það er í bígerð að stofnað verði Hið íslenska tröllavinafélag. Stefnt er að stofnfundi á bóndadag. Áhugasamir mega hafa samband: vangaveltur@yahoo.com til að fá nánari upplýsingar þegar nær dregur.



Hið íslenska tröllavinafélag mun m.a. beita sér fyrir því að minnka fordóma gagnvart tröllum, bæta samskipti trölla og annarra Íslendinga, stuðla að rannsóknum á tröllum og styðja útgáfu á bókum og öðru tengdu þeim.



Það er ekki vanþörf á, að eyða fordómum og misskilningi varðandi tröll.

Thursday, December 16, 2004

Útlendingalöggjöfin sem átti að vera svo æðisleg og meinlaus gerir sitt gagn = að pirra útlendinga að ástæðulausu.



Í undarlega orðaðri frétt kemur fram það sem flestir vissu þótt þrætt væri fyrir það: "að ólöglegt væri að hafa meinta erlenda hryðjuverkamenn í haldi án þess að réttað væri í málum þeirra. Þessi niðurstaða er áfall fyrir bresku ríkisstjórnina, sem hefur talið sig geta sveigt mannréttindalög að eigin vilja í baráttunni við alþjóðleg hryðjuverkasamtök."



Ég hef það á tilfinningunni að þetta sem lítur við fyrstu sýn út eins og djarft útspil af hálfu Efnavopna-Davíðs, að veita Fischer dvalarleyfi hér, sé kannski meira blögg en er látið í veðri vaka. Ég sé fyrir mér að Davíð hafi hringt í einhverja undirtyllu í bandaríska utanríkisráðuneytinu og símtalið hafi, efnislega, verið eitthvað á þessa leið:



Davíð Oddsson: Heyrðu, fólk hérna er að verða vitlaust. Úti á götu er gaurar með sultardropa og mótmælendaskilti, hópur af athyglissjúkum Þingholtalistakommum er að safna fyrir auglýsingu, og blöðin eru full af rógburði um sakleysingjana, okkur Dóra.

John Doe: Aha. En spennandi. Hvað sagðistu heita?

DO: Í alvöru talað, ég er farinn að halda að stuðningur við Íraqsstríðið sé að verða okkur dýrkeyptur. Fólk er ekkert að fíla þetta. En ég er með plan sem þið getið hjálpað mér með og kannski reddað einhverju.

JD: Og í hverju skyldi það plan vera fólgið?

DO: Flestir íslenski kommúnistar eru skáknördar. Við getum keypt þá góða með því að spila út trompinu sem við vorum að geyma fyrir tilfelli eins og þetta: Veitum Bobby Fischer landvistarleyfi til að þeir taki okkur í sátt. Hlutverk ykkar, Bandaríkjamanna, er að setja hörð andmæli á svið. Ég get þá spilað mig töff, að ég þori að standa gegn valdinu, standa við mína sannfæringu, og leyfa þessum meinlausa bullukolli að koma hingað við fögnuð annarra Íslendinga. Væruð þið til í að taka þátt í svona skúespilli?

JD: Jájá, ókei. Þetta er lítil fórn fyrir okkur en getur bjargað á þér andlitinu og gert þér kleift að halda áfram aðs tyðja Íraqsstríðið. Allt í lagi, við gerum þetta.

DO: Afbragð!

JD: Þegar storminn lægir framseljið þið hann kannski samt, er það ekki?

DO: Að sjálfsögðu!




Já, svona var þetta sennilega.

Efnavopna-Halldór, Erdogan/ESB og mengun



Ekki er nú Nestor Kirchner efstur á lista mínum yfir stjórnmálamenn sem ég hef velþóknun á, en á ráðstefnu í gær hafði hann lög að mæla: Hvaða sanngirni er í því að þjóðir þriðja heimsins séu í skrúfstykki að borga af okurlánum vestræns auðvalds, en Bandaríkjamenn geti spilað ræl á rófuna á sér, neitandi að skrifa undir Kyoto-bókunina?

Hvers vegna helst þessum sóðum uppi á því, að menga eins og þeir gera? Svar: Vegna þess að þeir eiga meira af vopnum en allir hinir til samans. Hver ætlar að stoppa þá?

Jónas Kristjánsson hittir naglann á höfuðið á bls. 2 í DV í dag. Því miður.



~~~~~



Efnavopna-Ali fer fyrstur fyrir rétt og fær væntanlega sanngjörn réttarhöld áður en hann verður hengdur. Núna er réttað yfir Efnavopna-Ali, já, en hvenær verða Efnavopna-Halldór og Efnavopna-Davíð dregnir fyrir dóm?



~~~~~



Ágæt grein Gísla Gunnarssonar um trú og trúleysi í Fréttablaði í dag.



~~~~~



Erdogan "varar Evrópusambandið við því að útiloka þá sem ekki eru kristnir" -- ég tek undir það. Ég er ekki kristinn. Ég vil ekki láta útiloka mig fyrir það. Ég er svo mikill Evrópubúi sem nokkur maður er Evrópubúi og hver sem segir að ég sé það ekki vegna þess að ég sé ekki kristinn getur étið skít.

Þarna er kannski komin almennileg ástæða til að Tyrklandi sé hleypt inn í ESB? Nú er ég andvígur ESB per se, en kannski að aðild Tyrklands yrði sambandinu til blessunar? Þá vantar bara að ESB bindi aðskilnað ríkis og kirkju í stjórnarskrá, taki upp esperantó sem opinbert mál og stjórnarskrárbindi að hvert Evrópuland stjórni sjálft hvaða efnahagskerfi það vilji hafa, og hver veit, þá mundi maður kannski samþykkja það.
Fór á Gauk á Stöng í gærkveldi. Varð þar fyrir Vonbrigðum en þó ekki fyrir vonbrigðum, ef svo má segja. Þrusutónleikar.



~~~~~



Rak áðan augun í auglýsingu í blaði. Legópakki á 5000. Annar Legópakki á 10.000. Hver dirfist að heimta 5000 kall fyrir pakka af Legói sem inniheldur ekki meira en 100 skitna kubba?? Þvílíkt okur! Þvílíkt rán!



~~~~~



Ég held ég hafi heyrt "I Put a Spell on You" tvisvar í útvarpinu í morgun. Mér fannst þetta lag aldrei neitt sérstakt fyrr en ég heyrði upprunalegu útgáfuna með snillingum og geðsjúklingnum Scremin' Jay Hawkins. Síðan þá hefur álit mitt á því breyst. Ég verð nú að viðurkenna, að gaman þætti mér að trúa á svartagaldur, vúdú og svona ... geri það nú samt ekki.



~~~~~



Mér finnst Pú og Pa í Fréttablaðinu alveg óborganlega leiðinlegir. Alltaf. Þetta bjálfalega drasl er ekki prentsvertunnar virði sem það er prentað með.



~~~~~



Og talandi um bjálfalegt: Slökum aðeins á stóru orðunum með Bobby Fischer! Gott mál að hann fái dvalarleyfi hér, gott mál. En að hrósa Efnavopna-Davíð fyrir þetta afrek, eins og hann hafi verið að fella illvígan dreka eða eitthvað, það er ekki ástæða til þess. Ástþór Magnússon er meðal þeirra sem hafa tekið óeðlilega djúpt í árinni. Var Davíð ekki bara að vinna vinnuna sína? Er það ekki vinna hans sem ráðherra í meintu lýðræðislíki .. afsakið, ríki .. að hjálpa mönnum eins og Fischer? Ekki sendir Ástþór Magnússon mér sérstakt skeyti til að hrósa mér fyrir frammistöðu mína í minni vinnu. Það hafa fleiri en hann farið mikinn í lofi um þetta afrek Efnavopna-Davíðs, sem verði í minnum haft og skráð á spjöld sögunnar. Blabla. Ef það verður í minnum haft verður það gert til að varpa skugga á önnur, óyndislegri afrek.



