Monday, November 26, 2007

Hagkerfi með sótthita

Gullverð er barómeterinn sem er hvað áreiðanlegastur til þess að spá fyrir um veðrið í hagkerginu. Í augnablikinu er únsan í rúmum 820 dölum. Fyrir ári var hún á tæpa 650 dali. Fyrir tveim árum á 500 dali. Fyrir fimm árum í tæpum 350 dölum. Eftir 11. september 2001 STÖKK verðið upp í 290 dali únsan. Og núna er það um 820 dalir, sem áður sagði. Þeir sem vilja hafa sitt á þurru þegar kreppan kemur, kaupa gull.

Hver er skýringin? Jú, þumalputtareglan er að únsa af gulli kosti sirka sama og tíu tunnur af olíu. Verðið á olíutunnunni hefur verið á bilinu 85-100 dollarar undanfarinn mánuð. Gullverðið lætur ekki á sér standa. Það tók tind fyrir viku, en á eftir að snarhækka áfram. Tal um Íraksstríð eða yfirvofandi stríð gegn Íran er fyrirsláttur. Skýringin er einföld: Markaðurinn finnur að olían fer þverrandi. Hann finnur strax og eftirspurnin fer fram úr framboðinu. Hvað þá þegar hún hendist fram úr því. Eða, réttara sagt, þegar framboðið steypist niður úr eftirspurninni.

Gott fólk, olíukreppan nálgast. Ekki af pólitískum ástæðum og varla einu sinni af hagfræðilegum ástæðum heldur. Ástæðurnar eru jarðfræðilegar. Reynið bara að deila við þann dómara.
--- ---- ---- --- ---- ---- ---
Það er grein eftir mig á Egginni í dag, um frönsku verkföllin: Hvað er með Frökkum? Lesið hana. Hrósið henni.

Wednesday, November 21, 2007

Í dag er 21. nóvember

Í dag á ég grein á Egginni: Jibbí, jólin koma! heitir hún og er, því miður, löngu tímabær.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í dag er líka grein eftir mig á Vantrú: Hinn mikli velunnari samkynhneigðra. Umfjöllunarefnið eru Þjóðkirkjan og biskupinn.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ian Smith er dauður! Sá ljóti og heimski kúkalabbi mun þá varla gera fleira saklausu fólki skráveifu. Í Moggafréttinni er hann sagður hafa gagnrýnt Mugabe harðlega, sakað hann um að hafa eyðilegt landið og að vera ekki með réttu ráði. Kostulegt. Smith getur trútt um talað, eins og títt er um aflóga stjórnmálamenn. Í fyrsta lagi voru það Smith og kúkalabbavinir hans sem héldu Ródesíu í greipum óréttlætis en Mugabe braut þá á bak aftur (þá var hann hetja). Í öðru lagi hefur Smith tekið þátt í MDC (Movement for Democratic Change) með Morgan Tsvangirai og félögum, og þannig verið þeim til þeirrar óþurftar að afhjúpa hvað er í rauninni á bak við þá hreyfingu: Vestræn heimsvaldastefna. Smith hefur ekki bara tekist að stjórna landinu svo illa og óréttlátt að Mugabe hafi komist til valda, heldur hefur hann auk þess óvart gert stjórnarandstöðuna gegn Mugabe ótrúverðuga og þannig óbeint hjálpað honum að halda í völdin!
Var ekki Halli málaliði frá Akureyri annars í skítverkum í Ródesíu?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
„Frostrósir“ halda tónleika í desember og okurverð er rukkað fyrir aðgöngumiða, eins og títt er orðið um stærri tónleika hér á landi.
Hvað með það? Hverjum er ekki sama? Hvern langar að fara? Verður einhver súr yfir að komast ekki?

Bíræfni, ófyrirleitni, gnístran tanna

Ég fór á Þjóðarbókhlöðuna á mánudagskvöldið, skildi hatt minn, jakka og trefil eftir í fatahenginu eins og ég er vanur, og leit síðan á tölvuverið. Undi mér þar í á að giska klukkutíma og stóð síðan upp til þess að yfirgefa svæðið.

Ég gekk berhöfðaður heim. Einhver asni hafði verið svo óprúttinn að taka hattinn minn úr fatahenginu. Ég var rændur!

