Wednesday, October 28, 2009

Skorið út í pappa

Gunnar Tómasson skrifar alþingismönnum um samræður sínar við James Galbraith hagfræðing, og er Galbraith ómyrkur í máli:

„Það segir sig sjálft: það er fáránlegt að ímynda sér að Ísland eða eitthvað annað land geti tekið á sig gjaldeyrisskuldir sem jafngilda 300 eða 400 prósentum af vergri landsframleiðslu (VLF) og forðast greiðsluþrot,“ segir Galbraith. „Ef stjórnvöld reyndu að axla slíka skuldabyrði myndu vinnufærir einstaklingar flytja af landi brott.“

Flytja af landi brott, eða gera byltingu. Nema hvort tveggja sé. Sá, sem ímyndar sér að í þessu samfélagi verði nokkurn tímann friður um að borga þessar skuldir, með öllu sem þeim tilheyrir, ætti að láta athuga á sér höfuðið. Ef við komumst ekki undan þessum skuldum með góðu, þá verður hér annað hvort landflótti eða bylting. Ég segi það fyrir mitt leyti, að ég er tilbúinn til að gera ýmislegt áður en ég læt flæma mig úr landi vegna þjónkunar við óreiðuauðvald.

Skuldirnar verða ekki borgaðar, það er nokkuð öruggt, jafnvel þótt við fegin vildum, þá gætum við það ekki. Það er ekki mögulegt. Það er ekki hægt að neyða okkur til þess, a.m.k. ekki án þess að loka landamærunum fyrst. Loka þeim s.s. fyrir Íslendingum sem vilja úr landi. Þetta verður ekki borgað, það á bara að lýsa því yfir strax og taka slaginn. Að öðrum kosti eigum við í það minnsta eina byltingu eftir.

No comments:

Post a Comment