~~~~~



Talandi um Bobby Fischer, hvað ætli honum fyndist ef hann vissi að heilt sund heiti eftir honum í Grjótaþorpinu?



~~~~~



Og talandi um Grjótaþorp og Fischersund, þá er þar bókaveisla Sagnfræðingafélagsins klukkan 20:00 í kvöld. Í húsi Sögufélagsins. Ég vona að ég komist, en hvet aðra annars til að kíkja.

Wednesday, December 15, 2004

Gijs de Vries heitir maður. Hann ku stjórna aðgerðum Evrópusambandsins gegn hryðjuverkum. Áhorfendum sjónvarpsfrétta RÚV 14. desember (nánar tiltekið, áhorfendum þessarar fréttar) er de Vries etv. kunnur. Þar sagði hann að ógnin sem Vesturlöndum stafaði af hryðjuverkamönnum, væri einkum sprottin úr heimi íslams.



Það er ekki satt.



Sannleikur er allur sannleikurinn og ekkert nema sannleikurinn. Þetta er ekki allur sannleikurinn. Nú veit ég ekki hvort val Boga Ágústssonar og Ólafs Sigurðssonar, á því sem sjónvarpað var úr þessu viðtali, hefur valdið því að orð de Vries hafi verið tekin úr samhengi, né, ef svo er, hversu mikið. Orð hans eru samt í góðum samhljómi við það sem búast má við frá Evrópusambandinu, svo ég sé ekki sérstaka ástæðu til að gruna Boga og Ólaf um græsku.



De Vries segir ekki allan sannleikann. Það væri nefnilega vinnuveitendum hans í óhag, að hann gerði það. De Vries er háttsettur maður hjá Evrópusambandinu og Evrópusambandið er verkfæri og valdatæki valdastéttar evrópsku valdastéttarinnar, einkum þeirrar vestur-evrópsku. Sú valdastétt er kapítalísk og Evrópusambandið er kapítalískt. Hvers vegna væri þá allur sannleikurinn því í óhag?



Í staðinn fyrir að spyrja hvar hryðjuverk muni næst henda, eða hver muni næst leiðast til pólítískra ofbeldisverka, þá ættu menn að leita róta vandans. Spyrja af hverju pólítísk eða trúarleg ofbeldisverk stafa til að byrja með. Svarið við því er að það er róttæknisveifla í löndum kapítalismans. Sú róttæknisveifla á beinar rætur að rekja til efnahagslegra aðstæðna, og þeirrar staðreyndar, að þökk sé (vestrænum) kapítalisma er offramboð á örvæntingarfullu fólki. Þeir sem tapa í samkeppninni verða skiljanlega spældir.



Hverjir tapa í samkeppninni? Þeir sem standa veikar að vígi. Sá sem er fátækur og illa menntaður stendur verr að vígi. Sá sem talar illa mál landsins þar sem hann býr og er ef til vill einnig fórnarlamb fordóma innfæddra er ennþá líklegri en aðrir til að standa illa að vígi -- og verða undir í samfélaginu. Fordómar samborgaranna, eða þjóðernishyggja heimamanna, veldur því ennfremur að innfæddir finna oft ekki til samheyrileikakenndar með þeim. Hvað erum við þá komin með? Undirstétt sem er að miklu leyti saman sett af innflytjendum, frekar fátækum, frekar illa menntuðum, í sínum eigin menningarkima, með eigin siði og trú og jafnvel skuggalegir á litinn líka.



Það sem ég er að reyna að segja er að ógnin sem VEsturlöndum stafar af pólítísku ofbeldi á ekki rætur að rekja til heims íslams heldur til heims öreiganna, heims örbirgðar og örvæntingar. Þessi heimur er sköpunarverk og skilgetið afkvæmi kapítalismans og þess vegna getur Evrópusambandið ekki horfst í augu við rót vandans. Rót vandans er sama rótin og völd evrópsku valdastéttarinnar spretta af. Evrópska valdastéttin hefur, sem stendur, betur í samkeppninni, meðan undirstétt Evrópu hefur verr. Það vill svo til að innflytjendur og undirstétt eru að verulegu leyti sama fólkið. Heppilegt, hvað það er auðvelt að gera þá að framandlegum óvinum og mála þá sem hættulega af því þeir eru öðruvísi!



Ég neita því ekki að íslam, í sjálfu sér, á hlut að máli. Slæmar afleiðingar íslams eru að miklu leyti sambærilegar við slæmar afleiðingar kristninnar. Þannig að það er ekki sanngjarnt að segja að við íslam sé að sakast per se, heldur eru það nánar til tekið skipulögð trúarbrögð sem eiga hlut að máli. Og sem slík gildir það auðvitað um íslam líka, sem svo vill til að eru trúarbrögð stórs hluta undirstéttar Evrópu í dag.



Eitt af stóru vandamálunum við trúarbrögðin er að þau hafa einstakt lag (jæja, ásama þjóðernishyggjunni) á að veita byltingarsinnuðum straumum og róttækum hgusunarhætti í farveg kreddufestu, afturhalds, patentlausna og ... tja, forheimskunar. Í því samhengi minni ég á að ég styð andspyrnuna í Íraq, byltinguna í Íran og andspyrnuna í Afghanistan að svo miklu leyti sem hún snýr að brottrekstri heimsvaldasinnaðs herliðs. En um leið og stefnan er tekin á klerkaveldi eða ámóta afturhalds torfgrafir mannlegrar hgusunar, þá er framsæknin keyrð út af sporinu og stuðningur minn heyrir sögunni til. Köttur undir stýri setti byltinguna út í mýri, úti er ævintýri.



Afturhaldssöm hugmyndafræði á borð við íslamisma ógnar ekki grundvallarstoðum kapítalisma. Einstökum kapítalistum kannski, einstökum valdstjórnum kannski, en valdakerfinu sem slíku, nei. Þar sem til eru mun róttækari stefnur og framsæknari (t.d. ýmsar sósíalískar og kommúnískar) sem ógna einmitt þessum sömu stoðum, þá má segja að með íslamisma sé að rísa ógn sem er sú minna hættulega af tveim hættulegum. Það má meira að segja gæla við það, hvort valdastétt Vesturlanda reyni ekki meira að segja kerfisbundið að beina róttækni öreiga, af serknesku bergi brotinna, í farveg íslamismans. Styðja þannig þann valkost sem síður ógnar hagsmunum þeirra. Sá stuðningur gæti t.d. farið fram með inngripum leyniþjónusta (sbr. CIA og mujahedeen, Talibana, al-Qaeda etc.), eða bara með því að umbera íslamska eldklerka í vestrænum borgum.



Hvað er vandamálið? Vandamál er ekki pólítískt ofbeldi, þótt það sé í sjálfu sér vandamál og óæskilegt og hættulegt og allt það. Pólítískt ofbeldi er aðeins ein birtingarmynd af stóra vandamálinu. Vandamálinu sem má ekki tala um, og sem Gijs de Vries fer í kring um, eins og vinnuveitendur hans ætlast til af honum. Vandamálið er vestrænn kapítalismi, og lausnin er fólgin í afnámi hans og endurskipulagningu efnahagskerfisins með hagsmuni fólks í huga, þarfir þess, hamingju þess og velsæld. Og hananú!









Síðan þarf ekki snilling eða spámann til að sjá fyrir skref sem verður tekið á allra næstu árum, og reyndar er byrjað: Arabahatur. Eftir því sem aröbum sem slíkum eða múslimum sem slíkum er meira kennt um pólítískt ofbeldi, þá mun andúð Evrópumanna á þeim fara vaxandi. Hvar endar það? Ég veit það ekki. En á leiðinni þangað munu vestrænar ríkisstjórnir reyna að nota þetta hatur til að fylkja Vesturlandabúum að baki sér í auðlindastríði um olíulindir arabalandanna. Annað: Pólítísk róttækni á Vesturlöndum snertir auðvitað fleiri en innflytjendur. Hvað með innfædda? Hvort vill valdastéttin sjá róttækar marxistahreyfingar verða til eða óaldarflokka snoðkolla og fasista?

Tuesday, December 14, 2004

Í gærkveldi át ég stóreflis reykt folaldabjúga í kveldmat. Keypt í Kolaportinu, hrátt og reykt. Soðið í 90 mínútur rúmar. Bragðaðist ágætlega en andskoti þungt í maga. Ég hefði kannski ekki átt að éta hálfa lambarúllupylsu fyrst?

Nánar um andspyrnuna í Íraq



Það er kannski rétt að ég útlisti örlítið nánar skoðun mína á írösqu andspyrnunni. Hún berst fyrir réttlátum málstað og fallnir andspyrnumenn eru ótvíræðir píslarvottar. Frelsisstríð Íraqs er þjóðfrelsisstríð og sem slíkt bæði réttmætt og framsækið. En hversu langt nær réttmætið og framsæknin? Það er nú spurning. Að svo miklu leyti sem andspyrnan berst gegn hernámsliði, innrásarher, málaliðum, leppum, strengjabrúðum og quislingum, þá er hún bæði framsækin og réttmæt. Er ofbeldi þeirra réttlætanlegt? Látum einstök atvik liggja milli hluta, en sá aðili sem er að beita ofbeldi í Íraq er bandaríski herinn. Með dyggum stuðningi Íslands. Þegar Íraqar í andspyrnuhreyfingunni eru sagðir almennt herskáir er það einfaldlega ósatt. Sá sem er í sjálfsvörn eða nauðvörn og er beittur ofbeldi hefur skilyrðislausan rétt til að verja sig. Erum við Íslendingar að leggja okkar af mörkum til að verja þá fyrir ofbeldi Bandaríkjahers? Nei. Fyrst við verjum þá ekki höfum við siðferðislega ekki efni á að fordæma þá þegar þeir gera það sjálfir.

Hver getur áfellst þann, sem er króaður í horni og standa á honum spjótin, að hann freisti þess af örvæntingu að verja hendur sínar? Ég spyr. Hver mundi ekki verja hendur sínar?



En hvað tekur við? Ef quislingurinn Allawi er hrakinn út í hafsauga, sem ég vona að hann verði, hvað tekur þá við? Klerkaveldi? Lýðræði? Sambandslýðveldi? Ég veit það náttúrlega ekki.

Klerkaveldi væri alveg afleitt. Nýtt sekúlar gerræðisríki Baathista eða svipaðra kóna væri líka afleitt. Þær fylkingar andspyrnunnar sem berjast fyrir öðru hvoru af þessu hætta að vera framsæknar um leið og Bandaríkjaher er farinn. Sá sem berst fyrir afturför í Íraq (að það fari aftur í sama farið eða veðri stjórnað svipað og Íran) berst fyrir afturhaldi, afturför.