Hatturinn hefur ekki komið í leitirnar ennþá. Ég hef ekki alveg gefið upp vonina, en hún er satt að segja ekki mikil. Til bráðabirgða hef ég tekið gamalt pottlok í notkun, en er ekki eins ánægður með það og hattinn góða. Þessi hattur var keyptur í lítilli hattabúð í London í júníbyrjun 2002. Hann var hugsaður sem eins konar sólhlíf, þar sem ég var á leiðinni til hinnar sólríku Palestínu. Sem slíkur reyndist hann óaðfinnanlega; sólarljós sleppur illa í gegn um hnausþykkt leður.

Þegar ég kom heim hengdi ég hann upp á vegg, en nokkrum mánuðum síðar skall á ofboðsleg vætutíð. Valið stóð á milli þess að fara að nota regnhlíf eða að ganga með hatt; hatturinn varð fyrir valinu. Frá þeim degi hef ég notað hann í næstum því hvert einasta skipti sem ég hef farið út úr húsi, eins og þeir hafa séð sem hafa séð mig. Og nú virðist hann vera allur.

Friday, November 16, 2007

Bréf til Vífilfells

Ég var að senda þetta til markaðsdeildar Vífilfells hf.:

Góðan dag.
Síðasta föstudag (9. nóvember) var ég staddur á Vínbarnum í Kirkjustræti þegar inn kom hópur fáklæddra stúlkna sem voru að kynna "jólabjór" frá Vífilfelli. Ég tel rétt að segja ykkur að vegna þessarar niðurlægjandi aðferðar við markaðssetningu hef ég ákveðið að kaupa þennan svokallaða jólabjór ykkar aldrei, og mun hvetja aðra til þess sama. Ég vona að þið sjáið að ykkur og hættið að nota kvenlíkama eða karlrembu til þess að markaðssetja vörur ykkar.
Kv. Vésteinn Valgarðsson


~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Elías Davíðsson skrifar: Íslendingar að undirbúa lögregluríki með bros á vör.

Wednesday, November 14, 2007

Tilbúin undir lýðræði?

Mér finnst skondið að þegar Pervez Musharraf, Alaksander Lukashenko og fleiri af þeirra sauðarhúsi segja þjóðir sínar ekki vera tilbúnar fyrir lýðræði, að þá skuli menn fussa.
Þeir eru bara að segja sannleikann. Hvers vegna að fussa yfir sannleikanum?
Ef þjóðir þeirra væru tilbúnar fyrir lýðræði, þá væru þær búnar að sækja sér það, með góðu eða illu. Þegar þjóð verður tilbúin fyrir lýðræði, þá steypir hún viðkomandi einræðisherra og kemur því á.
Það verður sjaldan lýðræði án þess að bylting eða uppreisn spili inn í.
Það vekur aftur spurningar um lýðræði t.d. hér á Íslandi.

Friday, November 9, 2007

Æh..

Ég hélt að ég væri að skúbba einhverju svakalegu hér í síðustu færslu, brennandi skipi eða einhverju. En ég er búinn að komast að því hvaða fyrirgangur þetta var á Sundahöfn um daginn.


Það var verið að taka kvikmynd.


Það var nú allt og sumt.

Wednesday, November 7, 2007

Dagurinn í dag

Í dag er grein eftir mig á Egginni: Októberbyltingin 90 ára.
Það er líka grein eftir mig á Vantrú: Ósamræmi: Trúfélagsskráningar- og fermingaraldur.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Btw, vissuð þið að það var núna í ágúst síðastliðnum, sem þrælahald var bannað með lögum í Máritaníu? Eða að það viðgengst enn í Níger, og að hundruð þúsunda eru í ánauð? Þá er ég að tala um löglegt þrælahald, ekki mansal eða aðrar tegundir þrælahalds sem viðgangast í trássi við lög.

Til hamingju með daginn!

Í dag eru 90 ár frá rússnesku byltingunni, merkilegasta atburði tuttugustu aldar!

Í tilefni dagsins stendur Byltingarráðið fyrir fundi í Friðarhúsi (Njálsgötu 87) klukkan 20:00. Rætt verður um sögu byltingarinnar, ávinninga og vandamál, og um horfur í byltingarmálum í dag og eru allir velkomnir.

Það mun birtast grein eftir mig á Egginni á eftir (þ.e.a.s. í fyrramálið; ég skrifa þetta um hánótt). Ef einhver getur ekki beðið, þá vil ég benda á aðra grein eftir sjálfan mig sem þar birtist í fyrradag, 5. nóvember: Gleymum aldrei fimmta nóvember. Umfjöllunarefni hennar er auðvitað Guy Fawkes og sú ólíkindaatburðarás sem hann var frægasti þátttakandinn í fyrir 402 árum síðan. (Þess má geta að ég ætlaði mér alltaf að skrifa grein um þetta efni og senda Lesbók Morgunblaðsins á 400 ára afmælinu fyrir tveim árum, en hvað um það...)