Fulltrúalýðræði að vestrænni fyrirmynd væri í sjálfu sér ágætt, en spurning hvort það getur komist á við þessar aðstæður. Það verður í fyrsta lagi að vera sanngjarnt, í öðru lagi að vera í umboði þjóðarinnar, og í þriðja lagi verður það að spretta upp úr jarðvegi þeirrar þjóðar sem það á að þjóna. Stöndug millistétt er nauðsynleg til að borgaralegt lýðræði geti gengið í alvörunni. Það mætti kannski hugsa sér sambandslýðveldi, hvernig sem það væri útfært. Hvort tveggja væri framför frá því sem nú er og því framsækið markmið að berjast fyrir. Því miður er það býsna lítið raunhæft.

Svo mikið er víst að Bandaríkjamenn eiga ekki eftir að koma á stjórnarfari í Íraq sem Íraqar sætta sig við. Hvers vegna ekki? Nú hafa Bandaríkjamenn lagt út í kostnaðarsamt stríð. Þeir munu ekki sætta sig við að koma út í tapi. Þeir eru að leggja undir sig olíulindir Íraqa og sleppa þeim ekki svo glatt. Það var nú stóri glæpurinn hans Saddams, að hann þjóðnýtti olíulindirnar. Hvað sem öðrum glæpum hans leið, þá var það gott hjá honum. Hvaða lýðræðisþjóð getur sætt sig við að þjóðarauður í jörðu sé gefinn útlendingum á spottprís? Auðvitað þjóðnýta helvítið!

Bandaríkjastjórn á sína heimsvaldahagsmuni og þeir eru andstæðir hagsmunum írösqu þjóðarinnar. Það er ekki hægt að gera báðum til geðs.

Svo ég haldi mig við efnið: Hvað svo? Eitt stjórnarform var eftir óupptalið: Alþýðulýðveldi. Sekúlar, lýðræðislegt og sósíalískt alþýðulýðveldi. (Nei, ég er ekki að tala um stalínískt gerræðisríki með þrælabúðum og hreinsunum!)

Hvað þyrfti til að koma á alþýðulýðveldi í Íraq?

Það þyrfti stjórnmálaflokk sem stefndi að því, hefði raunhæfa stefnuskrá, væri trúr írösqu þjóðinni og írösqu vinnandi fólki, og höfðaði til vinnandi fólks á forsendum þess sjálfs. Nánar tiltekið vinnandi fólks í þróunarlandi sem er aftarlega á merinni að mörgu leyti. Ég er semsé að tala um maóistaflokk: Íraq sárvantar maóistaflokk.



Gúgl-leit að írösqum maóistum skilaði engri niðurstöðu. Ég veit m.ö.o. ekki til þess að til sé maóistaflokkur í Íraq. Hvers vegna maóista? Ég held að maóismi sé sú byltingarkenning sem eigi við í þriðja heiminum. Varla þarf að taka fram að ég er ekki að tala um að taka upp hverja einustu kreddu eftir Maó sjálfum og troða óbreyttri upp á Íraq. Ég er að tala um að taka maóismann sem heildstætt kerfi og staðfæra það fyrir Íraq. Samanber Prachanda-leiðina sem maóistar í Nepal fara. Það er kominn maóistaflokkur í Afghanistan (sem ég vona að fari að láta til sín taka) og nú er Íraq næst á dagskrá.

Maóistaflokk Íraqs, takk fyrir!





Þangað til fylgist ég dapur í bragði með því hvernig hugrakkir synir Fallujah-borgar eru brytjaðir niður með stórvirkum vinnuvélum og hvernig skvapkenndir og værukærir kolbítar á Íslandi bora í nefið meðan þeir jánka því að við Íslendingar tökum þátt í þessum glæp. Þessum glæp gegn mannkyni.

Monday, December 13, 2004

Það er komin ný grein á Gagnauga, um hina "frjálsu" fjölmiðla.

~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~



Sjáið þrusugrein bróður míns.

~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~



Fallujah er í rjúkandi rústum en ekki eru andspyrnumenn af baki dottnir ennþá. Hvað getur maður sagt? Þeir eru seigir. Írasqa andspyrnuhreyfingin virðist vera mjög hörð í horn að taka. Hún berst fyrir réttlátan málstað og gegn innrásarher heimsvaldasinna. Án þess að ég skrifi upp á hverja einustu árás sem þeir gera, og án þess að ég hlakki yfir mannfalli Bandaríkjahers, þá er það andspyrnan sem er í rétti. Þjóð hefur rétt til að verjast innrásarher. Írasqa þjóðin getur verið stolt af sonum sínum sem setja líf sitt í hættu við að verja föðurlandið. Andspyrnumennirnir sem eru felldir eru píslarvottar fyrir frjálst Íraq.

~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~



Þetta er einn stór strámaður. Og hananú. Það er enginn að gleypa neitt allt hrátt eða gagnrýnislaust, það er enginn að kalla neinn óskeikulan og það er ekki verið að spá því að himnar hrynji. Ef sá sem af e-m ástæðum skrifar ekki undir nafni hefur einhverjar athugasemdir að gera við Life After the Oil Crash, þá þætti mér gaman að sjá þær. Í alvöru talað.
Úff, þetta finnst mér svo fyndið að ég verð að láta það fjúka hér!



Skrifað stendur:



Það er samt nakin kona í íbúðinni minni! Hún er ágætlega máluð og fremur lagleg. En gallinn er að hún býr í myndaramma og hangir á einum veggja íbúðarinnar.




Ég mislas: Þar sem sagði að hún væri í myndaramma (mynda-ramma) las ég fyrst að hún væri myndaramma (myndar-amma) og rak upp stór augu! Ekki það að ömmur geti ekki verið myndarlegar, en ég efast samt um að það sé það sem Myrkur meinti....









Lesið þetta annars. Brói minn á kostum fer.
Abbas verður næsti forseti Palestínsku heimastjórnarinnar. Ég sé ekki hvernig hann getur haldið skútunni á floti lengi. Ég sé fyrir mér að hann muni ekki ná að fylkja mönnum í kring um sig, að hann muni gangast um of upp í því að fullnægja kröfum Ísraela, með því að reyna að brjóta á bak aftur herskárri hreyfingar Palestínumanna. Síðan, þegar honum hafi orðið nokkuð ágengt með það, rísi Hamas upp gegn Palestínsku heimastjórninni, Ísrael ráðist af offorsi á hvora tveggju, og reki nokkur hundruð þúsund Palestínumenn til viðbótar frá heimahögum sínum og innlimi í Ísrael.



~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~



Mér finnst alveg yfirmáta asnalegt að það skuli vera tollur á innfluttum bókum. Ef ég fengi einhverju ráðið yrði það svo sannarlega á minni stefnuskrá, að afnema skatta á bækur.



~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~



Í Mogga í dag segir Styrmir Gunnarsson frá Hosni Mubarak, forseta Egyptalands. Hann ætlar að arfleiða son sinn að forsetaembættinu. 300 manns mótmæltu á götum Kaíró.

Mubarak er ekki lýðræðislega kjörinn, hann hefur verið þjóðhöfðingi óralengi og hann stjórnar með harðri hendi. Ég sé ekki hvers vegna er ekki hægt að kalla hann harðstjóra eða einræðisherra. Eða, ef út í það er farið, þá sé ég ekki hvers vegna flestir þjóðhöfðingjar arabalandanna eru ekki kallaðir það. Eða, ef út í það er farið, flestir þjóðhöfðingjar í heimi. Hvers vegna er Pervez Musharraf í Pakistan kallaður forseti? Hann er hershöfðingi og komst til valda í valdaráni. Kannski er ég að leggja vitlausa mælistiku á þetta. Kannski að það séu ekki stjórnarhættir, heldur þjónkun manna við vestræna heimsvaldastefnu, sem ræður því hvort menn flokkast undir einræðisherra eða forseta. Skv. því má vel kalla Mubarak forseta.



~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~



....og mun Vermont lýsa yfir sjálfstæði frá Bandaríkjunum? Kannski. Vonandi. Ef Vermont-menn lýsa yfir sjálfstæði legg ég til að þeim veðri boðin innganga í Evrópusambandið. Frjálsu Quebec líka.
1,5 tonn af sprengiefni, 600 metra löng göng, 4 Ísraelar fallnir. Mér finnst það næstum því hljóma súrrealískt að herskáir Palstínumenn skuli leggja svona mikið á sig. Á hinn bóginn, það leggur kannski enginn meira á sig en sá sem fórnar lífinu fyrir málstaðinn?



Ef ég man rétt eru forsetakosningar í Rúmeníu um þessar mundir. Þar, eins og víðar í A-Evrópu, takast hægrimenn á um reyturnar. Ég veit ekki hvort ég hef nokkuð um það að segja í bili samt.

Sunday, December 12, 2004

Áhugavert, mjög áhugavert. RÚV segir að þrælahald hafi tíðkast fram undir siðaskipti. Eitthvað finnst mér eins og menn séu eitthvað að rugla saman...



Hollendingar ætla að búa til nýjar mýrar til að bjarga vaðfuglum, ekki síst jaðrakani. Þess má geta að jaðrakan er einn af mínum uppáhalds fuglum.
Sharon og Peres hefja viðræður um nýja samsteypustjórn. Það er gott, er það ekki? Þá virkar Verkamannaflokkurinn temprandi á Likud-bandalagið, er það ekki? Perse, hann fékk Nóbelsverðlaun og er því góði gæjinn, er það ekki?



Því miður er það ekki svo. Það er misskilningur að Verkamannaflokkurinn sé vinstriflokkur, þótt hann ber þetta (vissluega) fallega nafn. Hann er á vinstrivæng zíonismans og hefur sósíaldemókratískar rætur. Vinstrivængur zíonismans er áfram zíonismi. Ef af þessari samsteypustjórn verður (sem ég gæti vel trúað), þá eru áhrifin ekki þau að slegið verði á hægriöfgar Sharons, heldur að honum verði gert kleift að sitja áfram sem forsætisráðherra og halda áfram glæpum sínum. Enn fremur mundi slík samsteypustjórn líta út fyrir að vera mun betri en sú gamla, og Evrópusambandið mundi sjálfsagt taka henni betur en gömlu stjórninni. Peres er Nóbelsverðlaunahafi eins og kunnugt er, og það gerir hann trúverðugri í hlutverki friðargjörðarmannsins. Því miður býr ekki mikið að baki fögrum fyrirheitum. Ef Peres gengur til samstarfs við Sharon er hann aðeins að bæta sínum eldiviði í eldinn sem kyndir ketil ísraelsku kúgunareimreiðarinnar.



Talandi um Ísrael og Palestínu, er þetta satt? Já, kannski það. Ísraelar hafa áður leikið þann leik að segjast ætla að sleppa föngum og alveg staðið við það, en bara gætt þes að það væru fangar sem átti að sleppa skömmu síðar hvort sem er. Út af fyrir sig alveg rétt, en skoðað í samhengi er það samt aðallega skrum í áróðursskyni.



~*~*~*~*~



Lesið frétt RÚV og fyrir hvað Jústsénkó stendur. Útskýrir ýmislegt. Annars er díoxín-eitrun hans staðfest. Kemur ekki á óvart, en alvarlegt mál engu að síður.

Saturday, December 11, 2004

Rúðubrot, NATO, Palestína, efnavopn, hræsni, olía og rasismi



Það var víst ekki grjót heldur gashylki sem var kastað inn um rúðu í Alþingi í gær. Ég veit ekki hvort þessi maður sem gerði það er veikur eða heimskur, en svona heimskupör eru afleit og skaðleg ef menn eru að reyna að koma málstað sínum áfram. Það vill svo til að ég og fleiri vorum nýfarin frá Austurvelli þegar þetta varð. Það vill svo til að ég hef fjarvistarsönnun. Asnastrik. Fertugur maður, skyldi hann ekki ætla að vaxa upp úr strákapörum?

Tilgangslaus og vanhugsuð skemmdarverk á opinberum eigum - þar sem öryggi saklausra er stefnt í hættu - eiga ekki að sjást meðal siðmenntaðra manna.



Hins vegar eru NATÓ-herskip í höfninni fyrir þá sem hafa áhuga. Skemmtilegt að fá að skoða stríðstól og manndrápsvélar. Jii ... fallbyssur? En gasalegt.

~*~*~*~*~*~*~*~*~*~



Palestína: Mustafa Barghouti, lækni, húmanista og forsetaframbjóðanda meinað ferðafrelsi af ísraelskum hermönnum, barinn og auðmýktur. Annars forsetaframbjóðandi, Bassam al-Sahli, tekinn fastur og meinð ferðafrelsi. Hvernig á að halda forsetakosningar undir þessum kringumstæðum? Sharon segir að Ísraelar muni gera sitt til að kosningarnar geti farið fram, en eins og fyrri daginn: Hlustum ekki á hvað hann segir heldur fylgjumst með því sem hann gerir. Hann er ómerkur orða sinna, en gjörðirnar tala sínu máli.

~*~*~*~*~*~*~*~*~*~



Það er merkilegt hvað einhliða umfjöllun og lituð sýn á hlutina getur skekkt málflutning manna. Hægrimenn úthúða Castró á Kúbu fyrir allt mögulegt, sumt verðskuldað en annað ekki, en láta eins og ekkert sé að í Guantanamo. Hræsni heitir það.

~*~*~*~*~*~*~*~*~*~



Tilraunir með efnavopn framkvæmdar á breskum hermönnum.

~*~*~*~*~*~*~*~*~*~



OPEC kemur sér saman um að minnka olíufrmleiðsluna til að "verðið falli ekki meira" ef ég skildi það rétt.

Heyr á endemi!

Sko, fáum eitt á hreint: Birgðir jarðarinnar af ódýrri olíu fara þverrandi og það er einhvern tímann á árunum 2000-2005 sem framboð og eftirspurn mætast í skurðpunkti. Þegar það gerist, og eftirspurnin verður meiri en framboðið, fer verðið snarhækkandi og þar af leiðandi snarminnkar aðgangur fólk að ódýrri orku og öðru sem er unnið úr olíu, með katastrófískum afleiðingum fyrir mannkynið.



Út af fyrir sig er gott mál að minnka olíuborun og minnka olíunotkun. Það þarf að gera það með afgerandi hætti: Taka í neyðarhemlana áður en lestin þýtur fram af hengifluginu. Það er meira í húfi en flestir kæra sig um að vita. En þetta, sýndaraðgerð af hálfu OPEC, er best til þess fallið að láta almenning (og flesta fjárfesta) halda að OPEC stjórni olíuverðinu. Það hefur gert það, en það kemur að því fyrr en við kærum okkur um, að það skellur á harðasta kreppa mannkynssögunnar. Þegar blind en hamrömm náttúrulögmál framboðs og eftirspurnar láta til sín taka verður OPEC eins og spilaborg frammi fyrir þessum jötni. Kapítalisminn siglir okkur ofan í lífskjaralegan öldudal, skellir á okkur kreppu svo ógurlegri að hún á sér enga líka.



Er mögulegt að henni verði afstýrt? Kynnið ykkur málið og myndið ykkur skoðun á því. Þetta er ekkert gamanmál.

~*~*~*~*~*~*~*~*~*~



Ég hef áhyggjur af því sem mér virðist vera vaxandi rasismi. Það er ekkert gamanmál. Mér finnst eins og ég finni fyrir aukinni róttæknisveiflu í þjóðfélaginu; ennþá ekki afgerandi, en næg til þess að maður verði var við hana. Ætli fleiri finni fyrir því sama? Allavega, róttækni tekur ýmsar birtingarmyndir. Sumir verða vinstri-róttæklingar, aðrir hægri-róttæklingar. Eru þetta fyrstu merkin um fjörbrot borgaralegs félags, harða kreppu, stéttaátök og byltingarástand? Eru þetta merki um að hin pólítíska loftvog sé að falla? Hver veit ... ég er altént uggandi.



Friday, December 10, 2004

Ég skellihlæ og slæ mér á lær yfir því hvernig hægrimenn klóra í bakkann og malda í móinn vegna söfnunar Þjóðarhreyfingarinnar! Hver aulaathugasemdin rekur aðra, og þeir reyna að sannfæra sjálfa sig og hver annan um að íslenska þjóðin hafi nú verið hlynnt þessu óréttlætanlega árásarstríði, þrátt fyrir allt!



Kommon, hvern haldið þið að þið séuð að blekkja!?



Íslenska þjóðin var aldrei og er ekki hlynnt árásarstríði Bandaríkjastjórnar á írösqu þjóðina. (Látum það liggja milli hluta að vilji Íslendinga hefur ekkert með réttmæti stríðsins að gera!) Það vita það allir. Ég hef ekki tölu á skoðanakönnununum sem sýna að 4/5 Íslendinga eru á móti stuðningi íslensku ríkisstjórnarinnar við þetta. Hvað halda þessir menn að þeir séu? Hægrimenn hrósa þeim fyrir þor og dug fyrir að þora að etja öðru fólki út í dauðann að berjast, sumt fyrir hagsmuni vestræns auðvalds, annað fyrir föðurlandið. Halldór Ásgrímsson getur trútt um talað, sitjandi á upphitaðri skrifstofu í leðurhægindi, borandi í nefið eða dragandi ýsur. Það er ekki hann sem hleypur milli hálfhruninna húsarústa með brunanálykt í vitunum eð kúlur fljúgandi yfir hausamótunum á honum. Ef honum finnst það svona göfugt og er svona hugaður, hvers vegna gerir hann það þá ekki sjálfur?



Hetjan mín.



En aulatilþrif allrahanda hægrimanna eru bara brjóstumkennanleg. Jæja, ekki bara. Þau eru hlægileg líka. Það er sama hvað þeir reyna að snúa út úr raunveruleikanum eða taka hann úr samhengi, íslenska þjóðin styður ekki þátttöku Íslands í Íraqsstríðinu.



Að því sögðu vil ég minna fólk á að hringja í söfnunarlínu Þjóðarhreyfingarinnar: 9020000 (níutíu tuttuguþúsund) til að láta þúsundkall af hendi rakna til að þessi verðuga auglýsing birtist í New York Times og sannleikurinn verði lýðum ljós.
Grjót flaug inn um rúðu í andyri Alþingis. Réttlætanlegt? Kannski. Góð hugmynd? Ónei!



Það er rangt að grípa til ofbeldis að fyrra bragði. Sá sem gerir það sýnir á sér þau veikleikamerki að hann skorti rök eða hafi ekki stjórn á skapi sínu. Auðvitað getur verið að hann hafi einfaldlega verið beittur ofbeldi sjálfur, eins og að það sé ekki hlustað á hann, rök hans þögguð niður eða drekkt með áróðri, honum neitað um lýðræði og vettvang til að tjá sig eða annað því um líkt. Undir þeim kringumstæðum mundi ofbeldið flokkast undir sjálfsvörn.



Grjótkast inn um rúðu Alþingis þjónar ekki tilgangi friðarsinna, að stöðva Íraqsstríðið, heldur hjálpar það ráðamönnum við að marginalisera friðarsinna sem bullur og brjálæðinga sem láti tilfinningar hlaupa með sig í gönur, nytsama sakleysingja eða fyrirhyggjulausa og óþroskaða krakka. Það lítur nefnilega þannig út, og það er almenningsálitið sem hlýst af ástæðulausu ofbeldi.



Ástæðulausu ofbeldi? Er til ofbeldi sem ekki er ástæðulaust? Já, þar á ég við sjálfsvörn. Það er fjarri mér að afneita rétti fólks til sjálfsvarnar. Palestínumenn, Íraqar, Afghanar, Víetnamar o.fl. eru dæmi um þjóðir sem hafa nýtt sér réttinn til sjálfsvarnar þótt deila megi um einstakar aðgerðir eða vinnubrögð.



Halldór Ásgrímsson hefur reyndar sjálfur valið að sitja ekki á friðarstóli, hann hefur sjálfur kastað stríðshanskanum og styður árásir á okkur, venjulegt fólk. Til útskýringar vil ég taka fram að þegar ég segi „við“ þá meina ég þá sem íslenskt launafólk á samleið með, sem er launafólk um víða veröld. Árásir á saklausa, vinnandi Íraqa er fyrst og fremst árás á saklaust, vinnandi fólk. Hvert ríkisfang þess er skiptir litlu máli; það sem skiptir máli er að það er ráðist á stéttarsystkini okkar saklaus, og þaðan er stutt leið til þess að ráðist sé á okkur sjálf saklaus hér á örugga Íslandi.



En ofbeldi? Nei takk. Við viljum minna ofbeldi, ekki meira. Ofbeldið er vandamálið, ekki lausnin. Maður slekkur ekki eld með eldi. Ég held að það sé fyrirfram tapaður bardagi að leggja til atlögu við þann sem er sterkari en maður sjálfur. Segir það sig ekki sjálft? Sá sem er sterkari lemur mann bara í klessu. Vinnandi fólk er mun sterkara en afturhaldsöfl, heimsvaldasinnar og aðrir pappírstígrar til samans, um leið og það kennir krafta sinna og öðlast stéttarvitund, samheyrileikakennd. Skipuleg valdataka þess getur farið friðsamlega fram ef henni er leyft það. Sjálfsákvörðunarrétt hefur fólk. Ef því er meinað að nýta sér hann jafngildir það árás á það og þá hefur það rétt til að verja sig. Til að verja mannréttindi sín. Vinnandi fólk með stéttarvitund og sjálfstæðan pólítískan front að vopni getur unnið þá sigra sem það vill og átt alls kostar við hvern sem er. Það þarf ekki að beita ofbeldi, og ef andstæðingurinn grípur til ofbeldis er það ofbeldi afturhaldssamt og óréttlátt. Sjálfsvörn gegn slíku ofbeldi, hvað getur hún annað en verið réttlát?