Það er nóg að gera við að ritstýra Frjálsri Palestínu, en verkið sækist vel ef einhver vill vita það.

Reykjarbólstrar og þyrlugnýr um nótt

Upp úr miðnætti opnaði ég bakdyrnar og brá mér út fyrir til þess að reykja eina sígarettu. Mikill gnýr var úti, og gekk ég aftur fyrir Klepp til að sjá hvað væri á seyði. Þyrla -- mér sýndist það vera þyrla Landhelgisgæslunnar -- hnitaði hringa yfir Sundahöfn og ljóskeilu sló frá henni niður yfir sundin, en mest á skip á höfninni. Fleiri ljóskeilur sá ég, eina sem mér sýndist vera frá skipinu og mér sýndist ég sjá tvær til viðbótar ofan úr einhverjum turnum nálægt því. Kleppskaft (klettur með nokkrum húsum) byrgði sýn, þannig að ég sá ekki annað af skipinu sjálfu en strompana, en mikla reykjarbólstra lagði frá því. Þeir kunna að hafa komið úr strompunum, en voru þó svo miklir að ég efast um það.
Jæja, síðan tala ég í síma við konu sem er á vakt uppi í risi hér á Kleppi. Hún hafði skiljanlega betra útsýni, og sagði mér að hún sæi tvo litla dráttarbáta úti á sundunum, og tollara keyra um, meðal annars á Kleppskafti hérna steinsnar frá, og henni sýndist skipið vera merkt Eimskipafélaginu. Eitthvað var greinilega á seyði. Ekkert hef ég ennþá séð um þetta dæmi á Rúv, Mbl eða Vísi, en verð að segja að ég er nokkuð forvitinn.
Var brennandi skipi siglt inn á Sundahöfn? Var verið að bösta heilan skipsfarm af Vítisenglum? Hvað? Hvað?

Thursday, November 1, 2007

Á heimasíðu Alcoa stendur að glæpamennirnir í BAE Systems, sem eru að funda á Hilton Nordica, kaupi álið í F-35 þoturnar af þeim, rétt eins og glæpamennirnir í Lockheed-Martin og Northrop-Grumman.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Norður-kóreskir hásetar berjast við sómalska sjóræningja og fá síðan læknisaðstoð um borð í bandarísku herskipi. Er ég einn um að finnast þessi frétt alveg stórmerkileg?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hrafn Malmquist skrifar: Stéttabaráttan í nýju Evrópu á Eggina.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ef íbúar Myanmar eru að byrja að hrista á sér hlekkina aftur, þá vil ég bara segja þetta: Ég vona að þeir geri byltingu, steypi þessum hershöfðingjum og byrji fyrir alvöru á hinni búrmísku leið til sósíalisma -- og þá er ég ekki að tala um það blaður sem herforingjastjórnin hefur viðhaft, heldur alvöru sósíalisma, sem felur í sér lýðræði, mannúð og að hagkerfið sé skipulagt eftir þörfum almennings en ekki valdastéttarinnar. Það sem væri alveg afleitt, alveg afleitt, væri ef Vesturveldin eða önnur heimsvaldasinnuð ríki færu að hlutast til um gang mála með hervaldi. Þau væru eins líkleg til að senda juntunni skipsfarma af græjum til að "stilla til friðar" eins og að reyna að koma henni frá.
Það gerir mig væntanlega að sérlegum stuðningsmanni mannréttindabrota herforingjastjórnarinnar, að ég sé mótfallinn árás á Myanmar. En alþýða Myanmar verður ekki frelsuð með öðrum vopnum en þeim sem hún hefur sjálf í höndunum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þar sem við stóðum fyrir framan ameríska sendiráðið á þriðjudaginn, og vorum að reyna að gera öryggisvörðum Skúritas það skiljanlegt að við færum ekki nema lögregla bæði okkur um það, þá verður Lárusi það að orði, að ef við yrðum handteknir ólöglega, þá mundum við sækja skaðabótamál --- og þá spurði annar skúritas-gæinn hvort við værum atvinnulausir! Ég varð nú forviða og sagði bara nei (við Lalli erum sko báðir næturverðir) --- en hugmyndin var athyglisverð: Það væri sniðug aukabúgrein að drýgja atvinnuleysisbæturnar með skaðabótum fyrir ólögmætar handtökur fyrir góðan málstað!