Ef vinnandi friðarsinnar á Íslandi vilja friðsamlegt samfélag, er þá ekki leiðin til þess líka friðsamleg? Við erum yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar. Leiðin til þess að nýta sjálfsákvörðunarrétt okkar til að losna undan auðvaldi er ekki leið ofbeldisins heldur er hún leið stéttarvitundarinnar, samstöðunnar, skilningsins á sameiginlegum hagsmunum okkar hvers með öðru og með stéttarsystkinum í öðrum löndum.



Íraq er Bandaríkjamönnum dýrt. Bandaríkjaher er líka Íröqum dýr, ef það skyldi hafa farið framhjá einhverjum.



Mbl: Nokkrir ísraelskir hermenn hafa viðurkennt að hafa skotið 15 ára palestínskan pilt, bara af því þá langaði til þess. Meiri reiði vakti í Ísrael þegar nokkrir landamæraverðir neyddu Palestínumann til að leika fyrir sig á fiðlu.

Thursday, December 9, 2004

Það gengur ekki að forsætisráðherra skuli haldast uppi óheiðarlegur málflutningur, útúrsnúningar, lygar og dylgjur, í ræðustól á Alþingi. Það gengur ekki að maður, sem hefur innan við tíunda hvern landsmann að baki sér, hagi sér eins og hershöfðingi og haldi að hann sé hafinn yfir landslög eða siðferði. Það þarf að girða fyrir að þetta rugl haldi áfram. Það þarf að setja nýja dagskrá, og það er ekki Halldór Ásgrímsson sem ætti að setja hana.



Námsmenn í Katmandú í Nepal mótmæla einveldinu. Er skrítið að það sé almenn óánægja með stjórnarfarið í landinu? Stjórnarfarið er blanda af miðaldalénskerfi og nýlendukúgun. Mannréttindi að engu höfð, sjálfsákvörðunarréttur fólks þaðan af síður, og alþýðan lepur dauðann úr skel. Svo dirfast Vesturveldin að styðja Gyanendra konung. Ekki veit ég hversu mikinn stuðning hann hefur frá Íslandi, en altént er stjórnmálsamband við ríkisstjórn hans.
Marwan Barghouti íhugar að draga forsetaframboðið til baka. Jamms. Hann er sennilega eini maðurinn, eða einn af mjög fáum, sem geta keppt við Abu Mazen í þessum kosningum. Ég held hins vegar að Marwan Barghouti sé kannski eini maðurinn sem gæti lengt lífdaga Palestínsku heimastjórnarinnar. Ég efast um að Abu Mazen geti haldið saman heimastjórninni til lengdar.



Norður-Kórea herðir viðurlög við landráðum. Ég vissi nú ekki einu sinni að það væri hægt!

Wednesday, December 8, 2004

Hvers vegna eiga íslenskir vinstrimenn engan fjölmiðil? Íslenskir vinstrimenn eru fjölmargir, mismunandi róttækir, en fjölmargir. Hverju sætir það að á Íslandi sé enginn vinstrisinnaður fjölmiðill? Nánast öll íslenska pressan er hægramegin við miðju, eða þá í miðjunni, svo að alvöru miðjan fer að líta út eins og hún sé til vinstri, hin ímyndaða miðja færist til hægri og hægristefna normaliserast, en alvöru visntristefna lítur út eins og vinstri öfgar? Þetta er augljóslega afleit þróun. Henni þarf að snúa við. Okkur vantar vinstrisinnaðan fjölmiðil sem fyrst. Ég tek fram að vefsíður tel ég ekki til fjölmiðla.

~*~*~*~*~*~*~*~*~



Það er grein eftir bróður minn á www.vinstri.is.

~*~*~*~*~*~*~*~*~



Hærri íbúðalán þýða hærra íbúðaverð og meiri skuldasöfnun. Er það gott?

~*~*~*~*~*~*~*~*~



Skondið þykir mér annars að það er talað um "byltingu" í íbúðalánum, prenttækni Jóhanns Gutenberg var kölluð "bylting" og það er talað um "byltingar" í hinum og þessum málum -- en þegar marxisti talar um byltingu, þá sér fólk fyrir sér götuvígu, brennandi bíldekk og að gengið sé hús úr húsi og hægrimönnum smalað í þrælabúðir. Það er ekki skrítið að bylting á Íslandi eigi lítinn hljómgrunn þegar áróðursmaskína íhaldsins kemst upp með að halda fram þessari mynd...

Tuesday, December 7, 2004

Um þessar mundir stendur yfir sögnun hjá Þjóðarhreyfingunni, eins og einhvejrir hafa kannski orðið varir við. Hringið í 90 20000 til að leggja góðu málefni þúsund króna lið: Gerum heimsbyggðinni ljóst að stuðningur íslenska ríkisins við Íraqsstríð var ekki með stuðningi íslensku þjóðarinnar heldur ákvörðun eins eða tveggja ógæfumanna.



Annars vekur þetta mann til umhugsunar. Hvað sem öllum hártogunum líður, þá er það á hreinu að þessi þjóð styður það ekki að Ísland sé á lista hinna herskáu. Hvers vegna er það þá þar?



Hverjum er ríkisstjórnin að þjóna?



Hver á ríkisstjórnina?



Ríkisvaldið er verkfæri ... sá fær að beita því sér til hagsbóta sem hefur yfirhöndina hverju sinni í landinu.



Hver er það?



A.m.k. 80% þjóðarinnar virðast ekki tilheyra þeim hópi.

Monday, December 6, 2004

Ég hvet þá sem ekki eru þegar búnir að því að skrá sig á póstlista Fólksins.net. Því fylgja engar skuldbindingar; þetta er vettvangur fyrir skoðanaskipti, fundaboð, uppákomur og umræður í tengslum við þátttöku Íslendinga í Íraqstríðinu og hvernig við getum þrýst á stjórnvöld að draga stuðninginn til baka.



Talandi um það, þá vil ég minna fólk á að hringja í söfnunarsíma Þjóðarhreyfingarinnar: 90 200 00 --- og leggja sitt af mörkum til að fjármagna auglýsingu í New York Times. Flott framtak hér á ferð. Sumir hringja tvisvar eða oftar.



Lítið á blogg Birgittu. Hún er í hópi þeirra sem hafa fengið nóg og láta í sér heyra vegna Íraqsstríðsins.



Ég ítrekaði fyrirspurn mína til Mbl. vegna þessarar fréttar. Nú bíð ég og sé hvort ég fæ svar í þetta sinn. Ég er orðinn langeygður eftir svörum frá fleira fólki. Starfslið dómsmálaráðuneytisins er t.a.m. ekki fljótt til svars. Heldur ekki kommúnistaflokkar Nepal og Suður-Afríku.
Meðan ég man: Þessi frétt byggir á upploginni heimild; BBC var haft að fífli í þetta sinn. Ég hugsa að þessi færsla standi áfram undir sér, fyrst ég álpaðist til að setja fyrirvara inn í hana ("ef sönn er", "ef þetta er að marka").

Hvað er nú þetta? Eru nepalskir maóistar að misstíga sig á hinum skínandi stíg? Eða er þetta kannski áróður? Ég gúglaði höfundinum, sem heitir Kamala Sarup, og fann að hún er meðlimur í einhverjum samtökum sem ég veit engin deili á. Hins vegar komst ég að því að hún er við doktorsnám í Bandaríkjunum. Setur það strik í reikninginn? Hefði hún átt að taka það fram? Þýðir þetta að allt sem frá henni kemur sé lygi? Nei, reyndar ekki. Mér virðist hún vera borgaralega þenkjandi aktívisti í kvenréttindabaráttu í Nepal (sem ekki er vanþörf á), fyrir utan að vera málsmetandi í nepölskum bókmenntakreðsum. Skiptir það máli? Ég veit það ekki. Hvað með greinina sem ég vísaði í til að byrja með? Staðreyndirnar geta vel verið sannar og skýringar Kamölu við þær geta vel verið það líka. Ég veit það ekki.

~*~*~*~*~*~



5 milljónum Ungverja neitað um ungverskan ríkisborgararétt. Sanngjarnt? Ég veit ekki. Skiljanlegt? Ég býst við því.

~*~*~*~*~*~



Ósama er gjörsamlega týndur, að sögn Musharrafs Pakistanadróttins. Í alvöru ... *geisp* ... ha? Er ætlast til þess að maður kaupi þá sögu að einn maður, sem er foringi í stórhættulegum samtökum með tengslanet um allan heim og bankareikninga og ég-veit-ekki-hvað og er í þokkabót óvanalega stórvaxinn, finnist ekki þegar allur her og floti leitar að honum? Önnur skýring - sem er ekki jafn fráleit og mörgum finnst það hljóma - er sú að það sé ekkert verið að leita að Ósama í alvörunni. Hann sé fyrir löngu kominn á Kyrrahafseyju þar sem hann sé í vellystingum með kvennabúrið sitt og lífverði frá CIA.

Ég trúi ekki hinni opinberu sögu um þennan Ósama.

Sunday, December 5, 2004

Útvarpi Sögu hefur aldeilis farið aftur. Það er missir að þungavigtarmönnunum Sigurði og Hallgrími - og já, ég sakna meira að segja Ingva Hrafns. Arnþrúði hefur, því miður, ekki gengið að fylla skarð þeirra með almennilegu efni. Svosem má segja að það skarð er vandfyllt. Gústaf Níelsson, hver er nú það? Hann var með þátt áðan. Hvílíkur endemis hægriíhaldsöfgamaður! Hver hlustandinn á fætur öðrum hringdi inn og Gústaf sneri fimlega út úr fyrir öllum eins og sönnum róttækum íhaldsmanni sæmir: Við erum að tala um Írak, blöndum ekki Víetnam inn í þetta. [=Berum ekki saman við fortíðina og lærum ekki af reynslunni.] Og hvenrig hugsarðu þér framhaldið ef Bandaríkjamenn fara bara? [=Hættum að hugsa um það sem liðið er og hver ber sök og einbeitum okkur að núinu -- undir forystu Bandaríkjamanna.] ...og svo framvegis.

Beint á eftir kom svo þessi asnalegi þáttur um óhefðbundnar "lækningar" og hvað þær séu nú undursamlegar. Ég sé ekki hvernig ég get haldið áfram að linka á Útvarp Sögu með þessu áframhaldi.

~*~*~*~*~*~*~*~*~



Á bls. 36 í Mbl. í gær ritar Davíð Logi um fyrirhugaða auglýsingu Þjóðarhreyfingarinnar, og hugleiðingar í kring um hana. Hann ber saman við "herverndar"samninginn 1951 og inngönguna í Nató. Það er arfaslakur samanburður -- hvort tveggja var gert án samráðs við íslensku þjóðina og þvert á mikla, almenna andstöðu. Með öðrum orðum, með ólýðræðislegum og fautalegum aðferðum. Það gleður mig þó hvað mér virðast hægrimenn vera farnir að vera ófeimnari við að gangast við því að Nató se hernaðarbandalag, en ekki varnarbandalag.

Saturday, December 4, 2004

Enn um Úkraínu og um réttmæt stríð og óréttmæt



Í Úkraínu takast á tvær valdablokkir: Ein er tengd og háð Rússlandi, hin er tengd og háð Bandaríkjunum og Evrópusambandinu. Hvorug blokkin ber hagsmunu úkraínskrar alþýðu manna fyrir brjósti.

Það er gamall leikur hjá vestrænum heimsvaldasinnum að stilla upp stjórnmálamönnum (í þessu tilfelli Jústsénkó) til höfuðs rotinni og spilltri valdaklíku landa, þar sem vestræn heimsvaldastefna seilist til áhrifa. Þessir stjórnmálamenn eru síðan básúnaðir sem vinir lýðræðis og mannréttinda, öfugt við gömlu stalínistana og vinnubúðasósíalistana. Settar eru á fót "sjálfstætt starfandi" hreyfingar sem ýmist eru á mála hjá vestrænum hagsmunaaðilum, fá ráðleggingar hjá þeim eða fyrirgreiðslu, eða eru beinlínis útibú frá þeim. Oft er hamrað á því, hvað gamla kerfið sé ægilegt, til þess að fólk haldi að "það geti nú ekki versnað" og að "þessi huggulegi, vestrænt menntaði maður hljóti nú að færa betri tíð, fyrst hann hlífir ekki gömlu flokksgæðingunum".

Jústsénkó fékk sennilega atkvæði fleiri kjósenda en Janúkóvitsj. Janúkóvitsj er sennilega verri leiðtogi en Jústsénkó. Það gerir Jústsénkó ekki sjálfkrafa góðan valkost. Hvað ef báðir eru ægilega slæmir kostir? Í Úkraínu virðist, því miður, sem sú sé raunin.

~*~*~*~*~*~*~*~*~*~*~



gefnu tilefni ætla ég að tjá mig örlítið meira um það sem Maó formaður sagði um réttmæt stríð og óréttmæt, og hvers vegna ég sagði það vera umhugsunarefni. Það er umhugsunarefni.

[Skáletrað = tilvitnun í Rauða kverið, s. 62]

Öll stríð, sem stuðla að framförum, eru réttmæt, og öll stríð sem hefta framfarir, eru óréttmæt.

Það er framför, fyrir fólk sem er ófrjálst, að fá frelsi. Ef þetta fólk er þjóð sem fær frelsi undan kúgun annarrar þjóðar, eða stétt sem fær frelsi undan annarri stétt, þá er það framför. Þannig er þjóðfrelsisstríð réttmætt, sem og mörg byltingarstríð, svo dæmi séu tekin. Þannig var frelsisstríð Bandaríkjanna réttmætt, einnig franska byltingin, einnig rússneska byltingin. "Stríð er framhald stjórnmálanna" segir Maó á öðrum stað -- stjórnmál + ofbeldi = stríð; stríð - ofbeldi = stjórnmál. Ef framförum er náð án ofbeldis er það gott. Ísland fékk frelsi undan Danmörku án beins ofbeldis. Það var gott. Það var framsækið. Það var framför fyrir Íslendinga. Bandaríkin fengu frelsi undan Bretum með beinu ofbeldi. Eða réttara sagt, þá var réttmætum kröfum þeirra svarað með ofbeldi, og þá hlutu þeir að verja hendur sínar. Þeir höfðu sigur, þeir fengu þjóðfrelsi, það var gott. Það var framsækið. Í Frakklandi 1789 og Rússlandi 1917 var ófremdarástand; alþýða manna var í nauðum og forneskjulegt einveldið hafði ekki tök á að friðþægja hana lengur. Það reyndi að berja hana niður í staðinn. Alþýðan varði hendur sínar, svaraði árásum og vann sigur: Sá sigur var réttmætur og framsækinn. Nú er þess að geta, að í báðum þessum löndum vann gagnbyltingin sigur á byltingunni. Það breytir því ekki að byltingarnar sjálfar voru bæði réttmætar og framsæknar.



Vér kommúnistar látum heldur ekki þar við sitja, vér tökum virkan þátt í réttlátum stríðum.



Þegar barist er fyrir réttmætum og framsæknum málstað, hvort sem það er á ritvelli eða vígvelli eða í dómsal, er það þá ekki bæði rétt og skylt ábyrgum manni sem vill ástunda réttmæta og framsækna breytni, að veita þeim lið sem á góðan málstað að verja? Ég held að það svari sér sjálft. En athugum:



Heimsstyrjöldin fyrri var til að mynda óréttmætt stríð, þar sem báðir aðilar börðust fyrir hagsmunum heimsvaldasinna.



Oft er það svo að á ferðinni er "false dilemma" -- dæminu er stillt upp eins og um tvo möguleika sé að velja, þegar verið getur að það sé þriðji möguleiki og að hinir tveir séu jafnvel ekki eins aðskildir og látið er líta út fyrir. Heimsstyrjöldina fyrri tekur Maó sem dæmi, en sama má segja um heimsstyrjöldina síðari og fjöldann allan af öðrum stríðum. Reyndar langflest stríð, ef út í það er farið. Þegar togstreitan snýst um hagsmuni valdastétta, þar sem valdastétt eins lands tekst á við valdastétt annars lands, þá er hin opinbera togstreita milli tveggja valdastétta. Á vígvellinum takast hins vegar á verkamenn hvorrar þjóðar með stígvél og byssustingi. "Rich man's war, poor man's fight", eins og sagt er. Heima fyrir er stríðið notað sem skálkaskjól fyrir atlögu að frelsi og mannréttindum, sem yfirleitt eru "grossly out of proportion" við það sem tilefnið kann að gefa til kynna. Með öðrum orðum, í heimsvaldastríði milli valdastéttar/ríkis A og valdastéttar/ríkis B, eru fórnarlömbin undirstéttirnar a og b. Þetta er stríð valdastéttarinnar A<->B innbyrðis og gegn undirstéttinni ab sameiginlega. Þegar svo stendur á, að undirstéttin er beitt ofbeldi, hvað er þá eðlilegra en að hún reyni að sporna gegn því?



Leiðin til að andæfa slíku stríði er að gera allt, sem í voru valdi stendur, til þess að koma í veg fyrir það, áður en það skellur á, og að svara ranglátu stríði með réttlátu stríði hvenær, sem færi gefst, eftir að það er hafið.



Hindra stríðið áður en það brýst út. Ef henni heppnast það ekki, og atlagan gegn henni hefst engu að síður, þá hlýtur hún að verja hendur sínar, ekki satt? Það er þá stigs munur en ekki eðlis, hvort sú barátta fer fram fyrir dómstólum, á ritvelli eða á vígvelli. Hún er réttmæt og framsækin. Óþarft er að taka fram (geri það samt til að taka af tvímæli) að fráleitt er að beita beinu ofbeldi ef komist verður hjá því!



Að þessu sögðu þætti mér fróðlegt að vita hvað fólki finnst um þau ummæli að ég sé "farinn að réttlæta stríðsrekstur".

Friday, December 3, 2004

Bhopal, Úkraína, dálkur ...



Dow Chemical gengst við ábyrgð vegna Bhopal-slyssins ef þessa frétt er að marka. Í dag eru einmitt 20 ár frá Bhopal-slysinu, þegar feiknalegt magn af eiturgasi rauk út úr skordýraeitursverksmiðjunni í Bhopal í Indlandi og drap þúsundir manna á augabragði. Union Carbide átti Bhopal-efnaverksmiðjuna en vildi aldrei gangast við ábyrgð. Dow Chemical keypti Union Carbide fyrir nokkrum árum og færðist ábyrgðin með í kaupunum. Mér þykir þetta stórfrétt ef sönn er. Ætli eitthvað hangi á spýtunni?



~*~*~*~*~*~*~*~*~



Ég má til með að benda fólki á þrjár frábærar greinar á World Socialist Website: þessa, þessa og þessa. Það sem er að gerast í Úkraínu er í stuttu máli þetta: Valdastétt sem byggir á fjárfestingu vestræns auðvalds er að ryðja sér til rúms á kostnað valdastéttar sem byggir á sterkum tengslum við Rússland. Vestrænar stofnanir og hægrisinnaðir þankatankar -- sem kenna sig margir hverjir við lýðræði og frelsi -- mynda klappliðið fyrir vestræntösinnuðu valdastéttinni. Með öðrum orðum, þarna takast á vestrænir (BNA og ESB) hagsmunir og rússneskir hagsmunir. Þetta er hluti af stórsókn vestræns auðvalds á fyrrum yfirráðasvæði Ráðstjórnarríkjanna og beintengt umsvifum í Georgíu, Mið-Asíu, Miðausturlöndum og víðar.

Í Úkraínu er svipað að gerast og í Júgóslavíu ekki löngu áður en borgarastyrjöld braust út þar að áeggjan vesturveldanna (sjá yfirlitsgrein). Það eru alvarlegir atburðir að gerast. Fjölmiðlar láta eins og ferskir vindar lýðræðis og frelsis blási um fúna sovéthjalla og að steinrunnið valdakerfið streitist á móti framförunum. Það er ekki svo. Þarna takast hægriöfl á við hægriöfl. Massífar áróðursvélar og kosningasmölunarvélar ræstar og ekkert gefið eftir í baráttunni um geóstrategíska legu Úkraínu, olíu- og gasleiðslur hennar og iðnaðar- og landbúnaðarþrek.



~*~*~*~*~*~*~*~*~



Dálkur á Harðkjarna.

Thursday, December 2, 2004

Hrökk upp með andfælum



Þegar ég var svona 13 eða 14 ára var ég að festa svefn einu sinni sem oftar. Mig var að byrja að dreyma: Fyrir framan mig stóð Bart Simpson í hnefaleikastellingu. Annar hnefinn á honum flaug í andlitið á mér. Ég hrökk upp með andfælum. Hafði Bart verið að gefa mér einn gúmorin?

Í gærkvöldi gerðist svo svipað. Ég var a festa svefn - einu sinni sem oftar - og var að byrja að dreyma. Mér fannst sem ég væri að flýta mér niður hringstiga, á harðaspani. Fór hraðar og hraðar og ... allt í einu missti ég fótanna og flaug niður með andlitið á undan. Ég hrökk upp. Andlitið á mér var sem betur fer í heilu lagi.
Það er stjórnarkreppa í Ísrael. Sharon leitað stuðnings Verkamannaflokksins. Mun ekki Verkamannaflokkurinn koma vitinu fyrir Sharon? verður hann ekki temprandi eða róandi afl í ísraelskum stjórnmálum? Nei, það verður hann ekki. Ef umleitanir Sharons verða árangursríkar mun Verkamannaflokkurinn ljá ódæðisverkum Sharons "lýðræðis"lega slikju og orðræði félagshyggjufólks, án þess að neitt breytist í raun. Ef þing verður rofið og efnt til nýrra kosninga mun það verða notað sem átylla til að hætta við brottflutninginn sem talað hefur verið um (en stendur ekki til í alvörunni).



Aðrar fréttir: Marwan Barghouti býður sig fram til forseta Palestínsku heimastjórnarinnar. Þarna er á ferðinni stórmerk frétt. Barghouti er foringi Tanzim, vopnaðs arms Fatah-hreyfingarinnar, og situr í fangelsi fyrir meinta aðild að vopnaðri andspyrnu gegn hernámi Ísraela. Hin raunverulega sök hans er að vera pólítískur leiðtogi í fremstu röð meðal Palestínumanna -- og hann hefur mjög raunhæfan möguleika á að leggja Abu Mazen í kosningunum í janúar. Reyndar er hann kannski sá eini sem hefur raunverulegan séns í Abu Mazen, nú þegar Rantissi er dauður.



Hér er síðan tilvitnun í Rauða kverið eftir Maó formann. Ég hvet fólk til að íhuga hvernig þessi orð eiga við Ísland í dag, hvort sem það er í yfirfærðri eða bókstaflegri merkingu:



Sagan sýnir að til eru tvennskonar stríð, réttmæt og óréttmæt. Öll stríð, sem stuðla að framförum, eru réttmæt, og öll stríð sem hefta framfarir, eru óréttmæt. Vér kommúnistar erum andvígir öllum óréttlátum stríðum, sem hindra framfarir, en vér erum ekki andvígir réttmætum stríðum, sem horfa til framfara. Vér kommúnistar látum heldur ekki þar við sitja, vér tökum virkan þátt í réttlátum stríðum. Heimsstyrjöldin fyrri var til að mynda óréttmætt stríð, þar sem báðir aðilar börðust fyrir hagsmunum heimsvaldasinna. Þessvegna voru kommúnistar um allan heim ákveðnir andstæðingar þeirrar styrjaldar. Leiðin til að andæfa slíku stríði er að gera allt, sem í voru valdi stendur, til þess að koma í veg fyrir það, áður en það skellur á, og að svara ranglátu stríði með réttlátu stríði hvenær, sem færi gefst, eftir að það er hafið. (S. 62.)




Þetta er umhugsunarefni.

Wednesday, December 1, 2004

Er manískur skítaustur svaraverður?



Davíð Oddsson er búinn að missa það. Hann æsir sig í tíma og ótíma, eys fólk auri, og þegar hann er orðinn rökþrota grípur hann til útúrsnúninga, rangfærslna og uppnefna. Það má hann eiga, að hann kemst oft skemmtilega að orði þegar hann tvinnar og þrinnar saman fúkyrðum um raunverulega eða ímyndaða andstæðinga sína -- en ansi er ég hræddur um að það hrökkvi skammt, röklega séð. Þegar rökrildi eru annars vegar má segja að uppnefni jafngildi uppgjöf, þ.e.a.s. ef þau eru þá ekki rökstudd því betur.

Nú hlýtur maður að spyrja sig, er þetta rugl í karlinum svaravert? Rífst maður við manískan mann? Rífst maður við öra, bölvandi dópista með slikju fyrir augunum? Rífst maður við rummunga? Nei, maður reynir að hunsa svona fólk.

Ég held að það væri öllum fyrir bestu ef fólk byrjaði bara að hunsa Davíð Oddsson. Það gæti hætt að velta sér upp úr því sem Davíð sagði síðast og farið að taka frumkvæði sjálft, í staðinn fyrir að láta brjálæðing stjórna för. Þegar sviðsljósið færi af honum mundi hann kannski slaka aðeins á. Ef áreitið yrði minna gæti hann kannski náð stjórn á skapsmunum sínum og þá hætt að gera ofstopa sinn opinberan.

En á hinn bóginn gegnir Davíð víst ábyrgðarstöðu. Stöðu sem ég kaus hann ekki í. Meðan hann er með utanríkisráðuneytið í höndunum er víst erfitt að hunsa hann. Það liggur því ljóst fyrir að hann yrði líka að hætta þar. Mikill yrði söknuðurinn, hmm? Ef ég væri sálfræðingurinn hans mundi ég mæla með hressingardvöl á heilsuhæli. Sem lengstri. Ísköld og brennheit böð til skiptis. Yfirseta og fylgd um stóran garð með kastaníutrjám og tjörn. Kannski fara að spila á eitthvað hljóðfæri. Fiðlu, kannski.

En ég er víst ekki sálfræðingurinn hans. Verð víst að láta mér nægja að fá sultardropa með skilti í hönd á Austurvelli. Vona að ég sjái sem flesta þar á hádegi.



Fundur áðan á Hótel Borg



Var á ágætum fundi á Hótel Borg, blaðamannafundi Þjóðarhreyfingarinnar - með lýðræði. Eins og áður hefur komið fram stendur til að birt verði í New York Times stóreflis auglýsing þar sem fram kemur að íslenska þjóðin var ekki spurð álits og íslenskum lögum var ekki einu sinni fylgt þegar Ísland var sett með á listann yfir hinar herskáu þjóðir. Þessi auglýsing er vitanlega ekki ókeypis, og þess vegna stendur yfir fjársöfnun til að greiða hana, sjá nánar hér. Ég hvet fólk til að láta þúsundkall af hendi rakna með því að hringja í 902-0000.

Á blaðamannafundinn komu hinir stórsniðugu strákar úr 70 mínútum, hressir að vanda, og ætluðu líklega að vera með sprell. Ég held að Bubbi Morthens hafi stoppað það. Gott hjá Bubba. Eftir fundinn, þegar út kom, átti ég svo stutt tal við mann sem mig minnir að hafi einu sinni verið á þingi fyrir Framsóknarflokkinn. Hann var óánægður með þetta framtak og vildi meiri hörku í stríðið, kvað svona kommakák nú ekki vera upp á púkkandi (mín orð, ekki hans). Það var kaupstaðarlykt af honum.



Ég vil minna á tónleikana í kvöld!



Annars fór ég á mótmælastöðu við Alþingishúsið ásamt fleira fólki í hádeginu. Við vorum ekkert voðalega mörg í þetta sinn. Halldór Blöndal stikaði hjá, stórstígur og fast um foldu, og "tók ekki eftir okkur". Við þurfum kannski að hafa stærri skilti næst?
Af forsíðu Þjóðviljans 1. desember 1939:



Orustur hafnar milli Rússa og Finna



Hernaðaraðgerðir á landi, sjó og í lofti?

Allar nánari fréttir, sem enn hafa borist um orusturnar , eru samkvæmt finnskum heimildum.

Í morgun fór rússneskur her inn í Finnland á þremur stöðum: Úr Kirjálanesinu milli finnska flóans og Ladoga við Rajajoki, fyrir norðan Ladoga við Suojärvi og eftir Norðuríshafsströndinni í áttina til Petsamo, sem er hafnarborg á norðurströndinni. Tilkynning um þetta var gefin út í Helsingfors nokkru fyrir hádegi.

Engar fregnir hafa enn birizt um þessa atburði frá Sovétríkjunum, nome opinber yfirlýsing um að hernaðaraðgerðir gegn Finnum hafi verið hafnar.

Um aðdraganda þessara tíðinda er það að segja, að svar finnsku stjórnarinnar til Sovétstjórnarinnar við uppsögn griðasáttmálans barst til Moskva í gærkvöldi. Ekkert hefur ennþá verið tilkynnt um efni þessa svars. Um sama leyti ákvað Sovétstjórnin að slíta stjórnmálasambandi við Finnland og kalla sendiherra sinn í Helsingfors heim. Segja Finnar, að Sovétríkin hafi tekið þessa ákvörðun áður en henni barst svar finnsku stjórnarinnar. Um sama leyti flutti Molotoff, forsætis- og utanríkisráðherra Sovétríkjanna, ræðu í útvarp, þar sem hann réðist hvasslega á finnsku stjórnina og kvað Sovétríkin ekki mundu þola lengur framkomu hennar. Lauk hann ræðu sinni með því, að skýra frá því, að ríkisstjórnin hefði gefið út tilskipun til yfirmanns hers og flota að vera við öllu búnir. ...



Síðustu fréttir:

Rússneska útvarpið segir atburðina vera landamæraskærur

Rússneska útvarpið gat ekki í gær um neinar hernaðaraðgerðir í Finnlandi. Fyrstu fregnirnar eftir rússneskum heimildum voru sendar út í rússneska útvarpið seint í gærkvöldi.

Voru þær fréttir á þá leið, að eftir margítrekaðar finnskar árásir á landamærunum hefði herstjórn Rauða hersins skipað að reka finnsku hersveitirnar frá landamærunum. Hefði þá Rauði herinn sótt á nokkrum stöðum um 15-20 km. inn í landið í því skyni. Ennfremur er sagt frá því að rússneskar flugvélar hafi flogið könnunarflug inn yfir Finnland, en hvergi kastað sprengjum yfir borgir. Loks skýrir rússneska útvarpið svo frá því að í gær hafi gengið æðisgengnar æsingar gegn Sovétríkjunum í Finnlandi.






Það eru semsagt 75 65* ár frá upphafi Finnlandsstríðsins. Sameiningarflokkur alþýðu-Sósíalistaflokkurinn studdi Rússa af einurð. Sá stuðningur vakti óhug meðal annarra Íslendinga: Héðinn Valdimarsson sagði sig úr Sósíalistaflokknum, Hermann Jónasson tók m.a.s. í lurginn á Brynjólfi Bjarnasyni í fundasal efri deildar í Alþingi. Sósíalistaflokkurinn tók við flokkslínu frá Kreml Stalíns. Finnlandsstríðið er eitt skýrasta dæmið um þær voveiflegu afleiðingar sem blind fylgispekt við erlend veldi getur haft. Alsaklausir sósíalistar dagsins í dag gjalda enn fyrir þessa atburði.

Tuesday, November 30, 2004

Mér finnst alltaf jafn hjákátlegt þegar hægrimenn opinbera vanþekkingu sína á George Orwell með því að vísa til 1984 sem "lýsingar hans á sósíalismanum". 1984 er lýsing hans á stalínismanum. Orwell var nefnilega róttækur vinstrimaður. Hann barðist meira að segja í spænsku borgarastyrjöldinni, var með anarkistum í Katalóníu. Nýjasta dæmið um svona vanþekkingar-opinberun er hjá Guðmundi Arnari Guðmundssyni, ritstjóra Ósýnilegu handarinnar, málgagns Andatrúarfélags Íslands.

~*~*~*~*~*~*~*~*~



Mótmælastöður við Alþingishúsið eru orðnar daglegt brauð. Hver sem vill leggja lið er velkominn. Mótmælastaða fer yfirleitt fram milli 12 og 14. Í dag voru a.m.k. tveir stjórnarþingmenn sem æstu sig vegna sannleikans sem stóð á skilti: Hvað hefurðu drepið mörg arababörn, Dóri? Ég mæli með hlýjum fötum.

~~~



Í dag voru utandagskrárumsræður á Alþingi, um Íraqsstríðið. Málshefjandi var gamall afturhaldskommatittur, Össur Skarphéðinsson. Umræðurnar má lesa hér ef einhver hefur áhuga.

~~~



Ef einhver á eftir að skrá sig á Fólkið er upplagt að gera það núna. Þarna er allt að gerast. Brennipunktur íslenskra stjórnmála.

Af tveim þjóðarhreyfingum: Með og móti lýðræði



Klukkan 14:00 á morgun (miðvikudag) heldur Þjóðarhreyfingin - með lýðræði blaðamannafund á Hótel Borg. Það stendur til að safna fé til að kaupa stóra auglýsingu í New York Times, þar sem heimsbyggðinni verður gert ljóst að stuðningur íslensku ríkisstjórnarinnar við Íraqsstríðið sé ekki með samþykki íslensku þjóðarinnar. Sjá nánar um fundinn hér.

Ég held að það sé ástæða til að mæta og sýna með því stuðning við birtingu þessarar auglýsingar.

~*~*~*~*~*~*~*~*~

...og þá að því sem mætti kalla „þjóðarhreyfingu gegn lýðræði“...



Davíð Oddsson kallaði Samfylkinguna "gamlan afturhaldskommatittaflokk" í þinginu í gær. (Mér heyrðist hann reyndar fyrst segja „..hommatitta..“ og sperrti eyrun!) Nú ætla ég ekki að fara að heyja skylmingar fyrir hönd Samfylkingarinnar, hún er fullfær um það sjálf, og í sjálfu sér er ... tja ... sumt í þessari nafngift sem ég get í sjálfu sér verið sammála ... en úff, hvaða hundur er hlaupinn í karlinn? Honum ferst, að úthúða öðrum fyrir afturhald. Ég sem hélt að geðvonskan hefði verið skorin úr honum hér um daginn?

~*~*~*~*~*~*~*~*~



Annað af Sjálfstæðismönnum: Heimdallur leggur til að ríkisútgjöld verði skorin niður um 118.000 kr. per mannsbarn. Ýmis ríkisútgjöld er besta mál að séu skorin niður en einu velti ég fyrir mér. Ætli hvert mannsbarn fái þá þennan 118.000-kall í vasann? Ef þessu væri skipt jafnt milli fólks væri það nú eitt (og spurning hvort þeim væri þá ekki allt eins vel komið í samneyslunni) -- en skyldi það vera hugmyndin? Ætli þetta mundi ekki aðallega fara til efnaðri hluta þjóðfélagsins? Mér er spurn.

Snarrót, tónleikar, fólkið, Úkraína o.fl.



Félags- og þjónustumiðstöð grasrótarhreyfinga, Snarrót, hefur nú starfað í nokkra mánuði og starfsemin verið hin líflegasta. Kvikmyndasýningar, fundir, almennt spjall ... það hefur verið mikið um að vera og gaman að taka þátt í því. Ef svo heldur áfram sem horfir, þá er þarna að verða til athvarf, vettvangur, gróðrarstöð fyrir grasrótina. Ég vil því hvetja þá sem enn hafa ekki heimsótt Snarrót að gera það sem fyrst og vera með.



Annað kvöld eru útgáfutónleikar geisladisksins Frjálsrar Palestínu á Gauki á Stöng. Rétt að minna á það.



Eitt enn sem er um að vera er Fólkið. Það er póstlisti og umræðuvettvangur fyrir fólk sem hefur fengið nóg af stríðsþátttöku Íslendinga og langar að gera eitthvað í málunum. Á póstlistanum er hægt að fá sendar tilkynningar um væntanlega atburði, senda sjálfur tilkynningar, og ræða málin, hvað sé rétt að gera, hvernig skuli gera það og svo framvegis.



Úkraína

gefnu tilefni hlýtur maður að spyrja sig hvor sé betri kostur, mafíustuddi Rússaleppurinn eða imperíalistastuddi Kanaleppurinn. Eða, ætti maður kannski frekar að spyrja hvor sé verri? Hvor heimsvaldastefnan er betri, sú rússneska eða sú bandaríska? Hvorum heimsvaldasinnunum viljum við fyglja að málum?

Þarna er á ferðinni false dilemma. Valið stendur milli tveggja slæmra kosta. Jústsénkó var alveg kosinn forseti Úkraínu og auðvitað á hann bara að verða forseti. En sú lausn mála er ekkert góð fyrir því. Jústsénkó er líka fulltrúi valdastéttarinnar, bara annars anga af henni.